Hækkun sjávarstöðu
25.9.2019 | 10:17
Enginn efast um að hlýnað hefur á jörðinni. Hitt eru menn ekki sammála um af hvaða völdum það sé, hvort áfram muni hlýna eða hvort kólni aftur. Nýjasti vinkillinn er bréf sem samið er af 500 loftlagssérfræðingum og sent á ráðstefnu SÞ, sem nú stendur yfir. Fréttamiðlar hafa verið þögulir sem gröfin um þetta bréf og gæta þess vandlega að það sé hvergi birt.
Þegar lesin er fréttin sem þetta blogg tengist við, verður maður nokkuð sorgmæddur. Ekki vegna innihalds fréttarinnar heldur framsetningar. Þarna eru fullyrðingar sem ekki standast skoðun og að auki eru þversagnir í fréttinni sem gerir erfiðar að taka hana trúanlega. M.a. er sagt að flóð vegna bráðnunar snjóa á vorin muni færast hærra til fjalla. Hvað verður svo um vatnið þegar það kemur lægra í landið er erfitt að skilja, kannski halda menn að það muni bara gufa upp!
Flest eða öll þau rök sem færð eru fram í fréttinni og þau rök sem notuð eru til að trilla mannfólkið eru fjarri því að vera ný af nálinni. Í tveim fræðslumyndum, annarri frá áttunda áratug síðustu aldar og fjallað er um í síðasta bloggi mínu og hinni frá seinni hluta þess níunda, eru öll þessi rök tiltekin. Í seinni myndinni er málflutningurinn líkari því sem nú er, að því leyti að fastar er að orði kveðið. Talað um að "engan tíma megi missa" að "aðgerða sé þörf tafarlaust" og jafnvel eru nautin orðin jafn miklir sökudólgar og í dag. Þarna var þó ekki verið að vara við hlýnun jarðar, heldur ísöld! Og takið eftir, þetta myndband og viðtölin við fræðimennina var gert fyrir einungis rúmum þrjátíu árum síðan!! Sem betur fer fór ekki sem fræðingar spáðu, því þá væri sennilega kominn jökull yfir allt okkar fagra land!!
Hin síðustu ár hefur vísindamönnum tekist að spá um veður með nokkurri vissu, en einungis til tveggja daga. Lengri spátími er óáreiðanlegur og því óáreiðanlegri sem lengra líður. Á áttunda og níunda ártug síðustu aldar töldu þessir menn sig geta spáð með nokkurri vissu nokkra áratugi fram í tímann og spáðu ísöld. Enn í dag eru til vísindamenn sem telja sig hafa hæfileika til slíkrar spámennsku, en spá nú hamfarahlýnun. Það fyndnasta við þetta er að nú er að nokkru leiti um sömu spámenn að ræða, þó í fyrra tilfellinu hafi hlutur loftlagssérfræðinga meðal þessara spámanna verið stærri.
Stjórnmálamenn eru hrifnir af þessum spádómum. Þeir þeytast um heiminn þveran og endilangan og keppast við að lýsa sem mestri ógn. Þetta þjónar þeim vel, enda fátt sterkara en ógnarvopnið. Minna fer fyrir lausnum, öðrum en skattlagningu. Eins og veðurfarið láti stjórnast af peningum!
Forsætisráðherra okkar hélt þrungna ræðu í New York og lýsti því fjálglega hvað Ísland væri öflugt í aðgerðum gegn þessari miklu ógn. Jú vissulega hafa verið lagðir hér á skattar en fátt annað. Ef hún tryði því að hamfarahlýnun væri handan hornsins, þá ætti hún að vita að sjávarborð mun hækka verulega. Því væri Alþingi væntanlega fyrir löngu búið að banna allar nýbyggingar við sjó. Hvar rísa stærstu og dýrustu byggingar höfuðborgarinnar?!!
![]() |
Tvöfalt hraðari hlýnun á norðurslóðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ice Age is Coming
23.9.2019 | 12:50
Ísöld er að skella á - þetta er ekki mælt af munni þeirra sem í daglegu tali eru uppnefndir "afneitendur", heldur er þetta nafn á fræðslumynd sem framleidd var í samstarfi við vísindamenn, árið 1978.
Á síðustu öld hlýnaði verulega á jörðinni, þ.e. frá aldamótum og fram undir lok fjórða áratugarins, eftir það kólnaði aftur allt til loka þess áttunda, en þá tók að hlýna aftur. Síðasta áratug þessa kuldakafla voru vísindamenn á því að ísöld væri á leiðinni, enda snjóþyngsli sífellt meiri eftir því sem á leið þess áratugar. En svo hlýnaði aftur og enginn talaði um ísöld. Hin síðari ár hafa þeir vísindamenn sem hæst létu í spá um ísöld reynt að þvo hendur sínar, enda margir enn að störfum og spá nú ofsahlýnun. Þó kalt hafi verið undir lok áttunda áratugarins var enn mun hlýrra en seinni part nítjándu aldar, þann tíma er vísindamenn dagsins í dag eru gjarnir á að nota sem viðmiðun um "hamfarahlýnun jarðar".
Þann 28 apríl 1975 rituðu nokkrir sérfræðingar NOAA grein í Newsweek þar sem þeir vöruðu við kólnun loftlagsins og kölluðu eftir aðgerðum stjórnmálamanna. Þar var fyrst og fremst talað um að minnka mengun, enda var það skoðun þeirra að meiri mengun gæti leitt til þess að sólarljósið ætti erfiðara um vik að ná til jarðar. Þeir voru þó ekki tilbúnir að taka undir tillögu sumra annarra vísindamanna um að dæla kolaryki á jökla, til að bræða þá og halda þeim í skefjum. Þessir vísindamenn sögðu að engan tíma mætti missa, að fyrir séð væri hungursneið og hörmungar, innan fimmtán ára.
Sem betur fer höfðu vísindamenn áttunda áratugar síðustu aldar rangt fyrir sér.
Í dag eru vísindin önnur. Nú er talað um hamfarahlýnun og flest sem gerist í náttúrunni sagt af þeim völdum. Það er þó margt líkt með því sem áður var. Engan tíma má missa, mengun er sökudólgurinn og yfirleitt nokkuð sömu rök notuð, bara talað um hlýnun í stað kólnunar. Nú segja vísindamenn, reyndar ekki sagt hvaðan þeir koma en gera má ráð fyrir að NOAA eigi þar einhverja aðkomu, að aldrei fyrr hafi verið hlýrra á jörðinni en einmitt núna. Þetta er auðvitað röng fullyrðing. Ef við tökum hitastig jarðar síðustu tíu þúsund ár, sem er nokkuð vel þekkt staðreynd í dag, m.a. vegna borkjarna úr Grænlandsjökli, kemur í ljós að á þessum tíma hefur þrisvar skollið á kuldaskeið. Þessi kuldaskeið falla þó ekki undir alvöru ísöld, eins og hér var fyrir 18000 árum. Síðasta þessara kuldaskeiða og það hlýjasta þeirra er þó stundum nefnt litla ísöld. Á þessum tíu þúsund árum hafa hins vegar komið átta hlýskeið, flest þeirra mun hlýrri en nú og sum verulega hlýrri.
Svo haldið sé áfram að tala um met í veðurfari eru tvö kuldamet í Bandaríkjunum sem verulega standa uppúr. Í janúar og febrúar 1936 mældist frost niður í -51 gráðu á celsíus og aldrei hafði mælst svo mikið frost áður þar. Þetta met hélt allt fram í janúar 2019, er frost mældist -53 gráður á celsíus og sló þar með út fyrra met. Það merkilega við þessi hörkufrost er að bæði verða á tíma þegar frekar hlýtt er á jörðinni, það fyrra undir lok þess hlýkafla sem staðið hafði yfir frá aldamótum og það síðara fyrr á þessu ári, sem vísindamenn segja það hlýjasta til þessa. Þegar fyrra metið féll var svo sem ekki mikið rætt um orsakir, en veðrið sem því fylgdi var geysilegt. Svo mikið var veðrið að dæmi var um að stórgripir hefðu frosið til bana standandi.
Hins vegar var nokkuð rætt um orsakir þess mikla kulda er mældist í janúar síðastliðinn. Þá kepptust menn um að koma sökinni á hversu hlýtt væri orðið, að það leiddi til aukinna öfga. Ekki ætla ég að dæma um það.
Hvað sem öðru líður, þá er víst að nokkuð hefur hlýnað á jörðinni okkar hin síðari ár. Hverju er um að kenna er erfitt að segja, en vitandi að slíkt hefur gerst oft áður, er erfitt að segja orsökina eitthvað sem mannskepnan aðhefst. Bent er á co2 í því sambandi, að mannskepnan láti frá sér svo mikið magn af þeirri lofttegund. Þó eru vísindamenn enn ekki sammála um hvort sú lofttegund er orsök eða afleiðing. Sumir standa á því fastar en fótunum að með aukinni hlýnun muni eldfjöll gjósa meira og það leiði til enn frekari hlýnunar. Við vitum jú að mikið magn co2 losnar úr læðingi við það. Á sögulegum tíma hafa stór eldgos orðið og afleiðingin alltaf verið á sömu leið, leitt til kólnunar á jörðinni.
Hitt er ljóst að náttúran sjálf losar mikið magn co2 út í andrúmsloftið, sem betur fer. Annars væri lítið líf til. Mannskepnan hefur vissulega aukið verulega losun þessarar lofttegundar, en það er bara brotabrot af því magni sem náttúran sjálf skaffar til að viðhalda lífi a jörðinni. Nú tala menn um að draga þurfi úr losun co2 um svo og svo mikið, gjarnan nefnd einhver prósent með einsstafa tölu. Það mun litlu eða engu breyta þar sem heildarmagn þess sem mannskepnan losar er svo ofboðslega lítið. Jafnvel þó tækist að stöðva alla losun mannskepnunnar á co2 nú í dag, mun það litlu breyta.
Ótti er eittvað vinsælast og sterkasta vopn sem valdhafar geta notað. Vandinn er að þetta vopn er gjarnan skammvinnt, fólk áttar sig og rís upp gegn þeim sem það nota. Á víkingaöld var ótti sterkast vopn víkinga og með því náðu þeir undir sig stórum hluta Englands. Þeir féllu. Fljótlega eftir það var það kristindómurinn. Þjónar kirkjunnar náðu ótrúlegum árangri í að kúga þegna sína með óttan að vopni. En sú kúgun varð að láta undan. Hin síðari ár má nefna þann ótta sem viðhafður var vegna kjarnorkuvár og spurning hvort meiri sigur var fyrir valdhafa yfir þegnum sínum eða þeim þjóðum sem þeir beindu flaugum sínum að. Á áttundaáratugnum var það óttinn við ísöld sem reynt var að koma á legg, en það mistókst. Nánast í beinu framhaldi kom svo óttinn um hamfarahlýnun. Þegar óttinn fór dvínandi og sífellt fleiri vísindamenn þorðu að koma fram með efasemdir, var sú snilldar aðferð notuð að láta barn taka við svipunni. Það klikkar auðvitað ekki.
Það er of langt mál að telja upp allar þær hamfaraspár sem dunið hefur á heimsbyggðinni, síðustu tvo áratugi. Læt nægja að nefna spá Al Gore frá árinu 2003, er hann hélt því fram að innan tíu ára yrði allur ís á norðurskautinu horfinn. Árlega frestaði hann þessu þó um eitt ár, en hélt sig þó ætíð við einn áratug. Enn er ísinn þarna til staðar og hefur reyndar heldur aukist hin allra síðustu ár.
Eins og áður segir eru vísindamenn alls ekki sammála um hvað veldur þeirri hlýnun sem hefur verið síðustu áratugi, hvort áfram heldur að hlýna eða hvort aftur muni kólna. Þarna skiptast vísindamenn nokkuð í tvo hópa. Flestir þeirra sem menntaðir eru í loftlagsvísindum telja fjarri því að hægt sé að kenna mannskepnunni og hennar athöfnum um, hinir sem ýmist eru menntaðir á öðrum sviðum eða eru vísindamenn í lygum (stjórnmálamenn), eru harðir á að manninum sé um að kenna og ekkert annað.
En gefum okkur nú að dómsdagsfólkið hafi rétt fyrir sér, gefum okkur að hafin sé einhver hamfarahlýnun og að jörðin muni farast. Í meira en tuttugu ár hafa stjórnmálamenn heimsins verið nánast á stöðugu flugi, heimsálfa á milli, til að sækja ráðstefnur um vandann. Og hver er niðurstaðan? Jú, auknir skattar, það er allt og sumt. Ekkert gert af viti til að sporna gegn losun co2, akkúrat ekkert. Það er hellst ef stjórnvöld hvers lands finna eitthvað sem ekkert kostar og þau geti notað sem sýndarpassa um aðgerðir, gagnvart öðrum þjóðum. Annars er bara horft til skattlagningar og hennar af stærri gráðunni.
Sumir reka sjálfsagt upp stór augu og vilja nefna rafbílavæðinguna sem dæmi. Það er þó fjarri því að hún muni miklu breyta. Rafbílavæðing hefði orðið eftir sem áður, einfaldlega vegna þess að þeir bílar eru mun einfaldari og þegar fram líður ódýrari en bílar með sprengihreyfli. Eini vandinn við rafbíla er geymsla orkunnar og ekki alveg séð að þeir geti tekið yfir að fullu fyrr en lausn fæst þar.
Það er þó fjarri því að ég telji að ekki þurfi að minnka mengun, hverju nafni sem hún nefnist. Mengun getur aldrei orðið til góða og sjálfsagt að gera allt sem hægt er til að minnka hana. Þar þarf auðvitað allt að liggja undir, loftmengun á að halda í lágmarki og ruslmengun er vandamál sem nauðsynlegt er að horfa til og finna lausn á. Þetta kemur þó ekkert við hitastigi jarðar. Þar eru öfl sem mannskepnan mun sennilega aldrei geta tamið.
Og ef stjórnmálamenn virkilega tryðu sjálfum sér og teldu að hamfarahlýnun væri á leiðinni, ættu þeir auðvitað að vera að finna lausnir á því hvað þurfi að gera til að mannskepnan fái lifað af slíka hlýnun. Leita lausna á hvernig hægt verður að viðhalda lífi á jörðinni, ef svo færi að aftur yrði hér hitabeltisskógur um nyrstu lendur Kanada, Grænlands, Noregs og Rússlands. Það hefur gerst og það gæti gerst aftur. Maðurinn mun þar engu ráða, en gæti kannski aðlagað sig að breyttu loftslagi.
Ice Age is Coming 1978 Science Facts
![]() |
Hitinn hefur aldrei mælst hærri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Skattabrjálæði Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokks
15.9.2019 | 20:27
Fyrir síðustu kosningar gekk Framsóknarflokkur skertur til kosninga. Stofnaður hafði verið nýr flokkur, Miðflokkurinn og tók hann verulegt fylgi af Framsókn, sumir tala um meira en helming.
Því var þörf róttækra aðgerða, eitthvað sem kæmi fólki til að kjósa Framsókn. Eitt af þeim málum sem nokkuð höfðu verið í umræðunni misserin á undan og kjósendur flestir á móti, voru hugmyndir þáverandi samgönguráðherra, sem af öllum flokkum var í Sjálfstæðisflokk, um verulegar skattaálögur á bíleigendur, í formi vegskatta, sem ætlað var að myndi færa ríkissjóð allt að 20 milljarða króna.
Þetta var auðvitað kjörið málefni fyrir kosningabaráttu, það vill jú enginn borga meiri skatta. Því hljóp Framsókn á vagninn og hafnaði með öllu öllum vegsköttum, að slík skattlagning yrði aldrei sett á, bara ef kjósendur kysu flokkinn. Aldrei kom formaður Framsóknar í viðtöl án þess að koma þessu máli að og bætti gjarnan við "við getum öll verið sammála um það". Víst er að margur lét glepjast og setti sinn kross við xB í kjörklefanum.
Svo var mynduð ný ríkisstjórn og jafnvel þó Framsókn hefði fengið minna fylgi en nokkur tíman áður í allri sinni eitt hundraða ára sögu, var formaður þess flokks gerður að samgönguráðherra. Flestum létti, hvort sem þeir höfðu látið glepjast til að kjósa Framsókn eða ekki. Yfirlýsingar formannsins fyrir kosningar voru jú án nokkurs vafa og því ljóst að Sjálfstæðisflokkur yrði að bakka með allar sínar hugmyndir um frekari skattaálögur á bíleigendur.
En Adam var ekki lengi í Paradís. Innan mánaðar frá því að formaður Framsóknar gerðist ráðherra samgöngumála, hafði hann snúist 180 gráður og var nú farinn að tala um vegskatta. Hvernig vegskatta gat hann ekki sagt, vissi sennilega lítið um hvað hann var að tala, en vegskattar skyldu koma og helst sem mestir. Hvað er svona framkoma sem formaður Framsóknar sýndi þarna annað en popppúlismi, þegar pikkað er upp eitthvað málefni fyrir kosningar, til þess að afla fylgi kjósenda, en gera síðan alveg þveröfugt eftir kosningar?
Á þessum tíma er formaður framsóknar var að véla um veggjöld var formaður samgöngunefndar alþingis einn af þingmönnum Miðflokksins og tókst honum að halda málinu niðri. Eftir að hann hafði verið hrakinn frá formennskunni tók fyrrverandi samgönguráðherra við, hinn skattaglaði þingmaður Sjálfstæðisflokks. Nú var ekkert til fyrirstöðu og unnið hratt að málinu. Heimild var veitt gegnum ný lög frá alþingi og ráðherra þannig komin með nánast frítt spil. Gengið var til viðræðna við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og samkomulag gert. Í því samkomulagi var m.a. gert ráð fyrir vegsköttun á bíleigendur, en nú var ekki rætt um tuttugu milljarða, upphæðin var komin upp í 55 milljarða! Í sama pott ætlar ríkið síðan að leggja 50 milljarða og sveitarfélögin skitna 15 milljarða, sem þau væntanlega ná að stórum hluta af bíleigendum gegnum skatt sem kallast tafagjald! Eitthvað óskilgreind skattlagning sem í raun sveitarfélögin geta stjórnað sjálf, með því að taka öll upp aðferðir Reykjavíkurborgar og tefja umferð sem mest!!
En nú kom babb í bátinn. Sjálfstæðisflokkur, sá sem upphafið átti að þessari ógnarskattlagningu, hljóp úr skaftinu. Vildi ekki vera með! Eftir sat formaður Framsóknar með svartapétur einann á hendi. Það var sorglegt og nánast að maður vorkenndi honum þegar hann kom í viðtal á ruv, eftir að ljóst var hvernig komið væri.
En hví skyldi Sjálfstæðisflokkur nú allt í einu afneita króganum sem hann gat? Jú af sömu ástæðu og formaður Framsóknar spilaði á kjósendur, fyrir síðustu kosningar. Sjálfstæðisflokkur er vart svipur hjá sjón lengur, fylgi hans hrunið og deilur innan flokks megnar. Flokknum er því nauðsyn að finna eitthvað málefni sem hugsanlega getur híft upp fylgið, róað kjósendur. Og hvað er betra en að setja sig gegn skattlagningu upp á a.m.k. 55 milljarða króna. Peningar eru jú alfa og ómega þeirra sem flokknum stjórna og peninga skilja þau. Því skal nú, a.m.k. svona útá við, ekki samþykkja slíka skattlagningu. Síðar má svo kannski samþykkja, sér í lagi ef skatturinn yrði lækkaður um einhverja sýndarmennsku. Sami popppúlisminn og formaður Framsóknar ástundaði.
Það liggur því fyrir að nú skal leggja á sérstakan skatt á bíleigendur, upp á 55 milljarða króna. Tilviðbótar fá sveitarfélög heimild til að skattleggja tafir í umferð og enginn veit hvað þeir geti orði háir. Þá á að hækka kolefnisgjald á eldsneyti og af ráðherrum VG að ráða verða þær hækkanir verulegar. Þessu til viðbótar greiða bíleigendur einhver hæstu innflutningsgjöld sem þekkjast í heiminum, greiða hæðstu skatta á eldsneyti sem þekkist og í ofanálag virðisaukaskatt á allt saman, líka skattinn!
Þetta skattabrjálæði Framsóknarflokks og reyndar einnig Sjálfstæðisflokks, sem gat jú króann, er með ólíkindum. VG má vissulega fara að vara sig.
Í svo strjálbýlu landi sem okkar er bíllinn ekki lúxus, heldur nauðsyn. Að bíleigendur skuli settir skör lægra í þjóðfélaginu er óásættanlegt með öllu. Það er sjálfsagt að bíleigendur kosti innviði vegna bílaumferðar, að einhverju marki. Staðreyndin er að þeir hafa gert það um áratugi og gott betur. Ríkissjóður hefur haft verulegar tekjur af bíleigendum umfram þann kostnað sem lagt er til vegakerfisins. Hvert það fjármagn fer mætti gjarnan skoða.
Hvernig formaður Framsóknar ætlar að standa frammi fyrir kjósendum í næstu kosningum veit ég ekki. Litlar líkur eru hins vegar á að hann þurfi þess eftir þær kosningar!!
![]() |
Samkomulag um samgöngur enn óundirritað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Naglasúpan
14.9.2019 | 19:51
Fráfarandi ritari Sjálfstæðisflokks líkir flokk sínum við suðupott sem stundum sjóði uppúr. Nær væri að tala um þann flokk sem naglasúpu, þar sem flokkurinn lætur einungis naglann í súpuna og treystir á aðra með önnur bragðefni, svo súpan verði æt.
Á hátíðisdögum, eins og flokkráðsfundi flokksins, eru menn orðglaðir. Sumir tala um að hægri menn séu glaðari en þeir sem til vinstri eru og vel getur það verið. Þar er þó fjarri því hægt að nota Sjálfstæðisflokk sem viðmið, enda komin svo langt til vinstri að VG má fara að vara sig. Merki þess liggja allstaðar en kannski ekki síst innan ríkisstjórnarinnar, þar sem skattabrjálæði hefur yfirtekið þingmenn flokksins. Og n.b. þetta brjálæði var komið yfir þingmenn hans áður en til samstarfs við VG kom, svo ekki er hægt að kenna þeim um.
Hinn nýi ritari flokksins er lítt skárri en forveri sinn, talar fögrum orðum á þessari "hátíðarstund" Sjálfstæðisflokks. Megin stefið í máli hins nýja ritara, fyrir utan sjálfshólið, er að hann muni standa vörð landsbyggðarinnar. Þvílíkt dómadags bull! Það var einmitt hinn nýi ritari Sjálfstæðisflokks sem í stóli samgönguráðherra, kom fram með enn frekari skattlagningu á landsbyggðafólk, í formi vegskatta. Þar lá allt undir og engum skildi hlíft. Þá má ekki gleyma undirlægju hans fyrir formanninum við afgreiðslu op3, sem hann nú fær goldið fyrir með embætti innan flokksins. Svo kvartar hann undan litlu fylgi flokksins.
Vissulega er fylgi Sjálfstæðisflokks dapurt, þ.e. fyrir þá sem enn fylgja flokknum. Ástæða þess fylgistaps er einföld, kjósendur vilja að þingmenn standi í lappirnar, að þeir geri það sem þeir bjóðast til að gera, eða a.m.k. reyni að berjast fyrir þeim málum. Það nægir ekki að tala digurbarkalega á hátíðarstundum, en leggja síðan hendur í skaut um leið og hátíðinni líkur. Kjósendur vilja ekki slíka stjórnmálamenn og því hrinur fylgi þeirra flokka þar sem slíkt er ástundað.
Menn uppskera það sem þeir sá til!
![]() |
Sjálfstæðisflokkurinn eins og suðupottur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Honum til minnkunar
10.9.2019 | 22:27
Forseti lýðveldisins setti enn niður í ræðu sinni við setningu alþingis. Gjá hefur myndast milli þings og þjóðar og dýpkaði heldur þegar forsetinn ákvað að leggja blessun sína yfir meðferð alþingis á svokölluðu orkupakka máli. Því máli sem rýtinginn rak milli þings og þjóðar. Í þessari ræðu sinni við setningu alþingis hafði forsetinn tækifæri til að skýra fyrir þjóðinni hvers vegna hann valdi þá leið, en kaus þess í stað að tala um öfga og útúrsnúninga og vísar þar orðum sínum til þeirra á alþingi sem tóku afstöðu með þjóðinni. Þetta var óþarfi hjá forsetanum en hans verkefni á að vera að sameina þjóðina, ekki sundra henni. Til þess verks höfum við þá 63 þingmenn sem sitja á alþingi.
Það er orðið nokkuð öfugsnúið þegar það þykir vera öfgar að vilja standa á rétti eigin þjóðar, að það skuli vera talið merki um einhverskonar þroska að vilja fórna tilverurétti sínum og sinna. Hver þjóð á að hugsa um eigin hag og borgara sinna fyrst og síðan að koma öðrum þjóðum sem minna mega sín til hjálpar. Viðskipti leiða síðan af sér afrakstur slíkrar tillögunnar.
Frá endurreisn lýðveldisins og fram undir síðustu aldamót hagaði íslenska þjóðin sér á þann veg og átti í góðum samskiptum við flestar eða allar þjóðir heims. Viðskipti okkar gengu nokkuð vel, fyrir utan tímabíl er við vorum að færa landhelgi okkar út, en þá sneru okkar næstu nágrannar við okkur baki um tíma. En aðstoð fékkst á þeim tíma frá löndum sem voru okkur fjær. Þessi samskipti við okkar nágranna löguðust þó fljótt aftur og fátt sem skyggði á. Við vorum sjálfstæð þjóð og réðum okkar málum frami fyrir öðrum þjóðum heims. Það var ekki fyrr en á síðasta áratug síðustu aldar, sem alþingi ákvað að tengja Ísland frekari böndum við ESB, án samstarfs við þegna landsins, sem þetta tók að breytast til hins verra. Þetta kalla sumir alþjóðahyggju og telja hana merki þroska og alls hins góða. Andstæða alþjóðahyggjunnar er sjálfstæðishyggja. Í hugum sumra eru þessar tvær stefnur ósamrýmanlegar, þó vissulega þær geti hæglega setið hlið við hlið. En fyrst og fremst verður það að byggja á virðingu fyrir sjálfstæði hverrar þjóðar og valdi hennar til að ráða sínum málum sjálf.
Orkupakki 3 frá ESB er enn einn bautasteinninn til alþjóðahyggjunnar, þar sem hluta af sjálfstæði okkar er fórnað. Það er skylda alþingis að standa vörð Þjóðarinnar, sama hversu alþjóðasinnaðir þingmenn eru og það er einnig skylda forsetans að standa vörð um sjálfstæði þjóðarinnar. Þegar upp kemur staða þar sem efast er um hvort sjálfstæði sé fórnað, skal forsetinn grípa inn í. Það er hans skylda, reyndar eina skyldan sem einhverju máli skiptir. Þar á ekki að þurfa að leggja fram neina sönnun, einungis grun! Þingmenn og forseti eru kjörnir til skamms tíma og hafa enga heimild til að fórna sjálfstæðinu á einn eða neinn hátt. Þeir hafa heldur ekki heimild til að framkvæma stjórnarathafnir sem veikt geta sjálfstæðið eða leitt til þess að einhverjum detti til hugar að það hafi veikst. Þetta vald hefur þjóðin ein!!
Forsetinn er eini varnagli þjóðarinnar gegn yfirgangi og einræðistilburðum alþingis og er ætlaður til þess. Vera varnagli fyrir því að hér geti komið upp svipuð staða og gerðist m.a. í Þýskalandi, á fjórða áratug síðustu aldar, þegar þjóðkjörin stjórn náði að sölsa undir sig alla stjórn landsins og stofna einræðisríki þar sem mannréttindi voru gerð að engu. Forsetinn á að hafa vit til að greina þegar gjá myndast milli þings og þjóðar og kjark til að grípa inní með tilheyrandi aðgerðum. Það liggur síðan í hlutarins eðli að í framhaldinu er þjóðinni gert að ákveða sjálf hvort hún er sammála alþingi eða hvort hún hafnar stjórnarathöfn þess. Þannig getur forsetinn verið frjáls frá því að taka afstöðu til tiltekins máls, heldur færir valdið til þjóðarinnar.
Núverandi bóndi á Bessastöðum valdi að taka afstöðu og ítrekaði hana frammi fyrir þjóðinni við setningu alþingis. Það er honum til minnkunar.
![]() |
Óvissa annað orð yfir framtíð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fáfræði stjórnmálamanna
4.9.2019 | 07:21
Björn Bjarnason heldur því fram í pistli sínum að "atlagan að ees hafi mistekist" og á þar við atkvæðagreiðslu um op3.
Þetta er stór misskilningur hjá Birni, andstaðan gegn op3 var hjá flestum vörn fyrir ees samningnum, sem nú hefur tapast. Eftir samþykkt op3 er fátt eftir en barátta gegn ees.
Við sem alla tíð höfum verið andsnúin þeim samning, fengum því afhent vopn í hendur, til baráttu gegn ees, afhent á silfur fati frá stjórnvöldum. Fylgið gegn ees mun stór aukast þegar op3 fer að bíta og þess er skammt að bíða, því miður.
Mánudagurinn 2. ágúst mun verða í mynni hafður og stjórnmálaskýrendur og sagnfræðingar framtíðar eiga eftir að nota aðgerðir alþingis þann dag sem kennsluefni í fáfræði stjórnmálamanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kjarkleysi, getuleysi og undanlátsemi
1.9.2019 | 07:51
Austur í Öræfum hélt VG flokkráðsfund um helgina. Á fundinum hélt formaður flokksins ræðu, eins og tíðkast á slíkum fundum. Í þessari ræðu sinni, undir kjörorðinu "þora, geta og gera", fór formaðurinn um víðan völl, ræddi um stefnu flokksins í flestum málaflokkum. Af fréttum að ráða var sem þar færi stjórnmálamaður í atkvæðaleit, eins og hún væri komin í einhvern kosningaham, en ekki starfandi forsætisráðherra sem alla ábyrgð ber á stjórn landsins.
Á þessum fundi voru auðvitað samþykktar ýmsar ályktanir. Sú sem mest kom á óvart var ályktun um orkumál, en hún hljóðaði upp á að hætt yrði við áform um sölu á orku til útlanda um sæstreng. Þessi ályktun skítur nokkuð skökku við, af tveim ástæðum.
Í fyrsta lagi vinnur ríkisstjórn Katrínar að því hörðum höndum að Alþingi samþykki orkupakka 3 frá ESB, en hann færir vald yfir orkunni frá ríkisstjórn og þingi yfir til yfirþjóðlegra stofnana. Hvernig þetta tvennt fer saman , að færa valdið yfir orkunni frá landinu en á sama tíma að ætla að halda því valdi, er með öllu óskiljanlegt. Ekki hefur komið fram í fréttum hvernig umræðan um þessa ályktun fór fram, hver flutti hana eða hvaða skoðun fundarmenn höfðu um hana. Hvort þarna eru skilaboð frá flokknum til formannsins að hætta við áform um samþykkt op3.
Í öðru lagi er þessi ályktun nokkuð umhugsunarverð. Í umræðum á Alþingi um op3 hafa stjórnarliðar klifað á því trekk í trekk að ekki standi til að leggja sæstreng til annarra landa. Hvernig er hægt að hætta við það sem ekki er ætlunin að gera?! Kannski forsætisráðherra skýri það fyrir okkur velsælum kjósendum!
Allt tal um þor, getu og framkvæmd er því sem hjómið eitt. Í samskiptum stjórnvalda við erlend öfl opinberast kjarkleysi, getuleysi og undanlátsemi!
![]() |
Þurfum alltaf að bera loftslagsgleraugun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Vatnshausar og vindhanar
30.8.2019 | 08:25
Það er hreint með ólíkindum að hlusta þingmenn og suma fræðimenn ræða un orkupakka 3. Það er eins og þeir skilji ekki, eða vilji ekki skilja eðli málsins. Öll rök andstæðinga op3 er afskrifuð, sama hver eru. Ýmist eru þau talin rugl, stundum að þau skipti ekki máli og einstaka menn reyna að halda því fram að sem sjálfstæð þjóð þá munum við ávallt hafa síðasta orðið. Þetta á sérstaklega við þegar rætt er um frum ástæðu þess að ESB samdi þessa tilskipun, flutning á orku milli landa. Þar hafa menn gengið svo langt að telja til hafréttarsáttmálann, sér til stuðnings.
Eðli tilskipunar ESB um 3 orkupakkann er einfalt, eins og með allar tilskipanir frá ESB. Eðlið er að framselja eða deila valdi. Um það snúast allar tilskipanir ESB. Þær eru settar fram til að samræma hluti milli aðildarlanda ESB/EES og slíka samræmingu er ekki með nokkru móti hægt að ná fram nema öll aðildarlöndin deili sjálfstæði sínu um viðkomandi málaflokk, um það sem tilskipunin segir. Þetta á einnig við um op3. Öll lönd ESB geta sótt um undanþágu frá hluta slíkra tilskipana, þó sjaldnast slíkar undanþágur séu veittar. Lönd EES hafa einnig möguleika á slíkum undanþágum gegnum sameiginlegu EES nefndina. Öll löndin þurfa þó að gera þetta eftir ákveðnu kerfi, ESB löndin við samþykkt tilskipunarinnar á Evrópuþinginu og EES löndin gegnum sameiginlegu EES nefndina. Ekkert land getur sett sér sjálft lög um einhverjar undanþágur, enda væri ESB þá fljótt að flosna upp.
Af sömu sökum eru lög og reglugerðir ESB æðri öðrum lögum einstakra aðildarlanda og sama gildir um þau lög og reglur sem sett eru í löndum EES vegna tilskipana sem þau samþykkja. Að þingmenn skuli ekki skilja þessa staðreynd, sem reyndar hefur svo oft reynt á, bæði hér á landi sem og í öðrum löndum ESB/EES, stappar furðu!
Þegar þjóð framselur, deilir eða afsalar sér einhverju valdi, hefur hún ekki lengur sjálfstæði á því sviði. Þetta er deginum ljósara og ætti að vera öllu sæmilega vitibornu fólki ljóst.
Með orkupakki 3 afsala þær þjóðir sem hann samþykkja yfirráðum yfir orkuflutningi milli landa. Það segir sig sjálft að þar er verið að færa valdið um hvort eða hvenær sæstrengur verði lagður til tengingar Íslands við Evrópu verði. Alþingi mun engu ráða og það mun ekki koma Hafréttarsáttmálanum við á nokkurn hátt. Alþingi hefur þá framselt, deilt eða afsalað sér (eftir því hvaða orð menn vilja nota) þeirri ákvörðun. Til að framfylgja þessu var stofnað sér embætti innan ESB, eins konar orkustofnun ESB eða ACER. Sú stofnun mun einungis þurfa að svara framkvæmdarstjórn sambandsins. Í hverju landi er síðan settur á stofn Landsreglari, Orkustofnun mun verða breytt í Landsreglara hér á landi, sem einungis þarf að svara ACER, reyndar gegnum ESA í löndum EES. ESA hefur hvorki þekkingu né vald til að gera athugasemdir við skipanir frá ACER, mun einungis koma þeim áfram.
Ef deilumál kemur upp um framkvæmd tilskipunarinnar, mun sú deila verða leyst á sama vettvangi og önnur lög hér á landi, sem til eru komin vegna tilskipana frá ESB, fyrir efta dómstólnum. Það er eðlilegt, þar sem við höfum jú framselt, deilt eða afsalað okkur valdinu yfir málinu, líka dómsvaldinu.
Að stjórnvöld skuli halda til streitu þessu máli er hreint með ólíkindum. Þau segjast ætla að setja fyrirvara, að taka einungis upp hluta tilskipunarinnar, en samt að samþykkja hana alla! Er ekki allt í lagi í kollinum á þessu fólki?! Ef það er virkilega vilji til að fá undanþágur, þá að sjálfsögðu á að fara þá leið sem fær er, einu réttu leiðina og senda pakkann aftur til sameiginlegu nefndarinnar. Þar er vettvangurinn til að sækja undanþágur, ekki Alþingi Íslendinga, né nokkuð annað þjóðþing þeirra ríkja sem undir tilskipunina falla.
Það er virkilegur efi í huga manns að stjórnarliðar meini virkilega það sem þeir segja, að þeir viti að heimatilbúnar undanþágur eru ekki pappírsins virði. Hvenær hafa þessir þingmenn verið spurðir um hug sinn til sæstrengs? Aldrei. Þó hafa sumir ráðherrar talað fjálglega um að slíkur strengur gæti orðið þjóðinni til heilla. Hvernig? Það hefur enginn getað sagt.
Því styrkist sá grunur að stjórnvöld séu vísvitandi að samþykkja op3 til þess eins að koma á sæstreng. Það er allt klárt til slíkrar lagningar og búið að fjármagna hana. Víst er að sumir ráðherrar og kannski einhverjir þingmenn munu hafa beinan hagnað af tengingu Íslands við hinn stóra og "góða" raforkumarkað í Evrópu.
Þegar þeir hrökklast af þingi, í næstu kosningum, munu sumir fá viðurnefnið vatnshausar og aðrir vindhanar.
![]() |
Umræðum um þriðja orkupakkann lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Eru ráðherrar ekki með heilli há?
28.8.2019 | 16:38
Í umræðum á Alþingi var samgönguráðherra inntur svara um hvort hann hefði ekki áhyggjur af stöðu íslenskrar garðyrkju, komi til samþykktar op3.
Í stuttu máli svaraði ráðherrann því að orkuverð hefði ekki hækkað svo mikið, að mesta hækkun hefði orðið vegna flutnings orkunnar. Hann nefndi að garðyrkjubændur fengju niðurgreiðslu á orkuflutningi og bauð upp á frekari umræður um hvort auka ætti þær. Að lokum ítrekaði ráðherrann að þetta kæmi ekki orkupökkunum við, þetta væru íslensk lög.
Er ráðherrann virkilega svo fáfróður um málið?! Hefur hann ekkert kynnt sér um hvað op3 snýst, eða um hvað op1 og 2 snerust?
Með op1 var sett fram krafa um skiptingu orkufyrirtækja upp í framleiðslu, flutning og sölu. Við þessa breytingu hækkaði orkureikningur landsmanna, bæði vegna þess að kerfið varð dýrara í framkvæmd, þar sem nú sinna þrjú fyrirtæki því sem eitt gerði áður og einnig vegna þess að við stofnun Landsnets var aukinn kostnaður færður frá framleiðslu yfir til flutnings. Því þurfti að auka niðurgreiðslur til stórnotenda og dreifbýlis. Því eru þessar hækkanir og auknu niðurgreiðslur bein afleiðing af op1, þó vissulega lögin sem ákváðu niðurgreiðslurnar séu íslensk.
Við samþykkt op3 mun þetta breytast nokkuð. Landsnet mun ekki lengur hafa heimild til að ákveða sjálft með hvaða hætti eða hvort orkufyrirtæki sem stofnuð verða, t.d. vindmilluskógar, verði tengd landskerfinu, heldur ber skylda til að gera slíkt. Þá er skýrt tekið fram í op3 að þann kostnað beri Landsneti að setja inn í sínar verðskrár. Orkustofnun, verðandi undirfyrirtæki ACER, mun hafa eftirlit með framkvæmdinni og ef einhver meinbugur er á, mun málið kært. Þetta mun leiða til mikillar hækkunar á flutningskostnaði orkunnar og við neytendur þurfum að greiða, einnig garðyrkjubændur. Þá er tekið til í op3 að ekki sé heimilt að niðurgreiða orkuverð eða flutning, þannig að ekki verður annað séð að jafnvel þó enginn strengur verði lagður, muni orkuverð hækka verulega, sérstaklega hjá þeim sem hafa verið að fá einhverja lækkun í formi niðurgreiðslna á flutningi.
Mann rekur í rogastans að hlusta á ráðamenn tala með þeim hætti sem ráðherra gerði og veltir virkilega fyrir sér hvað veldur. Við vitum að nokkrir þingmenn og ráðherrar hafa beinan persónulegan hag af samþykkt op3, en það á vissulega ekki við um fjöldann, eða hvað?
![]() |
Alþingi samþykki ákvæði um auðlindir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það er ekkert hlægilegt við að fórna sjálfstæði heillar þjóðar
28.8.2019 | 13:18
Rafstrengur milli Íslands og meginlands Evrópu mun koma, bara spurning hvenær. Þegar sú stund rennur upp, skipir öllu fyrir okkur sem þjóða að hafa allt vald yfir öllum þáttum orkunnar okkar, framleiðslu, flutning og sölu. Það er því grátlegt, svo ekki sé meira sagt, að Alþingi Íslendinga skuli vera að koma því svo fyrir að það vald verði skert eða jafnvel afnumið með öllu.
Samþykki Alþingi orkupakka 3 frá ESB mun lagning á slíkum streng verða fyrr en seinna. Op3 er jú saminn og ætlaður til stjórnunnar á flutningi orku milli landa. Strax við samþykkt op3 verður stofnað nýtt embætti, eins konar landsreglari. Ríkisstjórnin hefur gefið út að Orkustofnun muni taka það verk að sér. Þetta embætti mun ekki hlíta valdi Alþingis eða ráðherra, heldur ACER, yfirstofnun ESB um orkumál. Vegna veru okar í EES mun þó verða settur einn milli liður, ESA, sem mun taka við skipunum ACER og koma þeim til Orkustofnunar. Þarna er klárlega verið að færa vald úr landi og það hlýtur að teljast brot á stjórnarskrá. Að auki munu öll mál sem ágreiningur kemur um, verða dæmd fyrir EFTA dómstólnum. Því er einnig verið að færa dómsvald úr landi, sem einnig telst brot á stjórnarskrá. Ríkisstjórnin hefur ekki andmælt þessu en telur þessi atriði minniháttar.
Þegar kemur að öðrum málum tilskipunarinnar hefur ríkisstjórnin tekið þá ákvörðun að þeim skuli frestað, þar til strengur hefur verið lagður og að sú ákvörðun muni verða í höndum Alþingis. Ég veit ekki með þingmenn, en fyrir aumum almúganum gengur þetta einfaldlega ekki upp. Annað hvort afsalar þú þér einhverju eða ekki. Lögmenn hafa hins vegar verið á öndverðum meiði um hvort þessi ætlun ríkisstjórnarinnar gangi, en það kemur vart á óvart. Lögfræðingar eru jú menntaðir í að flækja lögin sem mest og eru sjaldnast sammála. Á því lifa þeir og launaður lögfræðingur velur jú alltaf að verja málstað þess er borgar. Því ætti kannski að leggja eyrun við þegar lögfræðingur sem ekki fær borgað fyrir sitt álit, gefur það út.
Þá er ljóst að jafnvel þó þessi ætlun ríkisstjórnarinnar stæðist, er einungis um frestun að ræða og á endanum mun öll stjórn orkumála færast úr landi. Það er jú kosið til Alþingis á minnst fjögurra ára fresti og ekki fjarlægt að ætla að yfirlýstir ESB flokkar muni á einhverjum tímapunkt komast til valda og þá verður fjandinn laus.
Velji þingmenn hins vegar að nýta þá fáu kosti sem EES samningurinn gefur okkur og vísa málinu aftur til sameiginlegu EES nefndarinnar, munum við sjálf getað ráðið hvort eða hvenær sæstrengur verði lagður. Þegar sú stund rennur upp munum við sjálf ráða verði orkunnar og því magni sem við kærum okkur um að selja úr landi. Við munum áfram ráða framleiðslu, flutningi og sölu orkunnar okkar. Orkustofnun verður þá áfram undir stjórn Alþingis og ráðherra og öll deilumál sem upp kunn að koma á þessu svið, munu verða leyst fyrir íslenskum dómstólum. Við munum áfram verða sjálfstæð þjóð.
Þessa leið, að vísa máli aftur til sameiginlegu EES nefndarinnar, telur formaður utanríkismálanefndar vera "handbremsu", en er í raun bara hluti af þeim samningi sem Alþingi nauðgaði gegnum þingið þann 12. janúar 1993, með minnsta mögulega meirihluta. Þann meirihluta var hægt að berja saman með því að telja þingmönnum trú um að aldrei kæmi sú staða að gengið yrði nærri stjórnarskránni og að í samningnum væri skýr ákvæði um að hægt væri að vísa málum aftur til sameiginlegu nefndarinnar, ef Alþingi kysi svo. Reyndar voru orkumál utan þess samnings í upphafi, ásamt landbúnaði og sjávarútvegi. Nokkuð er víst að ekki hefði náðst meirihluti á Alþingi án þessa. Ef þingmenn hefðu haft grun um hversu víðtækt brot á stjórnarskrá hann hefði för með sér, ef ekki hefði verið ákvæði í samningnum um að snúa mætti til baka einstökum tilskipunum, ef þingmenn veldu slíkt og ef minnsti grunur hefði verið um að orkumál ættu eftir að verða hluti þessa samnings, er ljóst að stór meirihluti þingmanna hefði fellt hann, í upphafi árs 1993. Þeir sem muna umræðuna vita þetta, þó unglingar nútímans, sem ekki þekkja Ísland utan EES þykist vita betur.
Þingmenn Miðflokksins hafa verið duglegir við að standa vörð sjálfstæðis okkar. Þeim tókst í tvígang að fresta afgreiðslu tilskipunar ESB um orkumál, er kallast op3. Með elju þeirra á Alþingi varð það úr að ríkisstjórnin ákvað að setja fyrirvara um op3, í raun að samþykkja tilskipunina en fresta upptöku hennar að mestu leiti og telur sig þannig vera að koma í veg fyrir brot á stjórnarskrá. Ferðamála- iðnaðar- nýsköpunar og dómsmálaráðherra kallaði þetta "að koma til móts við andmælendur orkupakkans". Því miður kemur þetta ekki í veg fyrir brot á stjórnarskránni. Eins og áður segir mun sá hluti sem stjórnvöld ætla að taka upp strax, vera brot á stjórnarskránni og að auki eru litlar líkur á að þeir svokallaðir fyrirvarar muni halda gagnvart EFTA dómstólnum. Ástæða frestunar málsins á Alþingi, í tvígang, var af nauðsyn en ekki góðmennsku stjórnvalda.
Í vor, þegar Miðflokksmenn stóðu vaktina á þingi, sáu aðrir þingmenn ekki ástæðu til að hlusta á mál þeirra. Því var salur þingsins stundum fámennur, jafnvel heilu sólahringana. Nú er umræðan hafin að nýju og þingmenn annarra flokka neyðast til að sitja í þingsal. Það merkilega er að þeir sem mest voru fjarverandi umræðuna á þingi vor, þykjast þó vita hvað sagt var og telja umræðuna nú vera endurtekningu. Þykir þetta jafnvel hlægilegt. Það væri gaman, eftir að þeir þingmenn sem nú ætla að samþykkja op3, standa frammi fyrir því hvað þeir hafa gert, að geta sagt "sá hlær best er síðast hlær".
En því miður verður fáum þá hlátur í hug, það er ekkert hlægilegt við að missa sjálfstæði þjóðarinnar!!
![]() |
Hlógu að ummælum Ólafs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Útrýming Arnarstofnsins?
27.8.2019 | 07:59
Örninn er stolt íslensku fuglaflórunnar. Það er því gleðilegt að stofninn skuli vera að eflast og stækka. Hins vegar er ljóst að um tímabundið ástand er að ræða, að stofn Arnarins mun falla mikið á næstu árum og vandséð að hann muni geta lifað af þær hremmingar sem hans bíða.
Breiðafjörður er kjörlendi Arnarstofnsins og flest óðul þar. Til stendur að reisa 86 vindmillur af stærstu gerð umhverfis botn fjarðarins, en vitað er að slík tól eru verulega skeinuhætt fuglum, sérstaklega stærri fuglum. Því má búast við miklum felli Arnastofnsins, eftir að þessir vindmilluskógar hafa verið reistir.
Hvar eru umhverfissamtökin hér á landi, af hverju heyrist ekkert frá þeim um málið. Vegagerð um syðri hluta Vestfjarða hefur verið í uppnámi í áratugi, vegna athugasemda þessara samtaka, m.a. vegna þess að vitað er um eitt Arnaróðal í hólma fyrir utan það svæði sem áætlað er að leggja þann veg. Það er einnig eitt Arnaróðal nánast inn á framkvæmdasvæði eins af þessum vindmilluskógum sem ætlað er að byggja upp, fyrir botni Breiðafjarðar!
Hvers vegna í ósköpunum heyrist hvorki hósti né stuna frá umhverfissinnum? Hvers vegna leggur ekki Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fyrrverandi framkvæmdarstjóri Landsverndar og núverandi umhverfis og auðlindaráðherra, eitthvað til málanna? Getur það verið vegna þess að kollegi hans í ríkisstjórn hefur hagsmuna að gæta?!
https://www.youtube.com/watch?v=cQo-quWlAoI
https://www.youtube.com/watch?v=QRSAvD8VAbI
![]() |
Arnarstofninn sterkur og 56 ungar á legg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ráðherrann og vifturnar hans
26.8.2019 | 11:18
Ómar Ragnarsson benti á í bloggi í gær að framleiðsla orku með vindmillum væri utan rammaáætlunar og því væri í raun allt landið undir í þeim efnum. Þetta er rétt hjá Ómari og ekki annað að sjá en einhverskonar gullgrafaraæði ráði nú för, er kemur að vindmillum. Þetta sést nokkuð vel þegar litið er vestur í Dali og á Barðaströndina. Þar eru hugmyndir lengst komnar, þó víðar um land sé verið að skoða hugsanlega kosti fyrir vindmilluskóga.
Fyrir vestan eru þrír kostir mest ræddir, upp á fjöllunum við Garpsdal, á Hróðnýjarstöðum við Búðardal og í landi Sólheima, fremst í Laxárdal, jörð í sameign barnamálaráðherrans, eiginkonu hans og föður ráðherrans. Samtals er verið að tala þarna um vindmillur sem afkasta eiga allt að 375MW. Til samanburðar er framleiðslugeta Búrfellsvirkjunar 370MW eftir stækkun og Fljótsdalsvirkjunar 690MW. Það er ljóst að þarna er verið að tala um svo mikla framleiðslugetu að útilokað er að ætla að selja það allt hér innanlands, sæstrengur út er frum forsenda þess að þessar hugmyndir hafi einhvern tilgang, bæði til að koma orkunni á markað og einnig til að orkuverð hækki svo einhvern arð verði hægt að ná út úr dæminu.
Af þessum þrem viftuvirkjanakostum vestra er einn lengst kominn. Þar er um að ræða 27 vindmillur með framleiðslugetu upp á 115MW, eða vel rúmlega tvær Hvalárvirkjanir. Um ár er síðan lokið var við að setja upp mikið og hátt mælimastur og komið fyrir lítil rellu á svæðinu til að mæla vindstyrk og vindáttir. Í sumar var svo lagður ljósleiðari á framkvæmdasvæðið og endar hann þar sem stjórnhúsi er ætlað að vera. Vegagerðin vinnur hörðum höndum að mælingu á styrk á þeim hluta vegakerfisins að svæðinu sem að henni snýr og leitar nýrra náma, til styrktar þess. Í raun er ekki annað að sjá en að framkvæmdir séu nú í biðstöðu, en væntanlega fer allt á fullan snúning jafn skjótt og Alþingi hefur samþykkt op3.
Sólheimarellurnar eru ekkert smá flykki, hæðin með spaða í efstu stöðu verður um 175 metrar, eða um 100 metrum hærri en rellurnar sem Landsvirkjun reisti fyrir ofan Búrfell. Undir svona flykki þarf góða undirstöðu og gert ráð fyrir að þvermál undirstöðu hverrar viftu verði 30 metrar. Því má gera ráð fyrir að steypumagnið sem flytja þarf upp á Laxárdalsheiðina muni getað slagað hátt í 200.000 tonn. Það eru nokkuð margar ferðir steypubíla! Áætlað er að vegakerfið sem framkvæmdaraðilinn þarf að leggja um svæðið sé um 26 km, af 6 metra breiðum vegi með fullu burðarþoli. Þar að auki þarf öflugt plan við hverja viftu, svo krani geti örugglega athafnað sig þar.
Það munu verða miklir flutningar samhliða þessari framkvæmd. Eins og áður sagði mun þurfa að flytja óhemju magn af steypu á svæðið. Hvaðan hún mun koma er ekki vitað en næsta alvöru steypustöð er í Borgarnesi, í 100 km fjarlægð. Þá þarf að koma viftunum og því sem þeim tilheyrir upp á heiðina. Líklega má ætla að ekki færri en 1000 full lestaða dráttarbíla þurfi til þess verks, jafnvel mun fleiri. Hvar skipa skuli upp herlegheitunum er enn óráðið, en í matsskýrslunni eru þrír staðir nefndir, Grundarfjörður, Grundartangi og Hvammstangi. Sá síðastnefndi hefur sannarlega þann kost umfram aðra að vegalengd er stutt, en þar er hvorki viðunandi höfn, athafnarsvæði við höfnina né nokkur aðstaða til að koma svona vörum á land og meðhöndla þær. Grundarfjörð má afskrifa strax, endurnýja þarf þá að fullu vegakerfið um Skógarströndina og vart er til fjármagn til þess í ríkissjóð. Eftir stendur Grundartangi, með alla aðstöðu og tækjabúnað sem þarf til að landa og meðhöndla þennan búnað. Vegalengdin er hins vegar nokkur, eða um 130 kílómetrar, aðra leiðina.
Mestur verður vandinn við að flytja spaðana á staðinn. Hver þeirra er nærri 68 m á lengd og koma þeir í heilu lagi, alls 81 stk. Vissulega er þetta gert erlendis, með erfiðismunum þó. Veðurfar hér og vegakerfi er þó á margan hátt ólíkt og gæti gert enn erfiðar um vik að flytja svo langan flutning. Við skulum átta okkur á að 68 metrar er langur farmur, eða sem svarar rúmlega ellefu 20" gámum. Samkvæmt umferðarlögum má heildarlengd ökutækis einungis vera 20 metrar, eða einungis tæplega einn þriðji af lengd spaðans. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þetta mun ganga.
Það er ljóst að um gífurlega framkvæmd er að ræða í landi barnamálaráðherrans og ljóst að umfjöllun um hana hefur verið í mýflugumynd. Reynt er að gera sem minnst úr verkinu og áhrifum þess, í tölvugerðum myndum er vifturnar gjarnan sýndar mun minni en þær í raun eru og annað eftir því. Á byggingartímanum mun verða verulegt rask á heiðinni, auk mjög mikillar þungaumferðar um landið. Eftir að byggingartíma líkur mun landið hafa breytta ásjónu. Risa vindmillur, alls 27, munu dreifast um heiðina, með vegakerfi á milli og ýmsum þjónustuhúsum. Væntanlega mun Landsnet þurfa að leggja nýja lína af svæðinu niður í spennuvirki í Hrútafirði, á okkar kostnað auðvitað. Sem dæmi þá eru vifturnar um 175 metrar á hæð, eins og fyrr segir. Landið sem þeim er ætlað að standa er einungis í um 200 metra hæð yfir sjávarmáli, svo ljóst er að sjónmengunin mun sjást víða.
Hvers vegna umhverfissamtök hafi ekkert látið til sýn heyra er með öllu óskynjanlegt, þó vissulega megi þakka einum mesta og fremst manni hér á landi á því sviði reyfa málið, þ.e. Ómar Ragnarsson. Umhverfisáhrif svona risa vindmilluskógar eru gífurleg, ekki minni en af sambærilegri vatnsaflsvirkjun. Útilokað er að endurheimta það land aftur, þó sumir tali fjálglega um slíkt. Það magn steypu, sem í dag er víst talin einstaklega umhverfishættuleg, er með ólíkindum.
Það er deginum ljósara að engum dytti til hugar að fara út í slíka framkvæmd nema því aðeins að markaðurinn verði stækkaður og orkuverð hækkað. Því bíður barnamálaráðherrann nú rólegur eftir atkvæðagreiðslunni, einungis um vika þar til hjólin geti farið að snúast hjá honum og viðskiptafélögum hans.
Strengurinn til meginlandsins mun sannarlega koma, það vita allir þeir sem munu greiða atkvæði mánudaginn 2. september. Skömmin mun öll þeirra sem samþykkja orkupakka 3.!!
![]() |
Hefðbundið fyrirkomulag á þingstubb |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)