Að skvetta bensíni á eld

Það er þekkt aðferð erlendis að hækka stýrivexti þegar verðbólga lætur á sér kræla. Þetta er sögð vísindi og sjálfsagt má það rétt vera. Hér á landi virkar þetta hins vegar á þver öfugan hátt og má þar kenna tvennum sér íslenskum þáttum um, annars vegar að húsnæðisliður er hér mældur til verðbólgu og hitt að stór hluti húsnæðislána er verðtryggður. Þá eru óverðtryggð lán til húsnæðiskaupa í flestum tilfellum með fljótandi vöxtum.

Þetta leiðir til þess að þegar stýrivextir hækka þá hækka húsnæðislán, sem aftur hækkar húsnæðislið í vísitöluútreikningi, sem enn aftur hækkar verðbólgu. Hringekjan fer af stað. Bankarnir auka enn frekar hagnað sinn, án nokkurra forsendna en alfarið á kostnað fjölskyldna í landinu, sem svelta meir en áður. Jafnvel lenda á götunni.

Það dynja á okkur erlendar hækkanir, hækkanir sem við ráðum engu um en eru fyrst og fremst til komnar vegna manngerðra hörmunga, þ.e. manngerðum orkuskorti. Ekkert hér innanlands er orsök þessarar verðbólgu og því með ósköpum að seðlabankinn ætli að vera leiðandi á því sviði. Reyndar ekki bara leiðandi, heldur kemur með lausnir sem beinlínis neyða fyrirtæki til að hækka sínar innlendu vörur.

Byrjum á að mæla verðbólgu með sama hætti og lönd þau er við viljum miða okkur við, að taka húsnæðisliðinn út. Næst skulum við banna verðtryggð lán. Þá má skoða hvort hækkun stýrivaxta skuli notuð gegn verðbólguskotum. Til að nota erlendar aðferðir gegn verðbólgu, verðum við að nota erlendar aðferðir við mælingu hennar og erlendar aðferðir við fjármögnun húsnæðis. Annað er með öllu ófært!

Þessi aðgerð peningastefnunefndar Seðlabankans er eins og að skvetta bensíni á eld. Minnir á hvernig peningamálum landsins var stjórnað fyrir hrun!

 

 


mbl.is Hækka stýrivexti um 0,75 prósentur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þörf ádrepa Gunnar, -var farin að halda að engin ætlaði að benda á strípaða keisarann.

Það er reyndar einn innlendur þáttur í viðbót vantalinn, sem hlýtur að orsaka verðbólgu.

Margítrekuð inngrip Seðlabanka Íslands á gjaldeyrismarkaði með það markmið að lækka gengi krónunnar, -sem gera reyndar þessar vaxtahækkanir enn viðundurslegri.

Magnús Sigurðsson, 9.2.2022 kl. 16:25

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

 Jú, mikið rétt Magnús.

Gunnar Heiðarsson, 9.2.2022 kl. 16:29

3 identicon

Húsnæðisliðurinn er í öllum verðbólgumælingum hjá þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við. Eini munurinn er að víða hefur leiguverð meiri áhrif en söluverð húsnæðis.

Húsnæðislán og vextir eru ekki í verðbólgumælingum. Hækkun eða lækkun þar hefur engin áhrif á vísitöluna. Nema óbeint þegar vextir hækka og eftirspurn minnkar þá lækkar verð húsnæðis og verðbólga verður minni og eins þegar vextir lækka og eftirspurn vex þá hækkar verð húsnæðis og verðbólga verður meiri.

Ansi oft eru sér íslenskir þættir ekkert sér Íslenskir. Og lögmál sem gilda og virka í hinum hlutum heimsins virka eins hér.

Súrt fyrir fólk sem vill fá verð einbýlishúss að láni, en borga til baka verð blokkaríbúðar, þegar lánin fylgja verði einbýlishússins. Lán eru ekki lengur happadrættisvinningur, sem bankastjórar veittu útvöldum, eins og í gömlu góðu dagana þegar Spánarferð í fermingargjöf varð að bíóferð á nokkrum árum.

Og ástandið og hvernig peningamálum landsins var stjórnað fyrir hrun var með því besta frá lýðveldisstofnun. Annað eins höfðu elstu menn ekki séð. Sterk króna, lágir vextir, mikill kaupmáttur og í fyrsta sinn voru börn að fermast án þess að hafa upplifað kreppu og óðaverðbólgu.

Vagn (IP-tala skráð) 10.2.2022 kl. 01:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband