Skammsýnin mun drepa þjóðina

Það er sorgleg en raunsæ grein um stöðu landbúnaðar á Íslandi, einkum ungra bænda, í nýjasta Bændablaðinu. Þá er einnig raunsætt viðtal við oddvita Eyjafjarðarsveitar, hér á síðum Moggans um stöðu landbúnaðarins. Báðar þessar greinar lýsa langvarandi erfiðleikum í bændastétt, hvernig nýliðun í stéttinni sé nánast útilokuð og að upp sé komin sú alvarlega staða að fjöldi bænda sé að gefast upp á því rekstrarumhverfi sem þeir búa við. Við þetta má síðan bæta að nú stefnir í fjöldagjaldþrot í flestum greinum landbúnaðar hér á landi.

Loks nú, þegar allt er að komast á vonarvöl, tekur ríkisstjórnin málið upp og ákveður einhverjar aðgerðir. Þó seint sé, kannski of seint, verður að fagna því að ráðamenn séu að átta sig á þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin, átta sig á að hugsanlega erum við að horfa upp á að landbúnaður leggist að mestu af í landinu á næstu árum, með tilheyrandi afleiðingum fyrir alla landsbyggðina. Og auðvitað neytendur í kjölfarið.

Skammsýni stjórnvalda, viljaleysi og almennur aumingjaskapur er þó algjör. Skipaður er starfshópur og honum gert að leita að lausn á vandanum, þ.e. því er snýr að vaxtaokrinu sem tröllríður landinu! Það þarf engan helvítis starfshóp, það þarf aðgerðir og það undir eins! Vaxtaokur stjórnvalda, það eru jú stjórnvöld sem setja Seðlabankanum lög, er einungis tímabundinn vandi. Vissulega mikill vandi fyrir bændur þar sem svo hefur verið að þeim kreppt undanfarin ár að þar er ekkert borð fyrir báru. Þá starfar landbúnaður ekki við þann lúxus sem aðrar atvinnugreinar hafa, að geta bara velt vandanum út í þjóðfélagið.

Vandi bænda er mun meiri en bara það vaxtaokur sem hér er stundað. Vandi bænda er fyrst og fremst hugarfar þjóðarinnar og ráðamanna. Hugarfar þar sem bændur eru sagðir baggi á þjóðinni. Þessi hugarfarsbreyting hefur staðið yfir í nærri hálfa öld.

Á þeim tíma hefur bústofni fækkað gífurlega. Til dæmis hefur vetrarfóðruðum ám fækkað úr um 800þ fjár niður í um 400þ. Ræktunarstarf bænda hefur hins vegar skilað því að afurðir hafa nokkuð haldist og fáar atvinnugreinar sem geta státað sig af slíkum árangri. Hvergi í heiminum eru framleiddar betri landbúnaðarafurðir en hér og hvergi í heiminum er minni notkun ýmissa "hjáparefna" við framleiðsluna, s.s. sýklalyf og hormónar. Sýklalyf einungis þegar brýn nauðsyn ber og hormónar með öllu óþekktir.

Því er staðan orðin sú að endurnýjun í landbúnaði er ekki bara nánast óhugsandi, hún er algjörlega óhugsandi. Það sem verra er að gróin bú eru einnig að horfa til vanda í sínum rekstri. Viðhald húsa og endurnýjun tækja er ekki gerð nema með því að herða sultarólina. Eldri bændur horfa því frekar til þess að draga saman í rekstri eða hætta alveg.

Ekki má gleyma að ræða örlítið um þá sem kannski hafa mest staðið að rógherferð gegn bændum landsins, stórkaupmönnum. Þegar ákveðnir stjórnmálaflokkar fóru að draga úr sínum áróðri gegn bændum, tóku forsvarsmenn stórkaupmanna við keflinu. Þeir halda því að þjóðinni að hægt sé að slá tvær flugur í einu höggi, með því einu að gera innflutning á landbúnaðarvörum frjálsan. Lægra verð á matvöru til neytenda og engar greiðslur úr sameiginlegum sjóðum okkar til landbúnaðar.

Auðvitað vita stórkaupmenn að þetta er ekki rétt. Í fyrsta lagi eru þeir að kaupa landbúnaðarvörur erlendis sem njóta meiri niðurgreiðslna en hér þekkist, niðurgreiðslna sem auðvitað mun ekki halda ef við verðum háð erlendum ríkjum um matvæli. Í öðru lagi er fráleitt að ætla að það verði einhver sparnaður fyrir ríkissjóð ef byggð verður lögð af á stórum hluta landsins. Kolefnisspor matvæla hefur verið nokkuð í umræðunni og nú síðast í dag hélt talsmaður stórkaupmanna því fram að innflutt kjöt frá Nýja Sjálandi skilaði minna kolefnisspori en íslengst kjöt! Fjarstæðukenndari verður áróðurinn varla en er alveg lýsandi. Þessu trúir fólk! og hvers vegna? Jú, svo hefur verið unnið gegn íslenskum landbúnaði síðastliðna hálfa öld, að fólk trúir hverju sem er.

Það sem stjórnvöld þurfa að gera er að setja mikið fjármagn strax inn í landbúnaðinn, til að taka á þeim bráðavanda sem nú er, vegna vaxtaokurs lánastofnana. Síðan þarf að viðurkenna þá staðreynd að ef við ætlum að halda uppi byggð í landinu verður að vera til staðar landbúnaður. Til þess þarf að greiða úr sameiginlegum sjóðum til greinarinnar, a.m.k. til jafns við þær þjóðir sem okkur næst standa. Að gera bændum kleyft að lifa af sinni vinnu.   Átak til að breyta hugarfari landsmanna þarf að fara af stað, að gera fólki grein fyrir að maturinn verður ekki til í hillum verslana, heldur liggur þar að baki mikið og erfitt starf bænda. Að það kostar að framleiða mat. Að viðurkennd staðreynd er að ríkissjóðir greiði niður matvælaframleiðslu til að halda niðri launum fólks. Fyrir bóndann skiptir engu máli hvort hann fær að hluta til greitt fyrir sína vinnu frá ríkinu eða hvort neytandinn greiði að fullu fyrir mat sinn. Síðari kosturinn kallar hins vegar á verulega hækkun launa almennings. En meðan aðrar þjóðir fara þessa leið verðum við að gera slíkt hið sama. Að ætlast til þess að aðrar þjóðir greiði niður okkar matvæli er hins vegar fásinna.

 

Við stjórnvöld verður ekki annað sagt: Enga helvítis starfshópa eða nefndir. Það þarf aðgerðir strax! Skammsýni heldur ekki uppi matvælaöryggi landsins, skammsýni drepur þjóðina.


mbl.is Fjalla um þunga fjárhagsstöðu bænda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Þvílík eldræða Gunnar.

Sú besta sem ég hef lesið langa lengi, og líklegast lengur en það.

Megi sem flesti lesa, skilja og vakna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.10.2023 kl. 12:09

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég þakka hólið Ómar

Kveðja af Skaganum

Gunnar Heiðarsson, 21.10.2023 kl. 16:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband