TF-SIF

Mikið er rætt um áætlaða sölu á einu flugvél Landhelgisgæslunnar og virðist sem ráðherra sé þar nokkuð einn á báti. Helstu rök hans fyrir sölunni er hversu lítið hún er notuð hér á landi, hafi að mestu verið í verktöku suður í höfum. Eitt er alveg víst, meðan vél er suður í höfum flýgur hún lítið hér við land, þannig að þar er kannski skýringin einfaldari en ráðherra telur.

Þegar farið var að leigja flugvél Landhelgisgæslunnar til landamæravörslu á Miðjarðarhafinu, urðu einnig miklar umræður um tilvist þessarar flugvélar og hvert skylduverkefni hennar væri. Rökin þá, fyrir þeirri leigu, voru að þannig skapaðist tekjulind af vélinni, tekjur sem kæmu fjársveltri Landhelgisgæslunni til góða. En nú skal þessi tekjulind tekin af stofnuninni, með einu pennastriki. Einnig skal með sama pennastriki skert varsla landhelginnar og viðbrögð við náttúruvá landsins. Þó vélin sé að mestu við Miðjarðarhafið tekur ekki nema örfáa klukkutíma að fljúga henni heim, sé þörf á. En auðvitað á hún ekki að þurfa að dveljast þar syðra, hún á alltaf að vera til taks hér á landi.

Tekjuvandi Landhelgisgæslunnar er eitthvað sem maður man alla tíð. Þó myndu flestir vilja að rekstur hennar yrði stór aukinn. Það er ekki bara landhelgin sem hún ver, það er ekki bara fiskiskipin sem treysta á hjálp frá henni, heldur fer ekki síður stór hluti af starfsemi Gæslunnar til leitar og björgunar á landi. Landhelgisgæslan er okkar öryggisnet þegar á bjátar. En til að svo megi vera með sóma, þarf aukið fjármagn og það segja stjórnmálamenn að sé ekki til.

Í síðustu fjárlögum var framlag til Gæslunnar aukið um heilar 600 milljónir og dugði ekki til. Þessi upphæð er reyndar hlægileg, þegar mið er tekið af því hvernig fjármunum er annars ráðstafað af stjórnvöldum. Sem dæmi hækkaði eitt verkefni um 50 milljarða, bara rétt sí svona. Það verkefni sneri þó ekki að björgun úr lífsháska, vörnum landsins eða viðbrögðum við náttúruvá, það verkefni er einungis til þess að borgarstjóri og Samfylking geti efnt sín kosningaloforð!


mbl.is „Mikilvægt að halda sannleikanum til haga“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Votlendissjóður - RIP

Þann 30. apríl 2018 tók Votlendissjóður formlega til starfa. Verndari sjóðsins var forseti Íslands. Nú er staða sjóðsins óræð, framkvæmdastjórinn rekinn og ekki víst hvort eða hvenær sjóðurinn getur tekið til starfa að nýju.

Á heimasíðu Votlendissjóðs segir að sjóðurinn sé sjálfseignastofnun, rekin á framlögum frá samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum. Þegar skoðað er hver þessi samfélagslegu ábyrgu fyrirtæki eru, samkvæmt sömu heimasíðu, sést að flest fyrirtækin sem þar eru nefnd, eru fyrirtæki sem geta sett þennan stuðning beint út í selda vöru eða þjónustu. Það eru því ekki þau fyrirtæki sem halda sjóðnum uppi, heldur þeir einstaklingar sem neyðast til að versla við þau.

En nóg um það. Hver er svo vandi sjóðsins í dag? Jú, honum hefur ekki enn tekist að fá vottun á sölu kolefnisbréfa. Þau fyrirtæki sem hingað til hafa talið sig vera að kaupa þar vottaða vöru, standa nú uppi með að hafa verið plötuð. Og auðvitað lendir sá kostnaður einnig á þeim einstaklingum er þurfa að versla við þau fyrirtæki. En hvers vegna hefur sjóðnum ekki tekist að fá slíka vottun, á tæplega fimm ára starfstíma sjóðsins? Ekki hefur vantað á yfirlýsingar frá sjóðnum um ágæti endurheimt votlendis. Þar hafa kannski yfirlýsingarnar verið nokkuð djarfar og jafnvel litast meira af óskhyggju en staðreyndum.

Þegar sjóðurinn hóf göngu sína vísuðu forsvarsmenn hans gjarnan til rannsókna, máli sínu til bóta. Þær rannsóknir hafa hins vegar ekki verið opinberaðar landsmönnum og þegar eftir er gengið er talað um erlendar rannsóknir og nú undir það síðasta vitnað til innlendrar rannsóknar frá áttunda áratug síðustu aldar. Ekki man ég til að mikið hafi verið spáð í losun á koltvístring úr jörðu á þeim tíma, en vel getur verið að einhver rannsókn hafi verið gerð þá. Út frá þessum "rannsóknum" öllum, hefur sjóðnum tekist að telja fólki trú um að losun á framræstu landi sé svo mikil að sennilega mætti rækta þar tómata yfir vetrartímann.

Framræsla lands hér á landi lauk að mestu í byrjun níunda áratug síðustu aldar, hafði reyndar dregið verulega úr henni nokkru fyrr. Frá þeim tíma hafa flestir skurðir, sem ekki eru umhverfis ræktarlönd og viðhaldið, gróið upp og margir orðnir uppfylltir. Skurðir í votlendi fyllst aftur af náttúrulegum ástæðum á ótrúlega skömmum tíma, meðan skurðir í vallendi standa eitthvað betur, þar er frekar að þeir grói og verði til frekar ljóstillífunar, þ.e. vinnslu á súrefni og föngunar kolefnis, úr andrúmsloftinu.  Áhrif losunar er því orðin hvervandi miðað við það sem var. Þá er stór hluti þessara skurða í vallendi, einungis hluti þeirra í votlendi. Það sýnir sig líka þegar skoðuð eru afrek Votlendissjóðs, þar sem reynt er með veikum mætti að breyta fornu valllendi í votlendi, með fyllingu skurða. Jafnvel hægt að sjá afrek sjóðsins við að reyna að breyta skriðum í votlendi. Þetta er eðlilegt, þar sem erfitt er oft á tíðum að nálgast uppfulla skurði í blautum mýrum til að fylla þá enn frekar. Valllendið er hentugra fyrir stór jarðvinnutæki, til að athafna sig.

En það er þó ekki svo að engar rannsóknir hafi farið fram hér á landi, um losun co2 úr landi. Slíka rannsókn gerði fræðingar við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, sumarið 2021. Niðurstaðan var sláandi, reyndar svo að þeir töldu bráð nauðsynlegt að gera enn frekari rannsóknir á þessu sviði. Í stuttu máli kom í ljós að tölur Votlendissjóðs voru ofáætlaðar um allt að  90%. Hvort þessi einstaka rannsókn sé fullkomlega rétt fæst ekki úr skorið fyrr en frekari rannsóknir hafa farið fram. Hitt er ljóst að ofáætlun Volendissjóðs er gífurleg, hvort heldur hún er 90% eða eitthvað minni. Kannski er það ástæða þess að sjóðnum hefur ekki tekist að fá vottun.

Þessi rannsókn var birt í Bændablaðinu, á sínum tíma. Eftir þá birtingu hefur ekkert til hennar spurst, né hafa frekari rannsóknir farið fram, eða a.m.k. þá mjög vel faldar. Svo vel tókst að fela þessa skömm  að jafnvel ráðherrar hafa ekki haft um hana hósta né stunu, sem er í raun stór merkilegt. Sér í lagi vegna þess að stór hluti losunar Íslands er talin koma frá landnytjum. En þar er auðvitað stuðst við sömu útreikninga og Votlendissjóður notar. Óskhyggjan færð fram fyrir raunveruleikann.

Ekki græt ég það þó Votlendissjóður gefi upp öndina. Ef einhver alvara er í því að minnka losun co2 út í andrúmsloftið er þeim peningum sem sjóðurinn hefur verið að leika sér með, betur varið annað. En auðvitað er sýndarmennskan þarna alráðandi.


mbl.is Ekki áfellisdómur yfir störfum framkvæmdastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. febrúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband