Færsluflokkur: Kjaramál

Manni er gjörsamlega misboðið

Verið getur að forstjóri Lýsis telji virkilega að hún og þeir sem með henni störfuðu við útskipun í Straumsvík hafi verið að bjarga fyrirtækinu frá skaða. Ef svo er þá er hugsun þessa forstjóra ansi grunn og reyndar bendir öll fréttin til að staðreyndin sé einmitt sú.

Forstjóri lýsis segir að 11 starfsmenn standi að verkfallinu í Straumsvík og standi í veg fyrir launahækkun til annarra starfsmanna. Það eru öll stéttarfélög sem samning eiga við Rio Tinto í Straumsvík, utan skrifstofufólks, sem stendur að verkfallinu. Og það er ekki vegna verkfallsins sem ekki næst að semja, heldur er verkfallið til komið vegna þess að fyrirtækið neitar með öllu að semja við starfsmenn nema að uppfylltu óaðgengilegu skilyrði.

Þá kvartar forstjórinn undan umræðunni sem orðið hefur vegna þessarar vinnu hennar og kollega við útskipun í Straumsvík. Hún síðan klikkir út með því að nefna kynferði sitt í því sambandi. Forstjóri Lýsis getur alveg gengið að því sem vísu að kynferði hennar kemur málinu ekkert við, nema ef vera skyldi til mildunar umræðunnar. Víst er að þó einungis karlar hefðu unnið við þessa útskipun hefði sannarlega verið sett í umræðuna launakjör þeirra sem hæðstu launin höfðu við þessa útskipun og hvernig farkostum þeir mættu á til vinnu. Það er ekki á hverjum degi sem sést hér á landi löndunargengi sem hefur nokkrar milljónir í laun á mánuði og mætir til vinnu á bílum sem kosta um eða yfir 20 milljónir króna!

Þá telur forstjóri Lýsis að einhverjir séu að reyna að hrekja Rio Tinto úr landi og gefur í skyn að þar séu fremstir í flokki starfsmenn fyrirtækisins. Ekki ber þetta merki um að forstjóri tali, svo vitlaust sem það er. Ef einhver er að reyna að hrekja starfsemi Rio Tinto úr landi er það sjálft fyrirtækið. Það liggur fyrir að fyrirtækið gerði slæma orkusamninga og einnig liggur fyrir að fyrirtækið hefur fjárfest í breytingum sem ekki skila árangri. Þetta tvennt gerir að verkum að fyrirtækið er rekið með tapi. Færsla á störfum við ræstingar, mötuneyti og öryggisgæslu mun eingin áhrif hafa á þann taprekstur. Hins vegar er ljóst að laun þessara hópa mun lækka verulega við slíka breytingu, þó ekki sé nema af þeirri einu ástæðu að við bætist milliliður sem að sjálfsögðu vill fá einhvern arð af þjónustunni við Rio Tinto.

Starfsmenn standa því ekki harðir gegn kröfum Rio Tinto vegna þess að þeir óski þess að fyrirtækið loki, eins og forstjóri Lýsis telur, heldur standa þeir harðir gegn þessari kröfu til að verja launakjör sinna samstarfsmanna.

Reyndar er ekkert í kjarasamningi starfsmanna Straumsvíkur við sinn atvinnurekenda sem bannar verktöku. Fyrirtækinu er í sjálfs vald sett að bjóða hvaða verk sem er út, en með þeim skilyrðum að laun þessa fólk haldi sér, að sömu laun séu greidd fyrir sömu vinnu, hver sem launagreiðandinn er. Það myndi hins vegar auka kostnað fyrirtækisins verulega, enda eins og áður segir þá vill auðvitað milliliðurinn fá sitt.

Manni er gjörsamlega misboðið þegar forstjóri fyrirtækis talar á þann hátt sem forstjóri Lýsis gerir. Þetta ber merki þess að blessaður forstjórinn hafi ekki hundsvit á rekstri fyrirtækja, mannlegum samskiptum eða yfirleitt neinu sem að starfsmannahaldi snýr. Og þetta er með launahæstu forstjórum landsins. Fyrir hvað?!!

Einn góður maður, sem um margra ára skeið var forstjóri í einu af stóriðjuverum þessa lands, sagði eitt sinn að fyrirtækið er starfsfólkið. Hús tæki og búnaður er bara járnadrasl sem starfsfólkið nýtir til að búa til verðmæti. Það færi betur ef fleiri forstjórar hefðu jafn heilbrigða hugsun og þessi maður hafði!


mbl.is „Manni er gjörsamlega misboðið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með hunda á hendi biðlar Gylfi til SA

Nú er byrjaður fimmtándi mánuðurinn sem starfsmenn Rio Tinto í Straumsvík hafa verið án kjarasamnings. Óbilgirni fyrirtækisins gegn starfsfólki sínu og reyndar öllum vinnumarkaði á Íslandi, er svo óskaplegur að ekki nær nokkru tali. Krafa þeirra um algert sjálfdæmi um mannaráðningar og með hverjum hætti þær eru, sýna svart á hvítu að þarna fer fyrirtæki sem ekki kærir sig um að launafólk hafi rétt til eins eða neins. Verði sú krafa samþykkt er ljóst að öll verkalýðsbarátta, allt frá fyrri hluta síðustu aldar er fyrir bí og staða launafólks komin á þann stað er hér ríkti í upphafi síðustu aldar, þegar atvinnurekandinn "átti" launþegann og gat farið með hann sem honum sýndist. Þetta má aldrei ske!

Og nú vill ASÍ að SA beiti sér í málinu. ASÍ hefur a.m.k. tvisvar á þessum fimmtán mánuðum verið með öll tromp á hendi sér og verið í lófa lagið að nýta þau til lausnar þessarar deilu. Þess í stað kastaði sambandið þeim trompum af hendi sér fyrir hunda. Nú, þegar ASÍ er tromplaust og komið með alla hundana á eina hendi, er biðlað til gagnspilarans um hjálp!

Á haustdögum, þegar forseti og varaforseti ASÍ sátu umboðslausir að ráðum með fulltrúum SA og stjórnvöldum, um hið svokallaða Salek samkomulag, voru þessir fulltrúar launafólks með tromp til lausnar Straumsvíkurdeilunni. Þegar samkomulag var í höfn átti einfaldlega að fresta undirskrift uns lausn á þeirri deilu lægi á borðum. Þetta tromp var því miður ekki nýtt, heldur skipt út fyrir hund.

Aftur kom svo tækifæri, nú í tengslum við endurskoðun aðalkjarasamnings, í upphafi þessa árs. Þar sátu fulltrúar ASÍ aftur án umboðs og véluðu um launabætur samkvæmt endurskoðunarákvæði kjarasamninga. En nú var staðan sterkari fyrir ASÍ og trompin fleiri. Þarna kom tækifæri til að tengja kjaradeilu starfsmanna Straumsvíkur við endurskoðun kjarasamninganna með beinum hætti, enda veit ég ekki betur en starfsfólk Rio Tinto í Straumsvík sé flest í stéttarfélögum sem aðild eiga að ASÍ.

Auðvitað átti að tengja þessa endurskoðun beint við Straumsvíkurdeiluna og gera SA liðum ljóst að ef þeir ekki næðu tökum á sínu fólki innan Rio Tinto, myndi það leiða til allsherjarverkfalls hér á landi. Sterkara tromp geta fulltrúar launafólks varla vænst að fá, en eins og áður þá var þessu trompi einnig skipt út fyrir hunda.

Og nú situr Gylfi Arnbjörnsson með hundshaus og eintóma hunda á hendi, tapað spil og biðlar til andstæðingsins um hjálp. Aumara hlutskipti er varla hægt að hugsa sér, fyrir mann sem hafði allt á hendi sér og gat stjórnað atburðarásinni á réttan veg, fyrir aðeins örfáum vikum síðan.

Það sjá auðvitað allir sem vilja sjá að vandi Rio Tinnto í Straumsvík verður ekki leystur með því að færa störf yfir í verktöku. Að bæta við millilið eykur kostnað. Það ættu einnig allir að vita, sem vilja vita, að vandi Rio Tinnto skapast af lágu verði á áli samhliða arfaslæmum raforkusamning sem fyrirtækið gerði fyrir stuttu síðan. Ofaná það bætist síðan misvitrar og dýrar aðgerðir sem ekki skila árangri.

Því er allt tal um að verkalýðshreyfingin sé að stuðla að lokun þessa fyrirtækis, með öllu óraunhæf og í raun stór hættuleg. Ef Rio Tinnto lokar vegna þess að það getir ekki fært föst störf undir verktöku, mun það loka hvort eð er. Þá er þessu fyrirtæki ekki við bjargandi. Ef eina leið fyrir tilveru þess er að afnema þau réttindi sem launafólk hefur barist fyrir í nærri heila öld, er tilvera þess brostin.

En það má ekki gleyma sér í andúðinni á stjórnendum Rio Tinnto, bæði hérlendis sem erlendu stjórnendum þessa fyrirtækis.

Saga Straumsvíkur er merkilegri en svo að slík andúð setji þar blett á. Það var fyrir tilstilli þessa fyrirtækis og þáverandi eigendum þess, Alusuisse, sem okkur var mögulegt að byggja upp raforkuframleiðslu í landinu og leggja dreifikerfi um allt land. Án uppbyggingar í Straumsvík og þess stóra orkukaupanda, hefði slíkt seint orðið gerlegt fyrir okkur og víst er að orkuverð hér á landi hefði orðið mun hærra. Á innanvið áratug, frá byggingu Straumsvíkur, var komið rafmagn á nánast hvert heimili í landinu og orkuafhendingin orðin öruggari en nokkursstaðar annarstaðar í heiminum. Þessa sögu verða landsmenn að muna.

Og enn skipar Straumsvík stórann sess í okkar hagkerfi. Rafmagnsreikningurinn hljóðar upp á heila 13 milljarða á ári, orka sem er jöfn allan sólahringinn allan ársins hring. Hvert raforkufyrirtæki óskar sér slíkra viðskiptavina. Skattar og gjöld til ríkis og sveitarfélaga eru einnig góð búbót, sem ekki er tekin upp af götunni.

Og loks eru nokkur hundruð manns sem hafa beina atvinnu af þessu fyrirtæki og sennilega enn fleiri sem hafa óbeinar tekjur af því. Þarna er yfirleitt um vel launuð störf að ræða.

Það yrði því skelfing fyrir þjóðina ef Straumsvík yrði lokað. Kannski er kominn tími fyrir stjórnvöld að hafa afskipti af þessari deilu, landi og þjóð til heilla. Kannski þarf að taka afdrifaríka ákvörðun og ýta þeim til hliðar sem með samninga á orkuverði fara. Það er ljóst að ef þetta fyrirtæki væri með sína starfsemi í Kanada væri það ekki að greiða 13 milljarða fyrir orkuna, heldur um 9 milljarða. Hvort slík lækkun dugar til að koma fyrirtækinu á rétt spor, veit ég ekki, en það mætti a.m.k. skoða það. Það hlýtur að vera betra að 9 milljarða fyrir orkuna en ekki neitt, auk þess sem aðrar tekjur yrðu óbreyttar og fólk héldi sinni vinnu. Að sjálfsögðu þarf að setja kröfur gegn slíkum afslætti, enda hafa eigendur og stjórnendur Rio Tinnto sýnt af sér slík afglöp.

En hvernig sem allt snýst, þá má aldrei gefa eftir réttindi launafólks á neinn hátt. Það sem af er tekið þar fæst aldrei aftur!

Og að lokum mæli ég með því að hunda-Gylfi verði settur af!!


mbl.is SA beiti sér í Straumsvíkurdeilunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dekksta mynd verktakastarfsemi

Sem betur fer er kannski ekki mikið um jafn svört dæmi verktakavinnu og það sem uppgvötaðist í Vík í gær. En eitt slíkt dæmi er einu of margt.

Þetta lýsir þó í raun hvernig verktakastarfsemi virkar og undarlegt að nokkuð fyrirtæki skuli vilja koma nálægt svona sóðaskap. Auðvitað eru sum störf hjá fyrirtækjum með þeim hætti að auðveldara og betra er að vinna þau í verktöku og má þar m.a. nefna tímabundin verkefni eða verk sem krefjast sérþekkingar eða vélakosts sem fyrirtæið sjálft vill ekki eða getur ekki átt. Að öðru leiti skilar verktakavinna einungis lægri tekjum til launafólksins.

Þetta skýrist auðvitað af því að til að fyrirtækið, verkkaupi, geti haft hagnað af verktakavinnu þarf það að fá verktökuna fyrir lægri upphæð en laun og launakostnaður sem til viðkomandi launafólks fer. Þetta er augljóst. Þá þarf auðvitað verktakafyrirtækið sjálft að fá eitthvað fyrir sinn snúð, bæði kostnað vegna utanumhalds og auðvitað einhvern hagnað. Þar sem það fær væntanlega eitthvað minna til sín frá verkkaupa en sem nemur launum og launatengdum gjöldum starfsfólksins, er verktakanum nauðugur sá eini kostur að taka sinn kostnað og sinn hagnað af launum sinna starfsmanna. Niðurstaðan er að til að verkkaupi, fyrirtækið sem býður út verkið græði og til að verktakinn hafi fyrir sínum kostnaði og einhvern hagnað, þarf að lækka verulega laun þeirra sem svo starfið vinna. Þetta er einföld staðreynd sem ekki þarf mikla vitsmuni til að sjá.

Því miður er þetta vel þekkt í sumum atvinnugreinum, s.s. byggingariðnaði og ýmsum þjónustustörfum tengdum ferðaþjónustu. Þar er málið jafnvel enn svartara þar sem hver undirverktakinn tekur við af öðrum.

Í stóriðju hefur einkum eitt fyrirtæki haft sig í frammi um kröfu á þessu sviði og vill setja það í kjarasamninga. Svo langt hefur gengið að þetta fyrirtæki er jafnvel tilbúið að fórna tilveru sinni hér á landi, svo þetta fáist í gegn. Ekki er þó séð að hagur þess geti orðið mikill vegna þessa, nema því aðeins að það starfsfólk sem verkin vinna lækki verulega í launum, jafnvel svo að fela verði það fólk frá umhverfinu!

Hjá öðrum stóriðjufyrirtækjum er þetta á annan veg. Að vísu gerði Elkem tilraun á þessu sviði um og eftir síðustu aldamót, með slæmum afleiðingum fyrir viðkomandi starfsfólk. En þetta fyrirtæki er hægt og örugglega að ganga til baka með þessa tilraun sína. Annarsstaðar þykir sjálfsagt að ekki sé um verktöku að ræða í föstum störfum og hjá Norðurál er dæmið á hinn veginn, tiltekið í kjarasamningi hvaða störf megi vera í verktöku og eru þau ákaflega fá. Þá hafa stéttarfélög, bæði á Akranesi og eins á Reyðarfirði, unnið að því að þau fyrirtæki sem þjóna stóriðjuna á þessum svæðum, greiði sömu laun til sinna starfsmanna og stóriðjan, þ.e. að jafnræði sé meðal launafólks innan veggja stóriðjunnar, sama hver launagreiðandinn er. Þetta veldur því að þessi stóriðjufyrirtæki eru ekki með verk í verktöku, nema um tímabundin störf sé að ræða, eða störf sem kalla á sérþekkingu eða dýrann eða flókin vélakost, sem fyrirtækin sjálf geta ekki eða vilja ekki reka. Að vísu eymar enn svolítið af verktöku hjá Elkem, en eins og áður sagði þá er hún hægt og örugglega að ganga til baka, varðandi föst störf.

Það yrði gífurleg afturför ef Rio Tinto tækist að brjóta á bak aftur starfsfólk sitt. Alveg ótrúlegt hvað það fær litla samstöðu í þjóðfélaginu, sem einkum má kenna þekkingarleysi almennings. Þetta eru grundvallarréttindi sem verið er að reyna að taka af starfsmönnum Straumsvíkur og í algjörri andstöðu við það sem er að gerast gagnvart öðrum fyrirtækjum í stóriðju.

Reyndar má undrun vera að svona verktakavinna skuli þekkjast yfirleitt hér á landi. Fyrirtæki sem er í fullum rekstri á auðvitað að hafa alla þá starfsmenn sem vinna föst störf á sinni launaskrá. Öðru máli gegnir um tímabundin störf, þau má auðvitað bjóða út og láta önnur fyrirtæki með sérþekkingu og tækjakost vinna þau. Byggingaverktaki sem tekur að sér að byggja hús fyrir einhvern, getur auðvitað boðið út jarðvinnuna, en hann ætti auðvitað að vera með alla þá sem að byggingavinnunni standa, á sinni launaskrá. Að öðrum kosti getur hann vart talist byggingaverktaki. 

Það er stórmannlegt af Víkurprjóni í Vík að bjóða því fólki vinnu sem fyrir þessu þrælahaldi varð og víst er að stjórnendur þess munu hugsa sig vandlega um áður en þeir fara að bjóða aftur út störf í sínu fyrirtæki.

Skömmin er nefnilega þeirra, þó brotið sé kannski utan fyrirtækisins.


mbl.is Oft mjög háðir kvölurum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsnæðisvandinn

Það eru allir sammála um að húsnæðisvandi er mikill hér á landi, einkum þó á Reykjavíkursvæðinu. Um orsökina er fólk ekki sammála og enn síður lausnir.

Það er merkileg og góð skrif eftir Guðlaug Þór Þórðarson á pressan.is og full ástæða fyrir fólk að lesa þau skrif. Þar kemur ýmislegt á óvart.

Guðlaugur nefnir að 237 milljarðar hafi farið í þennan málaflokk frá hruni, beint og óbeint. Þetta eru gífurlegir peningar. Þá nefnir hann lóðaverð hafi hækkað um 508% síðustu 12 ár og að um þriðjungur íbúðaverð séu gjöld til hins opinbera. Nýja byggingareglugerðin ein sér hafi hækkað byggingakostnað um 8,5%!

Getur það verið að því meira fé sem ausið er í þennan málaflokk þá aukist vandi húsbyggjenda, að allir þeir peningar fari í millilið af ýmsu tagi. Að sveitarfélög hækki hjá sér lóðagjöld og alls kyns gjöld sem húsbyggjendur þurfa að greiða séu hækkuð og við þau bætt. Getur verið að þegar húsaleigubætur eru hækkaðar þá hækki bara húsaleigan að sama skapi. Allir vita að vaxtabæturnar eru í raun einungis niðurgreiðsla til bankanna, skuldarinn nýtur þeirra sjaldnast.

Það þarf vissulega að taka á þessum málum. Auðvitað verður ríkissjóður alltaf að koma að þeirri lausn, en tryggja þarf að þeir styrkir skili sér til fólksins, ekki í einhverja hít sveitarfélaga eða banka.

Það getur varla verið eðlilegt að sveitarfélögum sé í sjálfs vald sett hvaða gjöld þeir setja á húsbyggjendur eða hversu há. Að gjöld til hins opinbera, sem í flestum tilfellum eru sveitarfélögin, skuli vera orðin nærri þriðjungur af kostnaði við að byggja hús eða íbúð, getur varla talist eðlilegt. Það er sjálfsagt að húsbyggjendur borgi þann kostnað til sveitarfélaga, sem þau sannarlega verða fyrir vegna slíkra bygginga, en að þau geti nýtt sér þetta til tekjuöflunar er fráleitt.

Það er vægast sagt undarlegt að sveitarfélög skuli geta hækkað lóðaverð á nokkrum árum um hundruð prósenta, með því einu að skammta lóðir á markað. Verð lóða á að sjálfsögðu að miðast við þann kostnað sem sveitarfélög verða fyrir vegna lóðasölu, s.s. gatnagerð og tenginga lóða. 

Það er eitthvað heiftarlega rotið við framkomu sveitarfélaga við húsbyggjendur. Það er eins og þau átti sig ekki á þeim verðmætum sem fylgja hverjum nýjum íbúa, hverri nýrri íbúð sem byggð er. Þar liggja tekjurnar hjá sveitarfélögunum, til frambúðar, ekki í því hversu mikið er hægt að kreista út úr fólki meðan það stendur í að koma sér þaki yfir höfuðið.

Byggingareglugerðin er sér kapítuli. Þegar núverandi reglugerð var gerð að lögum þrengdist verulega að húsbyggjendum og kostnaður jókst. Það gerðist einnig þegar reglugerðin þar á undan var samþykkt. Þó er ekki að finna nokkurn skapaðan hlut í þessum reglugerðum sem gerir hús sterkari eða betri, einungis settar fram ýmsar kvaðir sem fáum eða engum gagnast.

Þarna þarf vissulega að taka til hendi. Það er t.d. nánast útilokað fyrir nokkurn að nýta eigin hendur við byggingu eigin íbúðar, krafa um að allir hlutir séu unnir af fólki með til þess gerð réttindi. Vissulega má ekki leyfa neitt kúsk við húsbyggingar, en því er ekki útrýmt með reglugerð. Sá sem vinnur að eigin byggingu er sjálfsagt sá sem síst vill sjá kúsk. Með því að opna aftur á að fólk geti unnið meira að eigin byggingum, má lækka útlagðan kostnað húsbyggjenda verulega og þá um leið lántökukostnað.

Húsnæðisbætur og vaxtabætur eru nauðsynlegar, en eingöngu til þeirra sem verst standa og tryggja þarf að þessar bætur skili sér til þessa fólks, að leigusalar og bankar hirði ekki þær bætur beint í eigin vasa. Hvernig það er gert veit ég ekki, en það hlýtur að vera hægt með einhverjum ráðum.

Þá er eitt atriði sem hefur bein áhrif á þennan vanda, bæði skort á húsnæði sem og verðmyndun þess og þá um leið leiguverð, en það er eign bankastofnana á íbúðahúsnæði. Þar má auðveldlega setja lög um að bankastofnanir geti ekki átt íbúðahúsnæði sem þær komast yfir, nema skamma stund. Að innan mjög skamms tíma beri þessu stofnunum að koma þeim í sölu og ef ekki tekst að selja þær innan ákveðins tíma, beri þeim að setja þessar íbúðir á leigumarkað.

Hugarfar fólks í dag þarf einnig að breytast. Mörgum þykir hið besta mál að mega sem minnst koma að byggingunni, vilja ekki þreyta bak sitt né skíta út hendurnar. Það er ekkert nauðsynlegt að íbúð eða hús séu full kláruð þegar flutt er inn. Það þótti ekkert tiltölumál fyrr á árum þó fólk flytti inn í nánast fokheld hús og bættu svo við eftir efnum. Það er heldur ekkert nauðsynlegt að kaupa einn eða tvo nýja bíla, þegar flutt í nýja íbúð. Það er ekkert athugavert við þó gömul drusla standi í innkeyrslunni, svona fyrstu árin. Og engum er vorkunn að sleppa utanlandsferðum fyrstu ár eftir að flutt er í nýtt húsnæði.

Það verður vissulega að taka á húsnæðisvanda landsmanna. En það er ekki bara hægt að kalla eftir auknum útlátum ríkissjóðs. Reglugerðir þarf að bæta, sveitarfélög verða að sýna smá skynsemi, koma þarf böndum á bankakerfið og síðast en ekki síst, hugarfar fólks verður að breytast.

Um verðtrygginguna þarf ekki að rita, hún er auðvitað stæðsti óvinur húsbyggjenda hér á landi.


Gylfi Arnbjörnsson í fleirtölu

Gylfi Arnbjörnsson virðist vera búinn að jafna sig á þeirri rasskellingu sem hann fékk í haust, fyrir ársþing ASÍ, þegar hann óttaðist svo mjög um stöðu sína sem forseti sambandsins. Hann er nú aftur farinn að grafa undan kjörum launafólks með því að tala niður krónuna.

Að halda því fram að krónan sé gerandi í verðbólgubálinu er fáráðnlegt og eingöngu til þess fallið að grafa undan henni. Gjaldmiðill getur aldrei orðið gerandi á neinn hátt, einungis þeir sem með valdið fara og spila með gjaldmiðilinn eru gerendur. Það eru þeir sem sjá til þess að verðbólgubálið sé sem bjartast.

Til þess hafa þeir eitt verkfæri framar öðrum, sem auðveldar þeim þetta brjálæði, verðtryggingu lána. Verðtryggingin er eitthvað besta verkfæri sem upp hefur verið fundið til að viðhalda verðbólgu. Hver hækkun sem verður á verðlagi, leiðir til hækkana lána og þær hækkanir lána leiða til enn aukinnar verðbólgu. Þetta er sennilega næst því sem mannkynið hefur komist til framleiðslu eilífðarvélarinnar.

Eldsneyti þessarar vélar eru nánast hver einasta hækkun sem fyrir finnst. Þegar stjórnvöld telja sig verða að hækka skatta svo ríkissjóður verði rekinn, eykst verðbólgan og skuldir hækka. Þegar erlendir spákaupmenn ákveða að einhverstaðar í heiminum séu kannski litlar byrgður af eldsneyti og hækka verð þess, eykst verðbólgan á Íslandi. Þegar launafólk semur um hækkun sinna launa, svo það geti fætt sínar fjölskyldur og haft húsaskjól, eykst verðbólgan.

Ef Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, er eitthvað að meina með þeim orðum að hann vilji meiri stöðugleik krónunnar og ef Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, er eitthvað að meina með þeim orðum að hann vilji hag launþega sem mestann, ætti hann að ræða við Gylfa Arnbjörnsson, nefndarmann í nefnd um afnám verðtryggingingar. Sá Gylfi Arnbjörnsson komst að því á einni viku, haustið 2008, að ekki væri  forsendur til að afnema verðtrygginguna. Þeirri skoðun hefur sá Gylfi Arnbjörnsson verið duglegur að halda á lofti alla tíð síðan og því kannski einfaldast fyrir Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ að fá hann til að skipta um skoðun. Sá fundur gæti farið fram á salerni þar sem einungis þarf spegil sem fundarborð.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, gæti þá farið að vinna að því af fullum krafti að afnám verðtryggingar verði flýtt, til hagsbóta fyrir launþega. Með því væri hann einnig að styðja atvinnurekendur, sérstaklega þau fyrirtæki sem eiga erfitt vegna skuldastöðu. Þar sem SA er svo mikið í mun að nota þann hóp innan sinna raða sem viðmið um getu til launahækkanna, ættu þeir að fagna slíkri hjálp. Gylfi gæti einnig slegið sér á brjóst og sagt að hann væri einnig að hjálpa stjórnvöldum í þeirri skuldasúpu sem þau eru.

Það er þó nauðsynlegt fyrir Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, að hlusta ekki á Gylfa Arnbjörnsson, handbendi erlendu vogunnarsjóðanna. Geri hann það ekki, mun verðtryggingin koma þjóðinni á kaldann klaka. Þá munu erlendu vogunnarsjóðirnir hverfa á brott af landinu, með allt fé landsmanna.

Það er ekki víst að Gylfi Arnbjörnsson, handbendi erlendu vogunnarsjóðanna, fái að fljóta með úr landi. Það er líklegra að þeir launi honum með því að skilja hann eftir í skítnum.

 


mbl.is „Menn eru komnir í lausnagírinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einræðisherrann

Félagafrelsi á að heita hér á Íslandi. En er það svo? Sannarlega ekki!

Þegar kemur að stjórnmálafélugum er vissulega félagafrelsi, hagsmunafélög ýmiskonar eru í flestum tilfellum frjáls, þó sum setji skorður við inngöngu. Það eru einungis hagsmunasamtök launþega sem setja kröfur um inngöngu, þar er hið dásamlega félagafrelsi enn langt utan seilingar.

Að vísu má segja að ákveðið frelsi ríki þar einnig, að því marki að í flestum tilfellum getur launþeginn valið sér stéttarfélag. Það er einungis í þeim tilfellum þegar um er að ræða lögverndað starf sem ekki er alltaf um slíkt val að ræða. Launþeginn getur því valið sér það stéttarfélag sem hann telur best verja sína hagsmuni og ef hann vill getur hann komið sínum skoðunum á framfæri þar. Reynist honum það örðugt, hefur hann alltaf val um að skipta um stéttarfélag og sýna með því í verki andstöðu sína við störf stjórnar.

Þegar kemur að ASÍ snýr málið hins vegar öðru vísi við. Þar er ekki neitt félagafrelsi, heldur verða allir þeir launþegar sem eru í þeim stéttarfélögum landsins sem aðild eiga að sambandinu, að lúta því að teljast meðlimur ASÍ. Þar er ekkert val. Af þessum sökum eru nú um 105.000 manns nú taldir félagar ASÍ, eitthundrað og fimm þúsund manns, algerlega óháð því hvort það fólk vill eða vill ekki! Þetta er stór hópur landsmanna, nærri þriðjungur allra íbúa landsins! Það skýtur því skökku við að svo stór samtök, samtök sem fólk er nauðugt til að tilheyra, skuli vera stjórnað af 300 manna hóp og að einungis þurfi samstöðu 150 þeirra til að taka hinar ýmsu ákvarðanir, jafnvel færri, er varða 105.000 manns. Þetta minnir nokkuð það stjórnarfar er ríkti í föllnu stórveldi í austri. Kannski er tengingin þangað enn meiri en gott þykir.

Því er sú undarlega staða hér á Íslandi að við búum í lýðræðisríki, en einn þriðji landsmanna býr síðan við einræði innan þess lýðræðis. Svolítil öfugmæli en þetta er sú staðreynd sem við blasir.

Nú síðustu daga hefur staðið yfir árþing ASÍ. Á þesu þingi hafa komið fram nokkrar athyglisverðar tillögur, tillögur sem að flestu eru til þess fallnar að auka eylítið á lýðræðið innan sambandsins, til þess fallnar að brjóta upp það einræði sem ríkir innan þess. Þar ber hellst að nefna tillaga um beina kosningu forseta ASÍ. Einu rök gegn þessari tillögu voru að það gengi ekki vegna þess að stjórnin að öðru leyti er ekki kosin í slíkri kosningu. Þessu hefði mátt kippa í liðinn með breytingatillögu um að þessi lýðrisbreyting næði til allrar stjórnar ASÍ. Þessi fátæklegu rök komu frá forseta ASÍ og þau dugðu til að hræða nógu marga frá því að kjósa með þessari tillögu, þrátt fyrir að öll önnur rök bentu til annars.

Þarna fór forgörðum einstakt tækifæri til að auka veg og virðingu sambandsins, auka traust launafólks til þessa sambands sem það er nauðugt til að tilheyra! Þetta leiddi svo til þess að forseti og varaforseti voru kosnir áfram, með langt innan við 200 atkvæðum. Þetta fólk beytti sér þó harðast gegn launþegum í síðustu kjarasamningum og fór fram með slíku ofstæki að fáheyrt er. Um þetta eru til bréfaskrif frá varaforseta ASÍ, bréfaskrif sem hver ætti að skammast sín fyrir!!

Fleiri góðar tillögur komu fram um hin ýmsu mál. Þau voru flest felld, enda komin frá þeim armi innan þessa fámenna hóps sem hefur beytt sér fyrir auknu lýðræði.

Það sem þó kom mest á óvart var sú staðreynd að tillaga um ályktun til stjórnvalda um niðurfellingu verðtryggingar, skyldi vera felld. Að 121 "fulltrúi" launafólks skuli hafa látið glepjast til að fylgja forseta ASÍ að málum um það efni. Þetta sýnir best þau völd sem einræðisherrar hafa í einræðisveldum. Þarna var öll rökhugsun sett til hliðar svo þóknast mætti "valdinu".

Það vita allir sem vilja vita að Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur staðið kyrfilega vörð fjármagnseigenda í þessu máli. Það er ekkert nýtilkomið, hefur verið hans stefna alla þá tíð er hann hefur vermt stól forseta ASÍ og jafnvel lengur. Hann átti þess kost vorið 2008 að´standa vörð sinna umbjóðenda varðandi verðtrygginguna, en sat sem fastast við hlið fjármagnseigenda. Hefði hann á þeim tíma barist fyrir þá sem honum borga launin, væri vandi fjölskyldna landsins minni í dag, svo mikið er víst.

Nú kemur þessi maður í fjölmiðla og segist óttast aðra kollsteypu. Það er gott að hann er farinn að átta sig á staðreyndum. Hvort þarna sé um viðhorfsbreytingu að ræða hjá manninum eða hvort enn eymir af þeirri tímabundnu stefnubreytingu sem hann tók mánuði fyrir ársþing ASÍ, skal ósagt látið. Það mun fljótlega koma í ljós.

Og hvað er það sem Gylfi óttast? Jú meiri verðbólgu og hærri vextir, að þetta muni hafa mikil áhrif á fjölskyldur landsins. Mæri verðbólga leiðir til hærri vaxta og hærri vextir leiða til meiri verðbólgu. Þetta er vítahringur sem einungis er hægt að komast út úr með aukinni verðmætasköpun. Með því að gera viðskipti okkar við útlönd okkur hagstæð. Einn þáttur er þó afgerandi í þessu öllu, en það er verðtryggingin. Hún magnar þetta ferli og því má með sönnu segja að höfuð ástæða verðbólgunnar sé verðtryggingin. Hún leiðir gegnum allt hagkerfið og kemur verst niður á fjölskyldum landsins, þessa hóps sem sem að stæðstum hluta verður að lúta einræði ASÍ.

Það er því hjóm þegar þessi maður, sem harðast hefur barist fyrir viðhaldi verðtryggingar, skuli nú segjast óttast það sem flestir sjá að muni koma. Óttast afleiðingar þess kerfis sem hann sjálfur hefur harðast barist fyrir!

En næsta hrun verður verra, þá verður engin miskun. Stjórnmálamenn eru farnir að tala um að afnema þann þátt neyðarlaga er tryggir innistæður. Þetta er skýrt merki um það sem koma mun. Ríkissjóður er svo skuldum vafinn að engin leið er að hann geti lifað af næsta hrun. Þar er mikill munur frá síðasta hruni. Verðtryggð lán munu aftur stökkbreytast, ofaná þá hækkun sem fólk nú berst við. Einsýnt er að flestar fjölskyldur munu fara á hausinn og fyrirtæki einnig. Því mun atvinnuleysi komast á nýtt skelfilegt stig! Það er því full ástæða fyrir Gylfa að óttast, en óttinn einn hjálpar lítið.

Meðan þessi raunveruleiki blasir við, standa stjórnvöld í ströngu. Ekki þó við að reyna að afstýra þessari ógn, heldur við hin ýmsu gælumál sín. Þar er engu til sparað, hvorki fjármunum né mannskap.

Kosningin í daga er eitt dæmi þess. Allt að milljarð króna hefur farið í undirbúning þessa gæluverkefnis og nú skal bætt við kvart milljarð í dag. Það er þó ekkert í gildandi stjórnarskrá sem hægt ar að tengja við hrunið, haustið 2008 og heldur ekkert í tillögum stjórnlagaráðs sem hefði haft einhver áhrif á það. Það er heldur ekkert í þeim tillögum sem mun koma í veg fyrir annað hrun, þá ógn sem landsmenn allir ættu að vera uppteknir af og stjórnvöld að leggja allan sinn kraft í að forða.

Það sem ársþing ASÍ hefði getað gert til hjálpar launafólki í næsta hruni, var að krefjast afnáms verðtryggingar. Hvort það eitt og sér dugi til að fjölskyldur landsins lifi af það hrún er ekki víst, en það er víst að það myndi hjálpa mörgum.

 


mbl.is Óttast aðra kollsteypu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartur dagur í sögu verkalýðshreyfingarinnar

Það má með sönnu segja að dagurinn í dag sé svartur í sögu verkalýðshreyfingarinnar. Þegar hreyfingin átti þess kost að auka lýðræðið innan sinna raða, með því að færa val á forseta ASÍ frá því miðstjórnarræði sem það hefur verið í, til launþega sjálfra, brast 210 fulltrúa á ársþingi ASÍ kjark!

Þar með hefur Gylfi Arnbjörnsson tryggt sig í sessi, svo lengi sem hann sjálfur kýs!

Fulltrúræði innan ASÍ er auðvitað nauðsynlegt, þar þurfa fulltrúar allra þeirra stéttarfélaga sem að sambandinu standa að eiga sitt sæti. Það segir þó ekki að foseti eða stjórn ASÍ þurfi að vera undir þessu fulltrúaræði. Það er ekkert sem mælir gegn því að forseti og stjórn sé kosin almennri kosningu launafólks. Þvert á mót mælir allt með slíkri lýðræðisbreytingu.

Eins og staðan er í dag er það í valdi þess forseta sem við völd er hverju sinni, hversu lengi hann vill gegna því embætti, þarf einungis að tryggja sér atkvæði 150 þingfulltrúa á ársþingi ASÍ. Um það hafa launþegar ekkert að segja. Þar breytir engu þó forseti ASÍ gegni ekki sínum skildum fyrir launafólk, það kemur bara málinu ekkert við. Þarna skiptir það eitt máli hvað sú persóna vill, sem gegnir embættinu.

Þetta fyrirkomulag er úrelt, er arfur þess tíma er forsjárhyggja þótti dyggð. Í daga er það aftur lýðræðið sem fólk vill, en 210 þingfulltrúar á ársþingi ASÍ, árið 2012, eru gungur. Þorðu ekki að stíga skrefið til aukins lýðræðis. Það verður erfitt fyrir þetta fólk að horfa framaní félaga sína, þegar heim kemur!!

18. október 2012, mun í komandi sögubókum verða sagður svartur í sögu verkalýðshreyfingarinnar. Sagnfræðingar framtíðar munu sjálfsagt eiga eftir að klóra sér í hausnum, þegar þeir reyna að skilgreina hvernig á því stóð að lýðræðið innan verkalýðshreyfingarinnar var svo herfilega sniðgengið þennan dag.

 


mbl.is Forseti ASÍ ekki kosinn beinni kosningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjögur ár frá hruni

Vilhjálmur Birgisson, verkalýðskóngur á Akranesi, ritaði smá hugleiðingu á facebook vef sinn í dag, af tilefni þess að fjögur ár eru liðin frá hruni.

Þar bendir hann á að launafólk hafi orðið fyrir 20% kjaraskerðingu frá 1. jan. 2008, launahækkanir frá þeim tíma séu um 20% á meðan verðbólgan mælist rúm 40%. Þetta er sláandi en Villi segir þó ekki nema hálfann sannleikann. Sú staðreynd að fáir voru á strípuðum textum fyrir hrun gerir þessa skerðingu enn meiri, auk skerts vinnutíma hjá þeim sem þó hafa vinnu. Þá hafa skattar verið stór hækkaðir á sama tíma með tilheyrandi kjaraskerðingu og blessuð verðtryggingin hefur fært um 400 milljarða frá lánþegum til fjármagnseigenda. Þegar þetta er allt talið til er ljóst að kjaraskerðingar launafólks eru langtum meiri en 20%.

Það þarf því engann að undra þó gjaldþrot mælist meiri en nokkru sinni áður og eiga eftir að mælast enn hærri. Það er heldur ekkert undarlegt þó mælingar sýni vísbendingar um fækkun þeirra sem verst standa. Því fleiri sem fara á hausinn, því færri verða eftir sem mælast illa standandi skuldalega séð. Því meira sem étið er af kökunni, því minna er eftir af henni. Það væri gaman að vita hversu margir bætast á vandræðalistann á móti hverjum einum sem af honum dettur, vegna þess að hann er settur í þrot.

Það er deginum ljósara að svona verður ekki haldið áfram. Það mun einungis leiða þjóðina í þrot. Þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa staðið að til hjálpar fólki eru í mýflugumynd. Þegar reiknað er saman aðgerðir stjórnvalda til hjálpar heimilum og dregið frá þeirri upphæð allar skattahækkanir sem þau hafa lagt á sama hóp, kemur ríkið út í plús, stórum plús.

Dómstólar hafa þó hjálpað örlítið, einkum þeim sem voru með ólöglegu gengislánin. Sú hjálp er þó ekki nándarnæg, enda lánþegar sem varlega fóru og tóku verðtryggð lán, enn utan allrar hjálpar. Þar er verk að vinna og það bráð nauðsynlegt. Verðtryggingin er upphaf og endir þess óréttlætis sem dunið hefur á fjölskyldum landsins og þeir sem vilja halda henni eru réttnefndir landráðamenn.

400 milljarðar frá lánþegum til fjármagnseigenda er meira en nokkur gerir sér í raun grein fyrir. Bara í síðasta mánuðu færðust 11 milljarðar frá lánþegum til fjármagnseigenda! Og þetta er einungis vegna verðtryggingar, ofaná þetta koma svo vextirnir. Þetta er skelfileg mynd og ætti að vekja flesta, en stjórnvöld sofa vært. Nú hefur Verkalýðsfélag Akraness ákveðið að láta reyna á lögmæti verðtryggingar fyrir dómstólum og er það vel. Það skyldi þó ekki vera að dómstólar verði enn og aftur að koma fjölskyldum landsins til hjálpar, ekki sýna stjórnvöld nein merki þess.

Stjórnarliðar, einkum þó formenn stjórnarflokkanna, hafa verið duglegir að halda uppi áróðri um hversu allt er orðið gott hjá okkur, eða er alveg að verða gott. Miða þá gjarnan við ástandið í ríkjum ESB, en vinna þó á sama tíma að því að koma okkur í það samband. Þar njóta þau fulltingis flestra fréttamiðla og ekki hafa svokallaðir sérfræðingar legið á liði sínu, þar sem þeir koma fram með hverja bullgreinina af annari í fjölmiðla og mæra stjórnvöld. En staðreyndir tala öðru máli.

Nokkur þúsund störfum hefur verið lofað, nánast allt kjörtímabilið. Nú er séð að þau störf eru annars vegar erlendis og hins vegar skólabekkir landsins. Þetta og sú staðreynd að æ fleiri færast á framferði sveitarfélaga, veldur því að atvinnuleysi mælist minna. Engin raunveruleg störf hafa komið til, fyrir utan slatta af blýantsnögurum hjá ríkinu. Þar er vinnandi fólki sagt upp, fólki sem starfar við grunnþjónustuna og í staðinn eru ráðnir hinir og þessir flokksgæðingar í nefndir og störf sem lítinn eða engann tilgang hafa. Ekkert er reynt að liðka til svo aukin verðmæti megi myndast fyrir þjóðarbúið, þar er frekar dregið úr.

Það er hægt að benda á hinar og þessar tölur og hrópa; "sjáið árangurinn" og hafa stjórnvöld verið drjúg við slíkar yfirlýsingar. Staðreyndin er að eini árangurinn sem náðst hefur, hefur náðst vegna gerða fyrri ríkisstjórnar og ytri aðstæðna. Það er ekki hægt að benda á eina aðgerð núverandi stjórnvalda sem hafa hjálpað okkur. Sá mikli árangur að hér skuli enn vera lífvænlegt er kominn til þrátt fyrir stjórnvöld, hann er til kominn vegna dugaðar landans og þess að fólk veit að betri tíð mun koma. Veit að þessi afturhaldsstjórn mun falla í næstu kosningum.

Launafólkið í landinu á erfitt með að skilja málflutning stjórnvalda, á erfitt með að skilja að hér hafi orðið aukinn kaupmáttur. Pyngja þeirra segir annað, allt annað.

Fjölskyldur landsins skilja ekki þann málflutning að vandi þeirra sé að minnka, skilja ekki hvernig sú lausn að koma því á götuna sé einhver lausn.

Þetta fólk vill raunverulegar lausnir, lausnir sem byggjast á því að það hafi vinnu og geti lifað sómasamlegu lífi að þeim launum sem sú vinna gefur. Það vill lausnir á því hvernig það getur haldið sínum íbúðum, svo það hafi þak yfir höfuð sér.

Annað er ekki farið fram á og flest þetta fólk er orðið langþreitt eftir fjögur ár án nokkurar raunverulegar hjálpar.

Það stóð ekki á aðstoð til þeirra sem áttu innistæður í bönkum, við hrun þeirra. Það hefur ekki staðið á aðstoð við sama fólk og þá sem höndla með fé þess. Svo mikill hefur ákafi stjórnvalda verið, að sett hafa verið lög á Alþingi því til hjápar, lög sem Hæstiréttur hefur svo þurft að ógilda.

Hvers vegna var ekki hægt að fara sömu höndum um þann fjölda fólks sem skuldaði?! Hvers vegna var valin sú leið að hjálpa bara sumum og þá helst þeim stæðstu, en fjöldinn látinn sitja útundan?

Hvers vegna fékk einungis fámennur hluti þjóðarinnar aðstoð, fámennur hluti sem mest átti og sumir hverjir beinir þáttakendur í hrunadansinum?

Hvar er lýðræðið?!!

 


mbl.is Tæplega 16 þúsund í þrot frá 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gylfa Arnbjörnssyni ber að víkja

Er það virkilega svo að ekki eigi að ræða stefnu ASÍ um aðild að ESB? Nógu viljugur hefur forseti ASÍ verið að ræða þessi mál á opinberum vettvangi og hefur þar ekki verið spar á sínar skoðanir og gjarnan flutt þær í nafni ASÍ, án allrar heimildar!!

Sú skýring forseta ASÍ að "mennn hafi talið að ljúka ætti viðræðum svo þjóðin gæti tekið afstöðu til álitaefnanna", er hans persónulega skoðun. Þessi skoðun hefur aldrei verið samþykkt af hálfu aðildarfélaga ASÍ og enn síður af hálfu þess launafólks sem þau aðildarfélg skipa og standa að ASÍ. Þar af leiðir er forseti ASÍ að beyta sambandinu í sínum pólitíska leik.

Þá segir forseti ASÍ að sambandið hafi aldrei krafist aðildar að ESB óháð öllu og sett mjög sterka fyrirvara um sjávarútvegsmál, byggðamál og landbúnaðarmál. Aftur fer forsetinn fram með eigin skoðun. Aldrei hefur verið samþykkt aðildarumsókn að ESB af hálfu þeirra aðildarfélaga sem skipa ASÍ, hvorki með né án fyrirvara!! Einungis hefur verið samþykkt að skoða hvaða áhrif hugsanleg aðild að ESB hefði á launþega landsins og sú samþykkt var gerð um síðust aldamót!!

Það er full þörf á að ræða framgöngu forseta ASÍ í þessu máli á næsta þingi sambandsins. Þar þarf forseti sambandsins að skýra hvaða samþykktir hann styðst við í sínum pólitíska leik. Þar þarf að ræða hvers vegna ASÍ hefur unnið svo sterkt að máli sem engin vissa er fyrir að aðildarfélagar, launafólkið í landinu, sé sammála. Þar þarf að ræða hver framtíð þessa máls skuli verða, af hálfu ASÍ.

Þing sambandsins fer fram í næsta mánuði og enn er hægt að gera könnun meðal aðildarfélaga hver þáttur ASÍ skuli verða í aðildarumsókn landsins að ESB. En það þarf að hafa hraðar hendur svo það náist. Verði slík könnun ekki gerð meðal launafólks í landinu fyrir þing ASÍ, af hálfu stéttarfélaganna, fara fulltrúar þess fátækir á þing ASÍ, nánast vopnlausir. Þá er ekki annað í stöðunni en að óska eftir aukaþingi ASÍ um málið þannig að slík könnun geti orðið að veruleika. Það er launafólkið í landinu sem á að taka þessa ákvörðun, hún á ekki að liggja hjá einum manni sem hefur glatað öllum trúverðugleik.

Þá þarf þing ASÍ að taka afstöðu til þess hvort sambandið skuli efla samstarf við sambærileg samtök launafólks í nágrannalöndunum, eða hvort halda skuli áfram að vinna gegn þeim. Sú stefna sem forseti ASÍ hefur tekið upp einhliða, í málefnum er varða ESB, er í algjörri andstöðu við þá stefnu sem sambærileg aðildarfélög launafólks innan ESB hafa tekið. Á að halda áfram á þeirri braut svo fullnægja megi pólitískum vilja forseta ASÍ?

Það eru auðvitað mög mál sem þarf að ræða á þingi ASÍ. Launamálin eru auðvitað stæðst. Þau tvö mál sem ættu þó að vera í forgrunni og mestu máli skipta um framtíð launafólks eru aðildarumsóknin og stjórnun ASÍ. Ræða þarf fortíð og framtíð aðkomu ASÍ að aðidarumsókn að ESB. Þá er brýnt að ræða störf formanns og stjórnar ASÍ og hvernig sambandinu hefur verið misbeytt til handa fjármagnseigendum, atvinnurekendum og í pólitískum tilgangi. Þar hefur forseti ASÍ tekið sér stöðu gegn hagsmunum launþega.

Einnig þarf að ýta úr vör endurskipulagningu ASÍ, svo auka megi aðkomu launafólks að því, einkum við kjör þeirra manna sem sambandinu stjórna. Þetta er stórt verkefni og tekur langann tíma.  Því er mikilvægt að koma því á rekspöl, svo efla megi veg og virðingu þessa sambands stéttarfélaga. Verði það ekki gert er allt eins hægt að leggja ASÍ niður, það getur ekki lengur starfað í núverandi mynd, utan allra tengsla og án alls trausts launafólks.

Forseti ASÍ þarf að svara fyrir margt á þingi ASÍ. Hann hefur misst allt traust og allan trúverðugleik. Pólitískur hráskinnsleikur og varðstaða um kjör launafólks fer aldrei saman.

Því ber Gylfa Arnbjörnssyni að víkja.

 

 


mbl.is ASÍ tjái sig ekki um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru sveitafélögin með fólk í vinnu sem ekkert gerir ?

Menn nota tækifærið og kenna kjarasamningum um flest sem illa fer.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitafélaga segir að sveitafélögin verði að segja upp fólki vegna þessa samnings.

Það er merkilegt ef rétt er, þar sem fulltrúar sveitarfélaganna í samninganefndum hafa verið einstaklega duglegir við að halda launum starfsfólks þeirra í lágmarki og verið erfitt að fá þá að samnigsborði. Dæmi er um að starfsfólk sem fær laun frá sveitafélugum hafi verið samningslaust svo mánuðum eða árum skiptir, á meðan hafa sveitafélögin í raun verið að græða. Sumir þeirra hópa sem fengu samning nú í sumar, við sveitarfélögin, höfðu verið samningslausir í tæp þrjú ár þar á undan!

Ef það er staðreynd að sveitarfélögin geti ekki staðið við gerðann samning er eitthvað að. Þau hafa ákveðnar skyldur sem þarf að uppfylla og til þess hefur þeim verið markaðir tekjustofnar. Því hlýtur vandamálið að vera eitthvað eftirtalinna atriða; lögbundin verkefni eru of stór, tekjustofnar of litlir eða stjórnun léleg.

Varðandi verkefnin þá er ljóst mörg þeirra hafa verið flutt frá ríki til sveita á undanförnum árum og oftar en ekki hefur kostnaður vegna þeirra verið vanmetin. Halldór ætti frekar að snúa sér að því að fá það leiðrétt.  Tekjustofnar eru lögbundnir og duga sumum sveitum vel, þó aðrar geti ekki náð endum saman. Því bendir flest til að vandinn liggi fyrst og fremst í stjórnun sveitafélaganna. Það er vitað að mörg þeirra fóru offari fyrir hrun og súpa nú seiðið af því.

Vel rekið sveitafélag er einungis með það starfsfólk í vinnu sem þarf til að sinna þeim verkefnum sem þarf. Það hefur því varla getu til að segja upp starfsfólki, ef það ætlar að sinna sínum lögbundnu verkefnum.

Því hlýtur Halldór að ætlast til þess að verkefni færist frá sveitarfélugum svo þau geti fækkað starfsfólki, en hann hlýtur þó að gera sér grein fyrir því að þá minnka einnig tekjur sveitarfélaga. Varla er maðurinn að segja að sveitafélögin séu með fólk í vinnu, sem ekkert gerir.

 


mbl.is Sveitarfélögin munu segja upp fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband