Hélt að eitthvað hefði mátt læra af hruninu

Skúla virðist hafa tekist að reka tréflís í gatið á skektunni, í von um að takast að róa í land áður en hún óhjákvæmilega sekkur.

Það verður að segjast eins og er að Skúli er nokkuð sleipur í viðskiptum. Eftir að hafa kafsiglt einu flugfélagi tekst honum að fá hluta kröfuhafa til að breyta skuldum í hlutabréf. Síðan er ætlunin að selja rest. Sjálfur mun Skúli væntanlega labba frá þessu óskaddaður en hinir nýju hluthafar þurfa að bera skaðann. Fyrirtækinu verður ekki bjargað, dauðastríðið einungis lengt.

Það er annars magnað hvað einum manni getur tekist að valda miklum skaða. Hvað eitt lítið flugfélag getur haft áhrif á kjör margra einstaklinga, sem jafnvel aldrei hafa komið nálægt vélum þess flugfélags eða haft nokkur afskipti af því á nokkurn hátt.

Samkvæmt fréttum mun verða verðbólguskot, ef WOW með sínar skuldir verður látið rúlla. Slíkt verðbólguskot mun þó ekki hafa áhrif á fjármagnskerfið í landinu, heldur fyrst og fremst það fólk sem er að reyna að koma yfir sig þaki, eignast íbúð. Það fólk mun bera allan þunga af þeim skaða sem einn maður hefur valdið.

WOW skuldar rúma 20 milljarða. Sagt er að verðbólgan geti farið upp í 6% við fall fyrirtækisins. Gangi það eftir munu skuldir heimila landsins hækka rúma 50 milljarða. Þannig að fjármagnsöflin munu græða um 30 milljarða á þessu!

Þetta er hreint út ótrúlegt, svo ekki sé meira sagt. Hvernig í ósköpunum er þetta hægt?

Þetta sýnir hversu arfavitlaus verðtrygging lána er. Þar breytir engu hversu ábyrgir lántakendur eru, hversu duglegir þeir eru að standa við sínar skuldbindingar eða hversu gott veð liggur að baki lánum. Einn maður, fullur að uppskrúfuðum loftdraumum, knúinn áfram af óstjórnlegu egói, getur rústað lífi fjölskyldna landsins á einu bretti.

Ég hélt að eitthvað hefði mátt læra af hruninu!!


mbl.is „Erum að vinna þetta mjög hratt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Freysteinn Guðmundur Jónsson

Það er merkilegt að Skúli skuli geta haldið áfram að gera það sem hann gerir. Það er augljóst að Skúli getur aldrei átt nema smáhlut í WOW. Talað er um að skuldabréfum verði breytt í 49% hlut vegna 7-9 milljarða króna eftir skuldabréfaútgáfu og svo að einhverjar skuldir verða að hlutabréfum. Svo á að selja 51% hlut í félaginu fyrir 5 milljarða. Reikningsheili Skúla er ekki allveg að tikka inn hjá mér. Hvernig geta 9 milljarðar verið 49% og 5 milljarðar 51%? Hvert er hlutverk Ríkisstjórna Íslands í að koma í veg fyrir eignahald útlendinga með svona gjörningi. Hvað gerir Fjármálaeftirlitið? Hvernig verður hægt að skrá þetta í Kauphöllinni. Er Skúla gerlegt að brjóta lög að vild? Hver vill fljúga með þessu félagi? Íslendingar koma til með að bera skellinn með einum eða öðrum hætti eftir sumarið 2019.

Freysteinn Guðmundur Jónsson, 26.3.2019 kl. 23:01

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú ert rosalegur í argúmentasjónum þínum hér, Gunnar, en mig skortir bæði reikningsheila og fjármálavit til að geta lagt vitrænt mat á þessa orðræðu þína og ályktanir um verðtrygginguna, en ég viðurkenni, að harla sannfærandi ertu.

Jón Valur Jensson, 27.3.2019 kl. 00:56

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll félagi Jón Valur

Það er ekki von að fólk skilji verðtryggingu lána, efast reyndar um að bankarnir skilji það rugl sjálfir. Hitt liggur fyrir að við fyrstu prósentin sem verðbólga eykst hækka verðtryggð húsnæðislán 8 milljarða króna og síðan fer sú hækkun stighækkandi. Af því má draga þá ályktun að 6% verðbólga hækki lán um 50 milljarða á skömmum tíma.

Hitt er erfiðara að skilja, hvers vegna verðbólga ætti að hækka svo mikið ef einkarekið fyrirtæki, með skuldir upp á rúma 20 milljarða fer á hausinn. Ef þetta er skoðað nánar getur það varla staðist, en þessu er haldið fram af lærðum mönnum. Þá má allt eins segja að verðbólgan ætti að hækka verulega vegna þeirra fimm milljarða sem kastað er í hafið vegna innflytjenda.

Það þarf hins vegar ekki að velkjast í vafa um hverjir borga tap WOW. Þar mun Skúli litlu tapa, heldur mun sá kostnaður falla á þjóðina, mest í hækkuðum húsnæðislánum þó deila megi um hversu mikill sá hlutur verði.

Það sem við ættum þó að vera búin að læra, af biturri reynslu haustið 2008, er að láta ekki einhverja einstaklinga komast í þá stöðu að geta sett hér hagkerfið á hliðina. Því miður virðist vanta þar mikið á ennþá.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 27.3.2019 kl. 01:53

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Pöntuð skýrsla Skúla um afleiðingar gjaldþrots WOW er hluti af hans "stragedíu". Fyrstir til að trúa þessari andskotans dellu voru að sjálfsögðu fjölmiðlar, sem og gagnslausir pólitískir ráðamenn. Þó WOW hyrfi á morgun hefði það minni áhrif en engin loðna. Fíflagangurinn er orðinn svo alger umhverfis þetta WOW kjaftæði, að engu tali tekur. "Flugfélag" sem á ekki einu sinni eitt einasta salerni í einni einustu flugvél, hvað þá meir, á ekki húsnæðið þar sem það hefur bækistöðvar sínar, er ekki flugfélag. WOW er ómerkileg ferðaskrifstofa, sem rekur sig á fyrirframseldum ferðum. Semsagt lánum frá viðskiptavinum sínum upp á ferð út í buskann eftir einhverjar vikur eða mánuði. Allt tekið að láni frá fyrsta degi! Ferðaskrifstofa sem ekkert á, en skuldar tuttugu þúsund milljónir hlýtur að vera stjórnað af heimsins mesta "con man". Hvenær ætlar fólk að sjá í gegnum þetta helvítis kjaftæði? Vissulega er æðislegt að komast til New York fyrir minna en rútufargjald til Akureyrar, en það hlýtur að vera hverjum heilvita manni ljóst að svona rekstur er loftbóla sem gengur ekki. 

 Fjölmiðlar, Samgöngustofa, Isavia og stjórnmálamenn Íslands hafa gert sig að algerum fíflum, með því einu að þykjast hafa áhyggjur, en gefa endalaust eftir. Greinilega áhyggjur af einhverju sem þau skilja hvorki haus né sporð í, enda flest án hauss né sporðs sjálf.

 Afsakaðu langlokuna Gunnar, en góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 27.3.2019 kl. 02:54

5 identicon

Skammtímaminnið er allavega það sama. Hvað hafa heimilin hagnast mikið undanfarin ár á hagstæðara gengi, minni verðbólgu og auknum hagvexti sem WOW hefur skilað. Það er sennilega verulega mikið meira en kostnaðurinn við smá verðbólguskot. 

Vagn (IP-tala skráð) 27.3.2019 kl. 09:33

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það segir sig auðvitað sjálft að ef WOW fer á hausinn hefur það veruleg efnahagsleg áhrif. Það er ekki bara skýrslan sem Skúli lét gera sem segir það. Markaðssetning WOW á Íslandi hefur haft mikil jákvæð áhrif á uppbyggingu ferðaþjónustunnar hér. Allir sem bera hag þjóðarinnar fyrir brjósti hljóta að vona að endurskipulagning félagsins gangi upp.

Þorsteinn Siglaugsson, 27.3.2019 kl. 13:34

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Vissulega vona allir að endurskipulagning WOW gangi upp Þorsteinn.

Hver áhrif WOW hefur haft á íslenska ferðaþjónustu má deila um. Auðvitað einhverja en matið er allt of hátt. Við skulum ekki gleyma því að það eru mörg flugfélög sem hingað fljúga og margar ferðaskrifstofur sem bjóða ferðir hingað, bæði innlendar sem erlendar. Mjög líklegt er að fjöldi ferðafólks hefði orðið svipaður, þó ekkert WOW hefði orðið til.

Hins vegar var inntak pistils míns ekki um þetta. Það sem ég var að reina að segja var tvennt, í fyrsta lagi að við virðumst lítið hafa lært af hruninu, að enn geti einstaklingar fullir af ofmetnu egói sett hagkerfi landsins á hliðina. Hitt sem ég var einnig að reyna að koma frá mér er hversu arfavitlaus verðtryggingin húsnæðislána er. Að þegar einkafyrirtæki, stórt á okkar mælikvarða en lítið á heimsmælikvarða, er keyrt í þrot, þá hækki sjálfkrafa skuldir heimila landsins, jafnvel þeirra sem aldrei haf komið nálægt því fyrirtæki. Engu skiptir þar hversu skilvís viðkomandi lántaki er eða hversu gott veð hann hefur. Lánið bara hækkar vegna ofmats einhvers á eigin getu.

Gunnar Heiðarsson, 27.3.2019 kl. 18:50

8 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Vonandi flýtur WOW yfir þennan hjalla, þó Mogensen hafi farið svona geyst. Alveg eins og ævintýramennska og ofmetnaður ákveðinna einstaklinga í þjóðfélaginu geti haft bein áhrif á afkomu og greiðslubyrði heimilanna, er alveg jafn snargalið að hækkað verð á gallabuxum skuli einnig valda því að lán heimilanna hækki. Þetta er svo gjörsamlega galið fyrirkomulag, að engu tali tekur. 

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 27.3.2019 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband