Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Einkavæðing andskotans
20.11.2023 | 04:24
Nú þegar við landsmenn erum farnir að byggja svokallaða varnargarða vegna mögulegs hraunrennslis á Reykjanesi, vaknar óneitanlega upp spurningar í huga manns. Spurningar um einkarekstur á innviðum.
Þeir varnargarðar sem nú eru í framkvæmd og kosta munu einhverja milljarða króna, eru sagðir til að verja innviði á Reykjanesinu. Innviði sem eru í einkaeign, einkarekstri. Hvernig Bláa lónið getur talist til innviða landsins er svo aftur stór spurning. Afrennsli frá orkuveri sem hefur verið markaðssett erlendis og einhverra hluta vegna komist í eigu einkaaðila. En látum vera að ræða það núna.
Orkuverið sjálft telst óneitanlega til innviða. Um það verður ekki deilt. Það er rekið af einkaaðilum sem hirða af því allan arð sem gefst. Þegar á móti blæs, á síðan ríkið að hlaupa undir bagga. Þarna er eitthvað rangt. Kallast einkavæðing andskotans.
Ef innviðir landsins eru svo mikilvægir að ríkissjóður verður að koma til þegar hætt steðjar af, hlýtur að vera best að slíkir innviðir séu í höndum ríkisins. Að einkaaðilar geti ekki sölsað þá undir sig. Þannig myndi arður af fyrirtækinu, þegar vel gengur, renna í ríkiskassann, sem þá væri kannski sterkari að taka á áföllunum þegar þau ríða yfir. Ef við hins vegar teljum að einkavæða megi þessa innviði, hlýtur sú einkavæðing að taka bæði til hagnaðar og taps.
Það er í sjálfu sér ekkert að því að gera tilraunir til að berjast við náttúruna, þó slíkt hafi sjaldnast tekist. Bygging varnargarða vegna mögulegs hraunflæðis er vart hægt að sjá að takist, sér í lagi þegar ekki er vitað hvort eða hvar gýs. En sjálfsagt að prófa það. Ef ríkissjóður stendur að slíkum tilraunum verður að velja vandlega hvað skal reyna að verja. Vel stæð einkafyrirtæki sem greiða eigendum mikinn arð geta varla verið framarlega í því vali. Þau geta einfaldlega sótt um leyfi til að gera slíkar tilraunir upp á sínar eigin spýtur.
Vissulega er Orkuverið í Svartengi nokkuð mikilvægt fyrir landi og þjóð. Orkuframleiðsla HS Orku er samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins um 184 MW uppsett afl. Það munar sannarlega um það. Þessi orka er unnin úr jarðvarma, fengnum með djúpum borholum í jörðina. Dýpsta holan þeirra er 4,6 km. Alls er virkjunin með 54 háhitaholur, nokkuð vel djúpar. Talið var að hraunið undir Grindavík hafi verið komið 0,8 km upp undir yfirborð jarðar. Nýjustu fréttir eru að kvika nálgist óðfluga yfirborðið nærri Svartsengi og því kannski ekki mesta ógn orkuversins rennsli á hrauni ofanjarðar, heldur eldsumbrot neðanjarðar. Eldsumbrot sem kannski ná ekki upp á yfirborðið en gæti hæglega eyðilegt allar borholur virkjunarinnar.
Þegar við veljum að byggja á þekktum eldsumbrotasvæðum eða virkja þau, verðum við að sætta okkur við að náttúran ræður þar öllu. Ef hún ekki sættir sig við þau áform okkar er enginn mannlegur máttur sem getur stöðvað hana. Skiptir þar engu hvort um efnaða einkaaðila er að ræða eða sveltan ríkissjóð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Verðmæti eða verðmæti og siðleysi fjölmiðla
18.11.2023 | 09:40
Ég á engin nógu stór orð til hugganar Grindvíkingum.
Þó ekki hafi enn hafist gos á Reykjanesi er ljóst að þar hafa orðið miklar náttúruhamfarir, með tilheyrandi tjóni á mannvirkjum og innviðum. Margir eiga um sárt að binda, hafa tapað sínu heimili. Enn fleiri lifa í óvissu um framtíðina. Vita ekki hvort þeirra heimili mun einnig tapast, eða hvort yfirleitt verður aftur snúið í heimabæinn. Tap og missir eigna er skelfileg, enn verri er óvissan. Fyrir leikmann sem horfir þessa atburði úr fjarska, er erfitt að gera sér í hugarlund hvernig Grindvíkingum líður. Mestu verðmætin, fólkið sjálft, hefur enn sloppið frá fjörtjóni og ber sannarlega að þakka það.
Sá sem fylgist með þessum hamförum úr fjarka á kannski auðveldara að meta hvernig til hefur tekist í stjórnun mála, vegna þessara skelfilegu atburða. Sem fyrr mæða verklegar athafnir mest á hjálparsveitum landsins. Stjórnunin er hins vegar í höndum stjórnvalda, með aðstoð frá Veðurstofunni og Almannavörnum. Verkleg stjórnun er í höndum lögreglunnar á Suðurnesjum. Satt best að segja verður að segjast eins og er að þarna hafa hlutir þróast á misgóðan veg og hægt að gagnrýna margt. Ekki hjálparsveitarfólkið, það vinnur sína vinnu að alúð. Annað verður sagt um allar ákvarðanatökur og stjórnun.
Björgun verðmæta eru orð sem mikið heyrast í fréttum. En hvað eru verðmæti eða verðmætabjörgun? Peningaleg verðmæti eru mörgum ofarlega íhuga, en meiri verðmæti verður að telja persónulega hluti fólks, jafnvel þó lítið fengist fyrir þá á markaði. Minningar, myndir og hvað það sem tengir fólk við fortíðina eru mestu verðmætin og oftast ómetanleg. Járnarusl og annað, sem hægt er að fá peninga fyrir, má missa sig. Þau verðmæti er auðvelt að endurnýja.
Af aðgerðum stjórnvalda sést vel hvar hugur þeirra liggur, þegar að túlkun verðmæta kemur. Þar er aurinn metinn hærra en andinn. Fyrstu aðgerðir voru að byggja svokallaðan varnargarð um tvö einkafyrirtæki, sem hafa skilað eigendum góðum arði. Ekki er þó meiningin hjá stjórnvöldum að rukka eigendur þessara fyrirtækja um greiðslu á þessum framkvæmdum, heldur eigum við landsmenn að greiða þær. Það má ekki skerða arðgreiðslur fyrirtækjanna til sinna eigenda, eða spilar kannski þar inní að einn eigandi að öðru þessara fyrirtækja er gift ráðherra?
Þar næsta var að hleypa fyrirtækjum, nánast óheft, inn á hættusvæðið í Grindavík, til að bjarga veraldlegum eigum sínum. Þar fengu flutningabílar að athafa sig í tuga tali, við björgun á fiski og öðrum veraldlegum eigum fyrirtækjanna. Fyrirtækja sem einnig hafa verið drjúg í arðgreiðslum til sinna eigenda. Ekki var búið að bjarga málleysingjunum af svæðinu þegar flutningabílarnir birtust, í löngum lestum.
Íbúum var svo loks hleypt inn á svæðið í litlum skömmtum. Mátti dvelja þar örskamma stund, undir vökulum augum hjálparsveitarmanna. Þar var framkoman nokkuð önnur en við fyrirtækin. Enda lítil veraldleg verðmæti á flestum heimilum, þó kannski þau séu meiri hlutfallslega en hjá fyrirtækjunum. Andlegu verðmætin, þau sem tengja fólk við sínar rætur, eru hins vegar mikil. Þá hafa sumir fengið að heimsækja sín hús aftur og aftur, meðan aðrir fá ekki að koma nálægt svæðinu. Þar virðist sem frekjan og auðvitað ef fólk hefur getað sýnt fram á að það sé að bjarga einhverjum veraldlegum verðmætum, riðið baggamuninn.
Það er hreint til skammar hvernig stjórnvöld hafa staðið sig í þessu máli.
Fyrir það fyrsta er fráleitt að halda að einhverjir varnargarðar upp á þriggja metra hæð geti stöðvað framrás hrauns. Það þarf ekki annað en að skoða örlítið myndina sem sést í meðfylgjandi frétt til að átta sig á þeim öflum sem náttúran býr yfir. Bera saman hraunflákana á svæðinu við þessa örlitlu varnargarða. Þá er ekki víst hvort né hvar muni gjósa. Lengd garðanna er slík, væntanlega svo bjarga megi eigum ráðherrafrúarinnar, að vel gæti gosið innan þeirra. Þarna er um minnisvarða að ræða, sem fávískir stjórnmálamenn reisa sér til heiðurs, sem fyrr á kostanað almennings.
Í öðru lagi var forgangsröðun björgunar í Grindavík kol röng. Það fyrsta sem átti að bjarga voru málleysingjarnir. Þeir voru þarna lokaðir af, jafnvel án þess að þeir hefðu vatn eða mat. Síðan átti að leyfa skipulagða för íbúa, til að bjarga sínum verðmætum. Að lokum átt svo að leyfa fyrirtækjum aðgang að svæðinu. Þeirra verðmæti voru öll afturkræf.
Það verður ekki ritað um þessi ósköp án þess að nefna örlítið fjölmiðla og þeirra siðleysi. Meðan íbúar fengu skammtaðar örfár mínútur við björgun sinna verðmæta, fengu fréttamenn og þeirra fylgdarlið að valsa þarna um óáreitt, klukkustundum saman. Þeirra verk virtist fyrst og fremst vera að tefja fólk með fráleitum spurningum. Sumir gerðu tilraun til húsbrots, þó ekki tækist svo vitað sé. Reyndar var hvorki upplýst hvort myndefni eða myndavél hafi verið gerð upptæk, né að lögreglan hafi yfir höfuð skipt sér af málinu. Vel getur verið að viðkomandi hafi verið búinn að fara inn í einhver hús áður en hann varða svo "óheppinn" að lenda í upptöku myndavélakerfis.
Fjölmiðlar eru ævareiðir vegna þess að loks voru settar hömlur á ferðir þeirra inn á svæðið. Telja sitt verk að "upplýsa" almenning. Allar megin upplýsingar eru gefnar upp af viðbragðsaðilum, með fréttatilkynningum og fundum. Hlutur fjölmiðla er að dreifa þeim fréttum til landsmanna. Þeir þurfa ekki að mæta á staðinn til þess og enn síður að tefja fólk. Þá mættu fjölmiðlar örlítið huga að sálarheill fólks sem er í sorg og vanda. Ekki síst þegar sá vandi stafar af skelfilegum náttúruhamförum, þar sem fólk horfir upp á hús sín brotna undan átökum náttúrunnar. Sífelldar bjánalegar spurningar upplýsa ekki nokkurn mann en getur hæglega sært þá sem fyrir ógnaröflunum verða.
![]() |
Yfir 400 skjálftar frá miðnætti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bleikur Land Crusier
10.11.2023 | 16:06
Það er sjaldgæft að stjórnmálamenn festist svo í gömlum kreddum að ekkert annað komist að í höfði þeirra. Allt er réttlætanlegt til að ná þeim kreddum fram.
Meirihluti borgarstjórnar berst enn eins og rjúpa við staurinn í þeirri kreddu að koma á gamaldags almenningssamgöngum í borginni, samgöngukerfi sem helst má sjá leifar af í austur Evrópu, frá tímum kommúnista. Og ekki bara að leitað sé hófanna þar eystra um aðferðafræðina, þá er sömu taktík beitt til að opinbera ruglið. Haldnir eru fundir þar sem einræða er haldin um verkefnið og hver sem þorir að gagnrýna það sagður annað hvort heimskur eða gamalmenni, nema hvort tveggja sé.
Öllum brögðum er beitt til að viðhalda fáviskunni. Þar sem umferð er þokkalega greiðfær er þrengt að, þar sem umferð er tafsöm má ekkert gera til úrbóta. Peningavitið virðist algjörlega horfið þessu fólki, gerir ekki greinarmun á hvort verkefnið standist einhverjar áætlanir eða ekki. Skiptir þar engu hvort rætt er um tugi eða hundruð milljarða í krónum talið, eða hvort rætt er um hækkanir í prósentum upp á allt að 100%.
Þeir stjórnmálamenn sem svo djúpt sökkva í eigin heimsku eru jafnvel sjaldséðari en að mæta bleikum Land Crusier út á þjóðvegi. Þó eru slíkir stjórnmálamenn ráðandi yfir höfuðborg Íslands!
![]() |
Þung umferð í borginni kemur ekki á óvart |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Siðblinda stjórnmálamanna
8.11.2023 | 23:56
Þegar ruv flutti frétt af því að fulltrúi Pírata í borgarstjórn efaðist um réttmæti þess að ríkisstyrkja fjölmiðla, varð ég nokkuð hissa. Kannski væri einhver glóra í þessu hjá henni. Alla vega varð fréttin til þess að ég gerði meira en að lesa fyrirsögnina, las alla fréttina.
Þar heldur borgarfulltrúinn því fram að tengja eigi slíka ríkisstyrki við það að fjölmiðlar séu ekki pólitískir. Enn meira opnuðust augu mín. Þetta var alveg frábær tillaga hjá borgarfulltrúanum. Reyndar einn hængur þar á, fjölmiðlar myndu þá sennilega ekki starfa lengi í landinu, þar sem ekki finnst einn einasti ópólitískur fjölmiðill hér. Þar er sennilega sá þurftafrekasti pólitískastur, þ.e. ruv. Enda var fréttamaður þaðan fljótur að lýsa yfir frati á þennan málflutning borgarfulltrúans.
En þegar enn lengra var lesið kom í ljós að borgarfulltrúinn var ekki að hugsa um pólitík afskiptaleysi fjölmiðla, vildi bara taka þá af sakramentinu sem ekki þóknuðust henni. Mogganum hafði orðið það á að flytja aðrar fréttir af fjárhagsstöðu borgarinnar en siðblind borgarstjórn heldur fram.
Varla er hægt að hugsa sér meiri siðblindu en þennan málflutning borgarfulltrúans.
OHF
8.11.2023 | 09:04
Eitthvað undarlegasta rekstrarform sem þekkist er ohf, eða opinbert hlutafélag. Þetta rekstrarform er búið að kosta þjóðina mikla peninga án þess að skila í raun nokkru til baka, umfram það sem var áður en rekstraforminu var breytt. Í sumum tilfellum hefur þjónustan minnkað verulega svo vart er hægt að tala um að þjónustan sé yfir höfuð lengur til staðar. Þetta á við um Póstinn ohf. Þar eru sumir landshlutar orðnir nánast án þjónustu.
En þetta á vissulega ekki við um öll fyrirtæki sem rekin eru undir ohf. Sum hafa haldið þjónustustigi sínu nokkuð vel, jafnvel aukið það. Vart er þó hægt að sjá að það hafi gerst vegna þessa rekstrarfyrirkomulags. Mestar líkur á að þar hefðu komið til sama þróun hvort heldur þau fyrirtæki hefðu áfram verið rekin af hinu opinbera eða þau einfaldlega seld á markaði.
Framanaf var þetta rekstrarfyrirkomulag sett á fyrirtæki sem annað hvort stóð til að leggja niður eða selja. Með því að gera þau að opinberu hlutafélagi komust stjórnmálamenn hjá því að taka lokaákvörðunina. Hún fór í hendur stjórnar þessara fyrirtækja. Þar með voru stjórnmálamenn búnir að koma vandanum af sér. Það má telja mörg opinber fyrirtæki sem voru komin í fjárhagslegan vanda, oftar en ekki vegna skuldbindinga ríkisins, s.s. í lífeyrismálum starfsfólks. Rekstur þeirra settur undir ohf, og þau síðan annað hvort lögð niður eða seld fyrir slikk. Skuldbindingarnar voru ætíð færðar yfir á ríkissjóð. Læt duga að nefna eitt fyrirtæki sem dæmi, Sementsverksmiðju Ríkisins. Enginn stjórnmálamaður þurfti að láta fés sitt við gjörninginn, hann var ákveðinn af andlitslausum stjórnum þessara ohf fyrirtækis.
Hin síðari ár hafur hins vegar borið nokkuð á því að fyrirtæki sem rekin eru undir rekstrarfyrirkomulagi ohf, hafi sýnt af sér mikla vangetu til rekstrar. Telja sig geta sótt fé í ríkissjóð eftir sínu höfði og sinnt þeirri þjónustu sem þeim ber, illa eða ekki. Enga ábyrgð virðast þessi fyrirtæki bera og stjórnendur þeirra haga sér oft sem kóngar í ríki sínu. Hef áður nefnt Póstinn ohf, en einnig mætti nefna Ísavía ohf. Bæði þessi fyrirtæki hafa sýnt einstaka vangetu til að reksturs, bæði ganga í ríkissjóð nánast eftir eigin höfði og bæði hafa skert svo þjónustu sína út á landsbyggðinni að vart er hægt lengur að segja þau í eigu landsmanna, þrátt fyrir mikla fjármuni sem til þeirra hefur verið ráðstafað.
Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að halda undir eigu landsmanna þeim fyrirtækjum er sinna grunnþjónustu. Kannski er kominn tími til að setjast niður og fara yfir öll þau ehf sem starfandi eru í landinu, með því markmiði að leggja af það rekstrarfyrirkomulag. Að taka þau fyrirtæki og stofnanir sem reknar eru undir þessu formi og þykja vera hluti af grunnþjónustunni og landsmönnum nauðsynleg, aftur undir ríkisrekstur. Önnur fyrirtæki sem rekin eru sem ohf og ekki teljast til grunnþjónustunnar, verði hins vegar einfaldlega seld, eða lögð niður ef enginn kaupandi finnst.
Ekki er með nokkrum hætti hægt að benda á eitthvað ohf fyrirtæki sem er betur rekið en áður, hins vegar má nefna mörg sem eru okkur landsmönnum þyngri en áður samfara minni þjónustu. Við kjósendur höfum hins vegar ekkert lengur um það að segja hvernig þessi fyrirtæki eru rekin, ólýkt því sem áður var, er stjórnmálamenn þurftu að svara fyrir rekstur þeirra, í kosningum.
Eitt örlítið dæmi um hvernig Pósturinn er rekinn. Keypt var öflug flokkunarstöð fyrir bréf og pakka, svo öflug að hálfa væri nóg. Til að sýna fram á eins mikla nýtingu vélarinnar og kostur var, var sú ákvörðun tekin að allur póstur á Íslandi færi gegnum vélina. Það segir að ef sá er sendir jólakort til nágrannans í næsta húsi og setur það í póst, þá fer jólakortið í gegnum þessa vél. Hvort heldur viðkomandi býr á Ísafirði eða Vopnafirði. Jólakortið þarf þá að fara fram og til baka yfir landið, til þess eins að sýna fram á að einhver allt of stór talningavél í Reykjavík hafi tilverurétt. Ruglið er með eindæmum og gæti aldrei orðið svo nema fyrir tilstilli þess rekstraforms sem fyrirtækið er rekið á.
![]() |
Vilja úttekt á póstlögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bóndi er bústólpi
7.11.2023 | 07:23
Traustir skulu hornsteinar
hárra sala;
í kili skal kjörviður;
bóndi er bústólpi,
bú er lendstólpi,
því skal hann virður vel.
Svo orti Jónas Hallgrímsson árið 1840.
![]() |
Þarf að upphefja starfsheitið bóndi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Blórabögglar sögunnar
29.10.2023 | 08:46
Við Íslendingar höfum gjarnan fundið okkur blóraböggla, þegar eitthvað á bjátar. Okkur er kennt að landið hafi verið svikið undir Noregskonung, fyrst og fremst af einum manni, Gissuri Þorvaldssyni. Þetta er hin opinbera saga, sem börnum er innprentuð. Mun líklegri er þó sú skýring sem nýdoktorinn heldur fram, að þar komi tíðarfar frekar við sögu. Að svo hafi verið að þjóðinni kreppt vegna harðinda að eina lausnin var að leita á náðir Noregskonungs. En sú skýring er ekki eins "skemmtileg" og hin, að hafa blóraböggul.
Þetta kemur víðar fram. Gegnum aldirnar hafa harðindi oft verið mikil og alls kyns óáran. Þessa sögu má finna, en aldrei gerð tilraun til að setja hana í samhengi við aðrar staðreyndir okkar sögu hér á landi. Vitað er að við landnám var veðurfar mun mildara en nú, vitað er einnig að á þrettándu öld breyttist þetta til hins verra og hélt sú þróun áfram næstu sex sjó aldir. Mikil harðindi í bland við eldgos og hafís með tilheyrandi fjárfelli og aflabresti, leiddu til þess að við lá að þjóðin færist að fullu og öllu. Reyndar má segja að þetta tímabil hafi staðið allt fram í byrjun tuttugustu aldar, en síðasta alvöru kuldaárið var 1918, þegar gengt var milli Akranes og Reykjavíkur á ís. Eitthvað sem ekki var svo framandi landsmönnum á þeim tíma, einungis liðin rétt rúm þrjátíu ár frá því slíkt gerðist þar áður. Þætti líklega hamfarir í dag.
Þrátt fyrir þessa þekkingu okkar á veðurfari fyrri alda, þrátt fyrir að við vitum að hér var mjög hlýtt við landnám, svo hlýtt að trjágróður var í blóma, og þrátt fyrir að við vitum að mikill mannfellir var og fjárfellir með eindæmum, vegna kulda og eldgosa, þurfum við að finna okkur blóraböggla til að skýra hina ýmsu þætti sögu okkar. Þætti sem einfaldast og sennilega réttast er að skýra með náttúruhamförum.
Þarna má til dæmis nefna minnkandi gróðurfar og landeyðingu. Þar er ekki einn blóraböggull nefndur heldur heil tegund spendýra, sauðkindin. Henni er kennt um að hafa étið allan gróður landsins, þrátt fyrir að vitað sé að fjárstofninn hér á landi hafi verið mjög smár allt fram yfir miðja tuttugustu öld. Kuldar og eldgos eiga þar sennilega stærri hlut en blessuð kindin okkar. Henni tókst hins vegar að halda lífi í þeim fáu hræðum landsmanna sem lifðu af allar þessar hamfarir og ber frekar að þakka en lasta.
Veðurfar hefur alla tíð haft mikil áhrif á söguna. Á hlýtímabilum hefur mannkyni vegnast vel en á kuldatímum hefur verr farið. Jafnvel farið að kenna íslensku eldgosi og þeirri óáran sem því fylgdi, um byltingu í Frakklandi.
Okkur er kennt að landnám hafi verið um árið 870. Margir efast þó um þá sögu. telja það hafa hafist nokkru fyrr og jafnvel af öðrum en víkingum. Hvað um það, tölum bara um það sem okkur var kennt. Hér var stofnað þjóðveldi með Alþingi árið 930. Á þessum tíma var búsældarlegt hér á landi og bera mörg staðarnöfn þess merki að akuryrkja hafi verið ríkjandi um allt land, þar sem bleikir akrar bylgjuðust í sólinni. Þetta tímabil stóð yfir í rúmar þrjár aldir, eða þar til kólna tók. Þá gengu Íslendingar Noregskonungi á hönd, sennilega fyrst og fremst vegna þess að vart var lengur búandi hér á landi, vegna kulda. Þá höfðu landsmenn barist á banaspjótum um nokkra áratuga skeið og í sannleika sagt má kannski segja að Gissuri hafi þarna tekist að bjarga landinu frá algjörri eyðingu.
Við vorum síðan undir erlendum yfirráðum næstu sex og hálfa öld, eða þar til fór að hlýna aftur. En sælan stóð ekki lengi. Strax við stofnun hins síðara sjálfstæðis þjóðarinnar, voru uppi efasemdarraddir. Það tók þær hins vegar nokkra áratugi að ná eyrum þjóðarinnar og þegar síðara lýðveldið var einungis tæpra hálfrar aldar gamalt tók Alþingi ákvörðun um að deila sjálfstæði þjóðarinnar með erlendu þjóðarbandalagi. Sú deiling á sjálfstæðinu stendur enn og er aldrei meiri en nú. Ekki er langt í að engu fleiru verði deilt af íslensku sjálfstæði, að þjóðin verði ekki lengur sjálfstæð nema að nafni til. Það mun verða áður en hægt verður að halda upp á aldarafmæli sjálfstæðis okkar, hins nýja.
En þarna er ekki hægt að kenna náttúruöflunum um. Veðurfar hefur batnað, þó enn sé nokkuð í land að það nái því sem var við landnám og fyrstu aldir þess. Eldgos er frekar fátíð og oftar en ekki mjög smá í sniðum, svona einskonar túristagos. Öl merki þess, út frá náttúrunnar hendi, eru því til þess að hér væri hægt að lifa blómlegu lífi með öflugu sjálfstæði.
Hvað verður um Ísland ef aftur kólnar og aftur fara að verða hér stórgos. Víst er að við eigum engan Gissur Þorvaldsson okkur til bjargar og jafnvel þó einhver jafnoki hans fyndist, verður samningsstaða hans frekar léleg. Hefur engu úr að spila því þegar hefur verið kastað öllum trompum af hendi. Því er nokkuð ljóst að ef aftur kólnar hér á landi, í líkingu við það sem hér hefur verið á meira en helmingi þess tíma er við höfum búið hér á landi, mun byggð leggjast af. Við munum ekki geta lifað slíka tíma.
Því er nokkuð súrt að ráðamenn þjóðarinnar berjast með oddi og eggi í að reyna að breyta því sem ekki verður breitt, veðurfarinu og það til hins verra. Það er fyrst og fremst gert með skattlaggniungu og skerðingu á lífskjörum fólks, gera þjóðina enn berskjaldaðra fyrir því þegar aftur kólnar. Og það mun kólna aftur.
Hvenær veit enginn en sagan kennir okkur að ekkert veðurfar á jörðinni er hið eina rétta. Við þurfum enga blóraböggla til að skýra þær breytingar, eða efleiðingar þeirra.
![]() |
Harðindi hröktu okkur í faðm Hákonar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Abrakadabra
27.10.2023 | 10:30
Það er sorgleg staðreynd að horfa upp á landbúnað leggjast af hér á landi. Honum blæðir út og ráðherra málaflokksins ætlar að skipa starfshóp! Hún telur hægt að leysa vandann með einhverjum göldrum. Ætla ekki að segja hér hvaða viðurnefni slík kvendi hafa.
Bráðavandinn nú er hrópandi og verður ekki leystur á annan hátt en þann er nágrannalönd okkar gera, með auknum greiðslum til matvælaframleiðslunnar. Engin önnur leið er til lausnar bráðavandans.
Stóri vandinn er hins vegar nokkuð flóknari, eða hvað? Nei, stóri vandinn í matvælaframleiðslu hér á landi er í raun sára einfaldur. Það þarf engan starfshóp til að sjá hver vandinn er, einungis örlitla skynsemi í kollinn. Og rétt eins og með bráðavandann verður stóri vandinn ekki leystur með því einu að ráðherra kyrji í sífellu abrakadabra. Sama hversu fjölkyngjuð hún er.
Það kostar að framleiða matvæli. Þá staðreynd þarf að viðurkenna. Þá er hægt að huga að lausnum, ekki fyrr. Þar eru í raun einungis tvær leiðir. Sú að fara sömu leið og nágrannaþjóðirnar og niðurgreiða matvæli til neytenda, eða fara hina leiðina, að láta neytendur greiða þann kostnað úr eigin vasa.
Fyrri leiðin kallar á viðurkenningu þess að búskapur er landinu nauðsynlegur. Ástandið í heiminum í dag kallar á að hver þjóð sé sér eins trygg um eigið matvælaöryggi og framast verður. Stjórnmálamenn nefna þetta gjarnan við hátíðleg tækifæri, þó minna sé um sjálfan skilning þeirra á eigin orðum. Matvælaöryggi er ekki bara falleg orð á blaði, matvælaöryggi fæst einungi með því að bændum sé gert mögulegt að framleiða mat.
Eins og áður segir þá hafa nágrannaþjóðir okkar valið þá leið að greiða niður mat til neytenda. Þar þarf Ísland að vera á sama báti, sömu niðurgreiðslur þarf hér, að lágmarki. En það dugir þó ekki eitt og sér. Rekstrarumhverfi hér þarf einnig að vera sambærilegt eða betra en í nágrannalöndunum. Í dag er himinn og haf þar á milli, þar sem regluverk hér á landi hefur farið algerlega úr böndum.
Allan innflutning á matvöru, sem hægt er að framleiða hér á landi, á að banna. Einungis flytja inn þá matvöru sem ekki hægt að framleiða hér og þá einungis frá þeim löndum sem gera sömu kröfur til matvælaframleiðslu og vinnslu og hér er. Annað mun aldrei getað skilað árangri í marvælaframleiðslu hér á landi. Meðan fluttar eru inn erlend matvæli, framleidd við mun minni kröfur en hér, eru bragðbætt með ýmsum "hjálparefnum" s.s. hormónum og pensillíni, er ljóst að stjórnmálamenn meina lítið með orðum sínum um matvælaöryggi. Það er útilokað að íslenskum bændum sé mögulegt að keppa á svo skökkum markað.
Kannski sést best hversu skökk þessi samkeppni er í því að þegar minnsti vafi er um hvort byrgðir lambakjöts dugi til næstu sláturtíðar, er heimilaður flutningur á lambakjöti yfir hálfan hnöttinn til Íslands. Verslun og þjónustu er í lófa lagið að búa til slíkan ímyndaðan skort, með því einu að leigja nokkra frystigáma í upphafi sumars. Ætla ekki að halda því fram að það hafi verið gert, en vissulega er það auðveld aðgerð. Til þess eins að flytja inn gamalt kjöt yfir hálfann hnöttinn, kjöt sem hægt er að fá fyrir nánast ekki neitt erlendis og selja á uppsprengdu verði hér á landi. Enginn efast um hag verslunar og þjónustu af slíkum innflutningi, þó víst sé að verðið erlendis muni fljótt hækka ef sauðfjárrækt leggst af hér á landi.
Verði ekki gripið strax í taumana og ráðist af fullum krafti í lausn vandans, fyrst bráðavandans og í kjölfarið hinn raunverulega vanda, ef bændum verður ekki gert fært að framleiða matvæli hér á landi, munum við brátt sjá alla kjötframleiðslu leggjast af. Mjólk verður áfram framleidd en allar aukaafurðir mjólkur mun leggjast af. Örfá stór mjólkurbú munu standa eftir, sem næst helstu þéttbýliskjörnunum, til að framleiða einungis mjólk fyrir landann.
Gleymum ekki þeirri staðreynd að íslenskar landbúnaðarafurðir eru þær hreinustu í öllum heimi. Hér er hægt að auka framleiðsluna og bæta fjölbreytni hennar. Innflutningur gæti þess vegna minnkað verulega, með tilheyrandi sparnaði á gjaldeyri, gjaldeyri sem við erum svo háð.
En til þess verðum við að viðurkenna að það kostar að framleiða matvæli og til að svo megi vera þarf að gera bændum kleyft að rækta sín bú af stolti, gera bændum kleyft að geta tekið á sig skammvin áföll eins og t.d. okurvaxtatilburði stjórnvalda. Sá bráðavandi er nú he3jar að bændum, vegna þeirrar okurvaxtastefnu, er nefnilega bein afleiðing hins raunverulega vanda sem hefur aukist stig af stigi síðustu hálfa öld, eða svo.
Vandinn að fólk telur matinn verða til í hillum verslana, vandinn að þjóðin þekkir ekki hin raunverulegu verðmæti og auðvitað sá vandi að jafnvel ráðherrar hafa ekki meiri skilning á málinu en svo að telja bændur vera hobbýista!
Það er sama hversu fjölkyngjuð ráðherra landbúnaðarmála er, hún mun ekki getað galdrað vandann burtu, jafnvel ekki með aðstoð einhvers starfshóps.
![]() |
Ríkiskassinn verður ekki opnaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Skammsýnin mun drepa þjóðina
21.10.2023 | 00:52
Það er sorgleg en raunsæ grein um stöðu landbúnaðar á Íslandi, einkum ungra bænda, í nýjasta Bændablaðinu. Þá er einnig raunsætt viðtal við oddvita Eyjafjarðarsveitar, hér á síðum Moggans um stöðu landbúnaðarins. Báðar þessar greinar lýsa langvarandi erfiðleikum í bændastétt, hvernig nýliðun í stéttinni sé nánast útilokuð og að upp sé komin sú alvarlega staða að fjöldi bænda sé að gefast upp á því rekstrarumhverfi sem þeir búa við. Við þetta má síðan bæta að nú stefnir í fjöldagjaldþrot í flestum greinum landbúnaðar hér á landi.
Loks nú, þegar allt er að komast á vonarvöl, tekur ríkisstjórnin málið upp og ákveður einhverjar aðgerðir. Þó seint sé, kannski of seint, verður að fagna því að ráðamenn séu að átta sig á þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin, átta sig á að hugsanlega erum við að horfa upp á að landbúnaður leggist að mestu af í landinu á næstu árum, með tilheyrandi afleiðingum fyrir alla landsbyggðina. Og auðvitað neytendur í kjölfarið.
Skammsýni stjórnvalda, viljaleysi og almennur aumingjaskapur er þó algjör. Skipaður er starfshópur og honum gert að leita að lausn á vandanum, þ.e. því er snýr að vaxtaokrinu sem tröllríður landinu! Það þarf engan helvítis starfshóp, það þarf aðgerðir og það undir eins! Vaxtaokur stjórnvalda, það eru jú stjórnvöld sem setja Seðlabankanum lög, er einungis tímabundinn vandi. Vissulega mikill vandi fyrir bændur þar sem svo hefur verið að þeim kreppt undanfarin ár að þar er ekkert borð fyrir báru. Þá starfar landbúnaður ekki við þann lúxus sem aðrar atvinnugreinar hafa, að geta bara velt vandanum út í þjóðfélagið.
Vandi bænda er mun meiri en bara það vaxtaokur sem hér er stundað. Vandi bænda er fyrst og fremst hugarfar þjóðarinnar og ráðamanna. Hugarfar þar sem bændur eru sagðir baggi á þjóðinni. Þessi hugarfarsbreyting hefur staðið yfir í nærri hálfa öld.
Á þeim tíma hefur bústofni fækkað gífurlega. Til dæmis hefur vetrarfóðruðum ám fækkað úr um 800þ fjár niður í um 400þ. Ræktunarstarf bænda hefur hins vegar skilað því að afurðir hafa nokkuð haldist og fáar atvinnugreinar sem geta státað sig af slíkum árangri. Hvergi í heiminum eru framleiddar betri landbúnaðarafurðir en hér og hvergi í heiminum er minni notkun ýmissa "hjáparefna" við framleiðsluna, s.s. sýklalyf og hormónar. Sýklalyf einungis þegar brýn nauðsyn ber og hormónar með öllu óþekktir.
Því er staðan orðin sú að endurnýjun í landbúnaði er ekki bara nánast óhugsandi, hún er algjörlega óhugsandi. Það sem verra er að gróin bú eru einnig að horfa til vanda í sínum rekstri. Viðhald húsa og endurnýjun tækja er ekki gerð nema með því að herða sultarólina. Eldri bændur horfa því frekar til þess að draga saman í rekstri eða hætta alveg.
Ekki má gleyma að ræða örlítið um þá sem kannski hafa mest staðið að rógherferð gegn bændum landsins, stórkaupmönnum. Þegar ákveðnir stjórnmálaflokkar fóru að draga úr sínum áróðri gegn bændum, tóku forsvarsmenn stórkaupmanna við keflinu. Þeir halda því að þjóðinni að hægt sé að slá tvær flugur í einu höggi, með því einu að gera innflutning á landbúnaðarvörum frjálsan. Lægra verð á matvöru til neytenda og engar greiðslur úr sameiginlegum sjóðum okkar til landbúnaðar.
Auðvitað vita stórkaupmenn að þetta er ekki rétt. Í fyrsta lagi eru þeir að kaupa landbúnaðarvörur erlendis sem njóta meiri niðurgreiðslna en hér þekkist, niðurgreiðslna sem auðvitað mun ekki halda ef við verðum háð erlendum ríkjum um matvæli. Í öðru lagi er fráleitt að ætla að það verði einhver sparnaður fyrir ríkissjóð ef byggð verður lögð af á stórum hluta landsins. Kolefnisspor matvæla hefur verið nokkuð í umræðunni og nú síðast í dag hélt talsmaður stórkaupmanna því fram að innflutt kjöt frá Nýja Sjálandi skilaði minna kolefnisspori en íslengst kjöt! Fjarstæðukenndari verður áróðurinn varla en er alveg lýsandi. Þessu trúir fólk! og hvers vegna? Jú, svo hefur verið unnið gegn íslenskum landbúnaði síðastliðna hálfa öld, að fólk trúir hverju sem er.
Það sem stjórnvöld þurfa að gera er að setja mikið fjármagn strax inn í landbúnaðinn, til að taka á þeim bráðavanda sem nú er, vegna vaxtaokurs lánastofnana. Síðan þarf að viðurkenna þá staðreynd að ef við ætlum að halda uppi byggð í landinu verður að vera til staðar landbúnaður. Til þess þarf að greiða úr sameiginlegum sjóðum til greinarinnar, a.m.k. til jafns við þær þjóðir sem okkur næst standa. Að gera bændum kleyft að lifa af sinni vinnu. Átak til að breyta hugarfari landsmanna þarf að fara af stað, að gera fólki grein fyrir að maturinn verður ekki til í hillum verslana, heldur liggur þar að baki mikið og erfitt starf bænda. Að það kostar að framleiða mat. Að viðurkennd staðreynd er að ríkissjóðir greiði niður matvælaframleiðslu til að halda niðri launum fólks. Fyrir bóndann skiptir engu máli hvort hann fær að hluta til greitt fyrir sína vinnu frá ríkinu eða hvort neytandinn greiði að fullu fyrir mat sinn. Síðari kosturinn kallar hins vegar á verulega hækkun launa almennings. En meðan aðrar þjóðir fara þessa leið verðum við að gera slíkt hið sama. Að ætlast til þess að aðrar þjóðir greiði niður okkar matvæli er hins vegar fásinna.
Við stjórnvöld verður ekki annað sagt: Enga helvítis starfshópa eða nefndir. Það þarf aðgerðir strax! Skammsýni heldur ekki uppi matvælaöryggi landsins, skammsýni drepur þjóðina.
![]() |
Fjalla um þunga fjárhagsstöðu bænda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Að fórna náttúrunni til að bjarga henni
19.10.2023 | 08:58
Það er hreint með ólíkindum hvernig Gulli lætur þessa dagana. Kemur með hvert ruglið á fætur öðru, í algjörri andstöðu við þau gildi sem flokkur hans stendur fyrir. Er orðinn mun nær Stalín í hugsun en sönnum íslenskum sjálfstæðissinna.
Fyrir stuttu lagði hann til að efla enn skrifræði ríkisbáknsins, með því að taka rekstur eftirlitsstofnanna, sem sveitarfélög hafa haft með höndum og setja undir rekstur ríkisins. Sagði það myndi einfalda hlutina! Hvenær hefur það einfaldað hluti að færa einhvern hluta stjórnsýslunnar fjær fólki? Það er einmitt akkilesarhæll þjóða að auka ríkisrekstur og merki um ráðstjórn! Hvernig hermir það við stefnu Sjálfstæðisflokks?
Frá því ráðherrann tók við embætti umhverfismála, hefur hann orðið sífellt harðari í predikun boðskaps loftlagskirkjunnar. Man ekki til að hann hafi haft slíkar skoðanir fyrir þann tíma, a.m.k. ekki opinberlega. Hvort þetta sýni hversu öflugt ráðuneytið sjálft er í þessum málaflokk, að ná að gera ráðherrann að leiksoppi sínum, eða hvort eitthvað annað búi að baki, skal ósagt látið. Í það minnsta er áhugi ráðherrans á hinum raunverulegu umhverfismálum þjóðarinnar heldur minni, en þar kemur auðvitað til að þar gæti hann átt persónulegra hagmuna að gæta.
Því má hugsanlega afsaka þessar síendurteknu predikanir hans á boðskap loftlagskirkjunnar sé til þess hugsaður að drepa öðrum veigameiri náttúruverndarmálum á dreif. Þar er auðvitað átt við þá skelfilegu stöðu sem landið stendur frammi fyrir í sölu á því til erlendra stórglæpona, sem hyggjast leggja það undir vindorku með tilheyrandi slátrunar á náttúrunni og laxaeldi sem hugsanlega mun útrýma íslenska laxastofninum.
Vandamálið er ekki hlýnun jarðar. Við erum rétt að stíga upp úr kaldasta tímabili frá síðustu ísöld, svo það getur einungis orðið til bóta fyrir heimsbyggðina. Verra hefði orðið ef haldið hefði áfram að kólna. Vandamálið er hins vega annað, fyrst og fremst sú gífurlega mannfjölgun sem hefur átt sér stað á jarðarkringlunni. Þann vanda er hins vegar erfitt að leysa. Þetta er stærsti vandi jarðar.
Annar stór vandi er boðskapurinn sem nú tröllríður heimsbyggðinni. Hann hefur leitt af sér þá hugsun að allt sé réttlætanlegt, svo fremi það megi telja það þjóna boðskapnum, sama hversu heimskulegt það er eða augljóslega fáránlegt. Hægt væri að telja fjölda dæma þar um, svo sem að höggva tré í Ameríku og kurla þau í spað. Flytja síðan til Íslands og blanda við hana sementi. Flytja aftur hálfa leið til Ameríku og sturta í sjóinn. Sagt að þetta muni auka þörungamyndun í sjó. Á sama tíma fá fyrirtæki hér á landi fjármagn til að slá þörunga við landið og vinna úr þeim dýrafóður! Lengra verður varla komist í heimskunni, eða hvað?
Jú, því miður, það er hægt að komast lengra, mun lengra. Vindorka er einhver óumhverfisvænsti kostur til orkuöflunar. Þar kemur ekki hvað síst til sú mikla mengun er verður til við rekstur slíkra orkuvera. Baneitrað gas og örplast eru þar einna verst, auk olíumengunar í jarðvegi umhverfis slík orkuver. En þessi mengun er þó ekki verst, varðandi vindorkuverin. Landsvæðið sem þau þurfa fyrir hverja orkueiningu sem þau framleiða er hvergi meiri en einmitt í vindorkuverum. Sólarorkan kemur þar næst. Hér á landi eru áætlanir um gífurlegt magn vindorkuvera, sem hafa samanlagt margfalt meiri framleiðslugetu en landið þarf, meðan blæs. Þegar lygnir kemur hins vegar ekki nein orka frá þeim, ekki einu sinni til að hægt verði að rista sér brauð!
Hafi einhverjum þótt heimskulegt að höggva skóga í Ameríku og flytja þá í formi flísar til landsins, til þess eins að flytja þá flís aftur hálfa leið til Ameríku og sturta þar í sjóinn, ættu hinir sömu að vera jafn undrandi á að hægt sé að fórna náttúrunni í nafni þess að verið sé að bjarga henni!
Ef við aðeins skoðum söguna, bara örfá ár aftur í tímann, um svona 60 ár eða svo. Þá var einstaklega kalt á jörðinni og sumir loftlagsfræðingar töldu að við stefndum inn í nýja ísöld. Ástæðan var auðvitað söm og nú, mengun mannskepnunnar. Á þessum tíma voru veðuröfgar mun meiri en í dag. Árlega voru fréttir um mikil flóð í byggð, á suðurlandi í Borgarfirði og Eyjarfirði, auk annarra svæða. Bæir urðu einangraðir dögum saman vegna vatna. Skriðuföll voru einnig árlega í fréttum. Á hverju hausti komu fréttir um að fellibyljir herjuðu á suðurríki Bandaríkjanna, með skelfilegum afleiðingum. Auðvitað muna flestir stjórnmálamenn ekki þessa tíma og þegar þeir sem eldri eru og vitið hafa reyna að segja söguna eru þeir afgreiddir sem rugluð gamalmenni!
Allt var þetta þó eðlilegt. Veðuröfgar aukast ætíð þegar kaldara er. Skýrast dæmi þess var síðastiðinn vetur og vor, vestur í Bandaríkjunum. Veturinn á vesturströndinni var einstaklega kaldur, með mikilli snjókomu. Svo mikið snjóaði þar á sumum stöðum að þriggja hæða hús fóru á kaf í snjó. Svo voraði og allur þessi snjór bráðnaði. Mikil flóð fylgdu á eftir og uppistöðulón sem hafa undanfarin ár verið nánast tóm, yfirfylltust. Vatnsbúskapur þar vestra nú hefur ekki verið eins góður í áratugi. Ef ekki hefði snjóað svo mikið, ef hefði verið hlýrra, svona eins og undanfarin ár, væru miðlunarlón þar vestra sennilega jafn tóm nú og á sama tíma og í fyrra.
Gamalmenni geta sannarlega verið rugluð, en það er þó alls ekki einsleitt. Yngra fólkið. einkum það sem vill láta að sér kræla í stjórnmálum ætti kannski oftar að hlusta á eldra og vitrara fólk. Gulli ætti kannski að skreppa heim í sinn heimabæ og taka eldra fólk þar tali. Láta það lýsa hvernig ástandið var um Borgarfjörðinn á kuldaárunum á áttunda áratugnum. Hann þarf ekki einu sinni að fara á elliheimilið til að afla sér þekkingar. Einungis að hitta þar fólk á förnum vegi er upplifði þessa tíma.
Að ætla að fórna náttúrunni til að bjarga náttúrunni er hins vegar fráleitt.
![]() |
Við viljum Ísland sem er loftslagsþolið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)