Nóg verður samt

Fréttaflutningur og yfirlýsing forstjóra Landsvirkjunar, af vanda Ríó Tintó er hreint með ólíkindum. Að kjarasamningur við starfsmenn sé skilyrtur við að fyrirtækinu takist að ná nýjum samning um raforkukaup er mjög eðlilegt. Takist það ekki mun engin þörf vera á kjarasamningi, þar sem engir starfsmenn munu þá starfa fyrir fyrirtækið á Íslandi. Einfalt.

Staðan er sú að álverið í Straumsvík á í miklum vanda, rekstrarkostnaður þar er langt fyrir ofan tekjur. Þegar hefur verið tekið á vandanum innanhúss eins og hægt er, jafnvel gengið þar skrefinu of langt á sumum sviðum. Launagjöld eru tiltölulega lítill hluti rekstrarkostnaðar, en þegar vandi fyrirtækis er slíkur sem er í Straumsvík, verður að leita allra leiða til að ná niður kostnaði. Launahækkanir geta því ekki komið til nema einhver annar kostnaður lækki.

Hins vegar eru raforkukaup stór rekstrarliður álfyrirtækja. Og þar er vandi álversins í Straumsvík. Orkusamningur sem gerður var við Landsvirkjun, þar sem annar aðilinn gat knúið fram óraunhæft verð í ljósi einokunar, veldur vanda álversins. Verðið er mun hærra en nokkur staðar þekkist í víðri veröld, til slíkra fyrirtækja. Því mun Ríó Tintó eiga þann einn kost, náist ekki hagstæðari samningur, en að loka í Straumsvík. Það dettur engum í hug að rekstri verði haldið áfram með milljarða tapi ár eftir ár og enga aðra framtíð en að slíkt tap muni halda áfram. Við þá lokun munu þúsundir manna missa viðurværi sitt, bæði starfsmenn sem vinna hjá fyrirtækinu sem og allur sá fjöldi sem hefur sínar tekjur af því að þjóna það.

Það dylst engum ást forstjóra og stjórnaformanns Landsvirkjunar á sæstreng til Evrópu. Vilja færa virðisaukann af orkuframleiðslunni til annarra landa. Reiknimeistarar hafa setið sveittir við útreikninga á dæminu og með miklum vilja hefur þeim tekist að fá þá niðurstöðu að slíkur strengur sé hagstæður Landsvirkjun. Það er þó einkum tvennt sem haldið er utan þeirra útreikninga, annars vegar fyrrnefndur virðisauki, þ.e. að hér á landi starfi fyrirtæki sem skaffi fólki vinnu og afli tekna og gjaldeyris fyrir þjóðarbúið. Hitt atriðið sem ekki er nefnt, er að í öllum útreikningum er gert ráð fyrir að erlend ríki séu tilbúin til að niðurgreiða íslenska orku. Án slíkra niðurgreiðslna er útilokað að neinar tekjur fáist af sölu orku gegnum sæstreng til Evrópu. Orkuverð þar mun vart duga fyrir kostnaði við rekstur á slíkum streng.

Nú eru viðsjárverðir tímar. Mannskæð veira herjar á heimsbyggðina og vart séð fyrir endann á því. Af þeim sökum hefur atvinnulíf nánast lagst af í sumum ríkjum heims og því samfara hefur orkuverð hrunið. Þegar við komumst yfir þessa veiru mun verkefni þjóða heims vera það eitt að komast yfir þau fjárhagslegu erfiðleika sem nú eru að skapast. Það mun taka sinn tíma og á meðan mun orkuverð haldast lágt.

Þá er ljóst að hvenær sem er má búast við að ný og kannski enn skæðari veira hlaupi af stað. Því munu allar þjóðir horfa til þess, við sína uppbyggingu, að stefna að sem mestri sjálfbærni. Halda fast um sitt.

Vandi álversins í Straumsvík er þó ekki vegna veirunnar, ekki enn. Hann er innlendur og var kominn fram fyrir nokkuð löngu síðan, þó ekki hafi hann komist í fjölmiðla fyrr en hann varð það stór að móðurfyrirtækið boðaði lokun.

Í ljósi þess ástands sem nú er komið upp, vegna veirunnar, er magnað hvað stjórnvöld eru þögul. Við erum með fjórar grunnstoðir undir okkar þjóðfélagi, grunnstoðir sem sjá til þess að halda uppi því velferðarþjóðfélagi sem við búum við. Þær eru sjávarútvegur, stóriðnaður, ferðaþjónusta og landbúnaður.  Þrjár fyrstu sjá okkur fyrir gjaldeyrisöflun og sú fjórða matvælum og sparnaði í gjaldeyri.

Ein þessara stoða er hrunin og mun taka langan tíma að byggja hana upp aftur, þ.e. þegar sú uppbygging getur loks farið af stað. Því þarf að verja hinar þrjár, svo þjóðfélagið okkar falli af sínum grunni. Sjávarútvegur er nokkuð vel settur og lítið sem þarf að gera þar. Landbúnað verður að efla enn frekar, hellst svo að við getum orðið okkur sjálfbær. Þar stendur hellst hnífurinn í Harðar kúnni. Hægt er að auka til muna ræktun matjurta og hægt væri að framleiða hér á landi áburð á tún, en til þess þarf að fá orku á viðráðanlegu verði.

Fjórða stoðin er svo stóriðjan, önnur þeirra sem eftir er til gjaldeyris öflunar. Þar þurfa stjórnvöld að grípa inní strax. Verði það ekki gert mun þjóðfélag okkar falla.

Það verður ekki með neinu móti unað við það að tveir menn, forstjóri og stjórnarformaður Landsvirkjunar, skuli geta haft örlög þjóðarinnar í sínum höndum, bara alls ekki. Álverið í Straumsvík hangir á einni hendi á bjargbrúninni, Elkem á Grundartanga er komið fram á brúnina og önnur stóriðjufyrirtæki landsins stefna hraðbyrir í sömu átt. Verði ekki gripið inn í, mun allt fara á versta veg.

Það er því með algerum eindæmum hvað stjórnvöld eru fámál um stöðuna. Ætla þau virkilega að bæta enn við vanda vegna veirunnar, með því að láta stóriðjuna falla líka?

Nóg verður samt!


mbl.is Rio Tinto nýti sér stöðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef maður reynir smá stund að horfa fram hjá þeim orðum forstjóra Landsvirkjunar að vandi álversins í Straumsvík stafi af lækkandi afurðaverði og skoðar frekar yfirlýsingu frá Landsvirkjun frá í gær sjá viðhengi. 

Heldurðu þá að þetta sé vitleysa að álverið í Straumsvík hafi greitt móðurfélaginu 130 milljón dollara í arð 2017 og að sú greiðsla hafi verið hærri enn allar samanlagðar arðgreiðslur frá Landsvirkjun til ríkisins fram að því?

Því ef þetta með 130 milljón dollarana er rétt þá virðist álverið í Straumsvík vera sú gullgæs sem síst ætti að slátrast af eigendum.

Þá verður maður reyndar líka að gefa sér að minkun framleiðslu niður í 85% í Straumsvík stafi af einhverjum sjálfspyndingarhvötum. Móðurfélagið sé á móti hagnaði. 

En hvað ætli sé nú hið rétta í þessu?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 8.4.2020 kl. 10:36

2 identicon

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 8.4.2020 kl. 10:37

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta er að mínu mati allt hárrétt athugað hjá þér, Gunnar.  Það eru vissulega margar lexíur af þessari veiru að læra.  Hún sýnir okkur fallvaltleika alþjóðlegra viðskipta, þar sem mantran er, að sá skuli framleiða, sem geri það með ódýrustum hætti.  Kína getur ekki orðið verksmiðja heimsins.  Gæði matvæla og örugg afhending þeirra skipta okkur meira máli en verð þeirra.  Innlenda orku ber að nýta út frá lýðheilsulegum, atvinnulegum og þjóðhagslegum rökum, en ekki út frá þröngum gróðasjónarmiðum orkufyrirtækjanna, eins og meginboðskapur orkupakka ESB hljómar um.

Bjarni Jónsson, 8.4.2020 kl. 10:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband