Hvenær ætlar fólk að vakna?
6.12.2019 | 21:50
Umræðan um hlýnun loftlags og orsakir og afleiðingar þess virðist meira eiga heima í skáldsögum en raunveruleikanum. Kannski af þeirri ástæðu sem skáld eru svo hrifin af þessari umræðu.
Enginn efast um að loftlag á hnettinum hefur hlýnað frá þeim tíma er kaldast var, um nokkur þúsund ára skeið. Hvort sú hlýnun muni halda áfram eða hvort toppnum er náð, mun framtíðin skera úr um. Í það minnsta er vart mælanleg hlýnun síðasta áratug og reyndar farið kólnandi á sumum stöðum hnattarins.
Um afleiðingar þessarar hlýnunar þarf ekki að deila. Gróðurþekja hefur aukist, sérstaklega á þeim svæðum sem voru komin að mörkum undir lok litlu ísaldar, en einnig hefur gróður aukist á svæðum sem skilgreind hafa verið sem eyðimerkur. Skapast það fyrst og fremst af þeirri augljósu ástæðu að við hlýnun loftlags eykst raki í loftinu. Sá raki skilar sér síðan sem rigning, einnig á þau svæði sem þurrust eru. Því hefur gróðurþekja aukist verulega frá upphafi tuttugustu aldar. Mælingar gervihnatta, sem hófust undir lok sjötta áratugarins, staðfesta þetta svo ekki verði um villst. Hlýni enn frekar, ætti þessi þróun að aukast enn frekar, mannkyn til góðs. Ef aftur kólnar, munum við fara í sama horfið. Gróður mun aftur minnka og hungur aukast.
Mestar deilur eru um orsakir þessarar hlýnunar. Þær eru sjálfsagt fjölmargar en af einhverjum ástæðum hefur verið einblínt á einn þátt, co2 í andrúmslofti. Þessi skýring er þó langsótt og í raun með ólíkindum hvað fólk gleypir við þeirri skýringu, vitandi að loftslag er flóknara en svo að einn þáttur, sem vigtar mjög lítið, geti verið sökudólgurinn, eða blessunin, eftir því hvernig á málið er litið. Eitt liggur þó kristaltært fyrir, viðmiðunarpunktur mælinga er rangur. Að það hitastig sem var á jörðinni við lok litlu ísaldar skuli vera heilagur sannleikur er auðvitað fásinna. Nær væri að taka meðaltal hita yfir nokkur þúsund ár og reikna út hlýnun eða kólnun loftlags út frá því. Þegar við mælum hitastig líkama okkar er viðmiðunin meðaltal hita mannslíkamans, ekki sá hiti sem lægstur hefur mælst í lifandi manni.
Eins og áður sagði, þá hefur af einhverjum ástæðum verið valið að saka magn co2 í andrúmslofti um meinta hlýnun. Ástæðuna má kannski rekja til þess að fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, Al nokkur Gore, kom með þessa skýringu. Bar þar fyrir sig línurit sem sannaði þetta. Þó er ljóst að ekkert beint samhengi er þarna á milli, auk þess sem skiptar skoðanir eru um orsök og afleiðingu, hvort co2 valdi hlýnun eða hvort hlýnun valdi auknu co2, þó síðari skýringin sé þó mun skynsamlegri á allan hátt. Eitt hafa menn þó átt erfitt með að útskýra, en það er þróun hitastigs og losun co2 á síðustu öld. Alla öldina var nánast línuleg aukning co2, meðan hitastig hækkað mjög hratt fram undir 1940, lækkaði þá skart aftur fram undir 1980, hækkaði aftur mjög hratt næstu tvo til þrjá áratugi og hefur nánast staðið í stað síðan. Þetta misræmi milli hitaaukningar og aukningu á losun co2 hefur vafist nokkuð fyrir þeim sem tala fyrir þeirri skýringu að co2 sé aðal sökunautur. Nú hafa hins vegar spekingar NOOA og NASA leyst þennan vanda, með því einfaldlega að jafna línuritið út. Enginn gæti útskrifast úr háskóla með slíkum hætti.
Stjórnvöld út um allan heim, ekki síst hér á landi, hafa lagt ofurafl á minnkun co2 í loftslagi. Telja sig þar með vera að "bjarga heiminum". Aðgerðirnar eru hins vegar handahófskenndar og í flestum tilfellum felast þær í auknum sköttum eða einhverju sem mælist með peningum. Engin sjáanleg merki eru um að þetta fólk hagi sér í samræmi við sinn boðskap, en boðar fjárútlát á alla aðra sem ekki bæta sitt ráð. Verslað er með svokallaða mengunarkvóta, þvert og endilangt, án þess þó að mengunin minnki nokkuð. Skattar eru lagðir á þá sem ekki eiga þess kost að ferðast á "vistvænan" hátt og enn frekari skattar boðaðir. Allt leiðir þetta að einu og aðeins einu, frekari skerðingu lífskjara án nokkurra áhrifa á loftslagið.
Þegar maður vill síðan skoða tölulegar staðreyndir um málið, þ.e. hversu mikið Ísland losar af þessari lofttegund, sem sumir hafa skilgreint sem baneitrað en er í raun grundvöllur alls lífs, rekur maður sig á vegg.
Samkvæmt skýrslu stjórnarráðsins er losun Íslands á co2 ígildi um 2,9 miljónum tonna. Af því eru ígildistonn vegna orku, þ.e. eldsneyti og annað í þeim dúr, 1,8 milljón. Til samanburðar losar Katla um 6,6 miljón ígildistonn á hverju ári, samkvæmt síðustu mælingum og Landsvirkjun 8,8 milljón ígildistonn vegna sölu á losunarkvóta. Þarna fer greinilega ekki saman hljóð og mynd, svo vitlaust sem þetta er. Látum vera þó losun eldfjalla sé haldið frá þessum upplýsingum, þó vissulega sú losun ætti að skipta máli í umræðunni. Hitt er aftur undarlegra að eitt fyrirtæki hér á landi skuli geta selt losunarheimildir erlendis, án þess að það komi fram í bókhaldi stjórnarráðsins. Þetta er auðvitað galið!
Ekki er neinn vafi á að þeir sem þessar losunarheimildir kaupa skrá það í sínar bækur, sem skilað er til viðkomandi lands. Til þess er jú leikurinn gerður, eða hvað? Hvað verður þá um sjálfa mengunina? Gufar hún þá bara upp? Þetta er ein af þeim snilldarlausnum sem ESB kom fram með, enda hefur losun co2 í Evrópu aldrei verið meiri en nú, jafnvel þó íslenskt fyrirtæki selji þeim losunarkvóta sem er rúmlega þrisvar sinnum það magn losunar sem stjórnarráðið telur landsmenn losa!
Hvenær ætlar fólk að vakna? Hvers vegna er þjóð, sem telur sig vera þokkalega vitiborin, svo auðkeypt?
Bann við notkun svartolíu í landhelgi Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 21:56 | Facebook
Athugasemdir
Áhrif aukins CO2 á hitastig hafa verið rannsökuð allt frá því á nítjándu öld og samhengið liggur alveg fyrir. Og grundvallast ekki á orðum Al Gore. Hvers vegna þú heldur því fram veit ég ekki. Annað hvort vegna þess að þú veist ekki betur, eða vegna þess að þú ert að reyna að blekkja lesendur.
Þorsteinn Siglaugsson, 6.12.2019 kl. 22:06
Um þetta eru skiptar skoðanir Þorsteinn og í raun var enginn sem taldi sig geta staðið á henni fyrr en Al Gore gerði það að aðalmáli.
Svo er ekki rétt að þetta hafi verið rannsakað frá nítjándu öld. Gilbert Plass kom fram með þá hugmynd að aukning á co2 í andrúmslofti leiddi til hlýnunar þess, gerði það á seinni hluta sjötta áratugar tuttugustu aldar. Hann var gerður afturreka með þessa skoðun á þeim tíma, enda hafði þá farið kólnandi á jörðinni í nær tvo áratugi. Síðar, eða í byrjun áttunda áratugarins, var rykið dustað af þessari hugmynd, þó ekki til að nota hana sem rök fyrir hlýnun loftlags, heldur kólnun þess. Haldið var fram að aukning co2 myndi leiða til ísaldar.
Einn þeirra vísindamanna var stofnandi Greenpeace samtakana og talsmaður þeirra um árabil, Patrick Moore. Þegar svo aftur fór að hlýna, upp úr 1980, var þessi vísindamaður beðinn að skipta um skoðun, að í stað kólnunar myndi hlýna. Sagði hann þá skilið við samtökin og stofnaði hóp vísindamanna til að skoða áhrif co2 á loftslag.
Enn eru vísindamenn ósammála um áhrif co2 á loftslag, ekki þó hvort muni hlýna eða kólna, heldur hvort um orsök eða afleiðingu sé að ræða. Þ.e. hvort aukning co2 leiði til aukins hita eða hvort aukinn hiti leiði til aukningar co2.
Þá er ljóst að EF svo væri að co2 væri sá skaðvaldur sem sagt er, þá er ljóst að þjóðarleiðtogar heims eru á rangri leið. Það mun þá ekki vera hægt að kaupa sig frá vandanum, einungis hægt að aðlagast honum. Jafnvel þó mannskeppan myndi stöðva alla losun co2, sem er auðvitað ekki hægt nema því aðeins að leggjast í bælið og bíða dauða síns, mun þessari þróun ekki verða afstýrt, þ.e. aukningu á co2 í andrúmslofti.
Því væru stjórnmálamenn, ef þeir trúa sínu bulli, ekki að byggja hús á lægsta stað í höfuðborginni og krefjast þess að flugvöllur hverfi svo hægt sé að byggja enn frekar, á svæði sem sannarlega fer á kaf ef spádómar þeirra svartsýnu rætast.
Það fara ekki saman orð og athafnir stjórnmálamanna, eina sem þeir gera er að leggja á enn frekari skatta. Telja sig geta keypt sig frá vandanum, í anda ESB.
Gunnar Heiðarsson, 7.12.2019 kl. 01:43
Þakka góðan pistil Gunnar.
Það er fullt af fólki sem hefur vaknað. Skoðanir þess fá hinsvegar hvergi rými, því göbbelskur áróður hamfarahlýnunarsinnana hefur algerlega kaffært alla umræðu. Sósíalisminn er dauður og allir sem aðhylltust hann forðum, þurftu að finna nýtt slogan, í stað steingeldra hugsjóna sinna.
Hamfarahlýnun kom eins og frelsandi engill í stað sósíalismans. Moka ofan í skurði, bla bla og jarí jarí. Sósíaliskt hugsandi stjórnmálamönnum og konum virðast engin takmörk sett, þá kvelja skal samborgara sína til undirgefni, skattheimtu og lífsgæðaskerðingar.
Á Íslandi sjást þess best merki. Sósíalistar og samfylkingarstóðið tók málstað fjármagnsins daginn eftir kosningar 2009 og sveifst einskis í undirlægjuhætti sínum, undir vökulum augum núverandi forseta Alþingis og flugfreyjuskammarinnar.
Nú skal þetta hyski kreysta hverja einustu krónu sem enn finnst í veskjum alþýðunnar í umhverfisátak, sem hefur ekki einu sinni verið sannað að þurfi.
Loftslagsvár eru ekki veraldarinnar verstu vár. Sósíalisminn er mengaðri en harðasta eitur.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 7.12.2019 kl. 23:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.