Borgarafundur ruv
20.11.2019 | 12:33
Fyrir mér er borgarafundur eitthvað sem borgarar landsins koma að og ræðir málin, þ.e. að reynt er að finna sem víðastan skilning á einhverju máli sem snýr að þjóðinni. Því fagnaði ég þegar ruv ákvað að halda borgarafund um loftlagsmál. Málefni sem er umdeilt meðal þjóðarinnar og kannski enn umdeildara meðal loftlagssérfræðinga, sem við Íslendingar eigum því miður eitthvað lítið af. Ég settist því fyrir framan sjónvarpið, aldrei þessu vant, til að horfa á þennan þátt og fá sem flestar skoðanir um þetta málefni. Í stuttu máli var ég fyrir vonbrigðum, eða kannski réttara að segja að mér hafi ofboðið.
Í fyrstu virtist þetta ganga ágætlega, að vísu hallaði töluvert á efasemdarmenn hamfarahlýnunar, einungis einn gegn nokkrum öðrum trúuðum. En þessi eini, fyrrum veðurstofustjóri, lét ekkert vaða yfir sig, vissi hvað hann söng.
Næsta hóp var aftur öllu erfiðara á að horfa og hlusta. Enn var einungis einn efasemdarmaður gegn mörgum trúuðum, hallinn enn sá sami. Þarna var meðal annarra einn ungur vísindamaður sem í mínum huga hefur verið meðal þeirra bestu hér á landi, Sævar Ingþórsson, líffræðingur, sem greinilega taldi sig einan vita allan sannleika um loftslag. Reyndar datt engum til hugar að spyrja hann um áhrif aukins magns co2 á lífríki. Framkoma þessa manns var vægt sagt til skammar og víst að hann er ekki lengur marktækur í mínum huga. Ekki einungis kom hann fram með hroka og yfirgangi, heldur hélt hann fram beinum lygum. Talaði um að bara ef Ísland minnkaði hjá sér kolefnislosun í takt við ESB lönd, væri stór sigur unnin. Því miður hafa lönd ESB ekki enn náð að minnka hjá sér kolefnislosun, er enn að aukast og engin merki um að það breytist. Hins vegar getur vel verið að bókhaldslega sé um einhverja minnkun að ræða, þ.e. með kaupum á kolefniskvóta, m.a. héðan frá Íslandi. Raunverulega er þó um aukningu að ræða.
Þegar þessi hópur yfirgaf sviðið var trúðurinn við Tjörnina kallaður á svið. Þá stóð ég upp og slökkti á sjónvarpinu!
Lengi má manninn reyna. Þegar maður hélt að ruv hefði náð hámarki vitleysunnar bættist enn í ruslasarp stofnunarinnar!
En hver er loftlagsváin? Hvað er það sem málið snýst um?
Enginn vildi þó beinlínis segja að um vá væri að ræða, þó margir töluðu á þann veg.
Einn viðmælenda taldi að málið snerist um langlundargeð landsmanna, blandað pólitísku ívafi. Frekar þunn skýring.
Einfaldasta skýringin eru þó peningar, loftlagsvá er haldið á lofti vegna peninga og um það snýst málið. Þetta byrjaði snemma á áttunda ártugnum, reyndar með öfugum formerkjum, þá fólst loftlagsváin í því að ísöld væri að skella á. Á níunda áratugnum snerist þetta við, enda hafði hætt að kólna og byrjað að hlýna aftur. Önnur skýring á vandanum er að mælistokkurinn sem nýttur er til verksins er rangur. Fyrir það fyrsta er upphafsmæling frá einu kaldasta skeiði ritaðra sagna, lokum litlu ísaldar. Það hitastig sem þá var er sagt vera hið eina rétta, jafnvel þó vitað sé að oftar hafi verið mun hlýrra. Í öðru lagi er sífellt meira notast við mælingar gervihnatta, í stað mælinga á jörðu niðri, jafnvel þó mikið misræmi sé gjarnan þar á milli. Og ekki má gleyma að spálíkön, þessi sem hinir trúuðu veifa mest, eru jú líkön. Líkan gerir það sem því er ætlað, þ.e. hvernig það er hannað og hvaða upplýsingum er matað í það. Með líkönum má í reynd fá hverja þá niðurstöðu sem menn vilja.
Enginn efast um að hlýnað hefur á jörðinni frá lokum litlu ísaldar. Fyrst hlýnaði hratt fram undir seinna stríð og náði hiti jarðar þá svipuðum "hæðum" og nú. Næstu fjóra áratugi kólnaði aftur, þó hitastig hafi ekki farið eins neðarlega og í upphafi tuttugustu aldarinnar. Frá 1980 til aldamóta hlýnaði aftur mjög hratt en frá aldamótum hefur hitastig jarðar staðið nokkuð í stað. Allt byggist þetta á staðreyndum mælinga á jörðu niðri og hægt að nálgast þær hjá þeim stofnunum sem nýttar eru til áróðurs hamfarahlýnunar, s.s. NOAA. Með loftlagslíkunum hefur hins vegar tekist að sýna fram á mikla hlýnun framundan og jafnvel þó spár séu leiðréttar reglulega samkvæmt raun er enn haldið áfram að birta þær. Til dæmis er búið að halda því fram í um tvo áratugi að íshellan við norðurpól muni hverfa og ef þær spár hefðu ræst væri það hafsvæði búið að vera íslaust yfir sumarið í rúman áratug. Vissulega hefur ísbreiðan minnkað en enn þarf þó að notast við fylgd ísbrjóta æski flutningaskip að sigla norðurleiðina til Kyrrahafs.
Þá er tal um bráðnun Grænlandsjökuls nokkuð fyndið. Allir vita að snjór og ís bráðnar ekki fyrr en hitastig kemst upp fyrir frostmark. Á Grænlandsjökli er hitastig yfir sumarið á milli -15 og -20 gráður. Bráðnun getur því enganvegin átt sér stað. Jafnvel í sumar, þegar svokölluð hitabylgja er fór yfir Evrópu, kom hingað og endaði síðan á Grænlandsjökli, náði hitastig þar ekki upp fyrir frostmark. En vissulega hafa jaðrar hans minnkað frá þeim tíma er þeir voru mestir, um 1900.
Hvert rétt hitastig jarðar er, er útilokað að segja til um. Mælingar úr borkjörnum hafa sýnt fram á að mestan hluta jarðsögunnar hefur hiti verið hærri en nú og víst er að í byrjun tuttugustu aldar hafði ríkt eitt kalt skeið í nokkur hundruð ár, eitt kaldasta skeið sem jörðin hefur upplifað í þúsundir ára.
Kolefni í andrúmslofti er frum skilyrði lífs á jörðinni. Hvert magn þess skal vera getur enginn sagt, þó er vitað á sumum tímum jarðsögunnar hefur það náð 8000ppm,er í dag rétt undir 400ppm. Skiptar skoðanir vísindamanna eru um hvort co2 sé orsök eða afleiðing hita jarðar. Hitt má bóka að ef það lífsefnið væri svo hættulegt sem sumir halda fram, er ljóst að við værum ekki til í dag. Þá hefði jörðin og allt líf hennar að drepast þegar magn þess efnis náði hæstu hæðum og jörðin átt að steikjast.
Stjórnvöld eru mjög trúandi á loftlagsvá, svona eins og aðrir erlendir pólitíkusar. Aðgerðir þeirra eru þó frekar ómarkvissar. Væri svo að svo mikið muni hitna á jörðinni sem sumir halda fram, ætti auðvitað að vera að vinna að því að aðlagast breyttu loftslagi. Svo er þó alls ekki, það eina sem mönnum dettur í hug er skattlagning, eins og menn haldi að hægt sé að kaupa sig frá vanda. Jafnvel umhverfisráðherrann okkar, sem er einn mesti talsmaður loftlagsvár, stundar flugferðir erlendis eins og enginn sé morgundagurinn. Þegar hann er síðan gagnrýndur fyrir þessar ferðir, segist hann kolefnisjafna þær! Hvernig, kemur ekki fram en tvær leiðir hafa verið honum hugleiknar, endurheimt votlendis og plöntun trjáa. Mjög skiptar skoðanir eru um endurheimt votlendis og telja sumir vísandamenn að það virki öfugt, að í stað þess magns af co2 sem sparast komi í staðinn metangas, 20 falt hættulegri tegund. Plöntun trjáa er góð og gild. Þó tekur nokkur ár fyrir plöntuna að ná þeim þroska að hún geri eitthvað gagn í minnkun co2. Því stendur mengun umhverfisráðherra föstum fótum um nokkur ár.
Í dag er hitastig um einni og hálfri gráðu hærra en í lok síðustu ísaldar. Hvort hiti muni aukast eitthvað meira eða hvort aftur kólnar getur enginn sagt til um í dag. Sjálfur vil ég frekar meiri hita. Í það minnsta eru mjög skiptar skoðanir meðal loftlagsvísindamanna um málið, þó vísindamenn í lygum, þ.e. stjórnmálamenn, séu nokkuð samstíga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Réttarríkið Ísland?
19.11.2019 | 10:28
Þegar sjálfur forsetinn tjáir sig um órannsakaðar ásakanir er ekki annað hægt en rita nokkur orð. Ætlaði ekki að skrifa neitt um svokallað Samherjamál, enda hef ég ekki leyfi til að dæma einn né neinn. Það hefur þú ekki heldur lesandi góður og ekki heldur Helgi Seljan, hvað þá forsetinn.
Það er orðin stór spurning hvort við búum í réttarríki hér á landi. Hornsteinar réttarríkisins eru að hver telst saklaus uns sekt er sönnuð, að lögregla rannsaki, að saksóknari sæki og að dómstólar dæmi. Ítrekað hefur fréttastofa ruv, í samvinnu við blaðsnepil sem sérhæfir sig í gróusögum, brotið þessi gildi, stundum haft eitthvað satt fyrir sér en oftar farið með fleipur. Ætíð hafa menn verið fljótir að dæma, sér í lagi sumir stjórnmálamenn. Sjaldnast er beðist afsökunar þó í ljós komi að um gróusögu var að ræða og hafa sumar fjölskyldur þurft að eyða stór fé í að sækja sinn rétt fyrir dómstólum, eftir að fyrirtæki þeirra eða mannorð var drepið. Það ber nýrra við að forsetinn skuli skipa sér á sess með þessum dómurum götunnar.
Vissulega er það svo að víða má betur fara og á það við um ansi margt. Mútur geta verið í öðru formi en peningum og ættartengsl og vinskapur getur vart tæpast talist glæpur.
Nú veit ég auðvitað ekki hvort Samherji er sekur eða saklaus, það munu réttmætir valdhafar skera úr um. Þar til að því kemur er best að tjá sig sem minnst. Hitt er ljóst að þær upphæðir sem nefndar voru í þætti Helga Seljan eru af þeirri stærðargráðu að nánast er útilokað að þær geti staðist, að sú rannsókn sem fyrirtækið hefur verið undir til margra ára hafi ekki leitt í ljós eitthvað misdægurt. Fyrir nokkrum árum var Samherji tekinn til rannsóknar, ekki bara hér á landi heldur líka erlendis, einnig í Namibíu.
Og inn í þetta er síðan fléttað fiskveiðistjórnkerfinu. Vissulega er það ekki gallalaust. Kannski einn stærsti gallinn framsal kvóta, verk eins fyrrum sjávarútvegsráðherra sem nú hneykslast á Samherja. En það framsal hefur lagt í eyði heilu byggðalögin og þjappað kvótanum á fáar hendur. Þeir sem muna hvernig var áður, þ.e. meðan bæjarútgerðir og ríkisútgerðir voru við lýði, muna að þá var ekki mikið sem fiskveiðar gáfu í ríkissjóð. Sjóðstreymi hans varðandi fiskveiðar var yfirleitt á hinn veginn. En vissulega má laga það kerfi sem nú er notast við, þá hellst til að styrkja smærri útgerðir. Því miður hefur stjórnmálamönnum ekki tekist að koma fram með slíkar hugmyndir, þær breytingar sem nefndar hafa verið til þessa hafa ætið verið á þann veg að stóru útgerðirnar hefðu hagnast enn frekar. En þetta mál kemur ekkert við því sem nú er mest rætt og menn duglegastir við að dæma í.
Eins og áður segir þá geta mútur verið í öðru formi en peningum. Þetta dettur manni í hug þegar á markaðinn er nú send bók, rituð af þeim sem stjórnaði svokallaðri rannsókn á Samherja, um sama efni. Þessi bók kemur á markað um viku eftir þátt ruv, svo ljóst er að nokkuð er síðan hún var skrifuð. Víst er að þessi bók selst nú í tonnum talið og ljóst að höfundur mun hagnast verulega á henni. Eru það mútur? Ef ekki, hvað þá? Og hvað með að liggja á gögnum um glæp? Ber ekki öllum skilda til að færa slík gögn til tilþess bærra yfirvalda, svo skjótt sem þau koma í hendur fólks? Það hlýtur að teljast glæpur að leyna gögnum þar til vel stendur á hjá þeim sem sem með gögnin eru, jafnvel peningalegt spursmál!
Annað dæmi má nefna, en það er tilskipun ESB um stjórn orkumála (op3). Hvernig stóð á því að flestir stjórnarþingmenn, sem verið höfðu á móti samþykkt þessarar tilskipunnar, skiptu allir um skoðun á einum degi, eftir að forsætisráðherra annars lands hafði komið hingað í heimsókn. Skiptu einhverjir fjármunir eða eitthvað annað um hendur í þeirri heimsókn? Sé svo voru það vissulega mútur. Ekki var ruv neitt að skoða þetta, reyndar þvert á móti. Þó var þar um að ræða mál sem er af allt annarri og stærri gráðu. Mál sem snertir alla landsmenn hressilega um alla framtíð. Mun gera lífsskilyrði landsmanna mun verri.
Svona mætti lengi telja og vel er hugsanlegt að Samherji hafi greitt einhverjar mútur í Afríku. Svo getur allt eins verið víða og að fleiri aðilar hafi stundað svo. Til Afríku er erfitt að selja eða koma með fyrirtæki nema einhverjir peningar skipti um hendur. Og þetta á við víðar. Eru það t.d. mútur þegar fyrirtæki kaupa verslunarpláss í verslunum, fyrir sínar vörur? Þar getur oft verið um nokkra upphæð að ræða.
Þetta er spurning um hvort við viljum áfram lifa við réttarríki hér á landi, eða hvort við ætlum að færa rannsókn og saksókn til fjölmiðla og láta síðan dómstól götunnar sjá um að dæma. Það væri ansi langt skref afturábak.
![]() |
Óverjandi framferði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það sem máli skiptir
11.11.2019 | 00:02
Hvort verðið er of hátt eða ekki má endalaust deila. En það er þó ekki það sem skiptir máli, heldur hitt hvernig við ætlum að nota orkuna. Hvort við ætlum áfram að nýta hana til virðisauka hér innanlands eða hvort við viljum að virðisaukinn flytjist úr landi. Sjálf krónutalan fyrir hverja MW/h mun ætið verða deiluefni, seljanda þykir hún of lág, kaupandanum of há og svo koma alltaf einhverjir sem telja sig geta grætt á öðru hvoru og útvarpa speki sinni eftir því hvað hentar.
Það er ljóst að stóriðjan hefur fram til þessa greitt nægjanlega hátt verð fyrir orkuna og reyndar gott betur. Upp undir 80% raforkunnar sem hér er framleidd er seld stóriðjunni og það verð sem hún greiðir hefur dugað til að greiða allan virkjanakostnað á landinu. Reyndar gott betur. Þetta sýna ársreikningar orkufyrirtækjanna glöggt. Landsvirkjun er t.d. farin að skila vænum hagnaði þrátt fyrir að hækkanir á orkuverði til stóriðju séu rétt að taka gildi núna þessa dagana. Og ekki er hægt að tala um að almennir notendur séu að niðurgreiða orkuna, verðið hér á landi mun lægra en erlendis. Það er hins vegar nýmæli að Landsvirkjun hefur ekki boðið upp á svokallaða umframorku um nokkuð skeið, þá orku sem til þarf að vera vegna álagstoppa annarra notenda en stóriðjunnar. Frekar en að selja þá orku á lægra verði velur Landsvirkjun að láta þá orku ónýtast í kerfinu. Þetta bitnar ekki hvað síst á garðyrkjubændum. Ríkissjóður hefur aldrei þurft að leggja orkufyrirtækjum til eina krónu, allt frá því uppbygging kerfisins hófst fyrir alvöru á miðjum sjöunda áratug síðustu aldar. Sú uppbygging gat hafist með tilkomu stóriðju hér á landi.
Ekki ætla ég að elta ólar við ummæli forstjóra Landsvirkjunar. Hann virðist lokaður í eigin heimi. Jafnvel þó eðlilegt sé að hann keppist að sem hæstu verði, verður að segjast að skynsemi virðist alveg gleymt að planta sér í kolli hans.
Vill Bigg, formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur verið duglegur að benda á hvaða rugl er í gangi innan Landsvirkjunar. Fyrir það hafa sumir reynt að tengja hann við stóriðjuverin, sagt hann handbendi þeirra. Það er þó stór misskilningur, Villi er einungis að hugsa um þau þúsundir starfa sem eru í húfi á starfssvæði hans, enda hlutverk formanna verkalýðsfélaga að standa vörð um störf sinna félagsmanna. Forstjóri Landsvirkjunar undrar sig á að formaður verkalýðsfélags skuli hafa einhverja hugmynd um þá hækkun sem Elkem þarf að sæta, að um málið hafi átt að ríkja þagnarskylda. Það þarf helvíti skerta hugsun til að geta ekki áttað sig á hver sú hækkun er, svona nokkurn vegin, þegar þagnarskyldan náði einungis yfir krónutöluna en ekki prósentuna. Ársreikningur fyrirtækja er opnir, svo auðvelt er að reikna dæmið. En kannski er þetta of flókið fyrir forstjórann.
Annar maður hefur nokkuð blandað sér í umræðuna, Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri hins norska vindorkufyrirtækis Zephir Iceland. Titill mannsins segir kannski meira en nokkuð annað um hans áhuga á raforkuverði hér á landi, er vissulega að vinna vinnu sína. Þar að auki hefur Ketill verið einn helsti talsmaður þess að sæstrengur verði lagður úr landi og hefur ritað margar mis viturlegar greinar um það efni, auk þess að vera gjarnan kallaður fram af fjölmiðlum sem "ráðgjafi" á því sviði. Hafi fréttamaður viljað tefla fram fleiri sjónarmiðum um málið en forstjóra LV og formanns VLFA, skaut hann vel yfir markið. Harðari andstæðing þess að virðisauki orkuauðlindarinnar verði til hér á landi er sennilega vandfundinn. Hjá honum er eitt megin stef, verðið á raforkunni er aldrei nægjanlega hátt.
En aftur að virðisaukanum af raforkuframleiðslunni. Í stóriðjunni starfa kringum 4000 manns, beint. Þann fjölda má nánast tvöfalda til að fá út hversu margir hafa óbeina afkomu af stóriðjunni. Því til viðbótar má síðan bæta við að fjöldi fólks hefur afkomu af því að þjóna þá sem þjóna stóriðjuna. Því er ekki fráleitt að ætla að á milli 15 og 20.000 manns byggi afkomu sína að öllu eða einhverju leiti á stóriðjunni. Störf í stóriðju er vel borguð, laun þar yfirleitt nokkuð hærri en sambærilegum störfum annarsstaðar. Þessi launaþróun hefur smitast til þeirra fyrirtækja sem standa í beinni þjónustu við stóriðjuna. Allt þetta fólk borgar skatta og gjöld. Ef stóriðjan leggst af er vandséð að allir fengju vinnu. Margir yrðu upp á samþjónustuna komnir. Væru farnir að tálga fé úr sameiginlegum sjóðum í stað þess að leggja til þeirra.
Seint á síðustu öld kom í ljós að elsta stóriðjufyrirtækið hafði stundað bókhaldsbrellur, til að komast hjá skattgreiðslum hér á landi. Þetta var vissulega ljótur leikur og setti blett á starfsermi stóriðjunnar. Þetta atriði er eitt af því sem sumir nota sem rök gegn stóriðjunni, enn þann dag í dag. Halda því fram að stóriðjan stundi enn þennan leik. Ekki ætla ég að gerast dómari í því, en tel slíkt ákaflega ótrúlegt, einkum vegna þess að sennilega eru fá fyrirtæki sem eru undir jafn mikilli smásjá skattyfirvalda og stóriðjan. Hins vegar eru stóriðjufyrirtækin ein þau öflugustu í að að skila gjaldeyri inn í landið. Og gjaldeyrir verður ekki til af engu. Það er hætt við að draga þyrfti verulega úr innflutningi til landsins ef stóriðjan leggst af, að neysluþjóðfélagið fengi hressilegan skell. Jafnvel gæti komið upp skortur á kaffi í kaffihúsum miðborgarinnar!
Orkustefna Landvirkjunar er galin. Ekki bara að stóriðjan standi frammi fyrir því að taka ákvörðun um áframhaldandi veru hér á landi, heldur stendur garðyrkjan í ströngu í samskiptum við orkufyrirtækin. Sem fyrr segir hefur Landsvirkjun tekið af markaði svokallaða umframorku. Þessa orku var hægt að fá á mun lægra verði þegar orkunotkun var lítil í landskerfinu, gegn því að láta hana af hendi þegar orkunotkun var mikil. Þessa orku vill Landsvirkjun frekar láta detta dauða niður og fá ekkert fyrir hana, frekar en að nýta hana og selja á lægra verði. Þetta er svo sem ekkert gífurlegt magn, þar sem orka til stóriðju er mjög jöfn allan sólahringinn alla daga ársins. Því er þarna um að ræða umframorka sem verður að vera til í kerfinu til að taka á móti toppum í orkunotkun annarra notenda, þ.e. orkutoppar fyrir notendur um 20% orkuframleiðslunnar. Þó þarna sé um lítið magna að ræða, af heildar orkuframleiðslunni, þá hentar þetta vel garðyrkjunni og ýmsum öðrum stærri notendum utan stóriðjunnar. Í raun má segja að aðgengi að slíkri afgangsorku sé forsenda þess að stunda garðyrkju hér á landi. Bræðsluverksmiðjur hafa einnig orðið illa fyrir barðinu á þessari stefnu Landsvirkjunar. Fyrir nokkrum árum var gert stór átak í að breyta bræðsluofnum þeirra úr hráolíu yfir í rafmagn. Um svipað leyti og þeim breytingum lauk hætti Landsvirkjun sölu á umframorku. Flestar bræðslur keyra því meira eða minna áfram á olíu, svo fáránlegt sem það hljómar.
Því hefur verið haldið fram að Landsvirkjun vinni markvisst að því að hækka orkuverð til að koma stóriðju úr landi og hafi af sömu ástæðu hætt sölu umframorku. Að markmiðið sé að losa um svo mikið af orku hér innanlands að næg orka fáist í fyrsta strenginn til útlanda. Sé þetta rétt er ljóst að forstjóri og stjórn Landsvirkjunar er komin langt út fyrir sitt starfssvið, séu farin að taka pólitískar ákvarðanir. Við svo má ekki una.
Það mun reyna á þingmenn á næstu misserum. Ljóst er að formanni VLFA hefur tekist að koma þessu máli í umræðu. Atvinnumálanefnd alþingis hlýtur að kalla forstjórann fyrir sig, fá skýringar á málinu. Þá hlýtur viðkomandi ráðherra vera farinn að spá í að skipta út stjórn og forstjóra Landsvirkjunar. Þeir þingmenn sem láta það viðgangast að frekar verði horft til þess hvort hagnaður Landsvirkjunar verði látin ráða för í stað þess að fólk hafi atvinnu, þurfa ekki að leita eftir stuðningi í næstu kosningum. Þeirra verður ekki óskað.
Ef ekkert verður gert og jafnvel þó engar frekari hækkanir komi til, er ljóst að innan fárra ára mun stóriðjan leggjast af, með tilheyrandi skelfingu fyrir heilu byggðalögin.
Það sem máli skiptir er ekki hversu hár hagnaður orkufyrirtækja er, meðan þau reka sig ekki með tapi. Það sem máli skiptir er hvort við viljum láta virðisauka þessarar orkuauðlindar verða til hér á landi, eða hvort við viljum að aðrar þjóðir njóti hans. Það sem skiptir máli er hvort við viljum áfram hafa stóriðjuna og þau fjölmörgu störf sem henni fylgja, eða hvort við viljum hafa atvinnuleysi af stærðarfgráðu sem aldrei hefur þekkst hér á landi. Það sem skiptir máli er hvort við viljum áfram njóta þess gjaldeyris sem stóriðjan færir landinu, eða hvort við viljum frekar herða sultarólina.
![]() |
Er verðið óeðlilega lágt eða of hátt? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Handhafar sannleikans
7.11.2019 | 23:26
Hverjir eru handhafar sannleikans?
Ljóst er að við erum komin á hættulega braut þegar farið er að ræða að einhver einn sannleikur sé til. Svo er auðvitað ekki, hefur aldrei verið og mun aldrei verða. Hættulegast er þó þegar valdhafar vilja fara að hafa afskipti af því máli og stjórna því hvað er satt og hvað logið. Falsfréttir er orð sem oft heyrist og sumum er tamt. Gjarnan er það notað af þeim sem telja sig verða undir í einhverri orrahríð eða kosningu. Með tilkomu opins vettvangs eins og netmiðla hafa skapast þær aðstæður að fólk á auðveldara með að koma sínum skoðunum fram og auðvitað eru ekki allir sammála um hin ýmsu mál. Þar er þó ekki einhlítt að þeir sem hæst hafa eða þeir sem með völdin fara, hafi endilega rétt fyrir sér, þvert á móti.
Tal um falsfréttir fór fyrir alvöru á flug við nokkra atburði í stjórnmálasögu nútímans, þ.e. Brexit kosninguna og kosningu til forseta Bandaríkjanna, auk ýmissa annarra minni atburða. Það sem sammerkt er tali um falsfréttir í þessum atburðum er að þeir sem undir urðu, telja að falsfréttir hafi ráðið för. En hvað eru falsfréttir?
Alþingismaðurinn í viðhengdri frétt nefnir fjölmiðla, að koma megi í veg fyrir falsfréttir af þeirra hálfu með ríkisstyrkjum. Er það svo, verða fjölmiðlar sannari við það að verða háðir stjórnvöldum hverju sinni? Varla. Í það minnsta er ekki hægt að sjá að eini ríkisstyrkti fjölmiðillinn á Íslandi sé neitt sólginn í að segja satt. Kannski ekki beinar lygar sem koma þar fram en oft á tíðum frjálslega farið með staðreyndir eða þeim sleppt, þegar það hentar.
Talandi um kosningar og falsfréttir, þá er það auðvitað svo að fyrir slíka atburði reyna stjórnmálamenn að fiska sér atkvæði. Allan minn aldur hef ég upplifað að þá sé sannleikurinn ekki endilega hafður í fyrirrúmi. Svo var hér á árum áður, þegar kosningabaráttan fór fram á fundum vítt og breytt um landið og svo er enn í dag, eftir að hún hefur færst sífellt meira inn í fjölmiðla, bæði þá hefðbundnu sem og netmiðla. Sannleikurinn hefur aldrei verið að þvælast fyrir stjórnmálamönnum. Sjaldan hefur sannleikurinn þó verið meira afbakaður en þegar samflokksmaður Kolbeins Óttars afneitaði í þrígang ákveðnu máli fyrir kosningarnar vorið 2009 en stóð síðan að samþykkt þess nokkrum dögum síðar. Þær falsfréttir voru fluttar kjósendum í gegnum eina ríkisrekna fjölmiðil landsins, í beinni útsendingu kvöldið fyrir kjördag!
Það má lengi telja slíkar falsfréttir, langt aftur í tímann, langt aftur fyrir tilurð netmiðla. Þeir sem eru komnir á efri ár, sem muna þá tíma er ekkert internet var til, Ísland var utan EES og raforkan var svo óstabíl að hér varð rafmagnslaust í tíma og ótíma, vita þetta. Falsfréttir eru ekkert nýmæli. Reyndar var notað annað orð yfir slíka hegðun, kallaðist lygar. Fyrir kosningar var stjórnmálamönnum fyrirgefið slíka hegðun, enda fátt annað sem sumir þeirra áttu upp í erminni. Sumir kjósendur glöptust, en flestir höfðu vit til að greina á milli. Svo er enn í dag.
Sannleikur er eitthvað sem hver og einn trúir sjálfur. Það þarf ekki endilega vera að sannleikur sé eins milli manna, um sama málefni. Sér í lagi þegar rætt er um framtíðina. Í dag er til dæmis talinn sannleikur af mörgu fólki að fyrir dyrum standi hamfarahlýnun og að mannskepnan geti komið í veg fyrir hana. Er þetta sannleikur eða falsfrétt. Margir loftlagssérfræðingar telja þetta falsfrétt, eða lygar.
Í öllu falli er eitt alveg ljóst, stjórnmálamenn er fjarri því að vera handhafar sannleikans. Þegar þeir eru komnir út á þá braut að krefjast þess, þurfa kjósendur að vara sig!!
![]() |
Ábyrgð stjórnmálamanna er mikil |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég vil líka jarðgöng!!
26.10.2019 | 11:54
Ég vil líka jarðgöng. Veit reyndar ekki alveg hvar, en það ætti ekki að vera vandamál að finna eitthvað fjall til að bora í. Til vara myndi ég sætta mig við vegstokk. Hann mætti alveg vera bara yfir innkeyrslunni hjá mér.
Getum við ekki öll verið sammála um það Siggi?
![]() |
Vill jarðgöng á Tröllaskaga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sjálfskipaðir siðgæðisverðir
26.10.2019 | 08:28
Þeir leynast víða siðgæðisverðirnir, einkum þeir sjálfskipuðu.
Nú ætla svokallaðir dýravinir í Kína, sjálfskipaðir siðgæðisverðir um hag dýra, að ganga af göflunum og þykir meðferð hunda þar í landi vera hin versta. Lengi hefur verið vitað að hundar njóta lítillar virðingar þar í landi, þó hellst þegar þeir eru komnir á matardisk Kínverja.
En það er ekki matarvenjur Kínverja sem þessir sjálfskipuðu siðgæðisverði agnúast yfir, ekki sú leiðinda venja þeirra að leggja hunda sér til matar. Nei, það er vegna þess að einhverjum datt til hugar að lita hunda, gera þá líka pandabjörnum. Og það sem meira er að viðkomandi leifir fólki að klappa hundunum.
Sennilega eru flestir hundar í Kína sem vildu vera í sporum þeirra lituð, fá reglulega mat og gott atlægi og mikið af klappi og knúsi. Komast þannig hjá því að lenda á matardisk einhvers Kínverja.
![]() |
Pandahundarnir eru umdeildir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sauðhausar og sauðkindin
11.10.2019 | 22:06
Um nokkuð skeið hefur verið unnið markvisst gegn íslensku sauðkindinni. Ýmis rök telja menn sig hafa gegn þeirri fallegu skepnu og kannski ekki síður gegn þeim sem strögla við að reyna að hafa lífsviðurværi af henni, bændum.
Framanaf voru það greiðslur til bænda sem mesta umræðan snerist um, jafnvel þó slíkar greiðslur séu viðhafðar í öllum ríkjum hins vestræna heims. Ekki eru þær greiðslur þó til að fylla vasa bænda af aurum, heldur til að halda verðlagi matvara niðri. Það kostar nefnilega að framleiða kjöt og ef sá kostnaður á að lenda að fullu á neytendum þarf að hækka laun. Þeir sem hæst létu í þessari umræðu voru gjarnan þeir sem lifðu alfarið á greiðslum úr sameiginlegum sjóðum okkar landsmanna, ekki í formi styrkja til að framleiða verðmæti, heldur á fullum launum, stundum við það eitt að níða niður þá sem skapa verðmæti og það oft á tíðum á launum í hærri kantinum.
Svo færðist umræðan til og snerist um landeyðingu, að sauðkindin væri að éta upp landið. Enn eru til sauðhausar sem halda þessu fram, þó þeim vissulega fari fækkandi. Það er nú þannig að landnámsmenn fluttu tiltölulega fátt fé með sér frá Noregi, enda sauðkindin haldin fyrst og fremst til að nýta ullina. Svín og naut voru nýtt til kjötframleiðslu. Á þeim tíma var nokkuð hlýrra en nú og gróður því meiri. En svo tók að kólna og svínahald illmögulegt. Þá kom sauðkindin sér vel, enda harðgerðari skeppna. Engu að síður var fólk í landinu fátt og sauðfé einnig. Það var ekki fyrr en eftir miðja nítjándu öld sem fólki tók að fjölga, hægt í fyrstu en tók stökk er á leið 20 öldina. Sauðfé fjölgaði samtímis. Um 1980 náði sauðfé hámarki, fór yfir 800.000 fjár en hefur fækkað um helming síðan. Talið er að sauðfé hafi aldrei náð að komast yfir 30-50.000 kindur fyrr en á tuttugustu öldinni, lengst af verið undur 20.000 kindum. Landeyðing hefur aftur staðið yfir í aldir. Þar má fyrst og fremst kenna veðurfari og eldgosum, enda veðurfar hér á landi einstaklega hart í um 5-6 aldir, eða meðan litla ísöld stóð yfir. Í öllu falli er útilokað að svo fátt fé sem hér var á þeim tíma er landeyðing var sem mest, geti verið sökudólgurinn.
Og nú hafa postularnir sem predika gegn sauðkindinni fundið enn eina sökin, til að ásaka hana fyrir. Nú er það prumpið og ropið. Að íslenska sauðkindin sé svo mögnuð að henni muni takast að leggja af allt líf á jörðinni. Þessu er haldið fram í nafni hamfarahlýnunar og auðvitað hlýtur það þá að vera rétt. Það er nóg að nefna orðið hamfarahlýnun, þá má segja hvaða bull sem er!
En skoðum málið aðeins. Annað orð er sem fegursti söngur í eyrum glóbista, en það er "Parísarsamkomulagið". Þegar menn setja það orð í sömu málsgrein og hamfarahlýnun, breytast þeir í snillinga, ef ekki dýrlinga. Í þessu magnaða samkomulagi er talað um minnkun á koltvíoxíð CO2, í andrúmslofti. Og þar komum við að prumpi og ropi sauðkindarinnar. Samkomulagi byggir á viðmiðunartíma og síðan hvað CO2 skuli lækka mikið til annars ákveðins tíma. Þessi upphafstími er árið 1990 og lokaárið 2050, þannig að við erum nánast hálfnuð á vegferðinni. Þó eykst enn losun CO2 hér á landi, eins og reyndar í flestum eða öllum löndum er settu nafn sitt við þetta samkomulag. Eina ríkið sem hefur náð að minnka hjá sér losun CO2 er USA, þrátt fyrir að hafa dregið sig frá samkomulaginu.
Og þá er næst að skoða skaðræðisskepnuna sauðkindina. Eins og áður segir hefur losun CO2 aukist hér á landi frá 1990. Hins vegar má halda því fram að samdráttur í losun þessa lífgjafa hafi minnkað vegna sauðkindarinnar, um meira en 20% á sama tíma. Frá 1990 til 2017, en yngri tölur eru ekki enn útgefnar, hefur sauðfé fækkað hér á landi um 20%. Þar til viðbótar má nefna að innflutningur á kjarnfóðri hefur á sama tíma dregist saman. Öflun heyfanga hefur breyst og fleira má telja til. Því er ekki ofsagt að halda fram 20% minnkun á losun CO2 frá sauðfé, sennilega er talan þó nokkuð hærri. Erfiðlega getur verið að finna annan þátt þar sem slíkur árangur hefur náðst, hvort heldur er hér á landi eða erlendis.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ríki í ríkinu
9.10.2019 | 21:56
Opinberlega var farið að skoða lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands árið 2012. Fram að því var litið á menn sem töldu þetta kost, sem einhverskonar sérvitringa eða jafnvel ekki alveg með fulla fimm. Það er því ljóst að ef Landsvirkjun hefur fengið heimild til rannsókna á þessu sviði, mun sú heimild hafa verið gefin af ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu. Aldrei hefur þetta verið rætt á alþingi og því spurning hvort sú heimild hafi verið lögmæt, ef hún á annað borð var gefin. Kannski hefði þingmaðurinn frekar átt að leggja fram spurningu til ráðherra um hvort og þá hvenær slík heimild var gefin.
Það má líka furðu sæta að Landsvirkjun, fyrirtæki í eigu landsmanna, skuli vera stikk frí frá því að gefa upp hvernig fjármunum þess er varið og jafnvel komist hjá að svar þeim fulltrúum eigenda sem sitja á alþingi, um sama efni. Hafi fyrirtækið fengið slíka heimild, sem forseti alþingis getur kannski manna best svarað þingmönnum um, er það í sjálfu sér nógu slæmt, sér í lagi án aðkomu alþingis og umræðu út í þjóðfélaginu. Hitt er verra að Landsvirkjun skuli geta haldið leynd yfir þeim rannsóknum, valið að gefa út þær upplýsingar sem henta en haldið öðrum leyndum. Hver er þá áreiðanleiki þeirra rannsókna? Hvað annað er falið fyrir eigendum fyrirtækisins?
Það er ljóst að Landsvirkjun hefur verið í sambandi við væntanlega aðila um lagningu þessa strengs og kaupendur orkunnar. Þó hafa stjórnvöld ekki, svo vitað sé, gert neina samninga um lagninguna eða sölu orkunnar. Kannski forstjóri Landsvirkjunar sé búinn að ganga frá þeim smá málum og þegar það loks kemur fyrir alþingi verði afsökunin á sama veg og með op3, að málið sé komið svo langt að ekki verði aftur snúið.
Það er ljóst að endurskoða þarf stöðu forstjóra og stjórn Landsvirkjunar. Hvort sem heimild hafi verið gefin fyrir rannsóknum á sæstreng, eða ekki, er algjörlega út í hött að þetta fólk geti starfað sem ríki í ríkinu. Landsmenn eiga heimtingu á að fá að vita hver gaf leifi fyrir þessum rannsóknum, hvenær, hversu mikið þær hafa kostað fyrirtækið og þá um leið eigendur þess, hversu langt þessar rannsóknir eru komnar og síðast en ekki síst öll samskipti Landsvirkjunar við væntanlega aðila sem ætla sér að leggja strenginn.
Svona til að árétta þá er Landsvirkjun framleiðandi orku, ekki flytjandi. Því er í hæsta máta óeðlilegt að fyrirtækið sé að kanna flutning orkunnar til annarra landa. Það verkefni á að vera í höndum Landsnets, eftir að alþingi hefur tekið ákvörðun um slíkt, eða ACER. Í öllu falli eiga slíkar rannsóknir að vera opnar landsmönnum á allan hátt.
![]() |
Í stuttu máli er þetta óþolandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þeir hafa hæst sem ættu að sjá sóma sinn í að þegja
8.10.2019 | 20:31
Í kjölfar hrunsins var afskrifað lán sem sagt var í eigu eiginmanns Þorgerðar Katrínar. Svo vel vildi til að eiginmaður hennar hafði starfað við einn af föllnu bönkunum og fékk því sér meðferð. ÞKG var þingmaður á þessum tíma og varaformaður Sjálfstæðisflokks. Þó hún staðfastlega neitaði því að vita nokkuð um fjármál eiginmannsins, þá hrökklaðist hún af þingi með skömm og úr sæti varaformanns skömmu síðar, enda öllum ljóst að hjón vita yfirleitt nokkuð um fjárskuldbindingar hvors annars. Upphæð þessa láns var á við eitt þúsund meðallán íbúðakaupenda, á þeim tíma. Þeir þurftu hins vegar margir hverjir að færa bankanum húseign sína og sumir þóttust hafa sloppið vel með það eitt að verða öreigar! Þessi saga mun seint gleymast!
Því ætti Þorgerður Katrín að sjá sóma sinn í því að vera ekki að tjá sig í fjölmiðlum, af virðingu við þá sem misstu sína aleigu í kjölfar hrunsins, meðan hún sjálf hélt sínum.
Sómi ÞKG nær skammt, í stað þess að halda sig til hlés þá stofnaði hún nýjan stjórnmálaflokk, enda frami hennar innan þess gamla þrotin. Hún komst á þing og hefur verið helsti talsmaður þeirra sem vilja inngöngu í ESB, hvað sem það kostar.
Í viðhengdri frétt fer ÞKG hamförum, málar Bandaríkin sem verstu skúrka sem heiminn byggja og krefst að stjórnmálasambandi við þá verði slitið, fórni USA ekki slatta af unga fólkinu sínu í stríði, hinumegin á hnettinum. Ekki fyrir löngu síðan kom svipuð gagnrýni, en þá fyrir að Bandaríkin væru í stríði um allan heim!
Það er fleira sem frá ÞKG kemur í þessari frétt, fyrir utan að Bandaríkin séu upphaf og endir alls hins vonda. Hún nær að tengja þetta loftlagsmálum. Segir umhverfisstefnu Bandaríkjanna vera ógn við heimsbyggðina. Ef Bandaríkin menga svo mikið, sem hún segir, hvers vegna kallar hún þá eftir að þau stundi frekari hernað? Varla er það til bóta fyrir umhverfið?
Reyndar ætti hún að gagnrýna vini sína í Evrópu, fyrir slælega umhverfisstefnu, eða réttara sagt framkvæmd hennar. Þar eykst enn losun loftegunda sem kennd eru við hlýnun jarðar, meðan verulega hefur dregið úr henni í Bandaríkjunum. Vissulega drógu Bandaríkin sig úr svokölluðu Parísarsamkomulagi, ekki vegna þess að þeir vildu ekki minnka hjá sér mengun, heldur vegna þess að í því samkomulagi var ákvæði um að nokkur lönd þriðja heimsins, s.s. Indland og Kína, áttu að fá lausn frá greiðslu fyrir mengun. Og til að ná því fé var ætlast til að Bandaríkin myndu greiða fyrir þessar þjóðir. Sjóðinn varð jú að stofna, enda það helsta markmið Parísarsamkomulagsins. Mengun per se skipti minna máli.
Ef Þorgerður Katrín er svo umhugað um að fara í stríð við Tyrki, því talar hún þá ekki við vini sína í ESB. Þeir hljóta að sinna kalli hennar.
Kúrdar hafa mína samúð, en þeim verður ekki bjargað með hervaldi. Ljóst er að ef Bandaríkin færu í stríð við Tyrki munu Rússar skerast í leikinn. Þarna yrði langdrægt stríð sem allir munu tapa á, mest þó Kúrdar. ESB getur auðvitað lítið gert, bæði vegna viðskiptahagsmuna við Rússa og kannski fremur vegna þess að Tyrkir liggja með umsókn um inngöngu í sambandið.
Því eru viðskiptaþvinganir á Tyrki mun árangursríkari, auk þess að Kúrdar munu þá ekkert skaðast.
En kannski er Þorgerði Katrínu sama um Kúrda, kannski vill hún bara stríð.
![]() |
Vill endurskoða samskipti við Bandaríkin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvað ef?
29.9.2019 | 18:20
Hvað ef einkafyrirtæki myndi haga sér á sama veg og sveitarfélagið Vopnafjörður gerir gagnvart starfsfólki sínu? Held að flestir viti svarið. Hví er þá ekki sömu meðulum beitt gegn sveitarfélaginu, hví er það ekki kært fyrir undanskot launa?
Þegar launagreiðandi lætur undir höfuð leggjast að greiða laun og launatengd gjöld er slíkt kallað þjófnaður. Ef slík undanskot eru gagnvart ríkinu, þ.e. innheimtir skattar, stendur ekki á aðgerðum skattstjóra.
Er einhver munur frá hverjum stolið er?
Er einhver munur hver stelur?
![]() |
Blaut tuska í andlitið á tryggum starfsmönnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Græni lundinn
28.9.2019 | 08:07
Til hamingju Ómar, þú ert vel að þessari viðurkenningu kominn.
![]() |
Ómar fékk Græna lundann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lífsgæði
27.9.2019 | 11:54
Það nýjasta í öllu ruglinu sem yfir okkur dynur er að aukin skattheimta séu betri lífsgæði. Borgarstjóri er uppnuminn enda náð þeim merka áfanga að fífla stjórnvöld upp úr skónum og fengið þau til að fjármagna eitthvað fyrirbæri sem hann sjálfur veit ekki hvað er, hvað þá stjórnvöld. Stundum er það fyrirbæri kallað borgarlína.
En hvað er þessi borgarlína? Þegar stórt er spurt er oftast lítið um svör. Þó reyna flestir að klóra sig fram úr einhverju svari, en það á þó ekki við þegar spurt er um borgarlínu. Þar virðist enginn vita um hvað er rætt og fátæklegar útskýringar rekast allar hverjar á aðrar. En kannski þarf ekki að vita neitt um borgarlínu, þegar í boði eru á annað hundrað milljarðar má gera ýmislegt og það má sjálfsagt fá viðurnefnið borgarlína, jafnvel þó lítið sem ekkert breytist. Annað en aukin skattheimta.
Stjórnvöld hafa nú, án samráðs við alþingi, ákveðið að taka þátt í verkefni sem enginn veit hvað er né hvað kostar. Innritunargjaldið eru litlar 120.000.000.000 kr. eða eitthundrað og tuttugu milljarðar og skiptist þannig: Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu borga 12,5%, ríkissjóður 37,5% og þau 50% sem eftir standa skulu innheimt með vegsköttum. Alls skal því aukin skattheimta vera um 60 milljarðar króna, aðeins!
Samgönguráðherra virðist vera mikill spámaður, spáir því að þetta fyrirbæri sem enginn veit hvað er né hvað muni kost, muni stytta ferðatíma fólk um höfuðborgarsvæðið um 30-60 mínútur. Það segir mér að síðast þegar ég neyddist til að heimsækja höfuðborgina hefði ég verið að renna að húsinu mínu um svipað leiti og ég lagði af stað frá því. Ekki amalegt það.
Það dylst engum að miklar tafir eru í Reykjavík á álagstímum. Þess á milli gengur umferðin nokkuð ljúft, alla vega í samanburði við umferð innan borga erlendis. Það er líka staðreynd að umferðaslys eru mis algeng innan borgarinnar og til staðir sem eru hættulegri en aðrir. ´Það má vissulega ýmislegt laga í gatnakerfi borgarinnar og hið besta mál ef stefnubreyting verður á því sviði, að hætt verði að gera umferð erfiðari og tekin sú stefna að gera hana greiðfærari og hættuminni.
Áður en ákveðið er hversu miklu fé skal ráðstafað og áður en ákvörðun er tekin um stórkostlega skattheimtu, á auðvitað að kortleggja vandann, finna út hvar hann er stærstur og leita lausna til bóta. Vel getur verið að til þurfi 120 milljarða króna, en mun líklegra er að mun minna fjármagn dugi.
Varðandi svokallaða borgarlínu er ljóst að útilokað er að neyða fólk til að nýta sér almenningssamgöngur. Í um einn áratug hefur verið dælt fé úr ríkissjóð á hverju ári til þessa málaflokks, gagngert til að auka notkun fólks á strætó. Árangurinn af því verkefni hefur ekki skilað sér og engin ástæða til að ætla að svo muni verða þó það fjármagn hundraðfaldist. Fólk velur sér sjálft sinn ferðamáta og líklega geta margir tekið undir orð forsetans sem hann lét falla í fjölmiðlun á bíllausadeginum fyrir nokkrum dögum.
En samt munu einhverjir sjá mig á bíl í dag ef að líkum lætur; að komast með fjölskylduna með strætó á þá viðburði sem fyrir liggja um borg og bí væri miklum erfiðleikum bundið
Nokkuð hefur verið gert af sérbrautum fyrir strætó í höfuðborginni, til að greiða fyrir ferðum þeirra. Sjálfsagt má auka það eitthvað og vel má kalla slíkt borgarlínu, kjósi menn það. Það þarf ekki að sóa tugum milljarða í það verkefni. Vandi strætó er hins vegfar minnstur vegna tafa í umferð, vandinn liggur að stærstum hluta í því að þeir eru meira og minna tómir. Þar má vissulega bæta með því einu að nota minni og fleiri bíla. Þannig má fá örari ferðir sem gæti leitt til aukinnar notkunar. Það má líka nota orðið borgarlína um slíka aðgerð. Líklegt er að þeir 15 milljarðar sem borgin leggur fram sem stofnfé í klúbbinn mun duga vel fyrir þessum aðgerðum og öðrum þeim er þarf að bæta í gatnakerfi því er hún ræður yfir, enda þegar fengið greitt fyrir þær götur gegnum gatnagerðagjald. Ríkissjóður mun svo fjármagna bætur á þeim hluta er snýr að honum. Þar mun að öllum líkindum vel duga 15-20 milljarðar, eftir því hversu vel menn vilja gera og hugsa til framtíðar.
En þetta þykir ekki fínt. Samgönguráðherra vill Sundabraut, vegstokka og ýmislegt fleira sem erfitt er að telja upp. Þá blandar hann inn í umræðuna ýmsum vegabótum út á landi, bótum sem ýmist eru flottræfilsháttur eða nauðsyn. Þær vegabætur sem nauðsynlegt er að gera eru bíleigendur búnir að greiða margfalt fyrir. Hinar, sem kalla má flottræfilshátt, eru m.a. Sundabraut, breikkun Hvalfjarðargangna og breikkun vegarins um Kjalarnes.
Sundabraut er óþörf. Lausnin þar er að taka af öll hringtorg á vesturlandsvegi og setja mislæg gatnamót þar sem ekki dugir að hafa venjuleg. Þannig verður umferðin hnökralaus og greið um þann veg. Hvalfjarðargöng þjóna vel sínum tilgangi og munu gera um mörg ár enn. Ég ek nokkuð oft þar í gegn og þekki vel til. Umferðahraðinn er tekinn niður í 70 og ekki oft sem sá hraði er ekki á umferðinni, hellst að lítilsháttar tafir verða af fulllestuðum vörubílum upp að sunnanverði. Aðrar tafir, sem svo algengar voru, hurfu með öllu þegar hætt var að rukka gangnaskattinn. Allar tafir um göngin, sem menn geyma í huga sér og fjölmiðlar fjölluðu mikið um, sköpuðust af töfum vegna innheimtunnar.
Vissulega getur verið þreytandi að aka Kjalarnesið. Þar er vandinn fyrst og fremst vegna þeirra sem ekki aka á umferðahraða, þeirra sem aka of hægt. Það ætti auðvitað að vera viðurlög við hægakstri eins og hraðakstri. Flest slys sem verða á þessum vegi er vegna framúraksturs, vegna þess að einhver heldur ekki uppi eðlilegum hraða. Þessi vandi er reyndar ekki bundin við Kjalarnesið, heldur er þetta um allt land. Þeir sem ekki treysta sér til að aka þjóðvegi landsins á eðlilegum hraða, ættu kannski að sleppa því. Vissulega væri gott að fá fleiri akreinar um Kjalarnesið, en hugmyndir Vegagerðarinnar eru hins vegar algjörlega út úr kortinu. Þar á að leggja svokallaðan 2+1 veg og að auki á að planta niður fjölda hringtorga á hann. Þetta mun leiða til fleiri slysa, meiri mengunar og aukins ferðatíma. En þetta kemur auðvitað ekki við því sem stjórnvöld létu borgarstjórann fífla sig til, þó samgönguráðherra vilji tengja það saman.
En það er ekki bara borgarlína sem hefur á sér ýmsar óskýrar myndir. Það á einnig við um þann 60 milljarða skatt sem leggja skal á bíleigendur.
Sem fyrr segir vill samgönguráðherra spyrða þessa skattlagningu í Reykjavík við allar vegabætur í landinu, þó vitað sé að út um land munu einhverjir tugir milljarða verða innheimtir gegnum samskonar skatt og leggja skal á í Reykjavík.
Fjármálaráðherra talar á annan veg. Þar er ekki rætt um vegabætur, heldur að leggja þurfi slíka skatt á vegna rafbílavæðingarinnar. Að ríkissjóður verði af tekjum vegna þess að ekki sé greidd innflutningsgjöld og vaskur af rafbílum og þeir fari ekki á dælustöðvar að kaupa eldsneyti. Það er val stjórnvalda að sleppa innheimtu innflutningsgjalda og vask af rafbílum og á ekki að hegna þeim sem af einhverjum ástæðum, peningalega eða öðrum, ekki geta eignast slíka bíla. Hitt er sjálfsagt að rafbílar greiði skatta til að viðhalda vegakerfinu, t.d. fyrir hvern ekinn kílómeter, enda rafbílar þyngri en sambærilegir bílar með sprengimótor. Fyrir þá sem eru skammsýnir eða heftir á einhvern hátt, má benda á þá aðferð sem notuð var á díselbíla áður fyrr, þ.e. mælar setti í þá. Hinir framsýnni vita að í öllum rafbílum er tölva sem auðveldlega mætti nýta til að fá þessar upplýsingar og það kerfi þarf ekki að kosta mikið.
Sennilega er þó skoðun fyrrverandi formanns samgöngunefndar og aðal höfundar þessa nýja skatts, þegar hann sagði í fjölmiðlum að þrátt fyrir skattinn ætti enginn að þurfa að koma heim krónu fátækari. Nokkuð merkilegt að hægt sé að innheimta skatt upp á 60 milljarða án þess að þeir sem hann eiga að borga muni verða þess varir!
Eitt hefur alveg gleymst í þessari umræðu allri, þó FÍB hafi af litlum mætti reynt að koma því til skila í fjölmiðlum, en það er kostnaðurinn við innheimtuna. Hvað þarf að rukka mikið til að 60 milljarðar verði til? 100 milljarða? Það veit enginn. Hitt er vitað að í þrem borgum nærri okkur var þessi kostnaður af þeirri stærðargráðu að 100 milljarðar duga vart, svo eftir standi 60 milljarðar. Og hvað þurfa landsmenn að vinna sér inn miklar tekjur svo þeir geti reitt af hendi þennan skatt?
En hvað um það, við verðum víst bara að fagna þessum skatti, því eins og Dagur segir, hann mun auka lífsgæði okkar!!
![]() |
Þetta snýst að mörgu leyti um lífsgæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)