Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Mann rekur í rogastans

Vissulega er gleðilegt að Landsvirkjun skuli skila arði. En hvernig er þessi arður fenginn? Hvað liggur að baki? Og mun þessi arður skla sér?

Stóriðjan er stæðsti kaupandi orku af Landsvirkjun og ljóst að stóriðjan er ekki að fá orkuna ókeypis, eins og svo margir vilja meina. Varla væri þá mikill arður frá fyrirtækinu. Raforka til annarra kaupenda, heimila og annarra fyrirtækja en stóriðju, gætu seint mynda þann arð sem Landsvirkjun stefnir í.

En það er fleira sem kemur til, þegar um arðmyndun er að ræða, það eru auknar tekjur án aukins kostnaðar. Og þessa leið stefnir Landsvirkjun, ef marka má orð forstjórans. Hann vill hækka verð á orku, einkum til stóriðjunnar. Til að gera slíkt mögulegt býr þetta fyrirtæki til ímyndaða samkeppni, samkeppni sem útilokað er að búa til á svo litlum markaði sem Ísland er, sérstaklega þegar einn aðili hefur tögl og haldir á þeim markaði. Slíkt kallast einokun.

Í nafni þessarar samkeppni býr Landsvirkjun svo um að skortur verði á orku hér á landi. Það er einfalt fyrir ráðandi fyrirtæki, einungis séð svo um að nóg sé selt af orkunni án þess að byggja upp framleiðslu á móti. Nú er svo komið að þegar er búið að selja meiri orku inn í framtíðina en áætlanir um framleiðsluaukningu ráða yfir. Því þarf að koma einhverjum kúnnanum af markaði og að því stefnir Landvirkjun.

Fyrir liggur að samningar bæði við Elkem og Norðurál eru komnir á seinni hlutann og að semja þarf þar að nýju. Forstjórinn segir það meginverkefni að semja við þessi fyrirtæki. Verðin sem í boði eru af hálfu Landsvirkjunar eru svo há að að óbreyttu munu bæði þessi fyrirtæki passa og leggja niður starfsemi. Þegar hefur verið samið við Rio Tinto á þessum háu verðum Landsvirkjunar og stefnir það fyrirtæki hratt í lokun.

Þessi stefna Landsvirkjunar, að fela sig bak við einhverja ímyndaða samkeppnisstöðu til að nýta sér einokunaraðstöðu sína, getur snúist hratt í höndum fyrirtækisins. Það mun hafa geigvænlegar afleiðingar fyrir land og þjóð. Atvinna getur hrunið, ekki bara í þeim fyrirtækjum sem leggja upp laupana, heldur hjá þúsundum annarra sem vinna við þjónustu við þau. Menntun og tækniþróun mun fara áratugi aftur í tímann, en ein mesta þróun á því sviði hefur einmitt orðið til vegna tilkomu stóriðju og orkuframleiðslu. Og svo mun orkan til landsmanna hækka upp úr öllu valdi, til þess eins að mögulegt verði að halda uppi lágmarks orkuframleiðslu fyrir heimili landsins.

Vissulega má segja að Landsvirkjun sé í samkeppni, þegar um stórnotendur er að ræða. Sú samkeppni er ekki hér innanlands, eins og forstjórinn vill meina og alls ekki um framboð og eftirspurn. Sú samkeppni er á alþjóðamarkaði og einungis um verð. Í þeirri samkeppni stendur Landsvirkjun sig einstaklega illa. Þegar verð til stórnotenda lækkar allt í kringum okkur, svo tugum prósenta skiptir, hækkar orkuverð frá Landsvirkjun og enn frekari hækkun boðuð. Á þessum markaði keppir Landsvirkjun um stórnotendur, stóriðju, gagnaver og fleira í þeim dúr.

Forstjórinn hefur nefnt sérstaklega gagnaver í þessu sambandi. Það eru litlar líkur á að aukning verði á því sviði hér á landi, með sömu stefnu Landsvirkjunar á orkuverði. Fjarlægð frá markaði og tiltölulega takmarkað og óöruggt samband við markað á þessu sviði gerir Ísland frekar óaðlaðandi og einungis með hagstæðum verðmun á raforku sem fyrirtæki sjá sér hag í að setja upp slík ver hér á landi. Eins og staðan er í dag er orkuverð til gagnavera mun lægra beggja megin Altanssála og því engar líkur á að nokkur vilja setja slík ver upp hér, lengst norður í Ballarhafi. Til þess verður Landsvirkjun að breyta verulega sinni verðstefnu.

Þá er ljóst að gagnaver skila fáum störfum, sér í lagi miðað við stóriðjufyrirtækin. Báðar þessar greinar eru þó stórkaupendur og nota jafna orku, svo þeir eru hagstæðir kaupendur fyrir Landsvirkjun. En það skiptir bara ekki nokkru máli, meðan Landsvirkjun telur Ísland afmarkað samkeppnissvæði og stýrir framleiðslunni þannig að um skort á orku er að ræða. Þessar tvær greinar keppa á heimsmarkaði, þar sem orkuverð og önnur aðstaða, eins og nálægð við markað, skipta öllu máli.

Vissulega væri best ef hægt væri að græða enn frekar á sölu orku til stórkaupenda. Að græða enn meira en við þegar höfum grætt. Orkuuppbygging og dreifing á hvert heimili landsins er sannarlega ágætis gróði, sem einungis varð að veruleika vegna stórkaupenda orku og nú stefnir í að fyrirtækið sé að fara skila arði í þjóðarbúið. Auðvitað væri gaman ef þessi gróði gæti orðið enn meiri. Hann verður þó ekki fenginn með einokunartilburðum.

Slíkur gróði verður einungis fenginn með því að selja orku til stórnotenda á því verði að þeir sjái sér hag í að kaupa orkuna. Enginn fer að setja upp eða halda hér gangandi fyrirtæki til að tapa á því, svo Landsvirkjun geti grætt. Þetta ætti jafnvel Hörður að vita. Slíkur gróði verður einungis fenginn með því að halda jafnvægi á framleiðslu orku og sölu og að verð séu í samræmi við markaðslögmál heimsins, ekki Íslands. Ef verð eru lág, eins og nú, á fyrirtækið að draga úr sölu svo ekki þurfi að virkja. Þegar verð hækka má selja meira og virkja fyrir það, svo fremi að vilji landsmanna sé til frekari virkjanna.

En Landvirkjun verður alltaf og undir öllum kringumstæðum að tryggja rafmagn til heimila og smærri notenda. Þar má aldrei verða skortur. Í slíkan skort stefnir nú hraðbyr, þar sem Landsvirkjun hefur þegar gert stærri sölusamninga en framleiðslugeta fyrirtækisins ræður við, jafnvel þó strax yrði farið í allar þær virkjanir sem fyrir liggja.

Reyndar má fastlega ganga út frá því sem vísu að sum þeirra fyrirtækja sem Landsvirkjun hefur samið við muni ganga úr skaftinu, þegar kemur að alvörunni. Að þeir samningar sem þegar hafa verið gerðir muni ýta þeim til baka og að ekkert verði af framkvæmdum, vegna óhagstæðs orkuverðs. Það sem verra er, er að með sömu stefnu Landsvirkjunar munu rótgróin fyrirtæki í stórnotkun orku einnig leggja upp laupana.

Það er því ekki tryggt að sá hagnaður sem forstjórinn boðar verði að veruleika. Allt eins gæti fyrirtækið horft upp á gífurlegan taprekstur, vegna einokunartilburða sinna. Að landsmenn muni horfa upp á störf fara úr landi í stórum stíl, bæði vel launuð verkamannastörf sem og enn hærra launuð hátæknistörf og samhliða þeirri skelfingu muni orkuverð til heimila tvöfaldast eða meira, til þess eins að halda uppi neyðarframleiðslu á orku fyrir heimili landsins.

Ofana á þessa dökku mynd dreymir svo forstjórann um vindmillur og sæstreng. Vindmillur þar sem hver orkueining er margfalt dýrari í framleiðslu en með vatnsafli og sæstreng sem er svo gjörsamlega fávís hugmynd að engu tali tekur.

Hvenær ætla ráðamenn að vakna? Hvenær á að skipta út stjórn Landsvirkjunar og forstjóra fyrirtækisins. Forstjórinn, með velþóknun stjórnar fyrirtækisins hefur sýnt að hann er með öllu ófær að stjórna þessum gullkálf þjóðarinnar og mun að óbreyttu leiða slíkar hörmungar yfir land og þjóð að hrunárin verða talin til góðæris!!

  


mbl.is Stefnt að arði upp á 10-20 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dekksta mynd verktakastarfsemi

Sem betur fer er kannski ekki mikið um jafn svört dæmi verktakavinnu og það sem uppgvötaðist í Vík í gær. En eitt slíkt dæmi er einu of margt.

Þetta lýsir þó í raun hvernig verktakastarfsemi virkar og undarlegt að nokkuð fyrirtæki skuli vilja koma nálægt svona sóðaskap. Auðvitað eru sum störf hjá fyrirtækjum með þeim hætti að auðveldara og betra er að vinna þau í verktöku og má þar m.a. nefna tímabundin verkefni eða verk sem krefjast sérþekkingar eða vélakosts sem fyrirtæið sjálft vill ekki eða getur ekki átt. Að öðru leiti skilar verktakavinna einungis lægri tekjum til launafólksins.

Þetta skýrist auðvitað af því að til að fyrirtækið, verkkaupi, geti haft hagnað af verktakavinnu þarf það að fá verktökuna fyrir lægri upphæð en laun og launakostnaður sem til viðkomandi launafólks fer. Þetta er augljóst. Þá þarf auðvitað verktakafyrirtækið sjálft að fá eitthvað fyrir sinn snúð, bæði kostnað vegna utanumhalds og auðvitað einhvern hagnað. Þar sem það fær væntanlega eitthvað minna til sín frá verkkaupa en sem nemur launum og launatengdum gjöldum starfsfólksins, er verktakanum nauðugur sá eini kostur að taka sinn kostnað og sinn hagnað af launum sinna starfsmanna. Niðurstaðan er að til að verkkaupi, fyrirtækið sem býður út verkið græði og til að verktakinn hafi fyrir sínum kostnaði og einhvern hagnað, þarf að lækka verulega laun þeirra sem svo starfið vinna. Þetta er einföld staðreynd sem ekki þarf mikla vitsmuni til að sjá.

Því miður er þetta vel þekkt í sumum atvinnugreinum, s.s. byggingariðnaði og ýmsum þjónustustörfum tengdum ferðaþjónustu. Þar er málið jafnvel enn svartara þar sem hver undirverktakinn tekur við af öðrum.

Í stóriðju hefur einkum eitt fyrirtæki haft sig í frammi um kröfu á þessu sviði og vill setja það í kjarasamninga. Svo langt hefur gengið að þetta fyrirtæki er jafnvel tilbúið að fórna tilveru sinni hér á landi, svo þetta fáist í gegn. Ekki er þó séð að hagur þess geti orðið mikill vegna þessa, nema því aðeins að það starfsfólk sem verkin vinna lækki verulega í launum, jafnvel svo að fela verði það fólk frá umhverfinu!

Hjá öðrum stóriðjufyrirtækjum er þetta á annan veg. Að vísu gerði Elkem tilraun á þessu sviði um og eftir síðustu aldamót, með slæmum afleiðingum fyrir viðkomandi starfsfólk. En þetta fyrirtæki er hægt og örugglega að ganga til baka með þessa tilraun sína. Annarsstaðar þykir sjálfsagt að ekki sé um verktöku að ræða í föstum störfum og hjá Norðurál er dæmið á hinn veginn, tiltekið í kjarasamningi hvaða störf megi vera í verktöku og eru þau ákaflega fá. Þá hafa stéttarfélög, bæði á Akranesi og eins á Reyðarfirði, unnið að því að þau fyrirtæki sem þjóna stóriðjuna á þessum svæðum, greiði sömu laun til sinna starfsmanna og stóriðjan, þ.e. að jafnræði sé meðal launafólks innan veggja stóriðjunnar, sama hver launagreiðandinn er. Þetta veldur því að þessi stóriðjufyrirtæki eru ekki með verk í verktöku, nema um tímabundin störf sé að ræða, eða störf sem kalla á sérþekkingu eða dýrann eða flókin vélakost, sem fyrirtækin sjálf geta ekki eða vilja ekki reka. Að vísu eymar enn svolítið af verktöku hjá Elkem, en eins og áður sagði þá er hún hægt og örugglega að ganga til baka, varðandi föst störf.

Það yrði gífurleg afturför ef Rio Tinto tækist að brjóta á bak aftur starfsfólk sitt. Alveg ótrúlegt hvað það fær litla samstöðu í þjóðfélaginu, sem einkum má kenna þekkingarleysi almennings. Þetta eru grundvallarréttindi sem verið er að reyna að taka af starfsmönnum Straumsvíkur og í algjörri andstöðu við það sem er að gerast gagnvart öðrum fyrirtækjum í stóriðju.

Reyndar má undrun vera að svona verktakavinna skuli þekkjast yfirleitt hér á landi. Fyrirtæki sem er í fullum rekstri á auðvitað að hafa alla þá starfsmenn sem vinna föst störf á sinni launaskrá. Öðru máli gegnir um tímabundin störf, þau má auðvitað bjóða út og láta önnur fyrirtæki með sérþekkingu og tækjakost vinna þau. Byggingaverktaki sem tekur að sér að byggja hús fyrir einhvern, getur auðvitað boðið út jarðvinnuna, en hann ætti auðvitað að vera með alla þá sem að byggingavinnunni standa, á sinni launaskrá. Að öðrum kosti getur hann vart talist byggingaverktaki. 

Það er stórmannlegt af Víkurprjóni í Vík að bjóða því fólki vinnu sem fyrir þessu þrælahaldi varð og víst er að stjórnendur þess munu hugsa sig vandlega um áður en þeir fara að bjóða aftur út störf í sínu fyrirtæki.

Skömmin er nefnilega þeirra, þó brotið sé kannski utan fyrirtækisins.


mbl.is Oft mjög háðir kvölurum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtryggðir andskotar

Það er alveg magnað hvað margir eru fastir í þeirri hugsun að verðtrygging lána sé alfa og omega alls. Að jörðin geti ekki snúist nema lán á Íslandi séu verðtryggð. Að forsætisráðherra teljist til þessa fólks kemur kannski ekki á óvart, en þó.

Hvers vegna í ósköpunum þurfa bankar á Íslandi að fá miklu meiri ávöxtun af sínu lánsfé, sem nemur hundruðum prósenta, en bankar annarra landa? Hvers vegna í ósköpunum þurfa bankar á Íslandi að vera tryggðir í bak og fyrir, þegar þeir lána til fasteignakaupa? Við vitum að bönkum hér á landi er einstaklega illa stjórnað og að varla er hægt að segja að þeir sem þar fara fyrir stafni séu menn með lágmarks þekkingu eða skynsemi. Kannski vegna þess að ekki þarf vitibornara fólk til þessara starfa, bankinn er hvort eð er gulltryggður í bak og fyrir. Verst er þó að lesa í fréttum að þessir sömu bankar eru að lána fé til fyrirtækja erlendis. Varla eru sömu vextir á þeim lánum og sannarlega ekki verðtrygging. Um þau lán hljóta að gilda sömu vaxtareglur og gilda í viðkomandi landi.

En aftur að orðum fjármálaráðherra. Þar örlar ekki á þeirri hugsun að afnema verðtryggingu lána, einungis að stytta þau lán sem verðtrygging eru á. Og helsta áhyggjuefni ráðherrans er að 40% þeirra sem taka lán gætu þá ekki tekið lán. Vel má vera að það sé rétt hjá ráðherranum, enda ætlar hann að halda helvítis verðtryggingunni áfram og ekki dettur honum í hug að nefna hámark á vexti á lán til fasteignakaupa.

Hins vegar með afnámi verðtryggingar og hámarksvexti á lán til fasteignakaupa, mætti gera ráð fyrir að mun fleiri gætu tekið lán en nú og það sem meira er, gætu borgað það upp að fullu. Það er engin glóra í því að fasteignalán séu sett í sama flokk og önnur lán, þegar vextir eru annars vegar. Það fæst ekki betri trygging fyrir láni en fasteign og því geta vextir af lánum með slíkri tryggingu verið mun lægri en lán af áhættufjárfestingu. Íslenskir bankar munu þó aldrei taka upp hjá sjálfum sér að meta áhættu lána og ákvarða vexti út frá því. Samráð þeirra er allt á hinn veginn. Af þeim sökum er nauðsynlegt að löggjafinn setji í lög hámark á vexti fasteignalána.

Við afnám verðtryggingar er fyrst hægt að tala um heilbrigðara fjármálakerfi hér á landi. Sjálfstæðismenn vilja frjálsræði í fjármálum, að markaðurinn fái að ráða. Það ætti því að vera forgangskrafa hvers Sjálfstæðismanns að afnema verðtryggingu, þannig að forsenda fyrir frelsinu sé til staðar. Eða er þetta frelsistal þeirra einungis á annan veginn, þ.e. til að græða? Má frelsið ekki vera út á að þeir sem vel fara með fé græði en hinir sem ekki kunna með það að fara tapi? Má frelsið ekki vera frelsi?

Eins og áður segir þá er afnám verðtryggingar forsemda fyrir því að hagkerfið geti virkað eðlilega. Hagkerfi sem er með einn þátt bundinn getur aldrei orðið heilbrigt, það er fársjúkt.

Með afnámi verðtryggingar fæst einnig stjórn á hagkerfinu. Þá munu vaxtaákvarðanir Seðlabankans virka, sem þær gera ekki fyrr en seint og um síðir þegar stæðsti hluti lánakerfisins er bundinn verðtryggingu. Þá mun verða auðveldara að ná tökum á verðbólgu, ef hún sýnir sig, meðan verðtrygging magnar hana.

Mestu skiptir þó að með afnámi verðtryggingar munu fjármálakerfið jafna sig og vextir verða eðlilegri, meira í átt að því sem þekkist erlendis. Og ef samhliða því verði bönkum gert skylt að hafa vexti á öruggustu lánin, fasteignalánin, lægri en öðrum lánum, mun fólki verða mögulegt að koma þaki yfir höfuð sér. Þannig má stuðla að því að flótti menntafólks úr landi minnki, t.d. fólk úr heilbrigðisgeiranum. Ekki fer það erlendis vegna hærri launa, en hins vegar eru margir sem ekki treysta sér til að stofna heimili hér á landi.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og allir þeir sem eru fastir í viðjum verðtryggingarhams ættu að reyna að opna hug sinn örlítið. Ættu að velta fyrir sér hvers vegna allar aðrar þjóðir geti verið án verðtryggingar lána. Sérstaklega ættu Sjálfstæðismenn, menn frelsisins að skoða þá andhverfu sem verðtrygging er á frelsið, frelsið til að græða og frelsið til að tapa!

Það er einungis ein ástæða fyrir verðtryggingunni. Getuleysi og aumingjaskapur bankamanna og stjórnmálamanna. Þeir hafa ekki getu, kunnáttu né kjark til að vera án verðtryggingar. Þeir eru kollegum sínum erlendis svo langt að baki að þeir verða að hafa hækjur við hlið hjólastólsins!!

Þetta eru verðtryggðir andskotar!!


mbl.is 40% gætu ekki tekið lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsmarkaðsverð?

Auðvitað er verð til bænda á Íslandi hærra en heimsmarkaðsverð. En hvar getum við fengið keyptar mjólkurvörur, nautakjöt, svínakjöt, fuglakjöt, kindakjöt og egg á heimsmarkaðsverði?

Við hljótum að miða við verð þessara vara í viðskiptalöndum okkar, þeim sem okkur liggja næst, t.d. Noregi, Danmörku og Bretlandi.

Jafnvel í Bandaríkjunum er verð á mjólkurlíter um helmingi hærri en hér á landi, þ.e. út í landbúnaðarhéruðunum. Sjálfsagt enn dýrari inn í borgunum.

Þó er landbúnaður í öllum þessum löndum rekinn áfram með markvissum lyfjagjöfum, bæði hormánalyfjum sem og sýklalyfjum, eitthvað sem ekki er þekkt hér á landi. Jafnvel í Noregi, sem telst "hreint" landbúnaðarland, eru lyfjagjafir á allt öðru og verra leveli en hér á landi. Þetta gerir allan samanburð á framleiðslukostnaði landbúnaðarvara hér á landi við önnur lönd óhagstæðan í krónum talið.

Auðvitað má lækka verulega kostnað við framleiðslu landbúnaðarvara hér á landi, með því að taka upp sömu stefnu og erlendis í lyfjagjöfum, að heimila bændum að moka hormónalyfjum í búfénað sinn og blanda sýklalyfjum saman við fóðrið.

Það er lengi hægt að leika sér með tölur og ef vandlega er leitað hagstæðra viðmiðunnar má alltaf komast að "réttri" niðurstöðu.

Það breytir þó ekki sannleikanum.


mbl.is Innlendar búvörur kosta 68% meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski fá einhverjir aðrir "bónushækkun" seinna, því tökum við okkur vænlegann ´"bónus" núna

Að réttlæta launaábót með því að hugsanlega muni aðrir greiða slíka ábót seinna, er eitthvað sem mér er útilokað að skilja. Hins vegar er nokkuð öruggt að þegar einn aðili hefur brotið skelina munu aðrir fylgja á eftir. Man enginn lengur eftir árunum fyrir hrun?!

En hvað er bónus? Hingað til hefur skilgreiningin á bónus verið eitthvað sem starfsmenn gera sem eykur verðmæti og fá hlut í þeirri verðmætaaukningu. Um þetta er alltaf samið fyrirfram og fyrirséð hvaða atriði geti gefið bónusa. Þetta er þekkt t.d. í fiskvinnslu, þar sem aukið vinnuframlag eða betri starfsaðferðir verkafólks geta aukið verðmæti. Um þetta er samið, hvaða það er sem aukið vinnuframlag gefur og hvað betri starfsaðferðir gefa. Síðan er mældur árangur og laun greidd samkvæmt því. Allt er þetta gert til að auka verðmætin sem frá fyrirtækinu fara og skila sér í meiri tekjum þess.  Þannig er þetta gert og nær eingöngu þar sem verðmætasköpun verður til, enda þarf mælikvarða til að geta greitt bónus á laun.

Engin verðmætasköpun verður í banka- eða fjármálastofnun. Þar er einungis höndlað með peninga, peninga annarra. Hvernig er þá hægt að mæla bónus í fjármálafyrirtæki? Hvert er viðmiðið? Er það dugnaður í útlánum? Eða dugnaður í innheimtu? Hvorugt telst þó til verðmætasköpunar. Kannski er telur mest hugmyndaauðgi við gjaldtöku af viðskiptavinum?

Það er því útilokað að tala um bónusgreiðslur til starfsfólks fjármálafyrirtækja, sér í lagi ef ekki er um það fyrirfram samið, heldur ákvörðun tekin eftirá.

Hins vegar má segja að þetta geti verið greiðsla vegna hagnaðar. Það þekkist einnig á almennum markaði. Sum vel rekin fyrirtæki hafa tekið upp hjá sér að greiða starfsfólki hlut af hagnaði, þó upphæðirnar séu langt undir því sem um ræðir í fréttinni.

Að greiða hlut af hagnaði er því í sjálfu sér ekki óeðlilegt, sé það í hófi. En þá þarf líka að skoða hvernig sá hagnaður varð til. Varð hann til vegna verðmætasköpunar eða kannski bara sóttur í vasa einhvers annars. Það var gífurlegur hagnaður af fjármálafyrirtækjum fyrir hrun, en engin innistæða var fyrir þeim hagnaði. Er einhver ástæða að ætla að svo sé nú?

Fyrrum forstjóri bankans gat notað hvaða rök sem var önnur en þau að hugsanlega muni einhver önnur fyrirtæki greiða svona ofurbónusa seinna, eða að þetta sé í takt við það sem þekkist erlendis. ALMC, áður Straumur-Burðarás er ekki erlent fyrirtæki. Þetta er íslenskt fyrirtæki, starfandi hér á landi.

Þá ætti bankinn kannski að skila einhverju aftur af þeim fjármunum sem þjóðin hefur tekið á sig vegna afskrifta þessa fyrirtækis. Fyrst gróði þess er svo óskaplegur að það neyðist til að greiða stjórnendum sínum milljarða í aukagreiðslur ofaná laun, sem sjálfsagt eru ekki alveg byrjunarlaun verkamanns, ætti bankinn að geta greitt eitthvað af skuld sinni við þjóðina til baka!!


mbl.is Bónusinn í takti við erlenda þróun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband