Færsluflokkur: Lífstíll

Hvað getum við gert?

Hvað getum við gert? er nafn á þætti sem sýndur var á ruv fyrir skemmstu. Sjálfur horfði ég ekki á þáttinn er hann var sýndur, en vegna líflegrar umræðu um hann á samfélagsmiðlum lét ég mig hafa það að horfa á hann.

Þar kemur ýmislegt á óvart og framsetning þáttastjórnanda með þeim hætti að vart verður annað séð en að um áróðursþátt sé að ræða. Þar fær hann til viðtals mann sem stjórnandinn kallar "helsta jarðvegsfræðing á Norðurlöndum" Ólaf Arndals. Væntanlega eru frá honum komin öll fræði sem stjórnandinn taldi sér. Þó má telja þáttastjórnanda til tekna er hann opnaði þáttinn, að eftir að hann var búinn að nefna manninn og sauðkindina, sem helsta sökudólg Íslands, taldi hann einnig upp eldgos og veðurfar. Það var reyndar í eina skiptið í öllum þættinum sem þau atriði komu fram. Og fljótlega var maðurinn einnig dreginn út úr dæminu, þannig að blessuð sauðkindin stóð ein eftir sem sökudólgur.

Fljótlega kom fram að á 45% lands er lítill sem enginn gróður, á 30% lands er gróður illa farinn og mikil rofabörð og að einungis 25% lands er vel gróið. Skilgreiningin á hálendi er 200 metrar yfir sjó og um 76% landsins liggur ofan þeirrar línu. 10% lands liggur undir jöklum og svo mætti lengi telja. Þó er ljóst að sú tafla sem sýnd var í þættinum um gróðurfar getur vart staðist, þar sem vitað er að heiðarlönd eru víða grasi gróin með þéttri jarðvegsþekju. 

Hins vegar er ljóst að á hluta landsins er lítill gróður og einnig sýna rofabörð að jarðvegsþekja hefur á sumum svæðum fokið á brott. Þetta má ekki vanmeta og víða sem bændum í samstarfi við landgræðsluna, hefur tekist að snúa þeirri þróun við. En með vilja er enn hægt að finna rofabörð og með yfirlegu má ná þar myndum að einstaka kind skýla sér undir þeim.

En hvað veldur? Þáttur mannsins er sjálfsagt einhver og jafnvel má segja að sauðkindin hafi svo sem ekki hjálpað til. En kenna þeim alla sökina er fráleitt. Þar eru þau öfl sem þáttastjórnandi impraði á í opnun þáttarins, veður og eldgos helsti orsakavaldur.

Fyrir það fyrsta var mannfjöldi og fjöldi sauðfjár í landinu svo lítill að útilokað er að þeir þættir hafi verið örlagavaldur. Það er ekki fyrr en á tuttugustu öld sem fólki fer að fjölga í landinu og sauðfé samhliða. Fram til þess tíma var fjöldi fólks og fjár hverfandi. Enn er fólki að fjölga en hámarki fjölda sauðfjár náðist um 1980, um 800.000. Síðan þá hefur því fækkað niður í um 400.000 fjár.

Nú er farið að rækta eikarskóga á Íslandi. Við landnám er talið að landið hafi verið vaxið trjám milli fjalls og fjöru. Hvort það er rétt skal ósagt látið, en vitað er að eikarskógar uxu hér á landi á þeim tíma, enda tíðarfar mun betra en nú og þó stutt kuldatímabil hafi orðið á jörðinni á fyrstu öldum okkar tímatals, hafði verið enn hlýrra í margar aldir þar á undan og því alls ekki ótrúlegt að eikur hafi lifað af það stutta kuldatímabil. Sá síðasti þessara skóga lét undan síga í lok átjándu aldar, i kjölfar Skaftárelda. Til eru ritaðar heimildir sem lýsa því hvernig síðasti eikarskógurinn hvarf, nánast á einni nóttu, eftir að gös frá gosinu lögðust yfir hann.

Eldgos eru sennilega stærsti orsakavaldur landeyðingar á Íslandi, enda bæði mörg og sum mikil frá landnámi. Þessum gosum fylgir bæði aska og gös, sem eru skeinuhætt gróðri. Samhliða mikið kólnandi veðri var nánast útilokað fyrir gróður að ná sér upp aftur. Þetta sést auðvitað best á því að það land sem enn á erfitt uppdráttar, þrátt fyrir hlýnun, er það land sem er á gosbeltinu þvert yfir landið. Utan þess er gróður mjög góður og jarðþekja með ágætum. Þó hafa stærri tré ekki náð sér á strik nema með hjálp mannsins og líklegt að nú þegar sé maðurinn búinn að gróðursetja fleiri tré en landnemar hjuggu í eldivið.

Varðandi losun kolefnis í andrúmsloftið þá fór jarðvegfræðingurinn heimskunni nokkuð frjálslega með sitt mál. Staðreyndin er að tiltölulega litlar rannsóknir eru til hér á landi um slíka losun og þær fáu sem gerðar hafa verið þarf að lesa með sérstökum gleraugum til að fullyrðing fræðingsins standist. Því er notast við erlendar rannsóknir og þær heimfærðar á fósturjörðina okkar. Slíkt er óhæfa, enda jarðvegur hér ekki í neinum skilningi líkur þeim jarðvegi er þekkist erlendis. Jarðvegur á Íslandi er mun steinefnaríkari, vegna þrálátra eldgosa og öskufalls, en steinefnaríkur jarðvegur losar mun minna co2 en mó og mýra jarðvegur. Þá er vitað að berir melar losa lítið eða ekkert af co2 í andrúmsloftið, en eins og áður sagði telur fræðingurinn að allt að 75% landsins sé nánast melur einn.

Hins vegar er rétt að sauðkindin losar co2, rétt eins og allar skepnur og það er einnig rétt sem stjórnandinn sagði, þegar hann hélt á tveim fallegum lambalærum, að misjafnt getur verið hvað mikil slík losun er, eftir því hvar þeim er beitt. Því er rétt að það eru svæði á landinu sem eru viðkvæm, eins og ég nefndi áður. Nú þegar er hafin stýring á beit á viðkvæmum svæðum, samhliða endurbótum á landi. Þetta er gert í samstarfi nokkurra aðila og eru bændur kannski fremstir í þeirri samvinnu. Hversu mikil losun co2 er frá bústofni er svo spurning, enda engar rannsóknir til um það heldur hér á landi. Þarna er því um áætlaðar tölur að ræða og ekki séð að erlendar rannsóknir séu sóttar til þeirrar áætlunar. Niðurstaðan er því að íslenskur bústofn, hvaða nafni sem hann nefnist, er sagður losa mun meira af co2 út í andrúmsloftið en sambærilegur bústofna annarsstaðar. Hvað veldur er erfitt að segja til um.

Við erum aðilar að samstarfi þjóðanna um losun á co2 út í andrúmsloftið. Því er gríðarlega mikilvægt að allar tölur séu réttar og byggðar á rannsóknum, miklum rannsóknum. Þetta á bæði við um losun sem og endurheimt. Það kemur að skuldadögum hjá okkur, skuldadögum í orðsins fyllstu merkingu. Þá þurfum við að greiða fyrir syndir okkar, með grjóthörðum peningum. Áætlanir um losun verða látnar standa, sér í lagi þegar séð er að okkar áætlanir gera meira úr henni en efni standa til. Hins vegar verður endurheimt tortryggð og engar tölur þar teknar gildar nema með grjóthörðum niðurstöðum rannsókna.

Landbúnaður hér á landi hefur legið undir miklum árásum og nánast sama hvar drepið er niður fæti í þeim málum. Það er ekki bara að landbúnaður sé búinn að eyða landinu eða losa mest allra atvinnugreina af co2, heldur virðist landbúnaður eiga sök á flestu sem miður fer. Í þessum árásum fara fremstir ákveðnir hagsmunahópar sem hafa greiðann aðgang að fjölmiðlum, stjórnmálafólki og embættiskerfinu.

Bændur verða að taka sig á, þeir verða að verjast. Það gengur ekki að láta ákveðna hagsmunahópa stjórna umræðunni um landbúnaðarmál. Það gengur ekki að láta ákveðna hagsmunahópa ná yfirráðum yfir stjórnmálamönnum. Það gengur ekki að ákveðnir hagsmunahópar ráði embættismannakerfinu. Það er auðvelt að verja íslenskan landbúnað og næg rök til, en til þess þarf sterka málssvara. Menn sem svar strax öllu bulli og krefjast þess að umræðan sé rökræn!


mbl.is Hvað hafa bændur gert?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á Evu klæðum

Mail online flutti heimsbyggðinni nokkuð sérstæða frétt í morgun. Þar segir að breska verslunarkeðjan Boohoo ætli að hætta sölu á fötum sem innihalda ull af einhverju tagi, bannið tekur gildi hjá þeim í haust. Ástæðan er að dýraverndunarsamtökin PETA telji rúning áa vera dýraníð!

Þá vaknar spurning; hvernig skal framleiða föt? Í flestum fötum er ull af einhverju tagi þó hún hafi vissulega vikið nokkuð fyrir plastefnum. Varla viljum við þó framleiða fötin úr plast, þessu baneitraða efni sem allstaðar er verið að banna!

Þá eru einungis nýju föt keisarans eftir, öðru nafni Evuklæðin. Mannskepnan verður bara að vera nakin!

PETA samtökin fara þarna offari, svo vægt sé til orða tekið. Það er ekki dýraníð að rýja ærnar, hins vegar er það sannarlega dýraníð að gera það ekki og getur það leitt skepnuna til dauða. Það hefur eitthvað skolast til í haus þeirra hjá PETA sem fullyrða svona bull.

Og ekki er hitt skárra, að virt verslunarkeðja skuli taka undir þessa vitleysu. Það verður gaman að koma í verslanir þeirra á hausti komandi, einungis tóm herðatrén á fataslánum.

Það er vandlifað í henni veröld. Barnaskapur og fáviska virðast vera að ná völdum á öllum sviðum.

Hvað næst?!!


Japl, jaml og fuður

Hafi mannskepnunni verið ætlað að þrífast á grasi og hundasúrum, hefði skaparinn látið hana fá vömb, kepp, laka og vinstur, til að vinna næringarefnin úr þeirri fæðu. Þess í stað erum við með maga, görn og þarma, rétt eins og aðrar kjötætur.

Mér er nokk sama þó einstaklingar vilji brjóta náttúrulögmálið og lifa á grasi og hundasúrum. Það er auðvitað val hvers og eins hvernig hann misbeitir sínum líkama. Og ekki amast ég við því þó fólk velji að kalla sig vegan.

Hitt verður vart við unað, þegar það fólk sem kýs að lifa á grasi og hundasúrum, vill neyða slíkum lifnaðarhætti upp á aðra. Þegar farið er að krefjast þess af ríki og sveitarfélögum að skattfé sé beitt til að halda uppi áróðri þeirra. Þegar krafist er af menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu að venjulegur heimilismatur verði látinn víkja fyrir grasi og hundasúrum.

Flest ef ekki öll mötuneyti landsins bjóða upp á fæði fyrir svokallað vegan fólk. Yfir því amast ég ekki, enda venjulegur heimilismatur einnig í boði. Þarna getur fólk valið.

Ekki hefur nokkurn tímann heyrst að fólk sem étur venjulegan heimilismat vilji láta banna grasafæði. Hvorki hjá mötuneytum ríkisstofnanna né annarsstaðar. Ekki heldur hefur nokkrum manni dottið til hugar að krefja ríkið um að halda kjötfæði framar en grasafæði. Þarna á fólk einfaldlega að hafa val.

Við lestur þessarar undarlegu fréttar datt mér í hug kvæði vesturfarans og stórskáldsins Stephan G Stephanssonar:

Þá kvað einn: ,,Vér úrráð höfum:

Út og suður karlinn gröfum.

Ei þarf lubbinn óvandaður

Eins að liggja og dánumaður.

Eftir japl og jaml og fuður

Jón var grafinn út og suður.

 


mbl.is Margt sem ríki og sveitarfélög gætu gert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband