Færsluflokkur: Bloggar

Að flækja fyrirsjáanleikann

Umhverfis- orku og loftlagsráðherra (nokkuð dýr titill) telur að auka þurfi fyrirsjáanleik í kaupum á rafbílum. Fyrirsjáanleikinn var hins vegar nokkuð skýr, allt fram undir síðastliðið vor. Ívilnanir voru miðaðar við kaup á fyrstu 15.000 bílunum, en áttu síðan að leggjast af. Þetta vafðist ekki fyrir neinum og fyrirsjáanleikinn mjög skýr. En á vordögum ákvað ríkisstjórnin, eftir kröfum innflytjenda bílanna, að hækka þetta mark í 20.000 bíla. Þar með var fyrirsjáanleikinn horfinn út í veður og vind. Og enn ætlar ráðherrann með langa titilinn að auka á flækjustigið. Nú með hálfkveðnum vísum um nýjar ívilnanir til kaupa á rafbílum. Ekkert kemur þó fram í hverju þær ívilnanir liggja. Hann flækir bara fyrirsjáanleikann.

Við Íslendingar erum einstaklega nýjungagjarnt fólk. Þurfum alltaf að versla það nýjasta sem kemur á markaðinn. Því er næsta víst að jafnvel þó engar ívilnanir hefðu komið til og jafnvel þó eigendur rafbíla hefðu frá upphafi þurft að greiða sinn hluta til vegakerfisins, væri rafbílaeign lítið minni en hún er í dag. Það þurfti engar skattaívilnanir til að þjóðin færi á kostum þegar flatskjáir komu fyrst á markað. Snjallsímavæðingin hér á landi hefur tekist með ágætum þó engar skattaívilnanir komi til. Nú er hvert mannsbarn frá grunnskólaaldri með slík tæki í vasanum og flestir eru með dýrustu og nýjustu símana hverju sinni. Efnahagur skiptir þar litlu, snjallsíminn er látinn ganga fyrir öðrum nauðsynjum.

Megin ástæða þess að ekki eru fleiri rafbílar hér á landi er ekki skattaívilnanir. Ástæðan er að framleiðendur hafa ekki undan að framleiða rafbíla. Innflytjendur fá ekki nægt magn til landsins. Fleiri mánaða bið er eftir slíkum bílum hjá flestum umboðum. Þarna skipta skattaívilnanir minnstu máli.

Staðreyndin er sú að kaupendur rafbíla eru fyrst og fremst þeir er betur hafa það. Hástéttin og millistéttin. Hástéttin þarf ekki ívilnanir og millistéttin sem slíka bíla verslar, tekur bara hærra lán í bönkunum, enda þeir einstaklega viljugir til að lána til slíkra kaupa. Þeir sem minnst hafa milli handanna verða hins vegar að aka áfram á eldsneytisbílum. Það fólk hefur ekki efni á að nýta sér þessar skattaívilnanir. Hins vegar lendir á því fólki auknir skattar svo hægt sé að niðurgreiða bílana fyrir hástéttina!

 


mbl.is Boðar nýjar ívilnanir vegna rafbíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er betra að vakna og pissa en...

Það er betra að vakna og pissa en pissa og vakna. Stjórnmálamenn í Noregi eru nú vaknaðir við þá ónotatilfinningu að hafa migið undir, meðan þeir íslensku liggja enn í hlandi sínu.

Orkupakki 3 frá ESB, sem EES löndum var ætlað að samþykkja, fékk mikla gagnrýni. Lærðir menn með þekkingu á málinu, vöruðu eindregið þjóðþingin við að samþykkja þennan orkupakka, bentu á að sjálfræði þjóðanna yrði skert verulega varðandi orkumál. Nú hefur þetta sannast í Noregi, en enn erum við ótengd meginlandinu, þó sumir sjái þar einhverjar ofsýnir. Íslenskir stjórnmálamenn láta sig enn dreyma, liggjandi í hlandi sínu!

Vissulega er það svo að ríkin eiga enn sínar orkulindir og dreifikerfi. Noregur á m.a.s. strengina er tengja landið við meginland Evrópu. Það dugir þó ekki til, því Noregur ræður ekki lengur hvert né hversu mikla orku skuli selja. Þar er undirstofnun ESB, ACER með öll völd. Í þeirri orkukrísu sem skollin er á meginlandinu og menn vilja kenna við stríðið í Úkraínu, þó auðvitað hún stafi fyrt og fremst af rangri orkustefnu ESB, hefur sambandið nýtt þessa undirstofnun sína til að totta eins mikla orku frá Noregi og hugsast getur. Ástandið í Noregi er því orðið vægast sagt skelfilegt. Verð á orkunni hefur tífaldast og það sem skelfir þó meira er að Noregur er að fara inn í veturinn með hálf tóm miðlunarlónin. Það stefnir því í mikinn orkuskort er líður á veturinn og eina leiðin fyrir þá verður að kaupa orku af sveltandi orkumarkaði meginlandsins. Eitthvað mun sú orka kosta! Ekki víst að norski olíusjóðurinn dugi þá lengi til niðurgreiðslna á raforkunni.

Enn sleppum við hér á landi. Það eru þó vissulega blikur á lofti. Einkum er tvennt sem gæti breytt þessari stöðu okkar og orkuverð hér farið í hæstu hæðir. Fyrst er auðvitað að nefna sæstreng til meginlandsins, en enn eru menn að halda þeirri hugmynd uppi hér á landi. Afstaða ESB í því máli er skýr, enda slíkur sæstrengur inn í þeirra plönum og verið lengi.

Hitt atriðið er aðild Íslands að ESB. Síðast í dag voru nokkrir stjórnmálaflokkar að boða inngöngu í sambandið. Þeir fara auðvitað öðrum orðum að þeirri tillögu sinni, vilja "skoða samning" og velja svo. Það er eins og þetta fólk sé ekki með öllum mjalla. Það er ekki um neinn samning að ræða, einungis hversu hratt og vel okkur tekst að aðlaga okkur að lögum og reglum ESB. Þáverandi utanríkisráðherra var minntur rækilega á þetta á fréttamannafundi með Stefáni Fule, eins og sést í þessu myndbandi. Það eru engar undanþágur frá lögum og reglum ESB. Fyrir samþykkt Lissabonsamningsins var hægt að fá frest á aðlögun minniháttar mála, en þó einungis til skamms tíma. Eftir að hann tók gildi, í byrjun desember árið 2010, var slíkum frestum úthýst.

Viðræður um aðild eru því einungis um hversu vel gengur að aðlagast hverjum kafla þeirra og að lokinni aðlögun er viðkomandi kafla lokað með samþykki viðræðunefndar ESB. Eftir að aðlögun allra kafla er lokið og þeir samþykktir af sambandinu, fara þeir til samþykktar allra aðildarþjóðanna. Eftir samþykkt þeirra er umsóknarland hæft til aðildar í ESB, enda búið að aðlaga stjórnkerfið, lögin og reglurnar, að fullu að lögum og reglum ESB. Þessa aðferðarfæði er svo oft búið að segja að allir landsmenn ættu að þekkja hana. Það er ekki verið að semja um eitt né neitt, einungis að uppfylla kröfur sambandsins til aðildar.

Hitt liggur ljóst fyrir að ef landráðamönnum tekst það ætlunarverk að koma landinu undir stjórn ESB, þurfum við ekki lengur að spá neitt í orkumál hér á landi, né neitt annað. Þá mun hver einasta lækjarspræna verða virkjuð, allir hverir landsins beislaðir og vindmilluófreskjur reistar á hverjum hól! Og öll orkan flutt með sæstrengjum til meginlandsins.


Hausar fjúka

Það verður ekki annað sagt en að Pútín er duglegur að losa sig við andstæðinga sína, jafnt innan sem utan landamæranna. Minnir nokkuð á ástandið í Rússlandi á árunum fyrir seinni heimstyrjöldina, þegar Stalín lét sem mest að sér kveða innan eigin landamæra. Geðveikin hjá honum var slík að þegar Þjóðverjar réðust inn í Rússland var Stalín búinn að farga flestum reyndum herforingjum sínum og stóð uppi með höfuðlausan her.

Pútín hefur einnig verið duglegur að farga sínum herforingjum, en virðist þó leggja meiri áherslu á að losa sig við þá sem gætu ógnað honum á viðskiptasviðinu. Í dag eru það jú peningar sem stjórna.

Annars þyrfti sá fréttamaður er skrifar viðhengda frétt aðeins að rifja upp stærðfræðikunnáttu sína. Hann segir Nosov hafa fallið í febrúar síðastliðinn, 41 árs að aldri, fæddan 1978?!


mbl.is Fannst látinn á eyju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lofa skal það sem gott er

Lofa skal það sem gott er og lasta það slæma. Nú hefur fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár litið dagsljósið. Sem von er eru stjórnvöld dugleg til að mæra frumvarpið meðan andstaðan lastar það. Því ekki nema eitt í stöðunni, að þvælast í gegnum þetta hundleiðinlega rit fjármálaráðuneytisins.

Fyrst skal lofa það sem gott er í frumvarpinu, enda mun fljótlegra en hitt. Kílómetragjald í stað eldsneytisgjalds er auðvitað stórt skref til bóta. Vandinn er þó að svo virðist sem eigi að leggja á kílómetragjald á alla bíla en sjá til með hvenær eldsneytisgjaldið verður tekið af. Hvenær er svo aftur hulin ráðgáta.

Fækkun ríkisstofnana er annað þjóðþrifamál. Þar skiptir þó mestu máli hvernig að hlutum verður staðið. Ef ætlunin er að gera það eitt að sameina stofnanir og gera þær enn stærri og afkastaminni en nú er, er betra heima setið en af stað farið. En auðvitað er þetta svo sem ekki ný hugmynd, sennilegast eitthvert ofnotaða loforð sjálfstæðisflokks frá upphafi, sem þeim hefur aldrei tekist að standa við.

Þriðja málið sem þakka má úr þessu frumvarpi er að þar er notast við rétta verðbólgumælingu, þ.e. samræmda mælingu. Ekki notuð sér íslenska mælingin sem Seðlabankinn vill notast við. Þetta er kannski viðurkenning á að hér skuli breyta viðmiðum í mælingu verðbólgunnar.

Þá er komið að hinu sem má lasta. Reyndar verður að segjast eins og er að þetta frumvarp ráðherrans er eitt allsherjar flopp. Samdráttur á flestum sviðum, en þó sýnu mestur á þá sem minna mega sín. Skattheimta er aukin og sama er þar upp á borðum, mest hjá þeim sem minna mega sín. Það sem þó kemur kannski mest á óvart er að aukin skattheimta, en hún hefur sjaldnast skilað auknum tekjum í ríkissjóð. Þetta hefur flokkur fjármálaráðherra predikað í áratugi.

Hef áður minnst á aukinn skatt á bíleigendur. Þeir sem minna hafa milli handanna munu mest finna fyrir þeim skattauka. Hinir fjáðu, sem efni hafa á að aka nýjum rafbílum munar litið um að þurfa að koma að borðinu við viðhald og endurbyggingu vegakerfisins. Hinir minna fjáðu, sem ekki hafa efni á rafbíl, en hafa þurft að standa undir kostnaði við vegahaldið, munu þurfa að auka þann kostnað enn frekar. Auðvitað er það svo að hluti bíleigenda þarf í raun ekki að eiga og reka bíl, þ.e. þeir sem búa við þann lúxus að hafa aðgengi að almenningssamgöngum. En hinir, landsbyggðabúar, búa ekki við slíkan lúxus og verða að eiga bíl. Það fólk þarf að sækja sér alla þjónustu, gjarnan um langan veg, hverju nafni sem slík þjónusta nefnist. Umferð mun minnka við þessa auknu skatta og ekki víst að auknar tekjur ríkissjóðs muni skila sér. Þá mun þessi aukning skattheimtu leiða til hækkandi flutningskostnaðar og hærra vöruverðs. Hvar eru landsbyggðaþingmennirnir?

Allar rannsóknir verða skornar niður, hvort heldur er í tengslum við sjávarútveg eða annað. Þessar rannsóknir skila þó flestar miklum tekjum í ríkissjóð og nefni ég sem dæmi rannsóknir á losun co2 úr jarðvegi. Þar er fullt tilefni til stór aukinna rannsókna, enda gætu rauntölur þar skilað mikilli minnkun á losun okkar, miðað við núverandi áætlun. Fleiri rannsóknir má nefna, en staðreyndin er sú að rannsóknir leiða til þekkingar og þekking skilar auði.

Einn stærsti einstaki tekjuliður til hækkunar frumvarpsins er virðisaukaskattur. Þar eiga tekjur að aukast um heil 20%, án þess að breyta tekjustofninum. Þetta á að koma til af aukinni neyslu landsmanna. Þessi tekjuaukning á að gefa ríkisjóð alls 67 milljarða króna. Það þarf vart snilling til að átta sig á að þarna er verulega ofmetin geta landsmanna, á tímum samdráttar. Minnir óneitanlega nokkuð á þá hagfræði sem stunduð var hér á landi fyrir hrun.

Fyrirhuguð sala á Íslandsbanka er eitt af tekjuliðum frumvarpsins. Þar er áætlað að ríkissjóður muni ná inn nærri 76 milljörðum króna. Með þessari sölu næst að minnka halla ríkisins úr 132.4 milljörðum niður í 56.6 milljarða. Þetta eru einskiptis tekjur. Um þessa sölu er vægast sagt skiptar skoðanir, ekki síst vegna þess hvernig til tókst síðast er hlutur úr bankanum var seldur. Það er því ekki víst að sátt verði um söluna og jafnvel þó hana mætti mynda, þarf jú kaupanda. Ástandið í heiminum í dag er ekki beint heppilegt til bankasölu.

Í krónutölum munu framlög til heilbrigðismála hækka, en það á þó ekki við um þjónustu aldraðra eða öryrkja. Þar munu framlög lækka í krónutölu, til viðbótar við verðbólgu. Þó liggur vandinn einmitt á þeim slóðum. Vanda sjúkrahúsa má að stórum hluta rekja til þess að ekkert úrræði er fyrir þá sem ekki geta lengur hugsað um sig sjálfir. Lenda á spítölum vegna þess að ekki er til pláss á sjúkraheimilum fyrir aldraða. Þá er ljóst að meðan málaflokkurinn í heild sér fær færri krónur en fyrir ári, munu tekjur þess fólk sem fá greiðslur frá ríkinu ekki geta haldist í við verðbólguna og voru þær nógu litlar fyrir.

Lengi mætti halda áfram að þylja upp vankanta fjárlagafrumvarpsins. Rauði þráðurinn er þó sá að útgjöldin ýmist standa í stað, þó oftast lægri, í krónutölum, meðan tekjur eru áætlaðar ríflegar. M.a. með aukinni skattheimtu en einnig ofmati á tekjum. Að tekjum skuli haldið við eða ofan verðbólgunnar meðan gjöldin lækka verulega, eru langt undir verðbólgu.

Þetta er verðbólguaukandi fjárlagafrumvarp.

 


mbl.is Stóra breytingin verður kílómetragjaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vetur

Nú síðustu daga hefur verið óvenju hlýtt hér á suð-vestur horni landsins. Hiti jafnvel skriðið upp undir 20 gráðurnar á stöku stöðum. Þetta er vissulega ánægjulegur sumarauki, eftir einstaklega kalt og leiðinlegt sumar, þar sem tveggja stafa tala á hitamælinum var fátíð og skýjahulan náði oftar en ekki til jarðar og var þaulsetin.

En nú eru breytingar. Lauf trjánna er farið að skipta litum, sannindi þess að sumri er farið að halla. Og nú í kvöld líkur sumrinu endanlega og vetur tekur völdin. Boðberi vetrar, kulda og eymdar, Gísli Marteinn kominn á skjá landsmanna, enn eitt árið. Þá verður ekki lengur um villst, veturinn leggst með þunga yfir land og þjóð.

En það er hins vegar gott hversu vel með á nótunum RUV "okkar allra" er og hversu vel þeir fóðra okkur á helstu og mestu fréttum heimsins hverju sinni. Fyrir tveim dögum sögðu þeir okkur frétt af mexíkóskri mær, sem nú býr í borg englanna í Bidenlandi, þar sem sumarið er allt árið. Mær þessi kallar sig Mapamota, stundar þar lögbrot hverja nóttu og þykir takast það með eindæmum vel. Það fer um mann hrollur að hugsa til þess að kannski hefði maður misst af þessari stórfrétt. En þökk sé RUV, sem stendur ætíð vaktina fyrir okkur, fylgist með facebook og tinder svo þjóðin fái nú örugglega nýjustu og "áreiðanlegustu" fréttir, hverju sinni.


Tap á tap ofan

Fargjaldatekjur og rekstrargjöld haldast í hendur en þó er sögulegt tap á rekstrinum. Hvað veldur?

Rekstur Strætó hefur verið rekinn með tapi frá því ég man eftir, mismiklu en nú hefur verið sett nýtt met. -600 milljónir í kassanum. Þetta þýðir að á hvern íbúa höfuðborgarsvæðisins, sem nýtir sér þjónustu Strætó, vantar 62.500 krónur í kassann!

Svo ætla eigendur Strætó að koma á einhverri borgarlínu, telja að það muni fjölga farþegum úr um 4% í 12%. Þetta er galið. Meðan ekki er hægt að reka núverandi þjónustu fyrir ofan núllið er tómt mál að tala um að kasta tugum eða hundruðum milljarða króna í það eitt að efla vandann!

 


mbl.is Strætó tapaði 600 milljónum á hálfu ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tommustokkur Seðlabankans

Nýjasta útspil Seðlabankans er sem bensín á eld komandi kjarabaráttu. Hækkun stýrivaxta kemur launafólki verst, en bankarnir fitna enn meira. Það er fátt sem skerðir laun hins almenna borgara meira en hækkun stýrivaxta.

Verðbólga hér á landi er ekki svo há, ekki ef notaður er sami tommustokkur og löndin sem við viljum bera okkur samanvið nota. Mælt með þeim tommustokk er verðbólga á Íslandi ekki nema 6,4%, eða sú næst lægsta í gjörvallri Evrópu, einungis Sviss með lægri verðbólgu. Meðal verðbólga ríkja ESB, mælt með þessum sama tommustokk, er 9,8%. Hins vegar er til önnur verðbólgumæling hér á landi, aðferð sem hvergi annarstaðar þekkist. Samkvæmt henni mælist verðbólga hér 9,9%, eða 3,5% hærri en raunveruleg verðbólga og 0,01% hærri en meðaltalsverðbólga ESB ríkja. Ástæða þessarar aðferðar, til verðbólgumælingar hér á landi, er að til langs tíma voru nærri öll lán til húsnæðiskaupa tengd þessari mælingu. Nú hin síðari ár hefur fólk átt kost á óverðtryggðum lán til slíkra kaupa, en þá eru vextir gjarnan fljótandi, þ.e. fylgja breytingum á stýrivöxtum Seðlabankans. Þetta tryggir bankana og því ekki undarlegt að hagnaður þeirra sé ævintýralegur.

Nánast öll þessi 6,4% raunverðbólga sem er hér á landi skapast vegna hærri aðkaupa til landsins, sem eins og allir vita skapast af stríðinu í Úkraínu en þó mest vegna sjálfskipaðs orkuskorts í Evrópu, sökum rangrar orkustefnu ESB. Einhver smáhluti þessarar verðbólgu er sökum þess að fólk hefur verið að nota sparnað sinn til eigin nota. Hin 3,5% sem eru heimatilbúin í Svörtuloftum, koma til vegna skorts á íbúðahúsnæði.

Hækkun stýrivaxta mun því lítið gagnast til að lækka verðbólguna hjá okkur. Hærri vextir hér munu ekki slá á verð á vörum erlendis, hærri vextir hér hafa lítið að segja gegn því að fólk noti sinn sparnað til eigin not og kannski það mikilvægasta í þessu öllu, hærri vextir hér á landi munu ekki leiða til þess að stórkostlegur skortur á húsnæði leysist.

En bankarnir fitna sem aldrei fyrr og launafólkinu blæðir. Það er stutt í að við förum að heyra sögur af fólki sem borið er út á götu, í boði bankanna. Sömu sögur og þær sem voru svo átakanlegar í kjölfar Hrunsins.

 

Hvers vegna í ósköpunum má ekki nota sömu mælistiku á verðbólguna hér á landi og notuð er allstaðar annarsstaðar. Af hverju þarf að búa til einhvern sér íslenskan mælistokk til þessarar mælingar!


mbl.is Hvers virði eiga krónurnar að vera?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk nálykt

Nú hefur Skipulagsstofnun og ráðherra innanríkismála staðfest breytingu á skipulagi lands, svo byggja megi vindorkuver hér á landi. Þetta er fyrsta alvöru breytingin sem á sér stað hér á landi, þar sem um er að ræða risa vindmillur. Áður hafa verið reistar tvær smá vindmillur á svokölluðu Hafi, norðan Búrfellsvirkjunar og tvær minni við Þykkvabæ, sem ekki hafa verið starfandi um nokkuð skeið. Einstaka enn minni vindmillur hafa síðan einstaklingar reyst í sínu landi, sem flestar eru orðnar óstarfhæfar.

Það er því um að ræða stóran atburð fyrir land og þjóð, þegar Skipulagsstofnun og innviðaráðherra samþykkja breytta notkun land, til hjálpar erlendum aðilum að koma hér upp risa vindmillum. Enn ljótari atburður er þetta þegar ljóst er að ráðherra í ríkisstjórninni á þarna mikilla hagsmuna að gæta. Um er að ræða jarðirnar Hróðnýjarstaði, rétt við Búðardal og Sólheima vestast í Laxárdalsheiði. En það er einmitt jörðin Sólheimar sem tengist sterkum böndum inn í ríkisstjórnina. Ásmundur Einar Daðason, barnamálaráðherra og ein stærsta stjarna Framsóknarflokks, er einmitt eigandi þeirrar jarðar. Reyndar, svo alt sé nú satt og rétt, þá er jörðin skráð á eiginkonu Ásmundar og föður hans, en sjálfur ráðherrann skrifaði undir kaupsamninginn í þeirra umboði.

Sveitarstjórn Dalabyggðar sótti stíft eftir samþykki á breyttu skipulagi þessara jarða, þrátt fyrir mikla andstöðu heimamanna. Þegar ljóst var að ráðherra gæti ekki í fyrstu staðfest breytinguna, eftir að Skipulagsstofnun hafnaði henni, var farin bakleið að breytingunni. Lítilsháttar breyting á orðalagi dugði til að Skipulagsstofnun varð að breyta afstöðu sinni og ráðherra innviðamála, sem reyndar er einnig ráðherra og formaður Framsóknar, var fljótur til að staðfesta samþykkið.

Bæði munu þessi vindorkuver hafa mikil áhrif, þar sem þau koma. Hróðnýjarstaðir eru mitt í vaxandi ferðamannaparadís Dalanna, auk þess sem sumar bestu laxveiðiár landsins eru þar nálægt. Sjónmengun, hávaðamengun og ekki síst örplastmengun, mun verða mikil í nágrenni vindorkuvera. Þetta leiðir til þess að fasteignaverð mun lækka verulega á svæðinu, ferðaþjónusta er í voða og óvíst að menn kæri sig um að veiða í laxveiðiám sem eru svo að segja undir risa vindmillum.

Enn verra er þetta varðandi fyrirhugað vindorkuver að Sólheimum, landi ráðherrans. Þar er ætlunin að reisa risa vindmillur upp á háheiðinni, rétt við austurmörk jarðarinnar. Hinu megin þeirra marka er annað sveitarfélag og íbúar þess því ekki taldir aðilar að málinu! Þar er verið að breyta landnotkun sem mun klárlega hafa áhrif á eignir þessa fólks, án þess að það sé spurt um málið eða fái að koma að ákvörðun þess á einn eða annan hátt. Yfirgangur ráðherrans er því algjör og lítilsvirðing við íbúa nágerannasveitarfélagsins.

Þess má svo geta að báðar þessar jarðir eru á svæði hafarna. Allir vita áhrif vindmilla á fugla, sér í lagi stærri fugla. Erlendis er þetta þekkt vandamál, þó vindmillur þar séu í flestum tilfellum mun minni en þær risa vindmillur er til stendur að reisa að Hróðnýjarstöðum og Sólheimum í Dölum. Svo virðist sem ekkert tillit sé tekið til verndunar hafarna, eða annarra fugla, s.s. álfta, gæsa og rjúpu, er halda sig mikið á Laxárdalsheiðinni.

Ekki ætla ég að fjölyrða um sjálft vindorkuverið og þá skelfingu sem því fylgir. Hef áður ritað mörg blogg, bæði um þetta viðkomandi vindorkuver, sem og önnur.

Þessi breyting á landnotkun, sem ráðherra samþykkir, er tímamót á Íslandi. Línan hefur verið lögð og erlendum vindbarónum er hér með hleypt inn í landið, til að framleiða orku. Orku sem ekki er sjáanleg not fyrir vegna kostnaðar við framleiðsluna.  Vindorkusinnar halda því fram að mikil þróun hafi orðið í framleiðslu á vindmillum, þannig að kostnaður hafi farið lækkandi. Vissulega má taka undir það, en sú þróun hefur öll verið á einn veg, að stækka vindmillurnar. Gera þannig vandamálið enn stærra en áður var. Og þrátt fyrir þessa "þróun" á vindmillum, er enn haf og himinn milli framleiðslukostnaðar á raforku með vindi versus vatni eða gufu. Rýr rekstratími miðað við vatns/gufu virkjanir, stuttur endingatími miðað við vatns virkjanir og hár byggingakostnaður eru þar aðal orsök. Með þessar staðreyndir er farið í reiknileikfimi, til að réttlæta arðsemi vindaflsins, en til að raunverulegur ávinningur fáist af vindaflinu þarf orkuverð hér á landi að hækka verulega.

Ásmundur Einar er ein stærsta stjarna Framsóknar í dag. Hvað veldur er erfitt að segja, hugsanlega þó frægt viðtal í fjölmiðlum, skömmu fyrir síðustu kosningar. Honum tókst að vinna hug og hjörtu höfuðborgarbúa og ná fylgi Framsóknar þar vel upp, í síðustu Alþingiskosningum. Segja má að hann hafi farið með himinskautum undanfarin misseri. En þeir sem hátt fljúga eiga á hættu langt fall.

Erlendis þætti ekki góð pólitík að formaður og ráðherra stjórnmálaflokks hjálpaði öðrum samflokksfélaga og ráðherra við gróðabrask, sér í lagi ef það væri gert til að koma viðkvæmri innlendri grunnþjónustu undir erlenda aðila. Hér á landi telst slík ósvinna ekki til tíðinda!

 


Bara ef það hentar mér

"Bara ef það hentar mér" sungu Stuðmenn um árið. Þessi setning kom upp í hugann er ég las frétt á visir.is, um nýja túlkun ESB á orkugjöfum. Nú telst orka sem unnin er með gasi eða kjarnorku til grænnar orku.

ESB hefur verið duglegt að setja fram hinar ýmsu kvaðir á íbúa aðildarlanda sinna. Reyndar smitast þetta út fyrir ESB, því EES samningurinn virðist vera spyrtur við flestar kvaðir ESB. Loftlagsmál hafa verið fyrirferðarmikil í þessari herferð sambandsins gegn þegnum sínum. Þar hefur offorsið verið slíkt að það sem sannarlega er undirstaða lífs á jörðinni er nú skilgreint sem eitruð lofttegund, þ.e. co2. 

Það er vissulega af hinu góða að berjast gegn mengun, hvaða nafni sem hún nefnist. En þá þarf að skilgreina hvað er mengun og hvað ekki. Co2 er til dæmis ekki mengun, heldur grundvöllur lífs á jörðinni, enda hefur alla jarðsöguna verið hærra hlutfall Co2 í andrúmslofti en nú. Hins vegar er klárlega hægt að tala um mengun í útblæstri, bæði bíla en þó einkum frá verksmiðjum. Reyndar eru flest mannanna verk mengunarvaldur, þó andardrátturinn sé það ekki, jafnvel þó fátt sé eins mikil uppspretta Co2 en einmitt hann. Samhliða því að fólksfjöldi jarðar hefur nærri áttfaldast frá lokum nítjándu aldar til dagsins í dag, er ljóst að mengun frá fólki hefur stór aukist. Gegn því þarf að sporna.

Undir lok tuttugustu aldar kom fáviss fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna fram með þá bábilju að Co2 væri valdur þess að hlýnað hafi á jörðinni. Vitnaði hann m.a. í tilraun sem gerð hafði verið í lokuðu tilraunaglasi, nærri öld áður. Einnig vitnaði hann í borkjarnarannsóknir vísindamanna. Loftslag jarðar er flóknara en svo að hægt sé að koma öllum breytum þess fyrir í tilraunaglasi. Og jafnvel þó vísindamenn hafi reynt af mætti að benda þessum fyrrverandi varaforseta á að þó leitni væri milli magns Co2 í andrúmslofti og hitastig þess, þá væru mun meiri líkur á að hlýnun leiddi til aukinnar losunar á Co2, frekar en hitt. En það var ekki hlustað á vísindamenn, varaforsetinn hafði talað. Brátt var svo komið að fáir þorðu að mótmæla hinum nýju fræðum, enda hætta á að missa vinnuna. Fræðunum var því kastað fyrir hina nýju trú!

Reyndar var bæði hitastig jarðar og magn Co2 í andrúmslofti í sögulegu lágmarki, undir lok nítjándu aldar, svo lágu að líf á jörðinni var komið í hættu. Jörðin stóð á þröskuldi ísaldar. 

En aftur að fréttinni frá ESB. Vegna stefnu sambandsins í þessum málum var ljóst að til tíðinda myndi draga, fyrr en seinna. Orkuskortur var farinn að segja til sín löngu áður en Pútín réðst inn í Úkraínu. Covid var þá kennt um. Covid jók þó ekki eftirspurn eftir orku, þvert á móti minnkaði orkunotkun meðan á faraldrinum stóð. Hins vegar jókst hún aftur eftir að hjólin fóru að snúast aftur, þó ekki mikið meira en áður hafði verið. Orkan var hins vegar ekki til staðar, rétt eins og ráðamenn gerðu ráð fyrir að covid ástand yrði eilíft. ESB hafði einblínt á framleiðslu vind- og sólarorku. Orkugjafar sem útilokað er að treyst á sem stabíla orkugjafa. Þá er ljóst að fáar aðferðir til orkuframleiðslu eru meira mengandi en einmitt vindorkan, jafnvel þó einungis sé þar talin einn mengunarvaldur af mörgum, örplastmengun.

En nú er ESB sem sagt búið að skilgreina gas og kjarnorku sem græna orku. Það er vissulega gott. Áður var gas skilgreint sem grá orka. En það er fleira skrítið sem frá ESB hefur komið, eins og skilgreining þess á að tjákurl skuli skilgreint sem græn orka. Þetta getur átt við þegar trjákurl sem fellur til við timburframleiðslu, einkum í nánd við orkuverin, er nýtt til orkuframleiðslu í stað þess að urða það. En þegar raunveruleikinn er sá að skógar eru hoggnir í stórum stíl, vítt um heimsbyggðina og trén kurluð niður, flutt í skip með stórum flutningabílum og siglt með það um heimsins höf til Evrópu, svo framleiða megi þar orku, er ljóst að fátt umhverfisvænt er hægt að finna í þeim leik!

Vonandi verður þessi nýja tilskipan ESB, jafnvel þó hún minni á lagið sem Stuðmenn fluttu, til þess að vindmilluævintýrin taki enda. Eitt lítið kjarnorkuver getur framleitt stöðuga orku sem tæki þúsundir vindmilla að framleiða, þegar vindur blæs!

 


Breytt ásýnd Hvalfjarðar?

Hjá Skipulagsstofnun er til kynningar matsáætlun um vindorkuver á Brekku í Hvalfirði, nánar tiltekið upp á Brekkukambi. Brekkukambur er um 647 metra hár frá sjó og ætlunin er að þetta vindorkuver muni standa á toppi hans.

Þessi matsáætlun er fyrsta formlega skrefið sem tekið er í þessari framkvæmd, síðan verður matið sjálft unnið og samhliða því þarf sveitarfélagið að samþykkja breytingu á skipulagi svæðisins. Þar mun reyna á getu sveitastjórnar til að hrinda af sér óværunni. Þegar þessi matsáætlun er lesin kemur margt skrítið fram, tölur eru mjög reikandi og í sumum tilfellum stangast þær á. Þó er ljóst að ætlunin er að setja þarna upp vindorkuver er hefur getu til að framleiða allt að 50MW, í fyrsta áfanga. Í áætluninni er gert ráð fyrir að síðar megi stækka verið. Aðrar tölur, sem væntanlega eru fengnar frá framkvæmdaraðila, eru hins vegar á mjög breiðu bili. Sem dæmi er talað um að undirstöður geti verið allt frá 1600 til 4560m2. Vindmillurnar eru sagðar eiga að geta framleitt 5,6MW hver, en samt er talað um að þær geti verið frá 8 til 12. Það gerir framleiðslugetu frá 45 til 67MW. Á einum stað er talað um að varanleg landnotkun verði frá 3,9 til 6,2 ha, á öðrum stað er sagt að taka eigi 300 ha undir verkefnið. Svona má lengi telja, bæði eru tölur reikandi en einnig í andstöðu við hverjar aðrar.

En þetta er bara kynning á áætlun um mat á verkinu, matið sjálft er eftir. Í áætluninni segir Skipulagstofnun að notuð verði hæstu gildi við matið, hveju sinni. Þá erum við að tala um að reistar verði 12 vindmillur sem verða 247 metra háar, upp á fjalli sem er 647 metra hátt. Því munu þessar vindmillur teygja sig upp í rétt tæplega 900 metra hæð yfir sjó!

Nýverið lýsti forsætisráðherra því yfir að eðlilegt væri að þjóðin nyti góðs af arði vindorkuvera. Það er því miður lítill arður væntanlegur af slíku ævintýri hér á landi. Þar kemur fyrst og fremst til hár byggingakostnaður og stutt ending. Orkuverð hér á landi þarf því að hækka verulega til að dæmið gangi upp. Þá er það fyrirtæki sem stendur að þessu,  Zephyr, erlent og því mun seint sjást arður hér á landi frá því. Nokkur atvinnusköpun verður á byggingatíma orkuversins en eftir hann er ekki gert ráð fyrir að nokkur maður verði við vinnu á svæðinu, öllu stýrt frá höfuðborginni, eða jafnvel Noregi. Sveitarfélagið mun ekki hafa miklar tekjur af ævintýrinu, þar sem einungis húsnæði fyrir safnstöð orkunnar eru skattskyld. Það er vonandi að vindbarónarnir hafi ekki tekið orð forsætisráðherra a þann veg að þau mætti túlka á báða vegu, að ríkið fengi hluta af arðinum, ef hann verður einhver en á móti þá komi ríkið með peninga upp í tapið!

Það er stundum talað um að vindorkuver séu vistvæn. Fátt er fjær sannleikanum. Vindorkuver eru sennilega með óvistvænstu aðferðum til að framleiða orku. Í hverja vindmillu þarf óhemju mikið magn af stáli og öðrum málmum, sumum fágætum. Við rafalana eru gírar sem þurfa mikla olíu til smurnings. Hana þarf að endurnýja oft og reglulega. Í hverri vindmillu er spennir og í safnstöð eru fleiri spennar. Þeir þurfa olíu til kælingar, olíu sem getur orðið geislavirk og erfitt að losna við. Á hverri vindmillu eru spaðar. Þeir eru úr trefjaplast, sem eyðist ótrúlega fljótt. Það leiðir af sér einhverja mestu örplastmengun sem hugsast getur. Undir hverri vindmillu er síðan járnbent steypa, hátt í tvö þúsund rúmmetrar! Þessi steypa mun ekki verða fjarlægð aftur, þannig að fullyrðingar um að vindorkuver sé afturkræft eru fjarri lægi. Sjónmengun er auðvitað mikil, sér í lagi þegar vindmillum er prjónað upp á hátt fjall, nærri byggð. Samkvæmt matsáætluninni er talað um að sjónmengun muni ná allt frá Þingvöllum of vestur um upp í Borgarfjörð! Hljóðmengun, einkum lágtíðnihljóð sem mannseyrað ekki nemur, er mikil. Það hefur áhrif á allt dýralíf, líka mannskepnuna, þó hún heyri það ekki. Segulsvið myndast umhverfis vindorkuver og það mun hafa áhrif á margar fuglategundir, sem treysta á segulsvið jarðar til að rata um, auk þess sem það getur haft áhrif á aðrar skepnur líka. Tvö síðasttöldu atriðin hafa leitt til þess að bannað er að byggja vindorkuver nærri flugvöllum í Bandaríkjunum. Þá er óvíst hvaða áhrif vindmillur munu hafa á vindafar. Það getur oft verið hvasst í Hvalfirðinum í norðan og norð-austanáttum. Hvaða áhrif hefur það á vindstrengi þegar þeir ganga fram af Brekkufjallinu?

Sem fyrr segir þá er þetta skjal frá Skipulagsstofnun einungis kynning á áætlun um mat á vindorkuveri á Brekku í Hvalfirði. Þar til sjálft matið hefur verið framkvæmt er í sjálfu sér lítið hægt að segja. Þá á sveitastjórn eftir að taka afstöðu til þess hvort skipulagi verði breytt. Þar verður að treysta á íbúana, að þeir geri sveitarstjórn grein fyrir vilja sínum. Jafnvel ætti sveitastjórn að boða til kosninga um málið, enda svo stórt að vart verður séð að umboð hennar sé til staðar fyrir þeirri ákvörðun. Við erum að tala um framkvæmd sem ekki verður tekin til baka, líki fólki ekki. Við erum að tala um að breyta ásýnd Hvalfjarðar til frambúðar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband