Færsluflokkur: Kjaramál
Uppsögn eða framlenging
15.1.2018 | 07:42
Máttur fjölmiðla er mikill og gegnum "rétt" orðfæri er hægt að afvegaleiða umræðuna.
Í viðtengdri frétt segir að stéttarfélög séu ósammála um uppsögn kjarasamninga, nú við endurskoðun þeirra þann 1. febrúar næstkomandi. Í þeim kjarasamningi eru ákveðin skilyrði, sem uppfylla þarf svo samningur gildi áfram. Við þessi skilyrði hefur ekki verið staðið og því kjarasamningurinn fallinn.
Því er rétt að tala um að stéttarfélög landsins séu ekki sammála um hvort framlengja eigi kjarasamninginn.
Reyndar er það svo að flest stéttarfélög eru á þeirri línu að svo skuli ekki gert, en sum landssamtök og einkum ASÍ telja rétt að framlengja. Samningsumboðið er hins vegar í höndum hvers stéttarfélags, en hvorki hjá landssamtökum þeirra né því skrímsli sem kallast ASÍ.
Þá er rétt að ítreka að enn hafa ekki verið lagðar fram neinar hugmyndir um hvað þurfi til og hvaðan, svo tilefni sé til að skoða framlengingu kjarasamninga.
Ósammála um uppsögn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dýrt er drottins orð
21.12.2017 | 00:38
Fyrst ber auðvitað að fagna þeirri launahækkun sem prestastétt hefur fengið, sérstaklega afturvirkni hennar. Þetta festir enn í sessi þau viðmið sem launafólk mun styðjast við, auk þess sem nú þarf ekki að nefna SALEK meira. Kjararáð, starfsfólk Alþingis, hefur fest sín viðmið enn frekar í sessi, með samþykki þriggja ríkisstjórna.
En dýrt er drottins orð og betur færi að boðari þess færi betur staðreyndir. Að vísu þurfa boðberar drottins orðs ekki að hengja sig á staðreyndir í sinni vinnu, en þegar kemur að veraldlegum efnum væri skemmtilegra að þetta fólk segði sannleikann.
Reyndar fer biskup fínt í þetta, segir hálfsannleik, gefur í skyn, svona eins og hún væri að boða drottins orð.
Biskup fagnar að loks sé leiðrétt laun hennar eftir tólf ára kyrrstöðu, að undanskildu því að laun hennar lækkuðu skömmu eftir hrun. Gefur í skyn að engar launahækkanir hafi komið til prestastéttarinnar í heil tólf ár.
Þetta er ekki alsendis rétt, prestastétt hefur fengið launahækkanir á þessum tólf árum, í samræmi við verðlagsbreytingar. Hins vegar hefur ekki verið leiðrétt hjá henni sú skerðing sem hún varð fyrir eftir hrun, svona svipuð skerðing og flest launafólk í landinu varð fyrir. Það er gott að kjararáð hefur nú enn og aftur staðfest að nú sé rétti tíminn til að leiðrétta þær launalækkanir sem urðu í kjölfar hrunsins. Slíkar leiðréttingar hljóta þá að koma á allt launafólk í landinu.
Það er gott að geta bara sest niður og skrifað einn lítinn bréfstúf, svona örlitla stólræðu, til að fá laun sín hækkuð og það verulega. Ekki verra að fá slíka hækkun afturvirka um einhverja mánuði eða ár. Þokkaleg jólagjöf það. Ekki vantar kristilegt hugarfar þess fólks sem slíkt gerir og væntanlega mun það hugsa vel til þeirra sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu.
Aldraðir eru að fá fréttir af því þessa dagana að ekkert eigi að gera til að leiðrétta þeirra laun frá ríkinu, eiga bara að bíða enn lengur. Í ofanálag hafa aldrei fleiri aldraðir verið hlunnfarnir af jólauppbótinni sinni. Fátt heyrist í fjölmiðlum um það, þó þeir hafi farið offari vegna þess að innflytjendur, flestir múslímar, hafi ekki fengið slíka uppbót, væntanlega til að halda sín kristilegu jól.
Rökstuðningur kjararáðs fyrir þessari veglegu hækkun stenst ekki. Kjararáð á að fara að lögum en velur að gera það ekki. í stað þess að miða sína úrskurði við almennar launahækkanir í landinu, hefur það valið að vitna til hækkana sem það sjálft hefur úrskurðað, er búið að búa til ákveðna hringekju sem gefur veglegar launabætur með ákveðnu millibili, alltaf vitnað til hækkana sem það sjálft hefur úrskurðað. Þarna er auðvitað við Alþingi að sakast, en eðli málsins samkvæmt þá gerir það auðvitað ekkert í málinu. Þingmenn eru jú í hringekjunni sjálfir.
Kjararáð vinnur undir Alþingi og ríkisstjórn. Þeirra er ábyrgðin. Nú er svo komið að launafólk í landinu hefur fengið nóg. Þegar ákveðinn starfstétt stendur í lögmætu verkfalli vegna kjaramála, úrskurðar kjararáð hjá annarri starfstétt. Kröfur þeirrar sem voru í verkfalli voru sagðar jafngilda 20% launahækkun. Ekki er ljóst hver lokaniðurstaðan varð, þegar skrifað var undir, en ljóst að því marki var aldeilis ekki náð. Kjararáð úrskurðaði hins vegar kjarabætur upp á 25-30% launahækkanir og að auki afturvirkt til eins árs. Stór spurning hvort flugvirkjar samþykki samninginn eftir að hafa fengið svo blautan hanska í andlitið.
Ef ríkisstjórn og Alþingi halda að einhver friður verði á vinnumarkaði eftir þetta er það stór misskilningur. SALEK samkomulagið er sem betur fer horfið til feðra sinna og mun seint verða vakið upp aftur. Allar spár þeirra sem mest voru á móti því samkomulagi voru, hafa staðist. Þetta samkomulag var aldrei ætlað öllum landsmönnum. Þar átti að gilda hin gamalkunna hefð að allir ættu að vera jafnir, en sumir jafnari.
Leiðréttingar eftir 12 ára kyrrstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hlægilegt
1.10.2017 | 12:06
Það er ekki annað hægt en að hlægja að þessu. Heldur fólk virkilega að Brynhildur Pétursdóttir verði betri framkvæmdastjóri en Ólafur Arnarson?!
Þeir sem ekki vilja breytingar, ekki vilja framfarir, eiga svo sem ekki betra skilið!
Við neytendur höfum svo sem lítið um það að segja hvernig þessum öfugmæla "samtökum" er stjórnað. Víst er að varsla þeirra fyrir neytendur mun ekki aukast við þessa ráðningu og var ekki úr háum söðli að detta!
Brynhildur framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vandi landbúnaðar
6.8.2017 | 11:05
Vandinn
Það er ljóst að sauðfjárbændur standa frammi fyrir miklum vanda. Sláturleyfishafar hafa boðað miklar verðlækkanir til bænda auk lengingu útborgunar. Fyrir marga bændur mun þetta verða náðarhögg en aðra verulega skerðing. Rekja má þennan vanda til uppsafnaðra byrgða á lambakjöti.
Nú eru byrgðir taldar vera nálægt 1500 tonnum, nánast sem svarar samdrætti í útflutningi. Þann samdrátt má að öllu leyti rekja til aðstæðna sem íslenskum bændum er óviðkomandi, viðskiptaþvingana á Rússland. Hefðu íslenskir stjórnmálamenn ekki samþykkt að taka þátt í þeim þvingunum, væri sennilega kjötskortur nú!
Erlendis tóku stjórnmálamenn upp þá stefnu að styrkja þá aðila, innan sinna landa, sem sköðuðust af þessum viðskiptaþvingunum. Íslenskir stjórnmálamenn hafa annan hugsanahátt, þeir eru viljugir að taka þátt í alls kyns alþjóðlegum skuldbindingum, en skeyta engu um afleiðingarnar fyrir land og þjóð.
Fyrir einungis örfáum árum var mikið rætt um kjötskort í landinu. Verslunin (SVÞ) stóð fremst í þeirri umræðu og nýtti sér hana í sínum eilífa áróðri fyrir frjálsum innflutningi á matvælum. Skorturinn var þó ekki meiri en svo að til voru byrgðir upp á 300 tonn, er sláturtíð hófst. En skaðinn var skeður og misvitrir stjórnmálamenn féllu fyrir málflutningi SVÞ. Slakað var á hömlum á innflutningi á kjöti. Árið 2015 var flutt inn 3000 tonn af kjöti til landsins, eða sem nemur tvöföldu því magni sem nú er sagt vera í frystigeymslum úrvinnslustöðva.
Eðli matvælaframleiðslu er að nokkurn tíma tekur að breyta framleiðslumagni, sérstaklega á þetta við um mjólkur og kjötframleiðslu. Ekki er hægt að skrúfa fyrir júgur kúnna og lömbin fæðast ekki fullvaxta. Því er nauðsynlegt að vera með einhvern "stuðpúða", þ.e. nauðsynlegt að á hverjum tíma sé einhver umframframleiðsla svo hægt sé að taka á utanaðkomandi og óviðráðanlegum uppákomum. Slæmt árferði getur minnkað framleiðsluna eitt árið, meðan gott árferði eykur hana. Hver þessi stuðpúði á nákvæmlega að vera er erfitt að segja til um. Vandinn er að þessu verður ekki stjórnað á skömmum tíma. Tvö til þrjú ár af slæmu árferði myndu sennilega þurrka upp 1500 tonna byrgðir af kjöti.
Ef við viljum vera okkur sjálfbær í matvælaframleiðslu, eins og flestar eða allar þjóðir keppast að, þarf auðvitað að gera ráð fyrir slíkum sveiflum, án þess að bændur sjálfir séu alltaf látnir taka skellinn. Þetta verður að vera á ábyrgð þjóðarinnar.
Þróun og framfarir
Síðustu 30 til 35 ár hefur þróun og framfarir í landbúnaði verið einstakar hér á Íslandi og erfitt að finna aðra atvinnugrein til samanburðar á því sviði. Búum hefur fækkað og þau stækkað. Framleiðsla per grip hefur aukist og gripafjölda fækkað. Framleiðslukostnaður hefur lækkað verulega en mestu skiptir að verð til neytenda hefur lækkað gífurlega, sem hlutfall af launum. Ríkisstyrkir til bænda hafa verið lækkaðir verulega á þessu tímabili.
Öll framþróun er oftast af hinu góða og auðvitað er alltaf gott þegar matvælakostnaður heimila lækkar, sem hlutfall af tekjum. En þessu fylgja auðvitað svört ský. Allir stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir eru, tala um að halda landinu í byggð. Það er í algerri andstöðu við þá þróun sem orðið hefur í íslenskum landbúnað. Byggð í sumum sveitum hefur þurrkast út á þessu tímabili, aðrar standa á þröskuldi hins búanlega og í flestöllum sveitum hefur orðið veruleg fækkun.
Fyrir 35 árum þótti 300 kinda bú stórbú. Bændur höfðu gott lífsviðurværi af slíkum búum. Í dag er lágmark að vera með 600 vetrarfóðraðar kindur til að lifa af, 800 - 1000 ef staðið er í einhverjum fjárfestingum. Með sama áframhaldi er ekki langt í að þörfin verði hátt í 2000 kindur á bú, svo það geti borið sig þokkalega. Það sjá allir hver áhrif það hefur á byggð í landinu. Fá og stór bú, sem væntanlega myndu safnast í fáar sveitir, mun ekki einungis rýra landið af byggð, heldur einnig geta stuðlað að ofnýtingu á takmörkuðum svæðum, væntanlega næst stæðstu byggðakjörnunum.
Norskir stjórnmálamenn tala einnig um nauðsyn þess að halda landinu í byggð, rétt eins og þeir íslensku. En öfugt við þá misvitru íslensku, láta þeir norsku ekki nægja að tala um hlutina, þeir fylgja þeim eftir. Í Noregi er bændum gert kleyft að lifa góðu lífi af litlum búum, 200 til 250 vetrarfóðruðum kindum. Þetta er gert í nafni byggðarsjónarmiða og þykir eðlilegt þar í landi. Velji menn að vera með stærri bú, er það þeirra ákvörðun, án sérstakrar aðkomu stjórnvalda. Auðvitað er sauðfjárbúskapur í Noregi sem hlutfall af landsframleiðslu lítill, meðan hann er tiltölulega stór hér á landi. Íslenskir stjórnmálamenn verða hins vegar að fara að gera upp við sig hvort þeir vilja halda landinu í byggð eða ekki og temja sinn málflutning og aðgerðir að því.
Afstaða ráðherra
Þegar ríkisstjórn er sett saman er oftast leitast við að velja hæfustu einstaklingana til ráðherrastóls í hverjum málaflokki, þá menn sem mesta og besta þekkingu hafa í hverjum málaflokki fyrir sig.
Því kom mörgum á óvart um síðustu áramót, þegar núverandi ríkisstjórn var kynnt, að íþróttafrömuður sem uppalinn er á mölinni, var kynnt sem ráðherra landbúnaðarmála. Innan þeirra þriggja stjórnmálaflokka sem að ríkisstjórninni stendur eru til þingmenn sem hafa mjög góða og víðtæka þekkingu á landbúnaði og því kannski betur til þess fallnir að stjórna þeim málaflokki. Að hluta má rekja þetta til þess að svokallað kynjasjónarmið var metið hærra en hæfni. Ekki ætla ég að dæma um fyrri störf ráðherra, hvorki á pólitíska sviðinu né í hinu opinbera einkalífi. Þó er ljóst af störfum hennar frá síðustu áramótum, að betra hefði verið fyrir land og þjóð og ekki síst hana sjálfa, ef hún hefði látið vera öll afskipti af pólitík.
Hvað um það, í þeim vanda sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir nú, hefur þetta þekkingarleysi ráðherrans á landbúnaði opinberast. Hún er dugleg við að tala um að hagur bænda eigi að vera sem mestur og að stuðla skuli að því að halda landinu í byggð. Verk hennar eru þó í aðra átt, þ.e. það litla sem hún hefur gert. Verslun og þjónusta stendur næst hennar hjarta í verki, þó allir eigi hug hennar í orði.
Ráðherra er dugleg við að ræða málin, en þegar kemur að framkvæmdum fer minna fyrir hennar vilja. Í nokkra mánuði hélt hún uppi samræðu við fulltrúa bænda og kom svo loks með svar sem hægt hefði verið að gefa strax á fyrsta fundi, að engar sértækar ráðstafanir væru í boði. Og enn tönglast hún á því sama, að engin von væri um aðgerð til lausnar bráðavandanum en er tilbúin að ræða framtíðina og einhverja óskilgreinda byltingu á landbúnaðarkerfinu. Lætur sem svo að landbúnaður hér hafi verið í einhverri kyrrstöðu síðustu áratugi!
Lausn vandans
Það er auðvitað engin einföld lausn á þeim vanda sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir. Þó er deginum ljósara að þeir geta ekki tekið þann vanda á sig. Eftir 10% lækkun á afurðaverði á síðasta ári er ljóst að þar er ekki lengur borð fyrir báru. Auk þess sem afleiðingar þess að velta vandanum á bændur leiðir til enn meiri vanda. Það eina sem bændur geta gert til að vinna gegn slíkum tekjuskerðingum er að fjölga bústofni!
Kjötvinnslan berst í bökkum. Uppsöfnun byrgða lendir ekki síst á þeim. Þar má þó laga verulega til. Framsetning vara til neytenda hefur batnað mikið undanfarna áratugi og stórátak verið gert á því sviði. Þegar árangur næst fagna sumir, en vandinn er að halda þróuninni áfram. Því miður virðist sem kjötvinnslan hafi stöðvast í sinni þróun, kannski ofmetnast.
Það þarf stundum lítið til að gera mikið. Sú gífurleg fjölgun erlendra ferðamanna sést ekki í sölu lambakjöts, jafnvel þó á boðstólnum sé fyrirtaks hráefni fyrir það fólk sem hér ferðast um landið á eigin vegum. Bara það eitt að setja merkingar á ensku á pakkningarnar gæti aukið söluna, erlent ferðafólk kaupir ekki það sem það veit ekki hvað er. Þá mætti vinnslan einnig huga að því að hafa á boðstólnum fjölbreyttara úrval. Skoða hvernig kjöt er borið fram erlendis, s.s. þykktir sneiða og fjöldi í pakkningu. T.d. er mikið af ferðamönnum sem hingað koma frá Bandaríkjunum. Þar þekkjast ekki þunnar grillsneiðar, þeir vilja þær þykkar. Svona smávægilegar breytingar kosta nánast ekki neitt En hugsanlega gæti árangurinn orðið nokkur. Þetta eitt og sér leysir þó ekki vandann og alls ekki þann bráðavanda sem nú steðjar að. Þetta gæti hugsanlega minnkað hann eitthvað. Veitingahús vítt og breytt um landið hafa heldur ekki verið nægjanlega dugleg að bjóða lambakjötið. Þar er hellst að finna hangikjöt og stórsteikur, sem er auðvitað ágætt, en margt má þar bæta og auka söluna. Það er fullkomlega ljóst að flestir ferðamenn koma ekki hingað til lands til að metta einungis augum, þeir vilja einnig kynnast dásemdum fæðunnar.
Verslunin er eini hlekkurinn á matvælakeðjunni sem virðist fitna. Það er með ólíkindum að verslun, sem gerir það eitt að taka við matvælum frá vinnslustöðvum, selja þau og skila síðan til baka því sem ekki selst, skuli fá svipaða krónutölu fyrir hvert kíló og bóndinn, sem leggur alla sína vinni í að lágmarki 18 mánuði til að framleiða það kíló. Það er eitthvað verulega skakkt við þetta. Við vitum í dag að verslunin hefur svínað á neytendum undanfarna áratugi. Þar hafa engar hömlur verið á. Það er með ólíkindum að til hafi þurft erlenda verslunarkeðju til að opinbera þetta. Hvar er samkeppniseftirlitið? Er það svo upptekið við að fylgjast með því hvort vinnslustöðvar í landbúnaði sé að fara að lögum ? Er verslunin bara stykk frí í augum eftirlitsins?
Umframframleiðsla í landbúnaði er eitthvað sem nauðsynlegt er að hafa, svo landið geti talist sjálfbært í matvælaframleiðslu. Þetta er eitthvað sem aðrar þjóðir skilja, en einhverra hluta vegna virðast Íslendingar ekki skilja þessa einföldu staðreynd. Hugsanabreytingu þarf, það þarf að nást sátt um þetta, svona sátt eins og allar siðaðar þjóðir hafa náð. Þetta kallar auðvitað á að stjórnvöld séu tilbúin að fjármagna einhvern hluta þeirrar umframframleiðslu, svona rétt eins og aðrar þjóðir gera. Á þessu þurfa auðvitað að vera takmarkanir.
Það vekur ugg að hlusta á forsvarsmenn bændastéttarinnar tjá sig um vanda sauðfjárframleiðslunnar. Gamaldags hugsun, eins og útflutningskylda og úreldingarstyrkir eru þar efst á blaði. Þetta er ekki lausn vandans, heldur mun auka hann verulega. Verði ekkert að gert er ljóst að mikil úrelding verður í sauðfjárbúskap, margir munu leggja upp laupana. Það mun skapa enn meira offramboð á kjöti. Það sama á við um úreldingarstyrki. Sá vandi mun síðan fylgja sauðfjárframleiðslunni um einhver ár, jafnvel áratug. Útflutningsskylda er einhver óskiljanleg aðgerð. Það á að selja það kjöt úr landi sem selst, á viðunnandi verði. Þar má vissulega taka til hendinni og bændaforustan kannski ekki staðið sig sem skyldi í því. Hvers vegna í ósköpunum er verið að leggja áherslu á sölu lambakjöts í miðborg New York? Flestir þar sem einhverja peninga hafa nærast á matsölustöðum. Við þurfum einnig að átta okkur á því að stórir markaðir eru kannski ekki það sem þarf. Þar getur eftirspurn hæglega verið fljót að fara yfir framleiðslugetu og ef eftirspurn er ekki sinnt er mikil hætta á að viðkomandi markaður lokist. Við eigum að leita að smærri mörkuðum, í þeim löndum sem lambakjötsneysla er þekkt. Ekki reyna það ómögulega, heldur leggja áherslu á það sem er gerlegt. Markaðir fyrir íslenskt lambakjöt er klárlega fyrir hendi, þarf bara að vinna skipulegar að því að finna þá. Það er auðvitað meira spennandi fyrir sölufulltrúana að ferðast til New York en t,d, einhverrar smáborgar í suður Evrópu. Þessi ranga markaðsstefna er þó ekki vandi dagsins í dag, meira vandi morgundagsins. Þrátt fyrir hana hefur sala á kjöti úr landi verið með ágætum fram undir allra síðustu ár.
Hinn raunverulegi vandi sauðfjárframleiðslunnar nú liggur auðvitað í minni útflutningi síðustu ár. Þar kemur, eins og áður segir, það helst til að misvitrir íslenskir stjórnmálamenn ákváðu að elta ESB í viðskiptaþvingunum á Rússa. Uppsöfnun nú er nánast sú sama og samdrátturinn vegna þess viðskiptabanns hefur skapað. Menn geta haft hinar ýmsu skoðanir á tilefni þeirra þvingana, haft misjafnar skoðanir á því hvort við áttum að elta ESB í þeim, en það breytir litlu. Staðreyndin er sú að þetta var gert og afleiðingarnar fyrir okkur Íslendinga urðu miklar, mun meiri en nokkur önnur þjóð þurfti að glíma við. Og þar sem þetta var gert, hljóta stjórnvöld að vera ábyrg fyrir afleiðingunum og bæta tapið, svona rétt eins og allar aðrar þjóðir sem að þessum þvingunum stóðu, gerðu. Þetta eru ekki neinar sértækar aðgerðir, einungis hluti þess að elta ESB í þvingunum á Rússa. Þarna liggur lausn þess bráðavanda sem bændur standa frammi fyrir.
Um langtímavanda í Íslenskum landbúnaði er vart að ræða. Þó verður að stemma stigu við enn meiri samþéttingu landbúnaðar, ef ekki á illa að fara. Þó skaði þess fyrir byggð í landinu sé orðinn verulegur nú þegar, er enn hægt að snúa af þessari braut. Langtímamarkmið í landbúnaði hlýtur því að vera endurskoðun landbúnaðarsamnings í þá veru að byggð haldist. Fram til þessa hafa allar breytingar á þeim samningi verið í hina áttina.
Lokaorð
Það er ljóst að leysa þarf bráðavanda sauðfjárbænda hið snarasta. Annars fer illa og vandinn mun aukast verulega, með enn meiri uppsöfnun sem jafnvel gæti orsakað að farga þurfi heilbrigðu og úrvals kjöti. Þar með værum við komin marga áratugi aftur í tímann, auk þess sem förgun á heilbrigðum og góðum matvælum er aldrei réttlætanleg. Því er nauðsynlegt að samþykkt Alþingis um viðskiptabann á Rússa verði framkvæmt til fullnustu, með aðkomu ríkissjóðs að tapi þeirra sem á því tapa.
Taka þarf upp landbúnaðarsamninginn með tilliti til byggðarsjónarmiða. Þar mætti t.d. leita til Noregs og annarra dreifbýlla þjóða og skoða hvernig þær hafa þetta. Jafnvel Bandaríkin halda byggðasjónarmiðum hátt á lofti, í dreifðari byggðum.
Í öllu falli verða stjórnvöld að koma að lausn skammtímavandans og það fyrr en seinna. Ráðherra getur ekki og má ekki svíkjast undan þeirri skyldu sinni! Einungis eru örfáir dagar þar til slátrun hefst og margir bændur farnir að hugsa alvarlega um að hætta. Eftir nokkra vikur verður of seint að gera nokkuð, þegar fjöldi bænda hefur lagt inn allt sitt sauðfé, með tilheyrandi margföldum þess vanda sem fyrir er. Þann vanda verður erfitt að leysa og mun fylgja okkur um mörg ár og enda síðan með þeirri skelfingu að allt of fátt fé verður í landinu til að halda uppi kjötframleiðslu fyrir landsmenn. Heilu byggðirnar munu leggjast af og aðrar svo fámennar að erfitt eða útilokað verður að halda þar uppi landbúnaði.
Eftir mun sitja fátækt Ísland!!
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lög nr.73/2001
27.4.2017 | 20:31
Eitthvað virðast stofnanir ríkisins vera utangátta. Samkvæmt lögum 73/2001 eru ákvæði um fólksflutninga á landi alveg skýr, hvaða leifi þarf, hver veitir þau leifi og hvernig farið skuli með þá sem ekki fara að þessum lögum. Samkvæmt þessum lögum starfa allir innlendir aðilar og því ætti Samgöngustofu að vera full ljóst um tilveru þessara laga. Það vekur því furðu að nú telji hún þessa starfsemi "falla milli laga".
Varðandi kjaramál þeirra sem starfa hjá þessum erlendu fyrirtækjum hér á landi, þá á ASÍ og aðildarfélög þess að hafa fullt vald til að taka á þeim vanda. Það eru í gildi kjarasamningar í landinu og eftir þeim skal farið, þar fellur ekkert milli laga. Þetta veit Halldór, þó hann virðist helst vilja að einhverjir "aðrir" taki á vandanum.
Um skattaundirskot þessar erlendu fyrirtækja er það eitt að segja að meðan til þess bær eftirlitskerfi, Samgöngustofa og ASÍ, ekki standa sig í sínu hlutverki, er andskoti erfitt fyrir skattayfirvöld að taka á málinu. Það er erfitt að skattleggja það sem hvergi er til á blaði.
Það er því lítil tilgangur að kalla saman fjölda fólks, víðs vegar úr stjórnkerfinu vegna málsins og einungis til þess eins að þæfa það og tefja lausnir. Í raun snýr þetta vandamál fyrst og fremst að Samgöngustofu og ASÍ og þeirra að leysa það. Vel getur hugsast að aðstoðar þurfi frá lögreglu til lausnar málsins og þá verður svo að vera.
Ástæða þess að erlendir aðilar flæða inn á íslenskan ferðamarkað er fyrst og fremst vegna þess að þeim er leift slíkt, að viðkomandi aðilar sem eftirlitinu eiga að framfylgja, eru ekki að standa sig. Lögin eru til staðar, kjarasamningar eru til staðar og því ekkert sem stendur í veginum.
Ef íslenskur aðili kaupir sér rútu og fer að praktísa með hana án tilskilinna leifa, eru þessar stofnanir fljótar til, mæta með lögreglu og stöðva starfsemina.
Hvers vegna ekki þegar erlendir aðilar stunda sömu lögbrot?!
Lítið eftirlit með erlendum fyrirtækjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Gott þegar vel gengur
11.4.2017 | 08:27
Það er gott þegar fyrirtækjum gengur vel og eigendur þeirra geta greitt sér arð.
Hins vegar stingur mann að HB Grandi skuli ætla að loka allri bolfiskverkun á Akranesi, vegna þess eins að tímabundin hagnaður af þeirri vinnslu er ekki eins mikill og eigendur hefðu viljað.
Sá arður sem eigendur HB Granda tekur sér nú samsvarar launum allra kvennanna sem vinna í bolfiskverkun fyrirtækisins á Akranesi, í heil fimm ár!! Þær konur standa nú frammi fyrir atvinnuleysi og fæstar þeirra eiga möguleika á annarri vinnu í heimabyggð.
Ef einhverjir hafa tilefni til að skammast sín, þá eru það eigendur HB Granda!!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Einvaldurinn í Guðrúnartúninu
28.2.2017 | 21:46
Hver færði forseta ASÍ það vald að ákveða örlög launafólks í landinu? Hvaða heimild hefur hann til að ákveða frestun á opnun kjarasamninga, þegar forsendubresturinn er staðfestur?
Þegar síðustu kjarasamningar voru gerðir var það án allrar aðkomu ASÍ. Eftir bitra reynslu ákváðu launþegar að heimila EKKI sínum stéttarfélögum að afhenda sambandinu samningsréttinn.
Í þessum samningum var ákvæði um endurskoðun um hvort forsendur kjarasamningsins stæðust. M.a. var ein slík endurskoðun nú í febrúar. Af einhverjum óþekktum ástæðum hefur forseti ASÍ staðið í þessari endurskoðun, sem fulltrúi launþega. Ekki minnist ég þess að launþegar hafi verið spurðir um hvort þeir treystu þeim manni til verksins, en kannski skiptir það ekki öllu máli. Endurskoðunin sjálf er í sjálfu sér einföld, skoðað er hvernig staðið hefur verið við þau loforð sem í samningnum fólust. Í ljós kom, eins og flestir hugsandi menn vissu, að forsendubrestur varð á kjarasamningnum. Þar með er kjarasamningurinn laus, opinn. Ekkert ákvæði var í kjarasamningnum að semja mætti um slíka opnun, samningurinn einfaldlega opnast ef forsendur standast ekki. Einfalt og auðskiljanlegt fyrir flesta.
Auðvitað getur sú staða komið upp, eins og hugsanlega má segja að sé nú uppi, að ekki sé skynsamlegt að opna samningana og betra sé að semja um frestun þess. Þá ákvörðun geta og meiga hins vegar launþegar einir taka. Formenn stéttarfélaga hafa ekki það ákvörðunarvald og enn síður forseti samtaka stéttarfélaga.
Þá var ömurlegt að hlusta á viðtal við forseta ASÍ í kvöldfréttum ruv. Ekki einungis talaði hann þar eins og hann væri einhver fulltrúi launþega landsins, heldur blandaði þar saman ótengdum málefnum og ruglaði beinlínis út í eitt. SALEK samkomulagið var honum þar hugleikið, eins og áður, þó launþegum hafi að gæfu tekist að gera síðasta kjarasamning án þess að spyrða þann ófögnuð saman við hann. Því kemur SALEK samkomulagið ekkert við endurskoðun kjarasamnings nú.
SALEK samkomulagið er hugðarefni SA og forseta ASÍ. Launþegar hafa aldrei lagt blessun sína yfir það samkomulag, enda ekki annað en skelfing sem það samkomulag getur leitt yfir launafólk. Nú er það samkomulag fullkomlega fallið um sjálft sig, þar sem einn stæðsti aðilinn að því, sjálft ríkið, hefur engan vilja til að fara eftir því. Forseti ASÍ, sem í óleyfi launþega hefur unnið að þessu samkomulagi, verður að átta sig á að hann kemst ekki lengra með það, sama hvað vinir hans í SA segja.
Allt frá því núverandi forseti ASÍ settist í þann stól sem hann vermir, hefur hann ljóst og leynt unnið gegn launþegum þessa lands. Hann á að skammast til að segja sig frá þessu starfi og það strax!!
Kjarasamningum ekki sagt upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hátt hreykir heimskur sér
19.2.2017 | 09:30
Þorgerður Katrín, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra hrópar húrra fyrir sjálfri sér. Þykist hafa unnið stórsigur.
Kjaradeila sjómanna nú, er (var) einhver sú erfiðasta hingað til. Þegar loks kom að því að deiluaðilar náðu saman stóð eitt mál útaf, skattur á matar og dagpeninga. Um réttlæti þess afsláttar má lesa í síðasta pistli mínum og ætla ég ekki að fjölyrða um það hér, en ítreka að starfsfólk ráðuneyta, þ.m.t. ráðherrar njóta slíkra fríðinda, jafnvel þó allur kostnaður sé greiddur.
Deiluaðilar mættu á nokkra fundi með ráðherra og reyndu hvað þeir gátu að koma henni í skilning um hvað málið snerist, en ráðherra gaf sig ekki. Það var svo loks í fyrrakvöld sem ráðherra mætti á fund deiluaðila með "sáttatillögu". Ekki hefur fengist upp gefið hvað fólst í þeirri tillögu, en samningsaðilar höfnuðu henni, kannski vegna þess að ráðherra veifaði byssu um lögbann, ef ekki væri gengið frá samningi. Reyndar hefur ráðherra sagt að hún hafi ekki hótað neinu, þó hún gerði deiluaðilum ljóst að lögbann yrði sett á verkfallið, ef ekki væri samið. Hvernig ráðherra skilgreinir hótun verður hún auðvitað að hafa fyrir sig.
Eftir þennan fund með ráðherra settust samningsaðilar niður og gengu frá samningi, enda ekki um annað að ræða. Lausnin fólst í að útgerðin greiði matinn fyrir sjómenn. Nú veit ég ekki hvort í tillögum ráðherra var að sú lausn myndi leysa sjómenn undan því að greiða skatt af fæðishlunnindum, að öðrum kosti breytir engu fyrir sjómenn þó útgerðin skaffi þeim frítt fæði. Hafi, hins vegar, í tilboði ráðherrans falist loforð um skattleysi á matarhlunnindi, er ljóst að kostnaður ríkisins verður mun meiri en ef skattleysi á matarpeninga hefði verið samþykk. Það hefur komið fram að þessi breyting á kjarasamningnum mun kosta útgerðina töluverða peninga og þann kostnað mun hún auðvitað setja inn í reksturinn. "Tapaðar" skatttekjur ríkisins munu því verða umtalsvert hærri með þessari lausn, en ef gengið hefði verið að kröfum sjómanna.
Ef sjómenn þurfa að greiða skatt af þessum hlunnindum, mun "tekjutap" ríkisins verða minna, þó hærra en ef matarpeningar hefðu verið gerðir skattlausir. Þá mun hins vegar verða erfitt að fá þennan kjarasamning samþykktan.
Allir vita hvað það þíðir ef samningurinn verður felldur, ráðherra hefur sagt það sjálf. Þá verða strax sett lög á deiluna, lögbann á verkfallið. Jafnvel þó allir viti hver staðan er, skal ráðherra ekki ganga út frá því sem gefnu að samningurinn verði samþykktur. Veigamesta atriðið fyrir sjómenn er að þeir viti hvort fæðishlunnindin verða undanþegin skatti.
Ef svo er, ef ráðherra hefur lofað samninganefndunum að sjómenn yrðu undanþegnir skatti af matarhlunnindum, er ljóst að ráðherrann valdi mun dýrari leið til lausnar deilunni. Ekki verður séð annað en að það hafi þá verið vegna fádæma þrjósku. Að vegna ótímabærra yfirlýsinga á fyrri stigum málsins hafi ráðherra frekar valið dýrari leiðina en að éta ofaní sig vanhugsuð ummæli.
Slíkur ráðherra er með öllu óhæfur í starfi!!
Eitt stórt takk og húrra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Meðvituð eða ómeðvituð fáviska ráðherra
16.2.2017 | 08:51
Framkoma sjávarútvegsráðherra minnir mjög á framkomu nýkjörins forseta Bandaríkjanna. Hún hljóp fram með staðlausa stafi, strax og gagnrýni kom á hana um afskiptaleysi vegna sjómannaverkfallsins. Þvermóðskan leyfir henni síðan ekki að snúa af villu síns vega, þrátt fyrir að allar staðreyndir segi að hún hafi rangt fyrir sér.
Sjálfur er ég verkamaður í landi og vinn þannig vinnu að ég fæ greidda fæðispeninga, að hluta til utan staðgreiðsluskatts en skatt þarf ég að greiða af hluta þessa fjár. Ég fæ ekki dagpeninga, enda fer ég til vinnu heiman frá mér og kem heim aftur í faðm fjölskyldunnar að vinnuvakt lokinni. Hjá henni er ég síðan þar til næsta vakt hefst.
Ef ég væri sendur út á land, af mínum vinnuveitanda, fengi ég að sjálfsögðu dagpeninga sem munu þá innihalda fæðispeninga að auki. Það eina sem ég þarf að gera er að passa upp á allar nótur vegna fæðis og uppihalds í þeirri ferð og þar með losna ég undan skattgreiðslu af þeim dagpeningunum.
Hjá ráðuneytunum er þessu aðeins öðruvísi farið. Auðvitað fá starfsmenn þeirra, einnig ráðherrar, dagpeninga þegar farið er út fyrir höfuðborgina, en þessir aðilar þurfa hins vegar ekki að hirða um nótudraslið. Þeirra dagpeningar eru utan staðgreiðslu. Nú er það svo að þegar ráðamenn þjóðarinnar gera svo lítið að láta sjá sig í hinum ýmsu byggðum landsins, er gjarnan slegið upp veislu þeim til handa, enda ekki á hverjum degi sem slíkt mektarfólk kemur í heimsókn. Hvort til slíkrar veislu var boðið í ferð sjávarútvegsráðherra á Vestfirði, síðustu daga, veit ég ekki, en þar sem vestfirðingar eru einstaklega gestrisið fólk má fastlega gera ráð fyrir að ráðherrann hafi fengið a.m.k. eina fría máltíð í ferðinni. Dagpeningar hennar minnka þó ekkert við það.
Það liggur því fyrir að allt launafólk, utan sjómenn, fær dagpeninga þegar það þarf að stunda vinnu fjarri heimili sínu. Svolítið er misjafnt hvernig farið er með fólk varðandi skattaskil af þessum peningum,sumir þurfa að sanna kostnað á móti meðan aðrir, t.d. starfsfólk ráðuneyta, fær skattafsláttinn sjálfkrafa. Eðli málsins samkvæmt er útilokað að krefja sjómenn um kostnaðarnótur til að fá skattafslátt af dagpeningum.
Ástæðu þess að sjómenn hafa ekki þessi fríðindi eru auðvitað þekkt. Frá árinu 1957 til ársins 2009 höfðu sjómenn svokallaðan sjómannaafslátt, þ.e. ákveðinn skattafslátt af sínum tekjum fyrir hvern dag sem verið var á sjó.
Það var svo hin eina tæra vinstristjórn sem afnám þennan afslátt með einu pennastriki og sjómenn sátu eftir, eina starfstéttin á Íslandi, sem engar bætur fær fyrir að stunda vinnu fjarri faðmi fjölskyldunnar svo dögum og vikum skiptir. Sjávarútvegsráðherra kallar þessa aðgerð vinstristjórnarinnar "einföldun á skattkerfinu". Sú ríkisstjórn hefur aldrei fyrri verið talin hafa einfaldað skattkerfið hér álandi, þvert á móti.
Fram hefur komið í máli ráðherra að skattleysi á dag og fæðispeninga sjómanna muni kosta ríkissjóð yfir 700 milljónir króna. Það er ekki stór upphæð miðað við mörg kúlulánin sem afskrifuð voru eftir hrun. Þá má einnig snúa dæminu við og segja að ríkissjóður sé að ofskattleggja sjómenn um þessa upphæð.
Það sem eftir stendur er að ráðherra vill ekki eða getur ekki skilið samhengi hlutanna. Krafa sjómanna er fjarri því að vera upp á marga milljarða, eins og ráðherra lét frá sér á fyrstu stigum málsins. Krafa sjómanna er ekki nein niðurgreiðsla á launakostnaði útgerðarinnar, eins og margoft hefur oltið af vörum ráðherrans.
Krafa sjómanna er einungis að samræmis verið gætt. Að þeir fái það sama og allt annað launafólk í landinu, fái skattafslátt af dag- og fæðispeningum. Þar sem þeim er ómögulegt að leggja fram kostnaðarnótur móti þessum skatti, er eina leiðin að þetta verði tekið út fyrir staðgreiðslu, svona eins og hjá ráðuneytunum. Ef ráðherrann vill endilega að það gangi jafnt yfir allt launafólk má hæglega gera slíkt, án nokkurs kostnaðar fyrir ríkissjóð.
Samningur liggur fyrir milli sjómanna og útgerða. Ekki verður þó skrifað undir fyrr en ráðherra brýtur odd af oflæti sínu! Verkfallið er því allt hennar, hér eftir.
Ætlumst til þess að þeir klári deiluna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
"Launalækkun" þingmanna
31.1.2017 | 20:53
Daginn eftir kosningar, síðasta haust, hækkuðu laun þingmanna um heil 44%. Þetta koma vitaskuld eins og köld vatnsgusa í andlita launþega þessa lands, en fjöldi þeirra er með lægri heildarlaun en sem nam launahækkuninni einni, er þingmenn fengu. Sem dæmi nam þessi hækkun sem svarar til tæplega þreföldum ellilífeyri þeirra sem byggði landið úr örbyrgð til velsældar!
Viðbrögð almennings voru hins vegar væg, allt of væg. Sennilegasta skýring þess er að fólk vildi ekki trúa þessu óréttlæti, að svona lagað gæti einfaldlega ekki gerst hér á landi. En ákvörðunin stóð og stendur. Einstaka þingmaður hvíslaði einhver hjáróma mótmæli og þá hellst einhver þeirra sem kosinn hafði verið á þing í fyrsta sinn, daginn áður. Þeir þögnuðu þó fljótlega og síðan hafa þingmenn flestir þagað þunnu hljóði um þessa ríflegu kauphækkun, Nokkrir hafa verið svo bíræfnir að réttlæta þessa hækkun. Vonandi muna kjósendur nöfn þeirra næst þegar kosið verður.
Nú ætla þingmenn að vera svo miskunnsamir og "lækka" laun sín aftur og hafa falið forseta Alþingis að flytja það mál. Það á sem sagt að skila svona fjórðungi til baka, þannig að launahækkunin verði "bara" sem svarar tvöföldum ellilífeyri!
En skoðum þetta aðeins. Sagt er að "lækkun" launa þingmanna verði sem svarar 150 þúsund krónum á mánuði. Eitthvað vefst þó fyrir mér reiknisdæmið sem forseti leggur fyrir þingið. Þar er talað um að lækka ferðakostnað um 54 þúsund krónur og að það sé ígildi 100 þúsund króna. Ef ferðapeningur þingmanns lækkar um 54 þúsund krónur, þá er það væntanlega lækkun launa hans um 54 þúsund krónur. Hvert ígildi lækkunarinnar er skiptir ekki máli, ekki frekar en hvert ígildi launahækkunarinnar var. Þá hélt ég í fávisku minni að þingmenn fengju ferðapeninga eftir því sem þeir þurfa að ferðast, vegna þingstarfa. Að sú fjárhæð væri fyrir ferðalög, en ekki einhver föst upphæða, jafnt yfir línuna. Ef allir þingmenn fá þessa upphæð, óháð því hversu mikið þeir þurfa að ferðast í sínu starfi, er þetta ekki ferðapeningur, heldur dulbúin launahækkun.
Þá er lagt til að starfskostnaður lækki um 50 þúsund krónur á mánuði. Ekki veit ég hver sá kostnaður er, en ljóst er að hann er eitthvað hærri, kannski mun hærri. Annars myndi verða sagt að sá kostnaður myndi verða afnuminn en ekki lækkaður.
Ég vil taka skýrt fram að ég er ekki háskólamenntaður í stærðfræði og ígildi launahækanna er mér ókunnugt hugtak. Mér sýnist að "lækkun" launa þingmanna muni einungis verða um 104 þúsund krónur á mánuði. Eftir stendur vel væn launahækkun sem þeim var færð á silfurfati, langt umfram það sem aðrir þegnar þessa lands geta látið sig dreyma um, nema kannski bankamenn og aðrir þeir sem véla með auð landsmanna.
Vera má að þjóðinni þyki þetta vera höfðinglegt af þingmönnum, að "lækka" laun sín svona. Að þarna sé komin tala sem almenningur skilur, er nær þeirra raunveruleika.
Aumingjaskapur þingmanna felst hins vegar í því að setja ekki strax lög sem afnema þá gígatísku hækkun sem þeim var færð og láta sér duga sömu launahækkun og almenningur þurfti að sætta sig við. Jafnvel þó prósentan hefði verið notuð, hefði það verið ásættanlegra en svívirðan sem kjararáð færði þeim. Þessi lög áttu þingmenn að koma sér saman um strax og þing kom saman fyrir jól og afgreiða þau á einum degi!
Allur leikaraskapur og öll þau leikrit sem þingmenn setja upp um þetta mál, er þeim til háborinnar skammar. Meðan stórir þjóðfélagshópar eru með laun langt undir þeirri hækkun sem þeim var færð og meðan þeir sem byggðu upp það samfélag alsnægta sem við búum við, byggðu það upp úr engu, fá skammtaða smáaura til framfæris, ætti þingmenn að sjá sóma sinn í að afnema það órétti sem kjararáð færði fram fyrir þjóðina, daginn eftir þingkosningar.
Þingmenn eru þjónar þjóðarinnar, ekki öfugt!!
Leggur til lægri greiðslur til þingmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)