Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Hélt að eitthvað hefði mátt læra af hruninu
26.3.2019 | 19:31
Skúla virðist hafa tekist að reka tréflís í gatið á skektunni, í von um að takast að róa í land áður en hún óhjákvæmilega sekkur.
Það verður að segjast eins og er að Skúli er nokkuð sleipur í viðskiptum. Eftir að hafa kafsiglt einu flugfélagi tekst honum að fá hluta kröfuhafa til að breyta skuldum í hlutabréf. Síðan er ætlunin að selja rest. Sjálfur mun Skúli væntanlega labba frá þessu óskaddaður en hinir nýju hluthafar þurfa að bera skaðann. Fyrirtækinu verður ekki bjargað, dauðastríðið einungis lengt.
Það er annars magnað hvað einum manni getur tekist að valda miklum skaða. Hvað eitt lítið flugfélag getur haft áhrif á kjör margra einstaklinga, sem jafnvel aldrei hafa komið nálægt vélum þess flugfélags eða haft nokkur afskipti af því á nokkurn hátt.
Samkvæmt fréttum mun verða verðbólguskot, ef WOW með sínar skuldir verður látið rúlla. Slíkt verðbólguskot mun þó ekki hafa áhrif á fjármagnskerfið í landinu, heldur fyrst og fremst það fólk sem er að reyna að koma yfir sig þaki, eignast íbúð. Það fólk mun bera allan þunga af þeim skaða sem einn maður hefur valdið.
WOW skuldar rúma 20 milljarða. Sagt er að verðbólgan geti farið upp í 6% við fall fyrirtækisins. Gangi það eftir munu skuldir heimila landsins hækka rúma 50 milljarða. Þannig að fjármagnsöflin munu græða um 30 milljarða á þessu!
Þetta er hreint út ótrúlegt, svo ekki sé meira sagt. Hvernig í ósköpunum er þetta hægt?
Þetta sýnir hversu arfavitlaus verðtrygging lána er. Þar breytir engu hversu ábyrgir lántakendur eru, hversu duglegir þeir eru að standa við sínar skuldbindingar eða hversu gott veð liggur að baki lánum. Einn maður, fullur að uppskrúfuðum loftdraumum, knúinn áfram af óstjórnlegu egói, getur rústað lífi fjölskyldna landsins á einu bretti.
Ég hélt að eitthvað hefði mátt læra af hruninu!!
![]() |
Erum að vinna þetta mjög hratt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Á Evu klæðum
17.2.2019 | 10:54
Mail online flutti heimsbyggðinni nokkuð sérstæða frétt í morgun. Þar segir að breska verslunarkeðjan Boohoo ætli að hætta sölu á fötum sem innihalda ull af einhverju tagi, bannið tekur gildi hjá þeim í haust. Ástæðan er að dýraverndunarsamtökin PETA telji rúning áa vera dýraníð!
Þá vaknar spurning; hvernig skal framleiða föt? Í flestum fötum er ull af einhverju tagi þó hún hafi vissulega vikið nokkuð fyrir plastefnum. Varla viljum við þó framleiða fötin úr plast, þessu baneitraða efni sem allstaðar er verið að banna!
Þá eru einungis nýju föt keisarans eftir, öðru nafni Evuklæðin. Mannskepnan verður bara að vera nakin!
PETA samtökin fara þarna offari, svo vægt sé til orða tekið. Það er ekki dýraníð að rýja ærnar, hins vegar er það sannarlega dýraníð að gera það ekki og getur það leitt skepnuna til dauða. Það hefur eitthvað skolast til í haus þeirra hjá PETA sem fullyrða svona bull.
Og ekki er hitt skárra, að virt verslunarkeðja skuli taka undir þessa vitleysu. Það verður gaman að koma í verslanir þeirra á hausti komandi, einungis tóm herðatrén á fataslánum.
Það er vandlifað í henni veröld. Barnaskapur og fáviska virðast vera að ná völdum á öllum sviðum.
Hvað næst?!!
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvað með væntanlegt tap?
25.10.2018 | 10:20
Viðsnúningur í rekstri VÍS er nokkuð afgerandi. Ætla mætti að skýringin fælist í einhverri byltingu í rekstri þessa fyrirtækis. Og vissulega hefur orðið mikil bylting í rekstri VÍS, þó sú bylting skýri alls ekki þennan gróða fyrirtækisins. Afleiðingar þeirrar byltingar mun koma fram síðar, kannski að einhverju leyti á fjórða ársfjórðungi þessa árs en að fullu á því næsta. Þá mun rekstur VÍS fara hratt versnandi og tapið á fyrstu ársfjórðungum síðasta árs verða sem hismi samanborið við það tap sem verður sömu ársfjórðunga næsta árs.
Þegar þjónustufyrirtæki ákveður að rýra þjónustu við sína viðskiptavini og jafnvel leggja hana af, mun það að sjálfsögðu tapa þeim. Þetta gerði þjónustufyrirtækið VÍS um síðustu mánaðarmót, þegar það ákvað að stór hluti landsbyggðarinnar væri ekki þess verður að eltast við. Því munu flestir þessara viðskiptavina þess hætta viðskiptum og leita annað, jafn skjótt og gildandi samningar renna út.
Þar með hefur VÍS tapað mörgum bestu viðskiptavinum sínum, viðskiptavinum sem hafa verslað við þetta fyrirtæki í áratugi, viðskiptavini sem hafa verið einstaklega hagstæðir VÍS. Eftir sitja þeir sem kosta VÍS mest, eins og bílaleigur og fleiri slík fyrirtæki.
Það er alveg magnað hvað sumir geta spilað allt úr höndum sér og ljóst að stjórnendur VÍS eru þar engir eftirbátar.
![]() |
910 milljóna hagnaður VÍS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvers vegna?
17.3.2018 | 17:19
Hvers vegna þarf að hlíta þessum dómi EFTA dómstólsins? Hann var dæmdur út frá röngum forsendum!
EFTA dómstóllinn dæmdi í þessu máli út frá verslunar- og þjónustukafla EES samningsins, ekki landbúnaðarkaflanum. Samkvæmt landbúnaðarkaflanum hefði dómstóllinn ekki getað komist að sömu niðurstöðu, enda sérstaða Íslands í landbúnaðarmálum kristal skýr í þeim kafla.
Atvinnuvegaráðuneytið þarf því engan aðlögunartíma, þarf einungis að tilkynna til Brussel að Ísland hyggist ekki ætla að taka þennan dóm til greina, á þeirri forsendu að dómurinn hafi verið kveðinn upp á röngum forsendum. Láta síðan á það reyna hvort einhver eftirmál verða.
![]() |
Þörf á nokkurra ára aðlögunartíma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Að búa til sparnað með kúluláni
12.3.2018 | 09:23
Það er nú þannig frú Þorgerður að allir gjaldmiðlar eru góðir meðan maður á þá og jafnframt slæmir þegar þeir eru í skuld. Krónan okkar er þar ekkert undanskilin. Munurinn á henni og öðrum gjaldmiðlum er að stjórnmálamenn ákváðu á sínum tíma að taka upp verðtryggingu skulda, hér á landi. Ekkert annað land í hinum vestræna heimi ástundar slíka okurstarfsemi, ekki einu sinni Mafían vill láta bendla sig við slíka viðskiptahætti.
En þetta þekkir frú Þorgerður Katrín auðvitað mæta vel. Hún stofnaði fyrirtæki, fyrri hluta árs 2008, til að halda utanum sparifé sitt. Spariféð var sótt í bankann, í formi kúluláns, upp á tæpar tvö þúsund milljónir, eða mánaðarlaun 10000 verkamanna. Þegar bankakerfið hrundi tapaði hún auðvitað þessu meinta sparifé sínu. En henni til happs voru kröfuhafar og dómstólar henni hliðhollir, þannig að lánið þurfti ekki að borga! Nafn gjaldmiðilsins breytir þar engu.
Það sannaðist þarna að það er gott að eiga peninga, verra að skulda þá. Nema auðvitað að hægt sé að komast hjá að greiða skuldir sínar!!
![]() |
Krónan fín meðan þú átt hana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Draumaland vogunarsjóða
17.2.2018 | 17:08
Ísland er draumaland erlendra vogunarsjóða, sjóða sem lifa á því að veðja á hörmungar annarra og græða á þeim. Stundum nefndir hrægammasjóðir.
Þessir erlendu sjóðir eru nú að yfirtaka Ísland, eru að eignast hluti í æ fleiri fyrirtækjum og bönkum. Fyrr en varir verða þeir komnir með ráðandi hlut í flestum stærstu fyrirtækjum landsins. Fyrsti bankinn er að falla þeim í hönd og hinir munu sjálfsagt fylgja á eftir.
Á Alþingi rífast menn svo um einhver smámál sem engu skipta, stundum mál sem eru fyrir löngu gleymd þjóðinni. Stóru málin, hvernig peningamálum þjóðarinnar skuli háttað, hvernig við viljum haga framtíð okkar, er ekki rætt á þessari æðstu stofnun landsins. Þar þora menn ekki að æmta gegn erlenda auðvaldinu.
Síðan "in the miricle of time" mun Soros svo mæta til að heimta sinn stól, stólinn sem Kata vermir fyrir hann þessa dagana!
![]() |
Vogunarsjóður með yfir 10% í Símanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Horfa þarf í báðar áttir
17.1.2018 | 08:32
Það þarf að horfa í báðar áttir, þegar kemur að BrExit. Hér virðast stjórnvöld fyrst og fremst horfa til viðskipta við Bretland, eftir að það hefur gengið úr ESB og vissulega er mikilvægt að niðurstaða samninga okkar við Breta verði góð.
Norðmenn virðast hins vegar hugsa meir um hver áhrif á EES samninginn BrExit hefur. Og ekki skal vanmeta þau áhrif. Annars vegar er ljóst að nái Bretar sambærilegum viðskiptasamningum, eða betri, en EES samningurinn hljóðar upp á, án þeirra kvaða sem í EES samningnum liggja, þarf vissulega að endurskoða hann. Hins vegar er ljóst að þær breytingar sem munu eiga sér stað innan ESB, eftir BrExit, munu hafa veruleg áhrif á EES samninginn.
Því þurfa stjórnvöld hér að horfa til beggja átta, þegar hugað er að BrExit. Að góðum viðskiptasamningum verði náð við Breta og ekki síður að huga að endurupptöku EES samningsins, jafnvel uppsögn hans.
Það er ljóst að EES samningurinn er farinn að há okkur verulega og í raun er hann fallinn úr gildi gagnvart Íslandi, þar sem hann er farin að brjóta verulega á stjórnarskrá okkar. Fullveldið hefur verið skert verulega og hingað koma hinar ýmsu tilskipanir sem Alþingi virðist ekki hafa vald til að hafna. Þá er ljóst að dómstóll EFTA túlkar þennan samning á þann hátt að fullveldi okkar er haft að engu.
Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að á sínum tíma var þessi samningur samþykktur af Alþingi, án samráðs við þjóðina. Það samráðsleysi var rökstutt með því að EES samningurinn skerti ekki á neinn hátt ákvörðunarvald Alþingis og gengi ekki á nokkurn hátt gegn stjórnarskrá okkar.
Annað hefur komið á daginn. Það sem upphaflega átti að vera viðskiptasamningur er nú orðið að einhverju allt öðru. Samningur sem átti að snúast um gagnkvæm viðskipti, snýst nú um að samþykkja hinar ýmsu tilskipanir, settar einhliða af öðrum aðilanum og fjalla oftar en ekki um eitthvað allt annað en viðskipti.
![]() |
Brexit rætt í ríkisstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Úrsögn úr EES
15.11.2017 | 08:10
Það er ljóst að ný ríkistjórn þarf að bregðast við dómi EFTA dómstólsins. Niðurstaðan er óviðunandi og vekur upp spurningar um hvort viljaleysi núverandi landbúnaðarráðherra eigi sõk á hvernig komið er, hvort slegið var slöku í málsvõrninni. Það leyndi sér ekki gleði hennar yfir dómnum, í fréttamiðlum.
Nú þekki ég ekki hvort hægt er að áfrýja dómum þessa dómstóls. Ef þetta er endanlegur dómur, er einungis eitt úrræði eftir, úrsögn úr EES.
Ef þessi dómur stendur, er ljóst að forsendur veru okkar í EES eru brostnar. Þegar sá samningur var samþykktur af Alþingi var fullyrt að í engu væri verið að hefta sjálfstæði þjóðarinnar. Þegar svo er komið að við ráðum ekki lengur hvað við flytjum til landsins, ráðum ekki hvort við setjum lýðheilsu ofar gróðabraski verslunar, er ljóst að við eigum ekki lengur erindi innan EES.
![]() |
Sérstaðan tapast með bakteríunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Veisla ríkisstjórnarinnar súr
14.9.2017 | 02:44
"Sjáið ekki veisluna?" Þannig tala ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Þeir sem ekki "sjá veisluna" eru eitthvað undarlegir, að þeirra mati. Veislumatur ríkisstjórnarinnar er súr og farið að slá í hann!
Þeir sem minnst hafa, aldraðir og öryrkjar, eiga að gleðjast yfir því sem kemur einhvertímann í framtíðinni. Þó vænn afgangur sé af fjárlögum, að mati fjármálaráðherra, verður þetta fólk að bíða enn um sinn. Á meðan telja ráðherrar og þingmenn enn þá peninga sem bættust í veski þeirra, daginn eftir síðustu kosningar og munu sennilega verða uppteknir við þá talningu um eitthver misseri enn. A.m.k. er ekki að sjá að nokkur þeirri hafi tíma til að sinna vinnu sinni!
Fjárlagafrumvarpið er með þeim hætti að jafnvel hörðustu Marxistar myndu sennilega skammast sín. Skattahækkanir sem aldrei fyrr og að venju er ráðist fyrst og fremst á þá sem verr standa í þjóðfélaginu. Hækkun eldsneytisgjalds, sú stærst hingað til, lendir fyrst og fremst á landsbyggðinni. Peningana á þó ekki að nýta þar né til samgangna yfirleitt. Til þeirra framkvæmda skal annar skattur lagður á, svokölluð veggjöld. Ekki bæta þessir skattar vanda bænda!
Skattleggja skal ferðaþjónustuna enn frekar með hækkun virðisaukaskatts á gistingu og afnámi afsláttar bílaleigna. Þessar skattálögur á ferðaþjónustuna nú, þegar farið er að falla undan henni, getur orðið hennar banabiti. Þar breytir engu hvort menn telji rétt eða rangt að hækka þessa skatta, áhrifin eru augljós.
Fjárlagafrumvarpið ber merki þess að fyrir því stendur maður sem annað hvort þekkir ekki þau mál sem honum er treyst fyrir eða hann lýgur að þjóðinni. Nú síðast í kvöld, í eldhúsdagsumræðum, gat þessi maður ekki setið á sér að ljúga. Að vísu ekki stór lygi, en lygi samt. Hann sagði m.a. að hér á landi væru sveitarfélög með allt niður í tíu íbúa. Það sveitarfélag sem fæsta íbúa telur, Árneshreppur á Ströndum, hefur 46 íbúa, hafa fækkað um 4 á síðasta áratug.
Ráðherra landbúnaðarmála leggur ofuráherslu á að fækka sauðfé í landinu um 20%, þó nú sé vitað að engin offramleiðsla er til staðar, að minni birgðir voru til af kjöti nú í haust en fyrir ári síðan og heildarbirgðir svo litlar að í slæmu árferði yrði kjötskortur.
Það er von að forsætisráðherra óttist annað hrun hér á landi. Með þetta fólk sér við hlið mun sannarlega verða annað hrun og það fyrr en síðar. Með fjármálaráðherra sem lýgur að þjóðinni, sem kemur fram með tært vinstra skattafjárlagafrumvarp og talar niður þjóðarmyntina, með atvinnumálaráðherra sem ræðst með afli gegn þeim atvinnuvegum sem henni ber að standa vörð um, er einsætt að það mun verða hrun.
Forsætisráðherra er verkstjóri ríkisstjórnarinnar. Það er í hans valdi að hafa hemil á þessu ofstopafólki sem hann valdi með sér í ríkisstjórn. Hann ber ábyrgðina.
Þó matur veislunnar sé gómsætur fyrir ráðherra og þingmenn, þeirra vinum og menntaelítuna, er hann súr fyrir þjóðina, einkum þá sem verr standa í þjóðfélaginu og landsbyggðina!!
![]() |
Ætlum að sækja fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 02:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það étur enginn sömu kökusneiðina tvisvar
8.7.2017 | 07:59
Aflátsbréfin svokölluðu, þ.e. sala á upprunaábyrgð framleiðslu orku, voru fundin upp af kontóristum ESB, suður í Brussel. Væntanlega strangtrúuðum kaþólikkum. Um aldir hafa slík aflátsbréf verið vinsæl hjá kaþólsku kirkjunni, þar sem syndarar hafa getað greitt sig frá syndum sínum.
Hvað um það, þessi viðskipti eiga sér stað og íslensk orkufyrirtæki hafa verið dugleg við að stunda þau. Héðan eru seldar upprunaábyrgðir fyrir framleiðslu á hreinni orku til kolaorkuvera á meginlandi Evrópu. Þau fyrirtæki skreyta sig síðan með þeim fjöðrum og selja sitt kolarafmagn sem hreina orku. Íslensku orkufyrirtækin taka á sig skítinn fyrir þau.
Vissulega geta íslensku orkufyrirtækin haldið því fram með sanni að þau framleiði einungis hreina orku, en þegar kemur að sölu til neytenda, er þessi orka langt frá því að vera hrein. Hreinleikinn var seldur úr landi, það étur enginn sömu kökusneiðina tvisvar.
Svona til upplýsinga þá seldu íslensku orkufyrirtækin aflátsbréf fyrir um 11% af sinni framleiðslu árið 2011, við neytendur fengum orku sem var framleidd 5% með kjarnorku og 6% með jarðefnaeldsneyti.
Árið 2015 var hluti aflátsbréfanna orðinn 79% af framleiðslu íslensku orkufyrirtækjanna, 20% fóru til kjarnorku og 59% til jarðefnaeldsneytis. Einungis 21% þeirrar orku sem íslenskir orkuframleiðendur framleiða telst vera endurnýjanleg orka!!
Smá viðbót:
Vegna þessara viðskipta sitjum við Íslendingar uppi með 154 kíló af geislavirkum úrgangi og höfum dælt 289.641 tonni af kóldioxídi út í andrúmsloftið. Þetta skrifast alfarið á Ísland.
Hreinleikinn var seldur úr landi!!
![]() |
Rafmagnið 100% endurnýjanleg orka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)