Blórabögglar sögunnar

Við Íslendingar höfum gjarnan fundið okkur blóraböggla, þegar eitthvað á bjátar. Okkur er kennt að landið hafi verið svikið undir Noregskonung, fyrst og fremst af einum manni, Gissuri Þorvaldssyni. Þetta er hin opinbera saga, sem börnum er innprentuð. Mun líklegri er þó sú skýring sem nýdoktorinn heldur fram, að þar komi tíðarfar frekar við sögu. Að svo hafi verið að þjóðinni kreppt vegna harðinda að eina lausnin var að leita á náðir Noregskonungs. En sú skýring er ekki eins "skemmtileg" og hin, að hafa blóraböggul.

Þetta kemur víðar fram. Gegnum aldirnar hafa harðindi oft verið mikil og alls kyns óáran. Þessa sögu má finna, en aldrei gerð tilraun til að setja hana í samhengi við aðrar staðreyndir okkar sögu hér á landi. Vitað er að við landnám var veðurfar mun mildara en nú, vitað er einnig að á þrettándu öld breyttist þetta til hins verra og hélt sú þróun áfram næstu sex sjó aldir. Mikil harðindi í bland við eldgos og hafís með tilheyrandi fjárfelli og aflabresti, leiddu til þess að við lá að þjóðin færist að fullu og öllu. Reyndar má segja að þetta tímabil hafi staðið allt fram í byrjun tuttugustu aldar, en síðasta alvöru kuldaárið var 1918, þegar gengt var milli Akranes og Reykjavíkur á ís. Eitthvað sem ekki var svo framandi landsmönnum á þeim tíma, einungis liðin rétt rúm þrjátíu ár frá því slíkt gerðist þar áður. Þætti líklega hamfarir í dag.

Þrátt fyrir þessa þekkingu okkar á veðurfari fyrri alda, þrátt fyrir að við vitum að hér var mjög hlýtt við landnám, svo hlýtt að trjágróður var í blóma, og þrátt fyrir að við vitum að mikill mannfellir var og fjárfellir með eindæmum, vegna kulda og eldgosa, þurfum við að finna okkur blóraböggla til að skýra hina ýmsu þætti sögu okkar. Þætti sem einfaldast og sennilega réttast er að skýra með náttúruhamförum.

Þarna má til dæmis nefna minnkandi gróðurfar og landeyðingu. Þar er ekki einn blóraböggull nefndur heldur heil tegund spendýra, sauðkindin. Henni er kennt um að hafa étið allan gróður landsins, þrátt fyrir að vitað sé að fjárstofninn hér á landi hafi verið mjög smár allt fram yfir miðja tuttugustu öld. Kuldar og eldgos eiga þar sennilega stærri hlut en blessuð kindin okkar. Henni tókst hins vegar að halda lífi í þeim fáu hræðum landsmanna sem lifðu af allar þessar hamfarir og ber frekar að þakka en lasta.

Veðurfar hefur alla tíð haft mikil áhrif á söguna. Á hlýtímabilum hefur mannkyni vegnast vel en á kuldatímum hefur verr farið. Jafnvel farið að kenna íslensku eldgosi og þeirri óáran sem því fylgdi, um byltingu í Frakklandi.

Okkur er kennt að landnám hafi verið um árið 870. Margir efast þó um þá sögu. telja það hafa hafist nokkru fyrr og jafnvel af öðrum en víkingum. Hvað um það, tölum bara um það sem okkur var kennt. Hér var stofnað þjóðveldi með Alþingi árið 930. Á þessum tíma var búsældarlegt hér á landi og bera mörg staðarnöfn þess merki að akuryrkja hafi verið ríkjandi um allt land, þar sem bleikir akrar bylgjuðust í sólinni. Þetta tímabil stóð yfir í rúmar þrjár aldir, eða þar til kólna tók. Þá gengu Íslendingar Noregskonungi á hönd, sennilega fyrst og fremst vegna þess að vart var lengur búandi hér á landi, vegna kulda. Þá höfðu landsmenn barist á banaspjótum um nokkra áratuga skeið og í sannleika sagt má kannski segja að Gissuri hafi þarna tekist að bjarga landinu frá algjörri eyðingu.

Við vorum síðan undir erlendum yfirráðum næstu sex og hálfa öld, eða þar til fór að hlýna aftur. En sælan stóð ekki lengi. Strax við stofnun hins síðara sjálfstæðis þjóðarinnar, voru uppi efasemdarraddir. Það tók þær hins vegar nokkra áratugi að ná eyrum þjóðarinnar og þegar síðara lýðveldið var einungis tæpra hálfrar aldar gamalt tók Alþingi ákvörðun um að deila sjálfstæði þjóðarinnar með erlendu þjóðarbandalagi. Sú deiling á sjálfstæðinu stendur enn og er aldrei meiri en nú. Ekki er langt í að engu fleiru verði deilt af íslensku sjálfstæði, að þjóðin verði ekki lengur sjálfstæð nema að nafni til. Það mun verða áður en hægt verður að halda upp á aldarafmæli sjálfstæðis okkar, hins nýja.

En þarna er ekki hægt að kenna náttúruöflunum um. Veðurfar hefur batnað, þó enn  sé nokkuð í land að það nái því sem var við landnám og fyrstu aldir þess. Eldgos er frekar fátíð og oftar en ekki mjög smá í sniðum, svona einskonar túristagos. Öl merki þess, út frá náttúrunnar hendi, eru því til þess að hér væri hægt að lifa blómlegu lífi með öflugu sjálfstæði.

Hvað verður um Ísland ef aftur kólnar og aftur fara að verða hér stórgos. Víst er að við eigum engan Gissur Þorvaldsson okkur til bjargar og jafnvel þó einhver jafnoki hans fyndist, verður samningsstaða hans frekar léleg. Hefur engu úr að spila því þegar hefur verið kastað öllum trompum af hendi. Því er nokkuð ljóst að ef aftur kólnar hér á landi, í líkingu við það sem hér hefur verið á meira en helmingi þess tíma er við höfum búið hér á landi, mun byggð leggjast af. Við munum ekki geta lifað slíka tíma.

Því er nokkuð súrt að ráðamenn þjóðarinnar berjast með oddi og eggi í að reyna að breyta því sem ekki verður breitt, veðurfarinu og það til hins verra. Það er fyrst og fremst gert með skattlaggniungu og skerðingu á lífskjörum fólks, gera þjóðina enn berskjaldaðra fyrir því þegar aftur kólnar. Og það mun kólna aftur.

Hvenær veit enginn en sagan kennir okkur að ekkert veðurfar á jörðinni er hið eina rétta. Við þurfum enga blóraböggla til að skýra þær breytingar, eða efleiðingar þeirra.

 


mbl.is Harðindi hröktu okkur í faðm Hákonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eitt vantar hjá þér, en er skiljanlegt þegar reynt er með einni alhæfingu um blóraböggla, að sanna aaðra alhæfingu. 

Það, sem vantar, er sú stórfjölgun sauðfjár hér á því timabili sem verslun með sauðfjárafurðir stórjókst og dundi yfir á versta tíma fyrir ástand gróðurs á Íslandi samtímis því sem "Litla ísöld" ríkti. 

Ómar Ragnarsson, 29.10.2023 kl. 21:51

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Ómar

Gegnum aldirnar var stofn sauðfjár í landinu frekar lítill, eða kannski um þriðjungur þess er mesta var um 1980. Nokkur áföll urðu á þessu og fækkaði stofninum verulega við sum þeirra. Eftir gosið í Lakagígum og móðuharðindin sem þeim fylgdi fækkaði fé verulega og er talið að stofninn hafi einungis verið um 50.000 fjár eftir þær hamfarir. Einnig er vitað að gróðri hrakaði verulega á sama tíma.

Svo lengi má klappa steininn að hann holist. Að kenna sauðkindinni um hvernig landið okkar fór er þó frekar langsótt. Jafnvel þó stofninn hafi stækkað eitthvað vegna útflutnings á fé, yfirleitt á fæti, segir það lítið miðað við veðurfarið.

En auðvitað má segja að þegar náttúran er viðkvæm af nokkurra alda kuldatímabili sé hún viðkvæmari fyrir beit. En á móti var svo sem ekki um margt annað að ræða, til að halda lífi í fólkinu í landinu. Landlægur hafís við landið og veðurfar sem, vð varla þekkjum, skerti verulega sjósókn, auk þess sem hún var vægast sagt frumstæð. Því má svo sem halda því fram að betra hefði verið að slátra sauðkindnni, náttúrunnar vegna. En þá hefði sjálfsagt lagst af öll byggð í landinu.

Hvort það hefði skipt sköpun um náttúrufar hér á landi má hins vegar efa. Líklega litlu breytt.

Við sjáum nú, þegar heldur hefur hlýnað, að viltir skógar eru að taka við sér, jafnvel berir jökulaurar að þekjast slíkum skógi, þrátt fyrir að þar sjáist sauðfé. Hellst vá náttúrulegra skóga er kannski lúpínan.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 29.10.2023 kl. 23:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband