Hvers vegna?

Fjölmiðlar hafa verið duglegir að fjalla um nýjar sótvarnarreglur, þar sem hverjum þeim er kemur til landsins frá svokölluðum eldrauðum löndum er skylt að dvelja á hóteli fyrstu fimm dagana eftir komu til landsins. Mest hefur farið fyrir umræðu þeirra er telja þetta lögbrot, minna sagt frá sjónarmiðum hinna, sem vilja fá að lifa sem næst eðlilegu lífi hér innanlands.

Í þessari umræðu er gjarnan talað um frelsissviptingu. Hver er sú svipting? Í meðfylgjandi frétt kemur fram að starfsfólk sóttvarnarhótelsins geti ekki og megi ekki stöðva för þeirra sem út vilja ganga. Hins vegar mun slíkt verða tilkynnt til lögreglu. Því er vart um frelsissviptingu að ræða.

Um nokkurt skeið hafa verið reglur um sóttkví við komuna til landsins, en fólki treyst til að halda hana. Því miður hefur fólk ekki staðið undir því trausti og því er komið sem komið er. Þá vaknar óneitanlega upp sú spurning hvort það fólk sem telur sig vera haldið nauðugu, tilheyri þá ekki einmitt þeim hóp sem brást trausti sóttvarnaryfirvalda, að það hafi bara alls ekki ætlað að halda þá sóttkví sem þó var til staðar þegar það yfirgaf landið.

Réttur fólks til að tjá sig er auðvitað óumdeildur. Fjölmiðlar ættu hins vegar að gæta þess að flytja mál beggja aðila, líka þeirra sem telja ekki nægjanlega langt gengið. Sumir þingmenn hafa farið mikinn og einstaka lögfræðingar bakka þá upp, í frasanum um að um lögbrot sé að ræða, jafnvel brot á stjórnarskrá. Þegar heimsfaraldur geisar ber sóttvarnalækni að leiðbeina stjórnvöldum um varnir landsins, til að lágmarka smit hér innanlands. Stjórnvöldum ber eftir bestu getu að verja landsmenn. Til þess eru sóttvarnarlög. Nú þekki ég ekki þann lagabálk til hlítar, en til að hann virki hlýtur hann að vera ansi sterkur og jafnvel fara á svig við önnur lög landsins. Þá hljóta sóttvarnarlög að vera sterkari. Annars væri lítið gagn af þeim.

Réttur landsmanna til að veirunni sé haldið utan landsteinanna eftir bestu getu er að engu gerður hjá þeim sem taka hanskann upp fyrir þeim sem telja sóttvarnir óþarfar, eða of miklar. Sá réttur, bæði lagalegur og stjórnarskrárlegur, hlýtur að vega meira en þeirra sem velja að ferðast um heiminn á tímum heimsfaraldrar. Þeir sem velja slík ferðalög eiga að gjalda fyrir, ekki hinir sem heima sitja og halda allar þær takmarkanir sem settar eru.

Veiran kemur erlendis frá. Átti upptök sín í Kína og hefur þaðan ferðast um allan heim. Hér á landi tókst fljótlega að ná tökum á ástandinu. Síðan var ákveðið að gefa eftir á landamærunum, að heimila för hingað til lands, en nota einskonar litakóða til að ákvarða hvort fólk væri heimilt að koma beint inn í landið, eða hvort það skyldi sæta sóttkví. Allir vita hvernig fór, veiran náði nýju flugi, með andláti fjölda einstaklinga. Landið lamaðist aftur og fólk og fyrirtæki áttu um sárt að binda. Nú er aftur búið að opna landið, sami litakóði notaður, þó einn ráðherrann sé reyndar búinn að skilgreina rauð svæði í tvo flokka, rauð og eldrauð. Eini munurinn er að þeir sem koma frá mest sýktu svæðunum þurfa að gista á ákveðnu hóteli fyrstu fimm dagana á landinu. Ástæðan er augljós og kemur fram hér fyrr ofan. Eftir stendur að fólk frá gulum svæðum, þar sem farsóttin er enn á fullu og eftir orðanna hljóðan ráðherra einnig þeir sem koma frá rauðum svæðum, geta gengið óhindrað inn í landið. En ráðherra talaði um að einungis fólk frá eldrauðum svæðum þyrfti að sæta sóttkví. Það er því verið að opna enn frekar á komu veirunnar til landsins, jafn skjótt og faraldur minnkar í einhverjum löndum. Í fyrrasumar vor sum lönd þar sem veiran geisaði af krafti, skilgreind sem gul svæði. Hættan nú er söm og þá. Mun þetta leiða til enn fleiri dauðsfalla af völdum veirunnar hér á landi?

Sumir spekingar halda því fram að covid sé eins og hver önnur flensa og benda á tölur um dauðsföll því til staðfestingar. Sem betur fer eru dauðsföll hér á landi ekki í líkingu við hvernig ástandið er víðast erlendis. En það ber fyrst og fremst að þakka sóttvörnum hér á landi og góðri þátttöku fjöldans. Hins vegar er ljóst að í þau skipti sem veiran hefur náð flugi hér, hefur það haft alvarlegar afleiðingar, sjúkrahús yfirfyllst og fólk dáði. Margt af því fólki sem smitaðist á enn í stríði við afleiðingarnar, mörgum mánuðum síðar. Hvernig ástandið væri hér á landi ef ekki hefði tekist að lágmarka veiruna, veit enginn. Líklegt er þó að þá værum við í svipuðum sporum og víða erlendis, þar sem tugir og hundruðir þúsunda fólks hefur þurft að láta í minnipokann, með lífi sínu.

Lög og stjórnarskrá eiga við alla landsmenn, ekki bara örfáa. Lagalegur réttur heildarinnar hlýtur að vera meiri en lagalegur réttur fárra.

Eftir stendur: Hvers vegna velja fjölmiðlar að fjalla einhliða um þá nauðsynlegu ákvörðun að halda fólki á hóteli í fimm daga? Hvers vegna er ekki fjallað um rétt okkar hinna, um að allt sé gert sem mögulegt er til að halda veirunni utan landsteinanna?


mbl.is Telja sóttvarnalög og stjórnarskrá brotna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Þetta er hugarfar blaðamann að skrifa sem svæsnast sama hvert málefnið er. Setjum blaðamenn í sótthví með þeim rauðu! Annars er einfaldast að loka þessu litla landi og ætti það svo sem ekki að skaða neinn.

Eyjólfur Jónsson, 4.4.2021 kl. 22:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband