Sauðsleg ummæli landbúnaðarráðherra

Ummæli landbúnaðarráðherra á þingi eru vægast sagt sauðsleg og erfitt að átta sig á hvað hann er að meina.  Á hann við að þeir sem velji sér starf af hugsjón þurfi ekki laun fyrir vinnu sína? Hvað þá með þingmenn?

Varla er til sú stétt sem rekin er áfram á meiri hugsjón en einmitt stjórnmálamenn. Þeir sækjast eftir stuðningi kjósenda til setu á Alþingi, með von um að komast þar til valda og vinna sinni hugsjón fylgi. Eða eru stjórnmálamenn kannski bara hugsjónalausir og sækja eftir stuðningi kjósenda til að komast í vel launaða vinnu?

Víst er að sumir sauðfjárbændur hafa haft í flimtingu að sauðfjárbúskapur sé orðinn að hugsjón. Enda ekki skrítið, þar sem venjuleg sauðfjárbú reka sig vart lengur og reyndar á það við um fleiri búfjárgreinar. Því er staðan orðin sú að margir sauðfjárbændur, sér í lagi þeir yngri, þurfa að vera vakandi og sofandi yfir allri aukavinnu sem þeir geta komist yfir, utan bús. Síðan þurfa þeir að nýta frítímann frá þeirri vinnu til að hugsa um skepnurnar sínar. Svefntími verður oft stuttur og tími með börnum enn styttri.

Fyrir fjórum árum féll afurðaverð til sauðfjárbænda um tugi prósenta og var afkoman svo sem ekkert allt of mikil fram til þess tíma. Ungt fólk sem vildi snúa sér að slíkum rekstri þurfti mikinn kjark til að leggja á þá braut. Síðan hefur afurðaverð hækkað lítið og enn vantar nokkuð uppá að það sé komið í sömu krónutölu og fyrir fjórum árum. Á þessum tíma hafa öll aðföng hækkað mikið og rekstrargrundvöllur því brostinn hjá flestum. Verst er ástandið hjá unga fólkinu, sem á að vera framtíð sveitanna. Og nú er komin upp enn alvarlegri staða, aðrar búgreinar stefna í sömu átt. Þar má þakka dýralækninum og formanni Framsóknarflokks fyrir samning um stór aukinn innflutning á kjöti, kjöti sem við erum full fær að framleiða hér á landi á mun heilbrigðari hátt en erlendis.

Landbúnaður hér á landi á undir högg að sækja, ekki bara sauðfjárbúskapur, heldur nánast allar greinar landbúnaðar. Að þessari undirstöðu atvinnugrein er sótt á öllum sviðum, innflutningsvarnir eru felldar niður, með tilheyrandi hættu á að hingað berist sjúkdómar sem óþekktir eru hér á landi en landlægir erlendis. Rekstrarskilyrði bresta. Innlendur stuðningur, sem eru á sama anda og allar vestrænar þjóðir stunda, er rýrður verulega með hverjum samningi og staðan í dag orðin þannig að Ísland er að komast í hóp þeirra landa sem minnstan stuðning stunda við matvælaframleiðslu (stuðningur hér á landi um það bil helmingi lægri en í BNA). Sífellt er verið að auka kröfur um aðbúnað skeppnanna og hafa bændur vart undan að breyta og bæta húsakost sinn, með tilheyrandi kostnaði. Öll aðföng hækka í veldisvexti við verðbólgu, sumpart af aukinni skattlagningu stjórnvalda. Á sama tíma er afurðaverði haldi langt undir eðlilegum rekstrarkostnaði búa.

Það merkilega þó er að verðþróun á matvælum til neytenda er ekki í neinu samhengi við verðþróun afurðaverðs. Þegar afurðaverð til sauðfjárbænda lækkaði um tugi prósenta, hækkað verðið í hillum verslana. Hverju sætir það? Engum blaðamenni hefur dottið í hug að kryfja það mál til mergjar og því síður þeim ráðherrum sem með landbúnað hafa farið í síðustu ríkisstjórnum. Einhversstaðar er einhver að hagnast á þessu og víst er að ekki eru það bændur.

En aftur að sauðnum sem stýrir landbúnaðarráðuneytinu. Það er eitt þegar bændur sjálfir stunda svartan húmor með því að segja að búskapur sé hugsjón án tekna. Annað og alvarlegra er þegar ráðherra landbúnaðarmála tekur þau orð og gerir að sínum í ræðustól Alþingis. Í gamla daga hefði amman eða afinn á heimilinu tekið slíkan gutta, lagt hann á hné sér og rasskellt duglega. Það má víst ekki í dag. En hvernig á með svona vonlausa menn að fara? Menn sem ekki þekkja haus frá dindli en eru þó æðstráðandi um það sem á milli er?!

Þó núverandi ráðherra skuldi bændum haldbærar skýringar á orðum sínum og þó hann hafi verið verklaus með öllu er snýr að því ráðuneyti sem hann stjórnar, landbúnaðarráðuneytinu, þá er sökin ekki hans eins. Aðrir ráðherrar  voru á undan honum, dýralæknirinn lék stórann afleik og ekki sópaði neitt sérstaklega leikaradótturinni. Ekki má heldur gleyma aumingjaskap bændaforustunnar, en þaðan hefur lítið komið til bóta og reynst stjórnmálamönnum næsta auðvelt að snúa þeim eins og hverju öðru leikfangi.

Ef við ræðum örlítið um stuðnings ríkisins við matvælaframleiðslu í landinu þá er kannski rétt að nefna að ósk um þann stuðning er ekki frá bændum kominn, hvorki hér á landi né erlendis. Fyrir bændur skiptir engu máli hvort aurarnir koma að hluta til gegnum sameiginlega sjóði okkar landsmanna, eða hvort þeir koma beint úr vasa neytenda. Hitt er ljóst að ef seinni leiðin yrði farin þyrftu jú annað hvort laun að hækka eða skattar lækka. Því hafa allar vestrænar þjóðir þann hátt á að niðurgreiða matvælaframleiðslu til þess að halda verðlagi niðri. Ísland er meðal þeirra þjóða og eins og fyrr segir erum við komin ansi neðarlega á þann lista um stuðning við matvælaframleiðslu. Tvö stærstu hagkerfin, ESB og BNA eru þar langt ofar á lista auk mun öflugri tollverndar.

Það er deginum ljósara að vandi landbúnaðar er stór. Offramleiðsla segja sumir, en ef dreginn er frá innflutningur matvæla er ljóst að offramleiðslan er rétt nægjanleg til að taka á móti náttúrulegum sveiflum í þessari framleiðslu.   Aldur bænda hækkar með hverju ári og meðan endurnýjun getur ekki átt sér stað mun eðlileg fækkun bænda vegna aldurs skerða sveitirnar verulega. Yngri bændurnir, sem flestir skulda eitthvað í sínum búum, munu ekki geta staðið við sínar skuldbindingar. Því mun fækkun bænda verða mikil  næstu ár, verði ekkert að gert. Þessu mun fylgja eyðing sveita og samfara því eyðing þorpa og kaupstaða um landið. Bændur sjálfur eru einungis lítill hluti þeirra sem hafa sína afkomu af matvælaframleiðslu í landinu.

En það er hægt að snúa dæminu við ennþá en ögurstund nálgast hratt. Fyrst af öllu á auðvitað að setja lög um að engin matvæli megi flytja til landsins nema að uppfylltum þeim skilyrðum er íslenskir bændur þurfa að sætta sig við, að skepnurnar hafi lifað við jafn heilbrigð skilyrði og þær íslensku og að slátrun og meðhöndlun sé sambærileg við það sem hér tíðkast. Stjórnvöld verða að skilja og sætta sig við að hér á landi er kostnaður við framleiðslu matvæla hærri en erlendis, sökum legu okkar á hnettinum og að stuðningur við matvælaframleiðsluna verður að vera a.m.k. sambærilegur við þau lönd sem við berum okkur saman við. Þetta tvennt mun laga mikið, en samhliða því þarf auðvitað að velja til stjórnunar landbúnaðarráðuneytis fólk sem hefur þekkingu á landbúnaði og vill veg hans sem bestan. Þá þarf auðvitað bændaforustan að horfa í eigin barm. Það gengur ekki að til hennar veljist fólk sem er fyrirmunað að standa vörð bænda.

Að óbreyttu mun landbúnaður leggjast af hér á landi, innan mjög fárra ára.

Viljum við það?

 


mbl.is Framsóknarmenn ósáttir með ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er fyrsta sætið öruggt?

Það er hætt við að flokksmenn fái litlu ráðið um hvaða sæti Þórdís skipi á lista í næstu kosningum. Hún mun að sjálfsögðu velta efsta manni af stalli og skipa hans sæti. Annað væri óeðlilegt, að varaformaður flokksins og ráðherra sé ekki í fyrsta sæti þess kjördæmalista er hún velur. Óbreyttur þingmaður, hversu vinsæll sem hann er innan kjördæmisins, ræður þar engu, ekki frekar en aðrir flokksmenn.

Hin síðari ár hefur Sjálfstæðisflokkur getað gengið að tveim nokkuð öruggum þingsætum í norðvesturkjördæmi. Flokksmenn vita að það öryggi er brostið og Þórdísi ætti að vera það ljóst einnig. En er fyrsta sætið öruggt?

Eftir framgöngu flokksins í orkupakkamálinu, með Þórdísi í stafni, hefur kuldahrollur farið um margan sannan sjálfstæðismanninn, ekki síst í kjördæmi því er Þórdís hyggur á að bjóða sig fram. Og enn er hoggið í sama hnérunn, með orkupakka 4. Þar er unnið bakvið tjöldin, undir handleiðslu ráðherra, að koma málum þannig fyrir að ekki verði aftur snúið. 

Það yrði hneisa fyrir flokkinn ef hann næði ekki fram þingmanni í þessu kjördæmi, sér í lagi ef þar er í framboð varaformaður flokksins og ráðherra. Það yrði sannarlega sigur þeirra er vilja halda yfirráðum yfir orkuauðlindinni.


mbl.is Þórdís fram í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það hefur aldrei verið kosið um nýja stjórnarskrá

Sá leiðinlegi misskilningur virðis vera meðal sumra í þjóðfélaginu að hér hafi verið kosið um nýja stjórnarskrá og að meirihluti þjóðarinnar hafi samþykkt þá stjórnarskrá. Þetta er þó fjarri lagi og nokkuð grófleg mistúlkun á sögunni og sannleikanum. 

Þann 20.okt, 2012 var þjóðinni boðið upp á ráðgefandi kosningu um fimm tillögur stjórnlagaráðs, auk þess sem spurt var hvort nota ætti aðrar tillögur ráðsins sem ráðgefandi fyrir Alþingi að nýrri stjórnarskrá. Því var þessi ráðgefandi kosning í 6 liðum og framsetningin þannig að nánast útilokað var að svara einum lið með já en öðrum með nei, nema því aðeins að svara fyrsta lið með nei. Þannig var í raun hægt að samþykkja einn eða fleiri af hinum fimm. Enda fór svo að fyrsti liðurinn fékk fæst atkvæði.

Á kjörskrá voru 236.911, af þeim kusu 114.570, eða 48.4% atkvæðisbærra. Af þessum 114.570 sögðu 73.408 ja við fyrsta lið í kosningunni, eða 64.2% þeirra sem kusu eða 31,7% kosningabærra. 

Allar þessar upplýsingar liggja opnar á netinu og því óþarfi fyrir fréttamenn að apa lygina upp eftir öðrum.

Svo slök kosningaþátttaka, innan við helmingur atkvæðisbærra landsmanna er auðvitað ein og sér ástæða þess að útilokað er að breyta æðsta plaggi lýðveldisins. Þar þarf að koma skýrari vilji kjósenda.

Hvers vegna kosningaþátttaka um þetta mál var svo léleg má rekja til margra punkt. Hvernig staðið var að vali stjórnlagaráðs, eftir að Hæstiréttur hafi dæmt kosningu til stjórnlagaþings ólögmæta. Sú staðreynd að kosningin var einungis um fimm atriði þessarar vinnu stjórnlagaráðs, en ekki nýja stjórnarskrá. Enda slík kosning ómöguleg og brot á gildandi stjórnarskrá. Að um ráðgefandi kosningu var að ræða en ekki bindandi.

Öll þessi atriði urðu til þess að margir sátu heima, sáu ekki tilgang kosningarinnar. Má sannarlega leiða að því líkum að einmitt þeir sem á móti voru þessari vinnu stjórnlagaráðs og hvernig til hennar var spilað, hafi frekar setið heim, en þeir sem hlynntir voru verið duglegri að mæta á kjörstað. 

Hver niðurstaðan hefði orðið ef mögulegt hefði verið að kjósa um þessa vinnu sem nýja stjórnarkrá og sú kosning hefði verið bindandi, vitum við aldrei. Slík kosning hefur ekki farið fram og mun ekki verða, nema því aðeins að gildandi stjórnatskrá verði breytt til að heimila slíka kosningu. 

Það er ekki að ástæðulausu að þjóðir heims hafi ákvæði í sínum stjórnarskrám, sem gera breytingar þeirra þungar í vöfum. Við höfum einnig slíkt ákvæði, enda á stjórnarskrá að vera að grunni til sem mest eins, þó vissulega eilíft eigi að hafa hana í skoðun og breyta einstökum liðum eftir því sem þróun segir. Umbylting stjórnarskrár kallar á tímabil lögleysu, þar sem skilgreina þarf upp á nýtt flest grundvallar viðmið laga í landinu. 

Þær breytingar sem nú eru boðaðar virðast frekar sakleysislegar, þó maður átti sig ekki á sumum þeirra. Að binda í stjórnarskrá að forseti geti ekki setið nema 12 ár er vissulega af hinu góða, en hvers vegna mátti það ekki bara vera þrjú fjögurra ára kjörtímabil? Hvers vegna tvö sex ára tímabil? 


mbl.is Hyggst leggja fram stjórnlagabreytingar að hausti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kári er Kári

Kári er Kári, ólíkindatól og engum líkur. Fyrir um mánuði móðgaðist hann við ráðherra og lá ekki á skoðun sinni þar, nú er sama staða komin upp aftur. Hótar að hætta aðkomu að skimun ferðafólks til landsins. Jafnvel sósíalisti eins og Kári gerir sér grein fyrir að fyrirtæki verða ekki rekin af manngæsku einni saman. Það þurfa að koma til tekjur.

Hitt er ljóst að ríkið er fjarri því að vera í stakk búið til að taka við keflinu af Kára. Á þeim bæ gengur allt á hraða snigilsins. Þó ÍE hafi tekist á einni viku að koma sér upp aðstöðu til skimunar er barnalegt af Kára að halda að ríkinu sé slíkt mögulegt. Þar á bæ þarf fyrst að fita sérvalda einstaklinga í nokkra mánuði í nefnd við að skoða og skipuleggja málið. Þá tekur við karp um kostnaðinn, hvernig hægt sé að láta hann líta sem best út. Að því loknu er loks hægt að huga að framkvæmdum og þar sem áætlanir ríkisins standast nánast aldrei, mun verkið verða mun kostnaðarsamara en ætlað var og taka mun lengri tíma. Corónaveiran mun verða komin í sögubækur þegar loks allt er klárt til skimunar.

Einfaldast, skilvirkast og best er að ríkið semji við Kára og greiði ÍE fyrir verkið. En þar stendur hnífurinn í kúnni, skoðanasystir hans, sósíalistinn Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, getur ekki með neinu móti kyngt því að greiða fyrir aðkeypta þjónustu einkafyrirtækis. Það er svo sem í lagi, í hennar huga, að þiggja slíka hjálp ókeypis, en að greiða fyrir hana er andstætt pólitískum hugsanahætti hennar.

Reyndar ætlaði ég ekki að skrifa um Kára, Svandísi eða þeirra sósíalísku hugsjónir, þó vissulega fróðlegt sé að bera þær saman. Pistillinn átti að vera um viðtengda frétt af mbl.is. Fréttamaður býr til heila frétt um tíst einhverra misviturra manna á Tvitter, eins og þar sé öll vitneskja heimsins geymd. Í fyrirsögninni spyr hann hvort Kári sé on eða off og vitnar þar til tísts eins kollega síns. 

Kári er hvorki on né off, Kári er bara Kári.


mbl.is „Er Kári on eða off?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarlína og plast

Enn hefur gengið erfiðlega að fá skilgreiningu á hvað svokölluð borgarlína er. Margar hugmyndir hafa komið fram en í raun með öllu óvitað að hverju er stefnt. Þó hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að þetta sem enginn veit hvað er mun kosta mikla peninga, reyndar ekki enn á hreinu hversu mikla en þó aldrei undir 80 milljörðum íslenskra króna, sennilega þó mun meira.

Það er því snjallt hjá þingmönnum að afsala sér þessari óvissu allri og stofna bara opinbert einkahlutafélag um málið. Þeir þurfa þá ekkert að pæla meira í því. Enn betra er þó að þetta opinbera einkahlutafélag mun fá völd til skiplagningar umferðarsvæða og fjáröflunar þannig að þingstörf verða enn léttari. Þeir geta þá snúið sér að merkari málum, eins og að rífast um hvernig fatnað þeir klæðast, hvort klukkan sé rétt eða hver eigi að stjórna hverri nefnd, sem sumar hverja verða þá væntanlega einnig verkefnalausar.

Umboðslausi ráðherrann fagnar, bæði því að þurfa nú ekki lengur að pæla í svokallaðri borgarlínu og einnig hinu að nú skal bannað að selja áakveðnar tegundir af plasti. Þar er viðmiðið hvort viðkomandi plastvara finnst á stöndum meginlands Evrópu.

Í flestum tilfellum er plast nytsamlegt og sumum tilfellum getur annað efni illa komið í staðinn. Það er hins vegar umgengnin um plastið sem er vandamál, þ.e. eftir að upphaflegu notkun er lokið. Þar má vissulega taka til hendinni. Það er þó ekki sjáanlega plastið sem er verst, þó það sé slæmt. Örplastið, þetta ósýnilega, er mun verra. Það finnst víða og einhver mesti örplastframleiðandinn í dag eru vindmillur. Spaðarnir eyðast upp á undarlega skömmum tíma þó enginn sjái hvað verði um það plast. Ástæðan er augljós öllum sem vilja, það verður að ósýnilegu örplast.

En Mummi umboðslausi hefur ekki áhuga á því, hann horfir bara til stranda meginlands Evrópu og það sem á þær rekur skal banna.


mbl.is Borgarlínan verður að veruleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skimun ferðamanna

Í síðustu viku var Kári Stefánsson boðaður til yfirheyrslu hjá fréttastofu ruv, nánar tiltekið í kastljósþátt. Nokkur umræða varð eftir þáttinn og þótti sumum Kári vera ókurteis en öðrum að rannsóknaraðili kastljóss hafi sýnt dónaskap. Um þetta gátu fólk og fjölmiðlar karpað í nokkra daga, með miklum hávaða og látum. Sjálfum fannst mér báðir aðilar koma nokkuð vel frá þættinum, Kári sagði sína meiningu að vanda og þó spyrillinn hefði sagt hann ruglaðan er það staðreynd sem flestir landsmenn vita. Umræðuefni þáttarins var skimun farþega við komu til landsins.

Það sem þyngst vó þó í ummælum Kára hefur farið hljótt, en það er sá kostnaður sem slík skimun kallar eftir. Fáir eða engir fjölmiðlar hafa fjallað um þetta og alþingi ekki neitt. Samkvæmt ummælum Kára ætti slík skimun að kosta eitthvað nálægt 3.500 kr/stk, miðað við að allur búnaður yrði keyptur nýr og afskrifaður á mjög stuttum tíma. Þá hafði nýlega komið fram skjal frá einhverri nefnd heilbrigðisráðherra sem taldi slíka skimun kosta um 50.000 kr/stk. Þarna er himinn og haf í milli og með ólíkindum að alþingi hafi ekki leitað upplýsinga um málið. Hvar var Björn Leví? Hann hefði getað kastað fram svon eins og einni fyrirspurn um málið!

En nú hefur kostnaður við skimun á Landspítalanum verið endurreiknuð og talin losa 20.000 kallinn. Enn hefur Kári ekki gefið út nýja tölu svo 3.500 kr/stk stendur þar sjálfsagt enn. Ráðherra hefur gefið út að ferðamenn sjálfir verði að greiða 75% af kostnaði við sýnatökuna, miðað við kostnað hennar hjá Landspítalanum og við sem ekki förum um landamærin 25%, en það er ég ekki tilbúinn til að gera. Miðað við kostnaðinn hjá Kára eiga ferðamenn hins vegar að greiða 450% umfram kostnað!

Ferðaþjónustan heldur því fram að 15.000 króna gjald fyrir slíka skimun sé allt of hátt og auðvelt er að vera því sammála. Það er ljóst að sumum ferðamönnum þykir þarna vera langt seilst. Margir munu þó ekki láta þetta skipta máli, enda 15.000 kr lítill hluti af heildarkostnaði þeirra sem sækja okkar land, sér í lagi ef það nýtir sér þá hótel og veitingaþjónustu sem hér er í boði.

Hitt er ljóst að einhverjar stýringu þurfum við að hafa, a.m..k. fyrst um sinn. Þar gæti skimun verið ágæt. Ekki er þó í boði annað en að ferðafólk sjálft greiði þann kostnað. Lausnin gæti legið í því að áður en ferðamaðurinn stígur um borð í flugvélina erlendis þá velji hann hvort hann vilji fá skimun frá Kára, upp á 3.500 kr, eða hvort hann vilji frekar borga um 20.000 kr fyrir skimun frá Landspítalanum. Ljóst er að flestir myndu auðvitað velja ódýrari kostinn. Það mun leiða til þess að stutt biðröð yrði hjá skimurum Landspítalans og því gæti þeir sem það vilja greitt meira og fengið hraðaðri afgreiðslu. Ekki kæmi króna úr ríkiskassanum og allir yrðu ánægðir.

 


mbl.is Bókanir frá Skandinavíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að eyða fé eða nýta það

Það er gott þegar þingmenn átta sig á að ekki er hægt að eyða sömu peningum tvisvar. Hins vegar er umhugsunarefni að þingmaður skuli þurfa að opinbera þessa visku sína, visku sem öllum almenning hefur verið ljós frá því mannskeppna fór að höndla með mynt.

Svo er aftur spurning hvort þurfi að eyða þessum peningum yfirleitt og vissulega er um eyðslu þar að ræða. Vandi íslenskra fjölmiðla kemur kórónuveirunni lítið við, var kominn löngu áður. Réttara væri að skoða hvers vegna þessi vandi er til kominn og leysa hann frá þeim enda.

Fjölmiðlar hafa tekjur sínar fyrst og fremst af auglýsingum og ekki að sjá að þeim hafi fækkað mikið við veiruna. Hitt er ljóst að auglýsingamarkaður hér á landi er takmarkaður og því fleiri fjölmiðlar sem eru starfandi, því lægri tekjur eru í boði fyrir hvern og einn. Fjöldi fjölmiðla hér á landi er nægur, reyndar meiri en eftirspurn. Kannski er vandinn einmitt þarna, að fjölmiðlar eru of margir, kannski þarf bara að fækka þeim. Það er best gert með því að láta þá falla sem minnst eftirspurnin er eftir. Ef þingmenn telja að með því að eyða 400 milljónum til fjölmiðla, tala ekki um 750 milljónum, eru þeir ekki að átta sig á vandanum. Slík eyðsla mun einungis kalla á enn fleiri fjölmiðla og enn meiri eyðslu ríkissjóðs.

Það er nokkur munur á að eyða fé eða nýta það. Þarna er klárlega verið að eyða fé ríkissjóðs, engum til gangs nema eigendum fjölmiðla. Nær væri að nýta þetta fé til hjálpar fórnarlömbum veirunnar og þar af nógu að taka. Atvinnuleysi hér á landi hefur náð nýjum hæðum og ekki útlit fyrir að það muni batna næstu misseri eða ár. Fjöldi fjölskyldna mun eiga um sárt að binda. Tekjuöflun þjóðarinnar mun falla um tugi prósenta og vandséð hvernig við ætlum að halda uppi því velferðarþjóðfélagi sem við höfum vanist síðustu ár.

Þegar svo árar er alger fyrra að eyða hundruðum milljóna króna til að halda uppi ofvöxnu fjölmiðlaumhverfi!


mbl.is „Þú eyðir ekki sömu peningunum tvisvar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guð blessi þjóðina

Enn standa stjórnvöld við drullupollinn og pota í hann með priki. Engin áform virðast vera að reyna að ausa drullunni úr honum, svo fært verði yfir.

Lán með 100% ríkisábyrgð hljómar vel. En þegar lengra er lesið verður ljóst að þessi aðgerð mun gagnast fáum. Fyrir það fyrsta eru settar hömlur á það hverjir geta fengið slíka ábyrgð og í öðru lagi er sú upphæð sem boðist er til að ábyrgjast svo lág að engu mun breyta. 6 miljóna hámark til fyrirtækja sem enga innkomu hafa fengið í nokkrar  vikur og fyrirséð að enga innkomu munu fá næstu mánuði, gerir ekkert gagn. Því má ljóst vera að flest eða öll þau lán sem tekin verða með slíkri ábyrgð munu lenda á ríkissjóð. Fyrirtækin fá einungis örlitla lengingu í hengingarólinni, sem að lokum mun strekkjast að.

Þessi viðbót við áður boðaðar aðgerðir munu því litlu breyta. Þær eru flestar byggðar á frestun greiðslna eða aukinni lántöku. Fyrir flest fyrirtæki í ferðaþjónustu er aukin lántaka bjarnargreiði. Frestun skattgreiðslna mun einnig koma í bak fyrirtækja, enda kemur þar að skuldadögum.

Fjármálaráðherra telur að kostnaður ríkissjóðs vegna veirunnar muni geta numið allt að 250 milljörðum króna. Ekki mun sá kostnaður þó hljótast af aðgerðum stjórnvalda, heldur aðgerðarleysi og líklegt að með sama aðgerðarleysi muni tapið verða mun meira.

Fram til þessa hefur verið einblínt á að hjálpa fyrirtækjum landsins, þó ekki hafi stjórnvöldum auðnast að finna til þess neinar virkar leiðir. Það er í sjálfu sér góðrar gjalda vert að huga að því að halda uppi atvinnu fyrir fólkið, en eins og áður sagði hefur stjórnvöldum ekki tekist vel til við það verk. Nú þegar eru 50.000 manns komnir á atvinnuleysisbætur.

En það er til lítils að bjarga fyrirtækjum landsins, ef ekki er hugað að því að gera fólki kleyft að búa hér áfram. Þó fjármálaráðherra átti sig ekki á þeirri einföldu staðreynd, sem allt hugsandi fólk skilur, að sú kreppa sem er að skella á okkur og allri heimsbyggðinni, muni leiða til verðbólgu af stærðargráðu sem ekki hefur sést hér á landi í nærri hálfa öld, er ljóst að svo mun verða. Flest heimili landsins eru undir hæl bankanna og skulda í sínum fasteignum. Verðtryggð lán munu stökkbreytast og svo mun einnig verða með óverðtryggð lán, þar sem vextir þeirra eru í flestum tilfellum bundnir með einum eða öðrum hætti við verðtrygginguna.

Ákalli hagsmunasamtaka heimilanna um að verðtrygging yrði fryst meðan stærsti skaflinn skellur yfir, svaraði ráðherrann að "slíkt væri flókið og að viðtakandi væri á hinum endanum". Frekar ósmekklegt svar sem segir manni að ráðherra gefur skít í fólkið.

Það er fjarri því að það sé flókið að frysta verðtrygginguna, reyndar ekki heldur flókið að afnema hana, ef því er að skipta. Það kostaði eina undirskrift að setja hana á á sínum tíma, var þá sett á bæði lán og laun. Þrem árum síðar var með einni undirskrift afnumin verðtrygging launa og því ætti ekki að kosta  meira en eina undirskrift að afnema verðtryggingu lána. En það var ekki afnám verðtryggingar sem HH fór fram á nú, einungis frystingu á meðan stærsti skaflinn gengur yfir. Að koma í veg fyrir að sömu mistök yrðu gerð nú og voru gerð haustið 2008, með skelfilegum afleiðingum. Og það er mikið rétt hjá ráðherranum, það er viðtakandi á hinum endanum, "hinir ósnertanlegu" þ.e. lífeyrissjóðirnir og bankarnir. Í bókum sínum segjast lífeyrissjóðirnir eiga um 4.000 milljarða króna, fjárhæð sem erfitt er að gera sér í hugarlund, reyndar svo há að marga tugi tæki þá að tæma bækur sínar með greiðslum lífeyris, þó engar tekjur væru. Tveir af þrem bönkum landsins eru að stærstum hluta í eigu ríkissjóðs, sá þriðji í erlendri eigu. Frá hruni hafa þeir hagnast um hundruð milljarða hver. 

Það er nokkuð magnað hvaða tök lífeyrissjóðir og bankar hafa á stjórnvöldum og skiptir þar litlu máli hvaða flokkar eru við stjórn. Frysting verðtryggingar mun að sjálfsögðu minnka tekjustreymi þeirra um einhvern tíma, en sú upphæð er þó smámunir miðað við allur sá austur spákaupmennska stjórna þeirra hefur dregið út úr þeim. Þá ætti sjálfur fjármálaráðherra að átta sig á að stór hluti þeirra fjármuna sem lífeyrissjóðir telja sig eiga, eru í raun eign ríkissjóðs.

Haustið 2008 bað þáverandi formaður Sjálfstæðisflokks guð að blessa þjóðina. Núverandi formaður er greinilega á öðru máli!


mbl.is Lán með 100% ríkisábyrgð fyrir minni fyrirtæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nóg verður samt

Fréttaflutningur og yfirlýsing forstjóra Landsvirkjunar, af vanda Ríó Tintó er hreint með ólíkindum. Að kjarasamningur við starfsmenn sé skilyrtur við að fyrirtækinu takist að ná nýjum samning um raforkukaup er mjög eðlilegt. Takist það ekki mun engin þörf vera á kjarasamningi, þar sem engir starfsmenn munu þá starfa fyrir fyrirtækið á Íslandi. Einfalt.

Staðan er sú að álverið í Straumsvík á í miklum vanda, rekstrarkostnaður þar er langt fyrir ofan tekjur. Þegar hefur verið tekið á vandanum innanhúss eins og hægt er, jafnvel gengið þar skrefinu of langt á sumum sviðum. Launagjöld eru tiltölulega lítill hluti rekstrarkostnaðar, en þegar vandi fyrirtækis er slíkur sem er í Straumsvík, verður að leita allra leiða til að ná niður kostnaði. Launahækkanir geta því ekki komið til nema einhver annar kostnaður lækki.

Hins vegar eru raforkukaup stór rekstrarliður álfyrirtækja. Og þar er vandi álversins í Straumsvík. Orkusamningur sem gerður var við Landsvirkjun, þar sem annar aðilinn gat knúið fram óraunhæft verð í ljósi einokunar, veldur vanda álversins. Verðið er mun hærra en nokkur staðar þekkist í víðri veröld, til slíkra fyrirtækja. Því mun Ríó Tintó eiga þann einn kost, náist ekki hagstæðari samningur, en að loka í Straumsvík. Það dettur engum í hug að rekstri verði haldið áfram með milljarða tapi ár eftir ár og enga aðra framtíð en að slíkt tap muni halda áfram. Við þá lokun munu þúsundir manna missa viðurværi sitt, bæði starfsmenn sem vinna hjá fyrirtækinu sem og allur sá fjöldi sem hefur sínar tekjur af því að þjóna það.

Það dylst engum ást forstjóra og stjórnaformanns Landsvirkjunar á sæstreng til Evrópu. Vilja færa virðisaukann af orkuframleiðslunni til annarra landa. Reiknimeistarar hafa setið sveittir við útreikninga á dæminu og með miklum vilja hefur þeim tekist að fá þá niðurstöðu að slíkur strengur sé hagstæður Landsvirkjun. Það er þó einkum tvennt sem haldið er utan þeirra útreikninga, annars vegar fyrrnefndur virðisauki, þ.e. að hér á landi starfi fyrirtæki sem skaffi fólki vinnu og afli tekna og gjaldeyris fyrir þjóðarbúið. Hitt atriðið sem ekki er nefnt, er að í öllum útreikningum er gert ráð fyrir að erlend ríki séu tilbúin til að niðurgreiða íslenska orku. Án slíkra niðurgreiðslna er útilokað að neinar tekjur fáist af sölu orku gegnum sæstreng til Evrópu. Orkuverð þar mun vart duga fyrir kostnaði við rekstur á slíkum streng.

Nú eru viðsjárverðir tímar. Mannskæð veira herjar á heimsbyggðina og vart séð fyrir endann á því. Af þeim sökum hefur atvinnulíf nánast lagst af í sumum ríkjum heims og því samfara hefur orkuverð hrunið. Þegar við komumst yfir þessa veiru mun verkefni þjóða heims vera það eitt að komast yfir þau fjárhagslegu erfiðleika sem nú eru að skapast. Það mun taka sinn tíma og á meðan mun orkuverð haldast lágt.

Þá er ljóst að hvenær sem er má búast við að ný og kannski enn skæðari veira hlaupi af stað. Því munu allar þjóðir horfa til þess, við sína uppbyggingu, að stefna að sem mestri sjálfbærni. Halda fast um sitt.

Vandi álversins í Straumsvík er þó ekki vegna veirunnar, ekki enn. Hann er innlendur og var kominn fram fyrir nokkuð löngu síðan, þó ekki hafi hann komist í fjölmiðla fyrr en hann varð það stór að móðurfyrirtækið boðaði lokun.

Í ljósi þess ástands sem nú er komið upp, vegna veirunnar, er magnað hvað stjórnvöld eru þögul. Við erum með fjórar grunnstoðir undir okkar þjóðfélagi, grunnstoðir sem sjá til þess að halda uppi því velferðarþjóðfélagi sem við búum við. Þær eru sjávarútvegur, stóriðnaður, ferðaþjónusta og landbúnaður.  Þrjár fyrstu sjá okkur fyrir gjaldeyrisöflun og sú fjórða matvælum og sparnaði í gjaldeyri.

Ein þessara stoða er hrunin og mun taka langan tíma að byggja hana upp aftur, þ.e. þegar sú uppbygging getur loks farið af stað. Því þarf að verja hinar þrjár, svo þjóðfélagið okkar falli af sínum grunni. Sjávarútvegur er nokkuð vel settur og lítið sem þarf að gera þar. Landbúnað verður að efla enn frekar, hellst svo að við getum orðið okkur sjálfbær. Þar stendur hellst hnífurinn í Harðar kúnni. Hægt er að auka til muna ræktun matjurta og hægt væri að framleiða hér á landi áburð á tún, en til þess þarf að fá orku á viðráðanlegu verði.

Fjórða stoðin er svo stóriðjan, önnur þeirra sem eftir er til gjaldeyris öflunar. Þar þurfa stjórnvöld að grípa inní strax. Verði það ekki gert mun þjóðfélag okkar falla.

Það verður ekki með neinu móti unað við það að tveir menn, forstjóri og stjórnarformaður Landsvirkjunar, skuli geta haft örlög þjóðarinnar í sínum höndum, bara alls ekki. Álverið í Straumsvík hangir á einni hendi á bjargbrúninni, Elkem á Grundartanga er komið fram á brúnina og önnur stóriðjufyrirtæki landsins stefna hraðbyrir í sömu átt. Verði ekki gripið inn í, mun allt fara á versta veg.

Það er því með algerum eindæmum hvað stjórnvöld eru fámál um stöðuna. Ætla þau virkilega að bæta enn við vanda vegna veirunnar, með því að láta stóriðjuna falla líka?

Nóg verður samt!


mbl.is Rio Tinto nýti sér stöðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

237 milljarðar?

Ekki er að sjá að aðgerðaráætlun stjórnvalda sé að skila miklum árangri. Nú, á rúmum sólhring, hafa um 200 manns misst vinnu hjá tveim fyrirtækjum.

Annars er þessi aðgerðaráætlun stjórnvalda ansi innihaldslaus og stendur þar vart steinn yfir steini. Mesta skrumið er þó að segja þetta aðgerðarpakka upp á 237 milljarða króna. Þá er með eindæmum að ekki skuli hafa verið unnið að honum í samstarfi við stjórnarandstöðu og jafnvel sveitarfélög landsins. Þarna sannast það fornkveðna að völd hafa oftar en ekki þann kvilla að þeir sem þau bera, ofmetnast. "Vér einir vitum".

Þegar aðgerðarpakkinn er skoðaður kemur í ljós að hann byggir á 10 atriðum. Flest þeirra eru annað hvort frestanir á greiðslum ýmissa gjald eða beinlínis að fólk noti eigið fé. Þá er svokallað fjárfestingaátak að stórum hluta byggt á því að lagðir verða aukaskattar til greiðslu þeirra framkvæmda. Eftir stendur að útgjöld ríkisins verða um eða innan við 10%af þeirri upphæð sem stjórnvöld státa sig af. Af því fé er einungis um 1,5 milljarður ætlaður til að hjálpa fyrirtækjum að halda fólki í vinnu.

Frestanir á greiðslum eru t.d. frestun á sköttum upp á um 75 milljarða króna. Þetta er frestun, ekki afnám. Því þarf að greiða þetta fé til ríkissjóðs þótt síðar verði. Ekki kemur fram hvort reiknaðir verði vextir á þetta fé meðan frestur stendur, en annað er ólíklegt.

Annað dæmi má nefna, sem ætlað er að vega 9,5 milljarða af þeim 237 sem stjórnvöld tala um, er úttekt séreignasparnaðar. Séreignasparnaður er eign þeirra sem hann eiga og varla hægt að telja hann sem kostnað ríkisins.

20 milljörðum er ætlað í það sem kallað er "viðbótarfjárfesting" í framkvæmdum. Þarna er um framkvæmdir að ræða sem sumar hverjar átti að ráðast í en aðrar sem ætlunin var að framkvæma á allra næstu árum. Stærsti liðurinn þar eru samgöngumannvirki. Megnið af þeim skal þó greiðast með nýjum sköttum.

Ein er þó sú atvinnustarfsemi sem mun fara vel út úr þessum pakka stjórnvalda, en það er bankakerfið. Þar er hvorki um að ræða frestun né nokkuð í þeim dúr. Þar er hreinn niðurskurður á skatti,  upp á litla 11 milljarða króna.

Ekkert er talað um að hjálpa fólki sem þegar hefur misst sína vinnu, það er afskrifað af stjórnvöldum. Og ekkert á að gera til að koma í veg fyrir að fólk haldi sínum hýbýlum. Nú þegar hefur gengi krónunnar fallið nokkuð gagnvart erlendum gjaldmiðlum og því mun fylgja hækkun á verði innfluttra vara. Það er verðbólga og mun hækka lánin. Ekki er enn vitað hversu illa fyrirtæki innan lands munu fara vegna veirunnar, en ljóst er að liður í að halda þeim lifandi hlýtur að vera að hækka verð framleiðslunnar. Það eykur einnig verðbólgu og hækkar húsnæðislánin. Það þarf ekki neinn fjármálasnilling til að átta sig á þessu, þó fjármálaráðherra skilji ekki svo einfalt mál.

Eftir hrun bankakerfisins, haustið 2008, var gerð rannsóknarskýrsla um hvað hefði farið úrskeiðis. Þar kom einmitt mikil gagnrýni á samráðsleysi í stjórnmálum auk þess sem gagnrýnt var að ekki skildi hafa verið sett þak á verðtryggingu húsnæðislána. Það olli því að þúsundir fólks missti sitt húsnæði og enn margt sem er í vanda, 12 árum síðar. Nú stefnir aftur í sama hryllinginn, einungis vegna vanþekkingar fjármálaráðherra á einföldustu málum.

Það stefnir í að taka eigi sömu tökum á þeim vanda sem nú herjar og notuð voru við uppbygginguna eftir bankahrunið, enda sumir þeirra sem þá voru í lykilstöðum komnir til valda á ný. Fjölskyldufólkinu skal fórnað á altari Mammons, í þágu bankanna!


mbl.is Á annað hundrað sagt upp hjá Bláa lóninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Við eigum að láta sérfræðingana ráða"

Hversu oft hefur maður ekki heyrt þessi orð á undanförnum dögum, "við eigum að láta sérfræðingana ráða"? Vissulega er trúverðugra að hlusta á sérfræðinga en stjórnmálamenn, á móti því er ekki hægt að mæla. Hins vegar kom þetta sjónarmið okkur í mikinn vanda fyrir rúmum áratug. Þá var hlustað á "sérfræðingana". Allir muna hvernig fór.

Það má vissulega segja að um allt annað mál sé að ræða nú, að heilsufar og líf landsmanna liggi undir en ekki bara eignir þeirra. Og vissulega er þakkarvert að haldnir séu daglegir fundir þar sem þjóðin er upplýst. Staðreyndin er hins vegar sú að enginn er sérfræðingur á því svið sem nú herjar á heimsbyggðina. Sama hversu vel fólk er menntað, þá er engin menntun sem kennir fólki að fást við þá vá. Þetta sést best á því hversu misjafnlega er tekið á vandanum milli landa.

Eitt af því sem ég á ákaflega erfitt með að meðtaka er hvernig svokallað samkomubann er framkvæmt.  Enginn efast um að slíkt bann dregur virkilega úr smiti milli manna, en hvers vegna í ósköpunum eru sumir hópar undanskildir meðan aðrir þurfa að sætta mikilli skerðingu.

Ákveðið var að loka skólakerfinu. Þó var jafnfram ákveðið að grunnskólar og leikskólar skildu vera opnir. Þarna skellur nokkuð skökku við og ekki laust við að þetta hafi verið nokkuð gagnrýnt. Í dag, mörgum dögum síðar, telja sérfræðingarnir að þetta hafi verið rétt ákvörðun og koma fram með tölur því til staðfestingar. Þær tölur lágu þó ekki fyrir þegar ákvörðunin var tekin.

Ekki ætla ég að voga mér að efast um að þessar tölur séu réttar, að smit milli barna og veikindi barna af veirunni séu mun minni en meðal fullorðinna. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að barn hlýtur að geta borið veiruna á milli fólks, þó það smitist kannski ekki sjálft. 

Í fámennu sveitarfélagi út á landi en nokkuð víðfeðmu (nálægt tíu sinnum stærra en höfuðborgarsvæðið), hafa allir íbúar verið settir í sóttkví. Upp kom að einn kennari barnaskólans veiktist af veirunni og allir nemendur og kennarar settir í sóttkví. Þegar síðan fleira fólk tók að veikjast var ákveðið að setja alla þá sem í sveitarfélaginu voru, í sóttkví. Kannski hefði mátt koma í veg fyrir þetta ef algjört bann við skólahaldi hefði verið sett á strax. Kennarinn hefði sjálfsagt veikst eftir sem áður og einhverjir nákomnir honum, en sjálfsagt hefði mátt koma í veg fyrir að veiran gæti dreift sér um allt sveitarfélagið.

Einangrun og lokanir eru vissulega neyðarúrræði. Því fylgir mikil röskun og tekjutap. En með því að stýra slíkum aðgerðum er um leið hægt að stýra afleiðingunum, hægt að vita fórnarkostnaðinn að nokkru leyti. Í dag er staðan hins vegar sú að enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér, fjölskyldur bíða milli vonar og ótta, vita ekki hvort þær muni hafa vinnu eftir að þetta er yfir staðið og enn síður hvort þær halda heimillum sínum.

Þó corona faraldurinn sé kannski ekki sambærilegur spönsku veikinni, fyrst og fremst vegna þeirrar tækni sem við búum við auk almenns hreinlætis og samskiptasiða, þá má alveg horfa til hennar. Sagan er oft besti kennarinn. Þegar spænska veikin barst hér á landi, undir lok október 1918, var hún ótrúlega fljót að breiðast út. Á fáum dögum hafði hún lagt þriðjung allra þeirra sem bjuggu í Reykjavík, í rúmið. Þegar skoðað er hvert veikin breiddist út á landsbyggðinni, kemur í ljós enginn veiktist frá Hrútafirði austur um norðurland, suður austfirði og allt vestur undir Vík í Mýrdal.  Á suðurlandi vestan Víkur og vestur um land allt til vestfjarða, veiktist fólk hins vegar. Ástæða þessa er að norður og austurland var einangrað frá suður og vesturlandi. Á Holtavörðuheiði var varðstaða sem aftraði mönnum göngu norður og við Vík sá náttúran um varðstöðuna, en Katla hafði tekið að gjósa viku áður en sóttin barst til landsins. Sagan segir okkur því að einangrun svæða kemur í veg fyrir smit, um það þarf ekki að deila.

Ég vil alls ekki gera lítið úr þeirri vinnu sem framvarðarsveitin okkar sinnir og enn síður því fólki sem stendur vaktina á sjúkrastofnunum. Allt þetta fólk leggur mikla vinnu og miklar fórnir í okkar þágu. En geimum að hæla okkur af árangrinum hér á landi þar til faraldurinn er yfir staðinn í heiminum. Þá mun koma í ljós hvaða aðferðir eru bestar til að vinna á slíkum vágesti. Ef í ljós kemur að okkar fólk var með bestu aðferðarfræðina, má svo sannarlega þakka því.


mbl.is Lítið smit á meðal barna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rekstrargrundvöllur Íslands

Hvernig í ósköpunum gat það gerst að þessi kona gat orðið ráðherra? Það örlar ekki fyrir einföldustu skynsemi hjá henni.

Þegar eitt af stærstu fyrirtækjum landsins gefur það út að grundvöllur þess sé fallinn og eina sem gæti komið í veg fyrir lokun þess sé upptaka á raforkusamningi, segir ráðherra að ekki sé tímabært að skoða hvaða  áhrif það hefur fyrir þjóðfélagið að af þeirri lokun verði! Og þegar forsvarsmenn leita ásjár hjá ráðherra, vegna þvermóðsku forstjóra Landsvirkjunar, vísar hún þeim á dyr og segir að þarna sé um samning milli tveggja fyrirtækja að ræða. Vísar þeim í fang þess er setti snöruna um háls þeirra! Hvers vegna heldur ráðherra að leitað hafi verið til hennar? Áttar hún sig ekki á þeirri einföldu staðreynd að búið er að reyna að ná sambandi við þann sem heldur um hinn enda snörunnar?

Forsætisráðherra komst þó örlítið betur frá málinu, talaði um að skoða þyrfti samkeppnisgrundvöll stórfyrirtækja á landinu. Væntanlega á hún þar við að með því að setja málið í nefnd muni það lagast.

Það er ekki stór mál að skoða samkeppnisgrundvöll fyrirtækja, meðan tekjur eru lægri en gjöld er grundvöllurinn ekki til staðar. Svo hefur verið hjá Ísal frá því að nýr orkusamningur tók gildi við það fyrirtæki landsmanna sem selur því orkuna. Því er ljóst að grundvöllurinn er brostinn, verði ekki að gert hið bráðasta.

Frekar ætti að skoða hver rekstrargrundvöllur Íslands er, falli stóriðjan. Fyrsta fyrirtækið í fallinu verður Ísal, Elkem er skammt á hælum þess og Norðurál mun fylgja í kjölfarið. Bara við það eitt að missa Ísal mun skerða rekstrargrundvöll Íslands niður fyrir það level er afætur þjóðarinnar í 101 þola. Að ekki sé nú talað um rekstur grunnþjónustunnar. Enn verra verður ástandið þegar fleiri falla. Það er nefnilega enginn annar kaupandi af orkunni, svo einfalt sem það er!

Þá má ekki gleyma þeim sem beinlínis lifa á þessum fyrirtækjum, starfsmenn þeirra og minni fyrirtæki sem þjóna stóriðjunni. Þarna er verið að tala um fleiri þúsund manns sem munu missa sitt lífsviðurværi.

Landsvirkjun er í eigu landsmanna, Alþingi ber ábyrgð á fyrirtækinu og skipar stjórn. Stjórn þess ræður síðan forstjóra. Framkoma og framferði forstjórans ber þó ekki merki þess að um fyrirtæki landsmanna sé að ræða, hann hagar þvert á vilja eigenda, en sjálfsagt vel studdur stjórn Landsvirkjunar. Enda ekki ónýtt að hafa þar næst sér lögfræðinginn "góða" sem stjórnaði kjararáði. Þegar síðan forstjórinn og stjórnarformaðurinn verða búnir að rústa þessu gullepli landsmanna, setja það á hausinn vegna þvermóðsku við stærstu orkukaupendurna, munu þeir sjálfsagt fá væna starfslokasamninga!

Stjórnvöld verða að vakna, þau verða að grípa inní áður en lengra er haldið. Taka völdin af stjórn Landsvirkjunar og forstjóra þess. Ef lagabreytingu þarf til verksins á einfaldlega að breyta þeim lögum strax!

Við erum þegar komin með annan fótinn fram yfir bjargbrúnina. Þökk sé misvitrum forstjóra Landsvirkjunar og kjark- og getulausum ráðherrum ríkisstjórnarinnar!!


mbl.is „Hættum nú að tala þetta niður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband