Færsluflokkur: Fjármál
Anað stjórnlaust út í fenið
9.5.2023 | 09:28
Það er hverju orði sannara að grípa þarf til aðgerða gegn verðbólgunni. Hvað skal gert og af hverjum, er aftur stór spurning.
Það sýnt sig að aðgerðir Seðlabankans eru ekki að virka, reyndar frekar að auka vandann og búa til snjóhengju sem mun síðan falla með skelfilegum afleiðingum. Ástæðan er einföld, hin séríslenska mæling verðbólgu. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er kostnaður vegna kaupa og leigu húsnæðis hluti þessarar séríslensku mælingu, eitthvað sem ekki þekkist hjá samanburðarlöndunum. Þetta gerir mælingu verðbólgu hér mun hærri en ytra.
Vaxtahækkanir leiða til hækkunar á húsnæði, einföld staðreynd. Því leiðir vaxtahækkun til aukinnar verðbólgu. Einnig einföld staðreynd. Seðlabankinn horfir hins vegar til þess að aukin sala húsnæðis auki verðbólgu. Vissulega er staðreynd þar einnig að baki, en einungis ef ofþensla er í byggingu íbúðahúsnæðis. Þegar skortur er á húsnæði, virka vaxtahækkanir öfugt. Þá leiðir skortur á húsnæði til þess að verð hækkar enn frekar. En vaxtahækkanir minnka sannarlega umsvif í þjóðfélagin, einkum byggingar á húsnæði. Þegar skortur er til staðar þegar vaxtahækkunum er beitt, leiðir það til enn frekari skorts.Snjóhengju sem mun falla.
Fólk þarf einhversstaðar að búa. Fyrir ekki svo löngu benti seðlabankastjóri á að fólk gæti búið lengur hjá foreldrum sínum. Staðan er hins vegar orðin sú að oftar en ekki þurfa barnabörnin einnig að lifa inn á foreldrum foreldra sinna og styttist í að barna barna börnin þurfi að auki að búa í húsum foreldra foreldra foreldra sinna. Þetta er auðvitað fráleit nálgun seðlabankastjórans. Að koma í veg fyrir að ungt fólk geti komið sér upp heimili og að fasteignaviðskipti milli fólks, er engin lausn verðbólgunnar.
Því þarf Alþingi að breyta lögum á þann veg að peninganefnd Seðlabankans noti sambærilega verðbólgumælingu og aðrar þjóðir, að kaup og leiga á húsnæði verði afnumin úr mælingunni. Seðlabankinn þarf einnig að fara hóflegar í að setja hömlur á bankana til að lána fyrir slíkum kaupum. Það er alveg sérstakt umhugsunarefni að hægt sé labba inn í næstu bílaverslun og kaupa þar bíl með stóran hluta verðsins tekinn að láni, láni sem er afgreitt á staðnum gegnum síma, meðan fólk getur ekki keypt sína fyrstu fasteign nema eiga margar milljónir inn á bók. Að hægt sé að kaupa járnarusl sem verður verðlaust á örfáum árum en er meinað að kaupa sér fasteign sem eikur verðgildi sitt. Þetta er náttúrulega galið.
Þá er vandséð hvernig vaxtahækkun á þegar útgefin lán geti unnið gegn verðbólgunni. Lán sem fólk tekur í góðri trú og er borgunarhæft fyrir, samkvæmt þeirri stöðu sem ríkir er lánið er tekið. Það getur ekki hætt við lánið, nema með því einu að selja fasteignina. Aðgerðir Seðlabankans koma hins vegar í veg fyrir það, svo þetta fólk sér ekki fram á neitt annað en gjaldþrot. Vaxtahækkanir til að halda niðri verðbólgu mega aldrei gilda á önnur lán en þau sem tekin eru eftir að vaxtahækkunina. Þarna þurfa stjórnvöld einnig að koma inn í með lagasetningu. Að treysta á samfélagsábyrgð bankana er eins og að treysta á Satan til að komast gegnum gullnahliðið.
Stjórnvöld hæla sér hins vegar að því að hafa hækkað húsaleigubætur. Það er þeirra framlag og ekkert annað. Hækkun húsaleigubóta hefur ætíð sýnt sig í hækkun húsaleigu og þar með aukinni verðbólgu. Virkar þver öfugt.
Stjórnvöld þurfa auðvitað fyrst og fremst að draga úr sínum rekstri. Leggja áherslu á að halda grunstoðunum gangandi en hætta öllu öðru.
Þar má af mörgu taka, sumu smáu eins og látlausum ferðalögum ráðamanna til annarra landa, öðru stærra eins og minnkun eð öllum þeim nefndum, stofnunum og blýantsnögurum ríkisbáknsins sem ekkert gera nema sjúga fjármuni úr ríkissjóð. Skila engum verðmætum til baka.
Þegar í harðbakkann slær, eins og nú gerist hér á landi með því að verðbólgan er hærri en við viljum sjá, er grundvöllurinn að skoða hvað veldur og reyna að taka á því. Kaup og leiga á húsnæði er ekki vandamál þjóðarinnar, eða ætti ekki að vera það. Sá vandi er algerlega heimatilbúinn. Vandinn liggur fyrst og fremst vegna utanaðkomandi aðstæðna og svo í kjölfarið hækkanir á öllu hér á landi í framhaldi af því. Nú fer verð vöru og þjónustu lækkandi erlendis með tilheyrandi lækkun verðbólgu. Það er mikilvægt að þessar lækkanir skili sér hingað til lands. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá er fá vara framleidd hér á landi sem er ekki háð erlendum aðföngum. Meðan erlend aðföng lækka ekki til samræmis við lækkun erlendis, mun ekki vera hægt að taka á verðbólgunni hér á landi. Þetta er einföld staðreynd sem jafnvel seðlabankastjóri skilur. Að treysta á einhverja samfélagslega ábyrgð innflytjenda hefur ætið sýnt sig vera draumórar.
Aðgerðir Seðlabankans hafa hins vegar skilað bankakerfinu gífurlegan gróða. Aðgerðir stjórnvalda hafa fitað leigusala meira en þeim er hollt. Og aðgerðaleysi stjórnvalda hafa fitað þau fyrirtæki sem hafa getað nýtt sér þetta ástand til að sjúga fé af fólki.
Þegar vaðið er út í fenið er einungis um tvo möguleika að ræða, að halda áfram og sökkva til dauðs, eða snúa til lands og finna betri leið. Þetta þurfa stjórnvöld og peningastefnunefnd að gera upp við sig. Ætla þau að halda áfram út í fenið, eða snúa til baka og finna betri leið?
![]() |
Grípa þarf strax til raunverulegra aðgerða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Röng mælistika
23.3.2023 | 09:13
Hvers vegna er ekki notuð sama mælistika hér á landi og notuð er í okkar samanburðarlöndum, við mælingu verðbólgu? Það er til samræmd mæling verðbólgu sem öll lönd Evrópu nota, nema Ísland. Þó erum við að bera okkur saman við þessi lönd á flestum sviðum. Hvernig er hægt að bera saman verðbólgu ef ekki er notuð sama mælistika?
Nú mælist verðbólga hér á landi 10,2%, ekki alveg hæsta verðbólga í Evrópu en mjög nærri því. Ef sama mælistika er notuð hér og þar ytra, mælist verðbólga hins vegar ekki nema 8,8% og við komin á það plan að vera með nánast meðaltalsverðbólgu í Evrópu. Í Svíþjóð mælist hún 9,7% og í Noregi mælist verðbólgan 8,3%. Hins vegar eru stýrivextir í Svíþjóð einungis 3% og í Noregi 2,75%. Hér á landi eru stýrivextir hins vegar 7,5% og samkvæmt ummælum seðlabankastjóra munu þeir hækka enn frekar. Stefna þá í að verða hærri en verðbólgan mælist, samkvæmt samræmdri mælistiku. Þetta er auðvitað glórulaust.
Þessi sér íslenska mæling á verðbólgu er auðvitað arfur þess tíma er öll lán til húsnæðiskaupa voru verðtryggð. Þetta leiðir til þess að enginn hagur er af því að taka vaxtalán, jafnvel hættulegt. Afborganir slíkra lána er fljót að fara yfir greiðslugetu fólks, þegar vextir stökkbreytast. Því verður að afnema þessa sér íslensku aðferð við mælingu verðbólgu og taka upp sömu mælistiku og okkar samanburðarlönd nota. Mælistiku sem er talin gild og góð um alla Evrópu, utan Íslands. Einungis þannig er hægt að tryggja að fólk sem tekur lán í góðri trú, miðað við efnahag, geti staðið skil þeirra. Einungis þannig mun verða hægt að afnema verðtryggingu lána, sem einnig er sér íslensk.
Það er einstakt að stjórnmálamenn vilji ætíð mála skrattann á vegginn, að gera meira úr hlutum en tilefni er til. Vissulega er 8,8% verðbólga slæm en 10,2% er margfalt verri. Eins og áður segir er 8,8% verðbólga nærri meðaltalsverðbólgu Evrópuríkja. Það er engin krísa að geta haldið Íslandi nærri meðaltalsverðbólgu Evrópuríkja, reyndar bara ágætis afrek, miðað við ástandið í heiminum. En, nei, íslenskir stjórnmálamenn vilja mála ástandið enn verra. Mætti halda að þeir væru illa haldnir af "Stokkhólmseinkenni".
Fyrir nokkrum dögum hvatti seðlabankastjóri fjármagnseigendur til að mótmæla á götum úti, þar sem raun innvextir væru í mínus. Reyndar man ég ekki til að hafa nokkurn tíman fengið raunvexti af innistæðu og er þó kominn á efri ár. Ástæða þess að maður geymir nokkrar krónur í banka er ekki til að ávaxta þær, keldur til að minnka skaðann af því að hafa þær undir koddanum. Að fá einhverja vexti í stað engra. Þetta var náttúrulega svo absúrd hjá seðlabankastjóra að engu tali tekur. Ef hann hugsar sé að hækka stýrivexti svo að innlánsvextir banka verði jákvæðir, þarf hann að hækka þá nokkuð ríflega, þar sem vaxtamunur bankanna er mjög mikill. Hefur ætíð verið mikill en hin síðari ár keyrt úr hófi fram. Þetta mun auðvitað leiða til þess að öll útlán bankanna falla í vanskil, þar sem enginn getur borgað af lánum sínum. Afleiðingin er að bankarnir sjálfir falla. Hvað þá um innistæðurnar, með háu vöxtunum?
Bankastjóri seðlabankans segist vera í einkabaráttu við verðbólguna. Því þurfi hann að hækka vexti og mun hækka þá þar til verðbólgu lægir. Það mun sennilega verða seint, enda hækkun stýrivaxta sem fóður fyrir verðbólgudrauginn. Hækkun vaxta leiðir af sér að flest fyrirtæki verða að hækka verð á sinni vöru eða þjónustu. Flest fyrirtæki eru háð lánsfé, skammtímalánum eða lánum til til lengri tíma.
Þá eru auðvitað flest heimili landsins skuldsett, sum mikið önnur minna. Lán til húsnæðiskaupa eru þar umfangsmest. Hækki vextir svo að fólk geti ekki staðið skil á sínum lánum, mun verðbólga auðvitað lækka, lækka svo að við förum beinustu leið í kreppu!
Ég viðurkenni að seðlabankastjóri hefur það lögbundna hlutverk að halda verðbólgu niðri. Til þess hefur hann ýmis verkfæri. Hann virðist þó hafa einstakt dálæti á einu þeirra, hækkun stýrivaxta. Annað verkfæri væri þó sennilega enn betra, að auka bindiskyldu bankanna. Það leiðir til þess að bankar draga úr útlánum. Aðgerð sem ekki kemur í bakið á fólki, heldur hefur það val.
Það er eitt atriði sem ég get ekki með nokkru móti skilið og útilokað er að geti haft áhrif á verðbólguna, en það er hækkun vaxta á þegar tekin lán. Hækkun vaxta á lán sem fólk sækist eftir er aftur skiljanlegt. Hækkun vaxta á þegar tekin lán, lán sem fólk tekur í góðri trú og samkvæmt sinni greiðslugetu, munu einungis leiða til greiðslufalls. Hækkun lána á ótekin lán gefa lántaka val og mun að öllum líkindum draga úr verðbólgu.
Seðlabankastjóri starfar samkvæmt lögum. Þau lög eru sett á Alþingi. Það er því stjórnmálamanna að grípa í taumana þegar í óefni stefnir. Svo er nú. Annað tveggja fer seðlabankastjóri offari eða hitt að hann fer eftir lögum. Líklega er síðari kosturinn réttur og þá þarf að breyta lögunum. Annað getur ekki gengið.
En fyrst og fremst þarf að breyta mælistikunni, að færa hana til samræmis við það sem aðrar þjóðir nota. Einungis þannig er hægt að tala vitrænt um verðbólgu hér á landi og haga aðgerðum samkvæmt því.
![]() |
Algjört forgangsmál að ná verðbólgu niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Grunnhyggnir töframenn Viðreisnar
22.2.2023 | 00:01
Þeir sem halda fram töfralausnum eru yfirleitt grunnhyggnir. Hagkerfi hvers ríkis er sérstakt og bundið við það ríki. Hvernig gengur að stjórna því kemur ekkert gjaldmiðli þess við. Hann getur hins vegar verið mælikvarði á stjórnun hagkerfisins, hafi ríki sinn eigin gjaldmiðil.
Lausn Viðreisnar felst í því einu að ganga í ESB og taka upp evru. Það er galdralausn þess stjórnmálaflokks. En jafnvel innan ESB er hvert ríki með sitt eigið hagkerfi, þó þau notist við sameiginlega mynt. Það sýnir sig líka að verðbólga innan þessara ríkja ESB er mismunandi, sumstaðar mun hærri en hér á landi, sé sama viðmið notað, en hér er mæling verðbólgu með öðrum hætti en innan ESB ríkja. Jafnvel þó notuð sé hin sér íslenska mæling verðbólgu, getum við talist á nokkuð góðu róli miðað við lönd ESB. Þá eru vaxtakjör innan ESB ríkja mismunandi, eftir því hvernig hagkerfi þeirra gengur. En þar sem þau ráða ekki hvert og eitt yfir gjaldmiðlinum, verður hagstjórnin erfiðari.
Því er fjarstæða að halda því fram að einhver töfralausn liggi í því að ganga í ESB og taka upp evru. Hagkerfið hér mun lítið breytast við slíka ráðstöfun og fráleitt að ætla að vaxtakjör breytist til batnaðar. Á fundi Efnahags og viðskiptanefndar Alþingis var seðlabankastjóri yfirheyrður. Þar kom meðal annar þetta fram:
Ásgeir tók hann einnig fram að ef Ísland væri með evruna væri verðbólgan hérlendis mun hærri og nefndi 7% hagvöxt á síðasta ári og aukna atvinnuþátttöku sem dæmi um góðan árangur. Þú finnur ekki annað Evrópuland í þessari stöðu.
Reyndar er ótrúlegt að löggjafaþingið, sem á að stjórna hagkerfinu, skuli kalla þann embættismann fyrir nefnd sem þarf að þrífa skítinn upp eftir óstjórn stjórnvalda. Það fólk ætti að líta sér nær. Það má vissulega deila um þau verkfæri sem seðlabankinn notar við þau þrif, ég fæ t.d. ekki séð hvernig slá megi á verðbólgu eða lántökur með því að hækka vexti á þegar teknum lánum. Varla fer fólk að skila þeim aftur í bankann.
Þingmenn Viðreisnar ættu kannski að átta sig á því að við búum á eyju langt frá öllum öðrum ríkjum. Það kostar að búa við slíkar aðstæður. Þó hugsanlega megi telja til einhvern kostnað við að halda eigin mynt, er sá kostnaður lítill á við annan kostnað við að búa afskekkt. Innganga í ESB og upptaka evru breytir ekki staðsetningu Íslands á hnettinum, þvert á móti má gera ráð fyrir að vandinn yrði enn stærri.
Grunnhyggnir töframenn leysa sjaldnast neinn vanda!
![]() |
Halda fast í pínuoggulitla örmynt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Borgarlína, ætt út í dauðann
11.2.2023 | 08:22
Það kemur svo sem ekki á óvart þó kostnaður við svokallaðan samgöngusáttála á höfuðborgarsvæðinu hækki. Þegar ætt er af stað í verkefni sem enginn veit í raun hvert er eða hvað mun kosta, eru áætlanir lítið annað en hugarburður. Oft settar fram eins lágar og mögulegt er, svo koma megi verkefninu í gang. Það er jú erfiðara að hætta við hafið verk en að byrja á nýju. Á þetta var bent af fjölmörgum aðilum, áður en ákvörðun um verkefnið var tekin, en ráðamenn þjóðarinnar hlustuðu ekki.
Samgöngusáttmálinn er að sjálfsögðu um það að koma á gamaldags borgarlínu um höfuðborgarsvæðið. Verkefni sem er algerlega ofvaxið sveitarfélögum á svæðinu og því nauðsynlegt að fá ríkissjóð að málinu. Til þess var sett einskonar framkvæmdabann á allar framkvæmdir varðandi þann hluta gatnakerfisins sem ríkið ber ábyrgð á. Þannig var hægt að nauðga ríkinu til að taka þátt í verkefninu, með loforði um að liðka skildi fyrir þeim framkvæmdum er taldar voru nauðsynlegar á stofnvegum svæðisins.
Kostnaður við áætlaðar framkvæmdir á stofnvegakerfinu á svæðinu er nokkuð ljós, þ.e. sá þáttur er snýr að ríkissjóð. Það sama verður þó ekki sagt um kostnað við borgarlínu. Því kemur á óvart að einn liður þeirra verkefna, sem nokkuð ljóst lá fyrir hvað kostaði, skuli hækka um allt að 15 milljarða króna, bara rétt sí svona. Ástæðan er þó skýr, það á að fórna mislægum gatnamótum fyrir stokk.
Bergþór Ólafsson kom í pontu Alþingis og taldi kostnað vegna sáttmálans vera kominn 50 milljarða yfir áætlun. Fljótlega kom Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna í fjölmiðla og sagði kostnaðinn "einungis" vera kominn 17 milljarða yfir áætlun. Þar munaði mestu um að í stað mislægra gatnamóta skyldi setja Sæbraut í stokk og að það hefði alltaf legið fyrir. Ég spyr nú eins og fávit, ef það lá alltaf fyrir, hvers vegna var stokkurinn þá ekki inni í upphaflegu áætlunum? Ef ein stök framkvæmd hoppar upp um 15 milljarða króna (15.000.000.000), hvað mun þá öll borgarlínan kosta? Er verið að búa til fordæmi? Heyrst hefur að sumum langi í neðanjarðarlestir. Lá það kannski fyrir frá upphafi líka?
Hvort kostnaður hefur hækkað um 50 milljarða eða 17 milljarða breytir ekki svo miklu. Hvoru tveggja hækkun um peninga sem ekki eru til. Hins vegar má fyllilega gera athugasemd þegar 0 hoppar upp í 17.000.000.000. Þar stendur hnífurinn í kúnni, eða öllu heldur vösum landsmanna, því þetta fé kemur jú úr þeim, með einum eða öðrum hætti.
Hvað sem öllu líður, þá er ljóst að ekki verður lengra haldið á þessari braut. Stofnun félagsins Betri samgangna voru mistök, vald þessa félags er allt of mikið og ljóst að framkvæmdastjóri þess hefur ekki hundsvit á peningum eða hvernig skuli með þá farið. Ég sagði áður að erfitt væri að hætta við hafið verk. Það er þó ekki útilokað og stundum nauðsynlegt. Þegar komið er út í kelduna og fyrir séð að hún er dýpri og verri en ætlað var, er snúið til baka, ekki ætt út í dauðann!
![]() |
Margra anga kolkrabbi sem þarf að beisla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 08:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tásumyndir frá Tene
23.11.2022 | 23:59
Það er ekki oft sem samtök atvinnulífsins og fulltrúar launþega eru sammála. Það tókst þó seðlabankastjóra að ná fram, með undarlegri hegðun sinni. Ásgeir Jónsson er af góðum ættum og ágætlega gefinn, en að hann væri megnugur þess að sameina atvinnurekendur og launþega, svona á fyrstu skrefum samningaviðræðna, er sennilega hans stærsti sigur.
Seðlabankinn hefur ýmis tæki til að stjórna peningamálum þjóðarinnar. Eitt þessara tækja er hækkun stýrivaxta. Til þessa tóls er gjarnan gripið þegar stefnir í óefni á lánamarkaði, þ.e. þegar útlán eru komin út fyrir það sem gott þykir. Þá eru vextir hækkaðir til að stemma stigu við frekari útlánum bankanna og er gott og gilt að því marki. Það er hins vegar spurning hvers vegna þurfi að hækka vexti á þegar útgefnum lánum og hvaða áhrif slík hækkun hefur. Þegar einhver tekur lán á hann að geta gengið að því sem vísu að þeir vextir sem hann skrifar undir, séu þeir vextir sem hann þarf að greiða. Það er erfitt eða útilokað fyrir lántaka að skila láninu.
Að hækka vexti á þegar útgefnum lánum getur aldrei slegið á verðbólgu, heldur kyndir undir hana. Það er ekki bara launafólk sem er bundið bönkum með lánum, flest fyrirtæki í flestum geirum, eru einnig með miklar lántökur. Bæði langtímalán og skammtímalán. Ólíkt launafólki, sem ekki hefur neinn möguleika á öðru en að halda áfram að borga af sínum lánum ella missa heimili sitt, geta mörg fyrirtæki fært þessa auknu byrgði sína yfir á neytendur, þ.e. hækkað verð á sinni vöru eða þjónustu. Það er fæða verðbólgudraugsins.
Tásumyndir frá Tene eru seðlabankastjóra hugleiknar. Vill meina að landsmenn séu stórtækir í ferðum í sólina. Þó viðurkennir hann að þær ferðir séu ekki fjármagnaðar með lántökum, heldur innistæða fólks frá Covid tímanum. Fólk hlýtur að ráð hvernig það ráðstafar sínu fé, eða ætlar seðlabankinn að stjórna því líka? Stærri spurning er hvernig hann hyggst stjórna með vaxtahækkun, þegar fólk er upp til hópa að nota fé sem það á fyrir.
Alvarlegasta við þetta frumhlaup seðlabankastjóra er þó sú staðreynd að nú standa yfir viðræður um kaup og kjör á vinnumarkaði. Þessi gjörningur er ekkert annað en sprengja inn í þær viðræður. Það lá fyrir að einmitt vegna mikilla hækkana bankans á stýrivöxtum, yrðu þessar viðræður erfiðar. Ríkissáttasemjari er þegar tekinn til starfa.
Það dylst engum að verðbólga er í landinu. Hana má fyrst og fremst rekja til erlendra áhrifa. Þau innlendu áhrif sem oft eru talin, eru flest til komin af sömu ástæðu. Nær engin bein innlend áhrif má rekja til þessarar verðbólguhækkunar, ekki einu sinni tásumyndirnar. Innlend vaxtahækkun hefur því lítil áhrif á verðbólguna og innlend vaxtahækkun á þegar útgefin lán einungis fóður fyrir verðbólgudrauginn. Þeir sem græða á þessum hækkunum eru bankarnir, þeir sem tapa er fólkið og fyrirtækin í landinu.
Tásumyndatal seðlabankastjóra minnir nokkuð á flatskjáaumræðuna eftir hrun bankana. Kannski er Ásgeir búinn að átta sig á að við nálgumst þann stað er við vorum á haustið 2008 og er að búa í haginn fyrir afsökun hins nýja hruns landsins.
![]() |
Vaxtahækkun truflar kjaraviðræður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Lofa skal það sem gott er
13.9.2022 | 11:39
Lofa skal það sem gott er og lasta það slæma. Nú hefur fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár litið dagsljósið. Sem von er eru stjórnvöld dugleg til að mæra frumvarpið meðan andstaðan lastar það. Því ekki nema eitt í stöðunni, að þvælast í gegnum þetta hundleiðinlega rit fjármálaráðuneytisins.
Fyrst skal lofa það sem gott er í frumvarpinu, enda mun fljótlegra en hitt. Kílómetragjald í stað eldsneytisgjalds er auðvitað stórt skref til bóta. Vandinn er þó að svo virðist sem eigi að leggja á kílómetragjald á alla bíla en sjá til með hvenær eldsneytisgjaldið verður tekið af. Hvenær er svo aftur hulin ráðgáta.
Fækkun ríkisstofnana er annað þjóðþrifamál. Þar skiptir þó mestu máli hvernig að hlutum verður staðið. Ef ætlunin er að gera það eitt að sameina stofnanir og gera þær enn stærri og afkastaminni en nú er, er betra heima setið en af stað farið. En auðvitað er þetta svo sem ekki ný hugmynd, sennilegast eitthvert ofnotaða loforð sjálfstæðisflokks frá upphafi, sem þeim hefur aldrei tekist að standa við.
Þriðja málið sem þakka má úr þessu frumvarpi er að þar er notast við rétta verðbólgumælingu, þ.e. samræmda mælingu. Ekki notuð sér íslenska mælingin sem Seðlabankinn vill notast við. Þetta er kannski viðurkenning á að hér skuli breyta viðmiðum í mælingu verðbólgunnar.
Þá er komið að hinu sem má lasta. Reyndar verður að segjast eins og er að þetta frumvarp ráðherrans er eitt allsherjar flopp. Samdráttur á flestum sviðum, en þó sýnu mestur á þá sem minna mega sín. Skattheimta er aukin og sama er þar upp á borðum, mest hjá þeim sem minna mega sín. Það sem þó kemur kannski mest á óvart er að aukin skattheimta, en hún hefur sjaldnast skilað auknum tekjum í ríkissjóð. Þetta hefur flokkur fjármálaráðherra predikað í áratugi.
Hef áður minnst á aukinn skatt á bíleigendur. Þeir sem minna hafa milli handanna munu mest finna fyrir þeim skattauka. Hinir fjáðu, sem efni hafa á að aka nýjum rafbílum munar litið um að þurfa að koma að borðinu við viðhald og endurbyggingu vegakerfisins. Hinir minna fjáðu, sem ekki hafa efni á rafbíl, en hafa þurft að standa undir kostnaði við vegahaldið, munu þurfa að auka þann kostnað enn frekar. Auðvitað er það svo að hluti bíleigenda þarf í raun ekki að eiga og reka bíl, þ.e. þeir sem búa við þann lúxus að hafa aðgengi að almenningssamgöngum. En hinir, landsbyggðabúar, búa ekki við slíkan lúxus og verða að eiga bíl. Það fólk þarf að sækja sér alla þjónustu, gjarnan um langan veg, hverju nafni sem slík þjónusta nefnist. Umferð mun minnka við þessa auknu skatta og ekki víst að auknar tekjur ríkissjóðs muni skila sér. Þá mun þessi aukning skattheimtu leiða til hækkandi flutningskostnaðar og hærra vöruverðs. Hvar eru landsbyggðaþingmennirnir?
Allar rannsóknir verða skornar niður, hvort heldur er í tengslum við sjávarútveg eða annað. Þessar rannsóknir skila þó flestar miklum tekjum í ríkissjóð og nefni ég sem dæmi rannsóknir á losun co2 úr jarðvegi. Þar er fullt tilefni til stór aukinna rannsókna, enda gætu rauntölur þar skilað mikilli minnkun á losun okkar, miðað við núverandi áætlun. Fleiri rannsóknir má nefna, en staðreyndin er sú að rannsóknir leiða til þekkingar og þekking skilar auði.
Einn stærsti einstaki tekjuliður til hækkunar frumvarpsins er virðisaukaskattur. Þar eiga tekjur að aukast um heil 20%, án þess að breyta tekjustofninum. Þetta á að koma til af aukinni neyslu landsmanna. Þessi tekjuaukning á að gefa ríkisjóð alls 67 milljarða króna. Það þarf vart snilling til að átta sig á að þarna er verulega ofmetin geta landsmanna, á tímum samdráttar. Minnir óneitanlega nokkuð á þá hagfræði sem stunduð var hér á landi fyrir hrun.
Fyrirhuguð sala á Íslandsbanka er eitt af tekjuliðum frumvarpsins. Þar er áætlað að ríkissjóður muni ná inn nærri 76 milljörðum króna. Með þessari sölu næst að minnka halla ríkisins úr 132.4 milljörðum niður í 56.6 milljarða. Þetta eru einskiptis tekjur. Um þessa sölu er vægast sagt skiptar skoðanir, ekki síst vegna þess hvernig til tókst síðast er hlutur úr bankanum var seldur. Það er því ekki víst að sátt verði um söluna og jafnvel þó hana mætti mynda, þarf jú kaupanda. Ástandið í heiminum í dag er ekki beint heppilegt til bankasölu.
Í krónutölum munu framlög til heilbrigðismála hækka, en það á þó ekki við um þjónustu aldraðra eða öryrkja. Þar munu framlög lækka í krónutölu, til viðbótar við verðbólgu. Þó liggur vandinn einmitt á þeim slóðum. Vanda sjúkrahúsa má að stórum hluta rekja til þess að ekkert úrræði er fyrir þá sem ekki geta lengur hugsað um sig sjálfir. Lenda á spítölum vegna þess að ekki er til pláss á sjúkraheimilum fyrir aldraða. Þá er ljóst að meðan málaflokkurinn í heild sér fær færri krónur en fyrir ári, munu tekjur þess fólk sem fá greiðslur frá ríkinu ekki geta haldist í við verðbólguna og voru þær nógu litlar fyrir.
Lengi mætti halda áfram að þylja upp vankanta fjárlagafrumvarpsins. Rauði þráðurinn er þó sá að útgjöldin ýmist standa í stað, þó oftast lægri, í krónutölum, meðan tekjur eru áætlaðar ríflegar. M.a. með aukinni skattheimtu en einnig ofmati á tekjum. Að tekjum skuli haldið við eða ofan verðbólgunnar meðan gjöldin lækka verulega, eru langt undir verðbólgu.
Þetta er verðbólguaukandi fjárlagafrumvarp.
![]() |
Stóra breytingin verður kílómetragjaldið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tommustokkur Seðlabankans
25.8.2022 | 07:53
Nýjasta útspil Seðlabankans er sem bensín á eld komandi kjarabaráttu. Hækkun stýrivaxta kemur launafólki verst, en bankarnir fitna enn meira. Það er fátt sem skerðir laun hins almenna borgara meira en hækkun stýrivaxta.
Verðbólga hér á landi er ekki svo há, ekki ef notaður er sami tommustokkur og löndin sem við viljum bera okkur samanvið nota. Mælt með þeim tommustokk er verðbólga á Íslandi ekki nema 6,4%, eða sú næst lægsta í gjörvallri Evrópu, einungis Sviss með lægri verðbólgu. Meðal verðbólga ríkja ESB, mælt með þessum sama tommustokk, er 9,8%. Hins vegar er til önnur verðbólgumæling hér á landi, aðferð sem hvergi annarstaðar þekkist. Samkvæmt henni mælist verðbólga hér 9,9%, eða 3,5% hærri en raunveruleg verðbólga og 0,01% hærri en meðaltalsverðbólga ESB ríkja. Ástæða þessarar aðferðar, til verðbólgumælingar hér á landi, er að til langs tíma voru nærri öll lán til húsnæðiskaupa tengd þessari mælingu. Nú hin síðari ár hefur fólk átt kost á óverðtryggðum lán til slíkra kaupa, en þá eru vextir gjarnan fljótandi, þ.e. fylgja breytingum á stýrivöxtum Seðlabankans. Þetta tryggir bankana og því ekki undarlegt að hagnaður þeirra sé ævintýralegur.
Nánast öll þessi 6,4% raunverðbólga sem er hér á landi skapast vegna hærri aðkaupa til landsins, sem eins og allir vita skapast af stríðinu í Úkraínu en þó mest vegna sjálfskipaðs orkuskorts í Evrópu, sökum rangrar orkustefnu ESB. Einhver smáhluti þessarar verðbólgu er sökum þess að fólk hefur verið að nota sparnað sinn til eigin nota. Hin 3,5% sem eru heimatilbúin í Svörtuloftum, koma til vegna skorts á íbúðahúsnæði.
Hækkun stýrivaxta mun því lítið gagnast til að lækka verðbólguna hjá okkur. Hærri vextir hér munu ekki slá á verð á vörum erlendis, hærri vextir hér hafa lítið að segja gegn því að fólk noti sinn sparnað til eigin not og kannski það mikilvægasta í þessu öllu, hærri vextir hér á landi munu ekki leiða til þess að stórkostlegur skortur á húsnæði leysist.
En bankarnir fitna sem aldrei fyrr og launafólkinu blæðir. Það er stutt í að við förum að heyra sögur af fólki sem borið er út á götu, í boði bankanna. Sömu sögur og þær sem voru svo átakanlegar í kjölfar Hrunsins.
Hvers vegna í ósköpunum má ekki nota sömu mælistiku á verðbólguna hér á landi og notuð er allstaðar annarsstaðar. Af hverju þarf að búa til einhvern sér íslenskan mælistokk til þessarar mælingar!
![]() |
Hvers virði eiga krónurnar að vera? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Skuldir borgarbúa
27.4.2022 | 07:48
Skuldir Reykjavíkurborgar eru komnar yfir 407 milljarða króna. Það segir að hvert mannsbarn í höfuðborginni skuldar um 3,3 milljónir króna, vegna óstjórnar borgarstjórnar. Það gerir um 13,2 milljónir króna á fjögurra manna fjölskyldu.
Það er gott að búa EKKI í Reykjavík.
![]() |
Segir rauðu ljósin loga hjá borginni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Siðapostular
20.4.2022 | 15:48
Sala ríkisins á hlut úr Íslandsbanka hefur verið harðlega gagnrýnd og ekki að undra. Þar virðist allt hafa farið á versta veg, kannski ekki nein lög brotin en klárlega siðferðislegt skipbrot. Margir bera þar ábyrgð, þó auðvitað spjótin standi mest á þeim er falið var að gæta þessarar eignar kjósenda, fjármálaráðherra.
Það hafa margir siðapostular stigið fram vegna þessa máls, sumir halda sig við efnislega gagnrýni meðan aðrir nýta sér þetta til að upphefja sjálfa sig. Það er lítið minni ljóður, sér í lagi þegar viðkomandi voru í aðstöðu til að benda á ágallana á fyrri stigum. Voru jafnvel í fjárlaganefnd og gáfu þar sitt leyfi fyrir gjörningnum!
Meðal þeirra siðapostula sem hátt hafa látið vegna málsins er Kristrún Frostadóttir, vonarbiðill til formanns Samfylkingar. Það er nokkuð magnað hvað hún hefur verið iðin við að gagnrýna söluferlið og þann gróða er sumir gátu náð sér í gegnum það, á einni nóttu. Sjálf stundaði hún svipað peningaplott er hún starfaði hjá Kvikubanka, hagnaðist þar um marga tugi milljóna, nánast á einni nóttu. Vissulega var hún þá ekki þingmaður, heldur einungis fjármálamaður af hörðustu gerð. Nú situr hún á þingi og gagnrýnir aðra fyrir sömu sakir, Kristrún þingmaður situr í fjármálanefnd. Þar samþykkti hún að færa bankasýslunni það vald að selja hlut í Íslandsbanka, án athugasemdar.
Það má gagnrýna marga fyrir þessi óhæfuverk er sala á hlut ríkisins í bankanum var. Hellst ber að gagnrýna þá þingmenn er samþykktu söluna án viðeigandi leiðbeininga, núverandi fjármálanefnd fyrir að samþykkja söluna án þess að vita hvernig staðið yrði að henni, fjármálaráðherra og ríkisstjórn fyrir sömu sakir og svo auðvitað bankasýsluna sem telur sig geta hagað sér sem svín. Allt það fólk sem hér er nefnt ber ábyrgð á ósköpunum og ekkert af því hefur burði eða getu til gagnrýni, jafnvel þó verið sé að vinna sér prik til formanns í stjórnmálaflokki.
Í kjölfar bankahrunsins 2008 var gerð stór og efnismikil skýrsla um aðdraganda hrunsins. Þar var ein hellst niðurstaða sú að stjórnvöld og Alþingi hefði ekki sinnt eftirlitsskyldu sinnu. Þessi bankasala nú er skólabókardæmi þess að eftirlitsskyldan var vanrækt. Hafa stjórnmálamenn ekkert lært? Það eru vissulega nokkur ár liðin frá hruni, en það hlýtur að vera lágmarks krafa að þeir sem bjóða sig fram til starfa á þingi muni nokkur ár aftur í tímann!
Nú hafa stjórnvöld ákveðið að leggja niður bankasýsluna, vegna málsins og bankasýslan hefur viðrað að láta sína ráðgjafa gjalda sökina. Enginn á þó að bera sjáanlega ábyrgð og engum er ætlað að gjalda þjóðinni tapið. Siðapostularnir eru þó duglegir að pota sér áfram og aurapúkarnir blessa Mammon.
Það er einungis eitt í stöðunni, þingmenn verða að endurnýja umboð sitt frá þjóðinni. Þá ættu kjósendur aðeins að rifja upp það sem áður hefur farið fram á Alþingi, um þetta mál. Hvernig málflutningurinn var, hverjir stóðu mest á móti sölunni og hverjir voru áhugasamastir um hana. Hvaða aðrar leiðir var bent á til lausna málsins, hvernig þingmenn tóku í þá lausn og hvaða áhrif sú lausn hefði haft fyrir þjóðina. Þá er einnig hollt fyrir kjósendur að kynna sér og þekkja sögu þeirra sem bjóða sig fram til starfa á Alþingi, s.s. hvort þeir eru hluti þeirrar elítu sem skirrist ekki við að þiggja skjótfenginn gróða í fjármálafyrirtækjum, af því þeir hafa aðstöðu til þess. Það er svo sem lítið við því að segja þó fólk nýti sér sína aðstöðu til skjótfengins gróða, hjá einkafyrirtækjum, en slíkt fólk á ekki erindi á Alþingi og getur síst allra gagnrýnt aðra fyrir sömu sakir!
![]() |
Kristrún telur spillingu mögulega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bankarán og pólitískt nef
11.4.2022 | 13:31
Í skjóli nætur var stór hluti eigna ríkisins í Íslandsbanka seldur. Hvernig staðið var að sölunni hefur verið gagnrýnt. Þar eru tvö atriði sem standa uppúr, verðlagningin á hlutabréfunum og val á kaupendum. Nú vilja sumir ráðherrar þvo hendur sínar af þessum gjörning. Vandséð er hvernig þeim mun takast sá þvottur. Ekki er hægt að sjá lagaleg rök fyrir því a' láta gjörninginn ganga til baka, enda sumir "fagfjárfestar" þegar búnir að leysa út sinn hagnað af kaupunum, með því að selja bréfin þriðja aðila.
Í fyrstu minnti þessi gjörningur bankasýslunnar nokkuð á árin fyrir hrun, en þegar fjármálaráðherra, í trássi við bankasýsluna, opinberaði kaupendahópinn rak mann bókstaflega í rogastans. Þarna voru samankomnir fyrrum bankaræningjar landsins, er settu landið bókstaflega á hausinn fyrir einum og hálfum áratug. Menn sem höfðu og hafa sjálfsagt enn, ítök í flesta stjórnmálaflokka landsins. Þar eru fáir undantaldir, þó almenningur vilji gjarnan spyrða Sjálfstæðisflokk við þessa menn. Þá má alveg minna á að einn helst andstæðingur þess flokks, til áratuga, var einn af afkastameiri bankaræningjum fyrir hrun og hans nafn poppar upp á þessum lista yfir kaupin nú.
En aftur að sjálfri sölunni. Þegar Alþingi samþykkti sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka voru leiðbeiningar þingsins vægast sagt litlar. Þó voru umræður nokkrar um málið, en á endanum var fjármálaráðherra nánast falið einræði um hvernig að þessu skyldi staðið. Nokkuð hefur vafist fyrir ráðherranum aðferðarfræðin, fyrst vegna þess að talið var of nærri kosningum til að framkvæma verkið, flokkur hans gæti misst atkvæði. Síðan eftir kosningar og BB var áfram fjármálaráðherra, fór hann að hreifa málinu. Strax kom í ljós að hvorki þingið né þjóðin var á því að selja strax. Ekkert lægi á auk þess sem ekki væri ljóst hvernig standa ætti að sölunni.
BB var þarna kominn í vanda. Mjög var legið á honum að koma málinu af stað, af þeim sem sáu sér þarna leik á borði. Þá var bankasýslan mjög áfjáð í að klára málið. Leikmaður veit auðvitað ekki hvað fram fer á fundum ríkisstjórnarinnar en ljóst er að þar var ekki eining um söluna, jafnvel þó hún hafi verið ítrekuð í stjórnarsáttmálanum. Því fóru að heyrast frá ráðherra ýmsar skýringar um hvernig standa skildi að þessari sölu. Í fyrsta lagi átti að bjóða hlutabréfin út, í öðru lagi var fallið frá dreifðri eignaraðild og velja skyldi svokallaða fagfjárfesta til kaupanna, fjárfesta sem væru að hugsa um kaupin til lengri tíma.
Fjármálaráðherra tók síðan af skarið og fól bankasýslunni að hefja undirbúning sölunnar. Lítið heyrðist um tíma af málinu, en svo bárust óvæntar fregnir af því að salan hefði farið fram, á einni nóttu. Seldur hafði verið 22,5% af heildareign bankans og að verðið var 117 krónur á hlut, nokkuð undir markaðsverði. Strax þarna varð ljóst að eitthvað var ekki að ganga upp í þessu dæmi. Að hægt skuli vera að selja 22,5% í banka á einni nóttu er útaf fyrir sig ótrúlegt. Þá var einnig séð að um töluvert undirverð var að ræða.
Upphófst nú mikil gagnrýni á söluna, réttilega. Ekki einungis að verðið væri undir markaðsverði, heldur reyndist útilokað að fá að vita hverjir kaupendur voru. Þegar svo BB ákvað að opinbera lista yfir kaupendur, í trássi við bankasýsluna, var eins og þyrmdi yfir mann. Þarna voru helstu aðalleikarar hrunsins komnir, ljóslifandi. Það fyrsta sem manni datt í hug hvað það væri sem skilgreindi fagfjárfesti frá öðrum fjárfestum. Er skilyrði að fjárfestir þurfi að svíkja, stela, vera dæmdur um fjársvik eða eitthvað í þeim dúr til að geta kallast fagfjárfestir? Eða er kannski bara nóg að vera "vinur" réttra aðila? Á listanum voru menn sem höfðu fengið dóma fyrir fjársvik og jafnvel voru þarna menn sem enn eru í meðferð dómstóla!
Í viðtali við fjölmiðla hélt starfsmaður bankasýslunnar því fram að ekki hefði komið krafa frá ráðherra um að kanna hvort bjóðendur væru heiðarlegir, eða hvort þeir hefðu gerst brotlegir við lög. Hvers konar fáviska er þetta hjá manninum?! Í hvaða heimi býr slíkt fólk sem lætur þannig orð frá sér? Bankasýslunni er falið að selja eign landsmanna, upp á upphæð sem almenningur á erfitt með að setja í samhengi og stofnunin telur sig ekki þurfa að kanna bakgrunn kaupenda!
Öll atburðarás þessarar sölu er hrein skelfing. Þetta er í þriðja sinn sem ríkið selur banka sína og klárlega sú allra skelfilegust, sér í lagi vegna þess að við höfum söguna til að leiðbeina okkur.
Ef við greinum þetta örlítið, út frá því sem ráðherra sagði fyrir söluna. Hlutur ríkisins er boðin út. Þegar eitthvað er boðið út mætti ætla að tilvonandi kaupendur bjóði í hlutinn og sá sem hæst býður hljóti hnossið, svo fremi hann uppfylli kröfur til kaupenda. Þarna ákveður hins vegar seljandi verðið fyrirfram og að auki setur það lægra en markaðsvirði. Þetta er því ekki útboð heldur bein sala. Í öðru lagi talaði ráðherra um að valdir yrðu fagfjárfestar, að það myndi tryggja langa eigu þeirra í bankanum. Þegar listinn var opinberaður kom hins vegar í ljós að yfir 40% sölunnar féll til einkafjárfesta. Lífeyrissjóðir, verðbréfasjóðir og erlendir langtímasjóðir, allt sjóðir sem reikna má með að séu að fjárfestar til lengri tíma, fengu einungis tæp 60%. Síðan hefur komið í ljós að innan þess hóps sem kallast erlendir langtímasjóðir, eru bara alls ekki neinir langtímasjóðir, heldir sjóðir sem spila spákaupmennsku frá degi til dags. Því má ætla að langtímafjárfestar í þessu útboði séu mun færri en ætlað er, jafnvel undir 50%. Þá hefur einnig komið í ljós að margir þeirra einkafjárfesta er kauptu í bankanum hafa þegar tekið út sinn hagnað af sölunni.
Það sem þó kemur mest á óvart varðandi þessa sölu í bankanum, er hversu pólitískt nef fjárnálaráðherra er gjörsamlega kol stíflað. Það hefur legið fyrir lengi að lítil sátt er um sölu á eignum ríkisins í bönkunum. Þar kennir sagan okkur. Því var sölunni frestað á síðasta kjörtímabili, taldist of skammt til kosninga til að offra þannig atkvæðaveiðum. Nú eru einungis örfáar vikur til næstu kosninga. BB hefði mátt vita að salan yrði gagnrýnd, jafnvel þó sú skelfing sem nú blasir við hefði ekki orðið. Því er með ólíkindum að hann skuli færa vinstriöflunum þetta beitta vopn, skömmu fyrir borgarstjórnarkosningar. Dagur hlýtur að kætast.
Það er ljóst að Íslandsbanka var rænt. Þar ber bankasýslan auðvitað stærstu ábyrgð. Framkvæmdin var þeirra og fjarri því sem um var rætt af yfirmanni þeirra, fjármálaráðherra. Auk þess sem bankasýslan hleypir inn í söluna dæmdum fjárglæframönnum, jafnvel mönnum sem enn eru í meðferð dómstóla. Fjármálaráðherra ber einnig mikla ábyrgð. Hann stóð ekki vaktina fyrir þjóðina, eins og honum ber. Hann virðist ekki hafa farið yfir málið áður en hann gaf bankasýslunni vald til að rita undir söluna. Reyndar vandséð að ráðherra hafi heimild til að útdeila slíku valdi til embættismanna. Ráðherra hlýtur að þurfa að rita eigin hendi undir sölu eigna ríkisins upp á tugi milljarða króna.
Aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar bera sömu ábyrgð og fjárnálaráðherra. Þeir geta gasprað, en ábyrgðina bera þeir.
Það er gott að vera bara fávís kjósandi. Að þurfa enga ábyrgð að bera á því að sumum sé hyglað -- nema auðvitað að borga fyrir herlegheitin!
![]() |
Óeining í ríkisstjórn um bankasölu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)