Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Að sníða sér stakk eftir vexti

Fjölmiðlar, þeir sem enn lifa, gera miklar fréttir af falli Fréttablaðsins, Vissulega nokkur frétt en fjarri því að vera einhver ógn við land og þjóð. Reyndar er nokkur aðdragandi að þessu falli og ætti ekki að koma nokkrum á óvart. Eftir að hætt var að bera blaðið í hús, að húseigendum forspurðum og lesendur hvattir til að sækja sér blaðið á næsta "safnstað", sem gjarnan voru matvöruverslanir, var ljóst að í vandræði stefndi. Þá kom einnig í ljós hversu raunverulegur lestur blaðsins var lítill.

Formaður Blaðamannafélagsins tók stórt til orða í viðtali í sjónvarpi. Taldi þetta ógnun við "frjálsri" blaðaútgáfu og sagði einnig að "sumum stjórnmálamönnum þætti stafa ógn af frjálsri blaðamennsku". Síðar ummælin eru auðvitað ekki svaraverð, svo fráleit sem þau eru, jafnvel þó öflug atlaga hefði verið gerð að ráðherra í fréttum stöðvar 2 um það efni. Hitt er hins vegar nokkuð umhugsunarvert, þetta með frjálsu blaðamennskuna.

Enginn fjölmiðill á Íslandi er frjáls. Þeir eru allir há pólitískir, hver á sinn veg. Mest fer fyrir þeim fjölmiðlum er teljast til vinstri í pólitík og þar beitt hinum ýmsu ráðum við fréttaflutning. Saklausir menn jafnvel gerðir sekir til að svala þrá fréttamann eftir lestri. Svo mikið vald hafa þessir miðlar að það er farið að lita almenna umræðu í landinu og jafnvel svo að þeir sem ekki eru á sama máli láta frekar kjurt liggja en að tjá sig. Þá er útilokað að tala um frjálsa fjölmiðla sem er reknir fyrir styrki af almannafé.

Þegar fyrirtæki fer á hausinn stafar það auðvitað af því að tekjur duga ekki fyrir kostnaði. Þegar svo er komið að flestir eða allir fjölmiðlar eru komnir á vonarvöl, jafnvel þó vel sé til þeirra skaffað af almannafé, hlýtur eitthvað að vera að í kostnaðarhliðinni í íslenskri fjölmiðlun. Þegar tekjur lækka, þarf að lækka kostnað á móti. Annað leiðir til glötunar..

Fjöldi fjölmiðla segir ekki til um frelsi þeirra, þó auðvitað ekki megi færa allan fréttaflutning á einn stað. Reyndar er það svo að í dag eru fjölmiðlar sífellt að leita frétta af kollegum sínum, apa fréttir upp hver af öðrum. Fagleg fréttamennska er fátíð. Hins vegar hafa þessir miðlar verið notaðir í pólitískum tilgangi, eins og áður segir.

Auglýsingartekjur hafa nokkuð komið til umræðu í sambandi við þessar fréttir. Þar er gagnrýnt að ruv skuli vera á auglýsingamarkaði og sú gagnrýni svo sem skiljanleg, enda tekjur stofnunarinnar úr mörkuðum skatttekjum nægar til að reka hana, þ.e. ef menn sníða sér stakk eftir vexti. Einnig hefur verið nefnt að erlend stórfyrirtæki séu orðin umsvifamikil á auglýsingamarkaði og séu að "stela" auglýsingum frá fjölmiðlum.

Almennt séð eru auglýsingar stórlega ofmetnar. Fáir fara eftir auglýsingum, leita sér freka upplýsinga eftir öðrum leiðum. Þegar flett er blaði eða lesinn miðill á netinu, er fljótt flett yfir auglýsingarnar. Öllu verra er að forðast þær á ljósvakamiðlum, en gerlegt ef vilji er til. Einna undraverðast er þó þegar íslensk fyrirtæki taka upp á að auglýsa á erlendu vefmiðlum. Slíkar auglýsingar skila akkúrat engu.

Meginmálið er þó það að fjölmiðlar hér á landi eru kannski ekki of margir, heldur hitt að þeir telja sig stærri en þeir raunverulega eru. Þeir þurfa að sniða sér stakk eftir vexti. Í sjálfu sér er ekkert að því þó pólitísk öfl styrki fjölmiðla og komi þar sínum málum á framfæri. Það á þó ekki að fela undir merkjum frelsi fjölmiðla. Að ætla að auka enn frekar á styrki til fjölmiðla úr sameiginlegum sjóðum okkar, sem eru ekki sérlega beisknir í dag, er aftur eins vitlaust og frekast getur talist. Hugsanlega mætti þó nota það fé sem hver skattskyldur einstaklingur greiðir sem nefskatt til fjölmiðlunar og skipta þeim peningum á annan veg en nú. Að tekið sé eitthvað af fé ruv og því deilt á aðra fjölmiðla. Hvernig slík skipting getur átt sér stað, svo allir séu sáttir, átta ég mig ekki á. Kannski einfaldast að skattgreiðandinn velji sjálfur einhvern eða einhverja fjölmiðla á skattframtali sínu.

 


mbl.is Áhyggjur af yfirvofandi gjaldþroti Torgs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt stykki fjall: 150 milljónir. Takk

Enn er landið okkar selt úr landi. Hvenær kemur að því að erlendir auðmenn eiga allt landið okkar?

Bærinn Horn í Skorradal hefur verið seldur erlendum auðjöfri á eitthundrað og fimmtíu milljónir króna. Hæsti tindur Skarðsheiðar og eitt fegursta fjallið í þeim fjallgarði, Skessuhorn, tilheyrir jörðinni Horni og því komið í eigu erlends auðjöfurs. Verðmiðinn er ekki hár, a.m.k. ekki miðað við þær framkvæmdir sem þessi erlendi aðili hyggst gera á hinni íslensku jörð sinni. Hyggst byggja þar smá sumarhús, 1000 fermetra. Það er auðvitað svo lítið að vart er hægt að hýsa þar gesti, svo hann hyggst einnig byggja 700 fermetra gestakofa. Minna má það auðvitað ekki vera.

Fyrir nokkru var sett bann á sölu á landi til erlends auðjöfurs. Ástæðan var að hann var kínverskur og því ekki innan EES/ESB samningsins, en eins og allir vita þá afsöluðum við sjálfstæði okkar yfir landinu til þjóða EES/ESB við undirritun þess samnings. Aðrir íbúar heimsbyggðarinnar eru ekki gjaldgengir hér á landi, nema auðvitað þeir séu alveg ofboðslega ríkir! Svo virðist vera með þennan nýríka Ameríkana.

Breskur lávarður náði að eignast nokkuð stórann hlut af Íslandi, meðan Bretland var enn undir ESB. Nú þykja Bretar ekki gjaldgengir til landakaupa hér, nema auðvitað þeir séu ofboðslega ríkir. Þar kemur BREXIT þeim í koll.

Fleiri dæmi um landakaup erlendra aðila hér á landi má nefna, bæði manna innan og utan EES/ESB. Sumir kaupa hér land í þeim tilgangi að flytja það beinlínis yfir hafið, bæði sanda og fjöll. Einungis þeim kínverska var hafnað. Auðvitað var það hrein mismunun og skal setja þá út af sakramentinu sem að þeirri aðför að austurlenskri menningu stóðu.

Og svo eru það allir hinir, frakkarnir, norðmennirnir og aðrir þeir sem vilja bæði kaupa hér lönd en einnig leigja, undir vindtúrbínur af stærstu gerð. Þeir eru flestir innan EES/ESB þannig að þeir þurfa ekki að óttast neinar kvaðir og þurfa ekki einu sinni að eiga neina peninga. Þar nægir fagurgalinn og snákaolían. Það eina sem enn stendur í vegi þeirra er íslenskt regluverk eða skortur á því. En fjármálaráðherra er búinn að gefa út að því verði kippt í liðinn, hið snarasta. Að allar reglur og öll lög sem standa í vegi þeirra verði löguð til og ef einhver lög eða reglur vantar verður það einnig lagað. Ekkert má standa í vegi fyrir því að erlendir aðilar nái að græða hér á landi. Það gætu nefnilega fallið einhverjir molar af borði þeirra, í "réttar" hendur.

Fulltrúar okkar á Alþingi, þessir sem við kjósum til að stýra hér landi og þjóð og þiggja laun sín úr okkar vösum, virðast allir sammála um að einhver bönd þurfi að setja á kaup erlendra auðjöfra á landinu okkar. En jafnvel þó samstaðan sé um nauðsyn þessa, virðist sama samstaðan ríkja um að gera ekki neitt í málinu. Horfa bara á landið okkar hverfa undir yfirráð erlendra auðjöfra eða jafnvel horfa á það flutt í skip og yfir hafið!

Aumingjaskapur þingmanna er algjör. Meðan þetta stendur yfir er rifist á Alþingi um dægurmál facebook og tvitter. Þar eru allir á kafi í smámálunum en þora ekki að taka á því sem skiptir máli. Þora ekki að standa vörð um land og þjóð. Það er spurning hvenær landið missir að endanlega sjálfstæði sitt, hvenær Alþingi verði sett af og landinu stjórnað alfarið af erlendum auðjöfrum.

Að Ísland  verði nýlenda erlendra auðjöfra!

 

 

 


Snilldar viðskiptamódel Landsvirkjunnar

Margir hafa undrast þá ráðstöfun að hægt sé að selja upprunavottorð (aflátsbréf) fyrir raforku til annarra landa, jafnvel þó engin tenging sé þar á milli. Að orka sem framleidd er í einu landi sé sögð nýtt í öðru, án tenginga þar á milli. Þetta er náttúrulega svo út úr kú að engu tali tekur. Af þessum sökum er framleidd orka, samkvæmt pappírum, með bæði kolum og kjarnorku, hér á landi. Þó eru slík orkuver ekki til og ekki stendur til að reisa þau. Hvernig þessi ósköp koma fram í loftlagsbókhaldi Íslands hefur ekki komið fram, en vart er hægt að nota þessa hreinu orku okkar mörgum sinnum.

Til þessa hafa þessi aflátsbréf orkuframleiðenda verið valkvæð. En nú skal breyta því. Landsvirkjun, fyrirtæki okkar landsmanna, hefur ákveðið að allir notendur raforku frá þeim skuli kaupa aflátsbréf, hvort sem þeir vilja eða ekki. Þetta mun hækka orkuverð til notenda um allt að 20% á einu bretti. Fyrir hinn almenna borgara gerir þessi ráðstöfun ekkert annað en að hækka orkureikninginn, enda markmiðið það eitt, af hálfu orkuframleiðenda.

En skoðum aðeins málið., Nú þegar selur Landsvirkjun aflátsbréf fyrir 61% af sinni orkuframleiðslu, að megninu til til erlendra fyrirtækja. Eftir stendur að fyrirtækið er að framleiða 39% af sinni orku sem hreina orku. Hitt er framleitt með jarðefnaeldsneyti eða kjarnorku hér á landi, eða þannig. 

Sem sagt, Landsvirkjun hefur til umráða 39% af sinni orku sem hrein orka. Samt ætla þeir að rukka alla notendur sína um aflátsbréfin góðu. Það segir að fyrir stóran hluta af sinni framleiðslu ætlar fyrirtækið okkar að selja aflátsbréfin tvisvar, fyrst til erlendra kaupenda og síðan til eigenda sinna.

Er hægt að finna meiri snilld í viðskiptum?

Hvar er Alþingi nú? Hvers vegna er þetta mál ekki rætt þar? Eru þingmenn svo uppteknir við að leita sér málefna á facebook, til að ræða í sal Alþingi? Er þeim algerlega fyrirmunað að greina hismið frá kjarnanum?


Tommustokkur Seðlabankans

Nýjasta útspil Seðlabankans er sem bensín á eld komandi kjarabaráttu. Hækkun stýrivaxta kemur launafólki verst, en bankarnir fitna enn meira. Það er fátt sem skerðir laun hins almenna borgara meira en hækkun stýrivaxta.

Verðbólga hér á landi er ekki svo há, ekki ef notaður er sami tommustokkur og löndin sem við viljum bera okkur samanvið nota. Mælt með þeim tommustokk er verðbólga á Íslandi ekki nema 6,4%, eða sú næst lægsta í gjörvallri Evrópu, einungis Sviss með lægri verðbólgu. Meðal verðbólga ríkja ESB, mælt með þessum sama tommustokk, er 9,8%. Hins vegar er til önnur verðbólgumæling hér á landi, aðferð sem hvergi annarstaðar þekkist. Samkvæmt henni mælist verðbólga hér 9,9%, eða 3,5% hærri en raunveruleg verðbólga og 0,01% hærri en meðaltalsverðbólga ESB ríkja. Ástæða þessarar aðferðar, til verðbólgumælingar hér á landi, er að til langs tíma voru nærri öll lán til húsnæðiskaupa tengd þessari mælingu. Nú hin síðari ár hefur fólk átt kost á óverðtryggðum lán til slíkra kaupa, en þá eru vextir gjarnan fljótandi, þ.e. fylgja breytingum á stýrivöxtum Seðlabankans. Þetta tryggir bankana og því ekki undarlegt að hagnaður þeirra sé ævintýralegur.

Nánast öll þessi 6,4% raunverðbólga sem er hér á landi skapast vegna hærri aðkaupa til landsins, sem eins og allir vita skapast af stríðinu í Úkraínu en þó mest vegna sjálfskipaðs orkuskorts í Evrópu, sökum rangrar orkustefnu ESB. Einhver smáhluti þessarar verðbólgu er sökum þess að fólk hefur verið að nota sparnað sinn til eigin nota. Hin 3,5% sem eru heimatilbúin í Svörtuloftum, koma til vegna skorts á íbúðahúsnæði.

Hækkun stýrivaxta mun því lítið gagnast til að lækka verðbólguna hjá okkur. Hærri vextir hér munu ekki slá á verð á vörum erlendis, hærri vextir hér hafa lítið að segja gegn því að fólk noti sinn sparnað til eigin not og kannski það mikilvægasta í þessu öllu, hærri vextir hér á landi munu ekki leiða til þess að stórkostlegur skortur á húsnæði leysist.

En bankarnir fitna sem aldrei fyrr og launafólkinu blæðir. Það er stutt í að við förum að heyra sögur af fólki sem borið er út á götu, í boði bankanna. Sömu sögur og þær sem voru svo átakanlegar í kjölfar Hrunsins.

 

Hvers vegna í ósköpunum má ekki nota sömu mælistiku á verðbólguna hér á landi og notuð er allstaðar annarsstaðar. Af hverju þarf að búa til einhvern sér íslenskan mælistokk til þessarar mælingar!


mbl.is Hvers virði eiga krónurnar að vera?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk nálykt

Nú hefur Skipulagsstofnun og ráðherra innanríkismála staðfest breytingu á skipulagi lands, svo byggja megi vindorkuver hér á landi. Þetta er fyrsta alvöru breytingin sem á sér stað hér á landi, þar sem um er að ræða risa vindmillur. Áður hafa verið reistar tvær smá vindmillur á svokölluðu Hafi, norðan Búrfellsvirkjunar og tvær minni við Þykkvabæ, sem ekki hafa verið starfandi um nokkuð skeið. Einstaka enn minni vindmillur hafa síðan einstaklingar reyst í sínu landi, sem flestar eru orðnar óstarfhæfar.

Það er því um að ræða stóran atburð fyrir land og þjóð, þegar Skipulagsstofnun og innviðaráðherra samþykkja breytta notkun land, til hjálpar erlendum aðilum að koma hér upp risa vindmillum. Enn ljótari atburður er þetta þegar ljóst er að ráðherra í ríkisstjórninni á þarna mikilla hagsmuna að gæta. Um er að ræða jarðirnar Hróðnýjarstaði, rétt við Búðardal og Sólheima vestast í Laxárdalsheiði. En það er einmitt jörðin Sólheimar sem tengist sterkum böndum inn í ríkisstjórnina. Ásmundur Einar Daðason, barnamálaráðherra og ein stærsta stjarna Framsóknarflokks, er einmitt eigandi þeirrar jarðar. Reyndar, svo alt sé nú satt og rétt, þá er jörðin skráð á eiginkonu Ásmundar og föður hans, en sjálfur ráðherrann skrifaði undir kaupsamninginn í þeirra umboði.

Sveitarstjórn Dalabyggðar sótti stíft eftir samþykki á breyttu skipulagi þessara jarða, þrátt fyrir mikla andstöðu heimamanna. Þegar ljóst var að ráðherra gæti ekki í fyrstu staðfest breytinguna, eftir að Skipulagsstofnun hafnaði henni, var farin bakleið að breytingunni. Lítilsháttar breyting á orðalagi dugði til að Skipulagsstofnun varð að breyta afstöðu sinni og ráðherra innviðamála, sem reyndar er einnig ráðherra og formaður Framsóknar, var fljótur til að staðfesta samþykkið.

Bæði munu þessi vindorkuver hafa mikil áhrif, þar sem þau koma. Hróðnýjarstaðir eru mitt í vaxandi ferðamannaparadís Dalanna, auk þess sem sumar bestu laxveiðiár landsins eru þar nálægt. Sjónmengun, hávaðamengun og ekki síst örplastmengun, mun verða mikil í nágrenni vindorkuvera. Þetta leiðir til þess að fasteignaverð mun lækka verulega á svæðinu, ferðaþjónusta er í voða og óvíst að menn kæri sig um að veiða í laxveiðiám sem eru svo að segja undir risa vindmillum.

Enn verra er þetta varðandi fyrirhugað vindorkuver að Sólheimum, landi ráðherrans. Þar er ætlunin að reisa risa vindmillur upp á háheiðinni, rétt við austurmörk jarðarinnar. Hinu megin þeirra marka er annað sveitarfélag og íbúar þess því ekki taldir aðilar að málinu! Þar er verið að breyta landnotkun sem mun klárlega hafa áhrif á eignir þessa fólks, án þess að það sé spurt um málið eða fái að koma að ákvörðun þess á einn eða annan hátt. Yfirgangur ráðherrans er því algjör og lítilsvirðing við íbúa nágerannasveitarfélagsins.

Þess má svo geta að báðar þessar jarðir eru á svæði hafarna. Allir vita áhrif vindmilla á fugla, sér í lagi stærri fugla. Erlendis er þetta þekkt vandamál, þó vindmillur þar séu í flestum tilfellum mun minni en þær risa vindmillur er til stendur að reisa að Hróðnýjarstöðum og Sólheimum í Dölum. Svo virðist sem ekkert tillit sé tekið til verndunar hafarna, eða annarra fugla, s.s. álfta, gæsa og rjúpu, er halda sig mikið á Laxárdalsheiðinni.

Ekki ætla ég að fjölyrða um sjálft vindorkuverið og þá skelfingu sem því fylgir. Hef áður ritað mörg blogg, bæði um þetta viðkomandi vindorkuver, sem og önnur.

Þessi breyting á landnotkun, sem ráðherra samþykkir, er tímamót á Íslandi. Línan hefur verið lögð og erlendum vindbarónum er hér með hleypt inn í landið, til að framleiða orku. Orku sem ekki er sjáanleg not fyrir vegna kostnaðar við framleiðsluna.  Vindorkusinnar halda því fram að mikil þróun hafi orðið í framleiðslu á vindmillum, þannig að kostnaður hafi farið lækkandi. Vissulega má taka undir það, en sú þróun hefur öll verið á einn veg, að stækka vindmillurnar. Gera þannig vandamálið enn stærra en áður var. Og þrátt fyrir þessa "þróun" á vindmillum, er enn haf og himinn milli framleiðslukostnaðar á raforku með vindi versus vatni eða gufu. Rýr rekstratími miðað við vatns/gufu virkjanir, stuttur endingatími miðað við vatns virkjanir og hár byggingakostnaður eru þar aðal orsök. Með þessar staðreyndir er farið í reiknileikfimi, til að réttlæta arðsemi vindaflsins, en til að raunverulegur ávinningur fáist af vindaflinu þarf orkuverð hér á landi að hækka verulega.

Ásmundur Einar er ein stærsta stjarna Framsóknar í dag. Hvað veldur er erfitt að segja, hugsanlega þó frægt viðtal í fjölmiðlum, skömmu fyrir síðustu kosningar. Honum tókst að vinna hug og hjörtu höfuðborgarbúa og ná fylgi Framsóknar þar vel upp, í síðustu Alþingiskosningum. Segja má að hann hafi farið með himinskautum undanfarin misseri. En þeir sem hátt fljúga eiga á hættu langt fall.

Erlendis þætti ekki góð pólitík að formaður og ráðherra stjórnmálaflokks hjálpaði öðrum samflokksfélaga og ráðherra við gróðabrask, sér í lagi ef það væri gert til að koma viðkvæmri innlendri grunnþjónustu undir erlenda aðila. Hér á landi telst slík ósvinna ekki til tíðinda!

 


Bankarán og pólitískt nef

Í skjóli nætur var stór hluti eigna ríkisins í Íslandsbanka seldur. Hvernig staðið var að sölunni hefur verið gagnrýnt. Þar eru tvö atriði sem standa uppúr, verðlagningin á hlutabréfunum og val á kaupendum. Nú vilja sumir ráðherrar þvo hendur sínar af þessum gjörning. Vandséð er hvernig þeim mun takast sá þvottur. Ekki er hægt að sjá lagaleg rök fyrir því a' láta gjörninginn ganga til baka, enda sumir "fagfjárfestar" þegar búnir að leysa út sinn hagnað af kaupunum, með því að selja bréfin þriðja aðila.

Í fyrstu minnti þessi gjörningur bankasýslunnar nokkuð á árin fyrir hrun, en þegar fjármálaráðherra, í trássi við bankasýsluna, opinberaði kaupendahópinn rak mann bókstaflega í rogastans. Þarna voru samankomnir fyrrum bankaræningjar landsins, er settu landið bókstaflega á hausinn fyrir einum og hálfum áratug. Menn sem höfðu og hafa sjálfsagt enn, ítök í flesta stjórnmálaflokka landsins. Þar eru fáir undantaldir, þó almenningur vilji gjarnan spyrða Sjálfstæðisflokk við þessa menn. Þá má alveg minna á að einn helst andstæðingur þess flokks, til áratuga, var einn af afkastameiri bankaræningjum fyrir hrun og hans nafn poppar upp á þessum lista yfir kaupin nú.

En aftur að sjálfri sölunni. Þegar Alþingi samþykkti sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka voru leiðbeiningar þingsins vægast sagt litlar. Þó voru umræður nokkrar um málið, en á endanum var fjármálaráðherra nánast falið einræði um hvernig að þessu skyldi staðið. Nokkuð hefur vafist fyrir ráðherranum aðferðarfræðin, fyrst vegna þess að talið var of nærri kosningum til að framkvæma verkið, flokkur hans gæti misst atkvæði. Síðan eftir kosningar og BB var áfram fjármálaráðherra, fór hann að hreifa málinu. Strax kom í ljós að hvorki þingið né þjóðin var á því að selja strax. Ekkert lægi á auk þess sem ekki væri ljóst hvernig standa ætti að sölunni.

BB var þarna kominn í vanda. Mjög var legið á honum að koma málinu af stað, af þeim sem sáu sér þarna leik á borði. Þá var bankasýslan mjög áfjáð í að klára málið. Leikmaður veit auðvitað ekki hvað fram fer á fundum ríkisstjórnarinnar en ljóst er að þar var ekki eining um söluna, jafnvel þó hún hafi verið ítrekuð í stjórnarsáttmálanum. Því fóru að heyrast frá ráðherra ýmsar skýringar um hvernig standa skildi að þessari sölu. Í fyrsta lagi átti að bjóða hlutabréfin út, í öðru lagi var fallið frá dreifðri eignaraðild og velja skyldi svokallaða fagfjárfesta til kaupanna, fjárfesta sem væru að hugsa um kaupin til lengri tíma. 

Fjármálaráðherra tók síðan af skarið og fól bankasýslunni að hefja undirbúning sölunnar. Lítið heyrðist um tíma af málinu, en svo bárust óvæntar fregnir af því að salan hefði farið fram, á einni nóttu. Seldur hafði verið 22,5% af heildareign bankans og að verðið var 117 krónur á hlut, nokkuð undir markaðsverði. Strax þarna varð ljóst að eitthvað var ekki að ganga upp í þessu dæmi. Að hægt skuli vera að selja 22,5% í banka á einni nóttu er útaf fyrir sig ótrúlegt. Þá var einnig séð að um töluvert undirverð var að ræða. 

Upphófst nú mikil gagnrýni á söluna, réttilega. Ekki einungis að verðið væri undir markaðsverði, heldur reyndist útilokað að fá að vita hverjir kaupendur voru. Þegar svo BB ákvað að opinbera lista yfir kaupendur, í trássi við bankasýsluna, var eins og þyrmdi yfir mann. Þarna voru helstu aðalleikarar hrunsins komnir, ljóslifandi. Það fyrsta sem manni datt í hug hvað það væri sem skilgreindi fagfjárfesti frá öðrum fjárfestum. Er skilyrði að fjárfestir þurfi að svíkja, stela, vera dæmdur um fjársvik eða eitthvað í þeim dúr til að geta kallast fagfjárfestir? Eða er kannski bara nóg að vera "vinur" réttra aðila? Á listanum voru menn sem höfðu fengið dóma fyrir fjársvik og jafnvel voru þarna menn sem enn eru í meðferð dómstóla! 

Í viðtali við fjölmiðla hélt starfsmaður bankasýslunnar því fram að ekki hefði komið krafa frá ráðherra um að kanna hvort bjóðendur væru heiðarlegir, eða hvort þeir hefðu gerst brotlegir við lög. Hvers konar fáviska er þetta hjá manninum?! Í hvaða heimi býr slíkt fólk sem lætur þannig orð frá sér? Bankasýslunni er falið að selja eign landsmanna, upp á upphæð sem almenningur á erfitt með að setja í samhengi og stofnunin telur sig ekki þurfa að kanna bakgrunn kaupenda! 

Öll atburðarás þessarar sölu er hrein skelfing. Þetta er í þriðja sinn sem ríkið selur banka sína og klárlega sú allra skelfilegust, sér í lagi vegna þess að við höfum söguna til að leiðbeina okkur. 

Ef við greinum þetta örlítið, út frá því sem ráðherra sagði fyrir söluna. Hlutur ríkisins er boðin út. Þegar eitthvað er boðið út mætti ætla að tilvonandi kaupendur bjóði í hlutinn og sá sem hæst býður hljóti hnossið, svo fremi hann uppfylli kröfur til kaupenda. Þarna ákveður hins vegar seljandi verðið fyrirfram og að auki setur það lægra en markaðsvirði. Þetta er því ekki útboð heldur bein sala. Í öðru lagi talaði ráðherra um að valdir yrðu fagfjárfestar, að það myndi tryggja langa eigu þeirra í bankanum. Þegar listinn var opinberaður kom hins vegar í ljós að yfir 40% sölunnar féll til einkafjárfesta. Lífeyrissjóðir, verðbréfasjóðir og erlendir langtímasjóðir, allt sjóðir sem reikna má með að séu að fjárfestar til lengri tíma, fengu einungis tæp 60%. Síðan hefur komið í ljós að innan þess hóps sem kallast erlendir langtímasjóðir, eru bara alls ekki neinir langtímasjóðir, heldir sjóðir sem spila spákaupmennsku frá degi til dags. Því má ætla að langtímafjárfestar í þessu útboði séu mun færri en ætlað er, jafnvel undir 50%. Þá hefur einnig komið í ljós að margir þeirra einkafjárfesta er kauptu í bankanum hafa þegar tekið út sinn hagnað af sölunni. 

Það sem þó kemur mest á óvart varðandi þessa sölu í bankanum, er hversu pólitískt nef fjárnálaráðherra er gjörsamlega kol stíflað. Það hefur legið fyrir lengi að lítil sátt er um sölu á eignum ríkisins í bönkunum. Þar kennir sagan okkur. Því var sölunni frestað á síðasta kjörtímabili, taldist of skammt til kosninga til að offra þannig atkvæðaveiðum. Nú eru einungis örfáar vikur til næstu kosninga. BB hefði mátt vita að salan yrði gagnrýnd, jafnvel þó sú skelfing sem nú blasir við hefði ekki orðið. Því er með ólíkindum að hann skuli færa vinstriöflunum þetta beitta vopn, skömmu fyrir borgarstjórnarkosningar. Dagur hlýtur að kætast.

Það er ljóst að Íslandsbanka var rænt. Þar ber bankasýslan auðvitað stærstu ábyrgð. Framkvæmdin var þeirra og fjarri því sem um var rætt af yfirmanni þeirra, fjármálaráðherra. Auk þess sem bankasýslan hleypir inn í söluna dæmdum fjárglæframönnum, jafnvel mönnum sem enn eru í meðferð dómstóla. Fjármálaráðherra ber einnig mikla ábyrgð. Hann stóð ekki vaktina fyrir þjóðina, eins og honum ber. Hann virðist ekki hafa farið yfir málið áður en hann gaf bankasýslunni vald til að rita undir söluna. Reyndar vandséð að ráðherra hafi heimild til að útdeila slíku valdi til embættismanna. Ráðherra hlýtur að þurfa að rita eigin hendi undir sölu eigna ríkisins upp á tugi milljarða króna. 

Aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar bera sömu ábyrgð og fjárnálaráðherra. Þeir geta gasprað, en ábyrgðina bera þeir.

Það er gott að vera bara fávís kjósandi. Að þurfa enga ábyrgð að bera á því að sumum sé hyglað -- nema auðvitað að borga fyrir herlegheitin! 

 


mbl.is Óeining í ríkisstjórn um bankasölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skvetta bensíni á eld

Það er þekkt aðferð erlendis að hækka stýrivexti þegar verðbólga lætur á sér kræla. Þetta er sögð vísindi og sjálfsagt má það rétt vera. Hér á landi virkar þetta hins vegar á þver öfugan hátt og má þar kenna tvennum sér íslenskum þáttum um, annars vegar að húsnæðisliður er hér mældur til verðbólgu og hitt að stór hluti húsnæðislána er verðtryggður. Þá eru óverðtryggð lán til húsnæðiskaupa í flestum tilfellum með fljótandi vöxtum.

Þetta leiðir til þess að þegar stýrivextir hækka þá hækka húsnæðislán, sem aftur hækkar húsnæðislið í vísitöluútreikningi, sem enn aftur hækkar verðbólgu. Hringekjan fer af stað. Bankarnir auka enn frekar hagnað sinn, án nokkurra forsendna en alfarið á kostnað fjölskyldna í landinu, sem svelta meir en áður. Jafnvel lenda á götunni.

Það dynja á okkur erlendar hækkanir, hækkanir sem við ráðum engu um en eru fyrst og fremst til komnar vegna manngerðra hörmunga, þ.e. manngerðum orkuskorti. Ekkert hér innanlands er orsök þessarar verðbólgu og því með ósköpum að seðlabankinn ætli að vera leiðandi á því sviði. Reyndar ekki bara leiðandi, heldur kemur með lausnir sem beinlínis neyða fyrirtæki til að hækka sínar innlendu vörur.

Byrjum á að mæla verðbólgu með sama hætti og lönd þau er við viljum miða okkur við, að taka húsnæðisliðinn út. Næst skulum við banna verðtryggð lán. Þá má skoða hvort hækkun stýrivaxta skuli notuð gegn verðbólguskotum. Til að nota erlendar aðferðir gegn verðbólgu, verðum við að nota erlendar aðferðir við mælingu hennar og erlendar aðferðir við fjármögnun húsnæðis. Annað er með öllu ófært!

Þessi aðgerð peningastefnunefndar Seðlabankans er eins og að skvetta bensíni á eld. Minnir á hvernig peningamálum landsins var stjórnað fyrir hrun!

 

 


mbl.is Hækka stýrivexti um 0,75 prósentur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

" Er ekki bara best að selja þetta"

Það hefur ótrúlega lítil umræða átt sér stað um nýjustu vendingar Íslandspósts. Einhvern veginn eins og enginn þori.

Íslandspóstur hefur gefið út nýja verðskrá, þar sem hækkanir eru allt að 102% fyrir veitta þjónustu. Meðaltalshækkun eitthvað minni. Þegar þessi verðskrá var tilkynnt var því haldið fram að fyrirtækinu væri skylt að láta verðskrá sína endurspegla kostnað við þjónustuna. Þetta er svo sem gott og gilt, en aðferðafræðin sem notuð var er hins vegar galin.

Það liggur auðvitað fyrir að ódýrast er að bera út póst næst flokkunarstöð Íslandspóst, enda fer allur póstur þar í gegn, hvaðan sem er á landinu. Bréf sem sent er milli húsa á Ísafirði þarf að eiga viðkomu í þessari flokkunarstöð fyrirtækisins í Reykjavík. Það er væntanlega af því að þessi flokkunarstöð var dýr í uppsetningu, er reyndar nokkuð fullkomin og getur sinnt margfalt stærri markaði en til er hér á landi, en dýr framkvæmd. Því var sú regla sett hjá póstinum að öll flokkun á pósti skuli fara fram í Reykjavík. Það þarf jú að nýta fjárfestinguna, sem stór spurning er hvort var nauðsynleg.

Í nýju verðskránni er landinu skipt upp í fjögur svæði, hvert með sinni verðskrá. Höfuðborgarsvæðið, í þrengsta skilningi þess orðs, er á svæði eitt. Svæði tvö tekur yfir flesta stærri kaupstaði á landinu, svæði þrjú yfir minni kaupstaði og einstaka þorp. Svæði fjögur nær síðan yfir allt annað, þ.e. sveitir landsins og sum minni þorp. Ekki verður séð hvaða skilgreiningu pósturinn notast við þegar þorp eru valin, hvort þau falli undir svæði þrjú eða fjögur, einna hellst að sjá að þar ráði hendingin ein.

Þessi skilgreining getur ekki og mun ekki geta endurspeglað kostnað við póstburðinn. Það er t.d. vandséð að hægt sé að rökstyðja það að ódýrara sé að senda pakka frá Reykjavík til Ísafjarðar eða Egilstað, en að senda sama pakka á sveitabæ á Kjalarnesi. Að kostnaðarmunur þar á milli sé nærri 65%, Kjalarnesinu í óhag. Þannig mætti lengi bera saman ruglið í þessari verðskrá Íslandspósts, en megin málið er að fjarri er að hægt sé að halda því fram að hún endurspegli á einhvern hátt kostnað við þjónustuna. Þarna fer fyrirtækið af stað með dulbúna ástæðu til að stór hækka þjónustu sína, auk þess sem dregið er úr henni. Til dæmis ekki lengur bornir út pakkar á það svæði sem skilgreint er sem svæði fjögur, fólk verður að sækja þá á næstu póststöð. Þetta hvoru tveggja bitnar mest á landsbyggðinni, eins og svo gjarnan.

Hafi Alþingi sett lög um að gjaldskrá póstsins skuli taka mið af kostnaði við póstburð, átti einfaldlega að reikna landið sem eina heild og leggja flata hækkun á allt landið. Alþingi og fulltrúar okkar þar, hafa verið gjarnir á að tala um að bæta þurfi aðstöðumun landsbyggðarinnar. Því getur vart verið að sett hafi verið lög um að auka misréttið á þessu sviði.

Annað mál, sem reyndar var heldur meira rætt í fjölmiðlum, var salan á Mílu úr landi. Kaupandinn, franskur fjárfestingasjóður, hefur sagt að ekki sé ætlunin að hlera búnað Mílu, að ekki muni koma til verðhækkana á þjónustu fyrirtækisins og jafnvel að innspýting verði í þjónustu þess. Ja, mikið andskoti er Míla öflugt fyrirtæki, ég segi ekki annað. Ef hægt er að leggja fram yfir 70 þúsund milljónir til kaupa á því, halda gjaldskránni niðri og auka þjónustuna, hlýtur þetta fyrirtæki að vera hrein gullkú. Þegar fjárfestingasjóður, sem að eðli sínu er stofnaður til þess eins að ávaxta fé sitt og ekkert annað, getur lofað slíku, er ljóst að stór mistök voru að selja fyrirtækið.

Sá ráðherra sem með þessa málaflokka fer, póstburð og fjarskipti, er formaður Framsóknarflokks, að hans sögn eina "samvinnuflokks" landsins. Það er nokkuð langt frá því að samvinnuhugsjónin ráði þarna gerðum, hvort heldur er gjaldskrá Íslandspósts eða salan á Mílu. Þó leggur þessi ráðherra blessun sína yfir þessar gerðir og brosir bara!

Það er spurning hvort slagorð Framsóknar fyrir síðustu kosningar, "Er ekki bara best að kjósa Framsókn" hefði ekki átt að vera "Er ekki bara best að selja þetta".

Fyrir ekki margt löngu voru bæði póstsamgöngur og fjarskipti talin til grunnþjónustu landsins og þannig er það víðast um heim. Einungis ESB hefur skilgreint þetta sem vöru og vara skal vera sett á markað. Gegnum EES samninginn erum við föst í vef ESB og ráðum lítt hvernig hlutir hér á landi eru skilgreindir. Ef ESB segir að eitthvað sé vara, þá verður Alþingi okkar að breyta lögum til samræmis við það. Það styttist í að menntamál og heilbrigðismál og reyndar allt sem nöfn ná yfir, verður skilgreint sem vara innan ESB. Að eini málaflokkurinn sem teljist til grunnþjónustu verði hinn nýi Evrópuher.

 


Síminn ekki hleraður

Sameiginlegir sjóðir landsmanna er notaðir til að byggja upp innviðakerfi landsmanna. Síðan eru ýmsir hlutar þess selt sérvöldum aðilum, án þess að eitthvað samhengi sé milli þess verðs sem þeir greiða fyrir þá og þess kostnaðar er landsmenn lögðu til þeirrar uppbyggingar. Þér sérvöldu hafa síðan á sínu valdi þessa innviði og geta gert það sem þeim sýnist við þá, án allrar ábyrgðar. Til dæmis selt þá úr landi ef þeir sjá af því góðan hagnað.

Uppbygging ljósleiðarakerfisins um allt land var þarft verkefni, fjármagnað af ríkinu. Til þeirrar fjármögnunar var málaflokkurinn settur undir þann lið á fjárlögum er fer með samgöngur, að mestu fjármagnaður af vegafé. Því er ljóst að þessi þarfa uppbygging svelti á meðan viðhald vegakerfisins. Nú nýtur franskur fjárfestingasjóður, voru eitt sinn kallaðir hrægammasjóðir, góðs af lélegu vegakerfi á landsbyggðinni. Landsmenn sitja eftir með sárt enni, meðan Síminn telur sína milljarða. 

Innviðir þjóða eru ekki oft settir á markað braskara. Þegar slíkt gerist upphefst alltaf heljarinnar brask með þá, þar sem hluturinn gengur kaupum og sölum uns blaðran springur. Eðli málsins samkvæmt eru innviðir þjóða yfirleitt engum verðmæti nema viðkomandi þjóð. Fyrir aðra eru slík verðmæti einungis froða, til þess eins að græða á meðan einhver lætur blekkjast. 

Hvernig á því stóð að Síminn eignaðist Mílu veit ég ekki. Síminn var seldur á sínum tíma vegna krafna ees samningsins um aðskilnað sölu og dreifinu símakerfisins. Að Síminn, sölukerfið, skuli komist yfir Mílu, dreifikerfið, hlýtur því að vera brot á ees samningnum. 

Hvað um það, nauðsynlegir innviðir sem byggðir eru upp af sameiginlegum sjóðum landsmanna, eiga að vera í þeirra eigu. Annað verður ekki við unað. 

Forsvarsmenn Símans telja sig hafa fengið loforð þessa erlenda fjárfestis um að þeir muni ekki hlera strengina. Það er minnsti vandinn, enda Ísland smátt á alþjóðavettvangi og lítil verðmæti í því sem við segjum. Þá er ljóst að slík loforð frá fjárfestingasjóð eru haldlítil, auk þess sem litlar líkur eru á að þessi sjóður verði lengi eigandi að Mílu. Þessi kaup sjóðsins eru á nákvæmlega sama grunni og öll kaup fjárfestingasjóða, til þess eins að græða á þeim. Um það snýst verkefni fjárfestingasjóða, að ávaxta sitt fé. Þeirra verkefni er ekki að standa vörð samfélagsins, allra síst í öðrum löndum.

 


mbl.is Hefur áhyggjur af innviðum Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klærnar viðraðar

Framkvæmdastjórn ESB viðraði klærnar aðeins í morgun, þegar sett var bann á útflutningi bóluefnis gegn covid til Íslands og reyndar fleiri landa. Eftir bréfaskriftir forsætisráðherra til forseta framkvæmdastjórnarinnar, varð að niðurstöðu að ESB ætli að standa við gerðan samning um bóluefnasendingar til Íslands, a.m.k. samkvæmt þeirri dreifingaráætlun sem í gildi er. Hvað svo veit enginn.

Framkvæmdastjórn ESB og þá einkum forseti hennar, hefur farið mikinn síðustu daga. Hótanir flæða í allar áttir og krafa um að staðið sé við gerða samninga gagnvart ESB. Undarleg er þó þessi barátta framkvæmdarstjórnarinnar, þegar hún telur réttlætanlegt á sama tíma að brjóta samninga við aðrar þjóðir.

Harka framkvæmdastjórnarinnar er komin á nýtt stig, hættulegt stig. Auðvita vita allir að ESB er ekki klúbbur góðgerðasamtaka. Þessi klúbbur var fyrst stofnaður um viðskipti, hörð viðskipti. Seinna þróaðist hann yfir í einskonar ríkjasamband og leynt og ljóst er verið að skerða völd aðildarríkja í þeim eina tilgangi að klára það verk sem Hitler mistókst, að setja alla Evrópu undir eina stjórn. Síðastliðin ár hefur þessi árátta smitast út fyrir sjálft sambandið og höfum við hér upp á Íslandi ekki farið varhluta af því, vegna aðildar okkar að EES samningnum. Samningi sem Alþingi samþykkti fyrir um þrem áratugum síðan, með minnsta mögulega meirihluta þingmanna og algerlega án aðkomu þjóðarinnar.

Í krafti þess samnings var gert samkomulag við ESB um dreifingu á bóluefni hingað til lands. En sem fyrr, horfir framkvæmdastjórnin öðrum augum til EES samningsins en til var stofnað í upphafi, enda var ESB ekki til þá, heldur var þessi klúbbur nokkurra Evrópuríkja einungis bandalag um viðskipti. Kallaðist Evrópubandalagið.

En sem fyrr segir, þá viðraði framkvæmdastjórn ESB klærnar, þó þær hefðu verið dregnar inn til hálfs gagnvart Íslandi, eftir alvarlegar athugasemdir forsætisráðherra. Gagnvart ýmsum öðrum löndum eru klærnar þó enn úti og tilbúnar í slaginn. Ef eitthvað stefnir heimsfriðinum í voða, er það framkvæmdastjórn ESB og þar fremst í flokki Ursula von der Leyen.  Heimurinn hefur ekki efni á stjórnmálamönnum eins og þeim sem fylla framkvæmdastjórn ESB, stjórnmálamönnum sem ekkert lýðræðislegt umboð hafa að baki sér.

Við lifum á viðsjárverðum tímum, þar sem allt getur farið á versta veg!

 


mbl.is Gengur í berhögg við EES-samninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband