Dýrt er drottins orð

Fyrst ber auðvitað að fagna þeirri launahækkun sem prestastétt hefur fengið, sérstaklega afturvirkni hennar. Þetta festir enn í sessi þau viðmið sem launafólk mun styðjast við, auk þess sem nú þarf ekki að nefna SALEK meira. Kjararáð, starfsfólk Alþingis, hefur fest sín viðmið enn frekar í sessi, með samþykki þriggja ríkisstjórna.

En dýrt er drottins orð og betur færi að boðari þess færi betur staðreyndir. Að vísu þurfa boðberar drottins orðs ekki að hengja sig á staðreyndir í sinni vinnu, en þegar kemur að veraldlegum efnum væri skemmtilegra að þetta fólk segði sannleikann.

Reyndar fer biskup fínt í þetta, segir hálfsannleik, gefur í skyn, svona eins og hún væri að boða drottins orð.

Biskup fagnar að loks sé leiðrétt laun hennar eftir tólf ára kyrrstöðu, að undanskildu því að laun hennar lækkuðu skömmu eftir hrun. Gefur í skyn að engar launahækkanir hafi komið til prestastéttarinnar í heil tólf ár. 

Þetta er ekki alsendis rétt, prestastétt hefur fengið launahækkanir á þessum tólf árum, í samræmi við verðlagsbreytingar. Hins vegar hefur ekki verið leiðrétt hjá henni sú skerðing sem hún varð fyrir eftir hrun, svona svipuð skerðing og flest launafólk í landinu varð fyrir. Það er gott að kjararáð hefur nú enn og aftur staðfest að nú sé rétti tíminn til að leiðrétta þær launalækkanir sem urðu í kjölfar hrunsins. Slíkar leiðréttingar hljóta þá að koma á allt launafólk í landinu.

Það er gott að geta bara sest niður og skrifað einn lítinn bréfstúf, svona örlitla stólræðu, til að fá laun sín hækkuð og það verulega. Ekki verra að fá slíka hækkun afturvirka um einhverja mánuði eða ár. Þokkaleg jólagjöf það. Ekki vantar kristilegt hugarfar þess fólks sem slíkt gerir og væntanlega mun það hugsa vel til þeirra sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu.

Aldraðir eru að fá fréttir af því þessa dagana að ekkert eigi að gera til að leiðrétta þeirra laun frá ríkinu, eiga bara að bíða enn lengur. Í ofanálag hafa aldrei fleiri aldraðir verið hlunnfarnir af jólauppbótinni sinni. Fátt heyrist í fjölmiðlum um það, þó þeir hafi farið offari vegna þess að innflytjendur, flestir múslímar, hafi ekki fengið slíka uppbót, væntanlega til að halda sín kristilegu jól.

Rökstuðningur kjararáðs fyrir þessari veglegu hækkun stenst ekki. Kjararáð á að fara að lögum en velur að gera það ekki. í stað þess að miða sína úrskurði við almennar launahækkanir í landinu, hefur það valið að vitna til hækkana sem það sjálft hefur úrskurðað, er búið að búa til ákveðna hringekju sem gefur veglegar launabætur með ákveðnu millibili, alltaf vitnað til hækkana sem það sjálft hefur úrskurðað. Þarna er auðvitað við Alþingi að sakast, en eðli málsins samkvæmt þá gerir það auðvitað ekkert í málinu. Þingmenn eru jú í hringekjunni sjálfir.

Kjararáð vinnur undir Alþingi og ríkisstjórn. Þeirra er ábyrgðin. Nú er svo komið að launafólk í landinu hefur fengið nóg. Þegar ákveðinn starfstétt stendur í lögmætu verkfalli vegna kjaramála, úrskurðar kjararáð hjá annarri starfstétt. Kröfur þeirrar sem voru í verkfalli voru sagðar jafngilda 20% launahækkun. Ekki er ljóst hver lokaniðurstaðan varð, þegar skrifað var undir, en ljóst að því marki var aldeilis ekki náð. Kjararáð úrskurðaði hins vegar kjarabætur upp á 25-30% launahækkanir og að auki afturvirkt til eins árs. Stór spurning hvort flugvirkjar samþykki samninginn eftir að hafa fengið svo blautan hanska í andlitið.

Ef ríkisstjórn og Alþingi halda að einhver friður verði á vinnumarkaði eftir þetta er það stór misskilningur. SALEK samkomulagið er sem betur fer horfið til feðra sinna og mun seint verða vakið upp aftur. Allar spár þeirra sem mest voru á móti því samkomulagi voru, hafa staðist. Þetta samkomulag var aldrei ætlað öllum landsmönnum. Þar átti að gilda hin gamalkunna hefð að allir ættu að vera jafnir, en sumir jafnari.

 


mbl.is „Leiðréttingar eftir 12 ára kyrrstöðu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Lítið fyrirtæki, sem lifði af Hrunið, geldur þess nú margfalt, að hafa vogað sér að reyna að halda lífi. Nú skal það étið upp til agna, því biskup, þingmaður, prestur, tollstjóri, hagstofustjóri og annað fylgifé, hafa krafist og fengið leiðréttingu launa sinna. Allt undir verndarvæng Kjararáðs, sem að því er virðist, er með endalaust pr.pr. fyrir hönd Ríkissjóðs. Okkar sjóðs!

 Til hvers baráttan var háð, er ekki gott að segja, en ætli þetta litla fyrirtæki, sem engan virðist eiga sinn talsmann, hafi ekki barasta hugsað of vel til samfélagsins og trúað því, að með viðveru þess væri það einhvers virði. Sú virðist alls ekki raunin og síðasti DiKotinn að falla. 

 Guð blessi rassgatið á Kjararáði.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 21.12.2017 kl. 03:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband