Blekkingar á blekkingar ofan
27.9.2022 | 18:00
Það er einkenni þeirra er mest aðhyllast vindorkuver á Íslandi að blekkja fólk. Lítið er gert úr neikvæðum áhrifum slíkra virkjana en mikið gert úr því sem telst til kosta. Þar eru jafnvel stundaðar loftfimleikar sem ekki hafa áður þekkst.
Þetta sést vel þegar kynningarefni og skýrslur þessara fyrirtækja til opinberra aðila er skoðað og einnig í því efni sem fjölmiðlum er fært. Þar er ætíð gert lítið úr stærð vindmillana, ýmist með því að setja vísvitandi rangar stærðir miðað við umhverfið inn á myndir, eða með því að mynda vindmillur úr mikilli hæð þannig þær virki minni. Flestir ættu að þekkja myndina sem svo oft er sýnd í fjölmiðlum, þar sem vindmilla er sett við hlið Hallgrímskirkjuturns. Þar er vindmillan ca. helmingi hærri en turninn, þó staðreyndin sé að þær hugmyndir um vindmillur hér á landi séu flestar upp á hæð sem er vel yfir þrefalda hæð Hallgrímskirkju. Gjarnan eru sýndar myndir erlendis frá og þá gjarnan notað myndefni af litlum vindmillum.
Vitað er að nokkur hávaði er frá vindmillum, en þó halda forsvarsmenn þeirra erlendu aðila er hér vilja reisa slík mannvirki, að ekki heyrist hærra í vindmillum en í ísskáp! Um lágtíðnihljóð vilja þessir aðilar ekki kannast. Þó sannað sé að það valdi verulegum skaða.
Fugladráp er vel þekktur vandi vindmilla. Hér hefur vindbarónum tekist að skauta með öllu framhjá þeim vanda, jafnvel svo að heimild virðist vera að myndast fyrir byggingu fjölda vindmilla í grennd við þekkt varpsvæði hafarna og á mörkum friðlanda.
Þegar svo kemur að telja upp kostina vantar ekki gorgeirinn í vindbarónana. Það er auðvitað erfitt fyrir lítt menntaðan mann að efast um reikniaðferðir fyrrverandi rektors við einn af háskólum landsins. En vissulega verður sú aðferðafræði sem hann beitir að teljast nýlunda, þegar hann er að finna út fjárhagslegan hagnað af byggingu vindmilla. En jafnvel þó ég hafi ekki burði til að efast um aðferðafræðina við þennan útreikning, leifi ég mér sannarlega að efast um forsendurnar sem hann færir inn í þá aðferðafræði sína. Í stuttu máli, samkvæmt eigin sögn rektorsins, fjallar aðferðafræðin út á það að taka eitt af stóriðjufyrirtækjum landsins, hversu mikla orku það notar og deila í hana með fjölda starfsmanna þess. Niðurstaðan er síðan margfölduð með hámarksorkugetu vindorkuveranna. Þarna ætla ég ekki að efast um fyrripart aðferðafræðinnar, enda hún fundin upp af háskólarektor. Síðari hlutinn er hins vegar gagnrýniverður. Hámarksorkugeta vindorkuvera er langt frá orkuframleiðslugetu þeirra. Þetta er auðvitað ekki nein ný staðreynd, enda vindmillur verið í rekstri bæði hér á landi og erlendis um nokkuð langt skeið. Orkuframleiðsla vindorkuvera þykir nokkuð góð ef hún fer yfir 35% af hámarksorkugetu þeirra. Reikna má með að hún geti orðið eitthvað betri hér á landi, meðan vindmillur eru nýjar og lítil bilanatíðni. Gefum okkur að hún gæti orðið allt að 50%, sem er auðvitað nokkur bjartsýni.
Út frá þessum forsendum sínum komst fyrrverandi rektorinn að því, í útreikningum fyrir hóp vindbaróna sem kalla sig Vestanvindur, að heildartekjur af vindorkuverum þess hóps á Vesturlandi, fyrir samfélagið, gæti orðið 22 milljarða króna á rekstrartíma orkuveranna. Þ.e. tæpar 900 milljónir á ári. Þar af eiga sveitarfélögin að skipta með sér 300 milljónum á ári. Stór hluti þessara tekna er í formi útsvars allra þeirra sem munu fá vinnu vegna vindorkuveranna. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Ef forsendur rektorsins eru notaðar varðandi fjölda starfa sem mun fást, en seinni hluti aðferðarfræði rektorsins leiðrétt miðað við hugsanlega raunorkuframleiðslu þessara vindorkuvera, þá fækkar fjöldi starfa um helming og tekjum sveitarfélaga einnig. Heildartekjur samfélagsins hljóta einnig að minnka samsvarandi. Þá er niðurstaðan kannski að heildartekjur á hverju rekstrarári vindorkuveranna á Vesturlandi gefi samfélaginu einungis 450 milljónir og af því fái sveitarfélögin að bítast um 150 milljónir. Reyndar, eins og kemur fram í síðasta pistli, þá er ljóst að tekjur sveitarfélaga verður mun minni, þar sem ekki er um að ræða neina atvinnuuppbyggingu í þeim sveitum er vindurinn skal beislaður og hálaunastörfin sem verða til við stýringu veranna verða öll á höfuðborgarsvæðinu. Sum sveitarfélög fá því ansi litlar tekjur meðan önnur fá eitthvað aðeins meira. Jafnvel má búast við að töluverðar tekjur falli til sveitarfélaga utan Vesturlands. Hitt er ljóst að mörg þessara sveitarfélaga munu verða af öðrum tekjum, sem eru í hendi í dag. Þar er nærtækast að nefna ferðaþjónustuna, en einnig má gera ráð fyrir að landbúnaður skerðist verulega í grennd við vindorkuverin. Það leiðir aftur til þess að samfélögin bæklast og fasteignaverð hrynur, með tilheyrandi tekjufalli sveitarfélaga.
Eina atvinnuuppbyggingin sem þessi hópur nefnir er bygging vetnisverkmiðju á Grundartanga, þar sem ætlunin væri að framleiða m.a. flugvélaeldsneyti. Þessi áform er skammt á veg komin og líklegast notuð til að greiða leið fyrir leifum fyrir vindorkuverum. Þetta rímar vel við loftlagsáform ríkisstjórnarinnar og á það spila þessir menn. Loftlagsáform stjórnvalda eru óspart notuð til að rökstyðja bygginu vindorkuvera. Staðreyndin er sú að samkvæmt þeim áformum stjórnvalda þarf vissulega að auka orkuframleiðslu í landinu. Samkvæmt rammaáætlun eru nægir kostir til vatns eða gufu virkjana, til að uppfylla þá þörf. Jafnvel einnig til að framleiða hér eldsneyti úr vetni í stórum stíl, þegar hagkvæmni þess verður viðunandi.
Vatnsorkan kallar vissulega á að land fer undir miðlunarlón og ár geta breyst. Stundum til hins verra en einnig til betri vegar. Auðvitað er sárt að sökkva landi, en það er þó mun minni skemmd fyrir náttúruna en fjöldi vindorkuvera. Mun meira land þarf undir vindorkuver en vatnsorku, til framleiðslu sama magns af orku, að ekki sé nú talað um rekstraröryggið. Líftími vindorkuvera er sagður 25 ár, fer þó eftir því hvort menn eru tilbúnir að endurnýja spaðana á þeim tíma. Líftími vatnsorkuvers er meira en mannsaldur.
Að lokum aðeins um hæð vindmilla, þ.e. þeirra sem áformað er að byggja vítt og breytt um okkar fagra land. Við hér á Skaganum þekkjum vel skorsteininn, sem felldur var fyrir nokkrum árum. Ein vindmilla er eins og þrír skorsteinar hver ofaná öðrum og þar ofaná þarf að bæta við 7 gámum, upp á endann, hvern ofaná annan!
Ísland verði hluti af orkubrú | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 18:08 | Facebook
Athugasemdir
Vitað er hvað þetta kostar, og kostanðurinn er langt umfram afköst.
Þetta vita til dæmis Þjóðverjar mjög vel á eigin skinni.
Ásgrímur Hartmannsson, 27.9.2022 kl. 18:46
Ef rektorinn er sá sem mig grunar, þá er voðinn vís, hann er búinn að vera skattgreiðendum dýr.
Minnist vestanvindhaninn eitthvað á hagkvæmnina af vindmyllunum í Þykkvabænum þegar hann kynnir málið?
Magnús Sigurðsson, 27.9.2022 kl. 18:55
Reyndar bárust þær örlítið í tal í messunni, Magnús. Núverandi eigandi þeirra er nefnilega franska fyrirtækið Qair, en málpípa þess hér á landi, ekki minni maður en Tryggvi Herbertsson, var einn prestanna. Hann gat "glatt" okkur með því að nú ætlaði fyrirtækið að reisa þar enn stærri vindmillur.
Á ekki Tryggvi annars einhverjar rætur að rekja þarna austur til ykkar? Kannski vitleysa hjá mér.
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 27.9.2022 kl. 19:48
Tryggvi er Austfirðingur, úr Litlu-Moskvu, á núna að ég held sumarhús í Mjóafirði.
Ég hjó eftir því einhversstaðar að talsmenn þessara erlendu öðlinga ætluðu að leifa íslenskum fjárfestum að koma að uppbyggingunni og þá væri þetta vænlegur kostur fyrir lífeyrissjóðina.
Talaði Tryggvi eitthvað um það hvort enn stærri vindmyllur kæmu betur út fyrir lífeyrissjóðina eftir gjaldþrotið í Þykkvabænum?
Magnús Sigurðsson, 27.9.2022 kl. 21:01
Nei Magnús, hann forðaðist að nefna hversu stór gjaldþrotin verða. Fer væntanlega eftir því hvort þeir komi orkunni á góða markaðinn á meginlandinu eða hvort þeir verði að láta mörlandann duga.
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 27.9.2022 kl. 21:33
Sjálfur var ég of ungur til að fylgjast með fundarherferð um að koma kvótakerfi á við fiskveiðar. Eftir því sem ég hef lesið um það og þessar kynningar á vindmyllum þá finnst mér sami tónninn. Fagurgalinn um að allt verði svo æðislegt og skili svo miklum tekjum nema ekkert talað um vankantana. Tilkoma kvótakerfisins skyldi byggðir víða um land eftir í rúst og mig grunar sterklega að þessir vindmyllugarðar muni gera það sama. Líkt og þú bendir á að fá störf og óljóst að skatttekjur skili sér nógu vel.
Rúnar Már Bragason, 28.9.2022 kl. 12:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.