Lofa skal það sem gott er

Lofa skal það sem gott er og lasta það slæma. Nú hefur fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár litið dagsljósið. Sem von er eru stjórnvöld dugleg til að mæra frumvarpið meðan andstaðan lastar það. Því ekki nema eitt í stöðunni, að þvælast í gegnum þetta hundleiðinlega rit fjármálaráðuneytisins.

Fyrst skal lofa það sem gott er í frumvarpinu, enda mun fljótlegra en hitt. Kílómetragjald í stað eldsneytisgjalds er auðvitað stórt skref til bóta. Vandinn er þó að svo virðist sem eigi að leggja á kílómetragjald á alla bíla en sjá til með hvenær eldsneytisgjaldið verður tekið af. Hvenær er svo aftur hulin ráðgáta.

Fækkun ríkisstofnana er annað þjóðþrifamál. Þar skiptir þó mestu máli hvernig að hlutum verður staðið. Ef ætlunin er að gera það eitt að sameina stofnanir og gera þær enn stærri og afkastaminni en nú er, er betra heima setið en af stað farið. En auðvitað er þetta svo sem ekki ný hugmynd, sennilegast eitthvert ofnotaða loforð sjálfstæðisflokks frá upphafi, sem þeim hefur aldrei tekist að standa við.

Þriðja málið sem þakka má úr þessu frumvarpi er að þar er notast við rétta verðbólgumælingu, þ.e. samræmda mælingu. Ekki notuð sér íslenska mælingin sem Seðlabankinn vill notast við. Þetta er kannski viðurkenning á að hér skuli breyta viðmiðum í mælingu verðbólgunnar.

Þá er komið að hinu sem má lasta. Reyndar verður að segjast eins og er að þetta frumvarp ráðherrans er eitt allsherjar flopp. Samdráttur á flestum sviðum, en þó sýnu mestur á þá sem minna mega sín. Skattheimta er aukin og sama er þar upp á borðum, mest hjá þeim sem minna mega sín. Það sem þó kemur kannski mest á óvart er að aukin skattheimta, en hún hefur sjaldnast skilað auknum tekjum í ríkissjóð. Þetta hefur flokkur fjármálaráðherra predikað í áratugi.

Hef áður minnst á aukinn skatt á bíleigendur. Þeir sem minna hafa milli handanna munu mest finna fyrir þeim skattauka. Hinir fjáðu, sem efni hafa á að aka nýjum rafbílum munar litið um að þurfa að koma að borðinu við viðhald og endurbyggingu vegakerfisins. Hinir minna fjáðu, sem ekki hafa efni á rafbíl, en hafa þurft að standa undir kostnaði við vegahaldið, munu þurfa að auka þann kostnað enn frekar. Auðvitað er það svo að hluti bíleigenda þarf í raun ekki að eiga og reka bíl, þ.e. þeir sem búa við þann lúxus að hafa aðgengi að almenningssamgöngum. En hinir, landsbyggðabúar, búa ekki við slíkan lúxus og verða að eiga bíl. Það fólk þarf að sækja sér alla þjónustu, gjarnan um langan veg, hverju nafni sem slík þjónusta nefnist. Umferð mun minnka við þessa auknu skatta og ekki víst að auknar tekjur ríkissjóðs muni skila sér. Þá mun þessi aukning skattheimtu leiða til hækkandi flutningskostnaðar og hærra vöruverðs. Hvar eru landsbyggðaþingmennirnir?

Allar rannsóknir verða skornar niður, hvort heldur er í tengslum við sjávarútveg eða annað. Þessar rannsóknir skila þó flestar miklum tekjum í ríkissjóð og nefni ég sem dæmi rannsóknir á losun co2 úr jarðvegi. Þar er fullt tilefni til stór aukinna rannsókna, enda gætu rauntölur þar skilað mikilli minnkun á losun okkar, miðað við núverandi áætlun. Fleiri rannsóknir má nefna, en staðreyndin er sú að rannsóknir leiða til þekkingar og þekking skilar auði.

Einn stærsti einstaki tekjuliður til hækkunar frumvarpsins er virðisaukaskattur. Þar eiga tekjur að aukast um heil 20%, án þess að breyta tekjustofninum. Þetta á að koma til af aukinni neyslu landsmanna. Þessi tekjuaukning á að gefa ríkisjóð alls 67 milljarða króna. Það þarf vart snilling til að átta sig á að þarna er verulega ofmetin geta landsmanna, á tímum samdráttar. Minnir óneitanlega nokkuð á þá hagfræði sem stunduð var hér á landi fyrir hrun.

Fyrirhuguð sala á Íslandsbanka er eitt af tekjuliðum frumvarpsins. Þar er áætlað að ríkissjóður muni ná inn nærri 76 milljörðum króna. Með þessari sölu næst að minnka halla ríkisins úr 132.4 milljörðum niður í 56.6 milljarða. Þetta eru einskiptis tekjur. Um þessa sölu er vægast sagt skiptar skoðanir, ekki síst vegna þess hvernig til tókst síðast er hlutur úr bankanum var seldur. Það er því ekki víst að sátt verði um söluna og jafnvel þó hana mætti mynda, þarf jú kaupanda. Ástandið í heiminum í dag er ekki beint heppilegt til bankasölu.

Í krónutölum munu framlög til heilbrigðismála hækka, en það á þó ekki við um þjónustu aldraðra eða öryrkja. Þar munu framlög lækka í krónutölu, til viðbótar við verðbólgu. Þó liggur vandinn einmitt á þeim slóðum. Vanda sjúkrahúsa má að stórum hluta rekja til þess að ekkert úrræði er fyrir þá sem ekki geta lengur hugsað um sig sjálfir. Lenda á spítölum vegna þess að ekki er til pláss á sjúkraheimilum fyrir aldraða. Þá er ljóst að meðan málaflokkurinn í heild sér fær færri krónur en fyrir ári, munu tekjur þess fólk sem fá greiðslur frá ríkinu ekki geta haldist í við verðbólguna og voru þær nógu litlar fyrir.

Lengi mætti halda áfram að þylja upp vankanta fjárlagafrumvarpsins. Rauði þráðurinn er þó sá að útgjöldin ýmist standa í stað, þó oftast lægri, í krónutölum, meðan tekjur eru áætlaðar ríflegar. M.a. með aukinni skattheimtu en einnig ofmati á tekjum. Að tekjum skuli haldið við eða ofan verðbólgunnar meðan gjöldin lækka verulega, eru langt undir verðbólgu.

Þetta er verðbólguaukandi fjárlagafrumvarp.

 


mbl.is Stóra breytingin verður kílómetragjaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband