Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Draumaland vogunarsjóða

Ísland er draumaland erlendra vogunarsjóða, sjóða sem lifa á því að veðja á hörmungar annarra og græða á þeim. Stundum nefndir hrægammasjóðir.

Þessir erlendu sjóðir eru nú að yfirtaka Ísland, eru að eignast hluti í æ fleiri fyrirtækjum og bönkum. Fyrr en varir verða þeir komnir með ráðandi hlut í flestum stærstu fyrirtækjum landsins. Fyrsti bankinn er að falla þeim í hönd og hinir munu sjálfsagt fylgja á eftir.

Á Alþingi rífast menn svo um einhver smámál sem engu skipta, stundum mál sem eru fyrir löngu gleymd þjóðinni. Stóru málin, hvernig peningamálum þjóðarinnar skuli háttað, hvernig við viljum haga framtíð okkar, er ekki rætt á þessari æðstu stofnun landsins. Þar þora menn ekki að æmta gegn erlenda auðvaldinu.

Síðan "in the miricle of time" mun Soros svo mæta til að heimta sinn stól, stólinn sem Kata vermir fyrir hann þessa dagana!

 


mbl.is Vogunarsjóður með yfir 10% í Símanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horfa þarf í báðar áttir

Það þarf að horfa í báðar áttir, þegar kemur að BrExit. Hér virðast stjórnvöld fyrst og fremst horfa til viðskipta við Bretland, eftir að það hefur gengið úr ESB og vissulega er mikilvægt að niðurstaða samninga okkar við Breta verði góð.

Norðmenn virðast hins vegar hugsa meir um hver áhrif á EES samninginn BrExit hefur. Og ekki skal vanmeta þau áhrif. Annars vegar er ljóst að nái Bretar sambærilegum viðskiptasamningum, eða betri, en EES samningurinn hljóðar upp á, án þeirra kvaða sem í EES samningnum liggja, þarf vissulega að endurskoða hann. Hins vegar er ljóst að þær breytingar sem munu eiga sér stað innan ESB, eftir BrExit, munu hafa veruleg áhrif á EES samninginn.

Því þurfa stjórnvöld hér að horfa til beggja átta, þegar hugað er að BrExit. Að góðum viðskiptasamningum verði náð við Breta og ekki síður að huga að endurupptöku EES samningsins, jafnvel uppsögn hans.

Það er ljóst að EES samningurinn er farinn að há okkur verulega og í raun er hann fallinn úr gildi gagnvart Íslandi, þar sem hann er farin að brjóta verulega á stjórnarskrá okkar. Fullveldið hefur verið skert verulega og hingað koma hinar ýmsu tilskipanir sem Alþingi virðist ekki hafa vald til að hafna. Þá er ljóst að dómstóll EFTA túlkar þennan samning á þann hátt að fullveldi okkar er haft að engu.

Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að á sínum tíma var þessi samningur samþykktur af Alþingi, án samráðs við þjóðina. Það samráðsleysi var rökstutt með því að EES samningurinn skerti ekki á neinn hátt ákvörðunarvald Alþingis og gengi ekki á nokkurn hátt gegn stjórnarskrá okkar.

Annað hefur komið á daginn. Það sem upphaflega átti að vera viðskiptasamningur er nú orðið að einhverju allt öðru. Samningur sem átti að snúast um gagnkvæm viðskipti, snýst nú um að samþykkja hinar ýmsu tilskipanir, settar einhliða af öðrum aðilanum og fjalla oftar en ekki um eitthvað allt annað en viðskipti.


mbl.is Brexit rætt í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrsögn úr EES

Það er ljóst að ný ríkistjórn þarf að bregðast við dómi EFTA dómstólsins. Niðurstaðan er óviðunandi og vekur upp spurningar um hvort viljaleysi núverandi landbúnaðarráðherra eigi sõk á hvernig komið er, hvort slegið var slöku í málsvõrninni. Það leyndi sér ekki gleði hennar yfir dómnum, í fréttamiðlum.

Nú þekki ég ekki hvort hægt er að áfrýja dómum þessa dómstóls. Ef þetta er endanlegur dómur, er einungis eitt úrræði eftir, úrsögn úr EES.

Ef þessi dómur stendur, er ljóst að forsendur veru okkar í EES eru brostnar. Þegar sá samningur var samþykktur af Alþingi var fullyrt að í engu væri verið að hefta sjálfstæði þjóðarinnar. Þegar svo er komið að við ráðum ekki lengur hvað við flytjum til landsins, ráðum ekki hvort við setjum lýðheilsu ofar gróðabraski verslunar, er ljóst að við eigum ekki lengur erindi innan EES.


mbl.is Sérstaðan tapast með bakteríunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veisla ríkisstjórnarinnar súr

"Sjáið ekki veisluna?" Þannig tala ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Þeir sem ekki "sjá veisluna" eru eitthvað undarlegir, að þeirra mati. Veislumatur ríkisstjórnarinnar er súr og farið að slá í hann!

Þeir sem minnst hafa, aldraðir og öryrkjar, eiga að gleðjast yfir því sem kemur einhvertímann í framtíðinni. Þó vænn afgangur sé af fjárlögum, að mati fjármálaráðherra, verður þetta fólk að bíða enn um sinn. Á meðan telja ráðherrar og þingmenn enn þá peninga sem bættust í veski þeirra, daginn eftir síðustu kosningar og munu sennilega verða uppteknir við þá talningu um eitthver misseri enn. A.m.k. er ekki að sjá að nokkur þeirri hafi tíma til að sinna vinnu sinni!

Fjárlagafrumvarpið er með þeim hætti að jafnvel hörðustu Marxistar myndu sennilega skammast sín. Skattahækkanir sem aldrei fyrr og að venju er ráðist fyrst og fremst á þá sem verr standa í þjóðfélaginu. Hækkun eldsneytisgjalds, sú stærst hingað til, lendir fyrst og fremst á landsbyggðinni. Peningana á þó ekki að nýta þar né til samgangna yfirleitt. Til þeirra framkvæmda skal annar skattur lagður á, svokölluð veggjöld. Ekki bæta þessir skattar vanda bænda!

Skattleggja skal ferðaþjónustuna enn frekar með hækkun virðisaukaskatts á gistingu og afnámi afsláttar bílaleigna. Þessar skattálögur á ferðaþjónustuna nú, þegar farið er að falla undan henni, getur orðið hennar banabiti. Þar breytir engu hvort menn telji rétt eða rangt að hækka þessa skatta, áhrifin eru augljós.

Fjárlagafrumvarpið ber merki þess að fyrir því stendur maður sem annað hvort þekkir ekki þau mál sem honum er treyst fyrir eða hann lýgur að þjóðinni. Nú síðast í kvöld, í eldhúsdagsumræðum, gat þessi maður ekki setið á sér að ljúga. Að vísu ekki stór lygi, en lygi samt. Hann sagði m.a. að hér á landi væru sveitarfélög með allt niður í tíu íbúa. Það sveitarfélag sem fæsta íbúa telur, Árneshreppur á Ströndum, hefur 46 íbúa, hafa fækkað um 4 á síðasta áratug.  

Ráðherra landbúnaðarmála leggur ofuráherslu á að fækka sauðfé í landinu um 20%, þó nú sé vitað að engin offramleiðsla er til staðar, að minni birgðir voru til af kjöti nú í haust en fyrir ári síðan og heildarbirgðir svo litlar að í slæmu árferði yrði kjötskortur.

Það er von að forsætisráðherra óttist annað hrun hér á landi. Með þetta fólk sér við hlið mun sannarlega verða annað hrun og það fyrr en síðar. Með fjármálaráðherra sem lýgur að þjóðinni, sem kemur fram með tært vinstra skattafjárlagafrumvarp og talar niður þjóðarmyntina, með atvinnumálaráðherra sem ræðst með afli gegn þeim atvinnuvegum sem henni ber að standa vörð um, er einsætt að það mun verða hrun.

Forsætisráðherra er verkstjóri ríkisstjórnarinnar. Það er í hans valdi að hafa hemil á þessu ofstopafólki sem hann valdi með sér í ríkisstjórn. Hann ber ábyrgðina.

Þó matur veislunnar sé gómsætur fyrir ráðherra og þingmenn, þeirra vinum og menntaelítuna, er hann súr fyrir þjóðina, einkum þá sem verr standa í þjóðfélaginu og landsbyggðina!!

 


mbl.is „Ætlum að sækja fram“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það étur enginn sömu kökusneiðina tvisvar

 Aflátsbréfin svokölluðu, þ.e. sala á upprunaábyrgð framleiðslu orku, voru fundin upp af kontóristum ESB, suður í Brussel. Væntanlega strangtrúuðum kaþólikkum. Um aldir hafa slík aflátsbréf verið vinsæl hjá kaþólsku kirkjunni, þar sem syndarar hafa getað greitt sig frá syndum sínum.

Hvað um það, þessi viðskipti eiga sér stað og íslensk orkufyrirtæki hafa verið dugleg við að stunda þau. Héðan eru seldar upprunaábyrgðir fyrir framleiðslu á hreinni orku til kolaorkuvera á meginlandi Evrópu. Þau fyrirtæki skreyta sig síðan með þeim fjöðrum og selja sitt kolarafmagn sem hreina orku. Íslensku orkufyrirtækin taka á sig skítinn fyrir þau.

Vissulega geta íslensku orkufyrirtækin haldið því fram með sanni að þau framleiði einungis hreina orku, en þegar kemur að sölu til neytenda, er þessi orka langt frá því að vera hrein. Hreinleikinn var seldur úr landi, það étur enginn sömu kökusneiðina tvisvar.

Svona til upplýsinga þá seldu íslensku orkufyrirtækin aflátsbréf fyrir um 11% af sinni framleiðslu árið 2011, við neytendur fengum orku sem var framleidd 5% með kjarnorku og 6% með jarðefnaeldsneyti.

Árið 2015 var hluti aflátsbréfanna orðinn 79% af framleiðslu íslensku orkufyrirtækjanna, 20% fóru til kjarnorku og 59% til jarðefnaeldsneytis. Einungis 21% þeirrar orku sem íslenskir orkuframleiðendur framleiða telst vera endurnýjanleg orka!!

Smá viðbót:

Vegna þessara viðskipta sitjum við Íslendingar uppi með 154 kíló af geislavirkum úrgangi og höfum dælt 289.641 tonni af kóldioxídi út í andrúmsloftið. Þetta skrifast alfarið á Ísland.

Hreinleikinn var seldur úr landi!! 


mbl.is Rafmagnið 100% endurnýjanleg orka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hamra járnið kalt

Svo lengi má hamra kalt járn að það mótist. Þetta er málpípum ferðaþjónustunnar að takast, að hamra svo á hæpnum eða röngum forsendum að þær hljóma sem sannar.

Á góðviðrisdögum er talað um ferðaþjónustuna sem einn af hornsteinum íslensks hagkerfis og vissulega má að hluta taka undir það, eða hvað?

Velta ferðaþjónustunnar hefur vissulega aukist ævintýralega síðustu ár, enda fjölgun ferðafólks til landsins svo mikil að vart þekkist annað eins á byggðu bóli. Það er þó margt að í íslenskri ferðaþjónustu, gullgrafaraævintýrið virðist blómstra þar sem aldrei fyrr. Verðlag á þjónustunni er með þeim hætti að mafíósar myndu skammast sín. Þegar gengið féll, eftir hrun, voru allir verðmiðar í erlendum gjaldmiðlum, þegar svo gengi krónunnar fór að rísa, þótti ferðaþjónustunni hæfilegra að færa sína verðmið yfir í íslenskar krónur. Þetta hefur leitt til þess að fyrir herbergiskytru sem vart er fólki bjóðandi er tekið eins og um fimm stjörnu hótel sé að ræða. Sjoppumatur er verðlagður sem stórsteikur. Og svo kenna þeir sem tjá sig fyrir hönd ferðaþjónustuaðila alltaf einhverju öðru um, þegar sökudólgurinn er óhófleg fégræðgi þeirra sem að þessari þjónustu standa.

Umræðan í dag er um hækkun á virðisaukaskatti, á þjónustu sem veitt er ferðafólki. Samkvæmt orðum framkvæmdastjóra SAF mun þessi hækkun nema um 20 milljarða kostnaðarauka á ferðaþjónustuna. Ekki ætla ég að draga þá fullyrðingu í efa, enda ætti hún að vita hvað hún segir.

Nú er það svo að ekki er verið að tala um að hækka vask á ferðaþjónustuna umfram aðra þjónustu, einungis verið að afnema undanþágur sem ferðaþjónustan hefur notið. Undanþágur frá vask greiðslum, sem auðveldlega má túlka sem ríkisstyrk. Þessi ríkisstyrkur hefur því verið nokkuð ríflegur, u.þ.b. 43% hærri en sú upphæð sem notuð er til landbúnaðar í landinu.

Ef það er svo að ferðaþjónustan getur ekki keppt á sama grunni og önnur þjónusta í landinu, er spurning hvort hún eigi yfirleitt tilverurétt. Þetta eru stór orð og kannski full mikið sagt, en einhver ástæða hlýtur að liggja að baki "vanda" ferðaþjónustunnar. Væri kannski hægt að reka þessa þjónustu á sama grunni og aðra þjónustu ef arðsemiskrafan væri svipuð? Getur verið að græðgin sé að fara með ferðaþjónustuna?

Afnám undanþágu á vask greiðslu ferðaþjónustunnar er tengd öðru og stærra máli, nefnilega lækkun á almennu vask prósentunni. Þetta er því ótvíræður hagnaður fyrir almenning í landinu. Hvers vegna hefur enginn innan verkalýðsbáknsins tjáð sig um það? Hvers vegna opnar verslun og þjónusta ekki á þá umræðu? Hvers vegna þegja allir fjölmiðlar um þessa lækkun á vask prósentunni til almennings? Þessi mál eru þó spyrt saman.

Ferðaþjónustan vill ekki borga skatta og ferðaþjónustan kallar eftir lækkun gengis krónunnar. Þetta tvennt fer þó illa saman. Ef ferðaþjónustan er svo illa stödd að nauðsynlegt er fyrir hana að fá undanþágur frá skattgreiðslum, er hún væntanlega nokkuð skuldsett. Lækkun gengis krónunnar leiðir sannarlega til aukinnar verðbólgu og hækkunar á vöxtum. Varla eru skuldsett fyrirtæki að sækjast eftir slíku. Jafnvel þó víst sé að ferðaþjónustan muni færi verðmiða sína yfir í erlenda gjaldmiðla, svona á meðan gengið er fellt, dugir það vart til ef skuldastaðan er sú að undanþága á sköttum er nauðsyn.

Ekki getur verið að rekstrarkostnaður sé að sliga ferðaþjónustuna. Vegna þess hve hátt gengi krónunnar er, er ljóst að erlendur kostnaður, s.s. byggingarefni og fleira, hefur sjaldan verið lægra. Innlendur kostnaður er vart að leggja hana. Að vísu voru nokkrar hækkanir launa, en þar sem þær hækkanir eru í prósentum og grunnurinn sem sú prósentutala er lögð á svo lág, er þar einungis um smáaura að ræða, í samhengi við veltu í ferðaþjónustu. Fram til þessa hafa þessi fyrirtæki farið yfir einkalönd fólks án þess að greiða svo mikið sem eyri fyrir, jafnvel heilu flokkarnir af rútum sem mæta heim á hlað hjá fólki, án þess að spyrja húsráðendur. Ferðaþjónustan hefur vaðið yfir landið án þess að skeyta um eitt né neitt og skilið heilu svæðin eftir í sárum. Víða er svo komið að vart er hægt að komast nærri náttúruperlum landsins vegna stórskaða á umhverfinu. Svo er bara kallað eftir hjálp frá ríkinu og það krafið um bætur?!

Að margra mati er fjöldi ferðamanna kominn langt yfir þolmörk. Ekki þarf að fara víða til að sjá að a.m.k. sumir staðir eru komnir langt yfir þolmörkin. Málpípur ferðaþjónustunnar tala í sífellu um að dreifa þurfi betur ferðafólki um landið, að nægt pláss sé fyrir fleiri ferðamenn ef dreifingin verður meiri. En með það, eins og annað, eiga einhverjir aðrir að sjá um þá dreifingu. Það er þó ljóst að enginn getur séð um þá dreifingu nema þeir sem selja ferðirnar. Þá komum við enn og aftur að fégræðginni. Í auglýsingum erlendis eru fagrar myndir af okkar helstu perlum, minna um myndir frá öðrum perlum landsins og auðvitað engar myndir af moldarflögunum sem eru komin við fallegustu staðina. Þetta leiðir til þess að erlendir ferðamenn sækjast mest eftir að heimsækja þá staði sem fallegu myndirnar eru af. Af einskærri fégræðgi vilja því allir ferðaþjónustuaðilar selja inn á þá, það er auðvelt og gefur mest í aðra hönd. Að kynna nýja staði kostar peninga og enn og aftur vill ferðaþjónustan að þeir komi úr ríkissjóði.

Ferðaþjónustan fær nú 20 milljarða í dulbúnum ríkisstyrk, borgar lægstu laun sem þekkjast í landinu og greiðir helst ekki fyrir neitt sem hún selur ferðafólki. Henni er ekki vorkunn.

 

 


mbl.is Mikið virðingarleysi stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verslunin grefur hægt en örugglega undan sjálfri sér

Verslunareigendur og samtök þeirra geta barið hausnum við stein. Þessir aðilar halda áfram að reyna að afsaka þá svívirðu sem þeir stunda gagnvart neytendum. Meðan þessir aðilar geta ekki komið því í sinn þykka haus að verslun er þjónusta fyrir neytendur, munu þeir stunda þennan leik. Og enginn mun tapa meira á þessu en einmitt verslunin sjálf.

Neytendur eru ekki hálfvitar, neytendur láta ekki segja sér hvar þeir eiga að versla. Þeir líta einfaldlega á tvo þætti, verð og þjónustu. Út frá þessum punktum versla neytendur. Eins og álagning er almenn hér á landi, er auðvitað leitað annarra leiða og meðan viðhorf talsmanna verslunar breytist ekki, líta neytendur það sem lélega þjónustu.

Það er alveg sama hvernig reiknað er, íslensk verslun leggur óhóflega á allar vörur, sérstaklega svokallaðar nauðsynjavörur. Talsmenn verslunar hafa borið við íslenskri krónu, flutningskostnaði og smáum innkaupum af erlendum heildsölum. Venjulegur neytandi, sem verslar á netinu býr líka við íslenska krónu, þarf að borga hlutfallslega mun hærri flutningskostnað og hefur ekki tök á að versla við erlendan heildsala, heldur verslar hann af smásala!

Þrátt fyrir þetta eru mörg dæmi þess að íslenskur neytandi geti keypt sér far til útlanda, verslaða þar þann hlut sem honum vantar (t.d. dekk undir bílinn sinn), flogið með vöruna heim, borgað af henni öll tilskilin gjöld til ríkisins og átt eftir afgang í samanburði við íslenska verslun með sama hlut!

Ef það er rétt hjá SVÞ að sterkara gengi og lækkun tolla hafi skilað sér til neytenda, segir það einungis það eitt að álagningin sé svo yfirdrifin að þessar lækkanir vigta nánast ekki neitt í verðinu!!

 


mbl.is Sterkara gengi og lækkun tolla hefur skilað sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúverðugleiki fréttastofu ruv

Enn á ný hleypur fréttastofu ruv fram úr sér og flytur rangar eða villandi fréttir. Því miður fylgdu flestir fjölmiðlar á eftir og margir mætir bloggarar hafa tekið undir þetta frumhlaup fréttastofu ruv. Kannski ekki að undra, enda framsetningin með þeim hætti að sem mestur sori væri dreginn fram, hvort sem innistæða væri fyrir honum eða ekki.

Svo virðist sem starfsfólk fréttastofu ruv þekki ekki mun á hlutabréfaeign og eign inn á verðbréfasöfnum. Þarna er himinn og haf á milli, annarsvegar bein eign í fyrirtæki og hins vegar sparnaðarreikningar sem bankar buðu uppá fyrir hrun. Því miður nýttu margir landsmenn sér þessa leið bankanna, enda talin trú um að þetta fé væri svo dreift að engin hætta væri á að tapa því. Annað kom á daginn. Sjálfur átti ég nokkra upphæð á slíkum reikning en fékk aldrei að vita hvaða fyrirtæki lægju þar að baki, ekki einu sinni eftir að féð var tapað.

Í kastljósi fréttastofu ruv var því haldið fram að þeir hæstaréttardómarar sem teknir voru fyrir, hefðu átt hlut í Glitni, haustið 2008. Þetta var gert og veifað skjölum því til staðfestingar. Þó máttu stjórnendum þáttarins vera ljóst, ef þeir hefðu einungis lesið á þessi plögg, að þessir menn höfðu selt sína hluti í Glitni löngu fyrir hrun, jafnvel áður en innherjar áttuðu sig á hvert stefndi með bankakerfið.

Ekki höfðu starfsmenn ruv fyrir því að hafa samband við alla þá sem málið fjallaði um og fá þeirra sjónarmið fram. Ef ekki var hægt að ná til allra aðila, átti einfaldlega að bíða með "fréttaflutninginn" þar til það var hægt. Það er hámark lágkúrunnar að flytja fréttir að persónum án þess að þær fái að koma sínu sjónarmiði fram.

Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem fréttastofa ruv fer þessa leið, að flytja villandi eða jafnvel rangar fréttir. Mannorðsmorð virðist vera einskonar kappleikur innan fréttastofu ruv!

Hvort þessi svokallaði fréttaflutningur fréttastofu ruv stafar af þekkingarleysi starfsfólks stöðvarinnar, eða hvort þetta er með ráðnum hug gert, skiptir ekki megin máli. Hvoru tveggja er grafalvarlegt og hefur nú rýrt enn frekar trúverðugleik fréttastofunnar, svo vart er hægt að tala lengur um fréttaflutning frá henni, einungis hannaðar atburðarásir sem oftar en ekki leiða til mannorðsdrápa.

Verra er að horfa á aðrar fréttastofur hlaupa á eftir ruv í fenið. Að þar skuli ekki vera stansað örlítið við og mál skoðuð, áður en lengra er haldið. Sumir velvirtir bloggarar létu einnig glepjast. Kannski liggur mönnum svo á að tjá sig að þeir taka sér ekki tíma til að skoða mál, áður en lyklaborðið er dregið fram. Þessi svokallaða "frétt" fréttastofu ruv ætti þó að kenna öðrum fréttamiðlum að taka varlega mark á því sem fréttastofa ruv setur fram.

Í nýafstöðnum kosningum í Bandaríkjunum voru færðar fals- og hannaðar fréttir fyrir kjósendur. Jafnvel talið að einmitt sá "fréttaflutningur" hafi haft áhrif á niðurstöður kosninganna. Sú stofnun sem lengst hefur gengið á þessu sviði hér á landi er ríkirekna fréttastofan. Það var að undirlægi hennar að forsætisráðherra sagði sig frá embætti, síðasta vor og að kjörtímabilið var stytt. Það má vissulega segja að fréttaflutningur ruv hafi haft áhrif á niðurstöður kosninganna hér á landi, þó kannski ekki eins mikil og starfsfólk stofunnar vonaði. Nú er ráðist gegn dómurum og þeir gerðir tortryggnir!

Hverra manna fréttastofan vinnur fyrir ætla ég ekki að segja, en allir átta sig á hverjir það eru sem hagnast á þessu framferði hennar.

Hversu langt mun fréttastofa ruv ganga, áður en gripið verður í taumana?!


mbl.is Markús svarar fyrir verðbréfin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í tilefni dagsins


Flatneskja stjórnmálanna

Mikið hefur verið rætt um vanda stjórnmálaflokka hér á landi og það litla fylgi sem þeir ná meðal þjóðarinnar. Þó skal engan undra, flatneskjan og popppúlisminn sem ríkir meðal stjórnmálamanna er slíkur að engan greinarmun er lengur hægt að gera milli flokka. Örlítill munur er á boðun þeirra til kjósenda, svona rétt meðan verið er að sækja atkvæðin, en þegar til valda er komið er fljótt að falla undan stóru orðunum. Þá er meira horft til skoðanakannana, athugasemdadálka netmiðla og þeirra sem hæðst láta í þjóðfélaginu. Grunngildin fjúka og kjósendur standa eftir sviknir og vonlausir.

Þegar síðan fram koma stjórnmálamenn sem þora, er samstundis ráðist gegn þeim. Slíkar árásir andstæðinga í pólitík er eðlileg og skapar líflega umræðu, meðan á henni stendur. En þegar samherjar taka þátt í þessum árásum, er fokið í flest skjól, sér í lagi þar sem kjósendur kalla með örvæntingu eftir fólki sem þorir í pólitík.

Allir þekkja sögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í pólitík. Hvernig hann kom á sjónarsvið íslenskrar pólitíkur í framhaldi af bankahruninu, hvernig málflutningur hans var innan og utan þings, meðan hann var í stjórnarandstöðu, hvernig honum tókst að færa Framsóknarflokknum stórsigur í síðustu kosningum og síðan hvernig hann var myrtur mannorði af hálfu eins manns, með aðstoð ríkisfjölmiðils Íslands.

Strax og SDG tók til við að skipta sér að pólitík, hér á landi, hófust skipulagðar árásir gegn honum. Þar gekk fréttastofa ruv í fararbroddi og mun sennilega verða rannsóknarefni framtíðar framganga þess fjölmiðils gegn honum í undanfara síðustu kosninga og síðan látlausar árásir allt þar til hann var felldur í margfrægum Kastljósþætti. Þar var endanlega gengið frá mannorði SDG, á hæpnum forsendum.

Einn maður, sem hefur þá einu menntun að hafa skilað 17 einingum frá fjölbrautarskóla, fékk í hendur stolin skjöl frá lögfræðistofu í Panama. Í tíu mánuði lá þessi lítt menntaði maður yfir skjölunum og flokkaði þau, sjálfsagt eftir bestu vitund, en skorti alla menntun til starfans. Að lokinni þessarar vinnu, fékk þessi maður fyrrverandi vinnuveitanda sinn sér til fulltingis við "opinberun sannleikans". Svo vel vildi til að þessi fyrrum vinnuveitandi mannsins var einmitt fréttastofa ruv, sú sem lengst og harðast hafði gengið í baráttunni gegn SDG.

Búið var til handrit, í samvinnu við sænska fréttastöð og leikritinu varpað til þjóðarinnar. Engin bein haldbær gögn voru lögð fram, einungis óskýrt ljósrit af pappír þar sem nafn SDG kom fram, án hans undirskriftar. Engan skal undra að viðbrögð SDG í þessari sjónvarpsupptöku voru vandræðaleg, enda komið að aftanað honum. Það er auðvelt að segja að hann "hefði" átt að gera þetta eða hitt, en ljóst er að fáum eða engum hefði tekist að svara þessari árás, svo óvænt sem hún var. Þar að auki var leikritið þannig upp sett að nokkuð er sama hvernig viðbrögð SDG hefðu orðið, leikritshöfundar höfðu slíka yfirburði að þeim hefði í öllu falli tekist ætlunarverk sitt.

Það liggur ljóst fyrir að hvorki bókhaldslærðir né löglærðir aðilar voru látnir lesa handrit aftökunnar, enda hefði þá sennilega þetta verið stöðvað af. Það liggur einnig ljóst fyrir að fréttastofa ruv braut alvarlega lög með útvörpun þessa þáttar, bæði eigin siðferðislög sem og landslög.

Engum hefur enn tekist að sýna fram á sekt SDG. Helstu sérfræðingar Guardian hafa farið yfir málið og segja enga sök hans vera til staðar. Þá hefur Guðbjörn Jónsson rannsakað þetta mál, svo vel sem má, samkvæmt gögnum Panama skjalanna og ættu allir að lesa þá úttekt hans. Nú, þegar flestum er ljóst að SDG er ekki sekur í þessu máli, er því haldið fram að hann hafi brotið siðferði og skaðað trúverðugleik sinn. Hvernig má það vera þegar til þess meinta brots er stofnað með siðferðisbrot? Hver er þá trúverðugleiki fréttastofu ruv?!

Hvernig má það vera að þjóðin leggur meiri trúnað í framsetningu fréttastofu ruv, byggða á orðum og gögnum frá manni, sem hann lá á í tíu mánuði og flokkaði, án nokkurrar þekkingar á því sviði, en orð æðsta manns þessa lands, sem hefur sýnt og sannað að hann hefur kjark til að standa við stóru orðin?! Er afl fjármagnsins svo gífurlegt hér á landi að þeim tekst að sannfæra þjóðina um að fyrirlýta það fólk sem þeim öflum stafar ógn af?!

Eygló Harðardóttir er nú undir árásum fréttastofu ruv. Hennar mannorð skal svert eða drepið. Þó gerði hún það eitt að standa á sinni sannfæringu, sannfæringu sem hún hafði þegar gefið út innan ríkisstjórnar.

Ásmundur Einar Daðason, Frosti Sigurjónsson og Vigdís Hauksdóttir hafa sagt að þau ætli ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi starfa á Alþingi. Allt var þetta fólk, ásamt SDG. EH og fleira fólki innan Framsóknarflokks, lykilfólk í andstöðunni við icesave samningana, allt var þetta fólk afgerandi í sigri Framsóknarflokks í síðustu kosningum og allt hefur þetta fólk verið í lykilstöðu þess að tókst að láta kröfueigendur borga sig út úr þjóðfélaginu. Þetta fólk hefur verið helsta baráttufólkið gegn fjármagnsöflunum og haft kjark til að standa á þeirri sannfæringu. En þegar slík sannfæring og vinna færir fólki bara eintóman óhróður, er ekki undarlegt að það gefist upp. Þegar fólk vinnur stórvirki fyrir þjóðina, en þjóðin stendur óhaggað með þeim sem pínir hana, fjármagnsöflunum, er til lítils að sóa lífi sínu í það.

Það er ekki nema eðlilegt að andstæðingar í stjórnmálum gleðjist þegar óvinurinn lendir í vanda, að ekki sé talað um að þeir séu nánast hálshöggnir í beinni útsendingu. Það er og á að vera eðlilegt, svo fremi að heiðarlega sé að máli staðið. Pólitískir andstæðingar ættu þó aldrei að nýta sér mannorðsmorð andstæðingsins, mannorðsmorð byggt á hæpnum forsendum, sér til framdráttar.

Hitt er verra, þegar samherjar í pólitík nýta sér slíkt. Því miður er það svo að nokkrir samherjar eru ávallt fljótir til þegar á ofangreint fólk er ráðist. Þar hafa samherjar í samstarfsflokknum gengið hvað lengst og sumir jafnvel líkt þessu við súkkulaðinammi. Ljótari er þó leikur sumra samflokksmanna þessa fólks. Þar er vissulega fínna farið í málin, þó sannarlega maður hafi séð hlakka í mörgum liðleysingja Framsóknarflokks, sér í lagi vegna mannorðsmorðs Sigmundar Davíðs. Þar telja sumir sig eiga harma að hefna, meðan aðrir sjá hugsanleg tækifæri í að klifra örlítið upp stigann. Þetta fólk hefur ekki burði til að koma sér upp á eigin verðleikum og nýtir því ófarir annarra til að upphefja sig.

Það voru því mikil vonbrigði að sjá að nýjasti starfsmaður Framsóknarflokks, hin unga Lilja Alfreðsdóttir tók sér stöðu gegn kjarkfólkinu innan flokksins. Framtíð hennar í stjórnmálum verður ekki bjartari við það.

Flatneskjan í íslenskum stjórnmálum er nánast ógeðslegt fyrirbrigði. Eitt orð hefur verið fundið upp í íslenskri tungu, hin síðari ár, það er orðið "samræðustjórnmál". Samkvæmt skilgreiningu þeirra sem þetta orð nota, þá eiga allir flokkar að vinna saman og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Til hvers þarf þá að kjósa? Má þá ekki bara skipa hverjum stjórnmálaflokk ákveðinn fjölda þingmanna og spara þá fjármuni sem fer í kosningar? Ef þeir sem lægri hlut hljóta í augum kjósenda eiga að hafa sömu völd og hinir sem þóknast kjósendum, þarf ekki að kjósa.

Stjórnarandstaðan fagnaði afsögn SDG og segir að meiri friður hafi skapast á Alþingi. Réttara er að tala um að stjórnarandstaðan hafi fengið aukið afl innan Alþingis, vegna liðleskju þeirra sem eftir sátu í ríkisstjórn. Er það svo í anda lýðræðisins, að þeir flokkar sem kjósendur höfnuðu í síðustu kosningum, ráði hvernig þeir flokkar sem þjóðin treysti, stjórnar? Þetta er hin sanna birtingarmynd "umræðustjórnmála", hin sanna flatneskja íslenskra stjórnmála.

Þegar ég geng til kosninga þá kýs ég þann stjórnmálaflokk sem hefur stefnu sem mér hugnast og fólk sem ég treysti. Ef vilji meirihluta kjósenda er mér sammála, þá ætlast ég til að stjórnunin verði samkvæmt þeirri stefnu, út allt kjörtímabilið. Ef meirihluti kjósenda er mér ekki sammála, þá sætti ég mig við það, uns kjörtímabilinu lýkur. Svo einfalt er það.

Málpípur fjármagnsaflanna mun aldrei getað breytt þeirri hugsun minni, í hvaða mynd sem þau birtast, hvort það er í formi fréttastofu, í formi "virkra í athugasemdum", né heldur í formi hávaðaseggja á götum og torgum!! 


mbl.is „Það eru þín orð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband