Að bera saman melónur og epli

Hvernig í ósköpunum ætlar umhverfis og samgöngunefnd Alþingis að draga lærdóm af Burnhead - Moss vindorkuverinu? Hvernig ætlar nefndin að nýta þann lærdóm til ákvörðunar um vindorkuver hér á landi.

Burnhead - Moss vindorkuverið saman stendur af 13 vindtúrbínum með uppsett afl hverrar þeirra um 2MW og hæð hverrar túrbínu um 126 metrar, miðað við spaða í toppstöðu.

Hér á landi eru áætlanir nokkuð stærri en þetta. Flestar hugmyndir hljóða upp á vindtúrbínur með um 6MW uppsett afl og hæð þeirra um og yfir 240 metrar, eða þrisvar sinnum öflugri og nærri helmingi hærri, hver vindtúrbína en þær sem reknar eru í Burnhead - Moss vindorkuverinu. Þá er fjöldi vindtúrbína í hverju vindorkuveri hér á landi, sjaldnast undir tuttugu og allt að 100 vindtúrbínum.

Það má alltaf blekkja fólk en þarna virðist umhverfis og samgöngunefnd helst vera að blekkja sjálfa sig. Ekki er hægt að trúa því að allt það fólk er hana skipa sé svona víðáttu heimskt!

Það er allra leiða leitað til að reyna að réttlæta það sem stjórnmálamenn virðast hafa lofað erlendum auðjöfrum, að gera Íslanda að einskonar villta vestri vindorkunnar. Fulltrúi Samorku flutti þjóðinni þann boðskap að ákvörðun um að fórna landi undir vindorkuver ætti að liggja hjá heimafólki, þ.e. landeigendum og sveitastjórnum. Að slíkt afsal náttúrunnar kæmi hvorki stjórnvöldum né þjóðinni við. Þetta er svo sem skiljanleg hugsun af þeirra hálfu. Það er auðveldara að bera smáaura á fátæka bændur og sveitastjórnir sem berjast alla daga í bökkum við að geta sinnt grunnþjónustunni. En þetta er þó svo brengluð hugsun, jafnvel þó hagsmunir kalli, að með ólíkindum er að þessi fulltrúi Samorku hafi látið hafa þetta eftir sér. Enn undarlegra er að hann stóð sperrtur þegar hann tilkynnti þetta og auðvitað datt blaðamanni ekki í hug að efast eða spyrja spurninga. Heimskulegast var er hann svo sagði að fjöldi vindtúrbína væri stórlega ýktar. Þær upplýsingar eru þó fengnar úr skýrslum sem tilvonandi vindorkuframleiðendur hafa kostað og sent til stjórnvalda. Varla eru þeir að kosta slíka skýrslugerð nema einhver alvara liggi að baki

Ráðherra orkumála er í klemmu, enda ber hann tvo hatta, annan fyrir málefni orkumála og hinn fyrir náttúruvernd. Þetta tvennt fer illa saman þegar talað er um vindorkuver. En hugur ráðherrans er skýr og þar er hann trúr sinni samfæringu. Hann sleppir að ræða náttúruna og sleppir að ræða orkuna. Hann heldur sig við peningana. Af veikum mætti nöldrar hann að fjármunirnir eigi að skila sér í "nærumhverfið". Ísland er nú ekki svo stórt að hægt sé að tala um eitthvað nærumhverfi, þegar náttúru þess er fórnað. En ráðherrann hugsar bara um peningana.

Sumir ráðherrar sem hafa beinan hag af því að vindorkuáformum verði komið á flot sem fyrst og náttúru landsins fórnað á altari Mammons. Umhverfis og samgöngunefnd ferðast á kostnað okkar til erlendra landa til að skoða vindorkuver. Hver það var sem skipulagði þá ferð hefur greinilega valið vel fyrir sinn ráðherra og annan, valið lítið og sætt vindorkuver í Skotlandi, með fáum og litlum vindtúrbínum. Það sést hvert plottið er.

Við umhverfis og samgöngunefnd get ég einungis sagt þetta: Ekki bera saman melónur við epli, berið saman melónu við melónu. Opnið á rökhugsunina. Þá getið þið sest niður og tekið ákvörðun um framhaldið og varið hina einstöku náttúru sem okkur er treyst til að vernda. Þið eruð jú fulltrúar náttúru landsins á Alþingi, ekki satt?


mbl.is Hjálpar okkur í vinnunni um vindorkuna sem er fram undan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

 Hvar er samsvarandi vindorkuver? Gaman væri að fá að sjá myndir og umræðu frá báðum aðilum, með og á móti. 

Egilsstaðir, 31.01.2023   Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 31.1.2023 kl. 14:43

2 Smámynd: Rúnar Már Bragason

Skömmin er nú meiri en þú setur réttilega upp í blogginu, af viðtalinu við Gulla og við nefndina. Í hvorugu viðtalinu er talað um dreifikerfið og hvernig á að byggja það upp til að geta tekið við orkunni. Sem var ekki heldur nefnt í viðtalinu er að í Skotlandi þá hefur dreifikerfið ekki byggst upp á sama hraða og þar er vindmylluverum borgað fyrir að stoppa þar sem dreifikerfið getur ekki tekið við orkunni, á kostnað skattgreiðenda, en geta áfram rukkað fyrir orkuna. Sem á mannamáli þýðir að neytendur borga tvöfalt fyrir orkuna.

Vindmyllur eru skandall í alla staði.

Rúnar Már Bragason, 31.1.2023 kl. 14:59

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Jónas

Hef reyndar ekki fundið nein staðar vindorkuver á sama stærðargrunni og ætlað er að byggja á Fljótsdalsheiðinni. Þar er gert ráð fyrir uppsettu afli um 500MW, meðan þetta skoska hefur aflgetu upp á 26MW. 

Fyrir utan vindorkuverið fyrir austan eru hins vegar fjöldi annarra vindorkuvera í deiglunni. Þau eru flest kringum 100MW uppsett afl, sum eitthvað minni en önnur stærri. Ekkert þeirra er þó jafn lítið og það skoska. 

Það er stærðin, umfangið, fjöldi og hæð vindtúrbína sem skiptir máli. Hvort nefndin eigi einhverja möguleika á að kynnast einhverju viðlíka því er áætlanir hljóða uppá, þarna eystra, veit ég bara ekki. Það þekkist alla vega hvergi í hinum siðaða heimi.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 31.1.2023 kl. 16:02

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Jamm og jæja Gunnar.

Kannski vitum við lítt um morgundaginn, og ef við lítum fram í tímann, þá er eins og skítseyði auðsins fái alltaf stærra svigrúm fyrir óhæfuverk sín.

Enda vísandi í lög og reglur út og suður.

Þú stendur vaktina Gunnar, en það standa reyndar fleiri vaktina þannig séð.

Til dæmis þeir sem snúast gegn hinu Frjálsa flæði um lægstu laun sem er geirneglt í samþykktir Evrópusambandsins.

Á einhverjum tímapunkti þurfum við að sameinast.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 31.1.2023 kl. 16:02

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Ómar

Baráttan gegn vindorkuverum og vernd náttúrunnar er ekki flokkspólitískt mál, þó sumir ráðherrar ruglist í rýminu. Þar má kannski frekar telja að viðkomandi ráðherrar hafi hagsmuna að gæta, nú eða hitt, sem er líklegra, að þegar sé búið að lofa upp í ermi sér. Þriðji möguleikinn er sá að menn séu að átta sig á skaðsemi samþykktar þriðja orkupakkans og að samkvæmt honum standi stjórnvöld vægast sagt á bjargbrúninni í þessu máli.

Ítreka að þetta er ekki flokkpólitískt málefni. Sem dæmi þá hefur einungis verið haldnir þrír fundir gegn þessum áformum hér í Borgarfirðinum. Þeir fundir voru allir skipulagðir af hörðustu Sjálfstæðismönnum þessa lands í dag og frummælendur voru frá öllum flokkum, m.a. hin skelegga Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur með meiru.

Þegar svo stórt mál er undir, skiptir hvorki kyn né stétt máli, þarna þurfa allir sem unna landinu að koma að borðum, hvar í flokki sem þeir eru. Ég vona að þú sért okkar megin í þeirri baráttu.

Að rugla saman dægurmálum eins og verkalýðsbaráttu, við þá baráttu að halda landinu byggilegu, er ekki rétt. Þar er ég þó alls ekki að gera lítið úr verkalýðsstéttinni, enda einn þeirra sem stóð þar í víglínu á árum áður. Einungis að benda á að ef baráttan gegn vindorkuverum tapast mun landið verða nær óbyggilegt og önnur málefni þá einskisverð. Það skýri ég með þeirri einföldu staðreynd að eini markaðurinn sem þessi vindorkuver geta selt sína orku til, án þess að tapa á sölunni, er til meginlands Evrópu. Til þess þarf sæstreng og um leið og hann hefur verið lagður, mun orkustefna ESB taka að fullu gildi hér á landi, með margföldun orkuverðs og flótta flestra fyrirtækja úr landi.

Þetta er staðan minn kæri. Þetta sjá og vita allir sem hugsa, hvar í flokki sem þeir eru.

Kveðja af Skaganum

Gunnar Heiðarsson, 1.2.2023 kl. 08:10

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Gunnar og takk fyrir gott og gagnlegt svar.

Ég var nú svona meir að benda á öll þessi mæða og angur væri kannski af sömu rótinni sem kennd er við Frjálst flæði, og þeir sem verða fyrir barðinu á því, hvað sem þeir eru annars að bardúsa, ættu að íhuga að sameinast gegn því og losa sig við þennan andskota í eitt skipti fyrir öll.

Þá verði meiri friðurinn en hitt við að sinna börnum og búi og hlúa að landi og þjóð, jafnvel menn fari að nýta landsins gæði í sæmilegri sátt við hvorn annan.

En ég læka alltaf öll mótmæli gegn Klausturselsvirkjun sem dúkka upp hjá mér á feisbók, það er ekki málið.

Svo ég segi bara, gangi ykkur vel að verja landið okkar.

Kveðja vestur að austan.

Ómar Geirsson, 1.2.2023 kl. 08:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband