Færsluflokkur: Bloggar

Lenging í hengingarólinni

Forstjóri SS boðar "methækkun" afurðaverðs til bænda í haust. Vissulega er þarna um mikla hækkun að ræða, ef mið er tekið af verðlagningu afurðaverðs undanfarin ár, en fjarri því að þetta muni bjarga bændastéttinni. Og að sjálfsögðu verður að þakka forstjóranum fyrir kjarkinn til að leiða þessa hækkun.

Ef skoðað er afurðaverð til bænda síðastliðin ár verður þó að telja þetta skammt gengið. 2016 lækkaði afurðaverð um 10% og ári síðar reið forstjóri SS á vaðið og boðaði 26% lækkun, sem reyndar endaði á bilinu 30-35% lækkun, hjá flestum afurðarstöðvum. Síðan þá hafa hækkanir á afurðaverði vart haldið í við verðbólgu. Bændur hafa því þurft að ganga á höfuðstól sinn, þegar hann var uppurinn urðu þeir að ganga á laun sín og að lokum var svo komið að bændur þurftu að leita sér vinnu utan búsins. Í dag er staðan sú að bændur þurfa að afla tekna utan bús til að hafa í sig og á og þurfa að vinna utan bús til að greiða niður kostnað við búin. Höfuðstóllinn er enn jafn tómur og áður. Þarna erum við að tala um ástandið eins og það var áður en Pútín réðst inn í Úkraínu, með tilheyrandi hækkunum á öllum aðföngum. Það er sér kapítuli.

Því er ástandið nú komið á það stig að fjöldi bænda mun leggja upp laupana í haust. Þar munu ungu bændurnir verða fyrstir til að flýja okið, en hinir eldri koma fljótlega á eftir. Heilu sveitirnar munu því leggjast í eyði og heilu kaupstaðirnir fylgja á eftir. Landið verður fátækara.

Úkraínustríðið flýtir þessu auðvitað. Hækkanir á öllum aðföngum hefur margfaldast. Svokallaður spretthópur var stofnaður og lagði hann til að 2.5 milljarðar yrðu settir inn í landbúnaðinn vegna þessa. Þetta er eingreiðsla, aðeins fyrir þetta ár. Hvað svo? Afleiðingar stríðsins eiga eftir að vara lengi, jafnvel þó hægt væri að ljúka því strax í dag. Þessir tveir og hálfur milljarður dugir skammt fyrir þær hækkanir sem þegar eru komnar, hvað þá framhaldinu! 

Því verður vart séð að metnaður stjórnvalda til að bjarga bændastéttinni sé mikill og ekki heldur séð að forstjóri SS geri ráð fyrir að fyrirtæki hans verði starfandi mikið lengur. Ef engir bændur eru, þá er heldur ekkert SS.

Vandi bændastéttarinnar er mikill. Of langt væri að telja hann allan upp en nefna má dæmi. Afurðaverð er langt undir því sem tíðkast í viðmiðunarlöndunum, svo munar um 80%. Það er auðvitað stærsti vandinn. Annað sem er svolítið undarlegt að kálfum sé slátrað nánast við fæðingu, engum til gagns, til þess eins að rýma fyrir innflutningi á erlendu kjöti á okkar örmarkað. Það er auðvitað galið og vart í anda þeirrar stefnu að minnka kolefnislosun! Svona mætti lengi telja, stjórnun og hugur stjórnmálastéttarinnar fer ekki saman.

Erlendis þykir sjálfsagt að bændur hafi laun sem hægt er að lifa af og engar deilur eru um það meðal þeirra þjóða. Þar þykir líka sjálfsagt að ríkið komi til hjálpar þegar áföll skella á, eins og stríð með öllum þeim afleiðingum sem því fylgir. Eftir fall Loðvíks 15 í Frakklandi, áttuðu stjórnmálamenn sig á því að fólk þarf mat, og eftir tvær heimstyrjaldir á síðustu öld áttuðu stjórnmálamenn sig á mikilvægi þess að hver þjóð væri sér sem mest sjálfbær í sinni matvælaframleiðslu. Erlendis býr stjórnmálastéttin enn að þessum vísdóm, meðan sú íslenska virðist sem fyrr, telja sig vita betur!

Þessar aðgerðir, spretthópsins og forstjórans, munu sjálfsagt leiða til þess að einhverjir bændur munu fresta brottför úr stéttinni, þá helst eldri skuldlausir bændur. En þetta er þó ekkert annað en lenging í hengingaról bændastéttarinnar. Landið mun leggjast í eyði að stórum hluta.


mbl.is SS boðar methækkun á afurðaverði til bænda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sáttin er grunn

Jæja, þá er farið að glitta í einhvern málefnasamning hinnar nýju borgarstjórnar. Reyndar erfitt að átta sig á því sem tilvonandi borgarstjórar tjá sig um, svo ólíkur sem málflutningur þeirra er. Varla traustvekjandi, svona á fyrsta degi hjónabandsins.

En hvað um það, förum aðeins yfir það sem Einar segir. Munum að hann talaði um miklar breytingar í kosningabaráttunni. Líklega hefur það gefið ófá atkvæði til Framsóknar.

Einar boðar 18 breytingar. Þó nefnir hann einungis þrjár þeirra, væntanlega þær mikilvægustu. Fyrst nefnir hann metnaðarfyllri áætlanir í byggingu íbúðahúsnæðis. Það hefur svo sem ekki skort metnaðinn í áætlanir á þessu sviði, hjá fyrrverandi meirihluta. Glærusýningar og annað útgefið efni um málið hefur flætt frá þeim yfir landsmenn síðustu tólf ár. Hins vegar hefur orðið minna úr framkvæmdum. Þarna er því ekki um neina breytingu að ræða, áætlanir eru svo sem góðar en það eru framkvæmdir sem telja.

Sundabraut er næst hjá hinum nýja verðandi borgarstjóra. Þar er svipað upp á borðum, borgarstjórn hefur í sjálfu sér aldrei hafnað Sundabraut, þó einstaka fulltrúar hafi ákveðnar skoðanir gegn henni. Reyndar skipulagði borgin íbúðabyggð á því svæði sem hagkvæmast hefði verið að leggja þessa braut, þannig að verkefnið mun kosta meira en ella. Reyndar er nýlegt samkomulag milli borgarinnar og stjórnvalda um þetta málefni í gildi og ekki séð annað en að verið sé að fylgja því. Það er því vart hægt að tala um að þarna sé um einhvern viðsnúning eða taktískar breytingar að ræða.

Og svo er það þriðja málið sem Einar nefnir, Vatnsmýri og flugvöllur. Þar er sama upp á teningnum og í Sundabrautarmálinu, nýlegt samkomulag um að flugvöllurinn verði enn um sinn og að ekki megi skerða öryggi hans með byggingum við hann. Því er ekki heldur nein breyting þarna.

Reyndar má lesa aðra frétt, þar sem talað er við Dag um málið. Hann snýr dæminu svolítið á annan veg. Fyrst skal byggt og síðan unnið með Isavia varðandi mótvægisaðgerðir vegna minna öryggis flugvallarins. Þarna greinir nokkuð á milli þeirra, tilvonandi borgarstjóranna. Misræmið í túlkun þeirra í þessu máli ber ekki merki um sátt milli þeirra.

Í öllu falli er ljóst að þær breytingar sem Framsókn lofaði höfuðborgarbúum og reyndar landsmönnum öllum, finnast varla.


mbl.is Byggja í Vatnsmýri ef það ógnar ekki flugöryggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svik og galdrar

Maður veltir því virkilega fyrir sér til hvers fólk mætir á kjörstað. Vilji kjósenda er ekki virtur.

Í síðustu tvennum sveitarstjórnarkosningum hefur meirihluti borgarstjórnar verið felldur af kjósendum, þó hefur Samfylking farið einna verst út úr þessum kosningum. Málflutningur þessa flokks virðist ekki eiga upp á pallborð kjósenda. Þrátt fyrir að fylgi Samfylkingar hafi fallið um þriðjung á þessum tíma, lafir flokkurinn í meirihluta, með hjálp annarra flokka. Eftir kosningarnar 2018 kom Viðreisn Samfylkingu til hjálpar og nú bætti sá flokkur enn betur og gekk í raun inn í hinn deyjandi flokk, með samkomulagi um að halda samstarfi áfram, hvað sem kjósendur segðu. Og í einfeldni sinni gekk Framsókn að þessum afarkjörum Viðreisnar. Þar með hefur Framsókn tryggt að dýrð þeirra mun ekki standa fram yfir næstu kosningar. Svikin við kjósendur eru algjör!

Framsókn vann vissulega stórsigur í Reykjavík. Kosningaloforðin voru í sjálfu sér loðin, meira horft til ímyndar en málefna, en þó stóð eitt kosningaloforð uppi sem einkennisorð Framsóknar; breytingar voru boðaðar. Kosningabandalag við Dag og hans fylgifólk mun tryggja að þetta eina kosningaloforð Framsóknar mun ekki standa, það verður einnig svikið. Svik við kjósendur er algjört!

Galdramenn eru þeir sem af snilligáfu sinni geta platað fólk til að sjá eitthvað annað en raunveruleikann. Platað fólk til að upplifa eitthvað allt annað en það í raun upplifir. Plata fólk til að trúa því ótrúanlega. Dagur er sannarlega einn slyngasti galdramaður Íslands.

Skoðum nú aðeins málefni og gerðir Samfylkingar, síðustu þrenn kjörtímabil. Vorið 2014 fékk flokkurinn 31% fylgi kjósenda, tími leikarans var liðinn og við tók tími galdramannsins. Fyrir þær kosningar var í sjálfu sér ekki mikið rætt um svokallaða borgarlínu og allt ruglið tengt henni. Flestir kjósendur töldu á þeim tímapunkti að hugmyndin væri svo afspyrnu fáránleg að hún yrði aldrei annað en hugmynd einhverra vitskertra. Strax að loknum kosningum var þó farið á fulla ferð í vinnu til að koma þessari hugmynd á koppinn. Byrjað var á að þrengja götur og gera einkabílnum erfiðara fyrir, unnið að framgangi málsins á bak við tjöldin, meðal annars innan landsstjórnar og löggjafans.  Svona gekk fram undir kosningarnar 2018. Í þeim kosningum felldu kjósendur þennan meirihluta, enda farnir að átta sig á að jafnvel þó hugmyndin um borgarlínu væri svo fráleitar sem mest mátti vera, auk þess sem kostnaður af henni væri eitthvað sem enginn vissi í raun, ætluðu vinstri menn, undir stjórn Dags, að koma henni í framkvæmd. Ætluðu sér að færa höfuðborg landsmanna aftur um heila öld í samgöngumálum. En þá kom Viðreisn til sögunnar og vilji kjósenda var hafður að engu.

Eftir að Dagur hafði verið reistur upp úr öskustónni, með hjálp Viðreisnar hófst enn eitt kjörtímabil skelfingar. Nú var fullum krafti hleypt í þessa afturhaldshugmynd vinstrimanna. Jafnvel tókst galdramanninum Degi að fífla stjórnvöld til liðs við sig, auðvitað með hálfkveðnum vísum. Þegar seinnihluti vísanna var kveðinn áttuðu stjórnvöld sig á að þau höfðu verið höfð af fíflum, en höfðu ekki kjark til að viðurkenna það. Því hafði Dagur tangarhald á þeim og tókst ekki bara að láta ríkissjóð opna opinn víxil fyrir þessum gerðum, heldur beinlínis kosta kosningabaráttu flokksins fyrir nýafstaðnar kosningar. Eftir sem áður höfnuðu kjósendur þessum meirihluta, enn og aftur. Fylgi Samfylkingar hafði nú minnkað um rúm 30%, í tvennum kosningum. Þá kemur Viðreisn til sögunnar. Af einhverjum ótrúlegum ástæðum komst fulltrúi flokksins að þeirri niðurstöðu að sinn flokkur, sem hafði tapað helmingi sinna borgarfulltrúa, bæri að vera í borgarstjórn og ekki aðeins það, heldur átti hennar flokkur að bjarga Degi enn og aftur.

Framsókn, sem hafði unnið stórsigur, hafði nú einungis tvo kosti eftir, að ganga til viðræðna við galdramanninn og hans slekti, eða stíga til baka. Flokkurinn valdi verri kostinn. Þegar þessir afarkostir Viðreisnar voru staðreynd átti Framsókn ekki að sætta sig við þá stöðu og draga sig til baka. Með þessari ákvörðun sinni skrifaði flokkurinn upp á hrun sitt í næstu kosningum. Kjósendur Framsóknar kusu þann flokk út á loforð um breytingar, ekki loforð um sama ástand áfram.

Hér hef ég einkum bent á borgarlínu sem óstjórn vinstri meirihlutans, enda það mál lang stærst í göldrum Dags. Það má líka benda á margt annað, eins og bragga og strá, pálmatré, Hlemm, hin ýmsu torg þar sem gras er rifið upp með rótum og hellur lagðar, óþrifnaður á gatnakerfi og landi borgarinnar, Sorpu og margt margt fleira í dúr óstjórnar. En borgarlínu fylgir sú skelfing að borgin er færð öld aftur í tíma. Ekki einungis er slíkur rekstur gamaldags og úreltur og kostnaður mikill, heldur á að neyða fólk til að nota hana með skipulagi byggðar. Farið er aftur til tíma sovéts í þeim málum og háhýsi byggð svo þétt að ekki nær sól til jarðar. Fá eða engin bílastæði eru ætluð íbúum eða gestum þeirra. Byggt er á dýrustu lóðum borgarinnar og rifin þar hús sem eru í ágætis standi og sum jafnvel mjög góðu standi. Þetta gerir kostnað bið byggingu íbúðahúsnæðis enn dýrara en ella og er þó nóg samt!

Bílaflotinn er að færast frá eldsneytisbílum yfir í rafbíla. Hér á landi er þessi breyting svo hröð að bílaframleiðendur hafa ekki undan. Bið eftir nýjum rafbílum er mikil. Því er ljóst að þessi þróun mun verða mun hraðari hér en víðast annarsstaðar. Einungis framboðið sem mun tefja. Þetta breytir þó ekki hugsanagangi vinstrimanna í höfuðborginni. Einkabíll er einkabíll og einkabíll er slæmur, að þeirra mati. Mengun skiptir þar engu máli. Þá skiptir engu máli hjá þessu fólki að Reykjavík er höfuðstaður Íslands. Þangað þurfa íbúar landsins að sækja ýmsa þjónustu, sem ekki er lengur til staða á landsbyggðinni. Það fólk þarf að komast um borgina. Hef reyndar oft velt fyrir mér hvers vegna allir kjósendur landsins hafi með það að gera hver stjórnar höfuðborginni okkar.

Það sem átti að vera stuttur pistill um svik við kjósendur er orðinn lengri en góðu hófi gegnir. Hitt er deginum ljósara að björgun Framsóknar á hinum fallna meirihluta eru stór svik við kjósendur. Framsókn á ekki roð í galdramanninn.


mbl.is Meirihlutasamningur BSPC í höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður skammast sín

Það er hreint með ólíkindum að enn skuli finnast fólk á Íslandi sem mærir voðaverk Pútíns í Úkraínu. Þar er gripið til ýmissa hrútskýringa, til að réttlæta þessi voðaverk.

Áhugi Úkraínu á að ganga í ESB er ein röksemdarfærslan. Hvað þarf Rússland að óttast þó Úkraína gangi í ESB? ESB er ekki hernaðarbandalag, einungis efnahagsbandalag. Þetta sést best á því að Finnar og Svíar, sem eru innan ESB, gera ekki ráð fyrir mikilli hjálp þaðan, þegar Pútín snýr sér að þeim. Því hafa þeir nú talað um að sækja um aðild að NATO.

NATO er varnarbandalag. Það hefur aldrei sýnt neina tilburði til innrásar í Rússland. Hins vegar hefur bandalagið horft til þess að setja upp sterkari varnir gegn því að Rússar geti ráðist inn í vestari hluta Evrópu. Þetta hafa menn gagnrýnt gegnum tíðina þannig að minna hefur orðið úr slíkum vörnum. Saga dagsins segir okkur þó að þessi vilji til aukinna varna er síst ofmetinn.

Flest Evrópuríki Varsjárbandalagsins sóttu um aðild að ESB við fall Sovéts og sum þeirra einnig um aðild að NATO. Úkraína varð eftir á þeim tíma, enda leppstjórn Rússa þar við völd framanaf. Þegar íbúum Úkraínu tókst að kasta þeirri leppstjórn af sér var farið að tala um aðild að ESB. Hugmyndir um aðild að NATO komu síðar. Þetta var kringum 2014 og svöruðu Rússar með því að innlima Krímskaga og senda málaliða sína inn í austurhéruð Úkraínu. Her Úkraínu tók til varna í austurhéruðunum en hefur látið Krímskagann vera. Áttu auðvitað að sækja þangað líka.

Því hafa Rússar og Úkraína nú átt í stríði í átta ár og árangur Rússa þar vægast sagt lítill. Í febrúar síðastliðinn gerði síðan Pútín alsherjarárás inn í Úkraínu.

Það eru fátækleg rök að Rússum hafi staðið hætta af því að Úkraína sækti um aðild að ESB og reynda einnig þó sótt væri um aðild að NATO. Ekki frekar en að Eystrasaltsríkin eru bæði í ESB og NATO. Rússum stóð engin ógn af því, en aftur gerði það möguleika Pútíns til að endurheimta gamla Sovétið nokkuð erfiðara fyrir, en það hefur verið markmið hans frá því honum voru færð völd yfir Rússlandi.

Enn aumari eru skýringar Pútíns, sem jafnvel sumir hér á landi taka undir, um að nauðsynlegt sé að afnasistavæða Úkraínu. Um það þarf ekki að hafa mörg orð, svo fádæma vitlaust sem það er.

Það sem kemur manni þó kannski mest á óvart í umræðunni hér á landi er að margir málsvarar Pútíns í stríðinu eru einmitt þeir sem hingað til hafa komið fram sem málsvarar frelsis. Þetta fólk, sumt hvert, er tilbúið til að trúa áróðursvél Pútíns, tilbúið til að trú manni sem setur ritskoðun í land sitt og skirrist ekki við að fangelsa þá sem fara á svig við þá ritskoðun. Þetta fólk hér á landi, sem þykist málsvarar frelsis, réttlætir með öllum hugsanlegum ráðum innrás Pútíns inn í Úkraínu, reynir að réttlæta ofbeldið sem þar viðhefst og viðbjóðinn. Það er með öllu útilokað að réttlæta innrás eins ríkis á annað.

Úkraína hefur ekki stundað hernað gegn Rússlandi, hefur einungis tekið til varna gegn málaliðum og hermönnum þeirra 2014 og varist allsherjarinnrás Rússa nú í vetur. Það er því aumt að til sé fólk hér á landi sem réttlætir ofbeldi Rússa.

Að mæla gagn þjóð sem ver sig gegn innrásarher er eitthvað það aumasta sem finnst í fari hvers manns! Maður skammast sín fyrir að til sé fólk hér á landi sem er þannig þenkjandi!


mbl.is Ógnarverk Rússa í Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki ég heldur

Ég skil ekki heldur hugmyndafræði Viðreisnar, reyndar ekki heldur hugmyndafræði VG, eða Pírata, eða Framsóknar, eða Samfylkingar, eða Sjálfstæðisflokks. Stefnumál þessara flokka er að vísu með örlítið mismunandi blæ, litlum þó, en verk þeirra algjörlega þau sömu. Þar er enginn munur á. Skil reyndar ekki hvers vegna þarna er um sex flokka að ræða, þegar þeir gætu hæglega sameinast í einn flokk. Og Sósíalistaflokkur gæti hæglega verið innan þess flokks.

Stjórnmálamenn allra þessara flokka sýna sömu fávitaeinkennin þegar þeir komast til valda og stjórnmálamenn allra þessara flokka eru jafn hundónýtir í stjórnarandstöðuhlutverkinu. Þar er enginn munur, ekki frekar en á verkum, eða öllu heldur verkleysi þeirra.

Það er sorglegt að hlusta á stjórnmálamenn tala til þjóðarinnar þessa dagana. Þar er enginn dugur né geta, einungis loforð sem vitað er að munu ekki standa, í flestum tilfellum loforð sem eru orðin svo slitin af kosninganotkun að þau hanga vart lengur saman. Smámálum hampað meðan stóru málunum er haldið í felum!

Svei þessu fólki öllu saman!

 


mbl.is Líf skilur ekki hugmyndafræði Viðreisnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pawel brugðið

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúa Viðreisnar er brugðið. Innviðaráðherra vill að borgin standi við gerðan samning. Það er nýlunda fyrir borgarfulltrúann, enda ráðherrar þessarar ríkisstjórnar og þeirrar síðustu, ekki verið að fetta fingur út í að borgin túlki samninga við ríkið eftir sínu höfði.

Megin málið er þó að borgarfulltrúinn bendir á samning frá 2013, máli sínu til stuðnings og gerir lítið úr samningi sem gerður var 2019. Það er þó kannski rétt fyrir borgarfulltrúann að átta sig á þeirri staðreynd að þegar tvennir samningar standast á, þá er það ætíð hinn nýrri sem tekur yfir þann eldri. Annað getur einfaldlega ekki gengið upp. Í samningnum frá 2013 var norður-suður brautin tryggð til ársins 2022, en í samningnum frá 2019 er hún tryggð þar til annar flugvöllur hefur verið byggður. Að öryggi vallarins verði ekki skert frekar en orðið er. Ekki mjög flókið.

Það er hins vegar rétt hjá borgarfulltrúanum, að hvorugur samningurinn fjallar um uppbyggingu borgarinnar á svæðinu, hvorki innan né utan flugvallar, enda varla þörf á að tíunda það. Það er fjallað um að öryggi flugvallarins skuli óskert og innviðauppbyggingu vegna starfsemi vallarins. Það ætti að duga. Ef rekstraraðili flugvallarins telur rekstraröryggi skert með uppbyggingu við flugbrautina, þá verður sú uppbygging auðvitað að bíða þar til rekstur vallarins hættir.

 


mbl.is Harður tónn ráðherra ekki í takt við sátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldir borgarbúa

Skuldir Reykjavíkurborgar eru komnar yfir 407 milljarða króna. Það segir að hvert mannsbarn í höfuðborginni skuldar um 3,3 milljónir króna, vegna óstjórnar borgarstjórnar. Það gerir um 13,2 milljónir króna á fjögurra manna fjölskyldu.

Það er gott að búa EKKI í Reykjavík.


mbl.is Segir rauðu ljósin loga hjá borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málfrelsi

Alla tíð hefur mér skilist að málfrelsi fælist í að allar skoðanir væru leifðar. Nú er víst komið nýtt málfrelsi, ritskoðað.

Fréttamenn ærast yfir því að Elon Musk skuli kaupa Tvitter, ekki vegna þess að einstaklingur skuli eignast þennan miðil, sem þó mætti gagnrýna, nei, heldur vegna þess að Musk hefur gefið út að málfrelsi muni verða aðalsmerki miðilsins, að allar skoðanir verði leyfðar. Það ofbýður fréttamönnum.

Þetta er nokkuð undarleg stefna fréttamanna, sem hingað til hafa talið réttlætanlegt að brjótast inn í skrifstofur, tölvukerfi og jafnvel íslenska síma, til að taka þaðan gögn. Þau gögn eru síðan notuð til að búa til fréttir. Skemmst er að minnast baráttu fyrir frelsi Asagne í þessu sambandi. Ekki ætla ég að fordæma þessar aðferðir, þó mér þyki þær ekki bera vott um heilbrigðan fréttaflutning. Í það minnsta er vart hægt að kalla þetta ritskoðað málfrelsi.

En þegar að öðrum kemur virðast fréttamenn eitthvað á öðru máli. Málflutning einstaklinga skal ritskoða, jafnvel þó engin lög séu brotin, einungis hugmyndir viðkomandi um menn og málefni.

Hvað er það sem fréttamenn óttast? Hvers vegna telja þeir sig einu handhafa sannleikans? Og kannski það sem mestu máli skiptir, hvað er falsfrétt?

Þegar einhver eða einhverjir telja sig þess megnuga að geta ráðið hvað málflutningur er réttur og hver rangur, erum við komin á nýjan og hættulegan stað í tilverunni!

 


mbl.is Blaðamenn fordæma yfirtöku Elon Musk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðapostular

Sala ríkisins á hlut úr Íslandsbanka hefur verið harðlega gagnrýnd og ekki að undra. Þar virðist allt hafa farið á versta veg, kannski ekki nein lög brotin en klárlega siðferðislegt skipbrot. Margir bera þar ábyrgð, þó auðvitað spjótin standi mest á þeim er falið var að gæta þessarar eignar kjósenda, fjármálaráðherra.

Það hafa margir siðapostular stigið fram vegna þessa máls, sumir halda sig við efnislega gagnrýni meðan aðrir nýta sér þetta til að upphefja sjálfa sig. Það er lítið minni ljóður, sér í lagi þegar viðkomandi voru í aðstöðu til að benda á ágallana á fyrri stigum. Voru jafnvel í fjárlaganefnd og gáfu þar sitt leyfi fyrir gjörningnum!

Meðal þeirra siðapostula sem hátt hafa látið vegna málsins er Kristrún Frostadóttir, vonarbiðill til formanns Samfylkingar. Það er nokkuð magnað hvað hún hefur verið iðin við að gagnrýna söluferlið og þann gróða er sumir gátu náð sér í gegnum það, á einni nóttu. Sjálf stundaði hún svipað peningaplott er hún starfaði hjá Kvikubanka, hagnaðist þar um marga tugi milljóna, nánast á einni nóttu. Vissulega var hún þá ekki þingmaður, heldur einungis fjármálamaður af hörðustu gerð. Nú situr hún á þingi og gagnrýnir aðra fyrir sömu sakir, Kristrún þingmaður situr í fjármálanefnd. Þar samþykkti hún að færa bankasýslunni það vald að selja hlut í Íslandsbanka, án athugasemdar.

Það má gagnrýna marga fyrir þessi óhæfuverk er sala á hlut ríkisins í bankanum var. Hellst ber að gagnrýna þá þingmenn er samþykktu söluna án viðeigandi leiðbeininga, núverandi fjármálanefnd fyrir að samþykkja söluna án þess að vita hvernig staðið yrði að henni, fjármálaráðherra og ríkisstjórn fyrir sömu sakir og svo auðvitað bankasýsluna sem telur sig geta hagað sér sem svín. Allt það fólk sem hér er nefnt ber ábyrgð á ósköpunum og ekkert af því hefur burði eða getu til gagnrýni, jafnvel þó verið sé að vinna sér prik til formanns í stjórnmálaflokki.

Í kjölfar bankahrunsins 2008 var gerð stór og efnismikil skýrsla um aðdraganda hrunsins. Þar var ein hellst niðurstaða sú að stjórnvöld og Alþingi hefði ekki sinnt eftirlitsskyldu sinnu. Þessi bankasala nú er skólabókardæmi þess að eftirlitsskyldan var vanrækt. Hafa stjórnmálamenn ekkert lært? Það eru vissulega nokkur ár liðin frá hruni, en það hlýtur að vera lágmarks krafa að þeir sem bjóða sig fram til starfa á þingi muni nokkur ár aftur í tímann!

Nú hafa stjórnvöld ákveðið að leggja niður bankasýsluna, vegna málsins og bankasýslan hefur viðrað að láta sína ráðgjafa gjalda sökina. Enginn á þó að bera sjáanlega ábyrgð og engum er ætlað að gjalda þjóðinni tapið. Siðapostularnir eru þó duglegir að pota sér áfram og aurapúkarnir blessa Mammon.

Það er einungis eitt í stöðunni, þingmenn verða að endurnýja umboð sitt frá þjóðinni. Þá ættu kjósendur aðeins að rifja upp það sem áður hefur farið fram á Alþingi, um þetta mál. Hvernig málflutningurinn var, hverjir stóðu mest á móti sölunni og hverjir voru áhugasamastir um hana. Hvaða aðrar leiðir var bent á til lausna málsins, hvernig þingmenn tóku í þá lausn og hvaða áhrif sú lausn hefði haft fyrir þjóðina. Þá er einnig hollt fyrir kjósendur að kynna sér og þekkja sögu þeirra sem bjóða sig fram til starfa á Alþingi, s.s. hvort þeir eru hluti þeirrar elítu sem skirrist ekki við að þiggja skjótfenginn gróða í fjármálafyrirtækjum, af því þeir hafa aðstöðu til þess. Það er svo sem lítið við því að segja þó fólk nýti sér sína aðstöðu til skjótfengins gróða, hjá einkafyrirtækjum, en slíkt fólk á ekki erindi á Alþingi og getur síst allra gagnrýnt aðra fyrir sömu sakir!


mbl.is Kristrún telur spillingu mögulega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankarán og pólitískt nef

Í skjóli nætur var stór hluti eigna ríkisins í Íslandsbanka seldur. Hvernig staðið var að sölunni hefur verið gagnrýnt. Þar eru tvö atriði sem standa uppúr, verðlagningin á hlutabréfunum og val á kaupendum. Nú vilja sumir ráðherrar þvo hendur sínar af þessum gjörning. Vandséð er hvernig þeim mun takast sá þvottur. Ekki er hægt að sjá lagaleg rök fyrir því a' láta gjörninginn ganga til baka, enda sumir "fagfjárfestar" þegar búnir að leysa út sinn hagnað af kaupunum, með því að selja bréfin þriðja aðila.

Í fyrstu minnti þessi gjörningur bankasýslunnar nokkuð á árin fyrir hrun, en þegar fjármálaráðherra, í trássi við bankasýsluna, opinberaði kaupendahópinn rak mann bókstaflega í rogastans. Þarna voru samankomnir fyrrum bankaræningjar landsins, er settu landið bókstaflega á hausinn fyrir einum og hálfum áratug. Menn sem höfðu og hafa sjálfsagt enn, ítök í flesta stjórnmálaflokka landsins. Þar eru fáir undantaldir, þó almenningur vilji gjarnan spyrða Sjálfstæðisflokk við þessa menn. Þá má alveg minna á að einn helst andstæðingur þess flokks, til áratuga, var einn af afkastameiri bankaræningjum fyrir hrun og hans nafn poppar upp á þessum lista yfir kaupin nú.

En aftur að sjálfri sölunni. Þegar Alþingi samþykkti sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka voru leiðbeiningar þingsins vægast sagt litlar. Þó voru umræður nokkrar um málið, en á endanum var fjármálaráðherra nánast falið einræði um hvernig að þessu skyldi staðið. Nokkuð hefur vafist fyrir ráðherranum aðferðarfræðin, fyrst vegna þess að talið var of nærri kosningum til að framkvæma verkið, flokkur hans gæti misst atkvæði. Síðan eftir kosningar og BB var áfram fjármálaráðherra, fór hann að hreifa málinu. Strax kom í ljós að hvorki þingið né þjóðin var á því að selja strax. Ekkert lægi á auk þess sem ekki væri ljóst hvernig standa ætti að sölunni.

BB var þarna kominn í vanda. Mjög var legið á honum að koma málinu af stað, af þeim sem sáu sér þarna leik á borði. Þá var bankasýslan mjög áfjáð í að klára málið. Leikmaður veit auðvitað ekki hvað fram fer á fundum ríkisstjórnarinnar en ljóst er að þar var ekki eining um söluna, jafnvel þó hún hafi verið ítrekuð í stjórnarsáttmálanum. Því fóru að heyrast frá ráðherra ýmsar skýringar um hvernig standa skildi að þessari sölu. Í fyrsta lagi átti að bjóða hlutabréfin út, í öðru lagi var fallið frá dreifðri eignaraðild og velja skyldi svokallaða fagfjárfesta til kaupanna, fjárfesta sem væru að hugsa um kaupin til lengri tíma. 

Fjármálaráðherra tók síðan af skarið og fól bankasýslunni að hefja undirbúning sölunnar. Lítið heyrðist um tíma af málinu, en svo bárust óvæntar fregnir af því að salan hefði farið fram, á einni nóttu. Seldur hafði verið 22,5% af heildareign bankans og að verðið var 117 krónur á hlut, nokkuð undir markaðsverði. Strax þarna varð ljóst að eitthvað var ekki að ganga upp í þessu dæmi. Að hægt skuli vera að selja 22,5% í banka á einni nóttu er útaf fyrir sig ótrúlegt. Þá var einnig séð að um töluvert undirverð var að ræða. 

Upphófst nú mikil gagnrýni á söluna, réttilega. Ekki einungis að verðið væri undir markaðsverði, heldur reyndist útilokað að fá að vita hverjir kaupendur voru. Þegar svo BB ákvað að opinbera lista yfir kaupendur, í trássi við bankasýsluna, var eins og þyrmdi yfir mann. Þarna voru helstu aðalleikarar hrunsins komnir, ljóslifandi. Það fyrsta sem manni datt í hug hvað það væri sem skilgreindi fagfjárfesti frá öðrum fjárfestum. Er skilyrði að fjárfestir þurfi að svíkja, stela, vera dæmdur um fjársvik eða eitthvað í þeim dúr til að geta kallast fagfjárfestir? Eða er kannski bara nóg að vera "vinur" réttra aðila? Á listanum voru menn sem höfðu fengið dóma fyrir fjársvik og jafnvel voru þarna menn sem enn eru í meðferð dómstóla! 

Í viðtali við fjölmiðla hélt starfsmaður bankasýslunnar því fram að ekki hefði komið krafa frá ráðherra um að kanna hvort bjóðendur væru heiðarlegir, eða hvort þeir hefðu gerst brotlegir við lög. Hvers konar fáviska er þetta hjá manninum?! Í hvaða heimi býr slíkt fólk sem lætur þannig orð frá sér? Bankasýslunni er falið að selja eign landsmanna, upp á upphæð sem almenningur á erfitt með að setja í samhengi og stofnunin telur sig ekki þurfa að kanna bakgrunn kaupenda! 

Öll atburðarás þessarar sölu er hrein skelfing. Þetta er í þriðja sinn sem ríkið selur banka sína og klárlega sú allra skelfilegust, sér í lagi vegna þess að við höfum söguna til að leiðbeina okkur. 

Ef við greinum þetta örlítið, út frá því sem ráðherra sagði fyrir söluna. Hlutur ríkisins er boðin út. Þegar eitthvað er boðið út mætti ætla að tilvonandi kaupendur bjóði í hlutinn og sá sem hæst býður hljóti hnossið, svo fremi hann uppfylli kröfur til kaupenda. Þarna ákveður hins vegar seljandi verðið fyrirfram og að auki setur það lægra en markaðsvirði. Þetta er því ekki útboð heldur bein sala. Í öðru lagi talaði ráðherra um að valdir yrðu fagfjárfestar, að það myndi tryggja langa eigu þeirra í bankanum. Þegar listinn var opinberaður kom hins vegar í ljós að yfir 40% sölunnar féll til einkafjárfesta. Lífeyrissjóðir, verðbréfasjóðir og erlendir langtímasjóðir, allt sjóðir sem reikna má með að séu að fjárfestar til lengri tíma, fengu einungis tæp 60%. Síðan hefur komið í ljós að innan þess hóps sem kallast erlendir langtímasjóðir, eru bara alls ekki neinir langtímasjóðir, heldir sjóðir sem spila spákaupmennsku frá degi til dags. Því má ætla að langtímafjárfestar í þessu útboði séu mun færri en ætlað er, jafnvel undir 50%. Þá hefur einnig komið í ljós að margir þeirra einkafjárfesta er kauptu í bankanum hafa þegar tekið út sinn hagnað af sölunni. 

Það sem þó kemur mest á óvart varðandi þessa sölu í bankanum, er hversu pólitískt nef fjárnálaráðherra er gjörsamlega kol stíflað. Það hefur legið fyrir lengi að lítil sátt er um sölu á eignum ríkisins í bönkunum. Þar kennir sagan okkur. Því var sölunni frestað á síðasta kjörtímabili, taldist of skammt til kosninga til að offra þannig atkvæðaveiðum. Nú eru einungis örfáar vikur til næstu kosninga. BB hefði mátt vita að salan yrði gagnrýnd, jafnvel þó sú skelfing sem nú blasir við hefði ekki orðið. Því er með ólíkindum að hann skuli færa vinstriöflunum þetta beitta vopn, skömmu fyrir borgarstjórnarkosningar. Dagur hlýtur að kætast.

Það er ljóst að Íslandsbanka var rænt. Þar ber bankasýslan auðvitað stærstu ábyrgð. Framkvæmdin var þeirra og fjarri því sem um var rætt af yfirmanni þeirra, fjármálaráðherra. Auk þess sem bankasýslan hleypir inn í söluna dæmdum fjárglæframönnum, jafnvel mönnum sem enn eru í meðferð dómstóla. Fjármálaráðherra ber einnig mikla ábyrgð. Hann stóð ekki vaktina fyrir þjóðina, eins og honum ber. Hann virðist ekki hafa farið yfir málið áður en hann gaf bankasýslunni vald til að rita undir söluna. Reyndar vandséð að ráðherra hafi heimild til að útdeila slíku valdi til embættismanna. Ráðherra hlýtur að þurfa að rita eigin hendi undir sölu eigna ríkisins upp á tugi milljarða króna. 

Aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar bera sömu ábyrgð og fjárnálaráðherra. Þeir geta gasprað, en ábyrgðina bera þeir.

Það er gott að vera bara fávís kjósandi. Að þurfa enga ábyrgð að bera á því að sumum sé hyglað -- nema auðvitað að borga fyrir herlegheitin! 

 


mbl.is Óeining í ríkisstjórn um bankasölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband