Guð blessi þjóðina

Enn standa stjórnvöld við drullupollinn og pota í hann með priki. Engin áform virðast vera að reyna að ausa drullunni úr honum, svo fært verði yfir.

Lán með 100% ríkisábyrgð hljómar vel. En þegar lengra er lesið verður ljóst að þessi aðgerð mun gagnast fáum. Fyrir það fyrsta eru settar hömlur á það hverjir geta fengið slíka ábyrgð og í öðru lagi er sú upphæð sem boðist er til að ábyrgjast svo lág að engu mun breyta. 6 miljóna hámark til fyrirtækja sem enga innkomu hafa fengið í nokkrar  vikur og fyrirséð að enga innkomu munu fá næstu mánuði, gerir ekkert gagn. Því má ljóst vera að flest eða öll þau lán sem tekin verða með slíkri ábyrgð munu lenda á ríkissjóð. Fyrirtækin fá einungis örlitla lengingu í hengingarólinni, sem að lokum mun strekkjast að.

Þessi viðbót við áður boðaðar aðgerðir munu því litlu breyta. Þær eru flestar byggðar á frestun greiðslna eða aukinni lántöku. Fyrir flest fyrirtæki í ferðaþjónustu er aukin lántaka bjarnargreiði. Frestun skattgreiðslna mun einnig koma í bak fyrirtækja, enda kemur þar að skuldadögum.

Fjármálaráðherra telur að kostnaður ríkissjóðs vegna veirunnar muni geta numið allt að 250 milljörðum króna. Ekki mun sá kostnaður þó hljótast af aðgerðum stjórnvalda, heldur aðgerðarleysi og líklegt að með sama aðgerðarleysi muni tapið verða mun meira.

Fram til þessa hefur verið einblínt á að hjálpa fyrirtækjum landsins, þó ekki hafi stjórnvöldum auðnast að finna til þess neinar virkar leiðir. Það er í sjálfu sér góðrar gjalda vert að huga að því að halda uppi atvinnu fyrir fólkið, en eins og áður sagði hefur stjórnvöldum ekki tekist vel til við það verk. Nú þegar eru 50.000 manns komnir á atvinnuleysisbætur.

En það er til lítils að bjarga fyrirtækjum landsins, ef ekki er hugað að því að gera fólki kleyft að búa hér áfram. Þó fjármálaráðherra átti sig ekki á þeirri einföldu staðreynd, sem allt hugsandi fólk skilur, að sú kreppa sem er að skella á okkur og allri heimsbyggðinni, muni leiða til verðbólgu af stærðargráðu sem ekki hefur sést hér á landi í nærri hálfa öld, er ljóst að svo mun verða. Flest heimili landsins eru undir hæl bankanna og skulda í sínum fasteignum. Verðtryggð lán munu stökkbreytast og svo mun einnig verða með óverðtryggð lán, þar sem vextir þeirra eru í flestum tilfellum bundnir með einum eða öðrum hætti við verðtrygginguna.

Ákalli hagsmunasamtaka heimilanna um að verðtrygging yrði fryst meðan stærsti skaflinn skellur yfir, svaraði ráðherrann að "slíkt væri flókið og að viðtakandi væri á hinum endanum". Frekar ósmekklegt svar sem segir manni að ráðherra gefur skít í fólkið.

Það er fjarri því að það sé flókið að frysta verðtrygginguna, reyndar ekki heldur flókið að afnema hana, ef því er að skipta. Það kostaði eina undirskrift að setja hana á á sínum tíma, var þá sett á bæði lán og laun. Þrem árum síðar var með einni undirskrift afnumin verðtrygging launa og því ætti ekki að kosta  meira en eina undirskrift að afnema verðtryggingu lána. En það var ekki afnám verðtryggingar sem HH fór fram á nú, einungis frystingu á meðan stærsti skaflinn gengur yfir. Að koma í veg fyrir að sömu mistök yrðu gerð nú og voru gerð haustið 2008, með skelfilegum afleiðingum. Og það er mikið rétt hjá ráðherranum, það er viðtakandi á hinum endanum, "hinir ósnertanlegu" þ.e. lífeyrissjóðirnir og bankarnir. Í bókum sínum segjast lífeyrissjóðirnir eiga um 4.000 milljarða króna, fjárhæð sem erfitt er að gera sér í hugarlund, reyndar svo há að marga tugi tæki þá að tæma bækur sínar með greiðslum lífeyris, þó engar tekjur væru. Tveir af þrem bönkum landsins eru að stærstum hluta í eigu ríkissjóðs, sá þriðji í erlendri eigu. Frá hruni hafa þeir hagnast um hundruð milljarða hver. 

Það er nokkuð magnað hvaða tök lífeyrissjóðir og bankar hafa á stjórnvöldum og skiptir þar litlu máli hvaða flokkar eru við stjórn. Frysting verðtryggingar mun að sjálfsögðu minnka tekjustreymi þeirra um einhvern tíma, en sú upphæð er þó smámunir miðað við allur sá austur spákaupmennska stjórna þeirra hefur dregið út úr þeim. Þá ætti sjálfur fjármálaráðherra að átta sig á að stór hluti þeirra fjármuna sem lífeyrissjóðir telja sig eiga, eru í raun eign ríkissjóðs.

Haustið 2008 bað þáverandi formaður Sjálfstæðisflokks guð að blessa þjóðina. Núverandi formaður er greinilega á öðru máli!


mbl.is Lán með 100% ríkisábyrgð fyrir minni fyrirtæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Vel mælt Gunnar og allt hárrétt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.4.2020 kl. 07:16

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Glimrandi góður pistill Gunnar. Tek undir hvert orð.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 26.4.2020 kl. 12:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband