Að hamra járnið kalt

Svo lengi má hamra kalt járn að það mótist. Þetta er málpípum ferðaþjónustunnar að takast, að hamra svo á hæpnum eða röngum forsendum að þær hljóma sem sannar.

Á góðviðrisdögum er talað um ferðaþjónustuna sem einn af hornsteinum íslensks hagkerfis og vissulega má að hluta taka undir það, eða hvað?

Velta ferðaþjónustunnar hefur vissulega aukist ævintýralega síðustu ár, enda fjölgun ferðafólks til landsins svo mikil að vart þekkist annað eins á byggðu bóli. Það er þó margt að í íslenskri ferðaþjónustu, gullgrafaraævintýrið virðist blómstra þar sem aldrei fyrr. Verðlag á þjónustunni er með þeim hætti að mafíósar myndu skammast sín. Þegar gengið féll, eftir hrun, voru allir verðmiðar í erlendum gjaldmiðlum, þegar svo gengi krónunnar fór að rísa, þótti ferðaþjónustunni hæfilegra að færa sína verðmið yfir í íslenskar krónur. Þetta hefur leitt til þess að fyrir herbergiskytru sem vart er fólki bjóðandi er tekið eins og um fimm stjörnu hótel sé að ræða. Sjoppumatur er verðlagður sem stórsteikur. Og svo kenna þeir sem tjá sig fyrir hönd ferðaþjónustuaðila alltaf einhverju öðru um, þegar sökudólgurinn er óhófleg fégræðgi þeirra sem að þessari þjónustu standa.

Umræðan í dag er um hækkun á virðisaukaskatti, á þjónustu sem veitt er ferðafólki. Samkvæmt orðum framkvæmdastjóra SAF mun þessi hækkun nema um 20 milljarða kostnaðarauka á ferðaþjónustuna. Ekki ætla ég að draga þá fullyrðingu í efa, enda ætti hún að vita hvað hún segir.

Nú er það svo að ekki er verið að tala um að hækka vask á ferðaþjónustuna umfram aðra þjónustu, einungis verið að afnema undanþágur sem ferðaþjónustan hefur notið. Undanþágur frá vask greiðslum, sem auðveldlega má túlka sem ríkisstyrk. Þessi ríkisstyrkur hefur því verið nokkuð ríflegur, u.þ.b. 43% hærri en sú upphæð sem notuð er til landbúnaðar í landinu.

Ef það er svo að ferðaþjónustan getur ekki keppt á sama grunni og önnur þjónusta í landinu, er spurning hvort hún eigi yfirleitt tilverurétt. Þetta eru stór orð og kannski full mikið sagt, en einhver ástæða hlýtur að liggja að baki "vanda" ferðaþjónustunnar. Væri kannski hægt að reka þessa þjónustu á sama grunni og aðra þjónustu ef arðsemiskrafan væri svipuð? Getur verið að græðgin sé að fara með ferðaþjónustuna?

Afnám undanþágu á vask greiðslu ferðaþjónustunnar er tengd öðru og stærra máli, nefnilega lækkun á almennu vask prósentunni. Þetta er því ótvíræður hagnaður fyrir almenning í landinu. Hvers vegna hefur enginn innan verkalýðsbáknsins tjáð sig um það? Hvers vegna opnar verslun og þjónusta ekki á þá umræðu? Hvers vegna þegja allir fjölmiðlar um þessa lækkun á vask prósentunni til almennings? Þessi mál eru þó spyrt saman.

Ferðaþjónustan vill ekki borga skatta og ferðaþjónustan kallar eftir lækkun gengis krónunnar. Þetta tvennt fer þó illa saman. Ef ferðaþjónustan er svo illa stödd að nauðsynlegt er fyrir hana að fá undanþágur frá skattgreiðslum, er hún væntanlega nokkuð skuldsett. Lækkun gengis krónunnar leiðir sannarlega til aukinnar verðbólgu og hækkunar á vöxtum. Varla eru skuldsett fyrirtæki að sækjast eftir slíku. Jafnvel þó víst sé að ferðaþjónustan muni færi verðmiða sína yfir í erlenda gjaldmiðla, svona á meðan gengið er fellt, dugir það vart til ef skuldastaðan er sú að undanþága á sköttum er nauðsyn.

Ekki getur verið að rekstrarkostnaður sé að sliga ferðaþjónustuna. Vegna þess hve hátt gengi krónunnar er, er ljóst að erlendur kostnaður, s.s. byggingarefni og fleira, hefur sjaldan verið lægra. Innlendur kostnaður er vart að leggja hana. Að vísu voru nokkrar hækkanir launa, en þar sem þær hækkanir eru í prósentum og grunnurinn sem sú prósentutala er lögð á svo lág, er þar einungis um smáaura að ræða, í samhengi við veltu í ferðaþjónustu. Fram til þessa hafa þessi fyrirtæki farið yfir einkalönd fólks án þess að greiða svo mikið sem eyri fyrir, jafnvel heilu flokkarnir af rútum sem mæta heim á hlað hjá fólki, án þess að spyrja húsráðendur. Ferðaþjónustan hefur vaðið yfir landið án þess að skeyta um eitt né neitt og skilið heilu svæðin eftir í sárum. Víða er svo komið að vart er hægt að komast nærri náttúruperlum landsins vegna stórskaða á umhverfinu. Svo er bara kallað eftir hjálp frá ríkinu og það krafið um bætur?!

Að margra mati er fjöldi ferðamanna kominn langt yfir þolmörk. Ekki þarf að fara víða til að sjá að a.m.k. sumir staðir eru komnir langt yfir þolmörkin. Málpípur ferðaþjónustunnar tala í sífellu um að dreifa þurfi betur ferðafólki um landið, að nægt pláss sé fyrir fleiri ferðamenn ef dreifingin verður meiri. En með það, eins og annað, eiga einhverjir aðrir að sjá um þá dreifingu. Það er þó ljóst að enginn getur séð um þá dreifingu nema þeir sem selja ferðirnar. Þá komum við enn og aftur að fégræðginni. Í auglýsingum erlendis eru fagrar myndir af okkar helstu perlum, minna um myndir frá öðrum perlum landsins og auðvitað engar myndir af moldarflögunum sem eru komin við fallegustu staðina. Þetta leiðir til þess að erlendir ferðamenn sækjast mest eftir að heimsækja þá staði sem fallegu myndirnar eru af. Af einskærri fégræðgi vilja því allir ferðaþjónustuaðilar selja inn á þá, það er auðvelt og gefur mest í aðra hönd. Að kynna nýja staði kostar peninga og enn og aftur vill ferðaþjónustan að þeir komi úr ríkissjóði.

Ferðaþjónustan fær nú 20 milljarða í dulbúnum ríkisstyrk, borgar lægstu laun sem þekkjast í landinu og greiðir helst ekki fyrir neitt sem hún selur ferðafólki. Henni er ekki vorkunn.

 

 


mbl.is Mikið virðingarleysi stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Gunnar, þetta er stórt nöldur hjá og oft hefur þér stundum tekist betur upp.

Án þess að ætla að fara út í það að hártogast um hvort þessi eða hin atvinnugreinin er ríkistyrktari en önnur þá má benda á að gjaldtaka vegna aðgangs að Hvalfjarðargöngum og sala áfengis ber 11% vsk.

Svo ekki sé minnst á hver mismunurinn er vegna álagningar fasteignagjalda sveitarfélaga af mannvirkum atvinnuvega, s.s. landbúnaðar, hvað þá verð á rafmagni til stóriðju. Enda eru gildar ástæður fyrir þeim mismun.

En þegar samanburður er gerður við önnur lönd þá kemur í ljós að vsk tekjur af ferðamönnum er hár á Íslandi.

Sem dæmi er Svíþjóð með almennan vsk í 25%  af gistingu og veitingum 12%, Noregur 25/10, Spánn 21/13, Frakkland 20/13, Þýskaland 19/7.

Þannig að ef bætt er 11% vsk ofan á okrið sem þú tíundar að sé hér um fram önnur lönd væntanlega, þá má sjá að tekjur ríkisins eru mun meiri af hverri gistinótt og máltíð en nánast á nokkru byggðu bóli, svo ekki sé nú minnst á blessaða sér íslenska gistináttagjaldið.

Það hefur markvist verið unnið að því að skrúfa verðlag í hæðstu hæðir af ríkinu sjálfu í þeim guðdómlega tilgangi að skapa hagvöxt og skatttekjur, og á það ekki við um ferðaþjónustuna eina.

Af því að ég les nú af og til nöldrið í þér, þá verð ég að segja að þetta finnst mér leiðinda nöldur. Þó svo að ég starfi ekki sem ferðaþjónustuaðili þá geri ég mér grein fyrir því hvað varð til þess að íslenskur efnahagur reis úr öskustónni.

Magnús Sigurðsson, 29.4.2017 kl. 06:18

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég átti ekki von á að margir myndu gleðjast yfir þessum pistli mínum, Magnús. Umræðunni í þjóðfélaginu hefur verið stýrt á þann veg undanfarið.

Eftir sem áður efst enginn um að innan ferðaþjónustunnar eru margir svangir hákarlar, sem haga sér freklega. Þetta er auðvitað ekki algilt, en allt of algengt.

Ekki var ætlun mín að etja saman ólíkum atvinnugreinum, þó ég hafi nefnt landbúnaðinn í einni setningu pistilsins. Það gerði ég einfaldlega af þeirri ástæðu að umræðan um hann var fyrir nokkrum misserum með þeim hætti að hugsast gæti að hún væri enn í hugum fólks og að það kannski átti sig því á þeim stærðum sem um er rætt. Hefði svo sem getað notað eitthvað annað viðmið, s.s. eins og hvað mikið fjármagn er nýtt til viðhalds og endurbyggingu vega.

Samanburður við útlönd getur verið ágætur. Þú endurvarpar þarna rökum sem ferðaþjónustan hefur haft uppi um samanburð á vaski hér á landi versus sum önnur lönd Evrópu. Það dugir þó ekki að taka eitt atriði út, þegar slíkur samanburður er gerður, heldur verður að skoða málið frá öllum hliðum. Hver er t.d. arðsemiskrafa hóteleigenda erlendis, hver eru gæðin, hvert er verð á gistingu, þetta og fleira síðan borið saman við það sem hér gerist.

Í rannsóknarskýrslu Alþingis um hrunið var bent á að leiðandi öfl innan fjármálageirans hefðu stýrt umræðunni hér á landi, hafi tekist að ná slíkum tökum á fjölmiðlum að þjóðin var fífluð. Nú virðast sem hluti þessara afla sé að leika sama leikinn, sömu gerendur, sömu fjölmiðlar og sama fólkið fíflað. Þessir gerendur nýttu þá fáu daga sem þeir sátu í boði ríkisins á Kvíabryggju til að komast yfir stórar hótelkeðjur í landinu. Nú er staðan orðin slík að þeir eru að verða jafn dómerandi á þeim vettvangi og innan bankakerfisins fyrir hrun.

Megin málið er þó þetta; samhliða leiðréttingu á vaski til ferðaþjónustunnar á að lækka efra þrep virðisaukaskatts. Takist að koma í veg fyrir leiðréttingu á vaski ferðaþjónustunnar er mjög líklegt að lækkun efra þreps sé úr sögunni. Það væri stór skaði fyrir launafólk í landinu og reyndar allri starfsemi þ.m.t. ferðaþjónustunni, þar sem sú lækkun skilar sér gegnum allt hagkerfið.

Gunnar Heiðarsson, 29.4.2017 kl. 19:54

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Gunnar get tekið undir flest það sem þú nefnir og ekki var það mín meining að tala niður landbúnaðinn á nokkurn hátt.

Varðandi Kvíabryggjuhákarlana þá kæmi mér ekki á óvart að einmitt þeirra líkar semji leikritið um sanngirni alm vsk á ferðamenn.

Það er nokkuð víst að ef af þessu verður munu margur almúgamaðurinn sem lagt hefur sitt undir í ferðaþjónustu með von um framtíðarábata fara í hákarlskjaftinn. Hákarlarnir fá svo afskriftirnar og þarf ekki Kvíabryggju til, þeirra vinir eru allt um kring.

Samanburðinn við erlendan ferðamannavask má nálgast á wikipadia,þarf ekki ferðaþjónustuaðilana sjálfa til að upplýsa hann. Hins vegar hef ég þeirra orð fyrir sér íslenskri útfærslu gistináttagjalds ríkisins, sem er reyndar samkvæmt öðru á þeim bæ.

Það þarf náttúrulega ekki að tíunda það að vsk hækkunin verður greidd af ferðamönnum en ekki ferðaþjónustuaðilum. Og ástæðan fyrir lægra skattþrepi í öðrum löndum er sú að vafasamt þykir að innheimta skatta sem ætlaðir eru til samneyslu í heimalandinu af erlendum ferðamönnum.

Þá væri eins hægt ákveða það að innheimta vsk af útflutningi almennt. Það þarf ekki að að hafa orð á hvaða áhrif svoleiðis vsk fyrirkomulag hefði á milliríkjaverslun. Þetta er því vandrataður vegur, enda sýnir það sig þegar fyrirkomulag annarra landa á vsk á þessari atvinnugreingrein er skoðað. 

Vissulega væri ánægjulegt að sjá 2% lækkun á alm vsk, en ekki kæmi mér á óvart að samhliða því, og sérstaklega eftir að ferðaþjónustan hefur verið knésett, að það þætti rökrétt að matvæli fari úr 11% vsk upp í alm vsk. Svo vel tel ég mig þekkja þau öfl sem setja upp sýninguna, eða kannski réttara sagt "betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi".

Magnús Sigurðsson, 29.4.2017 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband