Hversu djúpt eru norsk stjórnvöld sokkin?

Hvað kallast það stjórnarfar þegar stjórnvöld fara gegn dómi æðsta dómstól viðkomandi lands? Einræði?

Norsk stjórnvöld hafa ekki framfylgt dómi Hæstaréttar Noregs  um að stöðva skuli allar vindtúrbínur í tveim vindorkuverum í Þrændalögum, þrátt fyrir að liðnir séu rúmir 16 mánuðir frá því dómur var kveðinn upp um ólögmæti þeirra. Ríkisstjórnin ber því við að skoða þurfi einstaka liði dómsins! Hvað þarf að skoða? Vindorkuverin voru dæmt ólögmæt og að þeim skyldi lokað. Þarna þarf ekkert að skoða, einungis að framfylgja dómnum. Hvaða skilaboð eru stjórnvöld að gefa með þessu? Getur kannski hver sá er dæmdur er af Hæstarétti ákveðið sjálfur hvort hann fari að dómnum? Að það sé valkvætt hvort fylgja skuli eftir ákvörðunum dómsvaldsins?

Og til að gera skömm sína enn stærri senda stjórnvöld lögreglu á það fólk sem ekki er að krefjast neins annars en að dómnum verði framfylkt.

Hvert eru norsk stjórnvöld eiginlega komin? Hversu djúpt er hægt að sökkva til að þjóna predikurum Mannons?

 


mbl.is Mótmælendur fjarlægðir með valdi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grunnhyggnir töframenn Viðreisnar

Þeir sem halda fram töfralausnum eru yfirleitt grunnhyggnir. Hagkerfi hvers ríkis er sérstakt og bundið við það ríki. Hvernig gengur að stjórna því kemur ekkert gjaldmiðli þess við. Hann getur hins vegar verið mælikvarði á stjórnun hagkerfisins, hafi ríki sinn eigin gjaldmiðil.

Lausn Viðreisnar felst í því einu að ganga í ESB og taka upp evru. Það er galdralausn þess stjórnmálaflokks. En jafnvel innan ESB er hvert ríki með sitt eigið hagkerfi, þó þau notist við sameiginlega mynt. Það sýnir sig líka að verðbólga innan þessara ríkja ESB er mismunandi, sumstaðar mun hærri en hér á landi, sé sama viðmið notað, en hér er mæling verðbólgu með öðrum hætti en innan ESB ríkja. Jafnvel þó notuð sé hin sér íslenska mæling verðbólgu, getum við talist á nokkuð góðu róli miðað við lönd ESB. Þá eru vaxtakjör innan ESB ríkja mismunandi, eftir því hvernig hagkerfi þeirra gengur. En þar sem þau ráða ekki hvert og eitt yfir gjaldmiðlinum, verður hagstjórnin erfiðari.

Því er fjarstæða að halda því fram að einhver töfralausn liggi í því að ganga í ESB og taka upp evru. Hagkerfið hér mun lítið breytast við slíka ráðstöfun og fráleitt að ætla að vaxtakjör breytist til batnaðar. Á fundi Efnahags og viðskiptanefndar Alþingis var seðlabankastjóri yfirheyrður. Þar kom meðal annar þetta fram:

Ásgeir tók hann einnig fram að ef Ísland væri með evr­una væri verðbólg­an hér­lend­is mun hærri og nefndi 7% hag­vöxt á síðasta ári og aukna at­vinnuþátt­töku sem dæmi um góðan ár­ang­ur. „Þú finn­ur ekki annað Evr­ópu­land í þess­ari stöðu“.

Reyndar er ótrúlegt að löggjafaþingið, sem á að stjórna hagkerfinu, skuli kalla þann embættismann fyrir nefnd sem þarf að þrífa skítinn upp eftir óstjórn stjórnvalda. Það fólk ætti að líta sér nær.  Það má vissulega deila um þau verkfæri sem seðlabankinn notar við þau þrif, ég fæ t.d. ekki séð hvernig slá megi á verðbólgu eða lántökur með því að hækka vexti á þegar teknum lánum. Varla fer fólk að skila þeim aftur í bankann.

Þingmenn Viðreisnar ættu kannski að átta sig á því að við búum á eyju langt frá öllum öðrum ríkjum. Það kostar að búa við slíkar aðstæður. Þó hugsanlega megi telja til einhvern kostnað við að halda eigin mynt, er sá kostnaður lítill á við annan kostnað við að búa afskekkt. Innganga í ESB og upptaka evru breytir ekki staðsetningu Íslands á hnettinum, þvert á móti má gera ráð fyrir að vandinn yrði enn stærri.

Grunnhyggnir töframenn leysa sjaldnast neinn vanda!


mbl.is Halda fast í „pínuoggulitla örmynt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Zephyr og Qair

Þegar umræðan snýr að vindorkuframleiðslu og tengdum iðnaði, hér á landi, koma sömu fyrirtækin gjarnan upp, norska fyrirtækið Zephyr og franska fyrirtækið Qair. Þessi tvö fyrirtæki virðast vera að ná algjörum heljartökum á stjórnmálamönnum þessa lands og eru að yfirtaka landið okkar.

Norska fyrirtækið Zephyr er fyrst og fremst á sviði vindorkuvera. Er þegar með starfandi vindorkuver í Noregi með samtals uppsett afl upp á 550 MW og áætlanir um aukningu á framleiðslu. Þar vegur kannski þyngst stórfelld vindorkuframleiðsla á sjó, utan Oslóafjarðar. Hér á landi eru áætlanir þessa fyrirtækis nokkuð stærri og meiri. Bara eitt vindorkuver, Klausturselsvirkjun, á að vera með uppsett afl upp á 500 MW, eða nærri jafn mikið og allt uppsett afl fyrirtækisins í öllum vindorkuverum þess í Noregi. Auk þess er fyrirtækið með áætlanir um vindorkuver víða um landið og má nefna Brekkukamb, Langanes, Mýrar, Á suðurlandinu og samkvæmt heimasíðu Zephyr einnig í Meðallandinu, en sennilega eru þau áform komin í hendur Qair.

Þá er Zephyr einnig með starfsemi í Svíþjóð en enn sem komið er fer sú starfsemi öll fram við skrifborðið, þó áætlanir fyrirtækisins séu að koma þar fyrir vindorkuverum, í framtíðinni.

Zephyr er sagt í eigu norskra sveitarfélaga en það er eins og að segja að SS sé í eigu bænda. Vissulega stofnuðu bændur SS á sínum tíma og þegar illa gengur hjá fyrirtækinu þurfa bændur að blæða. En þegar bóndi hættir búskap fær hann ekkert fyrir sinn hlut í SS. Svipað fyrirkomulag er með eignarhald á Zephyr. Þá er þetta fyrirtæki einna þekktast fyrir að standa í deilumálum, heima fyrir, sem gjarnan lenda fyrir dómstólum. Oftar en ekki eru það sveitarfélögin, sem sögð eru eigendur, sem deila við fyrirtækið.

Franska fyrirtækið Qair er aftur nokkuð flóknara. Á heimasíðu þess má sjá að nánast allt sem hægt er að kalla einhverskonar græna orkuvinnslu, er þar í boði. Þegar nánar er skoðað kemur þó í ljós að þetta fyrirtæki hefur einkum verið á sviði sólarorku. Er með slík orkuver víða, þó einkum í suður Evrópu, norðanverðri Afríku og Brasilíu. Vindorka er hverfandi hjá fyrirtækinu og enn ekki hafin vinnsla á vetni. Þó er fyrirtækið með áætlanir um lítilsháttar vetnisframleiðslu í Frakklandi, í tengslum við fljótandi vindorkuver á Biskayja flóa, einhvertímann í framtíðinni. Í Brasilíu eru auk sólarorkuvera einstök vindorkuver og er ætlunin að auka þá framleiðslu upp í 600 MW uppsett afl. Þetta fyrirtæki er meira fyrir ásýndina en raunveruleikann, sýndarveruleikinn þar allsráðandi.

Hér á landi er Qair kannski þekktast fyrir að kaupa upp hugmyndir annarra á vindorkusviðinu. Hefur þannig eignast nokkrar hugmyndir eins og stórt vindorkuver á Laxárdalsheiði, í landi eiginkonu eins ráðherrans okkar. Þá keypti Qair ónýtar vindtúrbínur í Þykkvabæ og hefur stórar hugmyndir þar. Eins og áður segir er nokkuð líklegt að þetta fyrirtæki hafi keypt hugmyndir Zephyr í Meðallandi, en þar hyggst Qair reisa stórt orkuver. Eins og staðan er í dag eru hugmyndir Qair um vindorkuframleiðslu hér á landi, komnar yfir 1000 MW uppsett afl, vítt um landið. Þó er eins og einhver afturkippur sé hjá fyrirtækinu, þar sem eitt stærsta vindorkuverið þeirra hér á landi, á Melrakkasléttu, er komið í uppnám. Sveitastjórnin þar þykir  monsjur Tryggvi hafa sig afskipta og leita annarra aðila í verkið. Kæmi ekki á óvart að þar kæmi Zephyr að borði.

Áætlanir á sviði rafgreiningar og framleiðslu á vetni eru farnar að heyrast nokkuð hér á landi. Fyrir austan er Zephyr komið í samstarf við danskt fyrirtæki, sem ætlar að reisa slíka verksmiðju niður á fjörðum. Sá böggull fylgir þó skammrifi að hún er fasttengd því að Zephyr fái að reisa risavindorkuver í Klausturseli, orkuver að stærðagráðu sem hvergi annarstaðar þekkist á landi. Qair virðist hins vegar ætla að sjá um þennan lið sjálft, með því að reisa rafgreiningarverksmiðju á Grundartanga. Sú verksmiðja er einnig tengd áætlunum fyrirtækisins í vindorku.

Rafgreining á vetni er í sjálfu sér góð hugmynd og mun hjálpa til við orkuskipin hér, að ekki sé talað um þá möguleika sem slík framleiðsla býður uppá í annarri framleiðslu, eins og áburði á tún bænda. Þessar tvær rafgreiningarverksmiðjur eru hins vegar af þeirri stærðargráðu að ljóst er að verið er að horfa til fleiri markaða en hér innanlands. Þessar verksmiðjur eru dýrar í byggingu og kosta sitt í rekstri. Því er mikilvægt að starfstími þeirra sé sem stöðugastur, að ekki þurfi að keyra þær eftir duttlungum vindsins. Það er með ósköpum að nokkur skuli trúa því að forsenda slíkrar verksmiðja sé vindorka og nánast móðgun að setja slíkt fram.  Ætla mætti að leikurinn sé til þess gerður að liðka fyrir því að vindorkuver fáist reist.

Áætlanir um vindorkuframleiðslu á Íslandi eru orðnar svo gígatískar að útilokað verður að stýra raforkukerfinu hér á landi. Þegar blæs munu túrbínur framleiða á fullu og ekkert þess á milli. Ekkert fyrirtæki er tilbúið að starfa við slíkar aðstæður. Það er því einungis ein leið til að hafa einhverja stjórn að raforkukerfinu okkar, komi þessi áform til framkvæmda, en það er sæstrengur til meginlandsins. Þá er hægt að send yfir hafið orku meðan blæs og slökkva á strengnum í logni.

En málið er þó ekki svo einfalt. Alþingi samþykkti orkupakka 3, sem fjallar fyrst og fremst um flæði orku yfir landamæri og stjórnun þess flæðis. Meðan enginn strengur er, eru áhrif þessa orkupakka ekki mikil. Komi til strengur tekur þessu tilskipun gildi að fullu, hér. Þá mun vindur ekki ráða hversu mikla orku við sendum til meginlandsins, heldur mun ACER ráða þar för og horfa frekar til þarfar meginlandsins á hverjum tíma. Þetta gæti valdið enn frekari sveiflum á orku hér á landi.

Hitt er líka ljóst að verð orkunnar mun hækka verulega, verða í takt við það sem þekkist í Noregi, ef ekki hærra. Verst er þó að vald okkar yfir fyrirsjá í vatnsbúskapnum mun verða af okkur tekið. Það gæti leitt til þess að miðlunarlón væru nánast tóm í upphafi vetrar, með tilheyrandi framleiðsluskerðingu vatnsorkuveranna. Þá verðum við upp á náð og miskunn meginlandsins um orku TIL landsins og vart hægt að hugsa þá hugsun til enda ef eitthvað kæmi fyrir strenginn. Bilun í sæstreng er ekki löguð á örfáum klukkutímum, frekar hægt að tala þar um vikur og mánuði.

Í landi sem er ríkt af orku er fráleitt að ætla að fórna náttúrunni undir risa vindorkuver, í fleirtölu!


mbl.is Bæta við fjórum vetnisstöðvum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vindorkuver byggt á sandi

Franska fyrirtækið Qair var með háleitar hugmyndir um byggingu vindorkuvers í Landi Grímsstaða í Meðallandi, alls um 30 vindtúrbínur af 7,2 MW aflgetu hver. Fljótlega kom í ljós að hluti svæðisins náði inn á verndarsvæði og lausn Qair við því að skipta svæðinu í tvennt, Grímstaðavirkjun 1 og Grímstaðavirkjun 2. Grímstaðavirkjun 1 er það svæði sem er innan verndarsvæðis og það sett í "frekari rannsóknir". Grímstaðavirkjun 2 nær frá verndarsvæðinu og niður að sjó, með 21 vindtúrbínu og er skipulagstillagan um þann hluta.

Eins og áður segir nær þetta svæði frá mörkum verndarsvæðisins, sjávarkambinum og niður til sjávar. Eðli málsins samkvæmt er þetta svæði allt á sandi, síkvikum sandi suðursrandar Íslands. Flest það sem borist hefur á þá sanda hefur horfið á skömmum tíma ofaní síkvika sandana og því ekki séð hvernig hægt er að byggja vindorkuver á þeim. Þá hefur landgræðslan verið að reyna að rækta upp sandana í Meðallandsfjörunni og mun það svæði falla undir athafnasvæði Grímsstaða 2.

Ofan fjörukambsins er, eins og áður segir, verndarsvæði votlendis og fuglalífs. Það er nokkuð mikil skammsýni að ætla að 7,2 MW vindtúrbínur, hátt í 300 metra upp í loftið og með spaðahafi nærri 200 metrum, alls 21 stykki, sem byggðar eru að mörkum þessa svæðis, hafi ekki áhrif á náttúruna þar. Fuglarnir fljúga ekki bara innan marka verndarsvæðisins. Þá er flug farfugla mikið þarna um og víst að þeim mun fækka verulega, þegar þeir koma inn til lendingar þarna, eftir erfitt flug yfir hafið.

Landbúnaður hefur dregist saman í Meðallandinu hin síðari ár, eins og svo víða. Hins vegar hefur ferðaþjónustan aukist verulega þarna og er mikil uppbygging á því sviði. Þar er ekki síst að þakka þeirri náttúru og fuglalífi sem finnst í Meðallandinu. Þetta hefur leitt til þess að stórfelld fækkun íbúa hefur breyst í fjölgun þeirra. Hætt er við að þessu verði öllu fórnað í þágu erlendra auðbaróna. Að landbúnaður leggist af og ferðaþjónustan láti undan með enn frekari fækkun íbúa.

Sem fyrr er gert minna úr stærðum og áhrifum vindtúrbína í þessari skipulagstillögu, rétt eins og flestum öðrum. Miðað við uppgefna aflgetu túrbína stemmir hæð þeirra ekki við upplýsingar framleiðenda. Svæði sem áætlað er undir orkuverið sjálft er mun minna en þarf fyrir þann fjölda túrbína sem byggja á. Sjónræn áhrif í skipulagstillögunni eru væntanlega mæld út frá þeirri hæð túrbína sem upp er gefin og því röng, þó það komi svo sem ekki að sök í tillögunni sjálfri, þar sem mælingin er gerð á afar takmörkuðu svæði, eða einungis 45 km radíus. Það svæði er nánast allt undirlagt sjónmengun frá orkuverinu. 

Það hefur sjaldan verið talin mikil viska að byggja á sandi, en kannski er þetta lýsandi dæmi um allar hugmyndir vindorkuvera á Íslandi. Þær eru byggðar á sandi, í eiginlegri eða óeiginlegri meiningu.

Það væri stórslys ef þetta vindorkuver verður byggt, stórslys fyrir náttúruna, stórslys fyrir fuglalífið og stórslys fyrir samfélagið í Meðallandinu.


mbl.is Vindorkugarður á Meðallandssandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarlína, ætt út í dauðann

Það kemur svo sem ekki á óvart þó kostnaður við svokallaðan samgöngusáttála á höfuðborgarsvæðinu hækki. Þegar ætt er af stað í verkefni sem enginn veit í raun hvert er eða hvað mun kosta, eru áætlanir lítið annað en hugarburður. Oft settar fram eins lágar og mögulegt er, svo koma megi verkefninu í gang. Það er jú erfiðara að hætta við hafið verk en að byrja á nýju. Á þetta var bent af fjölmörgum aðilum, áður en ákvörðun um verkefnið var tekin, en ráðamenn þjóðarinnar hlustuðu ekki.

Samgöngusáttmálinn er að sjálfsögðu um það að koma á gamaldags borgarlínu um höfuðborgarsvæðið. Verkefni sem er algerlega ofvaxið sveitarfélögum á svæðinu og því nauðsynlegt að fá ríkissjóð að málinu. Til þess var sett einskonar framkvæmdabann á allar framkvæmdir varðandi þann hluta gatnakerfisins sem ríkið ber ábyrgð á. Þannig var hægt að nauðga ríkinu til að taka þátt í verkefninu, með loforði um að liðka skildi fyrir þeim framkvæmdum er taldar voru nauðsynlegar á stofnvegum svæðisins.

Kostnaður við áætlaðar framkvæmdir á stofnvegakerfinu á svæðinu er nokkuð ljós, þ.e. sá þáttur er snýr að ríkissjóð. Það sama verður þó ekki sagt um kostnað við borgarlínu. Því kemur á óvart að einn liður þeirra verkefna, sem nokkuð ljóst lá fyrir hvað kostaði, skuli hækka um allt að 15 milljarða króna, bara rétt sí svona. Ástæðan er þó skýr, það á að fórna mislægum gatnamótum fyrir stokk.

Bergþór Ólafsson kom í pontu Alþingis og taldi kostnað vegna sáttmálans vera kominn 50 milljarða yfir áætlun. Fljótlega kom Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna í fjölmiðla og sagði kostnaðinn "einungis" vera kominn 17 milljarða yfir áætlun. Þar munaði mestu um að í stað mislægra gatnamóta skyldi setja Sæbraut í stokk og að það hefði alltaf legið fyrir. Ég spyr nú eins og fávit, ef það lá alltaf fyrir, hvers vegna var stokkurinn þá ekki inni í upphaflegu áætlunum? Ef ein stök framkvæmd hoppar upp um 15 milljarða króna (15.000.000.000), hvað mun þá öll borgarlínan kosta? Er verið að búa til fordæmi? Heyrst hefur að sumum langi í neðanjarðarlestir. Lá það kannski fyrir frá upphafi líka?

Hvort kostnaður hefur hækkað um 50 milljarða eða 17 milljarða breytir ekki svo miklu. Hvoru tveggja hækkun um peninga sem ekki eru til. Hins vegar má fyllilega gera athugasemd þegar 0 hoppar upp í 17.000.000.000. Þar stendur hnífurinn í kúnni, eða öllu heldur vösum landsmanna, því þetta fé kemur jú úr þeim, með einum eða öðrum hætti.

Hvað sem öllu líður, þá er ljóst að ekki verður lengra haldið á þessari braut. Stofnun félagsins Betri samgangna voru mistök, vald þessa félags er allt of mikið og ljóst að framkvæmdastjóri þess hefur ekki hundsvit á peningum eða hvernig skuli með þá farið. Ég sagði áður að erfitt væri að hætta við hafið verk. Það er þó ekki útilokað og stundum nauðsynlegt. Þegar komið er út í kelduna og fyrir séð að hún er dýpri og verri en ætlað var, er snúið til baka, ekki ætt út í dauðann!


mbl.is Margra anga kolkrabbi sem þarf að beisla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna Ísland

Hvað veldur því að erlendir aðilar sækjast svo mjög eftir landi undir vindorkuver, hér á landi? Ekki er það vegna orkuverðsins, svo mikið er víst og varla verður það skýrt með hugmyndum um vetnis og rafeldsneytisverkmiðjur. Þær þurfa stöðuga orku, ekki raunhæft að keyra þær bara þegar vindur blæs. En hvað hangir þá á spýtunni? Hvers vegna að reisa hér vindorkuver í stórum stíl?

Þarna kemur einkum tvennt til, sæstrengur til meginlandsins og þannig tenging orkukerfis okkar inn á "alvöru" orkumarkað, markað sem er óseðjandi með háu orkuverði. Hitt atriðið vegur þó kannski þyngra, en það eru peningar. ESB hefur þegar eyrnamerkt mikla fjármuni sem styrki til vindorkuverkefna á Íslandi, eða um 3.2 milljörðum evra (um 500 milljörðum íslenskra króna). Það er því eftir miklu að slægjast og mikilvægt að komast framarlega í röð styrkumsækjenda. 

Eitt er þó alveg á hreinu, þessir aðilar eru ekki að hugsa um hag lands og þjóðar og enn síður um íslenska náttúru. Þeir eru ekki heldur með hugann við minnkun co2 í andrumslofti. Þeirra hugur liggur allur að því hvernig hægt er að græða sem mest á þessu brölti. Þegar í boði eru styrkir af þeirri gráðu sem okkur landsmönnum eru framandi og þegar ljóst er að mun auðveldara er að fá heimild til tengingar okkar orkukerfis við orkukerfið á meginlandinu, er Ísland að sjálfsögðu einn besti kostur sem þekkist, hér á vesturhveli jarðar. Auðvelt að snúa pólitíkusum um fingur sér að ekki sé nú talað um hversu lítið fjármagn þarf til að fá fjársvelta bændur og fjársvelt sveitarfélög á sitt band. Og ekki er verra þegar ráðherrar eiga lönd sem eru föl undir ósómann. 

Ætla ekki að tala um hreinleik vindorkuvera í þessum pistli en bendi á að vindorkuver flokkast nú í sama flokk og olíukynnt raforkuver. Gasorkuver er talið hreinna fyrir náttúruna en vindorkuver. Þar kemur margt til en þó er ekki rætt um örplastmengun vindtúrbína í þeirri flokkun.

Það er erfitt að sjá tilganginn í því að eyða hér stórum hluta náttúrunnar og upplifun af perlum hennar, í nafni loftlagsins. Að gera Ísland að ruslakistu í þeim tilgangi. Sér í lagi þegar nota á stórmengandi risastórar vindtúrbínur, í hundruðum talið, til þess verkefnis. Hver er þá hagurinn?

Ég er ekki með loftlagskvíða, einfaldlega vegna þess að hiti jarðar sveiflast upp og niður og ekkert sem við getum við því gert. Vonandi hlýnar eitthvað meira áður en kólna tekur á ný. Ég er hins vegar með kvíða yfir því hvernig við umgöngumst jörðina okkar. Þar má margt bæta. Samfara gífurlegri fólksfjölgun hefur sóðaskapur gagnvart jörðinni margfaldast og sóun á öllum sviðum mikil. Verr er þó að í nafni loftlagsins er verið að tæma ýmsar náttúruauðlindir sem eru af takmörkuðu magni til á jörðinni, hleypa út í andræumsloftið baneitruðu gasi sem er margfalt hættulegra en CO2 og sleppa gígatísku magni af örplasti út í náttúruna. Þeir sem það stunda reyna að telja okkur trú um að með því sé verið að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir, þegar í raunin er verið að sóa enn frekar auðlindum jarðar og sóða hana enn frekar, verið að vinna að því hörðum höndum að gera jörðina óbyggilega fyrir næstu aldamót.  

Hvenær ætlar skynsemin að vakna í höfðum stjórnmálamanna? Það hefur stundum heyrst að við sem berjumst gegn vindorkuverum, á þeim skala sem til stendur að byggja hér á landi, séum eins og Don Kíkóti. Það er þó ekki allskostar rétt. Sú sögupersóna barðist gegn vindmillum af því hann hélt þær vera riddarar óvinarins. Honum var lítt ágengt. Við berjumst gegn ofurvindorkuverum, af því þetta eru ofurvindorkuver. Þar er engin tálsýn. Hitt er kannski umhugsunarvert að meðan heimurinn er á heljarþröm, hugsa þjóðarleiðtogar heims um það eitt að berjast gegn byggingarefni alls lífs á jörðinni, CO2. Þar mætti hugsa sér að Don Kíkótar væru á ferð!


TF-SIF

Mikið er rætt um áætlaða sölu á einu flugvél Landhelgisgæslunnar og virðist sem ráðherra sé þar nokkuð einn á báti. Helstu rök hans fyrir sölunni er hversu lítið hún er notuð hér á landi, hafi að mestu verið í verktöku suður í höfum. Eitt er alveg víst, meðan vél er suður í höfum flýgur hún lítið hér við land, þannig að þar er kannski skýringin einfaldari en ráðherra telur.

Þegar farið var að leigja flugvél Landhelgisgæslunnar til landamæravörslu á Miðjarðarhafinu, urðu einnig miklar umræður um tilvist þessarar flugvélar og hvert skylduverkefni hennar væri. Rökin þá, fyrir þeirri leigu, voru að þannig skapaðist tekjulind af vélinni, tekjur sem kæmu fjársveltri Landhelgisgæslunni til góða. En nú skal þessi tekjulind tekin af stofnuninni, með einu pennastriki. Einnig skal með sama pennastriki skert varsla landhelginnar og viðbrögð við náttúruvá landsins. Þó vélin sé að mestu við Miðjarðarhafið tekur ekki nema örfáa klukkutíma að fljúga henni heim, sé þörf á. En auðvitað á hún ekki að þurfa að dveljast þar syðra, hún á alltaf að vera til taks hér á landi.

Tekjuvandi Landhelgisgæslunnar er eitthvað sem maður man alla tíð. Þó myndu flestir vilja að rekstur hennar yrði stór aukinn. Það er ekki bara landhelgin sem hún ver, það er ekki bara fiskiskipin sem treysta á hjálp frá henni, heldur fer ekki síður stór hluti af starfsemi Gæslunnar til leitar og björgunar á landi. Landhelgisgæslan er okkar öryggisnet þegar á bjátar. En til að svo megi vera með sóma, þarf aukið fjármagn og það segja stjórnmálamenn að sé ekki til.

Í síðustu fjárlögum var framlag til Gæslunnar aukið um heilar 600 milljónir og dugði ekki til. Þessi upphæð er reyndar hlægileg, þegar mið er tekið af því hvernig fjármunum er annars ráðstafað af stjórnvöldum. Sem dæmi hækkaði eitt verkefni um 50 milljarða, bara rétt sí svona. Það verkefni sneri þó ekki að björgun úr lífsháska, vörnum landsins eða viðbrögðum við náttúruvá, það verkefni er einungis til þess að borgarstjóri og Samfylking geti efnt sín kosningaloforð!


mbl.is „Mikilvægt að halda sannleikanum til haga“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Votlendissjóður - RIP

Þann 30. apríl 2018 tók Votlendissjóður formlega til starfa. Verndari sjóðsins var forseti Íslands. Nú er staða sjóðsins óræð, framkvæmdastjórinn rekinn og ekki víst hvort eða hvenær sjóðurinn getur tekið til starfa að nýju.

Á heimasíðu Votlendissjóðs segir að sjóðurinn sé sjálfseignastofnun, rekin á framlögum frá samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum. Þegar skoðað er hver þessi samfélagslegu ábyrgu fyrirtæki eru, samkvæmt sömu heimasíðu, sést að flest fyrirtækin sem þar eru nefnd, eru fyrirtæki sem geta sett þennan stuðning beint út í selda vöru eða þjónustu. Það eru því ekki þau fyrirtæki sem halda sjóðnum uppi, heldur þeir einstaklingar sem neyðast til að versla við þau.

En nóg um það. Hver er svo vandi sjóðsins í dag? Jú, honum hefur ekki enn tekist að fá vottun á sölu kolefnisbréfa. Þau fyrirtæki sem hingað til hafa talið sig vera að kaupa þar vottaða vöru, standa nú uppi með að hafa verið plötuð. Og auðvitað lendir sá kostnaður einnig á þeim einstaklingum er þurfa að versla við þau fyrirtæki. En hvers vegna hefur sjóðnum ekki tekist að fá slíka vottun, á tæplega fimm ára starfstíma sjóðsins? Ekki hefur vantað á yfirlýsingar frá sjóðnum um ágæti endurheimt votlendis. Þar hafa kannski yfirlýsingarnar verið nokkuð djarfar og jafnvel litast meira af óskhyggju en staðreyndum.

Þegar sjóðurinn hóf göngu sína vísuðu forsvarsmenn hans gjarnan til rannsókna, máli sínu til bóta. Þær rannsóknir hafa hins vegar ekki verið opinberaðar landsmönnum og þegar eftir er gengið er talað um erlendar rannsóknir og nú undir það síðasta vitnað til innlendrar rannsóknar frá áttunda áratug síðustu aldar. Ekki man ég til að mikið hafi verið spáð í losun á koltvístring úr jörðu á þeim tíma, en vel getur verið að einhver rannsókn hafi verið gerð þá. Út frá þessum "rannsóknum" öllum, hefur sjóðnum tekist að telja fólki trú um að losun á framræstu landi sé svo mikil að sennilega mætti rækta þar tómata yfir vetrartímann.

Framræsla lands hér á landi lauk að mestu í byrjun níunda áratug síðustu aldar, hafði reyndar dregið verulega úr henni nokkru fyrr. Frá þeim tíma hafa flestir skurðir, sem ekki eru umhverfis ræktarlönd og viðhaldið, gróið upp og margir orðnir uppfylltir. Skurðir í votlendi fyllst aftur af náttúrulegum ástæðum á ótrúlega skömmum tíma, meðan skurðir í vallendi standa eitthvað betur, þar er frekar að þeir grói og verði til frekar ljóstillífunar, þ.e. vinnslu á súrefni og föngunar kolefnis, úr andrúmsloftinu.  Áhrif losunar er því orðin hvervandi miðað við það sem var. Þá er stór hluti þessara skurða í vallendi, einungis hluti þeirra í votlendi. Það sýnir sig líka þegar skoðuð eru afrek Votlendissjóðs, þar sem reynt er með veikum mætti að breyta fornu valllendi í votlendi, með fyllingu skurða. Jafnvel hægt að sjá afrek sjóðsins við að reyna að breyta skriðum í votlendi. Þetta er eðlilegt, þar sem erfitt er oft á tíðum að nálgast uppfulla skurði í blautum mýrum til að fylla þá enn frekar. Valllendið er hentugra fyrir stór jarðvinnutæki, til að athafna sig.

En það er þó ekki svo að engar rannsóknir hafi farið fram hér á landi, um losun co2 úr landi. Slíka rannsókn gerði fræðingar við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, sumarið 2021. Niðurstaðan var sláandi, reyndar svo að þeir töldu bráð nauðsynlegt að gera enn frekari rannsóknir á þessu sviði. Í stuttu máli kom í ljós að tölur Votlendissjóðs voru ofáætlaðar um allt að  90%. Hvort þessi einstaka rannsókn sé fullkomlega rétt fæst ekki úr skorið fyrr en frekari rannsóknir hafa farið fram. Hitt er ljóst að ofáætlun Volendissjóðs er gífurleg, hvort heldur hún er 90% eða eitthvað minni. Kannski er það ástæða þess að sjóðnum hefur ekki tekist að fá vottun.

Þessi rannsókn var birt í Bændablaðinu, á sínum tíma. Eftir þá birtingu hefur ekkert til hennar spurst, né hafa frekari rannsóknir farið fram, eða a.m.k. þá mjög vel faldar. Svo vel tókst að fela þessa skömm  að jafnvel ráðherrar hafa ekki haft um hana hósta né stunu, sem er í raun stór merkilegt. Sér í lagi vegna þess að stór hluti losunar Íslands er talin koma frá landnytjum. En þar er auðvitað stuðst við sömu útreikninga og Votlendissjóður notar. Óskhyggjan færð fram fyrir raunveruleikann.

Ekki græt ég það þó Votlendissjóður gefi upp öndina. Ef einhver alvara er í því að minnka losun co2 út í andrúmsloftið er þeim peningum sem sjóðurinn hefur verið að leika sér með, betur varið annað. En auðvitað er sýndarmennskan þarna alráðandi.


mbl.is Ekki áfellisdómur yfir störfum framkvæmdastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EGO borgarstjórnar reynist landanum dýrkeypt

Íslenskir fjölmiðlar eru pólitískir í sínum störfum, um það verður ekki deilt. Sumir stjórnmálamen og stjórnmálaflokkar eiga hægara með að koma sínum málum á framfæri en aðrir, það á einnig við um ýmsa hópa í samfélaginu. Fréttamenn eru fljótir til að flytja hvaða vitleysu sem er, ef það kemur úr hálsi "réttra" manna og þegar sum málefni eru til umfjöllunar eru tilkallaðir "sérfræðingar" sem styrkja fréttir fjölmiðla. Aðrir stjórnmálamenn komast ekki að, jafnvel þó þeir komi fram með málefni sem rík þörf er fyrir þjóðina að fá fréttir af.

Síðastliðinn þriðjudag (31/1) steig þingmaður í pontu Alþingis og lagði spurningar fyrir innviðaráðherra. Þær spurningar sneru að borgarlínu og samgöngusáttmála Alþingis við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, um þá staðreynd að nú þegar hefðu áætlanir um þau verkefni hækkað um 50 milljarða króna og að einn einstakur liður þeirra hækkað úr 2,74 milljörðum upp í 17,72 milljarða, eða um 15 milljarða, Það gerir að sá einstaki liður áætlunarinnar hækkar um 650%. Enginn fjölmiðill, ekki einn einasti, hefur flutt fréttir af þessari umræðu á Alþingi, enda viðkomandi þingmaður ekki í náð fréttamiðla.

Um fyrirspurnina og fátækleg svör ráðherra má lesa í tenglum hér að neðan, en kannski það sem mest kom á óvart var að það virðist sem búið sé að færa fjárveitingarvaldið frá Alþingi yfir til Betri samgangna og einhvers stýrihóps sem í sitja ráðherrar og forsvarsmenn sveitarfélagana á svæðinu. Að sá hópur geti sóað fjármunum ríkissjóðs að eigin vild, án afskipta Alþingis. Sumir segja stjórnarskránna ónýta, en þar kemur þó skýrt fram að fjárveitingarvaldið liggur hjá Alþingi og engu fé megi eyða úr sjóðum ríkisins nema með samþykki þess.

Einhverjum kann að finnast þetta lítil frétt, sérstaklega vegna þess hver stingur á kýlinu. En þetta er engin smáfrétt. Fyrir utan þann augljósa sannleik að Vegagerðin er stórkostlega fjársvelt, getur ekki haldið við vegakerfinu um landið, svo börn sem keyrð eru til skóla vítt um landið mæta þangað ælandi eftir torfærur ferðarinnar, nefni sem dæmi Vatnsnesveg, þá er 50 milljarða hækkun borgarlínuverkefnis ekki nein smá upphæð. Munum að í fyrstu var talað um að kostnaður yrði um 70 milljarðar.

Það er ekki eins og ríkissjóður sé að springa undan peningum og ekki eru sveitarfélögin betur sett, sér í lagi sjálf höfuðborgin. Því verður að sækja þessa peninga með einhverjum hætti til landsmanna. Ef við gefum okkur að þessari upphæð yrði bara skipt jafnt á hvert mannsbarn í landinu, mun þessi kostnaðarauki þýða kostnað fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu upp á rúmlega hálfa milljón króna. Upphæðin yrði töluvert hærri ef einungis íbúar höfuðborgasvæðisins tækju hana á sig en það verður auðvitað ekki. Þetta eru ekki neinir smáaurar!

Þessi frétt á fullt erindi í fjölmiðla og þeir verða að hætta sínu dekri við pólitíkina. Fjölmiðlar eiga að flytja fréttir. Þar er auðvitað ruv sekast, þar sem sá fréttamiðill er í eigu landsmanna og rekinn fyrir fé sem hvert mannsbarn þarf að greiða, hvort sem vilji er til eða ekki. Aðrir fjölmiðlar eru reknir á öðrum grunni og kannski viðkvæmari fyrir þeirri hönd sem fæðir þá.

Hér má svo sjá umræðuna:

Fyrirspurn 

Svar ráðherra 

Svar við svari ráðherra


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband