Færsluflokkur: Kjaramál

Guð blessi þjóðina

Enn standa stjórnvöld við drullupollinn og pota í hann með priki. Engin áform virðast vera að reyna að ausa drullunni úr honum, svo fært verði yfir.

Lán með 100% ríkisábyrgð hljómar vel. En þegar lengra er lesið verður ljóst að þessi aðgerð mun gagnast fáum. Fyrir það fyrsta eru settar hömlur á það hverjir geta fengið slíka ábyrgð og í öðru lagi er sú upphæð sem boðist er til að ábyrgjast svo lág að engu mun breyta. 6 miljóna hámark til fyrirtækja sem enga innkomu hafa fengið í nokkrar  vikur og fyrirséð að enga innkomu munu fá næstu mánuði, gerir ekkert gagn. Því má ljóst vera að flest eða öll þau lán sem tekin verða með slíkri ábyrgð munu lenda á ríkissjóð. Fyrirtækin fá einungis örlitla lengingu í hengingarólinni, sem að lokum mun strekkjast að.

Þessi viðbót við áður boðaðar aðgerðir munu því litlu breyta. Þær eru flestar byggðar á frestun greiðslna eða aukinni lántöku. Fyrir flest fyrirtæki í ferðaþjónustu er aukin lántaka bjarnargreiði. Frestun skattgreiðslna mun einnig koma í bak fyrirtækja, enda kemur þar að skuldadögum.

Fjármálaráðherra telur að kostnaður ríkissjóðs vegna veirunnar muni geta numið allt að 250 milljörðum króna. Ekki mun sá kostnaður þó hljótast af aðgerðum stjórnvalda, heldur aðgerðarleysi og líklegt að með sama aðgerðarleysi muni tapið verða mun meira.

Fram til þessa hefur verið einblínt á að hjálpa fyrirtækjum landsins, þó ekki hafi stjórnvöldum auðnast að finna til þess neinar virkar leiðir. Það er í sjálfu sér góðrar gjalda vert að huga að því að halda uppi atvinnu fyrir fólkið, en eins og áður sagði hefur stjórnvöldum ekki tekist vel til við það verk. Nú þegar eru 50.000 manns komnir á atvinnuleysisbætur.

En það er til lítils að bjarga fyrirtækjum landsins, ef ekki er hugað að því að gera fólki kleyft að búa hér áfram. Þó fjármálaráðherra átti sig ekki á þeirri einföldu staðreynd, sem allt hugsandi fólk skilur, að sú kreppa sem er að skella á okkur og allri heimsbyggðinni, muni leiða til verðbólgu af stærðargráðu sem ekki hefur sést hér á landi í nærri hálfa öld, er ljóst að svo mun verða. Flest heimili landsins eru undir hæl bankanna og skulda í sínum fasteignum. Verðtryggð lán munu stökkbreytast og svo mun einnig verða með óverðtryggð lán, þar sem vextir þeirra eru í flestum tilfellum bundnir með einum eða öðrum hætti við verðtrygginguna.

Ákalli hagsmunasamtaka heimilanna um að verðtrygging yrði fryst meðan stærsti skaflinn skellur yfir, svaraði ráðherrann að "slíkt væri flókið og að viðtakandi væri á hinum endanum". Frekar ósmekklegt svar sem segir manni að ráðherra gefur skít í fólkið.

Það er fjarri því að það sé flókið að frysta verðtrygginguna, reyndar ekki heldur flókið að afnema hana, ef því er að skipta. Það kostaði eina undirskrift að setja hana á á sínum tíma, var þá sett á bæði lán og laun. Þrem árum síðar var með einni undirskrift afnumin verðtrygging launa og því ætti ekki að kosta  meira en eina undirskrift að afnema verðtryggingu lána. En það var ekki afnám verðtryggingar sem HH fór fram á nú, einungis frystingu á meðan stærsti skaflinn gengur yfir. Að koma í veg fyrir að sömu mistök yrðu gerð nú og voru gerð haustið 2008, með skelfilegum afleiðingum. Og það er mikið rétt hjá ráðherranum, það er viðtakandi á hinum endanum, "hinir ósnertanlegu" þ.e. lífeyrissjóðirnir og bankarnir. Í bókum sínum segjast lífeyrissjóðirnir eiga um 4.000 milljarða króna, fjárhæð sem erfitt er að gera sér í hugarlund, reyndar svo há að marga tugi tæki þá að tæma bækur sínar með greiðslum lífeyris, þó engar tekjur væru. Tveir af þrem bönkum landsins eru að stærstum hluta í eigu ríkissjóðs, sá þriðji í erlendri eigu. Frá hruni hafa þeir hagnast um hundruð milljarða hver. 

Það er nokkuð magnað hvaða tök lífeyrissjóðir og bankar hafa á stjórnvöldum og skiptir þar litlu máli hvaða flokkar eru við stjórn. Frysting verðtryggingar mun að sjálfsögðu minnka tekjustreymi þeirra um einhvern tíma, en sú upphæð er þó smámunir miðað við allur sá austur spákaupmennska stjórna þeirra hefur dregið út úr þeim. Þá ætti sjálfur fjármálaráðherra að átta sig á að stór hluti þeirra fjármuna sem lífeyrissjóðir telja sig eiga, eru í raun eign ríkissjóðs.

Haustið 2008 bað þáverandi formaður Sjálfstæðisflokks guð að blessa þjóðina. Núverandi formaður er greinilega á öðru máli!


mbl.is Lán með 100% ríkisábyrgð fyrir minni fyrirtæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rekstrargrundvöllur Íslands

Hvernig í ósköpunum gat það gerst að þessi kona gat orðið ráðherra? Það örlar ekki fyrir einföldustu skynsemi hjá henni.

Þegar eitt af stærstu fyrirtækjum landsins gefur það út að grundvöllur þess sé fallinn og eina sem gæti komið í veg fyrir lokun þess sé upptaka á raforkusamningi, segir ráðherra að ekki sé tímabært að skoða hvaða  áhrif það hefur fyrir þjóðfélagið að af þeirri lokun verði! Og þegar forsvarsmenn leita ásjár hjá ráðherra, vegna þvermóðsku forstjóra Landsvirkjunar, vísar hún þeim á dyr og segir að þarna sé um samning milli tveggja fyrirtækja að ræða. Vísar þeim í fang þess er setti snöruna um háls þeirra! Hvers vegna heldur ráðherra að leitað hafi verið til hennar? Áttar hún sig ekki á þeirri einföldu staðreynd að búið er að reyna að ná sambandi við þann sem heldur um hinn enda snörunnar?

Forsætisráðherra komst þó örlítið betur frá málinu, talaði um að skoða þyrfti samkeppnisgrundvöll stórfyrirtækja á landinu. Væntanlega á hún þar við að með því að setja málið í nefnd muni það lagast.

Það er ekki stór mál að skoða samkeppnisgrundvöll fyrirtækja, meðan tekjur eru lægri en gjöld er grundvöllurinn ekki til staðar. Svo hefur verið hjá Ísal frá því að nýr orkusamningur tók gildi við það fyrirtæki landsmanna sem selur því orkuna. Því er ljóst að grundvöllurinn er brostinn, verði ekki að gert hið bráðasta.

Frekar ætti að skoða hver rekstrargrundvöllur Íslands er, falli stóriðjan. Fyrsta fyrirtækið í fallinu verður Ísal, Elkem er skammt á hælum þess og Norðurál mun fylgja í kjölfarið. Bara við það eitt að missa Ísal mun skerða rekstrargrundvöll Íslands niður fyrir það level er afætur þjóðarinnar í 101 þola. Að ekki sé nú talað um rekstur grunnþjónustunnar. Enn verra verður ástandið þegar fleiri falla. Það er nefnilega enginn annar kaupandi af orkunni, svo einfalt sem það er!

Þá má ekki gleyma þeim sem beinlínis lifa á þessum fyrirtækjum, starfsmenn þeirra og minni fyrirtæki sem þjóna stóriðjunni. Þarna er verið að tala um fleiri þúsund manns sem munu missa sitt lífsviðurværi.

Landsvirkjun er í eigu landsmanna, Alþingi ber ábyrgð á fyrirtækinu og skipar stjórn. Stjórn þess ræður síðan forstjóra. Framkoma og framferði forstjórans ber þó ekki merki þess að um fyrirtæki landsmanna sé að ræða, hann hagar þvert á vilja eigenda, en sjálfsagt vel studdur stjórn Landsvirkjunar. Enda ekki ónýtt að hafa þar næst sér lögfræðinginn "góða" sem stjórnaði kjararáði. Þegar síðan forstjórinn og stjórnarformaðurinn verða búnir að rústa þessu gullepli landsmanna, setja það á hausinn vegna þvermóðsku við stærstu orkukaupendurna, munu þeir sjálfsagt fá væna starfslokasamninga!

Stjórnvöld verða að vakna, þau verða að grípa inní áður en lengra er haldið. Taka völdin af stjórn Landsvirkjunar og forstjóra þess. Ef lagabreytingu þarf til verksins á einfaldlega að breyta þeim lögum strax!

Við erum þegar komin með annan fótinn fram yfir bjargbrúnina. Þökk sé misvitrum forstjóra Landsvirkjunar og kjark- og getulausum ráðherrum ríkisstjórnarinnar!!


mbl.is „Hættum nú að tala þetta niður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarkleysi stjórnvalda

Það er ljóst að stjórnvöld eru að glata landinu í eymd, vegna aumingjaskapar, kjarkleysis og þægð við esb!

Vegna samninga um byggingu orkufreks iðnaðar á landinu, um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar, hófst stórsókn í orkuframleiðslu á Íslandi og upphafið að dreifikerfi um allt land hófst. Þetta var einungis hægt vegna samninga um byggingu álvers á landinu, fé fékkst ekki til framkvæmda að öðrum kosti. Því má með sanni segja að álverið í Straumsvík hafi lagt grunn að því þjóðfélagi sem nú þrífst hér á landi, rafmagn á hverju heimili og öll sú velsæld sem því fylgir.

Samhliða þessu var Landsvirkjun stofnuð og um hana sett eigendastefna. Í henni var skýrt tekið fram að verð orkunnar til einstaklinga ætti að endurspegla rekstur fyrirtækisins, með öðrum orðum að eftir því sem skuldir lækkuðu ætti að gefast möguleiki á að lækka verð orkunnar. Allt frá upphafi hefur stóriðjan fengið orkuna á lægra verði en einstaklingar, sem er auðvitað eðlilegt. Stór orkukaupandi, jöfn notkun yfir 24/7/365  og dreifing orkunnar einföld. Þetta er öllum ljóst sem vilja skilja. Þrátt fyrir það er það fyrst og fremst sala á orku til stóriðjunnar sem hefur greitt niður lán vegna bygginga orkuvera, enda stóriðjan langstærsti orkukaupandinn. Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að af stóriðjunni hefur fjöldi fólks sitt lífsviðurværi, allt frá verkafólki upp í mikið menntað fólk. Einhver þúsund einstaklinga vinna beint innan þessara fyrirtækja, mun stærri hópur hefur tekjur óbeint af þeim.

Blikur birtust á himni í upphafi þessarar aldar, þegar misvitrir og kjarklausir stjórnmálamenn létu véla sig til samþykkis þess að orka yrði skilgreind sem vara og því hluti EES samningsins. Þegar orkupakkar eitt og tvö voru samþykktir var gullfyrirtækið okkar landsmanna, Landsvirkjun, skipt upp í einingar, orkuvinnslu og dreifingu. Eigendastefna fyrirtækisins féll úr gildi og ekki var hugsað til þess að endurnýja hana. Nú er engin eigendastefna um Landsvirkjun lengur og stjórn fyrirtækisins ásamt misvitrum forstjóra, haga sér eins og þeim sýnist og hugsa hvorki um þjóð né þjóðarhag. Horfa vonaraugum yfir hafið og bíða. Þau fyrirtæki sem lögðu grunnin að Landsvirkjun og hafa skapað vöxt þess, eru ofsótt af forstjóranum, sem ekki virðist skilja verkefni sitt.

Það er þó ekki við stjórn eða forstjóra fyrirtækisins að sakast, heldur liggur sökin alfarið hjá stjórnvöldum. Þau eiga að sjá til þess að til sé eigendastefna yfir fyrirtækið og að henni sé hlýtt. Stjórnvöld og Alþingi skipa stjórn þess og stjórnin ræður forstjórann. Þegar þetta fólk sýnir slíkan vanþroska í samskiptum við þá aðila sem halda í þeim lífi, sem forstjórinn undir handleiðslu stjórnar LV hefur sýnt, ber stjórnvöldum tafarlaust að grípa inní. Þetta átti að vera búið að gera fyrir löngu síðan.

Verði ekkert að gert hið bráðasta, mun hér leggjast eymd yfir landið. Stóriðjan leggst af, þúsundir fólks missir sitt lífsviðurværi, gjaldeyristekjur munu skerðast langt niður fyrir það sem gerlegt er og Landsvirkjun missir um 80% af sölu raforku, sem sennilega mun setja það fyrirtæki á hausinn!

Í framhaldinu munu þeir feysknu innviðir landsins sem enn standa, endanlega bresta. Landið verður óbyggilegt!

Forstjóri Landsvirkjunar hefur farið mikinn í fjölmiðlum að undanförnu og haldið því fram að verð á orku til stóriðju sé sambærilegt hér á landi og í Evrópu. Fyrir það fyrsta fer hann þar með rangt mál, orkan hér er dýrari og sýnt hefur verið fram á það. Í öðru lagi er staðsetning okkar lands með þeim hætti að jafnvel þó orkuverð hér væri sambærilegt við Evrópu þá dugir það ekki til. Það hefur alla tíð verið vitað að hér þarf það að vera ívið lægra vegna legu landsins.

Menn geta haft mismunandi skoðun á stóriðjunni en það breytir ekki þeirri staðreynd að hún er ein af grunnstoðum okkar þjóðfélags. Skapar hér mikla vinnu, bæði beint og óbeint, skapar hér gjaldeyri sem okkur er nauðsynlegur og er undirstaða þess að hér var hægt að byggja upp og reka orkukerfi öllum landsmönnum til hagsbóta. Þessum staðreyndum verður ekki breytt, hvað svo sem menn segja. Ekki er hægt að sækja meira í sjávarútveginn, hann er fullnýttur og ferðaþjónustan er fallvölt og viðkvæm. Gætum allt eins verið að sjá þar tímabundið hrun á þessu ári, vegna mannskæðrar veiru frá Kína.

Stjórnvöld verða því að grípa inní strax. Kjarkleysið sem einkennt hefur stjórnmálamenn er ekki lengur í boði!!


mbl.is Rio Tinto meinar undirskrift nýs kjarasamnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem máli skiptir

Hvort verðið er of hátt eða ekki má endalaust deila. En það er þó ekki það sem skiptir máli, heldur hitt hvernig við ætlum að nota orkuna. Hvort við ætlum áfram að nýta hana til virðisauka hér innanlands eða hvort við viljum að virðisaukinn flytjist úr landi. Sjálf krónutalan fyrir hverja MW/h mun ætið verða deiluefni, seljanda þykir hún of lág, kaupandanum of há og svo koma alltaf einhverjir sem telja sig geta grætt á öðru hvoru og útvarpa speki sinni eftir því hvað hentar.

Það er ljóst að stóriðjan hefur fram til þessa greitt nægjanlega hátt verð fyrir orkuna og reyndar gott betur. Upp undir 80% raforkunnar sem hér er framleidd er seld stóriðjunni og það verð sem hún greiðir hefur dugað til að greiða allan virkjanakostnað á landinu. Reyndar gott betur. Þetta sýna ársreikningar orkufyrirtækjanna glöggt. Landsvirkjun er t.d. farin að skila vænum hagnaði þrátt fyrir að hækkanir á orkuverði til stóriðju séu rétt að taka gildi núna þessa dagana. Og ekki er hægt að tala um að almennir notendur séu að niðurgreiða orkuna, verðið hér á landi mun lægra en erlendis. Það er hins vegar nýmæli að Landsvirkjun hefur ekki boðið upp á svokallaða umframorku um nokkuð skeið, þá orku sem til þarf að vera vegna álagstoppa annarra notenda en stóriðjunnar. Frekar en að selja þá orku á lægra verði velur Landsvirkjun að láta þá orku ónýtast í kerfinu. Þetta bitnar ekki hvað síst á garðyrkjubændum. Ríkissjóður hefur aldrei þurft að leggja orkufyrirtækjum til eina krónu, allt frá því uppbygging kerfisins hófst fyrir alvöru á miðjum sjöunda áratug síðustu aldar. Sú uppbygging gat hafist með tilkomu stóriðju hér á landi. 

Ekki ætla ég að elta ólar við ummæli forstjóra Landsvirkjunar. Hann virðist lokaður í eigin heimi. Jafnvel þó eðlilegt sé að hann keppist að sem hæstu verði, verður að segjast að skynsemi virðist alveg gleymt að planta sér í kolli hans.

Vill Bigg, formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur verið duglegur að benda á hvaða rugl er í gangi innan Landsvirkjunar. Fyrir það hafa sumir reynt að tengja hann við stóriðjuverin, sagt hann handbendi þeirra. Það er þó stór misskilningur, Villi er einungis að hugsa um þau þúsundir starfa sem eru í húfi á starfssvæði hans, enda hlutverk formanna verkalýðsfélaga að standa vörð um störf sinna félagsmanna. Forstjóri Landsvirkjunar undrar sig á að formaður verkalýðsfélags skuli hafa einhverja hugmynd um þá hækkun sem Elkem þarf að sæta, að um málið hafi átt að ríkja þagnarskylda. Það þarf helvíti skerta hugsun til að geta ekki áttað sig á hver sú hækkun er, svona nokkurn vegin, þegar þagnarskyldan náði einungis yfir krónutöluna en ekki prósentuna. Ársreikningur fyrirtækja er opnir, svo auðvelt er að reikna dæmið. En kannski er þetta of flókið fyrir forstjórann.

Annar maður hefur nokkuð blandað sér í umræðuna, Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri hins norska vindorkufyrirtækis Zephir Iceland. Titill mannsins segir kannski meira en nokkuð annað um hans áhuga á raforkuverði hér á landi, er vissulega að vinna vinnu sína. Þar að auki hefur Ketill verið einn helsti talsmaður þess að sæstrengur verði lagður úr landi og hefur ritað margar mis viturlegar greinar um það efni, auk þess að vera gjarnan kallaður fram af fjölmiðlum sem "ráðgjafi" á því sviði. Hafi fréttamaður viljað tefla fram fleiri sjónarmiðum um málið en forstjóra LV og formanns VLFA, skaut hann vel yfir markið. Harðari andstæðing þess að virðisauki orkuauðlindarinnar verði til hér á landi er sennilega vandfundinn. Hjá honum er eitt megin stef, verðið á raforkunni er aldrei nægjanlega hátt.

En aftur að virðisaukanum af raforkuframleiðslunni. Í stóriðjunni starfa kringum 4000 manns, beint. Þann fjölda má nánast tvöfalda til að fá út hversu margir hafa óbeina afkomu af stóriðjunni. Því til viðbótar má síðan bæta við að fjöldi fólks hefur afkomu af því að þjóna þá sem þjóna stóriðjuna. Því er ekki fráleitt að ætla að á milli 15 og 20.000 manns byggi afkomu sína að öllu eða einhverju leiti á stóriðjunni. Störf í stóriðju er vel borguð, laun þar yfirleitt nokkuð hærri en sambærilegum störfum annarsstaðar. Þessi launaþróun hefur smitast til þeirra fyrirtækja sem standa í beinni þjónustu við stóriðjuna. Allt þetta fólk borgar skatta og gjöld. Ef stóriðjan leggst af er vandséð að allir fengju vinnu. Margir yrðu upp á samþjónustuna komnir. Væru farnir að tálga fé úr sameiginlegum sjóðum í stað þess að leggja til þeirra.

Seint á síðustu öld kom í ljós að elsta stóriðjufyrirtækið hafði stundað bókhaldsbrellur, til að komast hjá skattgreiðslum hér á landi. Þetta var vissulega ljótur leikur og setti blett á starfsermi stóriðjunnar. Þetta atriði er eitt af því sem sumir nota sem rök gegn stóriðjunni, enn þann dag í dag. Halda því fram að stóriðjan stundi enn þennan leik. Ekki ætla ég að gerast dómari í því, en tel slíkt ákaflega ótrúlegt, einkum vegna þess að sennilega eru fá fyrirtæki sem eru undir jafn mikilli smásjá skattyfirvalda og stóriðjan. Hins vegar eru stóriðjufyrirtækin ein þau öflugustu í að að skila gjaldeyri inn í landið. Og gjaldeyrir verður ekki til af engu. Það er hætt við að draga þyrfti verulega úr innflutningi til landsins ef stóriðjan leggst af, að neysluþjóðfélagið fengi hressilegan skell. Jafnvel gæti komið upp skortur á kaffi í kaffihúsum miðborgarinnar!

Orkustefna Landvirkjunar er galin. Ekki bara að stóriðjan standi frammi fyrir því að taka ákvörðun um áframhaldandi veru hér á landi, heldur stendur garðyrkjan í ströngu í samskiptum við orkufyrirtækin. Sem fyrr segir hefur Landsvirkjun tekið af markaði svokallaða umframorku. Þessa orku var hægt að fá á mun lægra verði þegar orkunotkun var lítil í landskerfinu, gegn því að láta hana af hendi þegar orkunotkun var mikil. Þessa orku vill Landsvirkjun frekar láta detta dauða niður og fá ekkert fyrir hana, frekar en að nýta hana og selja á lægra verði. Þetta er svo sem ekkert gífurlegt magn, þar sem orka til stóriðju er mjög jöfn allan sólahringinn alla daga ársins. Því er þarna um að ræða umframorka sem verður að vera til í kerfinu til að taka á móti toppum í orkunotkun annarra notenda, þ.e. orkutoppar fyrir notendur um 20% orkuframleiðslunnar. Þó þarna sé um lítið magna að ræða, af heildar orkuframleiðslunni, þá hentar þetta vel garðyrkjunni og ýmsum öðrum stærri notendum utan stóriðjunnar.  Í raun má segja að aðgengi að slíkri afgangsorku sé forsenda þess að stunda garðyrkju hér á landi. Bræðsluverksmiðjur hafa einnig orðið illa fyrir barðinu á þessari stefnu Landsvirkjunar. Fyrir nokkrum árum var gert stór átak í að breyta bræðsluofnum þeirra úr hráolíu yfir í rafmagn. Um svipað leyti og þeim breytingum lauk hætti Landsvirkjun sölu á umframorku. Flestar bræðslur keyra því meira eða minna áfram á olíu, svo fáránlegt sem það hljómar.

Því hefur verið haldið fram að Landsvirkjun vinni markvisst að því að hækka orkuverð til að koma stóriðju úr landi og hafi af sömu ástæðu hætt sölu umframorku. Að markmiðið sé að losa um svo mikið af orku hér innanlands að næg orka fáist í fyrsta strenginn til útlanda. Sé þetta rétt er ljóst að forstjóri og stjórn Landsvirkjunar er komin langt út fyrir sitt starfssvið, séu farin að taka pólitískar ákvarðanir. Við svo má ekki una.

Það mun reyna á þingmenn á næstu misserum. Ljóst er að formanni VLFA hefur tekist að koma þessu máli í umræðu. Atvinnumálanefnd alþingis hlýtur að kalla forstjórann fyrir sig, fá skýringar á málinu. Þá hlýtur viðkomandi ráðherra vera farinn að spá í að skipta út stjórn og forstjóra Landsvirkjunar. Þeir þingmenn sem láta það viðgangast að frekar verði horft til þess hvort hagnaður Landsvirkjunar verði látin ráða för í stað þess að fólk hafi atvinnu, þurfa ekki að leita eftir stuðningi í næstu kosningum. Þeirra verður ekki óskað.

Ef ekkert verður gert og jafnvel þó engar frekari hækkanir komi til, er ljóst að innan fárra ára mun stóriðjan leggjast af, með tilheyrandi skelfingu fyrir heilu byggðalögin.

Það sem máli skiptir er ekki hversu hár hagnaður orkufyrirtækja er, meðan þau reka sig ekki með tapi. Það sem máli skiptir er hvort við viljum láta virðisauka þessarar orkuauðlindar verða til hér á landi, eða hvort við viljum að aðrar þjóðir njóti hans. Það sem skiptir máli er hvort við viljum áfram hafa stóriðjuna og þau fjölmörgu störf sem henni fylgja, eða hvort við viljum hafa atvinnuleysi af stærðarfgráðu sem aldrei hefur þekkst hér á landi. Það sem skiptir máli er hvort við viljum áfram njóta þess gjaldeyris sem stóriðjan færir landinu, eða hvort við viljum frekar herða sultarólina.

 


mbl.is Er verðið óeðlilega lágt eða of hátt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ef?

Hvað ef einkafyrirtæki myndi haga sér á sama veg og sveitarfélagið Vopnafjörður gerir gagnvart starfsfólki sínu? Held að flestir viti svarið. Hví er þá ekki sömu meðulum beitt gegn sveitarfélaginu, hví er það ekki kært fyrir undanskot launa?

Þegar launagreiðandi lætur undir höfuð leggjast að greiða laun og launatengd gjöld er slíkt kallað þjófnaður. Ef slík undanskot eru gagnvart ríkinu, þ.e. innheimtir skattar, stendur ekki á aðgerðum skattstjóra.

Er einhver munur frá hverjum stolið er?

Er einhver munur hver stelur?

 

 


mbl.is Blaut tuska í andlitið á tryggum starfsmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynnt undir verkföllum

Í hvaða heimi býr ríkisstjórnin? Stundum er talað um að stjórnmálamenn lifi í fílabeinsturni, en þetta er mun alvarlegra. Úr slíkum turni ætti að sjást til jarðar. Stjórnvöld virðast hins vegar vera algerlega aflokuð í sínum heimi, sjá ekkert og skilja ekkert!

Að loknum fundi þar sem tillögur að aðkomu stjórnvalda til að liðka fyrir lausn kjarasamninga voru kynntar, fundi sem sumum formönnum stéttarfélaga var svo ofboðið að þeir gengu af fundi, koma stjórnvöld með enn eitt útspilið gegn lausn þess vanda sem þau ættu að vera að vinna að lausn á. Frystingu persónuafsláttar.

Og ástæðan sem gefin er af aðstoðarmenni fjármálaráðherra er "til þess að stöðva skattaskrið" og telur það vera kröfu launþega. Persónuafsláttur er ekki skattur, heldur afsláttur á skatti. Hvernig í helvítinu getur frysting slíks afsláttar stöðvað skattaskrið. Maður efast hreinlega um að allt sé í lagi í kolli þessa fólks!!

Síðast þegar persónuafsláttur var frystur var þegar vinstristjórnin sat, 2009 - 2013. Enn hafa launþegar ekki fengið þann skaða leiðréttan. Nú á að endurtaka leikinn með tilheyrandi tjóni fyrir launafólk, sér í lagi þá sem höllustum fæti standa.

Það er ljóst og hefur verið lengi, að stjórnvöld skilja ekki vandann og rót hans. Rótin liggur í ákvörðun kjararáðs, haustið 2016 og því höfrungahlaupi sem sú ákvörðun hefur leitt meðal efstu laga launþega, nú síðast með hækkun launa bankastjóra Landsbankans. Þó ótrúlegt sé og erfitt fyrir stjórnmálastéttina að skilja, þá kunna launþegar að lesa. Þeir horfa uppá þetta óréttlæti.

Vandinn liggur í því að stór hluti launafólks þarf að láta sér líka laun sem ekki duga til framfærslu, þó ríkið telji sig geta skattlagt þau hungurlaun. Það fólk má leitabrauðmolanna eftir að borð hefur verið þurrkað og gólf sópað!!

Þetta skilningsleysi stjórnvalda, framganga á fundi með fulltrúum launþega og síðan boðun frystingu persónuafsláttar, mun einungis vera sem bensín á eld verkfalla. Stjórnvöld eiga að vinna að hag þjóðarinnar, ekki eymd hennar. Þau eiga að vinna að lausn deilunnar, ekki að kynda undir hana.

Það er engu líkara en að sú ríkisstjórn sem nú situr sé orðin leið á setunni og vinni að því hörðum höndum að gera landið stjórnlaust. Að hún sé að fara að slíta stjórnarsamstarfinu og ætli að boða til kosninga.

Vonandi skoða þá kjósendur ummæli stjórnmálamanna á Alþingi, skoði hversu trúverðugir þingmenn eru og skoði hverjir hafa staðið á sínu þegar þeir hafa verið með stjórn landsins á sinni könnu. Úthluti sínu atkvæði síðan samkvæmt því. 

 


mbl.is Persónuafsláttur frystur í þrjú ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhæfur þingmaður

Það er rangt hjá þingmanninum að stjórnvöld eigi ekki aðild að kjarasamningum. Fyrir það fyrsta þá er stór hluti launafólks á launum hjá ríkinu og kjarasamningar þess renna senn út. Það sem samið er um í almennu kjarasamningunum mun verða leiðandi fyrir starfsfólk ríkisins. Ríkið á að koma þar inn með aðgerðir sem stuðlað geti að kjarasamningum sem ekki kollvarpa hagkerfinu.

Í öðru lagi þá er eini tími launafólks til að fá leiðréttingar eða bætur sinna kjara, þegar samningar eru lausir. Kjör þess ráðast ekki að launum einum saman, heldur spilar þar stórt skattar og álögur, sér í lagi hér á landi þar sem skattar eru með því mesta sem þekkist. Þó ríkið eigi ekki beinan aðgang að kjaraviðræðum, er þetta eini tími launafólk til að ná eyrum stjórnvalda, svo hlustað sé. Því er það klárt að ríkið getur ekki fríað sig frá kjarasamningum, eins og þingmaðurinn heldur fram.

Þá heldur þingmaðurinn því fram að kjörnir fulltrúar Alþingis séu þeir einu sem með stjórn landsins eigi að fara. Þeir séu kosnir af þjóðinni. Þingmen eru kjörnir út á loforð sín fyrir kosningar, loforð sem þeir eru ótrúlega fljótir að gleyma. Eitt hellst hlutverk þingmanna og stjórnvalda er að hugsa um hag þjóðarinnar og auka hagsæld hennar. Þar vegur þyngst að halda sveiflum hagkerfisins eins litlum og hægt er. Aðkoma að kjarasamningum, til að koma í veg fyrir verkföll og að samningar leiði til sem minnstra sveiflna, er vissulega hlutverk stjórnvalda. Svo hefur ætið verið, þó á stundum stjórnöld hafi sofið hellst til of lengi.

Það lýsir fávisku og barnaskap þeirra sem halda því fram að stéttarfélög séu með einhverjar hótanir í garð stjórnvalda. Stjórnvöld hafa verið í viðræðum við deiluaðila, eins og þeim ber og það eina sem stéttarfélögin fara fram á er að nú verði gengið til verka. Samninganefndir launþega og atvinnurekenda hafa unnið sína vinnu, nú er komið að lokapunktinum. Þetta eru ekki hótanir, heldur einungis sagðar staðreyndir. Náist ekki að loka samningum mun skella á verkfall. Málið er ekki flókið!

Hins vegar er það ekki beint merki um skynsemi, þegar þingmaður úr stjórnarflokki talar með þeim hætti sem Bryndís Haraldsdóttir gerir, tal sem vissulega má skilja sem hótun, ef ekki lægi fyrir sú staðreynd að hún hefur einungis eitt atkvæði af 63 á Alþingi og er ekki beinn aðili að þeim viðræðum sem nú fara fram.

Verkföll eru mesta böl sem nokkur þjóð verður fyrir. Til þeirra er ekki stofnað af leik, einungis neyð. Stjórnvöld spila stórann þátt í að koma í veg fyrir að verkföll skelli, enda lendir það oftast á þeim að leysa þann vanda eftir að í óefni er komið.

Þeir þingmenn sem halda að eitthvað annað lögmál ríki, þekkja ekki söguna, eru fastir í fílabeinsturni og alls ekki hæfir í starfi!!

 


mbl.is Verkalýðsfélög stýra ekki landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grunnlaun - heildarlaun

Það er sitt hvað, grunnlaun og heildarlaun. Grunnlaun eru þau laun sem launþegi fær að lágmarki, fyrir þá vinnu sem hann ræður sig til. Heildarlaun eru aftur þau laun sem hann fær greitt fyrir eftir að búið er að bæta við þeim greiðslum sem launamaðurinn á rétt á að auki.

Þær greiðslur geta verið mismunandi, t.d. vaktaálag eða eitthvað annað sem launamaðurinn leggur atvinnurekanda til með sínu vinnuframlagi. Í dag er það svo að lágmarkslaun eru sögð 300.000 krónur fyrir fulla vinnu í mánuð. En þetta er ekki svona einfalt, þar sem einhverjum snilling datt það snjallræði í hug að þarna væri um heildarlaun að ræða.

Það segir að grunnlaun geta verið mun lægri, eða um 260.000 kr fyrir fulla vinnu í mánuð. Þannig er launþegi á lægstu launum, en skilar sínu vinnuframlagi á öllum tímum sólahrings, alla daga ársins, er í vaktavinnu, að greiða sér sjálfur vaktaálagið að hluta. Vinnufélagi hans, sem skilar eingöngu vinnu á virkum dögum og dagvinnutíma, fær hins vegar 40.000 kr í tekjutryggingu, til að ná 300.000 kr! Atvinnurekandinn þarf þá ekki að greiða vaktavinnumanninum nema 40.000 kr í vaktaálag í stað um 80.000 króna, þar sem vaktaálag er ákveðin prósenta af grunnlaunum, rétt eins og yfirvinnukaup reiknast einnig sem ákveðið hlutfall af þeim.

Þetta dæmi, sem er alls ekki einsdæmi heldur kaldur raunveruleiki hjá mörgum atvinnurekendum, sýnir og sannar að í kjaraviðræðum eru það grunnlaun sem skipta máli, ekki heildarlaun.

Þeir sem ekki skilja þessa einföldu staðreynd ættu alveg að láta vera að tjá sig um kjaramál, svona yfirleitt!!

Hér fyrir neðan geta lesendur séð hvernig þetta er orðað í kjarasamningi SGS við SA, en þar segir skýrt að til lágmarkslauna teljist m.a. álags og aukagreiðslur.

 

Lágmarkstekjur fyrir fullt starf

Lágmarkstekjur fyrir fullt starf, fullar 173,33 unnar stundir á mánuði (40 stundir á viku), skulu

vera sem hér segir fyrir þá starfsmenn sem eftir að 18 ára aldri er náð hafa starfað a.m.k. sex

mánuði hjá sama fyrirtæki (þó að lágmarki 900 stundir):

1. maí 2017  kr. 300.000 á mánuði.

• Mánaðarlega skal greiða uppbót á laun viðkomandi starfsmanna sem ekki ná

framangreindum tekjum, en til tekna í þessu sambandi teljast allar greiðslur, þ.m.t.

hverskonar bónus-, álags- og aukagreiðslur, sem falla til innan ofangreinds vinnutíma.

Launauppbót vegna lágmarkstekjutryggingar skerðist ekki vegna samningsbundinnar

launahækkunar vegna aukinnar menntunar sem samningsaðilar standa sameiginlega að.

• Laun fyrir vinnu umfram 173,33 stundir á mánuði og endurgjald á útlögðum kostnaði

reiknast ekki með í þessu sambandi.

 


mbl.is Rifist um mismunandi staðreyndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lög

Ríkissáttasemjari getur komið fram með sáttatillögu, stjórnvöld geta sett lög, hvort heldur er á samþykkt yfirvinnubann eða verkfall. En það er engin leið að setja lög á uppsagnir.

Sáttatillaga felur í sér að samningsaðilar setja deilu sína í farveg sem þeir ekki munu geta haft nein áhrif á og verða að sætta sig við niðurstöðuna. Þetta ferli getur tekið nokkurn tíma og á meðan ríkir óvissa. Þeir sem þegar hafa sagt upp störfum munu því bíða með endurráðningu þar til niðurstaða næst og meta að henni lokinni hvort sú niðurstaða er ásættanleg, áður en til endurráðningar er gengið. Viðbúið er að fleiri muni segja upp störfum, meðan það ferli gengur yfir og víst að ef ekki næst ásættanleg niðurstað, munu enn fleiri hætta störfum.

Lög stjórnvalda á verkföll eru í raun af sama meiði. Deilan er þá með valdi tekin af samningsaðilum og sett í hendur matsmanna. Niðurstaðan gæti orðið enn verri og enn fleiri hætt störfum.

Það sem ég get ekki með nokkru móti skilið er hvers vegna ekki er hægt að ná þarna samning. Samninganefnd ríkisins hefur haldið því fram að hún hafi boðið ljósmæðrum ígildi 18% launahækkunar. En þó ekki nema um 4% í beinni hækkun, hitt á að koma fram með alls kyns hliðaraðgerðum. Eðli slíkra hliðaraðgerða er að sumar fá ekkert og aðrar mikið og heildar niðurstaðan nær sjaldnast því sem upp var lagt með. Þetta þekkir launafólk þessa lands, enda þessi aðferð ekki ný af nálinni.

Ef samninganefnd ríkisins telur sig hafa heimild til að semja við ljósmæður um ígildi tæplega tuttugu prósent launahækkunar, af hverju í andskotanum er þeim ekki boðin slík hækkun beint á grunnlaun?! Hvers vegna þarf að fela stærsta hluta hækkunarinnar í einhverjum hliðaraðgerðum? Er það vegna þess að samninganefndin veit að endanleg niðurstaða gefur mun minna en reiknidæmin þeirra sýna?

Ástandið er orðið alvarlegt, graf alvarlegt. Ætla stjórnvöld þessa lands virkilega að bíða þar til eitthvað skelfilegt skeður? Þarf virkilega einhver hörmung að koma til, svo ráðamenn vakni?


mbl.is Beinlínis rangt að ekkert nýtt kæmi fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það kemur að skuldadögum

Það þarf ekki stórspeking til að átta sig á að launahækkun bæjarstjórans í Kópavogi er utan allrar skynsemi og ber ekki með sér mikinn skilning á ástandinu í landinu. Það er þó algert skilningsleysi og stjórnmálaleg blinda, þegar forsætisráðherra hneykslast á ofurlaunahækkun bæjarstjórans.

Bæjarstjórinn fékk launahækkun upp á 32,7%, skömmu eftir að ráðherraembættin og þingmenn fengu nærri 40% hækkun. Það þótti ekkert of hátt,að mati þingmanna og ráðherra og jafnvel þó einhverjir þingmenn hafi haft á því orð að þetta væri kannski í ríflegri kantinum, hefur ekki einn einasti þingmaður afþakkað þá kauphækkun!

Þarna liggur vandinn. Áður þurftu sveitarstjórnarmenn ekkert að ákveða um sín laun, þeir fengu sjálfkrafa svipaðar prósentuhækkanir og þingliðið, enda sömu menn sem sáu um ákvörðunina. Eftir að sveitarstjórnarmönnum var úthýst frá kjararáði þurftu þeir sjálfir að ákveða sínar launahækkanir. Og í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að þeir hefðu áfram til viðmiðunnar þann hóp sem áður leiddi þeirra hækkanir.

En vandinn er auðvitað mun stærri. Á þann vanda var bent, strax eftir þá ókristilegu hækkun sem þingmönnum og ráðherrum var færð. Síðan eru liðin nokkur misseri og sífellt verið að hamra á þessum vanda. Undir kraumar og ekkert gert af ráðamönnum til að tappa af þeirri reiði sem sífellt bólgnar, eins og eldfjall sem að lokum springur með óskaplegum afleiðingum.

Hér á landi virðir launafólk kjarasamninga, ólíkt því sem víðast erlendis þekkist. Því hefur vígvöllurinn ekki enn verið formlega opnaður, beðið eftir að kjarasamningar losni. Á meðan eykst gremjan. Erlendis hefði aðgerð líkt og úrskurður kjararáðs um kjör þingmann og ráðherra, þótt slíkt frávik frá raunveruleikanum að til verkfalla hefði verið boðað nær samstundis!

Það er auðvitað frábært að forsætisráðherra sjái að 32% launahækkun gengur alls ekki. Þá hlýtur manneskjan að átta sig á að 40% launahækkun er enn verri.

Eða eru hvatir ráðherrans kannski af öðrum toga? Getur verið að henni sárni að bæjarstjóri sé á hærri launum en ráherra? Eða fer kannski fyrir brjóstið á henni að 32% launahækkun bæjarstjórans voru fleiri krónur en 40% launahækkun ráðherrans? Það væri aldeilis frábært, þá væru þeir forkólfar verkalíðhreyfingarinnar, sem hafa kjark, fengið öflugan samherja.

Það er nefnilega svo 30% launahækkun bæjarstjórans og 40% hækkun ráðherrans, samsvara heildarlaunum nokkurra verkamanna. Það kemur að skuldadögum, eftir næstu áramót. Hafi stjórnvöld ekki áttað sig á grunnvandanum á þeirri stundu og bætt úr samkvæmt því, munu verða hér á landi þvílíkar hamfarir að öflugustu eldfjöll okkar munu blikna í samanburðinum!!


mbl.is Segir laun Ármanns óhófleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband