Don Kíkóti

Stjórnvöld vilja taka þriðjung landsins undir þjóðgarð, setja yfir hann skipaða stjórn án aðkomu kjósenda. Ekki verður séð hver tilgangurinn er í raun, annar en einhverskonar minnisvarði fyrir ákveðna stjórnmálamenn. Náttúruvernd mun fórnað með þessum garði, enda hugmyndir um stjórnun hans með öllu óverjandi. Auk þess liggja engar áætlanir fyrir um kostnað eða fjármögnun þessa ævintýris.

Þeir sem að þessu standa bera gjarnan fyrir sig orðinu náttúruvernd, eins og það orð eitt og sér geti réttlætt allt. Náttúruvernd er meira en bara orðið eitt, náttúruvernd byggir á að vernda náttúruna. Ekki verður séð að tilgangur þess að taka einn þriðja af landinu undan lýðræðislegri stjórn og setja undir skipaða stjórn embættismanna stuðli með neinum hætti að frekari náttúruvernd. Enda fer ekki saman hljóð og mynd hjá þessu fólki, þar sem að á sama tíma og talað er um náttúruvernd, er einnig sagt að erlendu ferðafólki muni fjölga á svæðinu. Fyrir cóvið var verið að berjast við of mikinn fjölda erlendra ferðamanna á viðkvæmustu svæðunum!

Á sama tíma og þetta fólk skreytir sig með orðinu náttúruvernd fitlar það við hugmyndir um stórfellda "ræktun" vindmilla á landinu. Fara þar fyrir erlendum fjórplógsmönnum sem hugsa um það eitt að græða sem mest og láta aðra taka afleiðingunum. Varla er til sá dalur eða fjall á landinu þar sem ekki hefur sést til manna vera að mæla vindhraða og meta aðstæður fyrir vindmillur.

Nokkrir staðir eru lengra komnir, búnir að gera plön og sumir fengið þau samþykkt af viðkomandi stjórnvöldum hér á landi. Þegar þessi plön eru skoðuð er víðast verið að tala um vindmillur sem skaga meir en 200 metra upp í loftið, nærri þrisvar sinnum hærri en vindmillur Landsvirkjunar, sem sumum þykja þó nógu háar! Þessar vindmillur eru hreint út sagt ófreskjur á að líta og framleiðslugeta þeirra um 4,5mw, þegar vindur er hagstæður. En þróun vindmilluframleiðslu er hröð, enda líftími þeirra nokkuð stuttur og allir vilja stækka við sig. Í dag eru til vindmillur sem framleitt geta allt að 16mw, við bestu vindskilyrði. Spaðar þeirra eru yfir 100 metra langir svo heildar hæð slíkra milla fer nokkuð vel á þriðja hundrað metra. Ljóst er að eftir að erlendu vindmillibarónarnir hafa fengið tilskilin leyfi hér, mun krafa þeirra um "örlítið" stærri millur koma upp. Ekki verður séð að neinn sveitarstjórnarmaður eða stjórnvöld muni lyfta hönd gegn því.

Náttúruvernd er meira en orðið sjálft, eins og áður segir. Þetta virðast stjórnmálamenn hins vegar ekki skilja. Þeir líta þetta orð sem skrautfjöður í hatt sinn, til nota þegar við á en skipta síðan um hatt þegar skrautfjöðrin er til trafala.

Don Kíkóti barðist við vindmillur og þóttist mikill hermaður. Íslenskir stjórnmálamenn berjast fyrir villum og þykjast miklir menn. Sýn íslensku stjórnmálamannanna er söm og Don Kíkóta, þó baraáttan sé öfug.

 


Hatursorðræða

Það er auðvitað graf alvarlegt mál þegar menn ganga um bæi eða borgir, skjótandi út í loftið. Hingað til hefur Víkingasveitin verið kölluð til í slíkum málum og handtekið þann skotglaða, jafnvel þó einungis hafi sést til manns með eitthvað sem líktist byssu. Einhverra hluta vegna tókst þó einhverjum að skjóta á bækistöðvar stjórnmálaflokka og á bíl borgarstjórans án þess að nokkur yrði var við, fyrr en eftir á. Virðist sem að baki liggi eingöngu skemmdarverk, að ekki hafi verið ætlunin að skaða líf eða limi nokkurs manns. Engu að síður er þetta óafsakanlegt verk og ekki hægt að ætla annað en að þarna hafi verið um andlega veika persónu að ræða.

En stjórnmálin eru söm við sig og sumir gripið þetta atvik til að upphefja sjálfa sig og úthúða andstæðingnum. Ásakanir í garð stjórnmálaflokka voru fljót að spretta upp, ekki síst frá þeim er standa næst borgarstjóra. Sjálfur hefur hann verið duglegur að nýta þetta og leikið fórnarlamb af miklum móð, jafnvel þó víst sé að líf hans hafi aldrei verið í hættu. Þá er reynt að kenna svokallaðri "hatursorðræðu" í fjölmiðlum um þessi atvik og haldið fram að stjórnmál í dag séu svo óvægin.

Stjórnmál er í eðli sínu óvægin og þeir sem velja að feta inn á þann völl verða að sætta sig við að fórna stórum hluta persónufrelsi sínu. Oft hafa menn verið orðljótir, steytt hnefa og jafnvel gengið að andstæðingi sínum í þingsal og lamið í öxlina. Hin síðustu ár hefur heldur dregið úr slíku ofbeldi og sýnist sitt hverjum um það. Sumir segja það merki um deyfð, doða og almennan aumingjaskap stjórnmálamanna, að þeir hafi ekki lengur kjark til að standa á sinni skoðun. Víst er að stjórnmál voru skemmtilegri hér áður fyrr, þegar menn skiptust á skoðunum, stundum með kannski full stórum orðum. Í dag er bara sagt það sem "má" segja og varla það.

Svokölluð hatursorðræða er eitthvað sem erfitt er að skilgreina. Ekki er þó hægt að halda fram að hún sé stunduð milli stjórnmálamanna, þó ansi tæpt hafi stundum verið á því innan borgarstjórnar, einkum þegar ákveðnir fulltrúar þar hafa ráðist gegn oddvitum þeirra flokka sem eru í minnihluta. Þó verður sennilega frekar að flokka þær árásir á barnaskap þeirra er fluttu. Heilbrigð gagnrýni getur aldrei flokkast sem hatursorðræða, jafnvel þó stór orð falli og jafnvel þó kannski sé ekki allt nákvæmlega eftir sannleikanum. Hvenær hefur stjórnmálamaður sagt allan sannleikann? Hins vegar eru ummæli sem falla í athugasemdum fréttamiðla oft þess eðlis að hægt er að tala þar um hatursorðræðu. Þar er þá einkum um að ræða truflað fólk sem ekki hefur kjark til að rita undir eigin nafni. Það sem sammerkt er með þeim ummælum er að þau snúast einkum gegn tveim stjórnmálaflokkum, Sjálfstæðisflokki og Miðflokki og þeim sem þar eru í ábyrgðarstöðum. Þetta má uppræta með því einu að hafna öllum skrifum frá þeim sem ekki hafa kjark til að setja nafn sitt við þau.

Umræðan um meinta hatursorðræðu er komin á hættulegt stig. Stjórnmálamenn eru farnir nýta sér þetta hugtak í auknum mæli til að þagga niður í andstæðingum sínum. Farið er að tala um að setja ströng lög gegn meintri hatursorðræðu. Þarna erum við komin út á hættulegt svið og stutt í að tjáningarfrelsið falli og þá um leið lýðræðið. Verst er þó að þeir sem hæst kalla eftir böndum á meinta hatursorðræðu, eru í flestum tilfellum þeir sem kannski nálgast mest þau mörk í sínum málflutningi.

Það er hverjum ljóst að enginn stjórnmálaflokkur á aðild að þessum skotárásum, hvorki beint né óbeint. Vissulega eru sumir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn duglegri en aðrir í aðhaldi gegn valdhöfum og ekki vanþörf á. Það er engum valdhafa hollt að geta unnið án gangrýni, þó flestir sem í slíka stöðu komast kjósa það hellst. Slíkt er fyrsta skref í afnámi lýðræðisins.

Að andlega vanheill maður skuli geta gengið um borgina, skjótandi á dauða hluti í þeim eina tilgangi að eyðileggja, er graf alvarlegt mál. Hvar er lögreglan? Hvar eru samborgararnir? Er það virkilega svo að hægt sé að stunda slíkan verknað án þess að nokkur verði var fyrr en löngu seinna? Eru ekki eftirlitsmyndavélar um alla miðborgina? Hvernig má þetta vera? Enn alvarlegra er þegar stjórnmálamenn vilja láta slíkan atburð snúast um sig og jafnvel vilja kenna andstæðingum í pólitík um. Er það ekki hatursorðræða?

 

 


mbl.is „Ekki fara á límingunum!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algerlega í rusli

Í Bændablaðinu, eina alvöru fréttablaði landsins, er grein um rusl, eða öllu heldur förgun á því. Svo virðist vera sem stjórnvöld hafi flotið sofandi að feigðarósi í þessum málaflokk og að tími til aðgerða sé á þrotum.

Talað er um tvær leiðir til förgunar sorps, að flytja það úr landi eða setja upp brennslu hér á landi. Urðun er ekki til umræðu og hefði í raun átt að vera fyrir löngu hætt þeirri starfsemi. Sorp er í sjálfu sér eldsneyti, rétt eins og t.d. Svíar hafa sýnt. Því er víst að ekki gangi illa að koma því til förgunar erlendis. Þar er það brennt í háhitaofnum og flokkaða plastið nýtt til að fá þann hita sem þarf til að mengun verði lítil sem engin. En er einhver glóra í að flytja rusl um langan sjóveg? Er það í raun ásættanleg lausn?

Eins og ég sagði hafa Svíar um nokkuð langt skeið brennt sorp. Varmann nýta þeir til upphitunar á vatni, sem fyrst er látið framleiða rafmagn en síðan upphitunar húsa. Þetta er hagkvæm lausn til lengri tíma, þó stofnkostnaður sé nokkuð hár. Þetta mætti nota sem fordæmi hér á landi.

Þær hugmyndir sem hér eru, eru þó nokkuð undarlegar. Þar er talað um að byggja einn stórann ofn fyrir allt landið og staðsetningin á auðvitað að vera sem næst höfuðborgarsvæðinu, þar sem rafmagn er hvað stöðugast á landinu og nægt heitt vatn. Að vísu fellur mest til af rusli á því sama svæði. Hér á landi er fjöldi svokallaðra kaldra svæða, þ.e. ekki um að ræða hitaveitu. Saman liggur með þeim svæðum yfirleitt óstöðugra rafmagn. Því væri eðlilegra og á allan hátt þjóðhagslega betra að byggja kannski tvo ofna, einn á köldu svæði á vesturhluta landsins og annan á köldu svæði á þeim eystri. Flutningur á ruslinu yrði þá kannski eitthvað meiri en nýting orkunnar margfalt meiri, auk þess að fækka köldum svæðum eitthvað.

Flokkun á rusli má auðvitað vera betri. Þó er erfitt eða útilokað að flokka plast meira en þegar er gert. Staðreyndin er að plasti er skipt upp í 7 flokka. Sumir flokkar eru auðendurvinnanlegir meðan aðra er erfitt að endurvinna. Útilokað er að flokka allt heimilisplast eftir þessari skilgreiningu, þar sem merkingar eru litlar. Sem dæmi getur venjulegur plastpoki verið gerður úr a.m.k tveim þessara flokka eða jafnvel báðum. Þá á eftir að taka til greina þá poka sem gerðir eru úr einhverskonar gerviplasti, sem sagt er eyðast hratt. Ef við tökum gosflösku þá er flaskan sjálf gerð úr PET plasti eða flokki 1, en tappinn aftur úr HDPE flokki 2. Raunveruleg endurvinnsla úr plasti, þ.e. að það verði aftur að plastvöru, verða því einungis gerð með endurvinnslu á plast frá stórnotendum. Netarusl, rúlluplast og fleira í þeim dúr er tiltölulega auðvelt að safna saman og endurvinna. Svo merkilegt sem það er, þá er slík endurvinnslustöð í gangi hér á landi.

En endurvinnsla á plast getur einnig verið á annan hátt, svona eins og ég nefndi áður að Svíar gera. Þ.e. að nýta það sem eldsneyti á ruslaofnana. Þar getur plast frá heimilum skilað miklum árangri. Því flokkum við áfram plast frá öðru rusli, eins og við höfum gert. Þurfum einungis eina tunnu undir plastið, í stað sjö.

Eins og ég sagði áður hafa verið uppi hugmyndir um útflutning á ruslinu. Þar bíða ákveðnir aðilar í startholunum enda um mikla hagsmuni að ræða. Daglega má ætla að til falli rusl hér á landi sem fyllir um 15 vel troðna gáma á dag!  Það er því ekki skrítið að aðaleigendur eins stærsta ruslsöfnunarfyrirtæki landsins tali máli þess að flytja ruslið úr landi. Því miður stefnir allt í að það fyrirtæki muni njóta ávaxtar aumingjaskapar og getuleysis stjórnvalda, með tilheyrandi mengun fyrir heimsbyggðina.

 


Við áramót

Við áramót er gjarnan litið yfir farinn veg og spáð í framtíðina. Síðasta ár var vissulega nokkuð sérstakt. Byrjaði á hefðbundinn hátt en breyttist snarlega er covid veiran lagðist yfir heimsbyggðina. Á vordögum leir út fyrir að við hefðum náð að yfirbuga þennan vágest hér á landi en eins og oftast þá gátu stjórnmálamenn ekki staðið í lappirnar. Opnað var fyrir ferðafólk til landsins og einhver óskiljanleg túlkun á grænum, gulum og rauðum löndum látin ráða hvort þeir kæmu óheftir til landsins eða hvort þeim væri skylt að hlíta sóttvarnarprófi. Þó var öllum ljóst að veiran var óheft innan allra landa í kringum okkur. Því fór sem fór, veiran komst aftur til landsins og það sem eftir var ársins var háð erfið  barátta gegn henni. Sumir hafa viljað að áramótaskaupið snerist um fleira en covid, en þar sem fátt annað komst að hér á landi á liðnu ári lýsti það kannski best hvernig það var.

Ekki meira um síðasta ár, spáum frekar í framtíðina. Verður nýbyrjað ár betra en það liðna? Þegar stórt er spurt er oft lítið um svör, enda ekki auðvelt að spáa um það ókomna.

Þó eru merki þess að komandi ár muni geta orðið okkur slæmt á marga lund, að teknar verði ákvarðanir sem ekki er hægt að bólusetja gegn. Þar hræðist maður mest þá kjarklausu og stefnulausu stjórnmálamenn, sem ráða framtíð okkar hvað mest. Merki þess hafa þegar verið teiknuð í skýin.

Forsætisráðherra segir stjórn hluta þjóðarinnar verða búinn að fá bólusetningu á fyrri hluta ársins. Þó er ekki fast í hendi bóluefni nema fyrir 0,6% hennar fram til loka mars. Hvenær meira bóluefni kemur er óskhyggja ein. Sá aðili sem stærsti samningur hefur verið gerður við hefur ekki enn lokið prófunum og vonast til að koma sínu efni á markað einhvertímann á haustdögum! Annað hvort er árið hjá forsætisráðherra mun lengra en gregoríanska dagatalið segir til um eða hún er beinlínis að ljúga að þjóðinni. Það er ljótt að ljúga, jafnvel þó verið sé að reyna að afvegaleiða mistök.

Umhverfisráðherra leggur ofuráherslu á að koma á stofn hálendisþjóðgarði. Fyrir utan vanreifað frumvarp, sem gefur fáum vald yfir stórum hluta landsins, mun kostnaður vegna þessa ævintýris verða geigvænlegur. Eftir þau fjárhagslegu áföll sem ríkissjóður og þjóðin öll hefur orðið fyrir vegna covid er vart hægt að kalla það heila hugsun að ætla að veðsetja ríkissjóð vegna einhverra gæluverkefna, sem sýnast þjóna þeim eina tilgang að reisa minnisvarða um mann sem ekki einu sinni var kjörinn af þjóðinni.

Sem fyrr segir er búið að veðsetja ríkissjóð meira en nokkurn tímann áður, vegna þeirra hamfara sem covid hefur valdið. Það mun verða verkefni stjórnvalda næstu árin að vinna þær skuldir niður. Það verður ekki gert með aukinni skattlagningu, einungis aukinni verðmætasköpun. Því eru kosningarnar í haust nokkuð áhyggjuefni. Líklegt er að einsmálsflokkarnir Viðreisn og Samfylking komist til valda og þá munu þeir auðvitað vinna að sínu stefnumáli. Skiptir þar næsta litlu hvort þeir mynda stjórn til vinstri eða hægri. Við þekkjum hins vegar stjórnarháttu til vinstri, bæði í landsstjórninni sem borgarstjórn. Ljóst er að peningavit á þeim vængnum er takmarkað og engin stjórn sett á jafn marga skatta á þjóðina og ríkisstjórn Jóhönnu. Því yrði heldur verra ef mynduð verður stjórn til vinstri en hægri, þó vissulega sé erfitt að treysta á núverandi fjármálaráðherra.

Næstu kosningar eru því sennilega einhverjar mikilvægustu kosningar sem þjóðin stendur frammi fyrir. Þar er efnahagsleg uppbygging að veði, auk auðvitað sjálfstæði okkar!

Að framansögðu er varla hægt að vera bjartsýnn á komaandi ár, en þó ætla ég að leyf mér að trúa því að þjóðin hafi vit. Ég er ekki spámaður og vonandi fer allt á betri veg

Gleðilegt ár til allra sem nenna að heimsækja þessa síðu mína.


mbl.is Stór hluti bólusettur á fyrri hluta 2021
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grinch og gleðileg jól

Sagan af Grinch, eða Trölla eins og við köllum hann, fjallar um fígúru sem reynir að stela jólunum af fólki í ótilteknum smábæ, einhversstaðar í ævintýralandi. Honum verður ekki kápan úr því klæðinu, enda jólin stærri og meiri hátíð en svo að hægt sé að stela henni.

Einn ráðherra í ríkisstjórn okkar gerði tilraun til að feta í þessi fótspor Grinch, en vonandi verður afrakstur hans ekki betri, jafnvel þó sterkur svipur sé með þeim.

Gleðileg jól til allra bloggvina og annarra sem lesa það pár sem á þessari síðu má finna.

 

images_1372936.jpg


mbl.is Hefði átt að yfirgefa listasafnið strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlítill grenjndi minnihluti

 Ég tilheyri þeim þúsundum landsmanna sem kallaðir hafa verið "örlítill grenjandi minnihluti".

Við landsmenn höfum verið þeirra gæfu aðnjótandi að fyrsti forseti Alþingis hefur lítið nýtt sér ræðustól stofnunarinnar, mestan part þess kjörtímabils er nú er senn að ljúka. Undantekningu gerði hann þó á þessari nýju en gleðilegu venju sinni, fyrir um viku síðan, er hann taldi sér nauðsynlegt að lítillækka hluta þjóðarinnar, með þeim orðum að um "örlítinn grenjandi minnihluta" væri að ræða. Sem forseti Alþingis og handhafi forsetavalds, voru þessi ummæli kuldaleg, hvort sem um stórann eða lítinn hluta þjóðarinnar væri að ræða. Þarna setti forseti Alþingis stórann og ljótan blett á þá stofnun sem honum er trúað til að stjórna.

Ekkert hafði forseti þó fyrir sér í þessari fullyrðingu annað en gamla skoðanakönnun er gerð var fyrir Landvernd. Gerð á þeim tíma er enginn vissi í raun um hvað málið fjallaði. Haldið var uppi þeirri fullyrðingu að um einhverskonar vernd landsins væri að ræða, án frekari útskýringa. Og auðvitað vilja allir Íslendingar að landið okkar sé verndað. Núverandi hugmyndir um hálendisþjóðgarð, er ná mun um einn þriðja landsins, á þó ekkert skylt við landvernd, enda ekki séð hvernig verndun hálendisins getur orðið betri undir einhverri fjárvana stofnun í Reykjavík. Í dag er hálendið vel varið. Engar framkvæmdir er hægt að gera þar nema með leyfi margra stofnana og sveitarfélaga. Utanvegaakstur er bannaður sem og öll náttúruspjöll. Þó vanmönnuð lögregla eigi erfitt með að framfylgja þessum bönnum, er þó ekki neitt í frumvarpi ráðherra sem gerir ráð fyrir bótum á því.

 Sporin hræða.

Núverandi þjóðgarðar eru sveltir fé til sinna mála og sá stærsti þeirra, Vatnajökulsþjóðgarður er nær yfir um 14% landsins, er svo fjársveltur að uppsafnaðar skuldir hans nema hundruðum milljóna króna, þó verulega skorti á að uppbygging þar sé viðunandi og í sumum tilfellum í molum.

Miklar deilur hafa verið um aðgengi að sumum perlum þess þjóðgarðar og í nýju frumvarpi umhverfisráðherra er því svo fyrir komið að slíkar deilur muni aukast markfalt, ef stofnaður verður þjóðgarður um það sem eftir stendur af hálendinu. Allt vald til ákvarðanatöku um ferðir um hina og þessa vegi og slóða hins nýja þjóðgarðs verður sett til einhverra manna sem ekkert umboð hafa frá þjóðinni og þeir jafnvel geta fært það umboð til landvarða á hverjum stað. Fyrir séð er því algert öngþveiti á þessu sviði og jafnvel má búast við fjölda dómsmála gegn ríkin, vegna ákvarðana Péturs eða Páls í nafni hins nýja þjóðgarðar.

 Aðkoma þjóðarinnar.

Forseti Alþingis hélt því fram að um örlítinn grenjandi minnihluta væri að ræða, sem væri á móti því að taka einn þriðja hluta landsins undan eðlilegri stjórnsýslu og fela fámennum hópi fólks vald til stjórnunar þess, fólki sem ekkert umboð hefði frá kjósendum og jafnvel Alþingi sjálft mun ekki geta ráðið yfir. Sama málflutning hafa aðrir aðstandendur frumvarpsins haft uppi, þó enginn hafi verið jafn orðljótur og forseti Alþingis, a.m.k. ekki í ræðustól Alþingis. Ef þeir þingmenn sem þannig tala trúa eigin orðum, því þá ekki að setja málið í dóm þjóðarinnar? Það ætti að reynast þeim auðvelt. Eða eru þessir þingmenn vitandi um það að í slíkri kosningu yrði málið sennilega fellt?

 Hrossakaup?

Það kemur vissulega upp í huga manns hvort um einhver hrossakaup stjórnarflokkanna sé að ræða. VG fer nú hamförum í sínum pólitísku gælumálum og hendir þeim fram á færibandi, fyrir þing og þjóð. Hinir tveir stjórnarflokkarnir sitja hjá sem hýenur og bíða þess er að þeim kemur. Vissulega hafa sumir stjórnarþingmenn sett fram fyrirvara gegn stofnun hálendisþjóðgarðs og síðast nú í gær sem formaður Framsóknar ítrekaði sína fyrirvara. Enginn stjórnarþingmaður hefur þó sett sig gegn þessu frumvarpi, einungis um einhverja fyrirvara að ræða, sem vigta lítið í heildarmyndinni.  Það er því spurning, hvað fá Framsókn og Sjálfstæðisflokkur fyrir að hleypa VG liðum lausum þessa dagana? Þessi spurning er stór en brennur sennilega á vörum margra. Stendur eitthvað stórt til? Er verið að kaupa af VG sölu ríkiseigna? Bankarnir? Keflavíkurflugvöllur? Eða jafnvel gullegg þjóðarinnar, Landsvirkjun?

Allir landsmenn vilja að landið okkar og náttúra þess fái sem mest vernd, að ekki sé anað út í einhverja framkvæmd sem gerir landið fátækara og verra. Í dag höfum við komið málum þannig fyrir að þessi markmið eru höfð í hávegum. Rammaáætlun tryggir hvar er virkjað og hvar ekki. Landgræðsla og landbætur eru í höndum bænda og Landgræðslu Ríkisins, auk aðkomu sveitarfélaga. Þetta hefur reynst vel og landið okkar orðið grænna fyrir vikið. Engar framkvæmdir, svo sem vegir eða annað, eru heimilar nema í samráði sveitarfélaga og stjórnvalda og allar stærri slíkar aðgerðir þurfa ð fara í umhverfismat. Málin eru því nokkuð góð hjá okkur í vernd landsins, þó vissulega megi bæti í á einstaka stað. Það er ekkert í hugmyndum um þennan nýja þjóðgarð sem gerir betur. Hins vegar má leiða líkum að því að sumt muni fara á verri veg, svo sem samstaða Landgræðslunnar og bænda, svo dæmi sé tekið.


Flestu má kenna covid

Flest er nú hægt að kenna covid. Ef maður rekur við þá er það covid að kenna. Ömurlegri eru þó ummæli framkvæmdarstjóra Veitna um að "lít­il von hafi verið á viðlíka kuldakasti og því sem vænt­an­legt er næstu daga". Það þarf ekki annað en líta eitt ár aftur í tímann, upp á dag, til að sjá slíkt kuldakast á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta eru fátæklegar afsakanir framkvæmdastjórans. Staðreyndin er einföld. Samfara fordæmalausri fjölgun húsnæðis hefur nú um nokkurra ára skeið hefur verið alger stöðnun í orkuöflun Veitna, sem leiðir af sér skort við minnsta frávik í veðri. Það er ekki eins og einhver fimbulkuldi eigi sér stað þessa dagana, hér á sv horni landsins. Hvernig færu Veitur að ef mikla kuldatíð gerði, svo vikum skiptir?  Það er þó eitt sem allir virðast sammála um, nema forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur, að búast má við kaldari vetrum á næstu áratugum. Loftlagsglóparnir segja það fylgifisk hlýnunar jarðar, en raunsæisfólk horfir á hitamælinn sinn og sér hvert stefnir.

 


mbl.is Bólusetning gæti gerst mjög hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitlaust gefið

Nú um næstu áramót fellur svokallaður Kyoto samningur úr gildi og við tekur svonefndur Parísar sáttmáli. Við þessi tímamót þurfa þjóðir heims að stand skil á sínum "syndum". Svo virðist vera sem um sé að ræða tvennskonar uppgjör, annarsvegar með kaupum á einhverju sem kallast CER eininga og enginn veit hvað er eða hvert það fé fer, eða með kaupum á því sem kallast ETS einingar, en sú upphæð mun renna ósskipt inn í óendurskoðaða reikninga ESB. Sumir halda því fram að þarna sé val á milli, en víst er að bæði ESB og ICE vilja fá sitt.

Nokkur munur virðist vera á hvor leiðin verður valin, ef um val er að ræða. Það mun kosta okkur um 200 milljónir ef keypt eru CER bréf en allt að 20 milljarða ef evrópsku ETS bréfin eru keypt. Þessar tölur eru auðvitað með fyrirvara, þar sem ég veit auðvitað ekki hver "synd" okkar er, ekki frekar en forsætisráðherra. En mismunurinn er þó nokkuð réttur, miðað við verðmun þessara bréfa.

Það er hins vegar nokkuð undarlegt að forsætisráðherra skuli ekki vita hver upphæðin er, einungis mánuði áður en greiðsluseðill er prentaður. Það þætti lélegur heimilisbókari sem ekki vissi útgjöld sín mánuð fram í tímann. Það er ekki eins og þetta sé einhver óvænt uppákoma, hefur víst legið fyrir í nokkur ár, eða frá því Ísland gerðist aðili að samningnum.

200 milljónir eru nokkuð stór upphæð, að ekki sé nú talað um 20 milljarðar. Hvað um þessa peninga verður veit víst enginn, nema auðvitað viðtakandinn, en hann er alltaf til staðar þegar peningar fara á flakk. Ef valin verður dýrari kosturinn, sem umhverfisráðherra hefur talað fyrir, er ljóst að aldrei verður hægt að finna móttakanda fjárins, enda ekki verið hægt að endurskoða reikninga ESB í áratugi, vegna fjármálaóreiðu á þeim bænum. Ef ódýrari kosturinn er valinn, sem formaður loftlagsráðs Gumma vill, mun einnig verða erfitt að rekja slóð peningana. Að vísu munu þeir fara frá okkur í alþjóðlega gjaldeyrismiðsstöð. Hvað svo veit enginn.

En svo er auðvitað stóra spurningin, hvers vegna þurfum við að kasta hundruðum eða þúsundum milljóna króna út í loftið? Hvers vegna var ekki endirinn skoðaður strax í upphafi?

Það er ljóst öllum sem einhverja glóru hafa í kollinum að það var vitlaust gefið til okkar, þegar ákveðið var að gangast að þessum samningi og þeim sem á eftir komu. Viðmiðunarár Kyoto samningsins var 1990. Hvers vegna það ár var valið hefur engum tekist að komast að, en fyrir okkur hér á Íslandi er þetta kolrangt viðmið. Á sjötta áratug síðustu aldar hófust hér á landi markviss orkuskipti í húshitun heimila og var því markmiði að mestu náð fyrir árið 1990, upphafsári Kyoto samningsins. Aðrar þjóðir voru ekki enn farnar að huga að slíkum orkuskiptum þá og margar eiga enn langt í land með það markmið. Hvað heimili varðar er kostnaður við kyndingu heimila einn stærsti útgjaldaliðurinn, sér í lagi ef kynnt er með olíu eða kolum. Ólíkt öðrum þjóðum höfðum við því ekki möguleika á að minnka notkun á jarðefnaeldsneyti í þessum lið, sem aftur leiðir til þess að einkabíllinn er tekinn fyrir af miklum móð. Hvergi í víðri veröld eru lagðir eins miklir skattar á einkabílinn eins og hér á landi. Í strjálbýlu landi er einkabíllinn ekki lúxus, heldur bráð nauðsynlegur. Því er ljóst að upphafsmarkmið Kyoto samningsins er glórulaust fyrir okkur og með ólíkindum að það hafi verið samþykkt.

Ekki ætla ég að fara út á þá braut að ræða sjálfa "loftlagsvána" núna. Læt nægja að tala um þá skattpíningu sem stjórnmálamenn stunda í nafni hennar. Aflátsbréfin, bæði þau sem fyrirtæki versla með sín á milli sem og hin sem þjóðir þurfa að greiða sem syndaaflausn, munu auðvitað alltaf lenda á almúganum, til viðbótar við alla þá skatta sem stjórnmálamenn leggja beint og óbeint á þegna landa sinna í nafni loftlagsvár. Hvernig í andskotanum mun það minnka mengun? Halda menn virkilega að hægt sé að kaupa sig frá vandanum, ef hann er á annað borð til staðar?

Verst er að nú er staðan orðin slík, vegna endalausra og stórkostlegrar skattlagningar í nafni loftlagsvár, að ráðamenn vita hvorki upp né niður hvað er hvað eða hver þurfi að borga hverjum. Andsvar forsætisráðherra við spurningu formanns Miðflokksins, á Alþingi í dag, sannar þetta.

Hræsnin og hálfvitaskapurinn er allsráðandi.

 


mbl.is Kemur í ljós hve há fjárhæðin verður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera rændur inn í pólitík

Dagur B hefur ætíð verið duglegur að skreyta sig með stolnum fjöðrum og kenna öðrum þegar illa fer. Þarna gengur hann þó skrefi lengra en áður, skrefi sem gerir þennan mann ómerkari en áður.

Í viðhengdri frétt reynir Dagur að réttlæta viðtalið. Segir meiningu sína aðra en fram kemur í viðtalinu og hælir aðgerðum þríeykisins svokallaða. Hvergi kemur þó fram í viðtalinu við Bloomberg að heiðurinn sé annarra en Dags. Í formála þess er útilokað annað að skilja en að Dagur, í krafti sinnar læknismenntunar, sé heilinn og höfuðið að baki þeim árangri sem hér hefur náðst. Dagur hvorki leiðréttir það né minnist þríeykið í sjálfu viðtalinu. Uppveðrast og tekur fegins hendi því hóli sem Bloomberg ber á hann. 

En það var einnig annað skondið sem fram kom í þessu viðtali. Eftir að Dagur var búinn að telja upp alla sína menntun, sagði hann að honum hafi verið rænt inn í pólitík. Hann hefði svo sem auðveldleg getað losað þau höft af sér eftir síðustu kosningar og sloppið frá ræningjunum, enda var honum hafnað af kjósendum. Það var einungis vegna nokkurra smáflokka, mönnuðum af jafn valdasjúku fólki og hann sjálfur, sem Degi tókst að halda völdum. Degi var því ekki rænt, heldur rændi hann borgarbúa lýðræðinu.

Eftir að hafa horft á þetta viðtal Bloombergs við Dag, er ljóst hvaða íslendingur líkist mest Trump. Sjálfshól, lygar og taktleysi við raunveruleikann einkennir þá báða, þó Trump hafi vissulega mun meira vit á fjármálum en Dagur, enda leitun að manni sem hefur tekist að koma heilli höfuðborg í jafn mikla fjárhagslega erfiðleika.

 


mbl.is Þakka læknisfræðimenntun Dags fyrir viðbrögðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóðaskapur borgaryfirvalda

Átti brýnt erindi til höfuðborgarinnar í dag. Fer helst ekki á þær slóðir að þarflitlu. Það sem kom á óvart, eftir að hafa ekið um sveitirnar í björtu og góðu veðri, var hvað skyggni var slæmt í borginni.

Við nánari skoðum sá ég, mér til mikillar undrunar, að yfir götunum lá mikið ryk, svo mikið að þegar ég leit í spegilinn sá ég að undan mínum litla bíl stóð rykský, rétt eins og ég væri að aka á malarvegi. 

Er það virkilega svo að ráðafólk borgarinnar veit ekki að götur borgarinnar eru malbikaðar? Það þarf auðvitað að sópa rykið af þeim, annars má allt eins spara malbikið og hafa bara malargötur.

Við búum á Íslandi, þar sem vikur eldgosa þvælist fram og til baka, í mörg ár eftir hvert gos. Þetta ryk sest á götur borgarinnar, sem annarsstaðar og eina lausnin er að þrífa það reglulega burtu.

Ekki er hægt að kenna nagladekkjum um núna, þar sem borgarstjóri hældi sér af því að borgin væri að kosta þrif gatna í upphafi nýliðin sumars og því fáir ef nokkrir ekið þessar götur á nagladekkjum síðan. En askan spyr víst lítið hvort það sé sumar eða vetur, hún nýtir allan vind sem býðst og sest þar sem skjól finnst.

Í viðhendri frétt er fólk hvatt til að leggja einkabílnum. Mun nær er að hvetja borgaryfirvöld um lágmarks hreinlæti. Sóðaskapur og slóðaskapur er engum til sóma! 


mbl.is Fólk hvatt til að leggja einkabílum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk á bágt ....

Fólk á bágt sem tekur veraldleg gæði fram yfir andleg gæði.

Fólk á bágt þegar aurar eru því meira virði en líf og limir.

Fólk á bágt þegar það gerir ekki greinarmun á orsök vanda.

Þessar línur duttu í koll mér eftir lestur viðtengdrar fréttar og vegna þeirrar umræðu sem sífellt virðist vera að ná hærra í opinberri umræðu, jafnvel á Alþingi.

Það var enginn sem bað um covid19. Þessi veira stökkbreyttist og hljóp í mannskepnuna, heimsbyggðinni til stórfellds skaða. Enginn vissi í fyrstu hvernig ætti að meðhöndla þennan vágest og fáir sem í raun vissu afl hans í fyrstu. Nú, eftir að 1.234.000 manns hafa látið lífið af veirunni um heiminn, virðist þekkingin enn vera nokkuð  af skornum skammti, þó vissuleg hún sé meiri en áður en veiran varð til. Mörg fyrirtæki, flest í samvinnu, vinna nótt sem nýtan dag að því að finna upp lyf gegn henni og vonandi að það verk skili árangri. Þar til er covid 19 lífshættulegur sjúkdómur.

Umræðan hér á landi er jafn forpokuð og áður, snýst um einhver smámál meðan stóri vandinn fær að blómstra. Ekki er horft út fyrir landsteinana, einungis á eigin tær. Hvað heldur það fólk að muni ávinnast ef veirunni verði sleppt lausri? Áttar fólk sig virkilega ekki á þeirri staðreynd að í öllum löndum sem við höfum að jafnaði samneyti við, eru ýmist ferðabönn eða miklar takmarkanir á ferðalögum? Ávinningur þessa yrði því lítill sem enginn.

Hitt liggur ljóst fyrir að skaðinn yrði mikill. Jafnvel þó aldraðir og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma yrðu settir í hörðustu einangrun, er ljóst sjúkrahús landsins yrðu fljót að fyllast. Samhliða því mun starfsgeta þeirra skerðast verulega og í beinu framhaldi mun fjöldi látinna aukast. Þarna erum við að tala um fullfrískt og jafnvel ungt fólk, sem heldur hjólum atvinnulífsins gangandi. Því mun atvinnustarfsemi fljótleg lamast. 

Sóttvarnaraðgerðir  geta vissulega dregið úr atvinnustarfsemi, um það verður ekki deilt. Þó munu slíkar aðgerðir aldrei geta valdið sama skaða og sjálf veiran, fái hún að blómstra. Með sóttvarnaraðgerðum er hins vegar hægt að lágmarka smit og halda sjúkrahúsum starfandi. Þannig má verja fleiri mannslíf og um það snýst málið. Með sóttvarnaraðgerðum má einnig halda uppi starfsemi grunnfyrirtækja landsins, þeirra sem færa okkur gjaldeyri, fyrir utan auðvitað ferðaþjónustuna, en henni verður ekki komið af stað með minni sóttvarnaaðgerðum hér á landi. 

Fólk á bágt sem ekki skilur þessar einföldu staðreyndir.

Fólk á bágt sem ekki getur staðið í lappirnar þegar mest á reynir, heldur hleypur eftir því sem það telur vera sjálfu sér til mestra vinsælda.

Fólk á bágt þegar það ekki getur sýnt samstöðu þegar vá stendur fyrir dyrum.

 


mbl.is Tekist á um sóttvarnaaðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já Ísland, eða þannig

Til er hópur fólks hér á landi sem kallar sig "já Ísland". Réttnefni þessa hóps ætti auðvitað að vera "nei Ísland", þar sem markmið þessa hóps er að koma Íslandi undir erlend yfirráð og skerða þannig sjálfsstæðið, eða "deila því" eins og talsmenn hópsins hafa stundum nefnt.

Ljóst er að þessi hópur ætlar sér stóra hluti í næstu kosningum. Beitt er öllum tiltækum ráðum, aflóga stjórnmálamenn og fyrrverandi ráðherrar eru dregnir upp á dekk og látnir skrif margar greinar í fréttamiðil hópsins, Fréttablaðið. Stjórnmálaflokkur hópsins, Viðreisn, lætur sitt ekki eftir liggja í umræðunni, en allir vita tilurð þess stjórnmálaflokks.

Efnisleg rök hópsins eru enn jafn ódýr og áður og jafn fá. Þar er einkum rætt um evruaðild. Notað er tækifærið þegar yfir heiminn gengur óværa sem lamað hefur allt athafnalíf, með tilheyrandi vandræðum fyrir flestar þjóðir. Þessu hefur fylgt að krónan okkar hefur lækkað nokkuð í verðgildi miðað við evruna, en þó ekki meira en svo að kannski megi tala um leiðréttingu.

Síðast þegar þessi hópur lét til sín taka hafði annað áfall gengið yfir heimsbyggðina. Ísland fór verr út úr því áfalli en margar aðrar þjóðir, enda hafði bönkunum verið komið í hendur glæpamanna, sem svifust einskis. Það hafði verið gert í krafti EES samningsins, sem Alþingi samþykkti með minnsta mögulega meirihluta án aðkomu þjóðarinnar.

Þessi hópur þagnaði þó fljótt þegar hagur landsins okkar fór snarlega að vænkast, mun hraðar en hjá öðrum löndum. Þar kom krónan okkur til hjálpar. Þá var ekki stemmning fyrir orðræðu hópsins og hann lét lítið á sér bera. Stjórnmálaflokkurinn hafði hins vegar verið stofnaður og lenti í hálfgerðri tilvistarkreppu, gat ekki talað um hugðarefni sitt og fór því að stunda popppúlisma af heilum hug. Vart mátti koma fram frétt um eitthvað sem betur mátti fara án þess að þingmenn flokksins stykkju fram í fjölmiðla eða tóku það upp á Alþingi. Það ástand varir enn.

Undanfarna daga hafa svokallaðir stjórnarskrársinnar látið mikið til sín taka. Heimta einhverja stjórnarskrá sem aldrei var samin, einungis sett mikið magn fallegra orða á blað og þjóðin spurð hvort notast ætti við þann orðaforða við gerð nýrrar stjórnarskrár. Ferlið um breytingu stjórnarskrár hófst að frumkvæði þáverandi formanns Samfylkingar, sem hafði náð því að gera formann annars stjórnmálaflokk að einum stærsta lygara þjóðarinnar, og sótt um aðild að ESB. Eitt stóð þó í veginum, en það var gildandi stjórnarskrá. Þann stein þurfti að taka úr götunni og upphófst þá eitthvert mesta sjónarspil sem um getur og stendur það enn. Allt til að Ísland geti orðið hjálenda ESB.

Á þeim tíma er já Ísland lét mest til sín taka í umræðunni, eftir hrun, voru stofnaðir nokkrir aðrir hópar þeim til andsvars. Því miður virðist lítið heyrast frá þeim í dag, þó þessi landráðahópur ríði nú röftum í fjölmiðlum landsins. Fari fram sem horfir mun sjálfstæði landsins verða að veði eftir næstu kosningar.

Því er full ástæða til að kalla upp á dekk alla þá sem unna sjálfstæði þjóðarinnar!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband