Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Pólitísk nálykt

Nú hefur Skipulagsstofnun og ráðherra innanríkismála staðfest breytingu á skipulagi lands, svo byggja megi vindorkuver hér á landi. Þetta er fyrsta alvöru breytingin sem á sér stað hér á landi, þar sem um er að ræða risa vindmillur. Áður hafa verið reistar tvær smá vindmillur á svokölluðu Hafi, norðan Búrfellsvirkjunar og tvær minni við Þykkvabæ, sem ekki hafa verið starfandi um nokkuð skeið. Einstaka enn minni vindmillur hafa síðan einstaklingar reyst í sínu landi, sem flestar eru orðnar óstarfhæfar.

Það er því um að ræða stóran atburð fyrir land og þjóð, þegar Skipulagsstofnun og innviðaráðherra samþykkja breytta notkun land, til hjálpar erlendum aðilum að koma hér upp risa vindmillum. Enn ljótari atburður er þetta þegar ljóst er að ráðherra í ríkisstjórninni á þarna mikilla hagsmuna að gæta. Um er að ræða jarðirnar Hróðnýjarstaði, rétt við Búðardal og Sólheima vestast í Laxárdalsheiði. En það er einmitt jörðin Sólheimar sem tengist sterkum böndum inn í ríkisstjórnina. Ásmundur Einar Daðason, barnamálaráðherra og ein stærsta stjarna Framsóknarflokks, er einmitt eigandi þeirrar jarðar. Reyndar, svo alt sé nú satt og rétt, þá er jörðin skráð á eiginkonu Ásmundar og föður hans, en sjálfur ráðherrann skrifaði undir kaupsamninginn í þeirra umboði.

Sveitarstjórn Dalabyggðar sótti stíft eftir samþykki á breyttu skipulagi þessara jarða, þrátt fyrir mikla andstöðu heimamanna. Þegar ljóst var að ráðherra gæti ekki í fyrstu staðfest breytinguna, eftir að Skipulagsstofnun hafnaði henni, var farin bakleið að breytingunni. Lítilsháttar breyting á orðalagi dugði til að Skipulagsstofnun varð að breyta afstöðu sinni og ráðherra innviðamála, sem reyndar er einnig ráðherra og formaður Framsóknar, var fljótur til að staðfesta samþykkið.

Bæði munu þessi vindorkuver hafa mikil áhrif, þar sem þau koma. Hróðnýjarstaðir eru mitt í vaxandi ferðamannaparadís Dalanna, auk þess sem sumar bestu laxveiðiár landsins eru þar nálægt. Sjónmengun, hávaðamengun og ekki síst örplastmengun, mun verða mikil í nágrenni vindorkuvera. Þetta leiðir til þess að fasteignaverð mun lækka verulega á svæðinu, ferðaþjónusta er í voða og óvíst að menn kæri sig um að veiða í laxveiðiám sem eru svo að segja undir risa vindmillum.

Enn verra er þetta varðandi fyrirhugað vindorkuver að Sólheimum, landi ráðherrans. Þar er ætlunin að reisa risa vindmillur upp á háheiðinni, rétt við austurmörk jarðarinnar. Hinu megin þeirra marka er annað sveitarfélag og íbúar þess því ekki taldir aðilar að málinu! Þar er verið að breyta landnotkun sem mun klárlega hafa áhrif á eignir þessa fólks, án þess að það sé spurt um málið eða fái að koma að ákvörðun þess á einn eða annan hátt. Yfirgangur ráðherrans er því algjör og lítilsvirðing við íbúa nágerannasveitarfélagsins.

Þess má svo geta að báðar þessar jarðir eru á svæði hafarna. Allir vita áhrif vindmilla á fugla, sér í lagi stærri fugla. Erlendis er þetta þekkt vandamál, þó vindmillur þar séu í flestum tilfellum mun minni en þær risa vindmillur er til stendur að reisa að Hróðnýjarstöðum og Sólheimum í Dölum. Svo virðist sem ekkert tillit sé tekið til verndunar hafarna, eða annarra fugla, s.s. álfta, gæsa og rjúpu, er halda sig mikið á Laxárdalsheiðinni.

Ekki ætla ég að fjölyrða um sjálft vindorkuverið og þá skelfingu sem því fylgir. Hef áður ritað mörg blogg, bæði um þetta viðkomandi vindorkuver, sem og önnur.

Þessi breyting á landnotkun, sem ráðherra samþykkir, er tímamót á Íslandi. Línan hefur verið lögð og erlendum vindbarónum er hér með hleypt inn í landið, til að framleiða orku. Orku sem ekki er sjáanleg not fyrir vegna kostnaðar við framleiðsluna.  Vindorkusinnar halda því fram að mikil þróun hafi orðið í framleiðslu á vindmillum, þannig að kostnaður hafi farið lækkandi. Vissulega má taka undir það, en sú þróun hefur öll verið á einn veg, að stækka vindmillurnar. Gera þannig vandamálið enn stærra en áður var. Og þrátt fyrir þessa "þróun" á vindmillum, er enn haf og himinn milli framleiðslukostnaðar á raforku með vindi versus vatni eða gufu. Rýr rekstratími miðað við vatns/gufu virkjanir, stuttur endingatími miðað við vatns virkjanir og hár byggingakostnaður eru þar aðal orsök. Með þessar staðreyndir er farið í reiknileikfimi, til að réttlæta arðsemi vindaflsins, en til að raunverulegur ávinningur fáist af vindaflinu þarf orkuverð hér á landi að hækka verulega.

Ásmundur Einar er ein stærsta stjarna Framsóknar í dag. Hvað veldur er erfitt að segja, hugsanlega þó frægt viðtal í fjölmiðlum, skömmu fyrir síðustu kosningar. Honum tókst að vinna hug og hjörtu höfuðborgarbúa og ná fylgi Framsóknar þar vel upp, í síðustu Alþingiskosningum. Segja má að hann hafi farið með himinskautum undanfarin misseri. En þeir sem hátt fljúga eiga á hættu langt fall.

Erlendis þætti ekki góð pólitík að formaður og ráðherra stjórnmálaflokks hjálpaði öðrum samflokksfélaga og ráðherra við gróðabrask, sér í lagi ef það væri gert til að koma viðkvæmri innlendri grunnþjónustu undir erlenda aðila. Hér á landi telst slík ósvinna ekki til tíðinda!

 


Bankarán og pólitískt nef

Í skjóli nætur var stór hluti eigna ríkisins í Íslandsbanka seldur. Hvernig staðið var að sölunni hefur verið gagnrýnt. Þar eru tvö atriði sem standa uppúr, verðlagningin á hlutabréfunum og val á kaupendum. Nú vilja sumir ráðherrar þvo hendur sínar af þessum gjörning. Vandséð er hvernig þeim mun takast sá þvottur. Ekki er hægt að sjá lagaleg rök fyrir því a' láta gjörninginn ganga til baka, enda sumir "fagfjárfestar" þegar búnir að leysa út sinn hagnað af kaupunum, með því að selja bréfin þriðja aðila.

Í fyrstu minnti þessi gjörningur bankasýslunnar nokkuð á árin fyrir hrun, en þegar fjármálaráðherra, í trássi við bankasýsluna, opinberaði kaupendahópinn rak mann bókstaflega í rogastans. Þarna voru samankomnir fyrrum bankaræningjar landsins, er settu landið bókstaflega á hausinn fyrir einum og hálfum áratug. Menn sem höfðu og hafa sjálfsagt enn, ítök í flesta stjórnmálaflokka landsins. Þar eru fáir undantaldir, þó almenningur vilji gjarnan spyrða Sjálfstæðisflokk við þessa menn. Þá má alveg minna á að einn helst andstæðingur þess flokks, til áratuga, var einn af afkastameiri bankaræningjum fyrir hrun og hans nafn poppar upp á þessum lista yfir kaupin nú.

En aftur að sjálfri sölunni. Þegar Alþingi samþykkti sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka voru leiðbeiningar þingsins vægast sagt litlar. Þó voru umræður nokkrar um málið, en á endanum var fjármálaráðherra nánast falið einræði um hvernig að þessu skyldi staðið. Nokkuð hefur vafist fyrir ráðherranum aðferðarfræðin, fyrst vegna þess að talið var of nærri kosningum til að framkvæma verkið, flokkur hans gæti misst atkvæði. Síðan eftir kosningar og BB var áfram fjármálaráðherra, fór hann að hreifa málinu. Strax kom í ljós að hvorki þingið né þjóðin var á því að selja strax. Ekkert lægi á auk þess sem ekki væri ljóst hvernig standa ætti að sölunni.

BB var þarna kominn í vanda. Mjög var legið á honum að koma málinu af stað, af þeim sem sáu sér þarna leik á borði. Þá var bankasýslan mjög áfjáð í að klára málið. Leikmaður veit auðvitað ekki hvað fram fer á fundum ríkisstjórnarinnar en ljóst er að þar var ekki eining um söluna, jafnvel þó hún hafi verið ítrekuð í stjórnarsáttmálanum. Því fóru að heyrast frá ráðherra ýmsar skýringar um hvernig standa skildi að þessari sölu. Í fyrsta lagi átti að bjóða hlutabréfin út, í öðru lagi var fallið frá dreifðri eignaraðild og velja skyldi svokallaða fagfjárfesta til kaupanna, fjárfesta sem væru að hugsa um kaupin til lengri tíma. 

Fjármálaráðherra tók síðan af skarið og fól bankasýslunni að hefja undirbúning sölunnar. Lítið heyrðist um tíma af málinu, en svo bárust óvæntar fregnir af því að salan hefði farið fram, á einni nóttu. Seldur hafði verið 22,5% af heildareign bankans og að verðið var 117 krónur á hlut, nokkuð undir markaðsverði. Strax þarna varð ljóst að eitthvað var ekki að ganga upp í þessu dæmi. Að hægt skuli vera að selja 22,5% í banka á einni nóttu er útaf fyrir sig ótrúlegt. Þá var einnig séð að um töluvert undirverð var að ræða. 

Upphófst nú mikil gagnrýni á söluna, réttilega. Ekki einungis að verðið væri undir markaðsverði, heldur reyndist útilokað að fá að vita hverjir kaupendur voru. Þegar svo BB ákvað að opinbera lista yfir kaupendur, í trássi við bankasýsluna, var eins og þyrmdi yfir mann. Þarna voru helstu aðalleikarar hrunsins komnir, ljóslifandi. Það fyrsta sem manni datt í hug hvað það væri sem skilgreindi fagfjárfesti frá öðrum fjárfestum. Er skilyrði að fjárfestir þurfi að svíkja, stela, vera dæmdur um fjársvik eða eitthvað í þeim dúr til að geta kallast fagfjárfestir? Eða er kannski bara nóg að vera "vinur" réttra aðila? Á listanum voru menn sem höfðu fengið dóma fyrir fjársvik og jafnvel voru þarna menn sem enn eru í meðferð dómstóla! 

Í viðtali við fjölmiðla hélt starfsmaður bankasýslunnar því fram að ekki hefði komið krafa frá ráðherra um að kanna hvort bjóðendur væru heiðarlegir, eða hvort þeir hefðu gerst brotlegir við lög. Hvers konar fáviska er þetta hjá manninum?! Í hvaða heimi býr slíkt fólk sem lætur þannig orð frá sér? Bankasýslunni er falið að selja eign landsmanna, upp á upphæð sem almenningur á erfitt með að setja í samhengi og stofnunin telur sig ekki þurfa að kanna bakgrunn kaupenda! 

Öll atburðarás þessarar sölu er hrein skelfing. Þetta er í þriðja sinn sem ríkið selur banka sína og klárlega sú allra skelfilegust, sér í lagi vegna þess að við höfum söguna til að leiðbeina okkur. 

Ef við greinum þetta örlítið, út frá því sem ráðherra sagði fyrir söluna. Hlutur ríkisins er boðin út. Þegar eitthvað er boðið út mætti ætla að tilvonandi kaupendur bjóði í hlutinn og sá sem hæst býður hljóti hnossið, svo fremi hann uppfylli kröfur til kaupenda. Þarna ákveður hins vegar seljandi verðið fyrirfram og að auki setur það lægra en markaðsvirði. Þetta er því ekki útboð heldur bein sala. Í öðru lagi talaði ráðherra um að valdir yrðu fagfjárfestar, að það myndi tryggja langa eigu þeirra í bankanum. Þegar listinn var opinberaður kom hins vegar í ljós að yfir 40% sölunnar féll til einkafjárfesta. Lífeyrissjóðir, verðbréfasjóðir og erlendir langtímasjóðir, allt sjóðir sem reikna má með að séu að fjárfestar til lengri tíma, fengu einungis tæp 60%. Síðan hefur komið í ljós að innan þess hóps sem kallast erlendir langtímasjóðir, eru bara alls ekki neinir langtímasjóðir, heldir sjóðir sem spila spákaupmennsku frá degi til dags. Því má ætla að langtímafjárfestar í þessu útboði séu mun færri en ætlað er, jafnvel undir 50%. Þá hefur einnig komið í ljós að margir þeirra einkafjárfesta er kauptu í bankanum hafa þegar tekið út sinn hagnað af sölunni. 

Það sem þó kemur mest á óvart varðandi þessa sölu í bankanum, er hversu pólitískt nef fjárnálaráðherra er gjörsamlega kol stíflað. Það hefur legið fyrir lengi að lítil sátt er um sölu á eignum ríkisins í bönkunum. Þar kennir sagan okkur. Því var sölunni frestað á síðasta kjörtímabili, taldist of skammt til kosninga til að offra þannig atkvæðaveiðum. Nú eru einungis örfáar vikur til næstu kosninga. BB hefði mátt vita að salan yrði gagnrýnd, jafnvel þó sú skelfing sem nú blasir við hefði ekki orðið. Því er með ólíkindum að hann skuli færa vinstriöflunum þetta beitta vopn, skömmu fyrir borgarstjórnarkosningar. Dagur hlýtur að kætast.

Það er ljóst að Íslandsbanka var rænt. Þar ber bankasýslan auðvitað stærstu ábyrgð. Framkvæmdin var þeirra og fjarri því sem um var rætt af yfirmanni þeirra, fjármálaráðherra. Auk þess sem bankasýslan hleypir inn í söluna dæmdum fjárglæframönnum, jafnvel mönnum sem enn eru í meðferð dómstóla. Fjármálaráðherra ber einnig mikla ábyrgð. Hann stóð ekki vaktina fyrir þjóðina, eins og honum ber. Hann virðist ekki hafa farið yfir málið áður en hann gaf bankasýslunni vald til að rita undir söluna. Reyndar vandséð að ráðherra hafi heimild til að útdeila slíku valdi til embættismanna. Ráðherra hlýtur að þurfa að rita eigin hendi undir sölu eigna ríkisins upp á tugi milljarða króna. 

Aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar bera sömu ábyrgð og fjárnálaráðherra. Þeir geta gasprað, en ábyrgðina bera þeir.

Það er gott að vera bara fávís kjósandi. Að þurfa enga ábyrgð að bera á því að sumum sé hyglað -- nema auðvitað að borga fyrir herlegheitin! 

 


mbl.is Óeining í ríkisstjórn um bankasölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skvetta bensíni á eld

Það er þekkt aðferð erlendis að hækka stýrivexti þegar verðbólga lætur á sér kræla. Þetta er sögð vísindi og sjálfsagt má það rétt vera. Hér á landi virkar þetta hins vegar á þver öfugan hátt og má þar kenna tvennum sér íslenskum þáttum um, annars vegar að húsnæðisliður er hér mældur til verðbólgu og hitt að stór hluti húsnæðislána er verðtryggður. Þá eru óverðtryggð lán til húsnæðiskaupa í flestum tilfellum með fljótandi vöxtum.

Þetta leiðir til þess að þegar stýrivextir hækka þá hækka húsnæðislán, sem aftur hækkar húsnæðislið í vísitöluútreikningi, sem enn aftur hækkar verðbólgu. Hringekjan fer af stað. Bankarnir auka enn frekar hagnað sinn, án nokkurra forsendna en alfarið á kostnað fjölskyldna í landinu, sem svelta meir en áður. Jafnvel lenda á götunni.

Það dynja á okkur erlendar hækkanir, hækkanir sem við ráðum engu um en eru fyrst og fremst til komnar vegna manngerðra hörmunga, þ.e. manngerðum orkuskorti. Ekkert hér innanlands er orsök þessarar verðbólgu og því með ósköpum að seðlabankinn ætli að vera leiðandi á því sviði. Reyndar ekki bara leiðandi, heldur kemur með lausnir sem beinlínis neyða fyrirtæki til að hækka sínar innlendu vörur.

Byrjum á að mæla verðbólgu með sama hætti og lönd þau er við viljum miða okkur við, að taka húsnæðisliðinn út. Næst skulum við banna verðtryggð lán. Þá má skoða hvort hækkun stýrivaxta skuli notuð gegn verðbólguskotum. Til að nota erlendar aðferðir gegn verðbólgu, verðum við að nota erlendar aðferðir við mælingu hennar og erlendar aðferðir við fjármögnun húsnæðis. Annað er með öllu ófært!

Þessi aðgerð peningastefnunefndar Seðlabankans er eins og að skvetta bensíni á eld. Minnir á hvernig peningamálum landsins var stjórnað fyrir hrun!

 

 


mbl.is Hækka stýrivexti um 0,75 prósentur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

" Er ekki bara best að selja þetta"

Það hefur ótrúlega lítil umræða átt sér stað um nýjustu vendingar Íslandspósts. Einhvern veginn eins og enginn þori.

Íslandspóstur hefur gefið út nýja verðskrá, þar sem hækkanir eru allt að 102% fyrir veitta þjónustu. Meðaltalshækkun eitthvað minni. Þegar þessi verðskrá var tilkynnt var því haldið fram að fyrirtækinu væri skylt að láta verðskrá sína endurspegla kostnað við þjónustuna. Þetta er svo sem gott og gilt, en aðferðafræðin sem notuð var er hins vegar galin.

Það liggur auðvitað fyrir að ódýrast er að bera út póst næst flokkunarstöð Íslandspóst, enda fer allur póstur þar í gegn, hvaðan sem er á landinu. Bréf sem sent er milli húsa á Ísafirði þarf að eiga viðkomu í þessari flokkunarstöð fyrirtækisins í Reykjavík. Það er væntanlega af því að þessi flokkunarstöð var dýr í uppsetningu, er reyndar nokkuð fullkomin og getur sinnt margfalt stærri markaði en til er hér á landi, en dýr framkvæmd. Því var sú regla sett hjá póstinum að öll flokkun á pósti skuli fara fram í Reykjavík. Það þarf jú að nýta fjárfestinguna, sem stór spurning er hvort var nauðsynleg.

Í nýju verðskránni er landinu skipt upp í fjögur svæði, hvert með sinni verðskrá. Höfuðborgarsvæðið, í þrengsta skilningi þess orðs, er á svæði eitt. Svæði tvö tekur yfir flesta stærri kaupstaði á landinu, svæði þrjú yfir minni kaupstaði og einstaka þorp. Svæði fjögur nær síðan yfir allt annað, þ.e. sveitir landsins og sum minni þorp. Ekki verður séð hvaða skilgreiningu pósturinn notast við þegar þorp eru valin, hvort þau falli undir svæði þrjú eða fjögur, einna hellst að sjá að þar ráði hendingin ein.

Þessi skilgreining getur ekki og mun ekki geta endurspeglað kostnað við póstburðinn. Það er t.d. vandséð að hægt sé að rökstyðja það að ódýrara sé að senda pakka frá Reykjavík til Ísafjarðar eða Egilstað, en að senda sama pakka á sveitabæ á Kjalarnesi. Að kostnaðarmunur þar á milli sé nærri 65%, Kjalarnesinu í óhag. Þannig mætti lengi bera saman ruglið í þessari verðskrá Íslandspósts, en megin málið er að fjarri er að hægt sé að halda því fram að hún endurspegli á einhvern hátt kostnað við þjónustuna. Þarna fer fyrirtækið af stað með dulbúna ástæðu til að stór hækka þjónustu sína, auk þess sem dregið er úr henni. Til dæmis ekki lengur bornir út pakkar á það svæði sem skilgreint er sem svæði fjögur, fólk verður að sækja þá á næstu póststöð. Þetta hvoru tveggja bitnar mest á landsbyggðinni, eins og svo gjarnan.

Hafi Alþingi sett lög um að gjaldskrá póstsins skuli taka mið af kostnaði við póstburð, átti einfaldlega að reikna landið sem eina heild og leggja flata hækkun á allt landið. Alþingi og fulltrúar okkar þar, hafa verið gjarnir á að tala um að bæta þurfi aðstöðumun landsbyggðarinnar. Því getur vart verið að sett hafi verið lög um að auka misréttið á þessu sviði.

Annað mál, sem reyndar var heldur meira rætt í fjölmiðlum, var salan á Mílu úr landi. Kaupandinn, franskur fjárfestingasjóður, hefur sagt að ekki sé ætlunin að hlera búnað Mílu, að ekki muni koma til verðhækkana á þjónustu fyrirtækisins og jafnvel að innspýting verði í þjónustu þess. Ja, mikið andskoti er Míla öflugt fyrirtæki, ég segi ekki annað. Ef hægt er að leggja fram yfir 70 þúsund milljónir til kaupa á því, halda gjaldskránni niðri og auka þjónustuna, hlýtur þetta fyrirtæki að vera hrein gullkú. Þegar fjárfestingasjóður, sem að eðli sínu er stofnaður til þess eins að ávaxta fé sitt og ekkert annað, getur lofað slíku, er ljóst að stór mistök voru að selja fyrirtækið.

Sá ráðherra sem með þessa málaflokka fer, póstburð og fjarskipti, er formaður Framsóknarflokks, að hans sögn eina "samvinnuflokks" landsins. Það er nokkuð langt frá því að samvinnuhugsjónin ráði þarna gerðum, hvort heldur er gjaldskrá Íslandspósts eða salan á Mílu. Þó leggur þessi ráðherra blessun sína yfir þessar gerðir og brosir bara!

Það er spurning hvort slagorð Framsóknar fyrir síðustu kosningar, "Er ekki bara best að kjósa Framsókn" hefði ekki átt að vera "Er ekki bara best að selja þetta".

Fyrir ekki margt löngu voru bæði póstsamgöngur og fjarskipti talin til grunnþjónustu landsins og þannig er það víðast um heim. Einungis ESB hefur skilgreint þetta sem vöru og vara skal vera sett á markað. Gegnum EES samninginn erum við föst í vef ESB og ráðum lítt hvernig hlutir hér á landi eru skilgreindir. Ef ESB segir að eitthvað sé vara, þá verður Alþingi okkar að breyta lögum til samræmis við það. Það styttist í að menntamál og heilbrigðismál og reyndar allt sem nöfn ná yfir, verður skilgreint sem vara innan ESB. Að eini málaflokkurinn sem teljist til grunnþjónustu verði hinn nýi Evrópuher.

 


Síminn ekki hleraður

Sameiginlegir sjóðir landsmanna er notaðir til að byggja upp innviðakerfi landsmanna. Síðan eru ýmsir hlutar þess selt sérvöldum aðilum, án þess að eitthvað samhengi sé milli þess verðs sem þeir greiða fyrir þá og þess kostnaðar er landsmenn lögðu til þeirrar uppbyggingar. Þér sérvöldu hafa síðan á sínu valdi þessa innviði og geta gert það sem þeim sýnist við þá, án allrar ábyrgðar. Til dæmis selt þá úr landi ef þeir sjá af því góðan hagnað.

Uppbygging ljósleiðarakerfisins um allt land var þarft verkefni, fjármagnað af ríkinu. Til þeirrar fjármögnunar var málaflokkurinn settur undir þann lið á fjárlögum er fer með samgöngur, að mestu fjármagnaður af vegafé. Því er ljóst að þessi þarfa uppbygging svelti á meðan viðhald vegakerfisins. Nú nýtur franskur fjárfestingasjóður, voru eitt sinn kallaðir hrægammasjóðir, góðs af lélegu vegakerfi á landsbyggðinni. Landsmenn sitja eftir með sárt enni, meðan Síminn telur sína milljarða. 

Innviðir þjóða eru ekki oft settir á markað braskara. Þegar slíkt gerist upphefst alltaf heljarinnar brask með þá, þar sem hluturinn gengur kaupum og sölum uns blaðran springur. Eðli málsins samkvæmt eru innviðir þjóða yfirleitt engum verðmæti nema viðkomandi þjóð. Fyrir aðra eru slík verðmæti einungis froða, til þess eins að græða á meðan einhver lætur blekkjast. 

Hvernig á því stóð að Síminn eignaðist Mílu veit ég ekki. Síminn var seldur á sínum tíma vegna krafna ees samningsins um aðskilnað sölu og dreifinu símakerfisins. Að Síminn, sölukerfið, skuli komist yfir Mílu, dreifikerfið, hlýtur því að vera brot á ees samningnum. 

Hvað um það, nauðsynlegir innviðir sem byggðir eru upp af sameiginlegum sjóðum landsmanna, eiga að vera í þeirra eigu. Annað verður ekki við unað. 

Forsvarsmenn Símans telja sig hafa fengið loforð þessa erlenda fjárfestis um að þeir muni ekki hlera strengina. Það er minnsti vandinn, enda Ísland smátt á alþjóðavettvangi og lítil verðmæti í því sem við segjum. Þá er ljóst að slík loforð frá fjárfestingasjóð eru haldlítil, auk þess sem litlar líkur eru á að þessi sjóður verði lengi eigandi að Mílu. Þessi kaup sjóðsins eru á nákvæmlega sama grunni og öll kaup fjárfestingasjóða, til þess eins að græða á þeim. Um það snýst verkefni fjárfestingasjóða, að ávaxta sitt fé. Þeirra verkefni er ekki að standa vörð samfélagsins, allra síst í öðrum löndum.

 


mbl.is Hefur áhyggjur af innviðum Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klærnar viðraðar

Framkvæmdastjórn ESB viðraði klærnar aðeins í morgun, þegar sett var bann á útflutningi bóluefnis gegn covid til Íslands og reyndar fleiri landa. Eftir bréfaskriftir forsætisráðherra til forseta framkvæmdastjórnarinnar, varð að niðurstöðu að ESB ætli að standa við gerðan samning um bóluefnasendingar til Íslands, a.m.k. samkvæmt þeirri dreifingaráætlun sem í gildi er. Hvað svo veit enginn.

Framkvæmdastjórn ESB og þá einkum forseti hennar, hefur farið mikinn síðustu daga. Hótanir flæða í allar áttir og krafa um að staðið sé við gerða samninga gagnvart ESB. Undarleg er þó þessi barátta framkvæmdarstjórnarinnar, þegar hún telur réttlætanlegt á sama tíma að brjóta samninga við aðrar þjóðir.

Harka framkvæmdastjórnarinnar er komin á nýtt stig, hættulegt stig. Auðvita vita allir að ESB er ekki klúbbur góðgerðasamtaka. Þessi klúbbur var fyrst stofnaður um viðskipti, hörð viðskipti. Seinna þróaðist hann yfir í einskonar ríkjasamband og leynt og ljóst er verið að skerða völd aðildarríkja í þeim eina tilgangi að klára það verk sem Hitler mistókst, að setja alla Evrópu undir eina stjórn. Síðastliðin ár hefur þessi árátta smitast út fyrir sjálft sambandið og höfum við hér upp á Íslandi ekki farið varhluta af því, vegna aðildar okkar að EES samningnum. Samningi sem Alþingi samþykkti fyrir um þrem áratugum síðan, með minnsta mögulega meirihluta þingmanna og algerlega án aðkomu þjóðarinnar.

Í krafti þess samnings var gert samkomulag við ESB um dreifingu á bóluefni hingað til lands. En sem fyrr, horfir framkvæmdastjórnin öðrum augum til EES samningsins en til var stofnað í upphafi, enda var ESB ekki til þá, heldur var þessi klúbbur nokkurra Evrópuríkja einungis bandalag um viðskipti. Kallaðist Evrópubandalagið.

En sem fyrr segir, þá viðraði framkvæmdastjórn ESB klærnar, þó þær hefðu verið dregnar inn til hálfs gagnvart Íslandi, eftir alvarlegar athugasemdir forsætisráðherra. Gagnvart ýmsum öðrum löndum eru klærnar þó enn úti og tilbúnar í slaginn. Ef eitthvað stefnir heimsfriðinum í voða, er það framkvæmdastjórn ESB og þar fremst í flokki Ursula von der Leyen.  Heimurinn hefur ekki efni á stjórnmálamönnum eins og þeim sem fylla framkvæmdastjórn ESB, stjórnmálamönnum sem ekkert lýðræðislegt umboð hafa að baki sér.

Við lifum á viðsjárverðum tímum, þar sem allt getur farið á versta veg!

 


mbl.is Gengur í berhögg við EES-samninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk á bágt ....

Fólk á bágt sem tekur veraldleg gæði fram yfir andleg gæði.

Fólk á bágt þegar aurar eru því meira virði en líf og limir.

Fólk á bágt þegar það gerir ekki greinarmun á orsök vanda.

Þessar línur duttu í koll mér eftir lestur viðtengdrar fréttar og vegna þeirrar umræðu sem sífellt virðist vera að ná hærra í opinberri umræðu, jafnvel á Alþingi.

Það var enginn sem bað um covid19. Þessi veira stökkbreyttist og hljóp í mannskepnuna, heimsbyggðinni til stórfellds skaða. Enginn vissi í fyrstu hvernig ætti að meðhöndla þennan vágest og fáir sem í raun vissu afl hans í fyrstu. Nú, eftir að 1.234.000 manns hafa látið lífið af veirunni um heiminn, virðist þekkingin enn vera nokkuð  af skornum skammti, þó vissuleg hún sé meiri en áður en veiran varð til. Mörg fyrirtæki, flest í samvinnu, vinna nótt sem nýtan dag að því að finna upp lyf gegn henni og vonandi að það verk skili árangri. Þar til er covid 19 lífshættulegur sjúkdómur.

Umræðan hér á landi er jafn forpokuð og áður, snýst um einhver smámál meðan stóri vandinn fær að blómstra. Ekki er horft út fyrir landsteinana, einungis á eigin tær. Hvað heldur það fólk að muni ávinnast ef veirunni verði sleppt lausri? Áttar fólk sig virkilega ekki á þeirri staðreynd að í öllum löndum sem við höfum að jafnaði samneyti við, eru ýmist ferðabönn eða miklar takmarkanir á ferðalögum? Ávinningur þessa yrði því lítill sem enginn.

Hitt liggur ljóst fyrir að skaðinn yrði mikill. Jafnvel þó aldraðir og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma yrðu settir í hörðustu einangrun, er ljóst sjúkrahús landsins yrðu fljót að fyllast. Samhliða því mun starfsgeta þeirra skerðast verulega og í beinu framhaldi mun fjöldi látinna aukast. Þarna erum við að tala um fullfrískt og jafnvel ungt fólk, sem heldur hjólum atvinnulífsins gangandi. Því mun atvinnustarfsemi fljótleg lamast. 

Sóttvarnaraðgerðir  geta vissulega dregið úr atvinnustarfsemi, um það verður ekki deilt. Þó munu slíkar aðgerðir aldrei geta valdið sama skaða og sjálf veiran, fái hún að blómstra. Með sóttvarnaraðgerðum er hins vegar hægt að lágmarka smit og halda sjúkrahúsum starfandi. Þannig má verja fleiri mannslíf og um það snýst málið. Með sóttvarnaraðgerðum má einnig halda uppi starfsemi grunnfyrirtækja landsins, þeirra sem færa okkur gjaldeyri, fyrir utan auðvitað ferðaþjónustuna, en henni verður ekki komið af stað með minni sóttvarnaaðgerðum hér á landi. 

Fólk á bágt sem ekki skilur þessar einföldu staðreyndir.

Fólk á bágt sem ekki getur staðið í lappirnar þegar mest á reynir, heldur hleypur eftir því sem það telur vera sjálfu sér til mestra vinsælda.

Fólk á bágt þegar það ekki getur sýnt samstöðu þegar vá stendur fyrir dyrum.

 


mbl.is Tekist á um sóttvarnaaðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kári er Kári

Kári er Kári, ólíkindatól og engum líkur. Fyrir um mánuði móðgaðist hann við ráðherra og lá ekki á skoðun sinni þar, nú er sama staða komin upp aftur. Hótar að hætta aðkomu að skimun ferðafólks til landsins. Jafnvel sósíalisti eins og Kári gerir sér grein fyrir að fyrirtæki verða ekki rekin af manngæsku einni saman. Það þurfa að koma til tekjur.

Hitt er ljóst að ríkið er fjarri því að vera í stakk búið til að taka við keflinu af Kára. Á þeim bæ gengur allt á hraða snigilsins. Þó ÍE hafi tekist á einni viku að koma sér upp aðstöðu til skimunar er barnalegt af Kára að halda að ríkinu sé slíkt mögulegt. Þar á bæ þarf fyrst að fita sérvalda einstaklinga í nokkra mánuði í nefnd við að skoða og skipuleggja málið. Þá tekur við karp um kostnaðinn, hvernig hægt sé að láta hann líta sem best út. Að því loknu er loks hægt að huga að framkvæmdum og þar sem áætlanir ríkisins standast nánast aldrei, mun verkið verða mun kostnaðarsamara en ætlað var og taka mun lengri tíma. Corónaveiran mun verða komin í sögubækur þegar loks allt er klárt til skimunar.

Einfaldast, skilvirkast og best er að ríkið semji við Kára og greiði ÍE fyrir verkið. En þar stendur hnífurinn í kúnni, skoðanasystir hans, sósíalistinn Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, getur ekki með neinu móti kyngt því að greiða fyrir aðkeypta þjónustu einkafyrirtækis. Það er svo sem í lagi, í hennar huga, að þiggja slíka hjálp ókeypis, en að greiða fyrir hana er andstætt pólitískum hugsanahætti hennar.

Reyndar ætlaði ég ekki að skrifa um Kára, Svandísi eða þeirra sósíalísku hugsjónir, þó vissulega fróðlegt sé að bera þær saman. Pistillinn átti að vera um viðtengda frétt af mbl.is. Fréttamaður býr til heila frétt um tíst einhverra misviturra manna á Tvitter, eins og þar sé öll vitneskja heimsins geymd. Í fyrirsögninni spyr hann hvort Kári sé on eða off og vitnar þar til tísts eins kollega síns. 

Kári er hvorki on né off, Kári er bara Kári.


mbl.is „Er Kári on eða off?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rekstrargrundvöllur Íslands

Hvernig í ósköpunum gat það gerst að þessi kona gat orðið ráðherra? Það örlar ekki fyrir einföldustu skynsemi hjá henni.

Þegar eitt af stærstu fyrirtækjum landsins gefur það út að grundvöllur þess sé fallinn og eina sem gæti komið í veg fyrir lokun þess sé upptaka á raforkusamningi, segir ráðherra að ekki sé tímabært að skoða hvaða  áhrif það hefur fyrir þjóðfélagið að af þeirri lokun verði! Og þegar forsvarsmenn leita ásjár hjá ráðherra, vegna þvermóðsku forstjóra Landsvirkjunar, vísar hún þeim á dyr og segir að þarna sé um samning milli tveggja fyrirtækja að ræða. Vísar þeim í fang þess er setti snöruna um háls þeirra! Hvers vegna heldur ráðherra að leitað hafi verið til hennar? Áttar hún sig ekki á þeirri einföldu staðreynd að búið er að reyna að ná sambandi við þann sem heldur um hinn enda snörunnar?

Forsætisráðherra komst þó örlítið betur frá málinu, talaði um að skoða þyrfti samkeppnisgrundvöll stórfyrirtækja á landinu. Væntanlega á hún þar við að með því að setja málið í nefnd muni það lagast.

Það er ekki stór mál að skoða samkeppnisgrundvöll fyrirtækja, meðan tekjur eru lægri en gjöld er grundvöllurinn ekki til staðar. Svo hefur verið hjá Ísal frá því að nýr orkusamningur tók gildi við það fyrirtæki landsmanna sem selur því orkuna. Því er ljóst að grundvöllurinn er brostinn, verði ekki að gert hið bráðasta.

Frekar ætti að skoða hver rekstrargrundvöllur Íslands er, falli stóriðjan. Fyrsta fyrirtækið í fallinu verður Ísal, Elkem er skammt á hælum þess og Norðurál mun fylgja í kjölfarið. Bara við það eitt að missa Ísal mun skerða rekstrargrundvöll Íslands niður fyrir það level er afætur þjóðarinnar í 101 þola. Að ekki sé nú talað um rekstur grunnþjónustunnar. Enn verra verður ástandið þegar fleiri falla. Það er nefnilega enginn annar kaupandi af orkunni, svo einfalt sem það er!

Þá má ekki gleyma þeim sem beinlínis lifa á þessum fyrirtækjum, starfsmenn þeirra og minni fyrirtæki sem þjóna stóriðjunni. Þarna er verið að tala um fleiri þúsund manns sem munu missa sitt lífsviðurværi.

Landsvirkjun er í eigu landsmanna, Alþingi ber ábyrgð á fyrirtækinu og skipar stjórn. Stjórn þess ræður síðan forstjóra. Framkoma og framferði forstjórans ber þó ekki merki þess að um fyrirtæki landsmanna sé að ræða, hann hagar þvert á vilja eigenda, en sjálfsagt vel studdur stjórn Landsvirkjunar. Enda ekki ónýtt að hafa þar næst sér lögfræðinginn "góða" sem stjórnaði kjararáði. Þegar síðan forstjórinn og stjórnarformaðurinn verða búnir að rústa þessu gullepli landsmanna, setja það á hausinn vegna þvermóðsku við stærstu orkukaupendurna, munu þeir sjálfsagt fá væna starfslokasamninga!

Stjórnvöld verða að vakna, þau verða að grípa inní áður en lengra er haldið. Taka völdin af stjórn Landsvirkjunar og forstjóra þess. Ef lagabreytingu þarf til verksins á einfaldlega að breyta þeim lögum strax!

Við erum þegar komin með annan fótinn fram yfir bjargbrúnina. Þökk sé misvitrum forstjóra Landsvirkjunar og kjark- og getulausum ráðherrum ríkisstjórnarinnar!!


mbl.is „Hættum nú að tala þetta niður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarkleysi stjórnvalda

Það er ljóst að stjórnvöld eru að glata landinu í eymd, vegna aumingjaskapar, kjarkleysis og þægð við esb!

Vegna samninga um byggingu orkufreks iðnaðar á landinu, um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar, hófst stórsókn í orkuframleiðslu á Íslandi og upphafið að dreifikerfi um allt land hófst. Þetta var einungis hægt vegna samninga um byggingu álvers á landinu, fé fékkst ekki til framkvæmda að öðrum kosti. Því má með sanni segja að álverið í Straumsvík hafi lagt grunn að því þjóðfélagi sem nú þrífst hér á landi, rafmagn á hverju heimili og öll sú velsæld sem því fylgir.

Samhliða þessu var Landsvirkjun stofnuð og um hana sett eigendastefna. Í henni var skýrt tekið fram að verð orkunnar til einstaklinga ætti að endurspegla rekstur fyrirtækisins, með öðrum orðum að eftir því sem skuldir lækkuðu ætti að gefast möguleiki á að lækka verð orkunnar. Allt frá upphafi hefur stóriðjan fengið orkuna á lægra verði en einstaklingar, sem er auðvitað eðlilegt. Stór orkukaupandi, jöfn notkun yfir 24/7/365  og dreifing orkunnar einföld. Þetta er öllum ljóst sem vilja skilja. Þrátt fyrir það er það fyrst og fremst sala á orku til stóriðjunnar sem hefur greitt niður lán vegna bygginga orkuvera, enda stóriðjan langstærsti orkukaupandinn. Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að af stóriðjunni hefur fjöldi fólks sitt lífsviðurværi, allt frá verkafólki upp í mikið menntað fólk. Einhver þúsund einstaklinga vinna beint innan þessara fyrirtækja, mun stærri hópur hefur tekjur óbeint af þeim.

Blikur birtust á himni í upphafi þessarar aldar, þegar misvitrir og kjarklausir stjórnmálamenn létu véla sig til samþykkis þess að orka yrði skilgreind sem vara og því hluti EES samningsins. Þegar orkupakkar eitt og tvö voru samþykktir var gullfyrirtækið okkar landsmanna, Landsvirkjun, skipt upp í einingar, orkuvinnslu og dreifingu. Eigendastefna fyrirtækisins féll úr gildi og ekki var hugsað til þess að endurnýja hana. Nú er engin eigendastefna um Landsvirkjun lengur og stjórn fyrirtækisins ásamt misvitrum forstjóra, haga sér eins og þeim sýnist og hugsa hvorki um þjóð né þjóðarhag. Horfa vonaraugum yfir hafið og bíða. Þau fyrirtæki sem lögðu grunnin að Landsvirkjun og hafa skapað vöxt þess, eru ofsótt af forstjóranum, sem ekki virðist skilja verkefni sitt.

Það er þó ekki við stjórn eða forstjóra fyrirtækisins að sakast, heldur liggur sökin alfarið hjá stjórnvöldum. Þau eiga að sjá til þess að til sé eigendastefna yfir fyrirtækið og að henni sé hlýtt. Stjórnvöld og Alþingi skipa stjórn þess og stjórnin ræður forstjórann. Þegar þetta fólk sýnir slíkan vanþroska í samskiptum við þá aðila sem halda í þeim lífi, sem forstjórinn undir handleiðslu stjórnar LV hefur sýnt, ber stjórnvöldum tafarlaust að grípa inní. Þetta átti að vera búið að gera fyrir löngu síðan.

Verði ekkert að gert hið bráðasta, mun hér leggjast eymd yfir landið. Stóriðjan leggst af, þúsundir fólks missir sitt lífsviðurværi, gjaldeyristekjur munu skerðast langt niður fyrir það sem gerlegt er og Landsvirkjun missir um 80% af sölu raforku, sem sennilega mun setja það fyrirtæki á hausinn!

Í framhaldinu munu þeir feysknu innviðir landsins sem enn standa, endanlega bresta. Landið verður óbyggilegt!

Forstjóri Landsvirkjunar hefur farið mikinn í fjölmiðlum að undanförnu og haldið því fram að verð á orku til stóriðju sé sambærilegt hér á landi og í Evrópu. Fyrir það fyrsta fer hann þar með rangt mál, orkan hér er dýrari og sýnt hefur verið fram á það. Í öðru lagi er staðsetning okkar lands með þeim hætti að jafnvel þó orkuverð hér væri sambærilegt við Evrópu þá dugir það ekki til. Það hefur alla tíð verið vitað að hér þarf það að vera ívið lægra vegna legu landsins.

Menn geta haft mismunandi skoðun á stóriðjunni en það breytir ekki þeirri staðreynd að hún er ein af grunnstoðum okkar þjóðfélags. Skapar hér mikla vinnu, bæði beint og óbeint, skapar hér gjaldeyri sem okkur er nauðsynlegur og er undirstaða þess að hér var hægt að byggja upp og reka orkukerfi öllum landsmönnum til hagsbóta. Þessum staðreyndum verður ekki breytt, hvað svo sem menn segja. Ekki er hægt að sækja meira í sjávarútveginn, hann er fullnýttur og ferðaþjónustan er fallvölt og viðkvæm. Gætum allt eins verið að sjá þar tímabundið hrun á þessu ári, vegna mannskæðrar veiru frá Kína.

Stjórnvöld verða því að grípa inní strax. Kjarkleysið sem einkennt hefur stjórnmálamenn er ekki lengur í boði!!


mbl.is Rio Tinto meinar undirskrift nýs kjarasamnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband