Réttarríkið Ísland?

Þegar sjálfur forsetinn tjáir sig um órannsakaðar ásakanir er ekki annað hægt en rita nokkur orð. Ætlaði ekki að skrifa neitt um svokallað Samherjamál, enda hef ég ekki leyfi til að dæma einn né neinn. Það hefur þú ekki heldur lesandi góður og ekki heldur Helgi Seljan, hvað þá forsetinn.

Það er orðin stór spurning hvort við búum í réttarríki hér á landi. Hornsteinar réttarríkisins eru að hver telst saklaus uns sekt er sönnuð, að lögregla rannsaki, að saksóknari sæki og að dómstólar dæmi. Ítrekað hefur fréttastofa ruv, í samvinnu við blaðsnepil sem sérhæfir sig í gróusögum, brotið þessi gildi, stundum haft eitthvað satt fyrir sér en oftar farið með fleipur. Ætíð hafa menn verið fljótir að dæma, sér í lagi sumir stjórnmálamenn. Sjaldnast er beðist afsökunar þó í ljós komi að um gróusögu var að ræða og hafa sumar fjölskyldur þurft að eyða stór fé í að sækja sinn rétt fyrir dómstólum, eftir að fyrirtæki þeirra eða mannorð var drepið. Það ber nýrra við að forsetinn skuli skipa sér á sess með þessum dómurum götunnar.

Vissulega er það svo að víða má betur fara og á það við um ansi margt. Mútur geta verið í öðru formi en peningum og ættartengsl og vinskapur getur vart tæpast talist glæpur.

Nú veit ég auðvitað ekki hvort Samherji er sekur eða saklaus, það munu réttmætir valdhafar skera úr um. Þar til að því kemur er best að tjá sig sem minnst. Hitt er ljóst að þær upphæðir sem nefndar voru í þætti Helga Seljan eru af þeirri stærðargráðu að nánast er útilokað að þær geti staðist, að sú rannsókn sem fyrirtækið hefur verið undir til margra ára hafi ekki leitt í ljós eitthvað misdægurt. Fyrir nokkrum árum var Samherji tekinn til rannsóknar, ekki bara hér á landi heldur líka erlendis, einnig í Namibíu.

Og inn í þetta er síðan fléttað fiskveiðistjórnkerfinu. Vissulega er það ekki gallalaust. Kannski einn stærsti gallinn framsal kvóta, verk eins fyrrum sjávarútvegsráðherra sem nú hneykslast á Samherja. En það framsal hefur lagt í eyði heilu byggðalögin og þjappað kvótanum á fáar hendur. Þeir sem muna hvernig var áður, þ.e. meðan bæjarútgerðir og ríkisútgerðir voru við lýði, muna að þá var ekki mikið sem fiskveiðar gáfu í ríkissjóð. Sjóðstreymi hans varðandi fiskveiðar var yfirleitt á hinn veginn. En vissulega má laga það kerfi sem nú er notast við, þá hellst til að styrkja smærri útgerðir. Því miður hefur stjórnmálamönnum ekki tekist að koma fram með slíkar hugmyndir, þær breytingar sem nefndar hafa verið til þessa hafa ætið verið á þann veg að stóru útgerðirnar hefðu hagnast enn frekar. En þetta mál kemur ekkert við því sem nú er mest rætt og menn duglegastir við að dæma í.

Eins og áður segir þá geta mútur verið í öðru formi en peningum. Þetta dettur manni í hug þegar á markaðinn er nú send bók, rituð af þeim sem stjórnaði svokallaðri rannsókn á Samherja, um sama efni. Þessi bók kemur á markað um viku eftir þátt ruv, svo ljóst er að nokkuð er síðan hún var skrifuð. Víst er að þessi bók selst nú í tonnum talið og ljóst að höfundur mun hagnast verulega á henni. Eru það mútur? Ef ekki, hvað þá? Og hvað með að liggja á gögnum um glæp? Ber ekki öllum skilda til að færa slík gögn til tilþess bærra yfirvalda, svo skjótt sem þau koma í hendur fólks? Það hlýtur að teljast glæpur að leyna gögnum þar til vel stendur á hjá þeim sem sem með gögnin eru, jafnvel peningalegt spursmál!

Annað dæmi má nefna, en það er tilskipun ESB um stjórn orkumála (op3). Hvernig stóð á því að flestir stjórnarþingmenn, sem verið höfðu á móti samþykkt þessarar tilskipunnar, skiptu allir um skoðun á einum degi, eftir að forsætisráðherra annars lands hafði komið hingað í heimsókn. Skiptu einhverjir fjármunir eða eitthvað annað um hendur í þeirri heimsókn? Sé svo voru það vissulega mútur. Ekki var ruv neitt að skoða þetta, reyndar þvert á móti. Þó var þar um að ræða mál sem er af allt annarri og stærri gráðu. Mál sem snertir alla landsmenn hressilega um alla framtíð. Mun gera lífsskilyrði landsmanna mun verri.

Svona mætti lengi telja og vel er hugsanlegt að Samherji hafi greitt einhverjar mútur í Afríku. Svo getur allt eins verið víða og að fleiri aðilar hafi stundað svo. Til Afríku er erfitt að selja eða koma með fyrirtæki nema einhverjir peningar skipti um hendur. Og þetta á við víðar. Eru það t.d. mútur þegar fyrirtæki kaupa verslunarpláss í verslunum, fyrir sínar vörur? Þar getur oft verið um nokkra upphæð að ræða.

 

Þetta er spurning um hvort við viljum áfram lifa við réttarríki hér á landi, eða hvort við ætlum að færa rannsókn og saksókn til fjölmiðla og láta síðan dómstól götunnar sjá um að dæma. Það væri ansi langt skref afturábak.


mbl.is Óverjandi framferði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband