Horfa þarf í báðar áttir

Það þarf að horfa í báðar áttir, þegar kemur að BrExit. Hér virðast stjórnvöld fyrst og fremst horfa til viðskipta við Bretland, eftir að það hefur gengið úr ESB og vissulega er mikilvægt að niðurstaða samninga okkar við Breta verði góð.

Norðmenn virðast hins vegar hugsa meir um hver áhrif á EES samninginn BrExit hefur. Og ekki skal vanmeta þau áhrif. Annars vegar er ljóst að nái Bretar sambærilegum viðskiptasamningum, eða betri, en EES samningurinn hljóðar upp á, án þeirra kvaða sem í EES samningnum liggja, þarf vissulega að endurskoða hann. Hins vegar er ljóst að þær breytingar sem munu eiga sér stað innan ESB, eftir BrExit, munu hafa veruleg áhrif á EES samninginn.

Því þurfa stjórnvöld hér að horfa til beggja átta, þegar hugað er að BrExit. Að góðum viðskiptasamningum verði náð við Breta og ekki síður að huga að endurupptöku EES samningsins, jafnvel uppsögn hans.

Það er ljóst að EES samningurinn er farinn að há okkur verulega og í raun er hann fallinn úr gildi gagnvart Íslandi, þar sem hann er farin að brjóta verulega á stjórnarskrá okkar. Fullveldið hefur verið skert verulega og hingað koma hinar ýmsu tilskipanir sem Alþingi virðist ekki hafa vald til að hafna. Þá er ljóst að dómstóll EFTA túlkar þennan samning á þann hátt að fullveldi okkar er haft að engu.

Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að á sínum tíma var þessi samningur samþykktur af Alþingi, án samráðs við þjóðina. Það samráðsleysi var rökstutt með því að EES samningurinn skerti ekki á neinn hátt ákvörðunarvald Alþingis og gengi ekki á nokkurn hátt gegn stjórnarskrá okkar.

Annað hefur komið á daginn. Það sem upphaflega átti að vera viðskiptasamningur er nú orðið að einhverju allt öðru. Samningur sem átti að snúast um gagnkvæm viðskipti, snýst nú um að samþykkja hinar ýmsu tilskipanir, settar einhliða af öðrum aðilanum og fjalla oftar en ekki um eitthvað allt annað en viðskipti.


mbl.is Brexit rætt í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband