Hvert er Alþingi komið?
10.4.2019 | 10:16
Sá misskilningur virðist vera í gangi að með því að bera samþykkt tilskipunar ESB um orkupakka 3 upp sem þingsályktun, þá megi komast framhjá aðkomu forsetans að málinu. Að þá verði að sækja á forseta að vísa lögum tengdum þessum pakka til þjóðarinnar. Sjálfur hélt ég svo vera, þegar ég skrifaði síðasta pistil, enda horfði ég þá einungis til 26. gr. stjórnarskrárinnar.
Þegar betur er að gáð fjalla tvær aðrar greinar stjórnarskrárinnar um aðkomu forseta að ákvörðunum Alþingis, greinar 16 og 19.
16. gr.
Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti.
Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.
19. gr.
Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.
Þarna er skýrt tekið fram að samþykki forseta þarf fyrir lögum sem sett eru á Alþingi en einnig mikilvægum stjórnarráðsathöfnum og stjórnarerindum. Varla er hægt að hugsa sér mikilvægari stjórnarráðstöfun en framsal orkuauðlinda okkar. Fyrirvarar breyta þar engu, afsalið er jafn gilt.
Ef það er svo að ráðamenn þjóðarinnar eru farnir að velja málum leiðir gegnum Alþingi sem þeir telji að dugi til að komast hjá eina varnagla þjóðarinnar, er illa farið. Ef stjórnarherrarnir ætla sér að fá samþykki fyrir þingsályktun um orkupakka 3, án samþykkis forseta, eru þeir ekki einungis að brjóta stjórnarskrá með því að fórna sameign þjóðarinnar, heldur er framkvæmdin sjálf brot á stjórnarskrá!
Hvert er þá Alþingi okkar, sjálft löggjafavaldið, komið?!
Beiti synjunarvaldi gegn orkupakka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.