Færsluflokkur: Vísindi og fræði
N-K-P
21.10.2021 | 01:10
Í tæpa hálfa öld var starfrækt áburðarframleiðsla á Íslandi. Þar var reyndar einungis framleitt nitur, eða köfnunarefni (N), en önnur íblöndunarefni flutt til landsins. Tilbúinn túnáburður samanstendur að stærstum hluta til af nitur(N), en einnig eru í honum kalí (K) og fosfór, eða þrífosfat (P). Af þessu kemur skammstöfunin N-K-P. Auk þess eru ýmis önnur bætiefni í túnáburði s.s. kalsíum, brennisteinn og í einstaka tilfellum bór. Öll eru þessi efni til að bæta og efla gróður túna.
Nútímabóndinn lætur rannsaka tún sín og kaupir síðan þann áburð sem hentar hverju túni. Það er gert til hámarka afurðir og lágmarka kostnað, að einungis sé borið á það sem þarf. Enda tilbúinn áburður sennilega stærsti einstaki kostnaðarliður bænda.
En nú horfir illa. Framleiðsla á tilbúnum áburði, sér í lagi nitur, eða köfnunarefni, krefst mikillar orku. Eins og áður segir fór sú framleiðsla fram hér á landi í nærri hálfa öld. Eftir að EES samningurinn tók gildi reyndist ekki lengur rekstrargrundvöllur fyrir slíkri verksmiðju og var starfsemin lögð niður. Ódýrara var að flytja bara inn áburð, frá Evrópu.
Af ástæðum sem ekki verða raktar hér, er nú svo komið að raforkuverð þar ytra er orðið svo hátt að áburðarverksmiðjur loka. Verðið á tilbúnum áburði hefur þegar hækkað um 140%, en það dugir ekki til. Því munu bændur ekki bara standa frammi fyrir þeirri staðreynd að áburðarverð verði óviðráðanlega hátt fyrir þá, meiri líkur eru á að áburður muni bara alls ekki fást í vetur.
Það vekur upp spurningu um hvort ekki sé kominn grundvöllur fyrir slíkri framleiðslu hér á landi. Við eigum nægt rafmagn. Þá er nokkuð til að vinna í kolefnisspori og gjaldeyrissparnaði að framleiða áburð hér á landi. Þar sem EES samningurinn virkar jú í báðar áttir, eða svo er manni sagt, er kjörið fyrir okkur að hugsa stórt í þessu sambandi og framleiða einnig áburð fyrir lönd á meginlandinu. Engar líkur eru á að orkuverð þar ytra eigi eftir að lækka sem neinu nemur, auk þess sem sú orka sem notuð hefur verið til þessarar framleiðslu kemur að stórum hluta frá orkuverum sem knúin eru jarðefnaeldsneyti.
Það væri ekki lítil uppbót fyrir landið okkar, ef við gætum selt út hreina afurð, í stað þess að hún sé framleidd óhrein erlendis. Þá munum við ekki einungis spara gjaldeyri heldur afla hans að auki. Og bændur á meginlandinu gætu barið sér á brjóst og sagst nota hreinan áburð, án þess að þurfa að vera í einhverjum vafa um hreinleikann.
Hins vegar er ástandið graf alvarlegt eins og staðan er í dag. Þegar hefur verð hækkað langt umfram það sem nokkuð bú getur borið og líklegt að algjör skortur muni verða næsta vor, á þessari lífnauðsynlegu vöru fyrr bændur. Einhverjum gæti dottið í hug að segja að bændur hætti bara að nota tilbúinn áburð og beri bara skít á túnin. Jú, jú, það eru svo sem rök. En án tilbúins áburðar verður sprettan minni, sem þýðir að bændur þurfa þá að stækka tún sín og stækkun túna þýðir að þurrka þarf þá upp fleiri mýrar. Mýrar verða ekki þurrkaðar upp á einni svip stundu og tún verða ekki ræktuð í einni svipan. Þá er ekki alveg í takt við tíðarandann að bændur taki upp á því í stórum stíl að ræsa fram mýrar.
Þá er kannski rétt að benda á að framleiðsla á nitur, eða köfnunarefni, er í raun binding kolefnis úr andrúmslofti. Aukaafurðin sem til verður við þessa framleiðslu kallast súrefni (O2). Þannig að kolefnisbókhald þjóðarinnar mun þá njóta góðs af.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Borgarafundur ruv
20.11.2019 | 12:33
Fyrir mér er borgarafundur eitthvað sem borgarar landsins koma að og ræðir málin, þ.e. að reynt er að finna sem víðastan skilning á einhverju máli sem snýr að þjóðinni. Því fagnaði ég þegar ruv ákvað að halda borgarafund um loftlagsmál. Málefni sem er umdeilt meðal þjóðarinnar og kannski enn umdeildara meðal loftlagssérfræðinga, sem við Íslendingar eigum því miður eitthvað lítið af. Ég settist því fyrir framan sjónvarpið, aldrei þessu vant, til að horfa á þennan þátt og fá sem flestar skoðanir um þetta málefni. Í stuttu máli var ég fyrir vonbrigðum, eða kannski réttara að segja að mér hafi ofboðið.
Í fyrstu virtist þetta ganga ágætlega, að vísu hallaði töluvert á efasemdarmenn hamfarahlýnunar, einungis einn gegn nokkrum öðrum trúuðum. En þessi eini, fyrrum veðurstofustjóri, lét ekkert vaða yfir sig, vissi hvað hann söng.
Næsta hóp var aftur öllu erfiðara á að horfa og hlusta. Enn var einungis einn efasemdarmaður gegn mörgum trúuðum, hallinn enn sá sami. Þarna var meðal annarra einn ungur vísindamaður sem í mínum huga hefur verið meðal þeirra bestu hér á landi, Sævar Ingþórsson, líffræðingur, sem greinilega taldi sig einan vita allan sannleika um loftslag. Reyndar datt engum til hugar að spyrja hann um áhrif aukins magns co2 á lífríki. Framkoma þessa manns var vægt sagt til skammar og víst að hann er ekki lengur marktækur í mínum huga. Ekki einungis kom hann fram með hroka og yfirgangi, heldur hélt hann fram beinum lygum. Talaði um að bara ef Ísland minnkaði hjá sér kolefnislosun í takt við ESB lönd, væri stór sigur unnin. Því miður hafa lönd ESB ekki enn náð að minnka hjá sér kolefnislosun, er enn að aukast og engin merki um að það breytist. Hins vegar getur vel verið að bókhaldslega sé um einhverja minnkun að ræða, þ.e. með kaupum á kolefniskvóta, m.a. héðan frá Íslandi. Raunverulega er þó um aukningu að ræða.
Þegar þessi hópur yfirgaf sviðið var trúðurinn við Tjörnina kallaður á svið. Þá stóð ég upp og slökkti á sjónvarpinu!
Lengi má manninn reyna. Þegar maður hélt að ruv hefði náð hámarki vitleysunnar bættist enn í ruslasarp stofnunarinnar!
En hver er loftlagsváin? Hvað er það sem málið snýst um?
Enginn vildi þó beinlínis segja að um vá væri að ræða, þó margir töluðu á þann veg.
Einn viðmælenda taldi að málið snerist um langlundargeð landsmanna, blandað pólitísku ívafi. Frekar þunn skýring.
Einfaldasta skýringin eru þó peningar, loftlagsvá er haldið á lofti vegna peninga og um það snýst málið. Þetta byrjaði snemma á áttunda ártugnum, reyndar með öfugum formerkjum, þá fólst loftlagsváin í því að ísöld væri að skella á. Á níunda áratugnum snerist þetta við, enda hafði hætt að kólna og byrjað að hlýna aftur. Önnur skýring á vandanum er að mælistokkurinn sem nýttur er til verksins er rangur. Fyrir það fyrsta er upphafsmæling frá einu kaldasta skeiði ritaðra sagna, lokum litlu ísaldar. Það hitastig sem þá var er sagt vera hið eina rétta, jafnvel þó vitað sé að oftar hafi verið mun hlýrra. Í öðru lagi er sífellt meira notast við mælingar gervihnatta, í stað mælinga á jörðu niðri, jafnvel þó mikið misræmi sé gjarnan þar á milli. Og ekki má gleyma að spálíkön, þessi sem hinir trúuðu veifa mest, eru jú líkön. Líkan gerir það sem því er ætlað, þ.e. hvernig það er hannað og hvaða upplýsingum er matað í það. Með líkönum má í reynd fá hverja þá niðurstöðu sem menn vilja.
Enginn efast um að hlýnað hefur á jörðinni frá lokum litlu ísaldar. Fyrst hlýnaði hratt fram undir seinna stríð og náði hiti jarðar þá svipuðum "hæðum" og nú. Næstu fjóra áratugi kólnaði aftur, þó hitastig hafi ekki farið eins neðarlega og í upphafi tuttugustu aldarinnar. Frá 1980 til aldamóta hlýnaði aftur mjög hratt en frá aldamótum hefur hitastig jarðar staðið nokkuð í stað. Allt byggist þetta á staðreyndum mælinga á jörðu niðri og hægt að nálgast þær hjá þeim stofnunum sem nýttar eru til áróðurs hamfarahlýnunar, s.s. NOAA. Með loftlagslíkunum hefur hins vegar tekist að sýna fram á mikla hlýnun framundan og jafnvel þó spár séu leiðréttar reglulega samkvæmt raun er enn haldið áfram að birta þær. Til dæmis er búið að halda því fram í um tvo áratugi að íshellan við norðurpól muni hverfa og ef þær spár hefðu ræst væri það hafsvæði búið að vera íslaust yfir sumarið í rúman áratug. Vissulega hefur ísbreiðan minnkað en enn þarf þó að notast við fylgd ísbrjóta æski flutningaskip að sigla norðurleiðina til Kyrrahafs.
Þá er tal um bráðnun Grænlandsjökuls nokkuð fyndið. Allir vita að snjór og ís bráðnar ekki fyrr en hitastig kemst upp fyrir frostmark. Á Grænlandsjökli er hitastig yfir sumarið á milli -15 og -20 gráður. Bráðnun getur því enganvegin átt sér stað. Jafnvel í sumar, þegar svokölluð hitabylgja er fór yfir Evrópu, kom hingað og endaði síðan á Grænlandsjökli, náði hitastig þar ekki upp fyrir frostmark. En vissulega hafa jaðrar hans minnkað frá þeim tíma er þeir voru mestir, um 1900.
Hvert rétt hitastig jarðar er, er útilokað að segja til um. Mælingar úr borkjörnum hafa sýnt fram á að mestan hluta jarðsögunnar hefur hiti verið hærri en nú og víst er að í byrjun tuttugustu aldar hafði ríkt eitt kalt skeið í nokkur hundruð ár, eitt kaldasta skeið sem jörðin hefur upplifað í þúsundir ára.
Kolefni í andrúmslofti er frum skilyrði lífs á jörðinni. Hvert magn þess skal vera getur enginn sagt, þó er vitað á sumum tímum jarðsögunnar hefur það náð 8000ppm,er í dag rétt undir 400ppm. Skiptar skoðanir vísindamanna eru um hvort co2 sé orsök eða afleiðing hita jarðar. Hitt má bóka að ef það lífsefnið væri svo hættulegt sem sumir halda fram, er ljóst að við værum ekki til í dag. Þá hefði jörðin og allt líf hennar að drepast þegar magn þess efnis náði hæstu hæðum og jörðin átt að steikjast.
Stjórnvöld eru mjög trúandi á loftlagsvá, svona eins og aðrir erlendir pólitíkusar. Aðgerðir þeirra eru þó frekar ómarkvissar. Væri svo að svo mikið muni hitna á jörðinni sem sumir halda fram, ætti auðvitað að vera að vinna að því að aðlagast breyttu loftslagi. Svo er þó alls ekki, það eina sem mönnum dettur í hug er skattlagning, eins og menn haldi að hægt sé að kaupa sig frá vanda. Jafnvel umhverfisráðherrann okkar, sem er einn mesti talsmaður loftlagsvár, stundar flugferðir erlendis eins og enginn sé morgundagurinn. Þegar hann er síðan gagnrýndur fyrir þessar ferðir, segist hann kolefnisjafna þær! Hvernig, kemur ekki fram en tvær leiðir hafa verið honum hugleiknar, endurheimt votlendis og plöntun trjáa. Mjög skiptar skoðanir eru um endurheimt votlendis og telja sumir vísandamenn að það virki öfugt, að í stað þess magns af co2 sem sparast komi í staðinn metangas, 20 falt hættulegri tegund. Plöntun trjáa er góð og gild. Þó tekur nokkur ár fyrir plöntuna að ná þeim þroska að hún geri eitthvað gagn í minnkun co2. Því stendur mengun umhverfisráðherra föstum fótum um nokkur ár.
Í dag er hitastig um einni og hálfri gráðu hærra en í lok síðustu ísaldar. Hvort hiti muni aukast eitthvað meira eða hvort aftur kólnar getur enginn sagt til um í dag. Sjálfur vil ég frekar meiri hita. Í það minnsta eru mjög skiptar skoðanir meðal loftlagsvísindamanna um málið, þó vísindamenn í lygum, þ.e. stjórnmálamenn, séu nokkuð samstíga.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Kveikur
21.11.2018 | 10:05
Ég horfði á þáttinn Kveik á ruv í gærkvöldi. Seinnihluti þáttarins fjallaði um endurheimt votlendis og eins og þáttastjórnanda er einstaklega vel lagið, þá tókst henni að að koma fram með staðreyndarvillur sem gerðu umfjöllunina alla frekar ótrúverða. Eitt stóð þó uppi eftir þennan þátt, en það var sú staðreynd, sem reyndar hefur oft áður verið ritað um á þessari bloggsíðu, að endurheimt votlendis er ekki tekið gilt í orkubókhaldi þjóða, samkvæmt Parísarsamkomulaginu og ástæðan er einföld, ekki eru til marktækar rannsóknir á þessu sviði.
Það er reyndar alveg merkilegt hvaða æði gripið hefur landsmenn. Endurheimt votlendis er það sem allt snýst um. Stofnaður hefur verið svokallaður votlendissjóður og ferðast fulltrúar hans milli fyrirtækja að snapa pening í sjóðinn og auðvitað er ætlast til að ríkissjóður leggi drjúgan pening í púkkið. Allt mun þetta lenda á veskjum landsmanna, engin hætta á að fyrirtækin taki þá peninga úr arði sínum. Og ef bændur vilja vera hipp og kúl, þá kalla þeir til sjónvarpið til að taka myndir af sér við að moka í skurði, grafa jafnvel nýja til að geta mokað í þá líka.
Eins og áður segir þá tókst þáttastjórnanda að koma fram með staðreyndarvillur. Fyrir það fyrsta sagði hún að fyrstu jarðræktarlög hefðu komið fram 1923 og að í beinu framhaldi hafi runnið einskonar skurða ævintýri á landsmenn. Það er reyndar rétt hjá henni, fyrstu jarðræktarlögin tóku gildi 1923, en fyrsta skurðgrafan kom hins vegar ekki til landsins fyrr en 1942. Það liðu því 19 ár þar sem menn þurftu að grafa skurði með höndum. Það tók síðan nokkurn tíma að fjölga skurðgröfum í landinu og má segja að það hafi ekki verið fyrr en undir lok sjötta áratugar sem fjöldi þeirra varð viðunnandi. Þetta voru svokallaðir draglarar, þ.e. víraskurðgröfur. Afkastageta þeirra var lítil og í raun ekki grafið mikið meira en það sem nauðsynlega þurfti, til að mæta þróun í landbúnaði. Undir lok sjöunda áratugar komu svo vökvagröfur til landsins og má segja að þá hafi loks hafist skurðaæði, enda afkastageta þeirri margfalt meiri en gömlu víravélanna. Áratug síðar var síðan minnkað verulega styrkgreiðslur vegna framræslu og dró þá verulega úr framkvæmdum á því sviði. Í dag er nánast ekkert land framræst nema það sé tekið til ræktunnar. Þetta graftaræði sem Þóra sagði að staðið hefði yfir í nærri 80 ár á síðustu öld, stóð í reynd einungis yfir í einn áratug!
Þá var henni tíðrætt um að 70% losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi komi frá framræstu landi, reyndar jók hún stundum við og bætti svona eins og tveim prósentum við, taldi þetta alveg óumdeilt. Þessi fullyrðing er í besta falli barnaleg, fyrst og fremst vegna þeirrar staðreyndar að litlar sem engar rannsóknir eru til um þetta. Það var því gleðilegt að sjá að slíkar rannsóknir eru nú loks hafnar og að jafnvel sé hugsanlegt að mæla einnig metangas frá jarðvegi. Reyndar kom nokkuð á óvart að sjá aðfarirnar við mælinguna, en vel getur verið að tæknin sé orðin svo fullkomin að nóg sé að henda pottloki á jörðina og hafa snjallsíma í hendi. Það er þá bara hið besta mál og ætti að vera hægt að safna miklu magni upplýsinga á stuttum tíma fyrir lítinn pening. Svo er bara spurning hvort erlendir vísindamenn tak slíkar mælingar trúanlegar og hvort Parísarhópurinn er tilbúinn að taka þetta inn í kolefnisbókhald þjóða.
Það er alveg ljóst, enda kom það skýrt fram í þessum þætti, að allar fullyrðingar um magn á kolefnislosun úr framræstu landi byggja á líkum og líkönum. Þar er fyrst og fremst horft til þess að þegar land er þurrkað byrji rotnun í jarðvegi og að sú rotnun skili kolefni í andrúmsloftið. Ekkert hefur þó verið rætt um hvenær þeirri rotnun lýkur og þar með uppgufun kolefnis Það er ljóður á að þeir vísindamenn sem tjáðu sig eru fastir í þessu hugarfari, svo væntanlega munu rannsóknir þeirra byggjast fyrst og fremst á því að sanna þær fullyrðingar.
En það er fleira sem spilar inn í. Þar er auðvitað stæðst að blautar mýrar framleiða mikið magn metangass, sem talið er tuttugu sinnum verri loftegund en kolefni. Þetta þarf auðvitað að rannsaka. Þá þekkja bændur vel að gras rýrnar fljótt á túnum ef skurðum er ekki haldið við, að mun rýrari gróður er á blautu landi en þurru. Þar sem grænblöðungar eru eitt helst tæki náttúrunnar til að breyta kolefni í súrefni, hlýtur þetta skipt miklu máli.
Færum okkur aftur að skurðum. Skurðir þurfa viðhald, eigi þeir að halda landi þurru. Ef ekkert viðhald er, þá fyllast þeir sjálfkrafa, fer nokkuð eftir landi hversu fljótt. Þó er vitað að skurðir sem grafnir eru í blautu landi fyllast fyrr en skurðir í þurru landi. Þar sem flestir skurðir eru meir en fjörutíu ára gamlir, er ljóst að þeir sem ekki eru vegna túngerðar eru flestir orðnir nánast fullir af jarðvegi, hafi land ekki verið þeim þurrara þegar þeir voru grafnir. Grunnvatnsstaða þess lands er því orðið nokkuð há og vandséð að miklu breyti þó ýtt væri einhverjum jarðvegi í þá til viðbótar. Hins vegar geta skurðir staðið nokkuð vel í landi sem er nokkuð þurrt fyrir. Varla getur verið mikill ávinningur af því að fylla þá. Það eru þó einmitt slíkur skurðir sem veljast oftast til fyllingar, enda tækjakostur sem þarf við verkið oftar en ekki þungur og því erfitt að fara með hann á blautt land.
Það er gott að loks skuli vera farið að rannsaka uppstreymi kolefnis úr jarðvegi, þó vissulega betra væri ef rannsakendur væru ekki búnir að mynda sér skoðun fyrirfram. Það rýrir trúverðugleikann. Og það þarf að líta á málið heildstætt, hversu langan tíma rotnun stendur yfir, eftir að jörð er grafin, hvað mikið af metan sleppur úr blautu landi og hver geta gróðurþekja til umbreytingar á kolefni til súrefnis er. Þegar þetta allt liggur fyrir, er loks hægt að spá í hvort rétt sé að breyta þurrkuðu landi í mýrar og hvort vert sé að leggja slíka ofuráherslu á endurheimt votlendis sem nú er orðin.
Það sem þó skiptir mestu er að þegar þessar rannsóknir liggja allar fyrir, er hægt að segja til um hversu mikið af gróðurhúsalofttegundum verða til, hvernig þær skiptast og hve mikill hluti þeirra er manngerður. Það virðist nefnilega vera svo að allt skuli gert til að minnka manngerðar gróðurhúsalofttegundir, jafnvel þó slíkar aðgerðir stór auki náttúrulegar loftegundir, jafnvel margfalt hættulegri.
Það voru þó fleiri atriði í þessum þætti sem vöktu spurningar, en það var blessaður kolefniskvótinn. Fram kom að Icelandair væri að greiða einn milljarð í slíkan kvóta og að sú upphæð muni margfaldast á næstu árum. Auðvitað munu farþegar borga þá upphæð að mestu, hluti mun þó koma frá þeim sem eru með verðtryggð lán á sínu húsnæði. Þetta þótti viðmælenda bara hið eðlilegasta mál og ekki þótti þáttastjórnanda ástæða til að spyrja stóru spurningarinnar, hvert það fé færi. Ef einhver borgar eitthvað er óumdeilt að einhver annar tekur við því fé. Hvert fara þeir fjármunir?
Undir lok þáttarins hélt ég að ég hefði sofnað og að kominn væri annar þáttur um eitthvað allt annað efni, þegar einn viðmælandinn kom, með þá speki að auðvitað yrðum við að fara að framleiða allt eldsneyti á skipaflotann sjálf. Framleiða lífdísil!
Þetta kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Maður var búinn að horfa um langan tíma á umfjöllun um endurheimt votlendis þegar allt í einu var farið að tala um stórfelda ræktun. Hvernig í andskotanum ætla menn að rækta forblautar mýrar. Að ekki sé nú minnst á að jafnvel þó hver mýrarblettur landsins væri þurrkaður upp og tekinn undir ræktun lífdísils, myndi það ekki duga nema á hluta fiskiskipaflotans.
Þá er alveg með ólíkindum að alþjóðasamfélagið skuli ekki fyrir löngu verið búið að banna að land sé tekið úr matvælaframleiðslu til framleiðslu á eldsneyti, þegar ljóst er að fjölgun mannkyns mun verða gífurleg næstu ár og áratugi, með tilheyrandi þörf fyrir matvæli!!
Einhver skelfilegasta falsfrétt sögunnar
10.9.2018 | 23:01
Það er með ólíkindum að einum manni hafi tekist að fífla alla heimsbyggðina. Donald Trump er sem smákrakki við hlið þessa manns og sjálfur Kristur einungis hálfdrættingur hans. Þessi maður heitir Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna.
Al Gore ferðaðist þvers og kruss um heimsbyggðina, á sinni einkaþotu og kom fram hvar sem nægilega hátt gjald var greitt, til að boða falsfréttir sínar. Ekki leið á löngu þar til misvitrir sérfræðingar voru tilkippilegir til að taka undir málstað hans og setja einhverskonar stimpil á hann. Ein helstu rök Gore og reyndar þau einu sem hann hafði fram að færa, voru að fylgni væri milli hækkandi hitastigs og losunar ýmissa efna sem fengu viðurnefnið gróðurhúsalofttegundir. Loftegundir sem í raun eru skilyrði lífs á jörðinni.
Reyndar er það rétt hjá Gore, það er vissulega fylgni þarna á milli. Það sem honum yfirsást var að fyrst hlýnaði loftslag og við það jukust þessar loftegundir nokkru síðar, sem í raun er eðlilegt þar sem freðmýrar, einhver stæðsti geymslubanki þessara lofttegunda, þiðna upp við aukna hlýnun jarðar. Þannig slapp út gígatíst magn þessara loftegunda.
Af þessu brölti sínu varð Al Gore vel auðugur maður. Og hvað notaði hann sinn auð í? Lagði hann sitt af mörkum til minnkunar svokallaðra gróðurhúsalofttegund? Fór auður hanns til að þróa eitthvað sem gæti komið í staðinn fyrir þá orku sem nú er mest notuð? Nei, hann nýtti mest af sínu fé til kaupa á hlutafé í olíufélögum og olíhreinsistöðvum. Hann flýgur enn um heiminn á sinni einkaþotu og heldur enn fyrirlestra um falsfréttina, þar sem nóg er borgað.
Auðvitað er þetta nokkur einföldun á málinu, þó Al Gore hafi verið iðinn þá á hann ekki allan heiðurinn af falsfréttinni. Fyrsta fræi hennar var sáð í byrjun áttundu aldar, þegar Margaret Thatcher stóð í illvígum deilum við kolanámumenn. Þá fékk hún nokkra "vísindamenn" til að koma fram með þá falfrétt að kol væru stór hættuleg umhverfinu. Þetta gerði hún til að réttlæta sigur sinn í þeirri deilu, sigur sem byggði á að leggja niður flestar kolanámur í Bretlandi. Síðan þá hafa margir stjórnmálamenn notað þessa aðferð, til ýmissa verka. Enginn náði þó eins miklum árangri og Al Gore.
Í dag er staðan orðin sú að enginn hefur kjark til að mótmæla, enda búið að fjármagna heilu vísindasamfélögin til að réttlæta falsfréttina. Þó ber nokkurn skugga á að engar spár þessa svokallaða vísindasamfélags hafa staðist, enda rökvillan algjör. Stjórnmálamenn, sem flestir hugsa fyrst og fremst um eigin hag, þora ekki að mótmæla og má segja að það gildi um allan heim. Þó vissulega einhverjir þeirra séu með efasemdir, þá er kjarkurinn ekki nægur til að spyrja spurninga. Það er bara hlýtt í blindni.
En snúum okkur aðeins að kjarnanum, hlýnun jarðar. Það efast enginn um að loftslag á jörðinni hefur hlýnað nokkuð frá byrjun tuttugustu aldar, eða frá lokum litlu ísaldar. Hvert æskilegt hitastig jarðar er hefur engum tekist að upplýsa. Víst er þó að mannkynið myndi sennilega ekki vilja fá hér sama meðalhita og á síðustu öldum fyrir iðnbyltinguna. Sagan segir okkur að hitastig jarðar hefur sjaldan verið langi eins, heldur skiptast á köld og heit tímabil, allt frá mjög heitum tímabilum til alvöru ísalda. Þessar upplýsingar hafa vísindamenn fengið úr borkjörnum, m.a. á Grænlandsjökli. Þeir borkjarnar ná tugi þusund ára aftur í tímann og sýna t.d. að fyrir um 3 til 4000 árum var mjög hlýtt á jörðinni og stóð það hlýskeið yfir í nokkrar aldir. Annað hlýskeið var fyrir og um landnám hér á landi. Bæði þessi hlýskeið voru mun hlýrri en nú, jafnvel þó engir dísilbílar væru á ferðinni. Allt tal um að Grænlandsjökull muni hverfa er því hreinar falsfréttir. Það eitt að borkjarnar úr jöklinum tugi þúsund ára aftur í tímann segja svo ekki verður um villst að jökullinn lifði af þessi síðustu hlýskeið, sem við eigum enn mjög langt í land með að ná.
Eldri loftlagsfræðingar, þeir sem vinna fyrir vísindin en ekki peninga, hafa um nokkuð langt skeið haldið því fram að hitastig jarðar skýrist fyrst og fremst af tvennu. Sólinni og sporbaug Jarðar um hana. Sólgos senda hingað orku. Á ellefu ára fresti minnka sólgos og aukast síðan aftur. Þessi sveifla stækkar og minnkar af einhverjum ástæðum og vitað er að á litlu ísöld fóru sólblettir úr engi yfir í mjög litla. Um síðust aldamót var þessi sveifla hins vegar frá því að vera töluvert af sólblettum yfir í mikla. Sporbaugur jarðar er sporöskjulagaður, sem færist til á nokkrum öldum. Þessir vísindamenn telja að þegar saman kemur óvenju mikil fjarlægð frá sólu og lítil sem engin sólgos, þá kólni hratt á jörðinni og þegar fjarlægðin er lítil samhliða miklum sólgosum, hlýni. Þessi ferli geta staðið yfir í hundruð eða þúsund ár. Í versta falli kemur ísöld og í besta falli gott hlýskeið. Fram til þessa hafa þeir haldið því fram að við værum á leið í hlýskeið, sem myndi hækka hita jarðar enn frekar, en nú sjá þeir blikur á lofti og eru farnir að tala um að kólna muni á jörðinni næstu ár og áratugi. Hvort um tímabundna kólnun er að ræða eða hvort við stefnum í alvöru ísöld, er ekki enn hægt að sjá. Eitt eru þessir vísindamenn sammála um og það er að svokallaðar gróðurhúsalofttegundir eru ekki til og að mengun mannskepnunnar kemur ekki hitastig jarðar við, enda hlutur hennar svo ofboðslega lítill í heildar samhenginu. Til þess þarf eðlisfræðin að finna sér leið gegn sjálfri sér, þar sem vitað er að hlýnun jarðar leiðir til aukinna lofttegunda sem almennt ganga undir nafninu gróðurhúsaloftegundir. Því er útilokað að þær lofttegundir leiði til hlýnunar, þar sem jörðin væri þá fyrir löngu bráðnuð niður!!
Það er erfitt að hugsa sér fáránlegri aðgerðir en íslensk stjórnvöld boða nú. Að ætla að kasta fleiri milljörðum króna í súginn til þess eins að þóknast einhverjum falsspámönnum, er eins vitlaust og hugsast getur. Og hvert fara þessir peningar, hver mun græða?! Almenningur borgar, svo mikið er víst og þetta mun leiða til verri lífskjara.
Mengun, sóun og jafnvel í sumum tilfellum þurrkun mýra, getur haft slæm áhrif. Ekki þó á hitastig jarðar, heldur almennt. Því er sjálfsagt að vinna gegn slíku, en einungis á réttum forsendum. Loftmengun hefur slæm áhrif á fólk og á að minnka þess vegna. Þó er loftmengun einungis ein gerð mengunar og í heildinni ákaflega lítill hluti hennar. Stæðsta mengunarógn sem að mannskepnunni stafar nú, er af allt öðrum toga og ekkert minnst á hana í aðgerðum stjórnvalda, en það er plastmengun. Sóun er á allan hátt óafsakanleg, hverju nafni sem hún nefnist. Ekkert í þessum tillögum tekur á sóun. Þurrkun mýra getur haft slæm áhrif á fuglalíf og þess vegna á að stuðla að því að einungis land sem ætlað er til nota sé þurrkað upp. Endurheimt votlendis hefur engin áhrif á hitastig jarðar, en ef svo væri ætti frekar að stuðla að því að þurrka sem mest! Að breyta landi sem engin raunveruleg vísindi sanna að sleppi út co2, yfir í land sem sannarlega mun framleiða mikið magn af metan gasi, er auðvitað algjörlega galið! Fleira mætti telja upp sem mannskepnan þarf að laga hjá sér, en kannski er stæðsta váin sú gengdarlausa fjölgun hennar. Með sama áframhaldi skiptir ekki máli hvernig loftslag verður á jörðinni, né neitt annað. Fjölgun mannskepnunnar mun leiða af sér hrun hennar.
Þegar peningar fá að tala óáreittir, er ljóst að illa er komið. Peningar stjórna stórum hluta vísindasamfélagsins, peningar stjórna fréttamiðlun heimsins, peningar stjórna stjórnmálastéttinni. Peningarnir eru sóttir til almennings og lenda í örfáum vösum þeirra sem mesta auðinn hafa og stjórna heiminum.
Og nú hefur íslenska ríkisstjórnin stigið enn eitt skrefið í fórn þegna landsins á altari Mammons!!
https://www.youtube.com/watch?v=oYhCQv5tNsQ
![]() |
6,8 milljarðar til loftslagsmála |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hver græðir svo á þessu helví... rugli?
30.8.2018 | 11:10
Verslun með kolefniskvóta er eitthvað mesta rugl sem nokkrum manni hefur dottið til hugar. Þetta er eins og að sópa ruslinu undir teppið hjá sér.
Fyrir það fyrsta þá er stór merkilegt að örfáum einstaklingum hafi tekist að fífla alla heimsbyggðina. Þetta er gert í nafni vísinda, sem jafnvel vísindi miðalda myndu skammast sín fyrir. Að einhver faktor í andrúmslofti jarðar, agnarsmátt brot af enn minna broti, skuli geta leitt til veðurfarsbreytinga, er auðvitað algerlega út úr kú. Sá orkugjafi sem sér um að halda jörðinni byggilegri, sjálf sólin, er auðvitað þar í aðalhlutverki og ansi lítið sem mannkynið getur þar við gert.
Fyrir það fyrsta þá sýna borkjarnar m.a. úr Grænlandsjökli, sem ná tugi þúsund ára aftur í tímann, að oft hefur verið mun hlýrra á jörðu en nú. Þetta segir manni fyrst og fremst að Grænlandsjökull bráðnar ekki, jafnvel þó hitastig jarðar sé mun hærra en nú og standi yfir í nokkrar aldir. Þó fullyrða menn að jökullinn muni hverfa á innanvið einni öld, ef hitasig jarðar hækkar örlítið meira!
Í öðru lagi, ef menn leggja trúnað á þetta rugl, þá væri fróðlegt að fá að vita hvernig verslun með kolefniskvóta á að minnka losun þessa efnis. Flugvélar munu fljúga um loftin blá áfram og skip sigla um höfin. Það eina sem skeður er að viðskiptavinir flug- og skipafélaga þurfa að borga meira fyrir þjónustuna og einhverjir útvaldir fá þann pening.
Mest er þó fásinnan í þessu öllu þegar eyja norður í miðju Atlantshafi er farin að framleiða sitt rafmagn að mestu með olíu- og kolakyntum orkuverum, auk kjarnorku. Þó finnast slík orkuver hvergi á eyjunni og þarf að fara yfir 1000 km út fyrir landsteina hennar til að finna slík ver!! Þeir íbúar eyjunnar sem vilja nota vistvæna orku þurfa nú að greiða auka peninga til að svo megi vera. Og einhver út í hinum stóra heimi græðir síðan á þeim viðskiptum!
Kannski á eftir að hlýna enn frekar á jörðinni, kannski fer að kólna aftur, það mun tíminn leiða í ljós. Þar verður sólin í aðalhlutverki, ekki mannskepnan.
https://www.youtube.com/watch?v=oYhCQv5tNsQ
![]() |
Verð losunarheimilda í sögulegu hámarki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)