Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Flestir læra af fortíðinni, öðrum er það fyrirmunað

Eitt það besta í fari mannskepnunnar er að geta lært af fortíðinni. Þannig hefur okkur tekist að komast á þann stað sem við erum nú, þannig hefur þróun mannskepnunnar orðið til. En sumir hafa ekki þennan eiginleika, er fyrirmunað að nýta sér þá visku sem fortíðin gefur okkur.

Fyrir nokkrum misserum komu erlendir aðilar til Íslands, í þeim tilgangi að koma sínum draumum í verk. Sá draumur var um að bjarga heimsbyggðinni. En þetta var bara draumur og eftir að hafa flutt hingað mikið magn af tréflís frá norður Ameríku, landað henni hér, skipað aftur á pramma og flutt hálfa leið til baka aftur og sturtað þar í sjóinn, vöknuðu menn upp við að þetta var enginn draumur, heldur martröð. Þáverandi bæjarstjóri Akraness var þessum mönnum til halds og trausts og greiddi veg þeirra. Var duglegur að mæra verkefnið. Taldi það gullsígildi fyrir heiminn og ekki síst nærsamfélagið sitt.

Nú er bæjarstjórinn orðinn forstjóri Orkuveitunnar. Ekki er hægt að sjá að hann hafi lært mikið af martröðinni. Hann er enn í draumheimum, eins og ekkert hafi í skorist. Nú er það ekki 8000 manna bæjarsjóður sem hann er að gambla með, heldur fjöregg okkar hér á suðvesturlandi, sjálfa Orkuveituna. Leggur hana og lífsafkomu hundruð þúsunda að veði í nýtt tilraunaverkefni sem er engu vitlegra en flísaævintýri Running Tide.

Það efast enginn um að hægt er að binda co2 í berg, langt niður í iðrum jarðar. Þetta er þegar gert í litu mæli. Hvort hægt er að binda það mikla magn sem til stendur að dæla í iður jarðar við Hafnarfjörð er allsendis óvíst. Um það snýst þessi tilraun. Ekki er einungis um mikið magn af co2 ásamt eiturefnum frá erlendum iðnfyrirtækjum, heldur er það vatn sem nota skal til niðurdælingarinnar af þeirri stærðargráðu að með ólíkindum er ef það hefur ekki áhrif á berggrunninn. Berggrunn sem er nærri virkum eldstöðvum. Enn eru sömu rök notuð, þetta er svo gott fyrir heimsbyggðina og ekki síst nærsamfélagið. Jafnvel farið að nefna háar upphæðir í gróða og byrjað að eyða honum.

En hvers vegna að dæla CO2 niður í jörðina og umbreyta í einhverjar steineindir? CO2 er dýrmætt vara og á bara eftir að aukast að verðgildi. Vistvænt eldsneyti er eitt af því sem heimurinn kallar eftir og þar kemur CO2 sterkt inn, enda einfalt að vinna eldsneyti úr þeirri afurð. Þá er þetta eitt af grunnefnum til að auka græna matvælaframleiðslu, sem íslenskir bændur nýta til að dæla inn í gróðurhús sín. Og ekki má gleyma öllum gosdrykkjunum sem við erum svo dugleg að drekka.

Stærsti markaðurinn fyrir CO2 verður þó til eldsneytisframleiðslu. Ekki víst að Orkuveitan geti keppt við þann markað. Hvað þá? Hvað ætlar Orkuveitan að gera ef verð á þessari auðlind hækkar meira en þeir ráða við? Hverjir þurfa þá að taka skellinn? Jú, þeir sömu og þurftu að taka skellinn vegna risarækjuverkefnis fyrirtækisins, þó sá skellur væri sem blíðasta klapp miðað við Carbfix ævintýrið.

Nú er það svo að CO2 í andrúmslofti hefur hækkað um fjórðung á stuttum tíma. Hvort það er gott eða slæmt eru vísindamenn ekki sammála um. Hitt er vitað að magn þessa lífsanda var kominn hættulega neðarlega, svo neðarlega að ef það hefði lækkað að sama skapi og það hækkaði, væri líf sennilega ekki lengur til staðar á jörðinni. Hugmyndir um eldsneytisframleiðslu úr þessum lífsanda okkar eru komnar lengra en margan grunar og kannski mun það verða jörðinni hættulegast. Að svo mikið af CO2 verði unnið úr andrúmsloftinu að líf geti ekki þrifist.


mbl.is Fjögur stórverkefni OR: 350 milljarðar til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan kennir okkur

Nú er hafið fjórða eldgosið á Reykjanesinu, á þrem árum. Það hófst með miklum krafti en þegar þetta er skrifað hefur dregið verulega úr því. Óhemju magn hraunelfu hefur skilað sér upp á yfirborðið á ótrúlega skömmum tíma.

Nú, sem fyrr, var fyrirvari gossins lítill sem enginn. Þetta virðist einkenna eldgos á þessu svæði, jarðvísindamenn hafa ekki þekkingu til að segja til um gos, þó þeim hafi tekist nokkuð vel að staðsetja þau, svona að vissu marki. Þekking íslenskra jarðvísindamanna er þó talin ein sú besta í heimi, en náttúran lætur slíkt ekki glepja sér sýn.

En sagan kennir okkur og vissulega má draga lærdóm af þessari sögu jarðelda á Reykjanesi síðustu þrjú ár. Jörð skelfur illilega, landris verðu mikið og á það til að hlaupa milli staða, jarðfræðingar eru á tánum. Síðan dregur úr skjálftum og landrisi, jarðfræðingar róast og fara jafnvel að ýja að því að atburðum sé lokið í bili. Þá gýs. Annað sem má læra er að gosin virðast eflast með hverju gosi.

Það ætti því að vera auðvelt fyrir almannavarnir að gera rýmingaráætlanir. Meðan jörð skelfur er lítil hætta, meðan land rís er lítil hætta. Hins vegar þegar dregur úr landrisi og skjálftum, þarf að fara að huga að rýmingu og þegar jarðfræðingar róast er komið skýrt merki um að tímabært sé að rýma svæði. Því stærri svæði sem gosum fjölgar.


mbl.is „Þurfum að endurskoða okkar rýmingarvinnu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er næs að vera eldfjallafræðingur

Það er næs að vera eldfjallafræðingur á Íslandi, þessi misserin. Jörð skelfur og jörð bólgnar.

Kannski er þetta kvikuinnskot, kannski ekki. Kannski verður það að gosi, kannski ekki.

Eitt er þó víst að það mun gjósa. Kannski þarna en kannski einhverstaðar annarsstaðar. Kannski fljótlega en kannski ekki fyrr en einhvertímann seinna, jafnvel löngu seinna.

En það mun gjósa. Við munum láta ykkur vita hvar og hvenær - eftir að það er hafið.

 


mbl.is Kvika gæti komið upp í jarðskorpuna við Bláa lónið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúboðar sannleikans

"Að vera eða að vera ekki". Þessi orð lagði Shakespere í munn Hamlets. Eins má segja hvað er rétt og hvað rangt.  Oftast er það þó svo að þegar tveir deila telja báðir sig hafa rétt fyrir sér. Þetta kemur sjaldnast að sök í daglega lífinu, jafnvel ekki heldur þegar fólk setur fram sínar hugsanir, hvort heldur er í tali eða riti.

Þetta er hins vegar nokkuð annað þegar að fjölmiðlun kemur. Einkareknir fjölmiðlar geta, innan ákveðinna marka, leift sér að skreyta sannleikann. Annað má gildir um ríkisrekinn fjölmiðil. Þar á ávallt að gæta fyllsta réttlætis. Starfsfólk slíks fjölmiðils hefur ekki heimild til að mynda sér opinbera skoðun um menn og málefni, verður ávallt að gæta þess að sem flestar skoðanir fái að heyrast. Hlustandinn getur ekki myndað sér skoðun á málum nema því aðeins að heyra allar skoðanir á hverju máli. Ekki bara þá sem fréttamenn vilja að fólk heyri.

Meðan stjórnmálaflokkar héldu úti fjölmiðlarekstri fór enginn í grafgötur um að fréttaflutningur var oftar en ekki mjög litaður af pólitík. Nú er enginn stjórnmálaflokkur lengur í fjölmiðlun, ekki nema í gegnum heimasíður á netmiðlum. Hins vegar eru sumir fjölmiðlar í eigu fólks sem tengist flokkum. Þar má enn sjá eima af þessum gömlu flokksblöðum. En svo höfum við ruv, "útvarp allra landsmanna". Stofnun sem haldin er uppi með nefskatti á alla landsmenn, hvort sem þeir nýta sér þjónustuna eða ekki.

Sennilega er enginn fjölmiðill eins hápólitískur og einmitt sú stofnun. Slær jafnvel gamla Þjóðviljann út, málgagn kommúnista og að ekki sé talað um stolt bænda, gamla Tímann.

Ekki einungis að ruv sé hápólitískt, heldur er þar farið frjálslega með staðreyndir. Vinsælast er þó meðal starfsmanna á þeim bænum er þó þöggun. Þöggun yfir því sem kemur starfsfólki, persónulega eða sem heild, illa. Jafnvel þó staðreyndir liggi á borðum. Þöggun um málefni sem þetta sama fólk telur sig meiga beita nánast hvaða vopnum sem er, "til að upplýsa sannleikann", þegar þau snúa að öðrum. Engin íslensk fréttastofa og sennilega erfitt að finna erlendar, hefur til starfa hjá sér fólk sem annað hvort er á sakamannabekk og bíður dómsmála eða hefur orðið upplýst af skattaundanskotum. Og þó er forstöðumaður stofnunarinnar fyrrverandi yfirmaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lögfræðingur að mennt.

Þegar kemur að pólitískri umræðu, þar sem enginn sannleikur finnst heldur einungis froðusnakk pólitíkusa sem vilja ganga í augu fólks, hallar svo á störf ruv að manni flökrar stundum. Þetta er augljósast í undanfar kosninga. Ekki einungis að sumir flokkar eigi betra aðgengi að ruv, heldur einnig hitt, hvernig fas og aðferðafræði stofnunin mismunar fólki með og hreinir þöggunartilburðir gagnvart sumum flokkum. Það mun sjálfsagt flestir eftir því "óhappi" er gleymdist að slökkva á hljóðnemum starfsmann, er verið var að raða í sæti fyrir kosningakappræðu. "Hvar á sá feiti að sitja" sagði þá einn starfsmaðurinn og átti þá við formann eins að stjórnmálaflokkanna. Þá þætti mér gaman að sjá einn fyrrverandi fréttamann, núverandi þingmann, taka á því að verða beittur sömu brögðum og hann viðhafði í stjórnmálaþætti, gegn öðrum formanni stjórnmálaflokks. Sá formaður stóð þá árás af sér, ekki víst að nýþingmaðurinn væri jafn hress með slíka meðferð í beinni útsendingu.

Það má lengi tala um ruv, en læt hér staðar numið á þeim vettvangi. Það er kannski táknrænt að íslenskur fjölmiðlamaður, sem starfar í stjórnum stærstu erlendra fjölmiðlanna, skuli árétta innan veggja ruv, mikilvægi þess að vanda skuli til frétta, að frétt sé frétt en ekki skoðun og að allir eigi að njóta réttmælis. Það er ekki vanþörf á í þeirri stofnun. En hugarfari verður ekki breytt. Mannaskipti verða að fara fram.

En aftur að upphafi pistilsins. Hvað er rétt og hvað er rangt. Það er ekkert endanlega rétt eða rangt. Hinn eini sannleikur er ekki til og verður aldrei til. Það sem eitt sinn þótti sannleikur þykir fyrra í dag. Staðreyndir eru einungis það sem við vitum í dag. Kannski vitum við eitthvað betur á morgun. Sá sem telur sig finna hinn eina rétta sannleik er kominn á annað stig, hefur öðlast trú. Trúi og sannleikur er sitt hvað og á sjaldnast saman.

Vísindi byggja fyrst og fremst á forvitni, að vilja vita meira en áður. Mannkynssagan er full af dæmum þess að slík forvitni hafi breytt almennri trú á sannleikann, en einnig full af dæmum þess hversu erfitt getur verið að breyta slíkri trú. Erfitt getur verið að koma fram með nýjan sannleik. Þeir vísindamenn sem segja að eitthvað sé endanlegur sannleikur eru ekki vísindamenn. Þeir hafa glatað forvitninni. Þeir eru trúboðar.


mbl.is Eru fjölmiðlar að fjalla um það sem skiptir máli?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn gala vindhanar

Ég hef áður ritað nokkuð um aðkomu fyrrverandi rektors á Bifröst að vindorkumálum og þá fylgispekt sem hann hefur tekið við erlenda fjármálamenn á því sviði. Nú lætur lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri heyra í sér og ekki að sjá annað á hans orðum en að hann sé einnig orðinn fylgismaður þessara erlendu afla. Þegar tveir háttmetnir menn innan menntakerfisins tjá sig á þennan veg, vaknar vissulega upp sú spurning hvar menntakerfið klikkaði. Hvar eða hvenær auður væri eingöngu mældur í spesíum. 

Í frétt á ruv er rætt við lektor Háskólans á Akureyri. Hugmyndi hans eru vægast sagt óhuggulegar fyrir lands og þjóð. Hann vill taka 10% af landinu undir vindorkuver, svo hægt verði að senda megnið af þeirri orku um sæstrengi til Evrópu. Telur að með því megi "hjálpa" Evrópu í við orkuskiptin. Þessar hugmyndir eru svo fjarstæðukenndar að engu tali tekur.

Jöklar Íslands þekja um 10% af landinu, með allri sinni tign og fegurð. Fæstir vilja hafa vindmillur nærri byggð og ef taka á önnur 10% af landinu undir stór og ljót vindorkuver, er ljóst að ansi lítið verður eftir af ósnortinni náttúru hálendis Íslands. Á þessu landsvæði telur lektorinn að hægt verði að framleiða allt að 150 teravattstundir af orku, eða sjö komma fimm sinnum meiri orku en nú er framleidd hér á landi. Til að framleiða 150 teravattstundir af orku með vindorkuverum þarf gott betur en 10% af Íslandi, en látum þá skekkju lektorsins liggja milli hluta.

En hvað segja 150 teravattstundir í orkuþörf Evrópu. Það er eins og dropi í hafið, dugar rétt til að halda við aukinni orkuþörf álfunnar og alls ekki til orkuskipta þar. Sem dæmi hefur ESB litið hýru auga til vesturstrandar Afríku, til vindorkuvera. Þar er gert ráð fyrir að framleiða allt að 1000 teravattstundum af orku og er það talið sem smá hjálp við orkuskipti Evrópu, alls ekki lausn þeirra.

Vissulega er rétt að við núverandi orkuverð í Evrópu mætti fá ágætis tekjur fyrir 150 teravattstundir af rafmagni. Þær tekjur færu þó að mestu í vasa erlendra auðjöfra, lítið til okkar landsmanna. Hins vegar eru tvær hliðar á hverju máli og tapið sem við yrðum fyrir í staðinn margfalt meira en ágóðinn.

Fyrir það fyrsta mun ferðaiðnaður hrynja, ekki lengur hægt að bjóða upp á ósnortna náttúru Íslands. Litlar líkur á að erlendir ferðamenn hafi mikinn áhuga á að koma hingað til að skoða stórmengað land af vindorkuverum og örplasti.

Í öðru lagi mun með tengingu landsins við Evrópu, virkjast að fullu orkupakki 3, og væntanlega op 4 einnig. Það mun leiða til þess að orkuverð á raforku hér á landi mun fylgja markaðsverði á hinum enda strengsins. Það mun leiða til þess að öll fyrirtæki landsins munu ekki geta átt í samkeppni við erlend fyrirtæki og leggja upp laupana, með tilheyrandi atvinnuleysi.

Það liggur fyrir að allur kostnaður við tengingu vindorkuvera við landsnetið og lagning þess að fyrirhuguðum sæstrengjum, mun falla á almenna landsmenn, samkvæmt op 3.

Þessi sýn er ljót en raunsæ, reyndar svo fjarstæðukennd að furðu þykir að hugmyndin komi úr ranni lektors við háskóla. Hann virðist einblína á eina stærð en horfa að öllu leiti framhjá öllum öðrum. Ekki beint vísindaleg nálgun.

Hitt er svo spurning, hvenær vísindasamfélagið gerir athugasemd við vindorkuverin, í þeirri mynd sem nú er. Það liggur fyrir að mengun frá þessum orkuverum er gífurleg, jafnvel meiri en frá gasorkuverum. Það liggur fyrir að nú þegar eru stór landsvæði tekin undir urðun ónýtra spaða vindorkuvera, en af þeim fellur til gífurlegt magn nú þegar. Það liggur fyrir að örplastmengun frá spöðum vindorkuvera er mikil, mjög mikil. Nýlega var sagt frá rannsókn á hvölum og tiltekið ótrúlegt magn af örplast sem þeir innbyrða. Það liggur fyrir að í Þýskalandi er farið að mælast stór aukið magn af SF6 gasi í andrúmslofti og sú mengun rakin til fjölgunar vindorkuvera. Það liggur auðvitað fyrir að sjónmengun vindorkuvera er gífurleg og flökt frá spöðum talið skaðlegt. Það liggur fyrir að hljóðmengun frá vindorkuverum er mikil, rétt eins og á rokktónleikum að sögn framleiðenda þessara túrbína. Það liggur hinsvegar ekki fyrir hver áhrif vindorkuver hafa á vindstrauma. Ekki enn verið opinberaðar rannsóknir á því sviði. Því er ekki spurning hvort heldur hvenær vísindasamfélagið setur sig gegn vindorkuverum í þeirri mynd sem nú er. Þar mun ráða fjármagnið sem það fær greitt.

Það eru til aðferðir til virkjunar vindsins án vindtúrbína með spöðum. Aðferðir sem þurrka út flesta galla hefðbundinna vindtúrbína, þó sérstaklega örplastmengunina. Þessar aðferðir byggja helst á því að vindur verði virkjaður sem næst notkunarstað orkunnar. Þá eru menn að komast yfir þann þröskuld sem hefur staðið gegn byggingu þóríum orkuvera, en af þóríum er nægt magn til á jörðinni.

Vísindasamfélagið út um allan heim, nema kannski á Íslandi, vinnur hörðum höndum að lausn orkuvanda jarðar. Hugsanlega mun á næstu árum koma eitthvað alveg nýtt fram til þeirrar lausnar, eitthvað sem fáum eða engum dettur til hugar í dag. Víst er að hefðbundin og gamaldags vindorkuver eru ekki þar.


Fúafen

Í síðustu færslu fór ég aðeins inná fróðlega grein í Bændablaðinu, er kom út þann 7. apríl. Sú grein er rituð af sjö sérfræðingum, hverjum á sínu sviði og fjallar um rannsóknir á losun co2 úr jörðu.

Svo virðist sem stjórnvöld hafi látið teyma sig út í fúafen, í orðsins fyllstu merkingu. Þeir sem lenda í slíku feni hafa um tvo kosti að velja, að snúa aftur á fast land, ellegar að halda áfram út í fenið. Síðari kosturinn hefur aldrei gengið upp, en með því að snúa til baka má finna greiðfærari og öruggari leið að markmiði sínu.

Til að því sé haldið til haga þá nefna sérfræðingarnir oft í sinni grein að efla þurfi rannsóknir á sviði losunar co2 úr jarðvegi. Þar kemur hellst til að niðurstaða þeirra er í svo hrópandi ósamræmi við viðhafðar skoðanir um málið, skoðanir sem ekki byggjast á rannsóknum heldur fyrirfram ákveðinni niðurstöðu. Þarna munar allt að 88.6% á viðhafðri skoðun á og niðurstöðum rannsókna! Þessu munur er svo hrópandi að engu tali tekur og þó er þarna einungis verið að ræða losun á co2 úr jarðvegi, ekki tekið tillit til þess að þurrkað land hefur mun þykkari og betri gróðurþekju grænblöðunga, sem jú eins og allir vita, vinna stöðugt að því að binda kolefnið úr co2 og skilja einungis súrefni þess eftir í andrúmsloftinu. Co2 er jú ein eining kolefnis á móti tveim einingum af súrefni. Fróðlegt væri að vita hver heildarlosun er frá jarðvegi ef þetta er einnig tekið með í jöfnuna.

Þarna er ekki um neitt smá mál að ræða, fyrir okkur sem þjóð. Standist þessar rannsóknir getum við náð losunarmarkmiðum stjórnvalda og gott betur, með því einu að endurreikna losun co2 úr jarðvegi, til samræmis við raunveruleikann. Við gætum með því einu minnkað losun landsins um 57% strax, meðan markmið stjórnvalda er að minnka hér losun um 55% fyrir árið 2030. Reyndar er það markmið stjórnvalda með öllu óraunhæft, ef ekki kæmi til þessi óvænta niðurstaða á raunlosun úr jarðvegi.

Stjórnvöld hljóta að taka þessari fyrstu opinberu skýrslu fegins hendi og leggja pening til aukinna rannsókna. Jafnvel þó niðurstaðan yrði eitthvað örlítið lakari við frekari rannsóknir, gæti líkað orðið enn betri, er einséð að þarna er um mikla hagsmuni að ræða. Það hefur ekki staðið á að leggja peninga til hinna ýmsu verkefna sem hafa í sinni kynningu loftlagsmál, jafnvel þó óljóst sé hvað verið er að meina og engar rannsóknir standi að baki þeim fullyrðingum. Því ætti ekki að vefjast fyrir stjórnvöldum að styðja vel við bak þeirra vísindamanna sem leita sannleikans um málið!

Meðan raunveruleg vitneskja liggur ekki fyrir er fráleitt að kasta peningum í einhverjar framkvæmdir sem jafnvel gætu gert vandann mun stærri. Að endurheimt votlendis muni ekki skila neinu í minnkun losunar á co2 en muni auka stórlega losun á metani og að grænblöðungum muni fækka stórkostlega með tilheyrandi minnkun á virkni þeirra til að binda kolefni í jörðu. Þetta er ekki vitað og verður ekki vitað nema með rannsóknum. Sú fyrsta sem er opinberuð bendir í allt aðra átt en tölur IPCC segja til um. Þær tölur byggja á örfáum rannsóknum erlendis. Þar er bæði mun dýpri jarðvegur sem og að akuryrkja er þar ráðandi. Akuryrkju fylgir að jörð er opinn stórann hluta árs, meðan heyrækt byggir á grónum túnum með lokuðum jarðvegi. Allir ætti að sjá að þarna er himinn og haf á milli og með öllu ótækt að notast við slíkar tölur.

Að lokum óska ég þjóðinni til hamingju með niðurstöðu þessarar rannsóknar, jafnvel þó þarna sé um staka rannsókn að ræða. Niðurstaðan er hrópandi á frekari rannsóknir. Sérstaklega óska ég forsætisráðherra til hamingju, enda hefur hún verið dugleg að lofa upp í ermina á sér erlendis. Þarna fær hún tækifæri til að standa við gefin loforð og að auki getur hún hrósað sér af enn frekari samdrætti á losun co2 á Íslandi. Orkuskiptin í flutningum, stór aukin skógrækt og uppgræðsla lands mun halda áfram. Fyrirtæki munu einnig halda áfram raunverulegri minnkun á losun co2, þó vissulega þau geti ekki lengur stundað felueik um málið, með kaupum á aflátsbréfum frá votlendissjóði. Því má forsætisráðherra búast við að geta gengið reyst fram á hið erlenda pólitíska sviðs, hafi hún vit til að snúa aftur til lands úr fúafeninu, sem hún hefur verið leidd út í. Gangi greiðfærari leið að markmiðinu.

 


Syndaaflausn

Kaþólska kirkjan býður upp á að fólk geti keypt sig laust frá syndum og ræðst þar upphæð syndaaflausnar gjarnan af mikilfengleik syndarinnar. Auðvitað sjá allir að þarna er ekki um annað að ræða en peningaplokk kirkjunnar. Við sem stöndum utan kaþólsku kirkjunnar eigum svolítið erfitt með að skilja þennan hugsanahátt, þó sumir innan þeirrar kirkju telji þetta góða lausn frá syndum sínum. Að geta mætt með nokkrar spesíur til klerksins og þurrkað þannig út framhjáhald eða aðrar syndir sínar.

Í dag eru hins vegar annarskonar syndaraflausnir seldar. Hægt er að kaupa sig frá þeirri synd að losa lífsandann, co2, út í andrúmsloftið. Þessi viðskipti standa nú í blóma, þvert á trúarskoðanir og lönd. Hér á Íslandi er hópur sem er duglegur að selja slík aflausnarbréf og eru kaupendur þar bæði fólk og fyrirtæki. Þessi hópur segist geta létt þeirri synd af fólki með því einu að moka ofaní skurði landsins. Ólíkt syndaaflausn kaþólsku kirkjunnar, veit enginn í raun hvert það fé fer er borgað er fyrir þessa nútíma synd.

En nú er komið babb í bátinn. Í nýjasta Bændablaði er fróðleg grein um rannsóknir á meintri losun co2 úr þurrkuðu landi, reyndar fyrsta íslenska rannsóknin hér á landi sem er opinberuð. Að þessari rannsókn standa 7 fræðingar, hver á sínu sviði. Niðurstaðan er vægast sagt fróðleg og hætt við að margur er keypt hefur syndaaflausn af votlendissjóði muni eiga erfitt um svefn næstu vikurnar. Þeir hafa verið blekktir og synd þeirra lítið minni en áður.

Skemmst er frá að segja að opinberar tölur, er byggja á tölum er IPCC hefur kokkað upp, eru nærri 90% ofmetnar. Þannig að sá er keypti sér syndaaflausn fyrir að aka hringveginn er enn stór syndugur, fékk aflausn fyrir einungis 132 km af 1.320 km er ekið var. Þetta er auðvitað skelfilegt fyrir viðkomandi!

Plottið er það sama og hjá kaþólsku kirkjunni þó undir öðrum formerkjum sé.

Hér má lesa skýrsluna, á blaðsíðum 20 og 21


Grímufólkið

Þjóðin virðist vera að skiptast í tvær fylkingar, þeir sem bera grímur og hinir sem ekki vilja bera grímur. Sjálfur er ég grímukall og skammast mín ekkert fyrir það. Er búinn að fá þrjár sprautur gegn covid og mun þiggja þá fjórðu strax og hún býðst.

Ástæðan er einföld, þegar að smitvörnum kemur þá treysti ég þeim læknum sem sérhæfa sig í smitsjúkdómum, rétt eins og ég treysti best heilaskurðlækni til að kroppa í heilann á mér, lögreglumanni til að hjálpa mér að fylgja lögum, lögfræðingi til að hjálpa mér frammi fyrir dómstólum, hagfræðingi til að segja mér til um hagfræði, loftlagsfræðingi til að segja mér um loftslag og svo framvegis. Eina stéttin sem ég ekki treysti eru stjórnmálamenn, enda eru þeir sem vindpoki á flugvöllum. Þegar vel blæs í þjóðfélagsumræðuna blása þeir út, eftir þeim áttum er umræðan blæs, þess á milli lyppast þeir niður og snúast í hringi. Vita ekki hvernig þeir eiga að haga sér. Hér á landi verður þó að hrósa þeim fyrir það að hafa borið gæfu til að fara eftir tillögum smitsjúkdómalæknis í þeim faraldri sem um heiminn geisar. Alla vega fram undir þetta, þó sjá megi kannski brotalöm þar á eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum.

Í siðuðu þjóðfélagi er ekki annað hægt en að treyst þeim sem menntun hafa á hverju sviði. Ef það er ekki gert má allt eins leggja niður menntastofnanir landsins. Það myndi sennilega engum detta til hugar að fá lækni til að flytja fyrir sig mál fyrir dómstóli, eða loftlagsfræðing til að krukka í heilann á sér. Hví ætti fólk Þá að treyst betur lögfræðingi en smitsjúkdómalækni, þegar að smitsjúkdómi kemur?

Úr hófi gengur þó þegar, í nafni frelsis, unnið er gegn smitvörnum. Frelsi er ekkert einkamál einstakra aðila, hvorki í orði né á borði. Frelsi er ekki hægt að túlka eftir behag hverju sinni og frelsi fylgir ábyrgð.

Frelsi getur aldrei orðið algert. Til að frelsi virki verður að setja einhvern ramma, sem samfélagið kemur sér saman um. Auðvitað eru ekki allir sammála öllu sem slíkur rammi tilgreinir, en allir sem einhverja örlitla skynsemi hafa fara þó eftir honum. Hver sá er út fyrir þann ramma fer, brýtur frelsið og stofnar því í voða, gerist lögbrjótur. Bréf varaþingmannsins er hreint brot á þessum ramma, þar sem hann hvetur fólk til að hundsa þær reglur sem settar eru, auk þess að reyna að færa einhverja ímyndaða ábyrgð á fólk sem ekki skal þá ábyrgð bera. Þetta er ljótur leikur sem hvorki varaþingmanni né lögfræðingi er samboðin.

Menn geta haft hverja þá skoðun á sóttvörnum sem þeir vilja, en enginn hefur meiri menntun eða getu til að leggja fram aðgerðir á því sviði, en sóttvarnarlæknir.

Það er auðvelt að vera á móti. Það hlýtur að vera lágmarks kurteisi, þegar einhver telur ekki vera rétt að málum staðið, að koma þá með einhverjar tillögur um hvernig betur skuli fara. Það ber lítið á slíkum tillögum frá því fólki sem felur sig bak við frjálshyggju. Enda erfitt fyrir lögfræðing eða hagfræðing að koma með tillögur í smitvörnum, ekki satt?

Fyrir síðustu kosningar vonaði ég satt og innilega að Arnar Þór Jónsson kæmist á þing. Virtist vera skynsamur og málfastur, auk þess sem mörg þeirra mála er hann talaði fyrir fyrir kosningar, mér nokkuð hugleikin. Eftir þennan afleik hans og hvernig hann hefur hagað sér eftir kosningar, þakka ég svo sannarlega fyrir að hann fékk ekki fylgi inn á Alþingi.

Sannarlega má segja að stundum fela refir sig undir sauðagæru!


mbl.is Hissa á Arnari „að spila þennan leik“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

N-K-P

Í tæpa hálfa öld var starfrækt áburðarframleiðsla á Íslandi. Þar var reyndar einungis framleitt nitur, eða köfnunarefni (N), en önnur íblöndunarefni flutt til landsins. Tilbúinn túnáburður samanstendur að stærstum hluta til af nitur(N), en einnig eru í honum kalí (K) og fosfór, eða þrífosfat (P). Af þessu kemur skammstöfunin N-K-P. Auk þess eru ýmis önnur bætiefni í túnáburði s.s. kalsíum, brennisteinn og í einstaka tilfellum bór. Öll eru þessi efni til að bæta og efla gróður túna.

Nútímabóndinn lætur rannsaka tún sín og kaupir síðan þann áburð sem hentar hverju túni. Það er gert til hámarka afurðir og lágmarka kostnað, að einungis sé borið á það sem þarf. Enda tilbúinn áburður sennilega stærsti einstaki kostnaðarliður bænda. 

En nú horfir illa. Framleiðsla á tilbúnum áburði, sér í lagi nitur, eða köfnunarefni, krefst mikillar orku. Eins og áður segir fór sú framleiðsla fram hér á landi í nærri hálfa öld. Eftir að EES samningurinn tók gildi reyndist ekki lengur rekstrargrundvöllur fyrir slíkri verksmiðju og var starfsemin lögð niður. Ódýrara var að flytja bara inn áburð, frá Evrópu.

Af ástæðum sem ekki verða raktar hér, er nú svo komið að raforkuverð þar ytra er orðið svo hátt að áburðarverksmiðjur loka. Verðið á tilbúnum áburði hefur þegar hækkað um 140%, en það dugir ekki til. Því munu bændur ekki bara standa frammi fyrir þeirri staðreynd að áburðarverð verði óviðráðanlega hátt fyrir þá, meiri líkur eru á að áburður muni bara alls ekki fást í vetur.

Það vekur upp spurningu um hvort ekki sé kominn grundvöllur fyrir slíkri framleiðslu hér á landi. Við eigum nægt rafmagn. Þá er nokkuð til að vinna í kolefnisspori og gjaldeyrissparnaði að framleiða áburð hér á landi. Þar sem EES samningurinn virkar jú í báðar áttir, eða svo er manni sagt, er kjörið fyrir okkur að hugsa stórt í þessu sambandi og framleiða einnig áburð fyrir lönd á meginlandinu. Engar líkur eru á að orkuverð þar ytra eigi eftir að lækka sem neinu nemur, auk þess sem sú orka sem notuð hefur verið til þessarar framleiðslu kemur að stórum hluta frá orkuverum sem knúin eru jarðefnaeldsneyti.

Það væri ekki lítil uppbót fyrir landið okkar, ef við gætum selt út hreina afurð, í stað þess að hún sé framleidd óhrein erlendis. Þá munum við ekki einungis spara gjaldeyri heldur afla hans að auki. Og bændur á meginlandinu gætu barið sér á brjóst og sagst nota hreinan áburð, án þess að þurfa að vera í einhverjum vafa um hreinleikann.

Hins vegar er ástandið graf alvarlegt eins og staðan er í dag. Þegar hefur verð hækkað langt umfram það sem nokkuð bú getur borið og líklegt að algjör skortur muni verða næsta vor, á þessari lífnauðsynlegu vöru fyrr bændur. Einhverjum gæti dottið í hug að segja að bændur hætti bara að nota tilbúinn áburð og beri bara skít á túnin. Jú, jú, það eru svo sem rök. En án tilbúins áburðar verður sprettan minni, sem þýðir að bændur þurfa þá að stækka tún sín og stækkun túna þýðir að þurrka þarf þá upp fleiri mýrar. Mýrar verða ekki þurrkaðar upp á einni svip stundu og tún verða ekki ræktuð í einni svipan. Þá er ekki alveg í takt við tíðarandann að bændur taki upp á því í stórum stíl að ræsa fram mýrar.

Þá er kannski rétt að benda á að framleiðsla á nitur, eða köfnunarefni, er í raun binding kolefnis úr andrúmslofti. Aukaafurðin sem til verður við þessa framleiðslu kallast súrefni (O2). Þannig að kolefnisbókhald þjóðarinnar mun þá njóta góðs af.

 


Borgarafundur ruv

Fyrir mér er borgarafundur eitthvað sem borgarar landsins koma að og ræðir málin, þ.e. að reynt er að finna sem víðastan skilning á einhverju máli sem snýr að þjóðinni. Því fagnaði ég þegar ruv ákvað að halda borgarafund um loftlagsmál. Málefni sem er umdeilt meðal þjóðarinnar og kannski enn umdeildara meðal loftlagssérfræðinga, sem við Íslendingar eigum því miður eitthvað lítið af. Ég settist því fyrir framan sjónvarpið, aldrei þessu vant, til að horfa á þennan þátt og fá sem flestar skoðanir um þetta málefni. Í stuttu máli var ég fyrir vonbrigðum, eða kannski réttara að segja að mér hafi ofboðið.

Í fyrstu virtist þetta ganga ágætlega, að vísu hallaði töluvert á efasemdarmenn hamfarahlýnunar, einungis einn gegn nokkrum öðrum trúuðum. En þessi eini, fyrrum veðurstofustjóri, lét ekkert vaða yfir sig, vissi hvað hann söng.

Næsta hóp var aftur öllu erfiðara á að horfa og hlusta. Enn var einungis einn efasemdarmaður gegn mörgum trúuðum, hallinn enn sá sami. Þarna var meðal annarra einn ungur vísindamaður sem í mínum huga hefur verið meðal þeirra bestu hér á landi, Sævar Ingþórsson, líffræðingur, sem greinilega taldi sig einan vita allan sannleika um loftslag. Reyndar datt engum til hugar að spyrja hann um áhrif aukins magns co2 á lífríki. Framkoma þessa manns var vægt sagt til skammar og víst að hann er ekki lengur marktækur í mínum huga. Ekki einungis kom hann fram með hroka og yfirgangi, heldur hélt hann fram beinum lygum. Talaði um að bara ef Ísland minnkaði hjá sér kolefnislosun í takt við ESB lönd, væri stór sigur unnin. Því miður hafa lönd ESB ekki enn náð að minnka hjá sér kolefnislosun, er enn að aukast og engin merki um að það breytist. Hins vegar getur vel verið að bókhaldslega sé um einhverja minnkun að ræða, þ.e. með kaupum á kolefniskvóta, m.a. héðan frá Íslandi. Raunverulega er þó um aukningu að ræða.

Þegar þessi hópur yfirgaf sviðið var trúðurinn við Tjörnina kallaður á svið. Þá stóð ég upp og slökkti á sjónvarpinu!

Lengi má manninn reyna. Þegar maður hélt að ruv hefði náð hámarki vitleysunnar bættist enn í ruslasarp stofnunarinnar!

En hver er loftlagsváin? Hvað er það sem málið snýst um?

Enginn vildi þó beinlínis segja að um vá væri að ræða, þó margir töluðu á þann veg.

Einn viðmælenda taldi að málið snerist um langlundargeð landsmanna, blandað pólitísku ívafi. Frekar þunn skýring.

Einfaldasta skýringin eru þó peningar, loftlagsvá er haldið á lofti vegna peninga og um það snýst málið. Þetta byrjaði snemma á áttunda ártugnum, reyndar með öfugum formerkjum, þá fólst loftlagsváin í því að ísöld væri að skella á. Á níunda áratugnum snerist þetta við, enda hafði hætt að kólna og byrjað að hlýna aftur. Önnur skýring á vandanum er að mælistokkurinn sem nýttur er til verksins er rangur. Fyrir það fyrsta er upphafsmæling frá einu kaldasta skeiði ritaðra sagna, lokum litlu ísaldar. Það hitastig sem þá var er sagt vera hið eina rétta, jafnvel þó vitað sé að oftar hafi verið mun hlýrra. Í öðru lagi er sífellt meira notast við mælingar gervihnatta, í stað mælinga á jörðu niðri, jafnvel þó mikið misræmi sé gjarnan þar á milli. Og ekki má gleyma að spálíkön, þessi sem hinir trúuðu veifa mest, eru jú líkön. Líkan gerir það sem því er ætlað, þ.e. hvernig það er hannað og hvaða upplýsingum er matað í það. Með líkönum má í reynd fá hverja þá niðurstöðu sem menn vilja.

Enginn efast um að hlýnað hefur á jörðinni frá lokum litlu ísaldar. Fyrst hlýnaði hratt fram undir seinna stríð og náði hiti jarðar þá svipuðum "hæðum" og nú. Næstu fjóra áratugi kólnaði aftur, þó hitastig hafi ekki farið eins neðarlega og í upphafi tuttugustu aldarinnar. Frá 1980 til aldamóta hlýnaði aftur mjög hratt en frá aldamótum hefur hitastig jarðar staðið nokkuð í stað. Allt byggist þetta á staðreyndum mælinga á jörðu niðri og hægt að nálgast þær hjá þeim stofnunum sem nýttar eru til áróðurs hamfarahlýnunar, s.s. NOAA. Með loftlagslíkunum hefur hins vegar tekist að sýna fram á mikla hlýnun framundan og jafnvel þó spár séu leiðréttar reglulega samkvæmt raun er enn haldið áfram að birta þær.  Til dæmis er búið að halda því fram í um tvo áratugi að íshellan við norðurpól muni hverfa og ef þær spár hefðu ræst væri það hafsvæði búið að vera íslaust yfir sumarið í rúman áratug. Vissulega hefur ísbreiðan minnkað en enn þarf þó að notast við fylgd ísbrjóta æski flutningaskip að sigla norðurleiðina til Kyrrahafs.

Þá er tal um bráðnun Grænlandsjökuls nokkuð fyndið. Allir vita að snjór og ís bráðnar ekki fyrr en hitastig kemst upp fyrir frostmark. Á Grænlandsjökli er hitastig yfir sumarið á milli -15 og -20 gráður. Bráðnun getur því enganvegin átt sér stað. Jafnvel í sumar, þegar svokölluð hitabylgja er fór yfir Evrópu, kom hingað og endaði síðan á Grænlandsjökli, náði hitastig þar ekki upp fyrir frostmark. En vissulega hafa jaðrar hans minnkað frá þeim tíma er þeir voru mestir, um 1900.

Hvert rétt hitastig jarðar er, er útilokað að segja til um. Mælingar úr borkjörnum hafa sýnt fram á að mestan hluta jarðsögunnar hefur hiti verið hærri en nú og víst er að í byrjun tuttugustu aldar hafði ríkt eitt kalt skeið í nokkur hundruð ár, eitt kaldasta skeið sem jörðin hefur upplifað í þúsundir ára.

Kolefni í andrúmslofti er frum skilyrði lífs á jörðinni. Hvert magn þess skal vera getur enginn sagt, þó er vitað á sumum tímum jarðsögunnar hefur það náð 8000ppm,er í dag rétt undir 400ppm. Skiptar skoðanir vísindamanna eru um hvort co2 sé orsök eða afleiðing hita jarðar. Hitt má bóka að ef það lífsefnið væri svo hættulegt sem sumir halda fram, er ljóst að við værum ekki til í dag. Þá hefði jörðin og allt líf hennar að drepast þegar magn þess efnis náði hæstu hæðum og jörðin átt að steikjast.

Stjórnvöld eru mjög trúandi á loftlagsvá, svona eins og aðrir erlendir pólitíkusar. Aðgerðir þeirra eru þó frekar ómarkvissar. Væri svo að svo mikið muni hitna á jörðinni sem sumir halda fram, ætti auðvitað að vera að vinna að því að aðlagast breyttu loftslagi. Svo er þó alls ekki, það eina sem mönnum dettur í hug er skattlagning, eins og menn haldi að hægt sé að kaupa sig frá vanda. Jafnvel umhverfisráðherrann okkar, sem er einn mesti talsmaður loftlagsvár, stundar flugferðir erlendis eins og enginn sé morgundagurinn. Þegar hann er síðan gagnrýndur fyrir þessar ferðir, segist hann kolefnisjafna þær! Hvernig, kemur ekki fram en tvær leiðir hafa verið honum hugleiknar, endurheimt votlendis og plöntun trjáa. Mjög skiptar skoðanir eru um endurheimt votlendis og telja sumir vísandamenn að það virki öfugt, að í stað þess magns af co2 sem sparast komi í staðinn metangas, 20 falt hættulegri tegund. Plöntun trjáa er góð og gild. Þó tekur nokkur ár fyrir plöntuna að ná þeim þroska að hún geri eitthvað gagn í minnkun co2. Því stendur mengun umhverfisráðherra föstum fótum um nokkur ár.

Í dag er hitastig um einni og hálfri gráðu hærra en í lok síðustu ísaldar. Hvort hiti muni aukast eitthvað meira eða hvort aftur kólnar getur enginn sagt til um í dag. Sjálfur vil ég frekar meiri hita. Í það minnsta eru mjög skiptar skoðanir meðal loftlagsvísindamanna um málið, þó vísindamenn í lygum, þ.e. stjórnmálamenn, séu nokkuð samstíga. 

 

 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband