Viku síðar

Nú er nærri vika liðin síðan kröpp lægð gekk yfir landið, með þeim afleiðingum að nærri helmingur þess missti rafmagn og stór hluti missti að auki öll samskipti við umheiminn. Og enn eru mörg heimili án rafmagns og þau sem sögð eru búin að fá tengingar, enn meira og minna sambandslaus. Illa gengur að koma lagi á kerfið og alls óvíst hvenær því líkur.

Hetjur landsins eru sannarlega hjálparsveitirnar og starfsmenn dreifikerfanna. Þeir æddu út í óveðrið jafn skjótt og bilanir hófust og gerðu það sem hægt var og eru enn að.

Þó var þessi lægð í sjálfu sér ekki svo kröpp, heldur var áttin kannski óvenjuleg, þ.e. norðan með tilbrigði til vesturs. Það er slæmt að missa rafmagnið en verra að missa á sama tíma öll samskipti við umheiminn. Fólk vissi ekki neitt, gat sig hvergi hreyft, ekki einu sinni að næsta bæ, svo klukkustundum og sólahringum skipti. Þarna brást allt sem brostið gat.

Það er sorglegt að horfa nú upp á menn koma fram í sjónvarp og reyna að varpa sök á einhvern annan. Vissulega hefur verið unnið gegn styrkingu rafkerfisins af hinum ýmsu umhverfissamtökum og vissulega hefur Landsnet þverskallast við að hlusta á íbúa þeirra svæða sem línur þess þurfa að fara um. En hvers vegna þarf að missa rafmagn af hálfu landinu, setja íbúa þess í hættu og etja síðan starfsfólki og hjálparsveitarfólki út í óvissuna, til að leysa þær deilur sem uppi eru um línulagnir. Er virkilega ekki hægt að setjast niður og finna lausnir án þess að tugþúsundum fólks sé stefnt í hættu? Sé svo er ljóst að þeir sem að málinu koma eru alls ekki hæfir til að sinna sínu starfi og er þar fyrst og fremst átt við stjórnendur Landsnets og stjórnvöld landsins.

Landsnet sér um stofnlínukerfið, byggðalínuna, Rarik er aftur með dreifikerfið. Byggðalínan og búnaður hennar er víðast hvar komin á fimmta áratug í aldri. Sá sem þetta ritar vann við lagningu hennar yfir Holtavörðuheiðina, haustið 1975. Sú lína er því orðin gömul og feyskin og þakkarvert að hún skildi standa af sér rokið á þriðjudag og miðvikudag síðustu viku. Það er ekki spurning hvort heldur hvenær sú lukka bregst og línan gefur sig í óveðri. Það var hins vegar spennuvirkið við norðurenda þessarar línu sem fyrst gaf sig, spennuvirkið við Hrútatungu. Hversu fljótt það leysti út vekur vissulega upp spurningu hvort fyrirbyggjandi viðhaldi hafi verið ábótavant, hvort að svo mikil selta hafi verið á einöngrurum þess áður en óveðrið skall á sé ástæða þess að það sló út nánast strax og fór að hvessa, með þeim afleiðingum að vesturlína, Hrútafjörður og stór hluti Húnavatnssýslu varð rafmagnslaus og flestir gsm og útvarpssendar stuttu síðar. Svipað ástand var víðar á svæði Landsnets, engu líkara en að verulega hafi skort á eðlilegt og fyrirbyggjandi viðhald. Það er auðvitað stórmál, í ljósi þess hversu gamalt og lélegt þetta kerfi er orðið. Þar er ekki hægt að skýla sér á bak við að ekki hafi fengist leifi til lagninga á nýjum línum. Meðan svo háttar er enn frekari ástæða þess að fyrirbyggjandi viðhald sé eins gott og hægt er.

Rarik hefur vissulega gert nokkuð átak í að koma dreifikerfi sínu í jörð. Það gengur þó enn hægt og með sama hraða mun því ekki ljúka fyrr en eftir 15-20 ár og er það með öllu óviðunnandi. Þá er ámælisvert hvernig staðið hefur verið að þessu verkefni. Á sumum stöðum hefur nánast heilu sveitunum verið fært rafmagn úr loftlínu í jörð. Þó hafa verið skildir eftir einstakir kaflar. Dæmi eru þess að á um 40km langri leið, þar sem rafmagn var fært í jörð, voru fyrstu 15km frá spennuvirki enn skildir eftir sem loftlína og hún gaf sig. Þetta er svipað og að skrifa bók en sleppa fyrstu köflunum hennar!

Ríkisútvarpið, útvarp allra landsmann, brást 100%. Var svo sem varla við öðru að búast, en það vekur enn sterkari hugsun um tilverurétt þeirrar stofnunar. Ekki einungis brást sendikerfi ruv, sem saman stendur af fjölda FM senda auk tveggja langbylgjusenda, heldur brást fréttaflutningurinn með öllu. FM endarnir duttu nánast strax út er rafmagnið gaf sig. Langbylgjusendingar hafa verið skertar svo mikið yfir landinu að stór hluti hættusvæðisins náði ekki sendingum þaðan. En í sjálfu sér breytti þetta litlu, þar sem fréttaflutningurinn var í mýflugumynd. Það fólk sem sat í köldum húsum sínum, meðan stórhríðin gekk úti, var því ekki að missa af miklu. Það vissi það þó ekki. Við hin, sem vorum sunnan heiða og höfðum áhyggjur af ættingjum og afkomendum fyrir norðan, þurftum að leita annarra leiða en ruv, til að afla upplýsinga. Þar var heimasíða Rarik einna best og má vissulega þakka þar stöðugum upplýsingum um ástandið og áætlanir til bóta. Ekki hefði verið flókið fyrir ruv að lesa þær upplýsingar upp jafn skjótt og þær bárust, þó ekki væri nema fyrir þá sem voru svo heppnir að ná langbylgjunni. Það var ekki fyrr en sveitastjórnir norðan heiða gagnrýndu ruv, sem eitthvað fór að gerast í fréttaflutningnum. Þó ekki meira en svo að fréttamenn stofnunarinnar stóðu einhversstaðar í skjóli undir húsvegg í stærstu byggðarkjörnunum og fluttu fréttir þaðan, aðalega um það sem gerðist í götunni við hliðina á þeim!!

Og auðvitað fór það svo að sumir vanþroskuðustu þingmennirnir okkar ætluðu að nýta sér þetta til að fá prik. Það var þó fljótlega slegið á putta þessara manna, enda er enginn stjórnmálaflokkur undanskilinn í þessu máli. Ráðherrar skruppu norður og forsætisráðherra komst í stuð er hún fann lurk til að berja á sökudólgnum, ísingunni. Nú sitja ráðherrar sveittir við að reyna að finna sem flest orð yfir hvað þeir huga sér að gera, sem væntanlega verður ekki neitt. Skipuð hefur verið nefnd um málið og kannski má vænta niðurstöðum hennar einhverntíman í framtíðinni. Heyrst hefur að menn vilji fjölga vararafstöðvum. Kannski mætti þá skoða hvers vegna þeim var fækkað og hver eða hverjir tóku þær ákvarðanir!

Vararafstöðvar leysa þó lítinn vanda og í raun ættu þær einungis að vera á stofnunum sem eru háðar rafmagni, eins og heilsugæslustöðvum, svo starfsfólk þar þurfi ekki hugsa um sjúklingana með því að vera með vasaljós á hausnum. En það er þó ekki nóg að fjölga þessum rafstöðvum, það þarf að festa þær tryggilega svo ekki sé hægt að selja þær aftur! Að ætla að leysa vandann að öðru leiti með vararafstöðvum er auðvitað algerlega óraunhæft. Hægt er að hugsa sér að einhverjar stórar rafstöðvar gætu leyst vanda einstakra byggðarkjarna, um stuttan tíma, en sveitir landsins verða jafn illa settar, nema auðvitað að ætlunin sé að deila út litlum rafstöðvum á hvern bæ.

Eina lausnin er því að efla sjálft dreifikerfið. Setja aukinn þunga í að jarðsetja rafkerfi sveitanna og bæta við byggðalínuna. Þá þarf að klára það sem aldrei hefur verið klárað, en það er hringtenging þannig að hægt sé að keyra rafmagn í báðar áttir. Þetta voru upphaflegu áætlanir byggðalínukerfisins en virðist sem það hafi einhvertímann síðustu hálfa öld verið skilið útundan. Verja þarf spennuvirkin, þannig að þau verði ekki eins viðkvæm fyrir veðri og saltmengun. Þetta eru auðvitað aðgerðir sem ekki verða gerðar í hvelli, en hægt er að flýta málinu. En fyrst af öllu þarf að auka fyrirbyggjandi viðhald, þrífa einangrara spennuvirkjanna reglulega og sjá til þess að þeir séu eins viðbúnir að takast á við stórviðri og hægt er. Áhættugreina línukerfi landsins og sjá til þess að nægur mannskapur og efni til viðgerða sé nægt á þeim stöðum sem teljast í mestri hættu. Þannig má takmarka skaðann og halda uppi þjónustu lengur en ella.

Varðandi grunnþjónustu fjarskipta þá er það svo að þau virka vel meðan rafmagn helst. Aldrei verður þó hægt að útiloka rafmagnsleysi, þó takmarka megi það. Því þarf að auka byrgðir varaafls við síma og útvarpssenda. Kannski þarf alþingi að koma að málinu, með reglusetningu um lágmarks varaafl þessara senda. Einnig mætti hugsa sér að lagasetning um að ef rafmarksleysi nái einhverjum ákveðnum tíma, t.d. 8klst, sé viðkomandi flutningsaðili raforkunnar skildugur til að greiða notanda bætur. Það mun sannarlega gefa þessum fyrirtækjum smá spark til að standa sig betur.

 


mbl.is Högg kom á kerfið þegar tengivirki datt út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir góða grein Gunnar.

Mig langar að benda á eitt og annað,.

Ruv brást ekki alveg í fréttaflutningi sínum, ég opnaði ekki svo útvarpið, nema þegar ég var rafmagnslaus, án þess að ítarlega væri greint frá viðbúnaðinum í Reykjavík, að þar yrði örugglega brjálað veður fyrst því spáði fyrir norðan og vestan, og fréttaflutningurinn var svo ítarlegur að maður vissi næstum því skóstærðina hjá björgunarsveitarmanninum og litnum á snjógallanum hjá barninu sem átti að sækja snemma í skólann.

Annað, ég fékk rafmagnið vegna framsýni eldri kynslóða, tæplega sextug rafstöð fór inn þó viðhaldi hafi lítið eða ekkert verið sinnt frá ohf væðingu Rarik.  Við megum því ekki gera lítið úr gildi varaaflsstöðva, ég held að engum blandist huga um það eftir að menn sáu hvað framsýni með útbúnað Þórs bjargaði því sem bjargað var á Dalvík og nágrenni.  Varðandi sveitabæi, þá er til rafstöð á hverjum bæ og hverju húsi í USA, þar sem annaðhvort vetrarverður eða fellibyljir slá reglulega út rafmagni.  Þær eru ekki svo dýrar, og ótrúlegt að hátæknibýli sem hafa fjárfest fyrir tugi milljóna, skuli ekki hafa slíkar stöðvar sem staðalbúnað.  Það þýðir nefnilega ekki alltaf að benda.

Og að lokum, þetta er grafalvarlegt, og algjörlega fyrirsjáanlegt.  Á heimasíðu Landsnets má finna línurit sem sýnir veldisaukningu á bilunum á byggðalínutengingunni síðustu ár.  Upplýsingar sem liggja fyrir, sem og þær upplýsingar að ekkert hefur  verið fjárfest í dreifikerfinu frá stofnun Landsnets.

Þó þetta fólk sem ábyrgðina ber, fer núna norður og leikur Pollýönnu, þá eigum við ekki að láta þau komast upp með slíkt.  Óveðrið afhjúpaði vanhæfa stjórnmálastétt, því það hefur enginn sett raforkuöryggi á oddinn, eða yfir höfuð haft orð á mikilvægi þess.  Og það afhjúpaði hugmyndafræðina sem stöðugt hefur unnið að því að einkavæða allt sem viðkemur lykilþjónustu við almenning, núna síðast orkupakkaregluverk Evrópusambandsins.

Það er tími til kominn að bæði stjórnmálastéttin og hugmyndafræðin sæti ábyrgð.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.12.2019 kl. 17:32

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Ómar

Það er kannski ofmælt hjá mér að ruv hafi brugðist 100%, kannski var það bara 95%. Vissulega var vel talað um óveðrið sem átti að koma í Reykjavík, en minna um hvað gekk á fyrir norðan. Það hefði verið lágmark að útvarpa tilkynningum Rarik af heimasíðu þeirra, en þar var vissulega fólki haldið upplýstu. Ríkisútvarpið á jú að vera einhverskonar öryggisventill þegar áföll bera að. Um veðurstofuna er hins vegar ekkert nema gott að segja, hún stóð sig í þetta sinn.

Ég er ekkert á móti varaaflsstöðvum og þeir heppnir sem yfir slíku ráða. Hins vegar er ljóst að slíkur búnaður er ekki lausn þess vanda sem skapaðist. Þá eru ekki öll bú hátæknibú og satt best að segja margir bændur sem ekki geta leyft sér að eiga vararafstöð. Vissulega eru til hátæknibú og ég geri ráð fyrir að þau hafi verið undirbúin fyrir rafmagnsleysi, en heilt yfir er búskapur í landinu ekki í þeim sporum. Fjárbændur hafa þurft að taka á sig miklar skerðingar undanfarin ár.

Endurbætur rafkerfisins er það eina sem dugar og þangað til því er lokið þarf að leggja ofuráherslu á fyrirbyggjandi viðhald. Auðvitað mun aldrei verða hægt að komast með öllu fyrir rafmagnsleysi og þá geta vararafstöðvar verið góðar til að halda uppi raforku þar sem hennar er mest þörf. En eins og ég bendi á í færslunni, það er lítið gagn af slíkum vararafstöðvum nema þær séu vel festar. Annars er hætt við að þær verði bara seldar aftur, eins og vararafstöðin við heilsugæsluna á Hvammstanga.

Ég tek hins vegar undir síðasta pistil þinn, þar sem þú ferð yfir grunn orsök alls þessa, uppskiptingu Landsvirkjunar í framleiðslufyrirtæki og flutningsfyrirtæki og ástæðurnar sem lágu að baki þeirrar uppskiptingar.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 16.12.2019 kl. 18:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband