Að eyða fé eða nýta það

Það er gott þegar þingmenn átta sig á að ekki er hægt að eyða sömu peningum tvisvar. Hins vegar er umhugsunarefni að þingmaður skuli þurfa að opinbera þessa visku sína, visku sem öllum almenning hefur verið ljós frá því mannskeppna fór að höndla með mynt.

Svo er aftur spurning hvort þurfi að eyða þessum peningum yfirleitt og vissulega er um eyðslu þar að ræða. Vandi íslenskra fjölmiðla kemur kórónuveirunni lítið við, var kominn löngu áður. Réttara væri að skoða hvers vegna þessi vandi er til kominn og leysa hann frá þeim enda.

Fjölmiðlar hafa tekjur sínar fyrst og fremst af auglýsingum og ekki að sjá að þeim hafi fækkað mikið við veiruna. Hitt er ljóst að auglýsingamarkaður hér á landi er takmarkaður og því fleiri fjölmiðlar sem eru starfandi, því lægri tekjur eru í boði fyrir hvern og einn. Fjöldi fjölmiðla hér á landi er nægur, reyndar meiri en eftirspurn. Kannski er vandinn einmitt þarna, að fjölmiðlar eru of margir, kannski þarf bara að fækka þeim. Það er best gert með því að láta þá falla sem minnst eftirspurnin er eftir. Ef þingmenn telja að með því að eyða 400 milljónum til fjölmiðla, tala ekki um 750 milljónum, eru þeir ekki að átta sig á vandanum. Slík eyðsla mun einungis kalla á enn fleiri fjölmiðla og enn meiri eyðslu ríkissjóðs.

Það er nokkur munur á að eyða fé eða nýta það. Þarna er klárlega verið að eyða fé ríkissjóðs, engum til gangs nema eigendum fjölmiðla. Nær væri að nýta þetta fé til hjálpar fórnarlömbum veirunnar og þar af nógu að taka. Atvinnuleysi hér á landi hefur náð nýjum hæðum og ekki útlit fyrir að það muni batna næstu misseri eða ár. Fjöldi fjölskyldna mun eiga um sárt að binda. Tekjuöflun þjóðarinnar mun falla um tugi prósenta og vandséð hvernig við ætlum að halda uppi því velferðarþjóðfélagi sem við höfum vanist síðustu ár.

Þegar svo árar er alger fyrra að eyða hundruðum milljóna króna til að halda uppi ofvöxnu fjölmiðlaumhverfi!


mbl.is „Þú eyðir ekki sömu peningunum tvisvar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Þetta á ekki síður um ferðaþjónustuna þar sem græðgisvæðingin er búin að vera alveg botnlaus.

Sigurður I B Guðmundsson, 26.4.2020 kl. 17:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband