Hvað getum við gert?
1.4.2021 | 10:08
Hvað getum við gert? er nafn á þætti sem sýndur var á ruv fyrir skemmstu. Sjálfur horfði ég ekki á þáttinn er hann var sýndur, en vegna líflegrar umræðu um hann á samfélagsmiðlum lét ég mig hafa það að horfa á hann.
Þar kemur ýmislegt á óvart og framsetning þáttastjórnanda með þeim hætti að vart verður annað séð en að um áróðursþátt sé að ræða. Þar fær hann til viðtals mann sem stjórnandinn kallar "helsta jarðvegsfræðing á Norðurlöndum" Ólaf Arndals. Væntanlega eru frá honum komin öll fræði sem stjórnandinn taldi sér. Þó má telja þáttastjórnanda til tekna er hann opnaði þáttinn, að eftir að hann var búinn að nefna manninn og sauðkindina, sem helsta sökudólg Íslands, taldi hann einnig upp eldgos og veðurfar. Það var reyndar í eina skiptið í öllum þættinum sem þau atriði komu fram. Og fljótlega var maðurinn einnig dreginn út úr dæminu, þannig að blessuð sauðkindin stóð ein eftir sem sökudólgur.
Fljótlega kom fram að á 45% lands er lítill sem enginn gróður, á 30% lands er gróður illa farinn og mikil rofabörð og að einungis 25% lands er vel gróið. Skilgreiningin á hálendi er 200 metrar yfir sjó og um 76% landsins liggur ofan þeirrar línu. 10% lands liggur undir jöklum og svo mætti lengi telja. Þó er ljóst að sú tafla sem sýnd var í þættinum um gróðurfar getur vart staðist, þar sem vitað er að heiðarlönd eru víða grasi gróin með þéttri jarðvegsþekju.
Hins vegar er ljóst að á hluta landsins er lítill gróður og einnig sýna rofabörð að jarðvegsþekja hefur á sumum svæðum fokið á brott. Þetta má ekki vanmeta og víða sem bændum í samstarfi við landgræðsluna, hefur tekist að snúa þeirri þróun við. En með vilja er enn hægt að finna rofabörð og með yfirlegu má ná þar myndum að einstaka kind skýla sér undir þeim.
En hvað veldur? Þáttur mannsins er sjálfsagt einhver og jafnvel má segja að sauðkindin hafi svo sem ekki hjálpað til. En kenna þeim alla sökina er fráleitt. Þar eru þau öfl sem þáttastjórnandi impraði á í opnun þáttarins, veður og eldgos helsti orsakavaldur.
Fyrir það fyrsta var mannfjöldi og fjöldi sauðfjár í landinu svo lítill að útilokað er að þeir þættir hafi verið örlagavaldur. Það er ekki fyrr en á tuttugustu öld sem fólki fer að fjölga í landinu og sauðfé samhliða. Fram til þess tíma var fjöldi fólks og fjár hverfandi. Enn er fólki að fjölga en hámarki fjölda sauðfjár náðist um 1980, um 800.000. Síðan þá hefur því fækkað niður í um 400.000 fjár.
Nú er farið að rækta eikarskóga á Íslandi. Við landnám er talið að landið hafi verið vaxið trjám milli fjalls og fjöru. Hvort það er rétt skal ósagt látið, en vitað er að eikarskógar uxu hér á landi á þeim tíma, enda tíðarfar mun betra en nú og þó stutt kuldatímabil hafi orðið á jörðinni á fyrstu öldum okkar tímatals, hafði verið enn hlýrra í margar aldir þar á undan og því alls ekki ótrúlegt að eikur hafi lifað af það stutta kuldatímabil. Sá síðasti þessara skóga lét undan síga í lok átjándu aldar, i kjölfar Skaftárelda. Til eru ritaðar heimildir sem lýsa því hvernig síðasti eikarskógurinn hvarf, nánast á einni nóttu, eftir að gös frá gosinu lögðust yfir hann.
Eldgos eru sennilega stærsti orsakavaldur landeyðingar á Íslandi, enda bæði mörg og sum mikil frá landnámi. Þessum gosum fylgir bæði aska og gös, sem eru skeinuhætt gróðri. Samhliða mikið kólnandi veðri var nánast útilokað fyrir gróður að ná sér upp aftur. Þetta sést auðvitað best á því að það land sem enn á erfitt uppdráttar, þrátt fyrir hlýnun, er það land sem er á gosbeltinu þvert yfir landið. Utan þess er gróður mjög góður og jarðþekja með ágætum. Þó hafa stærri tré ekki náð sér á strik nema með hjálp mannsins og líklegt að nú þegar sé maðurinn búinn að gróðursetja fleiri tré en landnemar hjuggu í eldivið.
Varðandi losun kolefnis í andrúmsloftið þá fór jarðvegfræðingurinn heimskunni nokkuð frjálslega með sitt mál. Staðreyndin er að tiltölulega litlar rannsóknir eru til hér á landi um slíka losun og þær fáu sem gerðar hafa verið þarf að lesa með sérstökum gleraugum til að fullyrðing fræðingsins standist. Því er notast við erlendar rannsóknir og þær heimfærðar á fósturjörðina okkar. Slíkt er óhæfa, enda jarðvegur hér ekki í neinum skilningi líkur þeim jarðvegi er þekkist erlendis. Jarðvegur á Íslandi er mun steinefnaríkari, vegna þrálátra eldgosa og öskufalls, en steinefnaríkur jarðvegur losar mun minna co2 en mó og mýra jarðvegur. Þá er vitað að berir melar losa lítið eða ekkert af co2 í andrúmsloftið, en eins og áður sagði telur fræðingurinn að allt að 75% landsins sé nánast melur einn.
Hins vegar er rétt að sauðkindin losar co2, rétt eins og allar skepnur og það er einnig rétt sem stjórnandinn sagði, þegar hann hélt á tveim fallegum lambalærum, að misjafnt getur verið hvað mikil slík losun er, eftir því hvar þeim er beitt. Því er rétt að það eru svæði á landinu sem eru viðkvæm, eins og ég nefndi áður. Nú þegar er hafin stýring á beit á viðkvæmum svæðum, samhliða endurbótum á landi. Þetta er gert í samstarfi nokkurra aðila og eru bændur kannski fremstir í þeirri samvinnu. Hversu mikil losun co2 er frá bústofni er svo spurning, enda engar rannsóknir til um það heldur hér á landi. Þarna er því um áætlaðar tölur að ræða og ekki séð að erlendar rannsóknir séu sóttar til þeirrar áætlunar. Niðurstaðan er því að íslenskur bústofn, hvaða nafni sem hann nefnist, er sagður losa mun meira af co2 út í andrúmsloftið en sambærilegur bústofna annarsstaðar. Hvað veldur er erfitt að segja til um.
Við erum aðilar að samstarfi þjóðanna um losun á co2 út í andrúmsloftið. Því er gríðarlega mikilvægt að allar tölur séu réttar og byggðar á rannsóknum, miklum rannsóknum. Þetta á bæði við um losun sem og endurheimt. Það kemur að skuldadögum hjá okkur, skuldadögum í orðsins fyllstu merkingu. Þá þurfum við að greiða fyrir syndir okkar, með grjóthörðum peningum. Áætlanir um losun verða látnar standa, sér í lagi þegar séð er að okkar áætlanir gera meira úr henni en efni standa til. Hins vegar verður endurheimt tortryggð og engar tölur þar teknar gildar nema með grjóthörðum niðurstöðum rannsókna.
Landbúnaður hér á landi hefur legið undir miklum árásum og nánast sama hvar drepið er niður fæti í þeim málum. Það er ekki bara að landbúnaður sé búinn að eyða landinu eða losa mest allra atvinnugreina af co2, heldur virðist landbúnaður eiga sök á flestu sem miður fer. Í þessum árásum fara fremstir ákveðnir hagsmunahópar sem hafa greiðann aðgang að fjölmiðlum, stjórnmálafólki og embættiskerfinu.
Bændur verða að taka sig á, þeir verða að verjast. Það gengur ekki að láta ákveðna hagsmunahópa stjórna umræðunni um landbúnaðarmál. Það gengur ekki að láta ákveðna hagsmunahópa ná yfirráðum yfir stjórnmálamönnum. Það gengur ekki að ákveðnir hagsmunahópar ráði embættismannakerfinu. Það er auðvelt að verja íslenskan landbúnað og næg rök til, en til þess þarf sterka málssvara. Menn sem svar strax öllu bulli og krefjast þess að umræðan sé rökræn!
Hvað hafa bændur gert? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Lífstíll, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 10:15 | Facebook
Athugasemdir
það er átakanlegt að horfa á áróðursþætti um landeyðingu af völdum sauðkindarinnar sem er ævinlega gerð að sökudólgi nr 1.Ég sá ekki þáttinn sem þú vitnar í en hef svo oft hlustað og lesið um sama efni-rétt si svona greinilega ætlað að troða því í hausinn á landanum.
Það var ekki í gær,þótt mér finnist svo ósköp stutt síðan að ég vann í landgræðslunni í Gunnarsholti sem Runólfur heitinn Sveinsson stýrði lærður og áhugasamur við að græða upp landið. Minnir að þeir bræður(Páll) hafi gælt við að sá öðrum tegundum og sjá hvernig þær plummuði sig.
Nú er á minningin komin. Takk fyrir
Helga Kristjánsdóttir, 1.4.2021 kl. 23:03
Sæl Helga
Þú ættir endilega að horfa á þennan þátt. Hér er linkur á hann: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/hvad-getum-vid-gert/30574/93ie78
Gunnar Heiðarsson, 2.4.2021 kl. 07:11
Ein af rökvillum þeirra sem halda fram sök sauðkindarinnar, er að hálendið sé uppblásið vegna hennar. Það sé vegna þess að hún haldi niðri skógarvexti og því nái grösin ekki að verjast uppblæstrinum af völdum eldgosanna eins og fyrir landnám.
Vandinn við þessa kenningu er sá að á stórum hluta hálendisins hefur aldrei vaxið skógur.
Afréttur Hrunamanna hefur skv. rannsóknum líffræðngsins Sigurðar Magnússonar, verið í gróðurfarslegri framför síðustu áratugi þrátt fyrir að þangað sé rekið fé.
Grun hef ég um að á þeim tíma hafi verið þyngri beit en á fyrri öldum þegar ær voru að jafnaði einlemdar og aðeins lömb og sauðir voru rekin á fjall en ekki ærnar.
Auðvitað er kuldinn megin orsök uppblásturs á Íslandi og þá sérstaklega á hálendinu. Sauðfjárbeit bætir svo síst úr a.m.k. þar sem jarðvegur er laus í sér og því var mikilvægt að friða fyrir beit víða þar sem græða skyldi upp.
Þó má benda á tilraunir í Gunnarsholti á miðri síðustu öld þar sem melar voru græddir upp ásamt því að beita þá en þar var skíturinn úr nautgripum nýttur til uppgræðslunnar.
Bjarni G. Bjarnason (IP-tala skráð) 2.4.2021 kl. 08:18
Sæll Gunnar, ég uppskar eftirfarandi: Afsakið villuna því miður er þessi slóð;hvað-getum-við-gert,ekki aðgengileg! (Ísland í dag.)
Helga Kristjánsdóttir, 2.4.2021 kl. 14:11
Veit ekki hvað veldur, Helga. Virkar þó hjá mér. Einnig getur þú farið á heimasíðu ruv og fundið þáttinn þar.
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 2.4.2021 kl. 23:10
Ok takk.
Helga Kristjánsdóttir, 3.4.2021 kl. 05:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.