Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Sóðaskapur borgaryfirvalda
18.11.2020 | 21:10
Átti brýnt erindi til höfuðborgarinnar í dag. Fer helst ekki á þær slóðir að þarflitlu. Það sem kom á óvart, eftir að hafa ekið um sveitirnar í björtu og góðu veðri, var hvað skyggni var slæmt í borginni.
Við nánari skoðum sá ég, mér til mikillar undrunar, að yfir götunum lá mikið ryk, svo mikið að þegar ég leit í spegilinn sá ég að undan mínum litla bíl stóð rykský, rétt eins og ég væri að aka á malarvegi.
Er það virkilega svo að ráðafólk borgarinnar veit ekki að götur borgarinnar eru malbikaðar? Það þarf auðvitað að sópa rykið af þeim, annars má allt eins spara malbikið og hafa bara malargötur.
Við búum á Íslandi, þar sem vikur eldgosa þvælist fram og til baka, í mörg ár eftir hvert gos. Þetta ryk sest á götur borgarinnar, sem annarsstaðar og eina lausnin er að þrífa það reglulega burtu.
Ekki er hægt að kenna nagladekkjum um núna, þar sem borgarstjóri hældi sér af því að borgin væri að kosta þrif gatna í upphafi nýliðin sumars og því fáir ef nokkrir ekið þessar götur á nagladekkjum síðan. En askan spyr víst lítið hvort það sé sumar eða vetur, hún nýtir allan vind sem býðst og sest þar sem skjól finnst.
Í viðhendri frétt er fólk hvatt til að leggja einkabílnum. Mun nær er að hvetja borgaryfirvöld um lágmarks hreinlæti. Sóðaskapur og slóðaskapur er engum til sóma!
![]() |
Fólk hvatt til að leggja einkabílum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fólk á bágt ....
5.11.2020 | 16:45
Fólk á bágt sem tekur veraldleg gæði fram yfir andleg gæði.
Fólk á bágt þegar aurar eru því meira virði en líf og limir.
Fólk á bágt þegar það gerir ekki greinarmun á orsök vanda.
Þessar línur duttu í koll mér eftir lestur viðtengdrar fréttar og vegna þeirrar umræðu sem sífellt virðist vera að ná hærra í opinberri umræðu, jafnvel á Alþingi.
Það var enginn sem bað um covid19. Þessi veira stökkbreyttist og hljóp í mannskepnuna, heimsbyggðinni til stórfellds skaða. Enginn vissi í fyrstu hvernig ætti að meðhöndla þennan vágest og fáir sem í raun vissu afl hans í fyrstu. Nú, eftir að 1.234.000 manns hafa látið lífið af veirunni um heiminn, virðist þekkingin enn vera nokkuð af skornum skammti, þó vissuleg hún sé meiri en áður en veiran varð til. Mörg fyrirtæki, flest í samvinnu, vinna nótt sem nýtan dag að því að finna upp lyf gegn henni og vonandi að það verk skili árangri. Þar til er covid 19 lífshættulegur sjúkdómur.
Umræðan hér á landi er jafn forpokuð og áður, snýst um einhver smámál meðan stóri vandinn fær að blómstra. Ekki er horft út fyrir landsteinana, einungis á eigin tær. Hvað heldur það fólk að muni ávinnast ef veirunni verði sleppt lausri? Áttar fólk sig virkilega ekki á þeirri staðreynd að í öllum löndum sem við höfum að jafnaði samneyti við, eru ýmist ferðabönn eða miklar takmarkanir á ferðalögum? Ávinningur þessa yrði því lítill sem enginn.
Hitt liggur ljóst fyrir að skaðinn yrði mikill. Jafnvel þó aldraðir og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma yrðu settir í hörðustu einangrun, er ljóst sjúkrahús landsins yrðu fljót að fyllast. Samhliða því mun starfsgeta þeirra skerðast verulega og í beinu framhaldi mun fjöldi látinna aukast. Þarna erum við að tala um fullfrískt og jafnvel ungt fólk, sem heldur hjólum atvinnulífsins gangandi. Því mun atvinnustarfsemi fljótleg lamast.
Sóttvarnaraðgerðir geta vissulega dregið úr atvinnustarfsemi, um það verður ekki deilt. Þó munu slíkar aðgerðir aldrei geta valdið sama skaða og sjálf veiran, fái hún að blómstra. Með sóttvarnaraðgerðum er hins vegar hægt að lágmarka smit og halda sjúkrahúsum starfandi. Þannig má verja fleiri mannslíf og um það snýst málið. Með sóttvarnaraðgerðum má einnig halda uppi starfsemi grunnfyrirtækja landsins, þeirra sem færa okkur gjaldeyri, fyrir utan auðvitað ferðaþjónustuna, en henni verður ekki komið af stað með minni sóttvarnaaðgerðum hér á landi.
Fólk á bágt sem ekki skilur þessar einföldu staðreyndir.
Fólk á bágt sem ekki getur staðið í lappirnar þegar mest á reynir, heldur hleypur eftir því sem það telur vera sjálfu sér til mestra vinsælda.
Fólk á bágt þegar það ekki getur sýnt samstöðu þegar vá stendur fyrir dyrum.
![]() |
Tekist á um sóttvarnaaðgerðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Já Ísland, eða þannig
16.10.2020 | 00:46
Til er hópur fólks hér á landi sem kallar sig "já Ísland". Réttnefni þessa hóps ætti auðvitað að vera "nei Ísland", þar sem markmið þessa hóps er að koma Íslandi undir erlend yfirráð og skerða þannig sjálfsstæðið, eða "deila því" eins og talsmenn hópsins hafa stundum nefnt.
Ljóst er að þessi hópur ætlar sér stóra hluti í næstu kosningum. Beitt er öllum tiltækum ráðum, aflóga stjórnmálamenn og fyrrverandi ráðherrar eru dregnir upp á dekk og látnir skrif margar greinar í fréttamiðil hópsins, Fréttablaðið. Stjórnmálaflokkur hópsins, Viðreisn, lætur sitt ekki eftir liggja í umræðunni, en allir vita tilurð þess stjórnmálaflokks.
Efnisleg rök hópsins eru enn jafn ódýr og áður og jafn fá. Þar er einkum rætt um evruaðild. Notað er tækifærið þegar yfir heiminn gengur óværa sem lamað hefur allt athafnalíf, með tilheyrandi vandræðum fyrir flestar þjóðir. Þessu hefur fylgt að krónan okkar hefur lækkað nokkuð í verðgildi miðað við evruna, en þó ekki meira en svo að kannski megi tala um leiðréttingu.
Síðast þegar þessi hópur lét til sín taka hafði annað áfall gengið yfir heimsbyggðina. Ísland fór verr út úr því áfalli en margar aðrar þjóðir, enda hafði bönkunum verið komið í hendur glæpamanna, sem svifust einskis. Það hafði verið gert í krafti EES samningsins, sem Alþingi samþykkti með minnsta mögulega meirihluta án aðkomu þjóðarinnar.
Þessi hópur þagnaði þó fljótt þegar hagur landsins okkar fór snarlega að vænkast, mun hraðar en hjá öðrum löndum. Þar kom krónan okkur til hjálpar. Þá var ekki stemmning fyrir orðræðu hópsins og hann lét lítið á sér bera. Stjórnmálaflokkurinn hafði hins vegar verið stofnaður og lenti í hálfgerðri tilvistarkreppu, gat ekki talað um hugðarefni sitt og fór því að stunda popppúlisma af heilum hug. Vart mátti koma fram frétt um eitthvað sem betur mátti fara án þess að þingmenn flokksins stykkju fram í fjölmiðla eða tóku það upp á Alþingi. Það ástand varir enn.
Undanfarna daga hafa svokallaðir stjórnarskrársinnar látið mikið til sín taka. Heimta einhverja stjórnarskrá sem aldrei var samin, einungis sett mikið magn fallegra orða á blað og þjóðin spurð hvort notast ætti við þann orðaforða við gerð nýrrar stjórnarskrár. Ferlið um breytingu stjórnarskrár hófst að frumkvæði þáverandi formanns Samfylkingar, sem hafði náð því að gera formann annars stjórnmálaflokk að einum stærsta lygara þjóðarinnar, og sótt um aðild að ESB. Eitt stóð þó í veginum, en það var gildandi stjórnarskrá. Þann stein þurfti að taka úr götunni og upphófst þá eitthvert mesta sjónarspil sem um getur og stendur það enn. Allt til að Ísland geti orðið hjálenda ESB.
Á þeim tíma er já Ísland lét mest til sín taka í umræðunni, eftir hrun, voru stofnaðir nokkrir aðrir hópar þeim til andsvars. Því miður virðist lítið heyrast frá þeim í dag, þó þessi landráðahópur ríði nú röftum í fjölmiðlum landsins. Fari fram sem horfir mun sjálfstæði landsins verða að veði eftir næstu kosningar.
Því er full ástæða til að kalla upp á dekk alla þá sem unna sjálfstæði þjóðarinnar!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Það hefur aldrei verið kosið um nýja stjórnarskrá
26.7.2020 | 14:05
Sá leiðinlegi misskilningur virðis vera meðal sumra í þjóðfélaginu að hér hafi verið kosið um nýja stjórnarskrá og að meirihluti þjóðarinnar hafi samþykkt þá stjórnarskrá. Þetta er þó fjarri lagi og nokkuð grófleg mistúlkun á sögunni og sannleikanum.
Þann 20.okt, 2012 var þjóðinni boðið upp á ráðgefandi kosningu um fimm tillögur stjórnlagaráðs, auk þess sem spurt var hvort nota ætti aðrar tillögur ráðsins sem ráðgefandi fyrir Alþingi að nýrri stjórnarskrá. Því var þessi ráðgefandi kosning í 6 liðum og framsetningin þannig að nánast útilokað var að svara einum lið með já en öðrum með nei, nema því aðeins að svara fyrsta lið með nei. Þannig var í raun hægt að samþykkja einn eða fleiri af hinum fimm. Enda fór svo að fyrsti liðurinn fékk fæst atkvæði.
Á kjörskrá voru 236.911, af þeim kusu 114.570, eða 48.4% atkvæðisbærra. Af þessum 114.570 sögðu 73.408 ja við fyrsta lið í kosningunni, eða 64.2% þeirra sem kusu eða 31,7% kosningabærra.
Allar þessar upplýsingar liggja opnar á netinu og því óþarfi fyrir fréttamenn að apa lygina upp eftir öðrum.
Svo slök kosningaþátttaka, innan við helmingur atkvæðisbærra landsmanna er auðvitað ein og sér ástæða þess að útilokað er að breyta æðsta plaggi lýðveldisins. Þar þarf að koma skýrari vilji kjósenda.
Hvers vegna kosningaþátttaka um þetta mál var svo léleg má rekja til margra punkt. Hvernig staðið var að vali stjórnlagaráðs, eftir að Hæstiréttur hafi dæmt kosningu til stjórnlagaþings ólögmæta. Sú staðreynd að kosningin var einungis um fimm atriði þessarar vinnu stjórnlagaráðs, en ekki nýja stjórnarskrá. Enda slík kosning ómöguleg og brot á gildandi stjórnarskrá. Að um ráðgefandi kosningu var að ræða en ekki bindandi.
Öll þessi atriði urðu til þess að margir sátu heima, sáu ekki tilgang kosningarinnar. Má sannarlega leiða að því líkum að einmitt þeir sem á móti voru þessari vinnu stjórnlagaráðs og hvernig til hennar var spilað, hafi frekar setið heim, en þeir sem hlynntir voru verið duglegri að mæta á kjörstað.
Hver niðurstaðan hefði orðið ef mögulegt hefði verið að kjósa um þessa vinnu sem nýja stjórnarkrá og sú kosning hefði verið bindandi, vitum við aldrei. Slík kosning hefur ekki farið fram og mun ekki verða, nema því aðeins að gildandi stjórnatskrá verði breytt til að heimila slíka kosningu.
Það er ekki að ástæðulausu að þjóðir heims hafi ákvæði í sínum stjórnarskrám, sem gera breytingar þeirra þungar í vöfum. Við höfum einnig slíkt ákvæði, enda á stjórnarskrá að vera að grunni til sem mest eins, þó vissulega eilíft eigi að hafa hana í skoðun og breyta einstökum liðum eftir því sem þróun segir. Umbylting stjórnarskrár kallar á tímabil lögleysu, þar sem skilgreina þarf upp á nýtt flest grundvallar viðmið laga í landinu.
Þær breytingar sem nú eru boðaðar virðast frekar sakleysislegar, þó maður átti sig ekki á sumum þeirra. Að binda í stjórnarskrá að forseti geti ekki setið nema 12 ár er vissulega af hinu góða, en hvers vegna mátti það ekki bara vera þrjú fjögurra ára kjörtímabil? Hvers vegna tvö sex ára tímabil?
![]() |
Hyggst leggja fram stjórnlagabreytingar að hausti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kári er Kári
7.7.2020 | 08:07
Kári er Kári, ólíkindatól og engum líkur. Fyrir um mánuði móðgaðist hann við ráðherra og lá ekki á skoðun sinni þar, nú er sama staða komin upp aftur. Hótar að hætta aðkomu að skimun ferðafólks til landsins. Jafnvel sósíalisti eins og Kári gerir sér grein fyrir að fyrirtæki verða ekki rekin af manngæsku einni saman. Það þurfa að koma til tekjur.
Hitt er ljóst að ríkið er fjarri því að vera í stakk búið til að taka við keflinu af Kára. Á þeim bæ gengur allt á hraða snigilsins. Þó ÍE hafi tekist á einni viku að koma sér upp aðstöðu til skimunar er barnalegt af Kára að halda að ríkinu sé slíkt mögulegt. Þar á bæ þarf fyrst að fita sérvalda einstaklinga í nokkra mánuði í nefnd við að skoða og skipuleggja málið. Þá tekur við karp um kostnaðinn, hvernig hægt sé að láta hann líta sem best út. Að því loknu er loks hægt að huga að framkvæmdum og þar sem áætlanir ríkisins standast nánast aldrei, mun verkið verða mun kostnaðarsamara en ætlað var og taka mun lengri tíma. Corónaveiran mun verða komin í sögubækur þegar loks allt er klárt til skimunar.
Einfaldast, skilvirkast og best er að ríkið semji við Kára og greiði ÍE fyrir verkið. En þar stendur hnífurinn í kúnni, skoðanasystir hans, sósíalistinn Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, getur ekki með neinu móti kyngt því að greiða fyrir aðkeypta þjónustu einkafyrirtækis. Það er svo sem í lagi, í hennar huga, að þiggja slíka hjálp ókeypis, en að greiða fyrir hana er andstætt pólitískum hugsanahætti hennar.
Reyndar ætlaði ég ekki að skrifa um Kára, Svandísi eða þeirra sósíalísku hugsjónir, þó vissulega fróðlegt sé að bera þær saman. Pistillinn átti að vera um viðtengda frétt af mbl.is. Fréttamaður býr til heila frétt um tíst einhverra misviturra manna á Tvitter, eins og þar sé öll vitneskja heimsins geymd. Í fyrirsögninni spyr hann hvort Kári sé on eða off og vitnar þar til tísts eins kollega síns.
Kári er hvorki on né off, Kári er bara Kári.
![]() |
Er Kári on eða off? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Borgarlína og plast
30.6.2020 | 09:50
Enn hefur gengið erfiðlega að fá skilgreiningu á hvað svokölluð borgarlína er. Margar hugmyndir hafa komið fram en í raun með öllu óvitað að hverju er stefnt. Þó hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að þetta sem enginn veit hvað er mun kosta mikla peninga, reyndar ekki enn á hreinu hversu mikla en þó aldrei undir 80 milljörðum íslenskra króna, sennilega þó mun meira.
Það er því snjallt hjá þingmönnum að afsala sér þessari óvissu allri og stofna bara opinbert einkahlutafélag um málið. Þeir þurfa þá ekkert að pæla meira í því. Enn betra er þó að þetta opinbera einkahlutafélag mun fá völd til skiplagningar umferðarsvæða og fjáröflunar þannig að þingstörf verða enn léttari. Þeir geta þá snúið sér að merkari málum, eins og að rífast um hvernig fatnað þeir klæðast, hvort klukkan sé rétt eða hver eigi að stjórna hverri nefnd, sem sumar hverja verða þá væntanlega einnig verkefnalausar.
Umboðslausi ráðherrann fagnar, bæði því að þurfa nú ekki lengur að pæla í svokallaðri borgarlínu og einnig hinu að nú skal bannað að selja áakveðnar tegundir af plasti. Þar er viðmiðið hvort viðkomandi plastvara finnst á stöndum meginlands Evrópu.
Í flestum tilfellum er plast nytsamlegt og sumum tilfellum getur annað efni illa komið í staðinn. Það er hins vegar umgengnin um plastið sem er vandamál, þ.e. eftir að upphaflegu notkun er lokið. Þar má vissulega taka til hendinni. Það er þó ekki sjáanlega plastið sem er verst, þó það sé slæmt. Örplastið, þetta ósýnilega, er mun verra. Það finnst víða og einhver mesti örplastframleiðandinn í dag eru vindmillur. Spaðarnir eyðast upp á undarlega skömmum tíma þó enginn sjái hvað verði um það plast. Ástæðan er augljós öllum sem vilja, það verður að ósýnilegu örplast.
En Mummi umboðslausi hefur ekki áhuga á því, hann horfir bara til stranda meginlands Evrópu og það sem á þær rekur skal banna.
![]() |
Borgarlínan verður að veruleika |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Skimun ferðamanna
6.6.2020 | 08:26
Í síðustu viku var Kári Stefánsson boðaður til yfirheyrslu hjá fréttastofu ruv, nánar tiltekið í kastljósþátt. Nokkur umræða varð eftir þáttinn og þótti sumum Kári vera ókurteis en öðrum að rannsóknaraðili kastljóss hafi sýnt dónaskap. Um þetta gátu fólk og fjölmiðlar karpað í nokkra daga, með miklum hávaða og látum. Sjálfum fannst mér báðir aðilar koma nokkuð vel frá þættinum, Kári sagði sína meiningu að vanda og þó spyrillinn hefði sagt hann ruglaðan er það staðreynd sem flestir landsmenn vita. Umræðuefni þáttarins var skimun farþega við komu til landsins.
Það sem þyngst vó þó í ummælum Kára hefur farið hljótt, en það er sá kostnaður sem slík skimun kallar eftir. Fáir eða engir fjölmiðlar hafa fjallað um þetta og alþingi ekki neitt. Samkvæmt ummælum Kára ætti slík skimun að kosta eitthvað nálægt 3.500 kr/stk, miðað við að allur búnaður yrði keyptur nýr og afskrifaður á mjög stuttum tíma. Þá hafði nýlega komið fram skjal frá einhverri nefnd heilbrigðisráðherra sem taldi slíka skimun kosta um 50.000 kr/stk. Þarna er himinn og haf í milli og með ólíkindum að alþingi hafi ekki leitað upplýsinga um málið. Hvar var Björn Leví? Hann hefði getað kastað fram svon eins og einni fyrirspurn um málið!
En nú hefur kostnaður við skimun á Landspítalanum verið endurreiknuð og talin losa 20.000 kallinn. Enn hefur Kári ekki gefið út nýja tölu svo 3.500 kr/stk stendur þar sjálfsagt enn. Ráðherra hefur gefið út að ferðamenn sjálfir verði að greiða 75% af kostnaði við sýnatökuna, miðað við kostnað hennar hjá Landspítalanum og við sem ekki förum um landamærin 25%, en það er ég ekki tilbúinn til að gera. Miðað við kostnaðinn hjá Kára eiga ferðamenn hins vegar að greiða 450% umfram kostnað!
Ferðaþjónustan heldur því fram að 15.000 króna gjald fyrir slíka skimun sé allt of hátt og auðvelt er að vera því sammála. Það er ljóst að sumum ferðamönnum þykir þarna vera langt seilst. Margir munu þó ekki láta þetta skipta máli, enda 15.000 kr lítill hluti af heildarkostnaði þeirra sem sækja okkar land, sér í lagi ef það nýtir sér þá hótel og veitingaþjónustu sem hér er í boði.
Hitt er ljóst að einhverjar stýringu þurfum við að hafa, a.m..k. fyrst um sinn. Þar gæti skimun verið ágæt. Ekki er þó í boði annað en að ferðafólk sjálft greiði þann kostnað. Lausnin gæti legið í því að áður en ferðamaðurinn stígur um borð í flugvélina erlendis þá velji hann hvort hann vilji fá skimun frá Kára, upp á 3.500 kr, eða hvort hann vilji frekar borga um 20.000 kr fyrir skimun frá Landspítalanum. Ljóst er að flestir myndu auðvitað velja ódýrari kostinn. Það mun leiða til þess að stutt biðröð yrði hjá skimurum Landspítalans og því gæti þeir sem það vilja greitt meira og fengið hraðaðri afgreiðslu. Ekki kæmi króna úr ríkiskassanum og allir yrðu ánægðir.
![]() |
Bókanir frá Skandinavíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Að eyða fé eða nýta það
25.4.2020 | 20:00
Það er gott þegar þingmenn átta sig á að ekki er hægt að eyða sömu peningum tvisvar. Hins vegar er umhugsunarefni að þingmaður skuli þurfa að opinbera þessa visku sína, visku sem öllum almenning hefur verið ljós frá því mannskeppna fór að höndla með mynt.
Svo er aftur spurning hvort þurfi að eyða þessum peningum yfirleitt og vissulega er um eyðslu þar að ræða. Vandi íslenskra fjölmiðla kemur kórónuveirunni lítið við, var kominn löngu áður. Réttara væri að skoða hvers vegna þessi vandi er til kominn og leysa hann frá þeim enda.
Fjölmiðlar hafa tekjur sínar fyrst og fremst af auglýsingum og ekki að sjá að þeim hafi fækkað mikið við veiruna. Hitt er ljóst að auglýsingamarkaður hér á landi er takmarkaður og því fleiri fjölmiðlar sem eru starfandi, því lægri tekjur eru í boði fyrir hvern og einn. Fjöldi fjölmiðla hér á landi er nægur, reyndar meiri en eftirspurn. Kannski er vandinn einmitt þarna, að fjölmiðlar eru of margir, kannski þarf bara að fækka þeim. Það er best gert með því að láta þá falla sem minnst eftirspurnin er eftir. Ef þingmenn telja að með því að eyða 400 milljónum til fjölmiðla, tala ekki um 750 milljónum, eru þeir ekki að átta sig á vandanum. Slík eyðsla mun einungis kalla á enn fleiri fjölmiðla og enn meiri eyðslu ríkissjóðs.
Það er nokkur munur á að eyða fé eða nýta það. Þarna er klárlega verið að eyða fé ríkissjóðs, engum til gangs nema eigendum fjölmiðla. Nær væri að nýta þetta fé til hjálpar fórnarlömbum veirunnar og þar af nógu að taka. Atvinnuleysi hér á landi hefur náð nýjum hæðum og ekki útlit fyrir að það muni batna næstu misseri eða ár. Fjöldi fjölskyldna mun eiga um sárt að binda. Tekjuöflun þjóðarinnar mun falla um tugi prósenta og vandséð hvernig við ætlum að halda uppi því velferðarþjóðfélagi sem við höfum vanist síðustu ár.
Þegar svo árar er alger fyrra að eyða hundruðum milljóna króna til að halda uppi ofvöxnu fjölmiðlaumhverfi!
![]() |
Þú eyðir ekki sömu peningunum tvisvar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Guð blessi þjóðina
21.4.2020 | 21:13
Enn standa stjórnvöld við drullupollinn og pota í hann með priki. Engin áform virðast vera að reyna að ausa drullunni úr honum, svo fært verði yfir.
Lán með 100% ríkisábyrgð hljómar vel. En þegar lengra er lesið verður ljóst að þessi aðgerð mun gagnast fáum. Fyrir það fyrsta eru settar hömlur á það hverjir geta fengið slíka ábyrgð og í öðru lagi er sú upphæð sem boðist er til að ábyrgjast svo lág að engu mun breyta. 6 miljóna hámark til fyrirtækja sem enga innkomu hafa fengið í nokkrar vikur og fyrirséð að enga innkomu munu fá næstu mánuði, gerir ekkert gagn. Því má ljóst vera að flest eða öll þau lán sem tekin verða með slíkri ábyrgð munu lenda á ríkissjóð. Fyrirtækin fá einungis örlitla lengingu í hengingarólinni, sem að lokum mun strekkjast að.
Þessi viðbót við áður boðaðar aðgerðir munu því litlu breyta. Þær eru flestar byggðar á frestun greiðslna eða aukinni lántöku. Fyrir flest fyrirtæki í ferðaþjónustu er aukin lántaka bjarnargreiði. Frestun skattgreiðslna mun einnig koma í bak fyrirtækja, enda kemur þar að skuldadögum.
Fjármálaráðherra telur að kostnaður ríkissjóðs vegna veirunnar muni geta numið allt að 250 milljörðum króna. Ekki mun sá kostnaður þó hljótast af aðgerðum stjórnvalda, heldur aðgerðarleysi og líklegt að með sama aðgerðarleysi muni tapið verða mun meira.
Fram til þessa hefur verið einblínt á að hjálpa fyrirtækjum landsins, þó ekki hafi stjórnvöldum auðnast að finna til þess neinar virkar leiðir. Það er í sjálfu sér góðrar gjalda vert að huga að því að halda uppi atvinnu fyrir fólkið, en eins og áður sagði hefur stjórnvöldum ekki tekist vel til við það verk. Nú þegar eru 50.000 manns komnir á atvinnuleysisbætur.
En það er til lítils að bjarga fyrirtækjum landsins, ef ekki er hugað að því að gera fólki kleyft að búa hér áfram. Þó fjármálaráðherra átti sig ekki á þeirri einföldu staðreynd, sem allt hugsandi fólk skilur, að sú kreppa sem er að skella á okkur og allri heimsbyggðinni, muni leiða til verðbólgu af stærðargráðu sem ekki hefur sést hér á landi í nærri hálfa öld, er ljóst að svo mun verða. Flest heimili landsins eru undir hæl bankanna og skulda í sínum fasteignum. Verðtryggð lán munu stökkbreytast og svo mun einnig verða með óverðtryggð lán, þar sem vextir þeirra eru í flestum tilfellum bundnir með einum eða öðrum hætti við verðtrygginguna.
Ákalli hagsmunasamtaka heimilanna um að verðtrygging yrði fryst meðan stærsti skaflinn skellur yfir, svaraði ráðherrann að "slíkt væri flókið og að viðtakandi væri á hinum endanum". Frekar ósmekklegt svar sem segir manni að ráðherra gefur skít í fólkið.
Það er fjarri því að það sé flókið að frysta verðtrygginguna, reyndar ekki heldur flókið að afnema hana, ef því er að skipta. Það kostaði eina undirskrift að setja hana á á sínum tíma, var þá sett á bæði lán og laun. Þrem árum síðar var með einni undirskrift afnumin verðtrygging launa og því ætti ekki að kosta meira en eina undirskrift að afnema verðtryggingu lána. En það var ekki afnám verðtryggingar sem HH fór fram á nú, einungis frystingu á meðan stærsti skaflinn gengur yfir. Að koma í veg fyrir að sömu mistök yrðu gerð nú og voru gerð haustið 2008, með skelfilegum afleiðingum. Og það er mikið rétt hjá ráðherranum, það er viðtakandi á hinum endanum, "hinir ósnertanlegu" þ.e. lífeyrissjóðirnir og bankarnir. Í bókum sínum segjast lífeyrissjóðirnir eiga um 4.000 milljarða króna, fjárhæð sem erfitt er að gera sér í hugarlund, reyndar svo há að marga tugi tæki þá að tæma bækur sínar með greiðslum lífeyris, þó engar tekjur væru. Tveir af þrem bönkum landsins eru að stærstum hluta í eigu ríkissjóðs, sá þriðji í erlendri eigu. Frá hruni hafa þeir hagnast um hundruð milljarða hver.
Það er nokkuð magnað hvaða tök lífeyrissjóðir og bankar hafa á stjórnvöldum og skiptir þar litlu máli hvaða flokkar eru við stjórn. Frysting verðtryggingar mun að sjálfsögðu minnka tekjustreymi þeirra um einhvern tíma, en sú upphæð er þó smámunir miðað við allur sá austur spákaupmennska stjórna þeirra hefur dregið út úr þeim. Þá ætti sjálfur fjármálaráðherra að átta sig á að stór hluti þeirra fjármuna sem lífeyrissjóðir telja sig eiga, eru í raun eign ríkissjóðs.
Haustið 2008 bað þáverandi formaður Sjálfstæðisflokks guð að blessa þjóðina. Núverandi formaður er greinilega á öðru máli!
![]() |
Lán með 100% ríkisábyrgð fyrir minni fyrirtæki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Rekstrargrundvöllur Íslands
14.2.2020 | 06:48
Hvernig í ósköpunum gat það gerst að þessi kona gat orðið ráðherra? Það örlar ekki fyrir einföldustu skynsemi hjá henni.
Þegar eitt af stærstu fyrirtækjum landsins gefur það út að grundvöllur þess sé fallinn og eina sem gæti komið í veg fyrir lokun þess sé upptaka á raforkusamningi, segir ráðherra að ekki sé tímabært að skoða hvaða áhrif það hefur fyrir þjóðfélagið að af þeirri lokun verði! Og þegar forsvarsmenn leita ásjár hjá ráðherra, vegna þvermóðsku forstjóra Landsvirkjunar, vísar hún þeim á dyr og segir að þarna sé um samning milli tveggja fyrirtækja að ræða. Vísar þeim í fang þess er setti snöruna um háls þeirra! Hvers vegna heldur ráðherra að leitað hafi verið til hennar? Áttar hún sig ekki á þeirri einföldu staðreynd að búið er að reyna að ná sambandi við þann sem heldur um hinn enda snörunnar?
Forsætisráðherra komst þó örlítið betur frá málinu, talaði um að skoða þyrfti samkeppnisgrundvöll stórfyrirtækja á landinu. Væntanlega á hún þar við að með því að setja málið í nefnd muni það lagast.
Það er ekki stór mál að skoða samkeppnisgrundvöll fyrirtækja, meðan tekjur eru lægri en gjöld er grundvöllurinn ekki til staðar. Svo hefur verið hjá Ísal frá því að nýr orkusamningur tók gildi við það fyrirtæki landsmanna sem selur því orkuna. Því er ljóst að grundvöllurinn er brostinn, verði ekki að gert hið bráðasta.
Frekar ætti að skoða hver rekstrargrundvöllur Íslands er, falli stóriðjan. Fyrsta fyrirtækið í fallinu verður Ísal, Elkem er skammt á hælum þess og Norðurál mun fylgja í kjölfarið. Bara við það eitt að missa Ísal mun skerða rekstrargrundvöll Íslands niður fyrir það level er afætur þjóðarinnar í 101 þola. Að ekki sé nú talað um rekstur grunnþjónustunnar. Enn verra verður ástandið þegar fleiri falla. Það er nefnilega enginn annar kaupandi af orkunni, svo einfalt sem það er!
Þá má ekki gleyma þeim sem beinlínis lifa á þessum fyrirtækjum, starfsmenn þeirra og minni fyrirtæki sem þjóna stóriðjunni. Þarna er verið að tala um fleiri þúsund manns sem munu missa sitt lífsviðurværi.
Landsvirkjun er í eigu landsmanna, Alþingi ber ábyrgð á fyrirtækinu og skipar stjórn. Stjórn þess ræður síðan forstjóra. Framkoma og framferði forstjórans ber þó ekki merki þess að um fyrirtæki landsmanna sé að ræða, hann hagar þvert á vilja eigenda, en sjálfsagt vel studdur stjórn Landsvirkjunar. Enda ekki ónýtt að hafa þar næst sér lögfræðinginn "góða" sem stjórnaði kjararáði. Þegar síðan forstjórinn og stjórnarformaðurinn verða búnir að rústa þessu gullepli landsmanna, setja það á hausinn vegna þvermóðsku við stærstu orkukaupendurna, munu þeir sjálfsagt fá væna starfslokasamninga!
Stjórnvöld verða að vakna, þau verða að grípa inní áður en lengra er haldið. Taka völdin af stjórn Landsvirkjunar og forstjóra þess. Ef lagabreytingu þarf til verksins á einfaldlega að breyta þeim lögum strax!
Við erum þegar komin með annan fótinn fram yfir bjargbrúnina. Þökk sé misvitrum forstjóra Landsvirkjunar og kjark- og getulausum ráðherrum ríkisstjórnarinnar!!
![]() |
Hættum nú að tala þetta niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)