Sloppin fyrir horn?

Nokkuð er síðan ég nöldraði hér yfir vindorkuverum og þeim hugmyndum um slík fyrirbrigði hér á landi. Nú skal örlítið bætt þar úr.

Vindorkuver í nágrannaríkjum okkar berjast nú í bökkum og stefna hraðbyr á hausinn. Metnaðarfullar áætlanir um stórkostlega uppbyggingu á risa vindorkuverum á hafi, hafa víðast verið lagðar niður. Ofaná þetta bætist síðan að nú eru vindorkuver farin að falla á tíma, eru orðin úrelt og búnaður slitinn.

Ástæðan fyrir lélegum rekstrargrundvelli vindorkuvera er auðvitað fyrst og fremst stuttur endingatími og tiltölulega umfangsmikill búnaður til framleiðslu hverrar orkueiningar, miðað við hefðbundin vatns, gas, kola eða kjarnorkuorkuver. Afskriftir þurfa því að fara fram á mjög stuttum tíma, sem gerir þennan orkukost mjög óhagkvæman. Því velja flest vindorkuver að setja sig í þrot þegar líða tekur að lokum. Til dæmis eiga Kínverjar stórann hlut í flestum vindorkuverum í Svíþjóð. Þar er stundað að láta þessi vindorkuver greiða háa vexti til móðurfélagsins. Eitt sinn kallaðist slíkt "hækkun í hafi" hér á landi og taldist lögbrot. Þetta tryggir hins vegar Kínverja frá því að kosta til dýrt niðurrif orkuveranna.

Annað atriði sem vegur þungt þegar kemur að óhagkvæmni vindorkuvera er að stundum blæs vindurinn en stundum velur hann að halda kyrru fyrir. Þar sem mesta vonin er að vindur haldi ferð sinni, eru gjarnan vinsælustu staðir til að setja niður vindorkuver. Því er svo komið að um norðanverða Evrópu er komin mikill skógur af vindtúrbínum, mis háum. Þegar blæs á þeim slóðum er því mikil orka framleidd, mun meiri en markaður er fyrir. Þá lækkar verð snarlega, þó við hér á Íslandi þættum það verð hátt. Svo aftur þegar vindur vill hvíla sig og halda kyrru fyrir, framleiða þessi vindorkuver litla sem enga orku. Þá hækkar orkuverð upp úr öllu valdi. Því er það svo að vindorkuverin framleiða orku þegar verð eru lægst en enga orku þegar verð er hæst! Ólíkt hefðbundnum orkuverum, sem framleiða jafna orku alltaf, sama hvernig viðrar.

Nú er svo komið að vindorkuver eru farin að komast á aldur, sum hver og fer þeim fjölgandi. Endingatími vindtúrbínu er talin vera allt að 25 ár, sem verður að teljast ansi skammur tími. Á þessum 25 árum fara a.m.k. tvenn sett af spöðum, jafnvel meira við sumar aðstæður. Oftast er það þó svo að þegar sett nr. tvö af spöðum hefur gufað út í loftið, í formi örplast, er ekki talið hagkvæmt að kosta til þriðja spaðasettið. Því er raun endingartími vindtúrbína styttri, jafnvel mun styttri þar sem álag á spaða er mikið, t.d. mikið ísaálag.

Fram til þessa hefur lítið verið gert til ábyrgðar vindorkuhafa um eyðingu úrgangs frá vindorkuverum. Nýlega hefur ESB þó samþykkt að 80% af úrgangi frá vindorkuverum skuli endurunnin. Hvernig það skuli gert er svo aftur annað mál. Endurvinnsla á spöðum vindtúrbína er nánast útilokuð, án enn meiri mengunar fyrir umhverfið. Einfaldast og sennilega besta lausnin er bara að urða spaðana, eins og gert hefur verið. Það er gott og gilt svo lengi sem nægt land er til. Reyndar má búast við að á einhverjum öldum muni spaðarnir eyðast upp í jörðinni. Hvort það verður í formi enn frekara örplasts eða einhverjum öðrum skaðlegum efnum, veit ég bara ekki. Hef hvergi fundið neitt um slíkt, þrátt fyrir víðtæka leit í netheimum. Því skal þó haldið til haga að eitt Bandarískt fyrirtæki gaf fyrir nokkru út að það tæki við slíkum spöðum til endurvinnslu. Þegar nánar var skoðað leifðu þeir listafólki að fá sér bita af spöðum til að búa til listaverk. Hin 99,999% gróf fyrirtækið í jörðu. Þjóðverjar hafa hins vegar valið aðra leið, efir tilskipunina. Þeir senda bara spaðana til Póllands og málið er dautt!

Það þarf engum blöðum um það að fletta að vindorkuver er mjög mengandi aðferð til raforkuframleiðslu. Fyrir utan augljósa sjónmengun og mengun við uppsetningu slíkra orkuvera, þá er mengun á rekstrartíma þeirra mjög mikil. Mikil þróun hefur orðið í framleiðslu vindtúrbína, en sú þróun er einungis á einn veg, uppávið. Lítil sem engin þróun er í búnaði, önnur en stækkun hans í samræmi við hækkun vindtúrbína og stærra vænghafs. Spaðar eru enn framleiddir úr trefjaplasti, enda fátt annað í boði og ekkert á skynsamlegu verði. Því eykst örplastmengun í sama hlutfalli og túrbínur stækka. SF6 gas er önnur mengun sem rakin er til vindorkuvera. Þetta gas hefur margfalt lengri endingartíma í andrúmslofti en t.d. co2, er talið jafn slæmt eða verra varðandi gróðurhúsaáhrif. Á þeim svæðum sem mest hefur verið byggt af vindorkuverum fer gildi þessa gas marktækt hækkandi og það beinlínis rakið til vindorkuvera. Fleira má telja sem mengunarvalda í rekstri vindorkuvera, læt nefna þriðja vandamálið sem virðist vera orðið mjög erfitt að komast hjá, en það eru olíulekar frá vindtúrbínum. Þessi olía mengar jarðveginn umhverfis túrbínurnar og mun smá saman síast út í jarðveginn. Þá verða vatnsból í hættu.

Fyrirsögnin á þessum pistli "Sloppin fyrir horn?" vísar auðvitað í það hvort við hér á landi séum sloppin fyrir horn í að fórna landinu undir vindorkuver. Hvort það nægi ráðamönnum að sjá að rekstrargrundvöllur fyrir rekstri slíkra orkuvera er ekki til staðar, jafnvel ekki þar sem orkuskortur er mikill og orkuverð hátt. Hvort ráðamenn séu loks farnir að átta sig á að vindorkan, í þeirri mynd sem hún er virkjuð í dag, er ekki umhverfisvæn, reyndar svo mengandi að jafnvel kolaorkuver mengar minna. Að vísu er lítil co2 mengun frá vindorkuverum en þess meira af mengun sem er enn verri og þekkist ekki frá kolaorkuveri. Ekki að ég sé að mælast til að slík orkuver verði bygg hér á landi, eigum enn næga vatns og hitaorku og þegar við komumst á þrot þar, má finna önnur minna mengandi orkuver en þau sem kynnt eru með kolum. Hugsanlega verður betri og minna mengandi aðferð þá komin til virkjunar vindsins.

Líklegast er þó, þar sem ráðherrar okkar, sumir hverjir, eiga beinan hag af því að vindorkuver verði reist hér á landi, muni staðreyndir skipta litlu máli fyrir þá. Að frekar verði unnið bakvið tjöldin að framgangi þess að fórna landinu undir vindorku. Að einn daginn sjáum við bara stóreflis vinnuvélar leggja hér vegi um fjöll og firnindi, svo reisa megi sem hæstu og flestu vindtúrbínurnar. Það fer enginn að reisa litlar og lágreistar vindtúrbínur, þegar hægt er að fá alvöru slík tól.

Því hærri því hagkvæmari, þar til allt hrynur!!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir fræðandi og þarfan pistil.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 9.12.2023 kl. 14:03

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Reynzlan er sú að íslendingar sjá að eitthvað virkar örugglega ekki, skilar tapi og jafnvel veldur tjóni frá því tilraunir hófust og þaðan í svona 10-15 ár, og hugsa: þetta er brilljant og við ættum að gera þetta líka.

Við erum venjulega bara 5 ár á eftir útlöndum með að gera mistök.

Ásgrímur Hartmannsson, 9.12.2023 kl. 14:10

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kærar þakkir fyrir þennan fróðleik

Ómar Ragnarsson, 9.12.2023 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband