Verðtryggðir andskotar

Það er alveg magnað hvað margir eru fastir í þeirri hugsun að verðtrygging lána sé alfa og omega alls. Að jörðin geti ekki snúist nema lán á Íslandi séu verðtryggð. Að forsætisráðherra teljist til þessa fólks kemur kannski ekki á óvart, en þó.

Hvers vegna í ósköpunum þurfa bankar á Íslandi að fá miklu meiri ávöxtun af sínu lánsfé, sem nemur hundruðum prósenta, en bankar annarra landa? Hvers vegna í ósköpunum þurfa bankar á Íslandi að vera tryggðir í bak og fyrir, þegar þeir lána til fasteignakaupa? Við vitum að bönkum hér á landi er einstaklega illa stjórnað og að varla er hægt að segja að þeir sem þar fara fyrir stafni séu menn með lágmarks þekkingu eða skynsemi. Kannski vegna þess að ekki þarf vitibornara fólk til þessara starfa, bankinn er hvort eð er gulltryggður í bak og fyrir. Verst er þó að lesa í fréttum að þessir sömu bankar eru að lána fé til fyrirtækja erlendis. Varla eru sömu vextir á þeim lánum og sannarlega ekki verðtrygging. Um þau lán hljóta að gilda sömu vaxtareglur og gilda í viðkomandi landi.

En aftur að orðum fjármálaráðherra. Þar örlar ekki á þeirri hugsun að afnema verðtryggingu lána, einungis að stytta þau lán sem verðtrygging eru á. Og helsta áhyggjuefni ráðherrans er að 40% þeirra sem taka lán gætu þá ekki tekið lán. Vel má vera að það sé rétt hjá ráðherranum, enda ætlar hann að halda helvítis verðtryggingunni áfram og ekki dettur honum í hug að nefna hámark á vexti á lán til fasteignakaupa.

Hins vegar með afnámi verðtryggingar og hámarksvexti á lán til fasteignakaupa, mætti gera ráð fyrir að mun fleiri gætu tekið lán en nú og það sem meira er, gætu borgað það upp að fullu. Það er engin glóra í því að fasteignalán séu sett í sama flokk og önnur lán, þegar vextir eru annars vegar. Það fæst ekki betri trygging fyrir láni en fasteign og því geta vextir af lánum með slíkri tryggingu verið mun lægri en lán af áhættufjárfestingu. Íslenskir bankar munu þó aldrei taka upp hjá sjálfum sér að meta áhættu lána og ákvarða vexti út frá því. Samráð þeirra er allt á hinn veginn. Af þeim sökum er nauðsynlegt að löggjafinn setji í lög hámark á vexti fasteignalána.

Við afnám verðtryggingar er fyrst hægt að tala um heilbrigðara fjármálakerfi hér á landi. Sjálfstæðismenn vilja frjálsræði í fjármálum, að markaðurinn fái að ráða. Það ætti því að vera forgangskrafa hvers Sjálfstæðismanns að afnema verðtryggingu, þannig að forsenda fyrir frelsinu sé til staðar. Eða er þetta frelsistal þeirra einungis á annan veginn, þ.e. til að græða? Má frelsið ekki vera út á að þeir sem vel fara með fé græði en hinir sem ekki kunna með það að fara tapi? Má frelsið ekki vera frelsi?

Eins og áður segir þá er afnám verðtryggingar forsemda fyrir því að hagkerfið geti virkað eðlilega. Hagkerfi sem er með einn þátt bundinn getur aldrei orðið heilbrigt, það er fársjúkt.

Með afnámi verðtryggingar fæst einnig stjórn á hagkerfinu. Þá munu vaxtaákvarðanir Seðlabankans virka, sem þær gera ekki fyrr en seint og um síðir þegar stæðsti hluti lánakerfisins er bundinn verðtryggingu. Þá mun verða auðveldara að ná tökum á verðbólgu, ef hún sýnir sig, meðan verðtrygging magnar hana.

Mestu skiptir þó að með afnámi verðtryggingar munu fjármálakerfið jafna sig og vextir verða eðlilegri, meira í átt að því sem þekkist erlendis. Og ef samhliða því verði bönkum gert skylt að hafa vexti á öruggustu lánin, fasteignalánin, lægri en öðrum lánum, mun fólki verða mögulegt að koma þaki yfir höfuð sér. Þannig má stuðla að því að flótti menntafólks úr landi minnki, t.d. fólk úr heilbrigðisgeiranum. Ekki fer það erlendis vegna hærri launa, en hins vegar eru margir sem ekki treysta sér til að stofna heimili hér á landi.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og allir þeir sem eru fastir í viðjum verðtryggingarhams ættu að reyna að opna hug sinn örlítið. Ættu að velta fyrir sér hvers vegna allar aðrar þjóðir geti verið án verðtryggingar lána. Sérstaklega ættu Sjálfstæðismenn, menn frelsisins að skoða þá andhverfu sem verðtrygging er á frelsið, frelsið til að græða og frelsið til að tapa!

Það er einungis ein ástæða fyrir verðtryggingunni. Getuleysi og aumingjaskapur bankamanna og stjórnmálamanna. Þeir hafa ekki getu, kunnáttu né kjark til að vera án verðtryggingar. Þeir eru kollegum sínum erlendis svo langt að baki að þeir verða að hafa hækjur við hlið hjólastólsins!!

Þetta eru verðtryggðir andskotar!!


mbl.is 40% gætu ekki tekið lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Enginn er skyldugur að taka verðtryggt,getur tekið óverðtryggt. Er ekki alveg búið að reyna til þrautar með krónuna?

Hörður (IP-tala skráð) 18.2.2016 kl. 20:05

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er rétt Hörður, það er hægt að velja á milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána hjá bönkunum. En þegar annar aðilinn setur reglurnar þá er vart um val að ræða. Eins og bankarnir bjóða nú er lítill munur á þessum lánum, enda ekki mikill munur á kúk og skít.

En þetta snýst ekki um eitthvað ímyndað val, þetta snýst um heilbrigði fjármálakerfisins. Þetta snýst um að lán séu metin eftir því veði sem að baki liggur. Engin lán hafa eins tryggt veð og fasteignalán og því út í hött að setja þau í sama klassa varðandi vexti og kjör og áhættulán.

Þetta snýst um að hér á landi sé samskonar fjármálakerfi og allstaðar í hinum vestræna heimi, fjármálakerfi þar sem áhættunni er skipt milli lántaka og lánveitanda, fjármálakerfi þar sem vextir lána ákvarðast af baktryggingu þeirra, fjármálakerfi þar sem sami gjaldmiðill liggur beggja megin lána.

Og það er vissulega rétt, það er búið að reyna til þrautar með krónuna, þ.e. verðtryggðu krónuna. Ef hér væri ekki verðtrygging á fasteignalánum, að sami gjaldmiðill gilti við innkomu og útgjöld heimila landsins, eins og allstaðar annarstaðar í heiminum, er víst að krónan getur þjónað okkur vel, betur en nokkur annar gjaldmiðill. Enda er gjaldmiðill hvers hagkerfis einungis mælikvarði á það.

En til að gjaldmiðill geti virkað er auðvitað frumforsemda að sami gjaldmiðil sé á öllum þáttum hagkerfisins, en ekki mismunandi eftir því hvort um gjöld eða tekjur er að ræða.

Gunnar Heiðarsson, 19.2.2016 kl. 08:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband