Siðapostular

Sala ríkisins á hlut úr Íslandsbanka hefur verið harðlega gagnrýnd og ekki að undra. Þar virðist allt hafa farið á versta veg, kannski ekki nein lög brotin en klárlega siðferðislegt skipbrot. Margir bera þar ábyrgð, þó auðvitað spjótin standi mest á þeim er falið var að gæta þessarar eignar kjósenda, fjármálaráðherra.

Það hafa margir siðapostular stigið fram vegna þessa máls, sumir halda sig við efnislega gagnrýni meðan aðrir nýta sér þetta til að upphefja sjálfa sig. Það er lítið minni ljóður, sér í lagi þegar viðkomandi voru í aðstöðu til að benda á ágallana á fyrri stigum. Voru jafnvel í fjárlaganefnd og gáfu þar sitt leyfi fyrir gjörningnum!

Meðal þeirra siðapostula sem hátt hafa látið vegna málsins er Kristrún Frostadóttir, vonarbiðill til formanns Samfylkingar. Það er nokkuð magnað hvað hún hefur verið iðin við að gagnrýna söluferlið og þann gróða er sumir gátu náð sér í gegnum það, á einni nóttu. Sjálf stundaði hún svipað peningaplott er hún starfaði hjá Kvikubanka, hagnaðist þar um marga tugi milljóna, nánast á einni nóttu. Vissulega var hún þá ekki þingmaður, heldur einungis fjármálamaður af hörðustu gerð. Nú situr hún á þingi og gagnrýnir aðra fyrir sömu sakir, Kristrún þingmaður situr í fjármálanefnd. Þar samþykkti hún að færa bankasýslunni það vald að selja hlut í Íslandsbanka, án athugasemdar.

Það má gagnrýna marga fyrir þessi óhæfuverk er sala á hlut ríkisins í bankanum var. Hellst ber að gagnrýna þá þingmenn er samþykktu söluna án viðeigandi leiðbeininga, núverandi fjármálanefnd fyrir að samþykkja söluna án þess að vita hvernig staðið yrði að henni, fjármálaráðherra og ríkisstjórn fyrir sömu sakir og svo auðvitað bankasýsluna sem telur sig geta hagað sér sem svín. Allt það fólk sem hér er nefnt ber ábyrgð á ósköpunum og ekkert af því hefur burði eða getu til gagnrýni, jafnvel þó verið sé að vinna sér prik til formanns í stjórnmálaflokki.

Í kjölfar bankahrunsins 2008 var gerð stór og efnismikil skýrsla um aðdraganda hrunsins. Þar var ein hellst niðurstaða sú að stjórnvöld og Alþingi hefði ekki sinnt eftirlitsskyldu sinnu. Þessi bankasala nú er skólabókardæmi þess að eftirlitsskyldan var vanrækt. Hafa stjórnmálamenn ekkert lært? Það eru vissulega nokkur ár liðin frá hruni, en það hlýtur að vera lágmarks krafa að þeir sem bjóða sig fram til starfa á þingi muni nokkur ár aftur í tímann!

Nú hafa stjórnvöld ákveðið að leggja niður bankasýsluna, vegna málsins og bankasýslan hefur viðrað að láta sína ráðgjafa gjalda sökina. Enginn á þó að bera sjáanlega ábyrgð og engum er ætlað að gjalda þjóðinni tapið. Siðapostularnir eru þó duglegir að pota sér áfram og aurapúkarnir blessa Mammon.

Það er einungis eitt í stöðunni, þingmenn verða að endurnýja umboð sitt frá þjóðinni. Þá ættu kjósendur aðeins að rifja upp það sem áður hefur farið fram á Alþingi, um þetta mál. Hvernig málflutningurinn var, hverjir stóðu mest á móti sölunni og hverjir voru áhugasamastir um hana. Hvaða aðrar leiðir var bent á til lausna málsins, hvernig þingmenn tóku í þá lausn og hvaða áhrif sú lausn hefði haft fyrir þjóðina. Þá er einnig hollt fyrir kjósendur að kynna sér og þekkja sögu þeirra sem bjóða sig fram til starfa á Alþingi, s.s. hvort þeir eru hluti þeirrar elítu sem skirrist ekki við að þiggja skjótfenginn gróða í fjármálafyrirtækjum, af því þeir hafa aðstöðu til þess. Það er svo sem lítið við því að segja þó fólk nýti sér sína aðstöðu til skjótfengins gróða, hjá einkafyrirtækjum, en slíkt fólk á ekki erindi á Alþingi og getur síst allra gagnrýnt aðra fyrir sömu sakir!


mbl.is Kristrún telur spillingu mögulega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það var ekki fjárlaganefndar að "gefa leyfi" fyrir gjörningnum, heldur aðeins að veita umsögn um tillögu fjármálaráðherra um söluna.

Í umsögn nefndarinnar komu einmitt fram bókanir frá fulltrúum minnihluta þar sem voru gerðar margvíslegar athugasemdir við ráðagerðina. Af þeim var reyndar aðeins einn sem lagðist alfarið gegn sölunni, Eyjólfur Ármannsson fulltrúi Flokks fólksins. Sama efnis var bókun Ásthildar Lóu Þórsdóttur fulltrúa Flokks fólksins í efnahags- og viðskiptanefnd við umsögn hennar.

Eyjólfur lagði einmitt fram breytingartillögu við fjárlög rétt fyrir jól þess efnis að fella heimild til sölunnar brott úr fjárlögum. Einu þingmennirnir sem greiddu atkvæði með þeirri tillögu voru samflokksmenn Eyjólfs í Flokki fólksins.

Hin úr minnihluta sem sátu hjá naga nú handarbök.

P.S. "kannski ekki nein lög brotin" - jú víst:

Arsmlengdarlögleysa - bofs.blog.is

Það tók 10 daga frá því að tilvísuð færsla var birt þar til fyrrverandi fjármálaráðherra Samfylkingar mundi hvað stóð í lögum sem hún mælti sjálf fyrir 2012.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.4.2022 kl. 14:11

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég segi kannski ekki nein lög brotin af þeirri einföldu ástæðu að það er ekki mitt né annarra á "götunni" að dæma. Það er hlutverk dómstóla. Málið er í rannsókn og ef ástæða er til mun það verða fært dómstólum. Vissulega getur hver sem er kært þætti málsins, telji þeir vanta upp á þá rannsókn sem hafin er.

Hitt er kristaltært og þarf ekki dómstóla til, að siðferðislegt skipbrot varð við alla málsmeðferðina.

Og auðvitað, eins og fram kemur í mínum pistli, voru einstaka þingmenn sem höfðu kjark til andstöðu, sérstaklega á fyrstu stigum þess. 

Gunnar Heiðarsson, 22.4.2022 kl. 22:31

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sammála því að það er ekki okkar að fella endanlega dóma, en við megum þó setja fram álit og ekki síst ef það er rökstutt. Þannig virkar lýðræðisleg umræða á rökrænum grundvelli.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.4.2022 kl. 22:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband