Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Siðapostular
20.4.2022 | 15:48
Sala ríkisins á hlut úr Íslandsbanka hefur verið harðlega gagnrýnd og ekki að undra. Þar virðist allt hafa farið á versta veg, kannski ekki nein lög brotin en klárlega siðferðislegt skipbrot. Margir bera þar ábyrgð, þó auðvitað spjótin standi mest á þeim er falið var að gæta þessarar eignar kjósenda, fjármálaráðherra.
Það hafa margir siðapostular stigið fram vegna þessa máls, sumir halda sig við efnislega gagnrýni meðan aðrir nýta sér þetta til að upphefja sjálfa sig. Það er lítið minni ljóður, sér í lagi þegar viðkomandi voru í aðstöðu til að benda á ágallana á fyrri stigum. Voru jafnvel í fjárlaganefnd og gáfu þar sitt leyfi fyrir gjörningnum!
Meðal þeirra siðapostula sem hátt hafa látið vegna málsins er Kristrún Frostadóttir, vonarbiðill til formanns Samfylkingar. Það er nokkuð magnað hvað hún hefur verið iðin við að gagnrýna söluferlið og þann gróða er sumir gátu náð sér í gegnum það, á einni nóttu. Sjálf stundaði hún svipað peningaplott er hún starfaði hjá Kvikubanka, hagnaðist þar um marga tugi milljóna, nánast á einni nóttu. Vissulega var hún þá ekki þingmaður, heldur einungis fjármálamaður af hörðustu gerð. Nú situr hún á þingi og gagnrýnir aðra fyrir sömu sakir, Kristrún þingmaður situr í fjármálanefnd. Þar samþykkti hún að færa bankasýslunni það vald að selja hlut í Íslandsbanka, án athugasemdar.
Það má gagnrýna marga fyrir þessi óhæfuverk er sala á hlut ríkisins í bankanum var. Hellst ber að gagnrýna þá þingmenn er samþykktu söluna án viðeigandi leiðbeininga, núverandi fjármálanefnd fyrir að samþykkja söluna án þess að vita hvernig staðið yrði að henni, fjármálaráðherra og ríkisstjórn fyrir sömu sakir og svo auðvitað bankasýsluna sem telur sig geta hagað sér sem svín. Allt það fólk sem hér er nefnt ber ábyrgð á ósköpunum og ekkert af því hefur burði eða getu til gagnrýni, jafnvel þó verið sé að vinna sér prik til formanns í stjórnmálaflokki.
Í kjölfar bankahrunsins 2008 var gerð stór og efnismikil skýrsla um aðdraganda hrunsins. Þar var ein hellst niðurstaða sú að stjórnvöld og Alþingi hefði ekki sinnt eftirlitsskyldu sinnu. Þessi bankasala nú er skólabókardæmi þess að eftirlitsskyldan var vanrækt. Hafa stjórnmálamenn ekkert lært? Það eru vissulega nokkur ár liðin frá hruni, en það hlýtur að vera lágmarks krafa að þeir sem bjóða sig fram til starfa á þingi muni nokkur ár aftur í tímann!
Nú hafa stjórnvöld ákveðið að leggja niður bankasýsluna, vegna málsins og bankasýslan hefur viðrað að láta sína ráðgjafa gjalda sökina. Enginn á þó að bera sjáanlega ábyrgð og engum er ætlað að gjalda þjóðinni tapið. Siðapostularnir eru þó duglegir að pota sér áfram og aurapúkarnir blessa Mammon.
Það er einungis eitt í stöðunni, þingmenn verða að endurnýja umboð sitt frá þjóðinni. Þá ættu kjósendur aðeins að rifja upp það sem áður hefur farið fram á Alþingi, um þetta mál. Hvernig málflutningurinn var, hverjir stóðu mest á móti sölunni og hverjir voru áhugasamastir um hana. Hvaða aðrar leiðir var bent á til lausna málsins, hvernig þingmenn tóku í þá lausn og hvaða áhrif sú lausn hefði haft fyrir þjóðina. Þá er einnig hollt fyrir kjósendur að kynna sér og þekkja sögu þeirra sem bjóða sig fram til starfa á Alþingi, s.s. hvort þeir eru hluti þeirrar elítu sem skirrist ekki við að þiggja skjótfenginn gróða í fjármálafyrirtækjum, af því þeir hafa aðstöðu til þess. Það er svo sem lítið við því að segja þó fólk nýti sér sína aðstöðu til skjótfengins gróða, hjá einkafyrirtækjum, en slíkt fólk á ekki erindi á Alþingi og getur síst allra gagnrýnt aðra fyrir sömu sakir!
![]() |
Kristrún telur spillingu mögulega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bankarán og pólitískt nef
11.4.2022 | 13:31
Í skjóli nætur var stór hluti eigna ríkisins í Íslandsbanka seldur. Hvernig staðið var að sölunni hefur verið gagnrýnt. Þar eru tvö atriði sem standa uppúr, verðlagningin á hlutabréfunum og val á kaupendum. Nú vilja sumir ráðherrar þvo hendur sínar af þessum gjörning. Vandséð er hvernig þeim mun takast sá þvottur. Ekki er hægt að sjá lagaleg rök fyrir því a' láta gjörninginn ganga til baka, enda sumir "fagfjárfestar" þegar búnir að leysa út sinn hagnað af kaupunum, með því að selja bréfin þriðja aðila.
Í fyrstu minnti þessi gjörningur bankasýslunnar nokkuð á árin fyrir hrun, en þegar fjármálaráðherra, í trássi við bankasýsluna, opinberaði kaupendahópinn rak mann bókstaflega í rogastans. Þarna voru samankomnir fyrrum bankaræningjar landsins, er settu landið bókstaflega á hausinn fyrir einum og hálfum áratug. Menn sem höfðu og hafa sjálfsagt enn, ítök í flesta stjórnmálaflokka landsins. Þar eru fáir undantaldir, þó almenningur vilji gjarnan spyrða Sjálfstæðisflokk við þessa menn. Þá má alveg minna á að einn helst andstæðingur þess flokks, til áratuga, var einn af afkastameiri bankaræningjum fyrir hrun og hans nafn poppar upp á þessum lista yfir kaupin nú.
En aftur að sjálfri sölunni. Þegar Alþingi samþykkti sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka voru leiðbeiningar þingsins vægast sagt litlar. Þó voru umræður nokkrar um málið, en á endanum var fjármálaráðherra nánast falið einræði um hvernig að þessu skyldi staðið. Nokkuð hefur vafist fyrir ráðherranum aðferðarfræðin, fyrst vegna þess að talið var of nærri kosningum til að framkvæma verkið, flokkur hans gæti misst atkvæði. Síðan eftir kosningar og BB var áfram fjármálaráðherra, fór hann að hreifa málinu. Strax kom í ljós að hvorki þingið né þjóðin var á því að selja strax. Ekkert lægi á auk þess sem ekki væri ljóst hvernig standa ætti að sölunni.
BB var þarna kominn í vanda. Mjög var legið á honum að koma málinu af stað, af þeim sem sáu sér þarna leik á borði. Þá var bankasýslan mjög áfjáð í að klára málið. Leikmaður veit auðvitað ekki hvað fram fer á fundum ríkisstjórnarinnar en ljóst er að þar var ekki eining um söluna, jafnvel þó hún hafi verið ítrekuð í stjórnarsáttmálanum. Því fóru að heyrast frá ráðherra ýmsar skýringar um hvernig standa skildi að þessari sölu. Í fyrsta lagi átti að bjóða hlutabréfin út, í öðru lagi var fallið frá dreifðri eignaraðild og velja skyldi svokallaða fagfjárfesta til kaupanna, fjárfesta sem væru að hugsa um kaupin til lengri tíma.
Fjármálaráðherra tók síðan af skarið og fól bankasýslunni að hefja undirbúning sölunnar. Lítið heyrðist um tíma af málinu, en svo bárust óvæntar fregnir af því að salan hefði farið fram, á einni nóttu. Seldur hafði verið 22,5% af heildareign bankans og að verðið var 117 krónur á hlut, nokkuð undir markaðsverði. Strax þarna varð ljóst að eitthvað var ekki að ganga upp í þessu dæmi. Að hægt skuli vera að selja 22,5% í banka á einni nóttu er útaf fyrir sig ótrúlegt. Þá var einnig séð að um töluvert undirverð var að ræða.
Upphófst nú mikil gagnrýni á söluna, réttilega. Ekki einungis að verðið væri undir markaðsverði, heldur reyndist útilokað að fá að vita hverjir kaupendur voru. Þegar svo BB ákvað að opinbera lista yfir kaupendur, í trássi við bankasýsluna, var eins og þyrmdi yfir mann. Þarna voru helstu aðalleikarar hrunsins komnir, ljóslifandi. Það fyrsta sem manni datt í hug hvað það væri sem skilgreindi fagfjárfesti frá öðrum fjárfestum. Er skilyrði að fjárfestir þurfi að svíkja, stela, vera dæmdur um fjársvik eða eitthvað í þeim dúr til að geta kallast fagfjárfestir? Eða er kannski bara nóg að vera "vinur" réttra aðila? Á listanum voru menn sem höfðu fengið dóma fyrir fjársvik og jafnvel voru þarna menn sem enn eru í meðferð dómstóla!
Í viðtali við fjölmiðla hélt starfsmaður bankasýslunnar því fram að ekki hefði komið krafa frá ráðherra um að kanna hvort bjóðendur væru heiðarlegir, eða hvort þeir hefðu gerst brotlegir við lög. Hvers konar fáviska er þetta hjá manninum?! Í hvaða heimi býr slíkt fólk sem lætur þannig orð frá sér? Bankasýslunni er falið að selja eign landsmanna, upp á upphæð sem almenningur á erfitt með að setja í samhengi og stofnunin telur sig ekki þurfa að kanna bakgrunn kaupenda!
Öll atburðarás þessarar sölu er hrein skelfing. Þetta er í þriðja sinn sem ríkið selur banka sína og klárlega sú allra skelfilegust, sér í lagi vegna þess að við höfum söguna til að leiðbeina okkur.
Ef við greinum þetta örlítið, út frá því sem ráðherra sagði fyrir söluna. Hlutur ríkisins er boðin út. Þegar eitthvað er boðið út mætti ætla að tilvonandi kaupendur bjóði í hlutinn og sá sem hæst býður hljóti hnossið, svo fremi hann uppfylli kröfur til kaupenda. Þarna ákveður hins vegar seljandi verðið fyrirfram og að auki setur það lægra en markaðsvirði. Þetta er því ekki útboð heldur bein sala. Í öðru lagi talaði ráðherra um að valdir yrðu fagfjárfestar, að það myndi tryggja langa eigu þeirra í bankanum. Þegar listinn var opinberaður kom hins vegar í ljós að yfir 40% sölunnar féll til einkafjárfesta. Lífeyrissjóðir, verðbréfasjóðir og erlendir langtímasjóðir, allt sjóðir sem reikna má með að séu að fjárfestar til lengri tíma, fengu einungis tæp 60%. Síðan hefur komið í ljós að innan þess hóps sem kallast erlendir langtímasjóðir, eru bara alls ekki neinir langtímasjóðir, heldir sjóðir sem spila spákaupmennsku frá degi til dags. Því má ætla að langtímafjárfestar í þessu útboði séu mun færri en ætlað er, jafnvel undir 50%. Þá hefur einnig komið í ljós að margir þeirra einkafjárfesta er kauptu í bankanum hafa þegar tekið út sinn hagnað af sölunni.
Það sem þó kemur mest á óvart varðandi þessa sölu í bankanum, er hversu pólitískt nef fjárnálaráðherra er gjörsamlega kol stíflað. Það hefur legið fyrir lengi að lítil sátt er um sölu á eignum ríkisins í bönkunum. Þar kennir sagan okkur. Því var sölunni frestað á síðasta kjörtímabili, taldist of skammt til kosninga til að offra þannig atkvæðaveiðum. Nú eru einungis örfáar vikur til næstu kosninga. BB hefði mátt vita að salan yrði gagnrýnd, jafnvel þó sú skelfing sem nú blasir við hefði ekki orðið. Því er með ólíkindum að hann skuli færa vinstriöflunum þetta beitta vopn, skömmu fyrir borgarstjórnarkosningar. Dagur hlýtur að kætast.
Það er ljóst að Íslandsbanka var rænt. Þar ber bankasýslan auðvitað stærstu ábyrgð. Framkvæmdin var þeirra og fjarri því sem um var rætt af yfirmanni þeirra, fjármálaráðherra. Auk þess sem bankasýslan hleypir inn í söluna dæmdum fjárglæframönnum, jafnvel mönnum sem enn eru í meðferð dómstóla. Fjármálaráðherra ber einnig mikla ábyrgð. Hann stóð ekki vaktina fyrir þjóðina, eins og honum ber. Hann virðist ekki hafa farið yfir málið áður en hann gaf bankasýslunni vald til að rita undir söluna. Reyndar vandséð að ráðherra hafi heimild til að útdeila slíku valdi til embættismanna. Ráðherra hlýtur að þurfa að rita eigin hendi undir sölu eigna ríkisins upp á tugi milljarða króna.
Aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar bera sömu ábyrgð og fjárnálaráðherra. Þeir geta gasprað, en ábyrgðina bera þeir.
Það er gott að vera bara fávís kjósandi. Að þurfa enga ábyrgð að bera á því að sumum sé hyglað -- nema auðvitað að borga fyrir herlegheitin!
![]() |
Óeining í ríkisstjórn um bankasölu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fúafen
9.4.2022 | 00:47
Í síðustu færslu fór ég aðeins inná fróðlega grein í Bændablaðinu, er kom út þann 7. apríl. Sú grein er rituð af sjö sérfræðingum, hverjum á sínu sviði og fjallar um rannsóknir á losun co2 úr jörðu.
Svo virðist sem stjórnvöld hafi látið teyma sig út í fúafen, í orðsins fyllstu merkingu. Þeir sem lenda í slíku feni hafa um tvo kosti að velja, að snúa aftur á fast land, ellegar að halda áfram út í fenið. Síðari kosturinn hefur aldrei gengið upp, en með því að snúa til baka má finna greiðfærari og öruggari leið að markmiði sínu.
Til að því sé haldið til haga þá nefna sérfræðingarnir oft í sinni grein að efla þurfi rannsóknir á sviði losunar co2 úr jarðvegi. Þar kemur hellst til að niðurstaða þeirra er í svo hrópandi ósamræmi við viðhafðar skoðanir um málið, skoðanir sem ekki byggjast á rannsóknum heldur fyrirfram ákveðinni niðurstöðu. Þarna munar allt að 88.6% á viðhafðri skoðun á og niðurstöðum rannsókna! Þessu munur er svo hrópandi að engu tali tekur og þó er þarna einungis verið að ræða losun á co2 úr jarðvegi, ekki tekið tillit til þess að þurrkað land hefur mun þykkari og betri gróðurþekju grænblöðunga, sem jú eins og allir vita, vinna stöðugt að því að binda kolefnið úr co2 og skilja einungis súrefni þess eftir í andrúmsloftinu. Co2 er jú ein eining kolefnis á móti tveim einingum af súrefni. Fróðlegt væri að vita hver heildarlosun er frá jarðvegi ef þetta er einnig tekið með í jöfnuna.
Þarna er ekki um neitt smá mál að ræða, fyrir okkur sem þjóð. Standist þessar rannsóknir getum við náð losunarmarkmiðum stjórnvalda og gott betur, með því einu að endurreikna losun co2 úr jarðvegi, til samræmis við raunveruleikann. Við gætum með því einu minnkað losun landsins um 57% strax, meðan markmið stjórnvalda er að minnka hér losun um 55% fyrir árið 2030. Reyndar er það markmið stjórnvalda með öllu óraunhæft, ef ekki kæmi til þessi óvænta niðurstaða á raunlosun úr jarðvegi.
Stjórnvöld hljóta að taka þessari fyrstu opinberu skýrslu fegins hendi og leggja pening til aukinna rannsókna. Jafnvel þó niðurstaðan yrði eitthvað örlítið lakari við frekari rannsóknir, gæti líkað orðið enn betri, er einséð að þarna er um mikla hagsmuni að ræða. Það hefur ekki staðið á að leggja peninga til hinna ýmsu verkefna sem hafa í sinni kynningu loftlagsmál, jafnvel þó óljóst sé hvað verið er að meina og engar rannsóknir standi að baki þeim fullyrðingum. Því ætti ekki að vefjast fyrir stjórnvöldum að styðja vel við bak þeirra vísindamanna sem leita sannleikans um málið!
Meðan raunveruleg vitneskja liggur ekki fyrir er fráleitt að kasta peningum í einhverjar framkvæmdir sem jafnvel gætu gert vandann mun stærri. Að endurheimt votlendis muni ekki skila neinu í minnkun losunar á co2 en muni auka stórlega losun á metani og að grænblöðungum muni fækka stórkostlega með tilheyrandi minnkun á virkni þeirra til að binda kolefni í jörðu. Þetta er ekki vitað og verður ekki vitað nema með rannsóknum. Sú fyrsta sem er opinberuð bendir í allt aðra átt en tölur IPCC segja til um. Þær tölur byggja á örfáum rannsóknum erlendis. Þar er bæði mun dýpri jarðvegur sem og að akuryrkja er þar ráðandi. Akuryrkju fylgir að jörð er opinn stórann hluta árs, meðan heyrækt byggir á grónum túnum með lokuðum jarðvegi. Allir ætti að sjá að þarna er himinn og haf á milli og með öllu ótækt að notast við slíkar tölur.
Að lokum óska ég þjóðinni til hamingju með niðurstöðu þessarar rannsóknar, jafnvel þó þarna sé um staka rannsókn að ræða. Niðurstaðan er hrópandi á frekari rannsóknir. Sérstaklega óska ég forsætisráðherra til hamingju, enda hefur hún verið dugleg að lofa upp í ermina á sér erlendis. Þarna fær hún tækifæri til að standa við gefin loforð og að auki getur hún hrósað sér af enn frekari samdrætti á losun co2 á Íslandi. Orkuskiptin í flutningum, stór aukin skógrækt og uppgræðsla lands mun halda áfram. Fyrirtæki munu einnig halda áfram raunverulegri minnkun á losun co2, þó vissulega þau geti ekki lengur stundað felueik um málið, með kaupum á aflátsbréfum frá votlendissjóði. Því má forsætisráðherra búast við að geta gengið reyst fram á hið erlenda pólitíska sviðs, hafi hún vit til að snúa aftur til lands úr fúafeninu, sem hún hefur verið leidd út í. Gangi greiðfærari leið að markmiðinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Maður verður hugsi
11.3.2022 | 21:42
Maður verður nokkuð hugsi við lestur þeirrar fréttar er tengjast þessu bloggi.
Í fyrsta lagi er ánægjulegt að ráðamenn skuli átta sig á að orkuskipti kalla á aukna raforkuframleiðslu, enda erfitt að átta sig hvernig hætta skuli innkaupum á orku án þess að samsvarandi orka sé til staðar í landinu. Í öðru lagi má einnig gleðjast yfir að ráðamenn átta sig á að nýsköpun kallar einnig á aukna orkuframleiðslu í landinu. Og í þriðja lagi gleður að vita að í rammaáætlun eru nægir kostir til þessarar aukinnar orkuframleiðslu.
Hitt er ekki eins ánægjulegt að sjá, að stjórnvöld skuli vera búin að ákveða vindorka skuli skipa stóran sess í orkuframleiðslu framtíðarinnar, hér á landi. Við búum við þann lúxus að eiga nægar uppsprettur orku, hér á landi, aðrar en vindorkuna. Því ætti vindorkan ekki að vera til umræðu hér á landi, a.m.k. ekki á þessari öld.
Ráðherra talar væntanlega fyrir munni ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Það hlýtur því að vera búið að afgreiða það innan hennar, þó Alþingi sé ekki upplýst um það ennþá. Ráðherrann telur vindorku skapa litlar breytingar á landi. Það er þó sennilega engin orkuframleiðsla sem hefur meiri umhverfisáhrif en einmitt vindmillur, hvort heldur er í nærumhverfi þeirra eða fjær. Að reisa eina vindmillu, af þeirri stærð sem menn vilja reisa hér á landi, veldur óafturkræfum skaða á landinu og umhverfi þess. Fyrir hverja eina vindmillu þarf að lágmarki 1000 rúmmetra af steypu með áður óþekktri stærð af járnabindingu. Þetta er áður en upp úr jörðu er komið. Þar ofaná er síðan reyst stálrör upp á fleiri hundruð tonn, nærri 140 metra upp í loftið. Ofaná þennan turn er síðan plantað rafstöðvarhúsi á stærð við einbýlishús og á það síðan settir spaðar sem verða um 80 metrar á lengd. Hæð þessa mannvirkis verður, með spaða í hæstu stöðu, komin á þriðja hundrað metra frá jörðu! Þá eru ótaldar allar vegaframkvæmdir vegna þessara ófreskja og annað rask. Olíumengun frá þessum vindmillum er vandamál sem enn er óleyst, en þó er kannski stærst vandamálið örplastmengun frá spöðum þeirra. Enn hefur ekki tekist að vinna bug á þeim vanda að spaðarnir endast ekki nema hálfan líftíma vindmilla, þá er þeim skipt út. Óþarfi á að vera að þurfa að nefna sjónmengun, lágtíðnimengun og fugladrápið.
Það hafa orðið nokkrar framfarir í smíði vindmilla á síðustu árum. Þær framfarir snúa að því einu að auka afl þeirra og hefur verið leyst með þeirri einföldu aðferð að stækka þær. Allir aðrir agnúar vindmillna er sá hinn sami og í upphafi, einungis aukist í takt við aukna stærð þeirra.
Vindmillur eru ein óáreiðanlegasta aðferð við framleiðslu á raforku. Jafnvel sólorkuframleiðsla er áreiðanlegri kostur. Þegar ekkert annað er í boði má skoða vindorkuframleiðslu og þá einungis nærri þeim stað er orkan skuli notuð. Svo óáreiðanleg orkuframleiðsla sem vindorkan er, má alls ekki við því að bæta þar ofaná orkutapi vegna flutnings orkunnar um lengri veg.
Forstjóri Landsvirkjunar lætur mikið með að staða lóna hafi verið slæm í byrjun vetrar. Ekki ætla ég að deila við hann um það. Hitt má ljóst vera að hafi sú staða verið uppi má vart kenna veðurguðunum um. Þar er ástæðan einfaldlega sú að orkusalan er komin yfir framleiðslugetu fyrirtækisins. Forstjórinn, stjórn fyrirtækisins og stjórnvöld landsins hafa sofið á verðinum, eða öllu heldur ekki þorað að tala um augljósan hlut. Tabú segir ráðherrann og vissulega má samþykkja það. En hvers vegna er það tabú? Eiga stjórnvöld hverju sinni ekki að sjá til þess að grunnþjónustan sé til staðar? Ef það er tabú að ræða þessi mál, geta stjórnvöld sjálfum sér um kennt. Þau hafa leift umræðunni að þróast á þann veg og eiga fulla skömm fyrir!
![]() |
Segir umræður um virkjanir vera tabú |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Við lifum svarta tíma.
28.2.2022 | 01:01
Enn aukast líkur á heimsstyrjöld, af þeirri tegund sem áður er óþekkt. Pútín virðist gjörsamlega hafi glatað vitinu og hótar nú beitingu kjarnavopna. Hvar þeim skuli beitt er ekki vitað, en líkur eru á að það muni ekki vera nærri Rússlandi, ekki í Úkraínu. Hundar skíta sjaldan nærri bæli sínu.
Nú hafa vestrænir stjórnmálamenn loks áttað sig á hvað virkilega er í gangi, að verið er að hernema fullvalda ríki með hervaldi og mannfórnum. Aðgerðir þeirra eru ágætar, svo langt sem þær ná. Aðstoð með hervopn mun vissulega hjálpa Úkraínu, en alls ekki nóg til að hrekja Pútín til baka. Viðskiptaþvinganir bitna fyrst og fremst á óbreyttu fólki, innan og utan Rússlands. Þær munu ekki vinna þetta stríð.
Beiti Pútín kjarnorkuvopnum er spurning hvar það verður. Hann segir það svar við "fjandsamlegum" aðgerðum vesturvelda, svo líklega mun hann hugsa þau sem skotmörk. Hvað ætla vesturveldin að gera þá? Skjóta kjarnorkuflaugum til baka? Það stríð vinnur enginn!
Á vesturlöndum hefur fyrst og fremst verið horft til að byggja upp varnir gegn tölvuhernaði, að þaðan stafaði mesta ógnin. Nú sést að það var skáldskapur. Hvorki gat Pútín nýtt sér þá aðferð gegn Úkraínu, né hafa vesturveldin getað stoppað hann af í sinn árárás, eftir tölvuleiðum. Enn er stríð framið með mannfórnum. Á meðan vesturlönd einblína á tölvur, hafa bæði Rússar og Kínverjar byggt upp heri sína. Nú er svo komið að sjóher Kína er orðinn stærri en sjóher Bandaríkjanna, bæði er varðar fjöld hermanna og skipa. Því lítið mál fyrir Xi að fylgja fordæmi Pútíns og yfirtaka Taívan. Reyndar miklar líkur á að hann muni gera það.
Það eru svartir tímar framundan. Af aumingjaskap var einum kexrugluðum harðstjóra leift að ráðast með her inn í fullvalda ríki og slátra þar íbúum. Það var ekki fyrr en þeir áttuðu sig á að þessi ruglaði maður horfði einnig í átt til þeirra sem einhverjir vöknuðu. En það var of seint. Mannslífum hefur verið fórnað af óþörfu.
Ekki verður séð hvernig allsherjarstríði verður afstýrt. Eina leiðin er að fella Pútín af stóli. Það tekur tíma. Hins vegar tekur það hann ekki nema eitt símtal að senda kjarnorkuflaugar af stað. Hvar Ísland lendir í því stríði er algerlega óljóst.
Við lifum svarta tíma.
![]() |
Kjarnorkusveitir Rússa í viðbragðsstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Landnám
26.2.2022 | 08:43
Ég bý ekki í Reykjavík og því kemur mér væntanlega lítið við hvernig stjórnun borgarinnar er, eða í hverra höndum. En bíðum aðeins. Reykjavík er höfuðborg Íslands, í Reykjavík er öll stjórnsýslan, megnið af heilbrigðisþjónustunni og þaðan er stórum hluta af fjármagni landsins spilað út og svo framvegis. Því þarf ég, nauðugur eða viljugur, að eiga samskipti við Reykjavík. Því hlýtur mér að koma við hvernig stjórn borgarinnar er háttað, í það minnsta hlýt ég mega hafa skoðun á því.
Núverandi stjórnvöld borgarinnar hafa sýnt einhver mestu afglöp í stjórn sem þekkist, ekki í einu máli heldur flestum. Of langt yrði að telja öll þessi afglöp upp, en nefni sem dæmi samgöngur bragga, sorp og strætó. Og svo auðvitað það allra nýjasta, landnám borgarbúa.
Um nokkuð skeið hefur staðið yfir deila milli borgarinnar og nokkurra íbúa í Vesturbænum, um lóðamörk. Á skipulagi eru þó mörkin skýr, en eigendur hafa valið að eigna sér nokkuð umfram það sem þeim ber. Hafa tekið til sín hluta af grænu túni við Vesturbæjarlaugina og girt af. Að öllu venjulegu ætti ekki að vera mikill vandi að leysa þessa deilu, einfaldlega gefa þessum aðilum einhvern frest til að fjarlægja girðinguna, en að þeim fresti liðnum fjarlægja hana á þeirra kostnað. Engin deila er um hvar raunveruleg lóðamörk liggja.
Á fundi skipulagsnefndar þann 2. febrúar síðastliðinn, var lögð fram tillaga um lausn þessarar "deilu", þar sem lagt er til að þeir landnemar sem þarna eru á ferð skuli fá hluta þess lands sem þeir hafa tekið, en skila hinu. Röksemdarfærsla meirihlutans er að þannig stækki túnið við laugina! Þetta eru einhver undarlegustu rök sem fram hafa verið færð, en þó kannski ekki. Það má búast við öllu af hálfu þessa meirihluta.
Þetta hlýtur að gleðja alla borgarbúa og reyndar alla landsmenn. Nú er bara að skreppa í Lífland og sækja sér nokkra girðingarstaura og net, finna einhvern fallegan stað innan borgarinnar, girða hann af og eigna sér. Hver veit nema maður gæti eignast einhvern hluta þess, loks þegar búið væri að þreyta þetta fólk við Tjörnina nógu lengi!
Það verður að segjast eins og er að það er hreint með ólíkindum að stærsti stjórnmálaflokkur landsins skuli ekki hafa mannaval til að steypa af stóli svo gjörsamlega óhæfu fólki sem nú stjórnar borginni. Ekki nóg með það, flokkurinn hefur aldrei mælst svo lítill sem nú, nokkrum vikum fyrir kosningar! Reyndar má segja að þjóðkjörnir fulltrúar eru svo sem ekki að bæta stöðu flokksins, eða hjálpa til við þetta þarfaverk. Yfirlýsing eins þingmanns flokksins um sölu á gulleggi þjóðarinnar, Landsvirkjun, er eitt dæmi þess.
Fer sem horfir er ljóst að núverandi meirihluti muni halda, jafnvel auka fylgi sitt. Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að girða sig í brók og tefla fram fólki sem hefur getu og vilja til að snú borginni á betri braut. Það ætti svo sem ekki að vera erfitt verk, næg eru rökin.
Ég er hins vegar farinn að velta fyrir mér hvar best sé að nema land innan borgarmarkanna.
![]() |
Beint: Reykjavíkurþing Varðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Að skvetta bensíni á eld
9.2.2022 | 15:33
Það er þekkt aðferð erlendis að hækka stýrivexti þegar verðbólga lætur á sér kræla. Þetta er sögð vísindi og sjálfsagt má það rétt vera. Hér á landi virkar þetta hins vegar á þver öfugan hátt og má þar kenna tvennum sér íslenskum þáttum um, annars vegar að húsnæðisliður er hér mældur til verðbólgu og hitt að stór hluti húsnæðislána er verðtryggður. Þá eru óverðtryggð lán til húsnæðiskaupa í flestum tilfellum með fljótandi vöxtum.
Þetta leiðir til þess að þegar stýrivextir hækka þá hækka húsnæðislán, sem aftur hækkar húsnæðislið í vísitöluútreikningi, sem enn aftur hækkar verðbólgu. Hringekjan fer af stað. Bankarnir auka enn frekar hagnað sinn, án nokkurra forsendna en alfarið á kostnað fjölskyldna í landinu, sem svelta meir en áður. Jafnvel lenda á götunni.
Það dynja á okkur erlendar hækkanir, hækkanir sem við ráðum engu um en eru fyrst og fremst til komnar vegna manngerðra hörmunga, þ.e. manngerðum orkuskorti. Ekkert hér innanlands er orsök þessarar verðbólgu og því með ósköpum að seðlabankinn ætli að vera leiðandi á því sviði. Reyndar ekki bara leiðandi, heldur kemur með lausnir sem beinlínis neyða fyrirtæki til að hækka sínar innlendu vörur.
Byrjum á að mæla verðbólgu með sama hætti og lönd þau er við viljum miða okkur við, að taka húsnæðisliðinn út. Næst skulum við banna verðtryggð lán. Þá má skoða hvort hækkun stýrivaxta skuli notuð gegn verðbólguskotum. Til að nota erlendar aðferðir gegn verðbólgu, verðum við að nota erlendar aðferðir við mælingu hennar og erlendar aðferðir við fjármögnun húsnæðis. Annað er með öllu ófært!
Þessi aðgerð peningastefnunefndar Seðlabankans er eins og að skvetta bensíni á eld. Minnir á hvernig peningamálum landsins var stjórnað fyrir hrun!
![]() |
Hækka stýrivexti um 0,75 prósentur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ómarktækir menn
29.1.2022 | 16:55
Forgangsorka og afgangsorka eru hugtök sem gjarnan heyrast í fréttum. Þetta eru tveir ólíkir kostir, forgangsorka er orka sem keypt er í þeirri trú að hún sé ekki skerðanleg og borgað hærra verð fyrir og hins vegar afgangsorka sem raforkufyrirtækin selja á lægra verði og geta skert þegar þörf er á. Nú er staðan orðin sú að útlit er fyrir að skerða þurfi forgangsorkuna, að ekki sé næg afgangsorka í kerfinu til að taka á móti áföllum. Ástæðan sögð vera erfitt veðurfar og skortur á vatni í miðlunarlónum, auk þess sem dreifikerfið er sagt lélegt.
Vissulega má taka undir að dreifikerfi orkunnar um landið er komið af fótum fram, enda stór hluti þess nálægt því hálfrar aldar gamalt. Þetta eru engin ný sannindi, nánast nóg að vind hreyfi til að einhverjir hlutar þess gefi sig. Skemmst er að mynnast er stór hluti norðurlands varð rafmagnslaus í marga daga vegna óveðurs. Það er reyndar umhugsunarvert hvernig stjórnvöld hugsa sér að framkvæma orkuskipti hér á landi meðan dreifikerfið getur ekki haldið uppi annarri nauðsynlegri þjónustu, svo sem að halda raforku á sjúkrastofnunum. Orkuskortur verður hins vegar ekki leystur með bættu dreifikerfi, einungis hægt að jafna þannig skerðingar yfir landið.
Hitt er alvarlegra, en það er staða miðlunarlóna. Þar getur tvennt komið til, annars vegar minna innstreymi í lónin yfir sumartímann og hins vegar meira útstreymi úr þeim á þeim tíma er verið er að safna byrgðum. Rafmagnsframleiðsla meiri en efni standa til.
Stærstu miðlunarlónin okkar tengjast Vatnajökli. Vart verður sagt að sumarið í sumar hafi verið einstaklega óhagstætt hvað veðurfar snertir. Á norðanverðum jöklinum var einstaklega hlýtt og að sunnanverðu nokkuð úrkomusamt. Hvor tveggja ákjósanleg veðurskilyrði til vatnsframleiðslu jökulsins. Í það minnsta er ekki hægt að tala um neinar hamfarir í veðurfari og fráleitt að reyna að skella skuldinni á það. Því hlýtur ástæðan frekar að liggja í að útstreymi úr lónunum, yfir sumartímann sé meira en núverandi lón ráða við. Að orkusalan sé meiri en framleiðslugetan.
Orkunotkun landsmanna hefur aukist, um það þarf svo sem ekki að deila. Hitt er líka ljóst að orkunotkun mun aukast enn frekar á komandi árum. Ef síðan ætlunin er að fara í orkuskipti, eins og stjórnvöld hafa boðað og eru í raun hafin að litlu leyti, þá mun orkunotkun landsmanna aukast verulega á næstu árum. Til að mæta þessu þarf annað hvort að stækka miðlunarlónin eða nýta betur það vatn sem nú er verið að virkja. Virkjanir neðar í Þjórsá eru nærtækasta lausnin til að nýta það vatn sem þegar er virkjað. Síðan þarf að horfa til annarra kosta, svo sem nýrra virkjana í nýjum stöðum, að dreifa áhættunni.
Afgangsorka á að vera til að taka við stórum áföllum, hvort heldur er í veðurfari, framleiðsluferli eða dreifikerfi. Því má afgangsorka í raun aldrei verða fullnýtt. Ætíð þarf að vera til afgangsorka í kerfinu, jafnvel þó áföll skelli á. Lögmál Murphys er oft sterkt, eins og sýndi sig nú á dögunum, en daginn eftir að forstjóri Landsvirkjunar tilkynnti um miklar skerðingar á orkusölu, vegna lélegra stöðu miðlunarlóna, kom hann aftur í fjölmiðla til að tilkynna að ein eining í framleiðsluferlinu hefði bilað. Nokkrum dögum síðar tilkynnir annað orkufyrirtæki um bilun hjá sér. Því þarf afgangsorka ætið að vera næg, ef ekki á illa að fara. Við getum rétt ímyndað okkur ástandið, eftir orkuskiptin, ef bílaflotinn, skipaflotinn og jafnvel flugflotinn verður að stoppa vegna orkuskorts í landinu!
Það er skammt síðan Hörður Árnason, forstjóri Landsvirkjunar, talaði fyrir því að við þyrftum að leggja sæstreng til útlanda, svo selja mætti afgangsorkuna sem væri að fylla raforkukerfi landsmanna. Enn styttra er síðan Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, fullyrti í fjölmiðlum að næg orka væri til í landinu og að ekki þyrfti að virkja vegna orkuskiptanna. Þarna töluðu forstjórar tveggja stærstu orkuframleiðenda landsins og þó stöndum við nú frammi fyrir orkuskorti og það áður en orkuskipti er í raun hafin. Eigendur þessara fyrirtækja, landsmenn og höfuðborgarbúar, hljóta að krefja þá um skýringar á þessum ummælum sínum, í ljósi stöðunnar. Þessir menn er vart marktækir og alls ekki starfi sínu vaxnir!
Ef ætlun stjórnvalda er að standa við þau orð sem fallið hafa af munni þeirra, bæði innanlands og erlendis, um orkuskipti, er ljóst að efla þarf raforkuframleiðslu verulega og bæta þarf dreifikerfið, bæði milli landshluta sem og innan byggða. Miðað við þau markmið sem boðuð eru á sviði orkuskiptanna og miðað við þann gang sem er í orkuöflun og orkudreifingu, verður ekki séð að hljóð og mynd fari saman. Reyndar líkara því að horfa á gamla þögla mynd!
Fyrsta og stærsta skrefið væri að endurheimta yfirráð yfir framleiðslu og nýtingu orkunnar okkar, úr höndum ESB.
![]() |
Frekari skerðingar á næsta ári |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Grímufólkið
10.1.2022 | 16:01
Þjóðin virðist vera að skiptast í tvær fylkingar, þeir sem bera grímur og hinir sem ekki vilja bera grímur. Sjálfur er ég grímukall og skammast mín ekkert fyrir það. Er búinn að fá þrjár sprautur gegn covid og mun þiggja þá fjórðu strax og hún býðst.
Ástæðan er einföld, þegar að smitvörnum kemur þá treysti ég þeim læknum sem sérhæfa sig í smitsjúkdómum, rétt eins og ég treysti best heilaskurðlækni til að kroppa í heilann á mér, lögreglumanni til að hjálpa mér að fylgja lögum, lögfræðingi til að hjálpa mér frammi fyrir dómstólum, hagfræðingi til að segja mér til um hagfræði, loftlagsfræðingi til að segja mér um loftslag og svo framvegis. Eina stéttin sem ég ekki treysti eru stjórnmálamenn, enda eru þeir sem vindpoki á flugvöllum. Þegar vel blæs í þjóðfélagsumræðuna blása þeir út, eftir þeim áttum er umræðan blæs, þess á milli lyppast þeir niður og snúast í hringi. Vita ekki hvernig þeir eiga að haga sér. Hér á landi verður þó að hrósa þeim fyrir það að hafa borið gæfu til að fara eftir tillögum smitsjúkdómalæknis í þeim faraldri sem um heiminn geisar. Alla vega fram undir þetta, þó sjá megi kannski brotalöm þar á eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum.
Í siðuðu þjóðfélagi er ekki annað hægt en að treyst þeim sem menntun hafa á hverju sviði. Ef það er ekki gert má allt eins leggja niður menntastofnanir landsins. Það myndi sennilega engum detta til hugar að fá lækni til að flytja fyrir sig mál fyrir dómstóli, eða loftlagsfræðing til að krukka í heilann á sér. Hví ætti fólk Þá að treyst betur lögfræðingi en smitsjúkdómalækni, þegar að smitsjúkdómi kemur?
Úr hófi gengur þó þegar, í nafni frelsis, unnið er gegn smitvörnum. Frelsi er ekkert einkamál einstakra aðila, hvorki í orði né á borði. Frelsi er ekki hægt að túlka eftir behag hverju sinni og frelsi fylgir ábyrgð.
Frelsi getur aldrei orðið algert. Til að frelsi virki verður að setja einhvern ramma, sem samfélagið kemur sér saman um. Auðvitað eru ekki allir sammála öllu sem slíkur rammi tilgreinir, en allir sem einhverja örlitla skynsemi hafa fara þó eftir honum. Hver sá er út fyrir þann ramma fer, brýtur frelsið og stofnar því í voða, gerist lögbrjótur. Bréf varaþingmannsins er hreint brot á þessum ramma, þar sem hann hvetur fólk til að hundsa þær reglur sem settar eru, auk þess að reyna að færa einhverja ímyndaða ábyrgð á fólk sem ekki skal þá ábyrgð bera. Þetta er ljótur leikur sem hvorki varaþingmanni né lögfræðingi er samboðin.
Menn geta haft hverja þá skoðun á sóttvörnum sem þeir vilja, en enginn hefur meiri menntun eða getu til að leggja fram aðgerðir á því sviði, en sóttvarnarlæknir.
Það er auðvelt að vera á móti. Það hlýtur að vera lágmarks kurteisi, þegar einhver telur ekki vera rétt að málum staðið, að koma þá með einhverjar tillögur um hvernig betur skuli fara. Það ber lítið á slíkum tillögum frá því fólki sem felur sig bak við frjálshyggju. Enda erfitt fyrir lögfræðing eða hagfræðing að koma með tillögur í smitvörnum, ekki satt?
Fyrir síðustu kosningar vonaði ég satt og innilega að Arnar Þór Jónsson kæmist á þing. Virtist vera skynsamur og málfastur, auk þess sem mörg þeirra mála er hann talaði fyrir fyrir kosningar, mér nokkuð hugleikin. Eftir þennan afleik hans og hvernig hann hefur hagað sér eftir kosningar, þakka ég svo sannarlega fyrir að hann fékk ekki fylgi inn á Alþingi.
Sannarlega má segja að stundum fela refir sig undir sauðagæru!
![]() |
Hissa á Arnari að spila þennan leik |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hver er verðmiðinn?
21.12.2021 | 15:58
Sumir þingmenn hafa farið mikinn síðustu daga, vegna áætlana um þyngri aðgerðir vegna covid veirunnar. Þar fara fram þingmenn bæði stjórnar og stjórnarandstöðu. Einn þeirra hótar að Alþingi takið málið til endurskoðunar meðan annar segir að grafalvarlegt sé að læsa frískt fólk inni. Dramatísk ummæli sem dæma sig sjálf.
Auðvitað er enginn frískur einstaklingur læstur inni, einungis þeir sem þegar hafa smitast og þeir sem grunur er á að hafi smitast og bíða eftir niðurstöðum mælinga. Samkvæmt þessi telur viðkomandi þingmaður að sá sem mælist smitaður geti jafnframt verið frískur. Eitt er þó víst að ekki er víst að sá sem þessi "fríski" einstaklingur smitar verði jafn heppinn og sá "fríski". Um þetta snýst málið. Ef hægt væri að tryggja að enginn sem smitast veikist, væri málið einfalt. En svo er ekki, sumir veikjast illa og sumir þurfa að gjalda með lífi sínu. Það hefði verið málinu hæfara ef viðkomandi þingmaður hefði sagt að það væri graf alvarlegt að láta smitaða ganga lausa í þjóðfélaginu.
Ósátti stjórnarþingmaðurinn, sem ætlar að láta Alþingi taka völdin í þessu máli, kallar eftir fyrirsjáanleika. Maður spyr sig hvernig svona menn komast yfirleitt í þá stöðu að vera í framboði til Alþingis, hvað þá að ná þangað inn. Veit maðurinn ekki að það er verið að berjast við vírus sem herjar á heimsbyggðina? Hvernig ætlar hann að fá fyrirsjáanleika í þeirri baráttu? Þetta er svo vitlaust að engu tali tekur!
Eftir nærri tveggja ára baráttu við þennan illvíga sjúkdóm ætti fólki að vera ljóst að veiran fer hvorki eftir valdskipunum né í manngreiningarálit. Meðan hún geisar hefur hún völdin. Svo einfalt er það. Aðgerðir stjórnvalda eru til þess eins að verja borgarana. Sóttvarnarlæknir, sem hefur jú menntun á þessu sviði, kemur með tillögur til stjórnvalda, eftir stöðu veirunnar og byggðar á fræðunum. Stjórnvöld taka síðan ákvarðanir og bera á þeim ábyrgð. Við þá ákvarðanatöku á líf borgarana að skipta mestu, síðan hvernig heilbrigðiskerfið er í stakk búið og að lokum má einnig horfa til hagfræðilegra þátta. Þeir eru þó nánast aukaatriði. Hér á landi hefur tekist einstaklega vel að feta þann veg, einkum vegna þess að stjórnvöld hlusta á sér hæfara fólk á sviði sóttvarna. Vonandi mun það verða svo þar til sigur hefur unnist á veirunni. Þar til sigur hefur unnist má búast við að hér verði tilslakanir og hertar aðgerðir á víxl, eftir því hvernig veiran hagar sér.
Það að setja hagfræðilegar staðreyndir neðar lýðheilsu virðist fara fyrir brjóstið á sumum. Það er sárt að horfa til þess að til séu þannig þenkjandi fólk. Ef það er svo að þetta fólk telji mannslát vera ásættanlega fórn til að halda hagkerfinu sem bestu, þarf það að tilgreina hversu margir þurfi að láta lífið áður en farið er í hertari aðgerðir. Það þarf þá að hafa verðmiða á mannslífin!
![]() |
Nýju aðgerðirnar taka gildi á Þorláksmessu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)