Fólk á bágt ....

Fólk á bágt sem tekur veraldleg gæði fram yfir andleg gæði.

Fólk á bágt þegar aurar eru því meira virði en líf og limir.

Fólk á bágt þegar það gerir ekki greinarmun á orsök vanda.

Þessar línur duttu í koll mér eftir lestur viðtengdrar fréttar og vegna þeirrar umræðu sem sífellt virðist vera að ná hærra í opinberri umræðu, jafnvel á Alþingi.

Það var enginn sem bað um covid19. Þessi veira stökkbreyttist og hljóp í mannskepnuna, heimsbyggðinni til stórfellds skaða. Enginn vissi í fyrstu hvernig ætti að meðhöndla þennan vágest og fáir sem í raun vissu afl hans í fyrstu. Nú, eftir að 1.234.000 manns hafa látið lífið af veirunni um heiminn, virðist þekkingin enn vera nokkuð  af skornum skammti, þó vissuleg hún sé meiri en áður en veiran varð til. Mörg fyrirtæki, flest í samvinnu, vinna nótt sem nýtan dag að því að finna upp lyf gegn henni og vonandi að það verk skili árangri. Þar til er covid 19 lífshættulegur sjúkdómur.

Umræðan hér á landi er jafn forpokuð og áður, snýst um einhver smámál meðan stóri vandinn fær að blómstra. Ekki er horft út fyrir landsteinana, einungis á eigin tær. Hvað heldur það fólk að muni ávinnast ef veirunni verði sleppt lausri? Áttar fólk sig virkilega ekki á þeirri staðreynd að í öllum löndum sem við höfum að jafnaði samneyti við, eru ýmist ferðabönn eða miklar takmarkanir á ferðalögum? Ávinningur þessa yrði því lítill sem enginn.

Hitt liggur ljóst fyrir að skaðinn yrði mikill. Jafnvel þó aldraðir og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma yrðu settir í hörðustu einangrun, er ljóst sjúkrahús landsins yrðu fljót að fyllast. Samhliða því mun starfsgeta þeirra skerðast verulega og í beinu framhaldi mun fjöldi látinna aukast. Þarna erum við að tala um fullfrískt og jafnvel ungt fólk, sem heldur hjólum atvinnulífsins gangandi. Því mun atvinnustarfsemi fljótleg lamast. 

Sóttvarnaraðgerðir  geta vissulega dregið úr atvinnustarfsemi, um það verður ekki deilt. Þó munu slíkar aðgerðir aldrei geta valdið sama skaða og sjálf veiran, fái hún að blómstra. Með sóttvarnaraðgerðum er hins vegar hægt að lágmarka smit og halda sjúkrahúsum starfandi. Þannig má verja fleiri mannslíf og um það snýst málið. Með sóttvarnaraðgerðum má einnig halda uppi starfsemi grunnfyrirtækja landsins, þeirra sem færa okkur gjaldeyri, fyrir utan auðvitað ferðaþjónustuna, en henni verður ekki komið af stað með minni sóttvarnaaðgerðum hér á landi. 

Fólk á bágt sem ekki skilur þessar einföldu staðreyndir.

Fólk á bágt sem ekki getur staðið í lappirnar þegar mest á reynir, heldur hleypur eftir því sem það telur vera sjálfu sér til mestra vinsælda.

Fólk á bágt þegar það ekki getur sýnt samstöðu þegar vá stendur fyrir dyrum.

 


mbl.is Tekist á um sóttvarnaaðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Góður sem fyrr Gunnar.

"Fólk á bágt sem ekki skilur þessar einföldu staðreyndir.

Fólk á bágt sem ekki getur staðið í lappirnar þegar mest á reynir, heldur hleypur eftir því sem það telur vera sjálfu sér til mestra vinsælda.

Fólk á bágt þegar það ekki getur sýnt samstöðu þegar vá stendur fyrir dyrum.".

Spurningin er reyndar þegar þetta fólk sem á bágt, er í valdastöðum, hefur bein áhrif, með því að seinka nauðsynlegum ákvörðunum, eða það sem verra er, komið á einhverju svona ógnarástandi að það sóttvarnaryfirvöld séu sífellt að hugsa um að ganga ekki of langt, því það vill forðast deilur eða nagið, sem sannarlega smitar út frá sér og er hvatning fyrir marga að vera á móti nauðsynlegum aðgerðum, hvort það sé ekki bein ógn við þjóðaröryggi.

Eða er ekkert það alvarlegt að að þurfi að takast alvarlega??

Það er alla vega einhver firring í gangi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.11.2020 kl. 21:01

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

takk fyrir innlitið Ómar.

Það eru undarlegir tímar sem við lifum í dag. Veiran hefur opinberað hverjir eru heilir í hugsun og hverjir eru vanskapaðir, hverjum hægt er að treysta og hverjir eiga ekki að koma nálægt neinum valdastöðum í þjóðfélaginu.

Kveðja af Skaganum

Gunnar Heiðarsson, 5.11.2020 kl. 21:59

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hafa veraldleg gæði ekki áhrif á andleg gæði? Eru líf ekki algerlega háð veraldargæðum?

Maður bara spur og pontifikerar á móti.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.11.2020 kl. 11:17

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það fer auðvitað eftir gildismati hvers og eins hversu háð fólk er veraldlegum gæðum, Jón Steinar. Og um það var minn pistill. 

Sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda skerða vissulega veraldleg gæði, þó ekki meir en svo að foreldrar okkar lifðu við mun meiri skort þeirra en við gerum, þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda til að halda heilbrigðiskerfinu gangandi.

En svo er stóra spurningin, hver væru hin veraldlegu gæði okkar hér á landi ef engar sóttvarnaraðgerði hefðu komið til? Hvað væru þá mörg fyrirtæki starfandi? Hvernig væri gjaldeyrisstaða þjóðarbúsins ef þau fyrirtæki sem búa til okkar gjaldeyristekjur væru meira og minna lömuð vegna veikinda starfsfólks þeirra?

Gunnar Heiðarsson, 8.11.2020 kl. 11:18

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Við erum bara hamstrar á hjóli hagvaxtarins Gunnar minn. Þó einhverjir fái Covid og drepist þá er það bara ásættanlegur fórnarkostnaður að mati Verslunarráðs, Samtaka ferðaþjónustu og Frjálshyggjufélagsinsmoney-mouth

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.11.2020 kl. 10:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband