Grunnhyggnir töframenn Viðreisnar

Þeir sem halda fram töfralausnum eru yfirleitt grunnhyggnir. Hagkerfi hvers ríkis er sérstakt og bundið við það ríki. Hvernig gengur að stjórna því kemur ekkert gjaldmiðli þess við. Hann getur hins vegar verið mælikvarði á stjórnun hagkerfisins, hafi ríki sinn eigin gjaldmiðil.

Lausn Viðreisnar felst í því einu að ganga í ESB og taka upp evru. Það er galdralausn þess stjórnmálaflokks. En jafnvel innan ESB er hvert ríki með sitt eigið hagkerfi, þó þau notist við sameiginlega mynt. Það sýnir sig líka að verðbólga innan þessara ríkja ESB er mismunandi, sumstaðar mun hærri en hér á landi, sé sama viðmið notað, en hér er mæling verðbólgu með öðrum hætti en innan ESB ríkja. Jafnvel þó notuð sé hin sér íslenska mæling verðbólgu, getum við talist á nokkuð góðu róli miðað við lönd ESB. Þá eru vaxtakjör innan ESB ríkja mismunandi, eftir því hvernig hagkerfi þeirra gengur. En þar sem þau ráða ekki hvert og eitt yfir gjaldmiðlinum, verður hagstjórnin erfiðari.

Því er fjarstæða að halda því fram að einhver töfralausn liggi í því að ganga í ESB og taka upp evru. Hagkerfið hér mun lítið breytast við slíka ráðstöfun og fráleitt að ætla að vaxtakjör breytist til batnaðar. Á fundi Efnahags og viðskiptanefndar Alþingis var seðlabankastjóri yfirheyrður. Þar kom meðal annar þetta fram:

Ásgeir tók hann einnig fram að ef Ísland væri með evr­una væri verðbólg­an hér­lend­is mun hærri og nefndi 7% hag­vöxt á síðasta ári og aukna at­vinnuþátt­töku sem dæmi um góðan ár­ang­ur. „Þú finn­ur ekki annað Evr­ópu­land í þess­ari stöðu“.

Reyndar er ótrúlegt að löggjafaþingið, sem á að stjórna hagkerfinu, skuli kalla þann embættismann fyrir nefnd sem þarf að þrífa skítinn upp eftir óstjórn stjórnvalda. Það fólk ætti að líta sér nær.  Það má vissulega deila um þau verkfæri sem seðlabankinn notar við þau þrif, ég fæ t.d. ekki séð hvernig slá megi á verðbólgu eða lántökur með því að hækka vexti á þegar teknum lánum. Varla fer fólk að skila þeim aftur í bankann.

Þingmenn Viðreisnar ættu kannski að átta sig á því að við búum á eyju langt frá öllum öðrum ríkjum. Það kostar að búa við slíkar aðstæður. Þó hugsanlega megi telja til einhvern kostnað við að halda eigin mynt, er sá kostnaður lítill á við annan kostnað við að búa afskekkt. Innganga í ESB og upptaka evru breytir ekki staðsetningu Íslands á hnettinum, þvert á móti má gera ráð fyrir að vandinn yrði enn stærri.

Grunnhyggnir töframenn leysa sjaldnast neinn vanda!


mbl.is Halda fast í „pínuoggulitla örmynt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. febrúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband