Eitt stykki fjall: 150 milljónir. Takk

Enn er landið okkar selt úr landi. Hvenær kemur að því að erlendir auðmenn eiga allt landið okkar?

Bærinn Horn í Skorradal hefur verið seldur erlendum auðjöfri á eitthundrað og fimmtíu milljónir króna. Hæsti tindur Skarðsheiðar og eitt fegursta fjallið í þeim fjallgarði, Skessuhorn, tilheyrir jörðinni Horni og því komið í eigu erlends auðjöfurs. Verðmiðinn er ekki hár, a.m.k. ekki miðað við þær framkvæmdir sem þessi erlendi aðili hyggst gera á hinni íslensku jörð sinni. Hyggst byggja þar smá sumarhús, 1000 fermetra. Það er auðvitað svo lítið að vart er hægt að hýsa þar gesti, svo hann hyggst einnig byggja 700 fermetra gestakofa. Minna má það auðvitað ekki vera.

Fyrir nokkru var sett bann á sölu á landi til erlends auðjöfurs. Ástæðan var að hann var kínverskur og því ekki innan EES/ESB samningsins, en eins og allir vita þá afsöluðum við sjálfstæði okkar yfir landinu til þjóða EES/ESB við undirritun þess samnings. Aðrir íbúar heimsbyggðarinnar eru ekki gjaldgengir hér á landi, nema auðvitað þeir séu alveg ofboðslega ríkir! Svo virðist vera með þennan nýríka Ameríkana.

Breskur lávarður náði að eignast nokkuð stórann hlut af Íslandi, meðan Bretland var enn undir ESB. Nú þykja Bretar ekki gjaldgengir til landakaupa hér, nema auðvitað þeir séu ofboðslega ríkir. Þar kemur BREXIT þeim í koll.

Fleiri dæmi um landakaup erlendra aðila hér á landi má nefna, bæði manna innan og utan EES/ESB. Sumir kaupa hér land í þeim tilgangi að flytja það beinlínis yfir hafið, bæði sanda og fjöll. Einungis þeim kínverska var hafnað. Auðvitað var það hrein mismunun og skal setja þá út af sakramentinu sem að þeirri aðför að austurlenskri menningu stóðu.

Og svo eru það allir hinir, frakkarnir, norðmennirnir og aðrir þeir sem vilja bæði kaupa hér lönd en einnig leigja, undir vindtúrbínur af stærstu gerð. Þeir eru flestir innan EES/ESB þannig að þeir þurfa ekki að óttast neinar kvaðir og þurfa ekki einu sinni að eiga neina peninga. Þar nægir fagurgalinn og snákaolían. Það eina sem enn stendur í vegi þeirra er íslenskt regluverk eða skortur á því. En fjármálaráðherra er búinn að gefa út að því verði kippt í liðinn, hið snarasta. Að allar reglur og öll lög sem standa í vegi þeirra verði löguð til og ef einhver lög eða reglur vantar verður það einnig lagað. Ekkert má standa í vegi fyrir því að erlendir aðilar nái að græða hér á landi. Það gætu nefnilega fallið einhverjir molar af borði þeirra, í "réttar" hendur.

Fulltrúar okkar á Alþingi, þessir sem við kjósum til að stýra hér landi og þjóð og þiggja laun sín úr okkar vösum, virðast allir sammála um að einhver bönd þurfi að setja á kaup erlendra auðjöfra á landinu okkar. En jafnvel þó samstaðan sé um nauðsyn þessa, virðist sama samstaðan ríkja um að gera ekki neitt í málinu. Horfa bara á landið okkar hverfa undir yfirráð erlendra auðjöfra eða jafnvel horfa á það flutt í skip og yfir hafið!

Aumingjaskapur þingmanna er algjör. Meðan þetta stendur yfir er rifist á Alþingi um dægurmál facebook og tvitter. Þar eru allir á kafi í smámálunum en þora ekki að taka á því sem skiptir máli. Þora ekki að standa vörð um land og þjóð. Það er spurning hvenær landið missir að endanlega sjálfstæði sitt, hvenær Alþingi verði sett af og landinu stjórnað alfarið af erlendum auðjöfrum.

Að Ísland  verði nýlenda erlendra auðjöfra!

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Hvernig má það vera að aðilar UTAN  EES svæðisins FÁ að kaupa landareignir hér á landi?????  Man ENGINN eftir látunum þegar KÍNVERJINN (Nupo) ætlaði að kaupa Grímstaði á Fjöllum; en svo virðist allt vera í stakasta lagi núna og á ekkert að gera???????????????

Jóhann Elíasson, 15.3.2023 kl. 07:10

2 identicon

Það gæti jafnvel verið að þessi auðmaður fái byggingaleyfi, og það þó hann hafi ekki kosningarétt og ekkert að segja um skipulag svæðisins.

Íslendingar eru duglegir að kvarta yfir því að útlendingar kaupi það sem ekki er hægt að selja Íslendingum. Og ekki er talað fallega um þá Íslendinga sem slysast til að kaupa fjall eða fyrirtæki á Íslandi. Að hagnast og nota hagnaðinn á Íslandi er ein versta synd sem Íslendingur getur framið.

Af tvennu illu eru útlendingar taldir skárri, en bestir eru erlendir hrægammasjóðir. Akrafjallið og Esjan væru fallegri í augum Íslendings ef Núpó ætti frekar en Brim. Og ef Samherji hefði keypt Skessuhorn væru kröfuspjöld á lofti, og egg á flugi, fyrir utan Alþingi.

Vagn (IP-tala skráð) 15.3.2023 kl. 20:37

3 identicon

Hvað skyldi Hekla kosta?

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 16.3.2023 kl. 16:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband