Færsluflokkur: Fjármál
Guð blessi þjóðina
21.4.2020 | 21:13
Enn standa stjórnvöld við drullupollinn og pota í hann með priki. Engin áform virðast vera að reyna að ausa drullunni úr honum, svo fært verði yfir.
Lán með 100% ríkisábyrgð hljómar vel. En þegar lengra er lesið verður ljóst að þessi aðgerð mun gagnast fáum. Fyrir það fyrsta eru settar hömlur á það hverjir geta fengið slíka ábyrgð og í öðru lagi er sú upphæð sem boðist er til að ábyrgjast svo lág að engu mun breyta. 6 miljóna hámark til fyrirtækja sem enga innkomu hafa fengið í nokkrar vikur og fyrirséð að enga innkomu munu fá næstu mánuði, gerir ekkert gagn. Því má ljóst vera að flest eða öll þau lán sem tekin verða með slíkri ábyrgð munu lenda á ríkissjóð. Fyrirtækin fá einungis örlitla lengingu í hengingarólinni, sem að lokum mun strekkjast að.
Þessi viðbót við áður boðaðar aðgerðir munu því litlu breyta. Þær eru flestar byggðar á frestun greiðslna eða aukinni lántöku. Fyrir flest fyrirtæki í ferðaþjónustu er aukin lántaka bjarnargreiði. Frestun skattgreiðslna mun einnig koma í bak fyrirtækja, enda kemur þar að skuldadögum.
Fjármálaráðherra telur að kostnaður ríkissjóðs vegna veirunnar muni geta numið allt að 250 milljörðum króna. Ekki mun sá kostnaður þó hljótast af aðgerðum stjórnvalda, heldur aðgerðarleysi og líklegt að með sama aðgerðarleysi muni tapið verða mun meira.
Fram til þessa hefur verið einblínt á að hjálpa fyrirtækjum landsins, þó ekki hafi stjórnvöldum auðnast að finna til þess neinar virkar leiðir. Það er í sjálfu sér góðrar gjalda vert að huga að því að halda uppi atvinnu fyrir fólkið, en eins og áður sagði hefur stjórnvöldum ekki tekist vel til við það verk. Nú þegar eru 50.000 manns komnir á atvinnuleysisbætur.
En það er til lítils að bjarga fyrirtækjum landsins, ef ekki er hugað að því að gera fólki kleyft að búa hér áfram. Þó fjármálaráðherra átti sig ekki á þeirri einföldu staðreynd, sem allt hugsandi fólk skilur, að sú kreppa sem er að skella á okkur og allri heimsbyggðinni, muni leiða til verðbólgu af stærðargráðu sem ekki hefur sést hér á landi í nærri hálfa öld, er ljóst að svo mun verða. Flest heimili landsins eru undir hæl bankanna og skulda í sínum fasteignum. Verðtryggð lán munu stökkbreytast og svo mun einnig verða með óverðtryggð lán, þar sem vextir þeirra eru í flestum tilfellum bundnir með einum eða öðrum hætti við verðtrygginguna.
Ákalli hagsmunasamtaka heimilanna um að verðtrygging yrði fryst meðan stærsti skaflinn skellur yfir, svaraði ráðherrann að "slíkt væri flókið og að viðtakandi væri á hinum endanum". Frekar ósmekklegt svar sem segir manni að ráðherra gefur skít í fólkið.
Það er fjarri því að það sé flókið að frysta verðtrygginguna, reyndar ekki heldur flókið að afnema hana, ef því er að skipta. Það kostaði eina undirskrift að setja hana á á sínum tíma, var þá sett á bæði lán og laun. Þrem árum síðar var með einni undirskrift afnumin verðtrygging launa og því ætti ekki að kosta meira en eina undirskrift að afnema verðtryggingu lána. En það var ekki afnám verðtryggingar sem HH fór fram á nú, einungis frystingu á meðan stærsti skaflinn gengur yfir. Að koma í veg fyrir að sömu mistök yrðu gerð nú og voru gerð haustið 2008, með skelfilegum afleiðingum. Og það er mikið rétt hjá ráðherranum, það er viðtakandi á hinum endanum, "hinir ósnertanlegu" þ.e. lífeyrissjóðirnir og bankarnir. Í bókum sínum segjast lífeyrissjóðirnir eiga um 4.000 milljarða króna, fjárhæð sem erfitt er að gera sér í hugarlund, reyndar svo há að marga tugi tæki þá að tæma bækur sínar með greiðslum lífeyris, þó engar tekjur væru. Tveir af þrem bönkum landsins eru að stærstum hluta í eigu ríkissjóðs, sá þriðji í erlendri eigu. Frá hruni hafa þeir hagnast um hundruð milljarða hver.
Það er nokkuð magnað hvaða tök lífeyrissjóðir og bankar hafa á stjórnvöldum og skiptir þar litlu máli hvaða flokkar eru við stjórn. Frysting verðtryggingar mun að sjálfsögðu minnka tekjustreymi þeirra um einhvern tíma, en sú upphæð er þó smámunir miðað við allur sá austur spákaupmennska stjórna þeirra hefur dregið út úr þeim. Þá ætti sjálfur fjármálaráðherra að átta sig á að stór hluti þeirra fjármuna sem lífeyrissjóðir telja sig eiga, eru í raun eign ríkissjóðs.
Haustið 2008 bað þáverandi formaður Sjálfstæðisflokks guð að blessa þjóðina. Núverandi formaður er greinilega á öðru máli!
Lán með 100% ríkisábyrgð fyrir minni fyrirtæki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Vá er
29.3.2019 | 20:25
Kannski má segja að tilkoma WOW hafi gert líf okkar betra, kannski ekki. Þetta er í raun getgáta sem enginn getur svarað. Margir vilja þó halda þessu á lofti og lofa Skúla fyrir.
Hitt er ljóst að sé svo, hafi tilkoma WOW aukið hagvöxt, lækkað verðbólgu, aukið kaupmátt og aukið vinnu, var þá til innstæða fyrir þeim bótum?
Fyrir hrun var gósentíð hér á landi, gengið svo hagstætt neysluþjóðinni að annað eins hafði aldrei þekkst og hingað flæddu gámaskipin full af vörum sem við í raun höfðum engar forsendur eða efni á að kaupa. Svo mikill var innflutningurinn að flutningafyrirtækin stóðu í ströngu við að finna pláss fyrir alla gámana. Bankarnir skekktu hér hagkerfið með blekkingum og skaðinn varð gríðarlegur. Kannski má segja það sama um WOW, þó það sé mun minna að umfangi, kannski má segja það sama um fleiri fyrirtæki sem rekin eru með duldu tapi árum saman.
Ég er ekki að segja að við eigum að setja hér upp einhverskonar lögreglu, að stjórna eigi stærð fyrirtækja á einhvern hátt eða velja hverjir megi og hverjir ekki.
Hitt verðum við að skoða, hvernig hægt sé að stjórna hér hagkerfinu án stórra áfalla, áfalla sem bitna ætið á þeim sem minnst mega sín og eiga allra minnstu sök á því hvernig fer.
Eitt af því er að fylgjast með rekstri fyrirtækja, sér í lagi þeirra sem stærri eru og grípa inní áður en illa fer. Að koma því svo fyrir með einhverjum hætti að einstaklingur eða lítill hópur fólks geti ekki keyrt sín fyrirtæki í botnlaust tap og jafnvel haldið þeim á floti þannig um lengri tíma, með tilheyrandi skaða fyrir okkur sem þjóð.
Rekstur fyrirtækja er auðvitað ekkert auðveldur, stundum koma áföll og illa gengur um einhvern tíma en svo byrtir upp og úr rætist. Þetta er eðlilegt, oftar en ekki er erfitt að spá um það ókomna. En þegar fyrirtæki sem rekið er með miklu tapi ár eftir ár er ljóst að eitthvað stórt er að. Þegar við það bætist að viðkomandi fyrirtæki er rekið á þeim grunni að bjóða þjónustu sína á þeim verðum sem lægst eru hverju sinni, er ljóst að margra ára tap getur aldrei unnist upp.
Varðandi WOW, sem var rekið sem einkafyrirtæki og því reikningar þess ekki eins opnir og ef um hlutafélag væri að ræðas, var kannski erfitt að fylgjast með hversu mikið og stórt tapið var, eða hver skuldasöfnun þess var. Hitt má ljóst vera að mörg teikn voru á lofti um mikla erfiðleika.
Þegar flugfélag er komið í margra mánaða skuld með lendingagjöld er ljóst að illa er komið. Þegar flugfélag skuldar leigu á grunnbúnaði sínum, flugvéluunum, er ljóst að eitthvað stórt er að. Þó eru fyrstu og sterkustu merki þess að fyrirtæki er komið í alvarlegann vanda þegar það er farið að skulda lögbundin gjöld starfsmanna sinna. Öll þessi teikn hafa legið á borðinu um langann tíma hjá WOW air og því átt að vera fyrir löngu ljóst að þar voru mjög alvarlegir hlutir í gangi. Þegar við bætist að þetta fyrirtæki byggir sína tilveru á að bjóða lægstu fargjöld milli staða, má hverjum vera ljóst að ekki yrði snúið til baka. Að útilokað yrði að fyrirtækið gæti nokkurn tímann rétt sig af.
Það er því nánast hlægilegt í skelfingunni að nú komi hver stjórnmálamaðurinn og spekingurinn og lýsi því yfir að hér hafi eitthvað óvænt og alvarlegt skeð. Vissulega alvarlegt, en fráleitt óvænt. Mörg fyrirtæki eru farin að boða uppsagnir, sum vegna sannanlegs taps við fall WOW air, sum til þess eins að tryggja sína eigendur. Svo eru fyrirtæki sem virðast ætla að nýta þá stöðu sem upp er komin og kenna henni um samdrátt, samanber byggingafyrirtækið sem nú boðar uppsögn vegna falls flugfélags! Og stjórnmálamenn baða sig í sviðsljósinu og boða neyðarfundi af miklum krafti, eins og slíkir fundir geti eitthvað gert. Skaðinn er skeður!
Stígandi lukka er best. Að byggja hana á bólu hefur aldrei gengið. Þetta sáum við í bankaævintýrinu, þar til það ævitýri varð að skelfingu og þetta sjáum við í WOW, þó enn sé eftir að sjá hversu stór skelfingin verður.
Hitt er borðleggjandi að höfundur þessa falls munu ekki þurfa að bera mikla ábyrgð, ekki frekar en höfundar bankahrunsins. Skaðinn mun lenda á öðrum. Starfsfólk WOW air mun verða verst úti en fjárhagslega tapið mun lenda á heimilum landsins. Þar mun engu breyta hvort einhver tengsl þau heimili hafa átt við WOW eða ekki.
Skúli heldur bar upp í Hvalfjörð og hreiðrar um síg á óðali sínu.
Neyðarfundur vegna WOW air | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hélt að eitthvað hefði mátt læra af hruninu
26.3.2019 | 19:31
Skúla virðist hafa tekist að reka tréflís í gatið á skektunni, í von um að takast að róa í land áður en hún óhjákvæmilega sekkur.
Það verður að segjast eins og er að Skúli er nokkuð sleipur í viðskiptum. Eftir að hafa kafsiglt einu flugfélagi tekst honum að fá hluta kröfuhafa til að breyta skuldum í hlutabréf. Síðan er ætlunin að selja rest. Sjálfur mun Skúli væntanlega labba frá þessu óskaddaður en hinir nýju hluthafar þurfa að bera skaðann. Fyrirtækinu verður ekki bjargað, dauðastríðið einungis lengt.
Það er annars magnað hvað einum manni getur tekist að valda miklum skaða. Hvað eitt lítið flugfélag getur haft áhrif á kjör margra einstaklinga, sem jafnvel aldrei hafa komið nálægt vélum þess flugfélags eða haft nokkur afskipti af því á nokkurn hátt.
Samkvæmt fréttum mun verða verðbólguskot, ef WOW með sínar skuldir verður látið rúlla. Slíkt verðbólguskot mun þó ekki hafa áhrif á fjármagnskerfið í landinu, heldur fyrst og fremst það fólk sem er að reyna að koma yfir sig þaki, eignast íbúð. Það fólk mun bera allan þunga af þeim skaða sem einn maður hefur valdið.
WOW skuldar rúma 20 milljarða. Sagt er að verðbólgan geti farið upp í 6% við fall fyrirtækisins. Gangi það eftir munu skuldir heimila landsins hækka rúma 50 milljarða. Þannig að fjármagnsöflin munu græða um 30 milljarða á þessu!
Þetta er hreint út ótrúlegt, svo ekki sé meira sagt. Hvernig í ósköpunum er þetta hægt?
Þetta sýnir hversu arfavitlaus verðtrygging lána er. Þar breytir engu hversu ábyrgir lántakendur eru, hversu duglegir þeir eru að standa við sínar skuldbindingar eða hversu gott veð liggur að baki lánum. Einn maður, fullur að uppskrúfuðum loftdraumum, knúinn áfram af óstjórnlegu egói, getur rústað lífi fjölskyldna landsins á einu bretti.
Ég hélt að eitthvað hefði mátt læra af hruninu!!
Erum að vinna þetta mjög hratt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Svei þeim öllum
17.3.2019 | 08:17
Hlutverk stjórnvalda er að jafna hagsveiflur. Í því felst að draga saman seglin í ríkisrekstri þegar hagkerfið hitnar og auka útlát þegar það kólnar. Þetta er eitt ef megin verkefnum stjórnvalda í hverju ríki til að jafna hagsveiflur og gera fólki og fyrirtækjum auðveldara með að lifa.
Hér á landi hefur þessu gjarnan verið öfugt farið og því oft á tíðum sem hagsveiflur hér hafa verið mun stærri og valdið meiri skaða en í löndunum kringum okkur. Einhæft hagkerfi mest alla síðustu öld var síðan enn frekari valdur þessa. En nú er hagkerfið sterkara, með fleiri grunnstoðum. Því ætti að vera auðveldara að halda því stöðugu. Frumforsenda þess er þó að stjórnvöld vinni sína vinnu. Minnkandi tekjum ríkissjóðs eiga stjórnvöld ekki að mæta með því að draga saman fé til framkvæmda eða til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, heldur með því að minnka eigið bákn. Ekki er að sjá að nokkur skortur sé á fjármagni þegar kemur að því að belgja út utanríkisþjónustuna eða þegar fjölga skal aðstoðarmönnum þingmanna, svo dæmi séu tekin.
Undanfarna áratugi hefur verið nokkuð gert af því að færa verkefni frá ríki yfir til sveitarfélaga. Oftast hafa sveitarfélög farið halloka í þeim skiptum, en ríkissjóður hagnast.
Eitt af slíkum verkefnum er þjónusta við aldraða. Undir hatti sveitarfélaga var að byggja og reka dvalarheimili fyrir aldraða og víðast hvar gekk þetta ágætlega. Mörg dvalarheimili voru mjög vel rekin og íbúar bjuggu áhyggjulaust við góða þjónustu, sín síðustu æviár. Ríkið sá um hjúkrun þess fólk sem ekki gat lengur bjargað sér og fór sú þjónusta fram á sjúkrahúsum vítt og breitt um landið. Þetta fyrirkomulag gekk vel og allir ánægðir og á sumum smærri sjúkrahúsum landsins var þetta nánast grundvöllur rekstrar þeirra.
Upp úr síðustu aldamótum, þegar græðgisvæðingin herjaði á landsmenn af mikilli hörku, datt einhverjum snilling í hug að þetta væri allt of dýrt fyrir ríkið, hefur sennilega komist í tölvu með exelforriti. Farið var í þá vinnu að semja við sveitarfélögin um að þau tækju yfir hjúkrun aldraðra. Þetta skyldi gert með því að sveitarfélög gætu fengið aukið fjármagn frá ríkinu fyrir hvert rými sem þau breyttu úr dvalarrými yfir í sjúkrarými, á þeim dvalarheimilum sem þau hefðu yfir að ráða. Á þetta stukku sveitarstjórnarmenn, sá meiri peninga en gleymdu þeirri staðreynd að rekstur sjúkrarýmis er mun dýrari en rekstur dvalarrýmis.
Afleiðing þessa varð sú að rekstur dvalarheimila gengur mjög illa og á sumum stöðum er reksturinn ósjálfbær. Jafnvel dvalarheimili sem rekin voru með sóma ná nú vart endum saman. Álag á starfsfólk hefur aukist fram úr hófi, enda var ekki reiknað með fjölgun þess við þessa breytingu. Enn er reynt að hlúa að sjúklingum eftir besta hætti, en jafnvel þar er farið að verða brestur á, á sumum heimilum. Greiðslur úr jöfnunarsjóð eru eini grundvöllur þess að ekki er búið að loka flestum dvalarheimilum landsins.
Á sumum sjúkrahúsum standa heilu hæðirnar auðar, öðrum hefur verið lokað. Hagnaður þeirra af breytingunni var minni en enginn. Rekstrargrundvöllur minni sjúkrahúsa á landsbyggðinni nánast hvarf með þessari breytingu og sífellt meiri þjónusta var lögð niður. Æ oftar þarf landsbyggðafólk að sækja lækninga á höfuðborgarsvæðið.
Fá eða engin úrræði eru lengur til fyrir þá sem vilja eyða efri árum áhyggjulaust á dvalarheimilum. Þangað inn fer enginn lengur nema hann liggi fyrir dauðanum. Aldraðir verða því að búa heima, oftar en ekki í allt of stóru og dýru húsnæði og bíða þess að heilsan sé orðin nægilega léleg, hellst rúmliggjandi, til að komast í áhyggjuleysið sem dvalarheimili aldraðra var ætlað að mæta.
Og nú þegar sumum þykir hagkerfið vera að kólna, eru stjórnarherrar svo uppþornaðir og skyni skroppnir að þeim dettur ekkert annað í hug en að skerða enn frekar kjör og aðstæður aldraðra. Hafa gert aldraða að einhverri jöfnu í exelforriti.
Svei þeim öllum!!
Kólnandi hagkerfi ástæða skerðingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um Sundabraut og fleira
5.1.2019 | 21:50
Mikið hefur verið rætt um svokallaða Sundabraut og þá helst til réttlætingar á enn frekari skattpíningu bíleigenda.
Það þarf enginn að efast um að umferð um Vesturlandsveg er tafsöm á köflum og stundum erfið. Það þarf vissulega að bæta. En það eru til fleiri leiðir en lagning nýs vegar til lausnar þess vanda, önnur en sú sem kostar meira en nokkur leið er að réttlæta, sérstaklega eftir að borgaryfirvöld ákváðu að hækka þann kostnað um tug miljarð króna, með því að útiloka hagkvæmasta kostinn yfir Grafarvoginn.
Þegar horft er til umferðaþunga skiptir fleira máli en fjöldi akreina. Flæði umferðar er þar stærsti valdurinn. Vegur sem er 2+1 eða 2+2 getur flutt mikla umferð á stuttum tíma ef engar tafir eru á honum. Síðustu ár var mikið rætt um tvöföldun Hvalfjarðargangna og sú framkvæmd talin vera bráð nauðsynleg. Þeir sem um göngin þurftu að fara áttu auðvelt með að skilja þessa fullyrðingu, enda oftar en ekki sem miklar biðraðir mynduðust við norður enda gangnanna, Nú síðustu mánuði hefur þessi umræða þagnað, enda þessar tafir ekki lengur til staðar. Ástæðan? Jú, hætt var að innheimta gjald gegnum göngin og því enginn flöskuháls við norðurendann lengur!
Þannig mætti laga Vesturlandsveg og minnka tafir eftir honum. Frá Esjumelum suður að Grafarholti, á innanvið 10 km kafla, þarf að aka gegnum 8 hringtorg, með tilheyrandi töfum á umferð. Þetta er auðvitað alveg ótrúlegt. Sum þessara hringtorga eru í þannig landslagi að auðvelt er að koma fyrir mislægum gatnamótum, önnur eru eitthvað verr í sveit sett, en þó alls ekki þannig að slíkt sé útilokað. Nýjasta hringtorgið er við gatnamót að Esjumelum, á stað þar sem tiltölulega auðvelt hefði verið að koma fyrir mislægum gatnamótum. Í ofanálag er þetta hringtorg einbreitt og tafir því meira um það en önnur á þessari leið.
Kostnaður við Sundabraut liggur ekki fyrir, en heyrst hafa tölur upp á um 100 milljarða króna. Þar sem einungis eru til gömul gögn um áætlaðan kostnað þessarar framkvæmdar, er nánast víst að kostnaðurinn er nokkuð hærri en þetta. Áætlanagerð hefur sjaldan verið neitt sérstaklega áreiðanlegar hjá okkur Íslendingum, auk þeirrar tilhneigingar stjórnmálamanna að draga þær meira saman en gott þykir, til að koma verki af stað.
Hitt er nokkuð þekktara, kostnaður við gerð mislægra gatnamóta. Ólíkt við Sundabraut, hefur verið nokkuð byggt af mislægum gatnamótum hér og því komin nokkur þekking á kostnaði þeirra. Að meðaltali kostar gerð slíkra gatnamóta innan við 1 milljarð króna.
Ljóst er því að gerð átta mislægra gatnamóta ættu ekki að kosta nema um 8 milljarða, verum örlát og hækkum það upp í 10 milljarða, eða sömu upphæð og áætlanir um Sundabraut hækkuðu á einum fundi borgarstjórnar, síðasta vor. Þá eru a.m.k. eftir 90 milljarðar sem nota má til breikkunar Vesturlandsvegar frá gatnamótum Þingvallavegar að Móum á Kjalarnesi. Breikkun frá Móum að Hvalfjarðagöngum kostar alltaf jafn mikið, sama hvort valin er Sundabraut eða endurbætur núverandi vegar. Frá gatnamótum Þingvallavegar að Móum eru um 7 km. Hver kostnaður er við að breikka þann kafla veit ég ekki, en ljóst er að vænn afgangur mun verða eftir af 90 milljörðunum!!
Stundum hafa menn látið freistast til að nefna Sundabraut í tengslum við annan vanda á Kjalarnesinu, vind og ófærð. Þar mun þó engin breyting verða á, sama hvaða leið verður valin. Eina lausnin gegn vindi og ófærð á Kjalarnesi er yfirbygging alls vegarins, lausn sem ekki er raunhæf á þessari öld. Hins vegar mætti minnka vind á veginum sjálfum, ef plantað væri þéttu skógarbelti norðan vegarins, a.m.k. 50 - 100 metra breiðu, eftir öllu Kjalarnesinu.
Hitt er borðleggjandi að laga má Vesturlandsveg á núverandi stað þannig að hann beri umferð næstu áratuga með glans, fyrir fjármuni sem duga ekki nema í hluta Sundabrautar. Þegar peningar eru af skornum skammti er útilokað að réttlæta slíkan fjáraustur sem Sundabraut kallar á. Að nota síðan óþarfan veg til réttlætingar á enn frekari skattheimtu, er siðlaust og þeim til skammar er slíkt gera!!
Fjármál | Breytt 6.1.2019 kl. 01:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
mig spyr sig ... eða þannig
23.10.2018 | 17:14
Fjárfestingarleið Seðlabankans var samþykkt á Alþingi í mars 2011, eða meðan ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir var við völd. Á sama ári varð skipti á fjármálaráðherrum, Steingrímur J Sigfússon lét af því embætti og við tók Oddný G Harðardóttir. Því ætti Oddný vart að þurfa að leita langt yfir skammt eftir svörum við spurningum sínum. Stundum er talað um skammtímamynni Íslendinga, en mynnisleysi þingmannsins slær þó sennilega öll fyrri met.
Auðvitað var fjárfestingaleiðin misnotuð, það liggur í augum uppi. Þarna gafst mönnum sem höfðu náð að flytja miklar fjárhæðir úr landi fyrir hrun, tækifæri á að koma með þær til baka aftur og fá fyrir vænan pening. Þetta var eins og happdrættisvinningur, meðan sömu stjórnvöld horfðu með velþóknun á almenning vera kastað á götuna.
Ekki einungis hafði þessum mönnum tekist, með því að koma fé úr landi, að forða því að "eignir" þeirra rýrnuðu meðan hrunið gekk yfir, svona eins og fasteignir og laun almennings, heldur fengu þeir greiddar verulegar upphæðir fyrir það eitt að skila fénu aftur til landsins. Ekki var neinu skeytt um hvernig þetta fé hafði orðið til, hvort þar var um að ræða réttmæta eign eða hvort um illa fengið fé var að ræða.
Þessi ákvörðun Alþingis, undir stjórn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, bar þess glögg merki, eins og raunar flest sem frá þeirri ríkisstjórn kom, hvar í flokki hún stóð. Undirlægjuháttur við auðvaldið var algjört, þó alveg sérstaklega ef um erlenda auðmenn var að ræða. Almenning var kastað á gaddinn og bönkum gefið skotleyfi!!
Það er í sjálfu sér undarlegt að manneskja sem kosin hefur verið á þing og vill væntanlega láta taka sig alvarlega, er að spyrja spurninga um mál sem er svo augljóst svar við. Enn frekari er heimskan, þegar viðkomandi fyrirspyrjandi er einmitt sá sem hellst bar ábyrgð á ruglinu!
Hitt er sjálfsagt að spyrja, hvers vegna ekki var komist í veg fyrir þessa misnotkun og þar ætti auðvitað Oddný G Harðardóttir að verða fyrir svörum!!
Var fjárfestingaleiðin misnotuð? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Enn eitt floppið, á kostnað okkar kjósenda
16.3.2018 | 09:37
Það hækkar hratt verðmiðinn á blessaðri borgarlínunni og þó eru framkvæmdir ekki enn hafnar. Þetta er kunnuglegt stef, þó reyndar megi segja að nú hefjist umframkeyrslan heldur fyrr en í fyrri verkefnum.
Þegar bankarnir hrundu stóð grunnur að stóreflis tónlistarhúsi við Reykjavíkurhöfn, öllum til ama og engum til gagns. Þrátt fyrir að þjóðin stæði á barmi gjaldþrots, var ákveðið að reisa á þeim grunni það hús sem síðan fékk nafnið Harpa. Áætlanir voru gerðar um kostnað þeirrar byggingar og verkið hafið. Auðvitað stóðust þær áætlanir ekki og kostnaðurinn varð mun meiri. Útilokað er að sú starfsemi sem fram fer innan veggja þessa húss muni nokkurn tímann borga það. Kjósendur fengu reikninginn.
Sandeyjarhöfn er annað dæmi, þar sem áætlanir voru reiknaðar langt undir raunkostnaði. Enn sér ekki fyrir endann á þeim kostnaði sem kjósendur fengu í hausinn vegna þess verkefnis og mun sennilega aldrei sjást.
Vaðlaheiðagöng eru enn eitt dæmið um flopp stjórnmálamanna. Þar var gamalkunnugt stef slegið og óraunhæfar áætlanir gerðar, virtust helst miða að því marki að hægt væri að halda fram að umferð gegnum göngin myndu á einhverjum tímapunkti, í fjarlægri framtíð, borga framkvæmdina. Til að ná því marki varð að miða við að framkvæmdin kostaði ekki meira en 7 milljarða, að umferð ykist verulega, að öll sú umferð færi gegnum göngin og að gjaldið í gegnum þau væri hærra en svo að fólk myndi sætta sig við það. Í dag, nokkru áður en framkvæmdum er lokið, er ljóst kostnaður við framkvæmdina verður 14 milljarðar plús! En það er allt í lagi, kjósendur munu borga.
Um blessað þjóðarsjúkrahúsið þarf vart að fjölyrða. Þar eru ekki einungis fjármáleg misferli í gangi, heldur er allri heilbrigðri skynsemi kastað á glæ. Reikningur til kjósenda til þess verkefnis mun aldrei lokast, ekki meðan menn neita að horfast í augu við staðreyndir. Þar, eins og í öðrum gæluverkefnum stjórnmálamana, var farin sú leið að hagræða forsendum svo niðurstaða fengist rétt. Niðurstaðan er þegar brostin, þó enn séu mörg ár þar til verkefnin líkur, ef því einhvertímann líkur, enda forendurnar allar rangar.
Svona mætti lengi telja og segja sögur af meðferð stjórnmálamanna á almannafé, fé sem betur væri varið til annarra þátta, ef það þá yfirleitt er til.
Ekki man ég hverjar fyrstu áætlanir um kostnað við borgarlínu voru, en í apríl á síðasta ári, fyrir tæpu ári síðan, var talað um heildarkostnað upp á um 50 milljarða króna og að verkið yrði unnið í áföngum. Þegar líða fór að hausti, var heildarkostnaðurinn kominn upp í 70 milljarða, þó var þá búið að skera verkefnið verulega niður og menn hættir að tala um léttlestar.
Nýjustu tölur um heildarkostnað eru ekki lengur nefndar, einungis að fyrsti áfangi eigi að kosta 44 milljarða króna. Ekki þora menn heldur að nefna hversu margir áfangarnir verða. Fyrsti áfangi er því að nálgast þá upphæð sem sögð var heildar kostnaður, fyrir 11 mánuðum síðan! Þetta er sennilega met í íslenskum kostnaðarútreikningum!! Og enn eru engar framkvæmdir hafnar!
Það er ljóst að nánast allur kostnaður við borgarlínuna mun verða greiddur úr ríkissjóð. Reykjavíkurborg rambar á barmi gjaldþrots og þaðan engra peninga að vænta. Jafnvel þó ný og betri stjórn verði valin yfir borgina, mun það taka fjölda ára að greiða úr þeirri fjárhagslegu óstjórn sem ríkt hefur undir stjórn vinstra afturhaldsins. Önnur sveitarfélög eru vart aflögufær og jafnvel þó eitthvert þeirra gæti lagt einhverja aura til verkefnisins, er fráleitt að ætla að vilji sé til þess, umfram stærsta sveitarfélagið. Því mun það falla í hlut kjósenda alls landsins að greiða fyrir borgarlínu. Verkefnis sem einungis örfá prósent þeirra íbúa sem á svæði línunnar býr, mun nýta sér, ef miðað er við björtustu spár!
Það er ekkert sem réttlætir að sótt sé fé í ríkissjóð í verkefni eins og borgarlínu. Ef sveitarfélögin sem að þessu verkefni standa gætu sjálf fjármagnað það, væri lítið hægt að agnúast yfir því. Það væri þá kjósenda til sveitarstjórnar í viðkomandi sveitarfélögum að sýna sinn vilja í kosningum. En að ætla að kasta kostnaði yfir á ríkissjóð er galið, kostnaði sem enginn veit hver verður að lokum, en gera má ráð fyrir að muni hlaupa á hundruðum milljarða króna. Alþingi hefur enga heimild frá kjósendum til að sóa fé landsmanna til þessa verkefnis.
Meðan vegakerfi landsins er að hrynja, meðan fólk á landsbyggðinni þarf að fara erfiða fjallvegi til að sækja sér alla þjónustu, meðan malarvegir eru enn til í landinu, meðan einbreiða brýr þekkjast í vegakerfinu og meðan banaslysum í umferðinni fjölgar af framangreindum orsökum, meðan grunnþjónustan er í lamasessi bæði hjá ríki og borg og meðan við getum ekki sýnt öldruðum þá vegsemd að lifa sómasamlegu lífi, er borgarlína með öllu óréttlætanleg!!
44 milljarðar í borgarlínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Að búa til sparnað með kúluláni
12.3.2018 | 09:23
Það er nú þannig frú Þorgerður að allir gjaldmiðlar eru góðir meðan maður á þá og jafnframt slæmir þegar þeir eru í skuld. Krónan okkar er þar ekkert undanskilin. Munurinn á henni og öðrum gjaldmiðlum er að stjórnmálamenn ákváðu á sínum tíma að taka upp verðtryggingu skulda, hér á landi. Ekkert annað land í hinum vestræna heimi ástundar slíka okurstarfsemi, ekki einu sinni Mafían vill láta bendla sig við slíka viðskiptahætti.
En þetta þekkir frú Þorgerður Katrín auðvitað mæta vel. Hún stofnaði fyrirtæki, fyrri hluta árs 2008, til að halda utanum sparifé sitt. Spariféð var sótt í bankann, í formi kúluláns, upp á tæpar tvö þúsund milljónir, eða mánaðarlaun 10000 verkamanna. Þegar bankakerfið hrundi tapaði hún auðvitað þessu meinta sparifé sínu. En henni til happs voru kröfuhafar og dómstólar henni hliðhollir, þannig að lánið þurfti ekki að borga! Nafn gjaldmiðilsins breytir þar engu.
Það sannaðist þarna að það er gott að eiga peninga, verra að skulda þá. Nema auðvitað að hægt sé að komast hjá að greiða skuldir sínar!!
Krónan fín meðan þú átt hana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Draumaland vogunarsjóða
17.2.2018 | 17:08
Ísland er draumaland erlendra vogunarsjóða, sjóða sem lifa á því að veðja á hörmungar annarra og græða á þeim. Stundum nefndir hrægammasjóðir.
Þessir erlendu sjóðir eru nú að yfirtaka Ísland, eru að eignast hluti í æ fleiri fyrirtækjum og bönkum. Fyrr en varir verða þeir komnir með ráðandi hlut í flestum stærstu fyrirtækjum landsins. Fyrsti bankinn er að falla þeim í hönd og hinir munu sjálfsagt fylgja á eftir.
Á Alþingi rífast menn svo um einhver smámál sem engu skipta, stundum mál sem eru fyrir löngu gleymd þjóðinni. Stóru málin, hvernig peningamálum þjóðarinnar skuli háttað, hvernig við viljum haga framtíð okkar, er ekki rætt á þessari æðstu stofnun landsins. Þar þora menn ekki að æmta gegn erlenda auðvaldinu.
Síðan "in the miricle of time" mun Soros svo mæta til að heimta sinn stól, stólinn sem Kata vermir fyrir hann þessa dagana!
Vogunarsjóður með yfir 10% í Símanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Reiknikunnátta hagfræðingsins
16.2.2018 | 10:47
Eitthvað þarf hagfræðingurinn að endurskoða reiknikunnáttu sína.
Fyrst segir hann að uppsöfnuð þörf sé um 6.000 íbúðir, síðan að næstu tvö ár þurfi um 10.000 vegna fólksfjölgunar.
Þennan vanda leggur hagfræðingurinn til að verði bættur með því að byggja 3.000 íbúðir á ári!!
Ég er ekki sleipur í reikningi, en fæ þó ekki séð annað en að uppsafnaður vandi eftir næstu tvö ár verði þá kominn í 10.000 íbúðir, þ.e. þær 6.000 sem nú vantar og síðan um 2.000 á ári vegna fólksfjölgunar.
Þar sem hagfræðingurinn leggur til að sama magn íbúða verði byggt næstu 10 til 12 ár, mun uppsafnaður vandi vera kominn í a.m.k. 30.000 íbúðir að þeim tíma liðnu, miðað við að fólksfjölgun haldist í fjölda en ekki prósentu!
Þessa hagfræði má sannarlega kalla "sér íslenska leið"!
Séríslenska leiðin eða skynsamlega leiðin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)