Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Blessað skammtímaminnið
7.12.2021 | 08:13
Það hefur gjarnan verið sagt að minni kjósenda sé skammt, sérstaklega kringum kosningar. Verra er þegar þeir sem treysta á þetta skammtímaminni kjósenda eru sjálfir haldnir þeim kvilla.
Ólína Þorvarðardóttir gagnrýnir að kísilverið að Bakka hafi fengið tvöþúsund milljónir af almannafé við stofnun. Svo sem ekki fráleit gagnrýni. En man Ólína ekki hverjir voru við stjórnvölin þegar þessi höfðinglega gjöf var gefin? Sjálf sat hún þá á þingi, fyrir samfylkinguna, sem leiddi þá stjórn.
Auðvitað man Ólína þetta, hún er fjarri því að vera heimsk. En þarna, eins og svo oft áður, velur hún að fegra söguna og treystir þar á að skammtímaminni almennings sé bilað. Og vissulega má segja að henni hafi tekist ætlunarverk sitt, að hluta. Skammtímaminni annarra er voru í þessu viðtali virðist ekki ná aftur til síðasta áratugar.
![]() |
Það er ekkert búið að loka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
57 blaðsíður af litlu
29.11.2021 | 00:53
Jæja, þó höfum við fengið nýja ríkisstjórn og já, líka nýjan stjórnarsáttmála. Í stuttu máli má segja að niðurstaðan komi nokkuð á óvart. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn fá "góðu" stólana en VG fær stjórnarsáttmálann.
Varðandi stólaskiptin ber að sjálfsögðu að fagna því að umhverfisráðuneytið hefur verið heimt úr helju. Ný nöfn og ný hlutverk sumra ráðuneyta ruglar mann nokkuð í rýminu, enda erfitt að átta sig á hvar sum málefni liggja. Var þar vart á bætandi, enda kom í ljós á síðustu dögum síðustu ríkisstjórnar, að ráðherrar þar voru ekki með á hreinu hver bar ábyrgð á hverju.
Stjórnarsáttmálinn er upp á heilar 57 blaðsíður, vel og fallega orðaður en málefnalega fátækur. Orðið "loftlagsmarkmið" kemur þar oft við sögu, sennilega algengast orð stjórnarsáttmálans.
Það sker þó í augun nokkur atriði þessa nýja sáttmála. Til dæmis er tekið fram að leggja á allt land sem hefur verið friðlýst, undir þjóðgarð. Þeir kjósendur hins fámenna grenjandi minnihluta er treystu loforðum frambjóðenda Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hafa þar látið plata sig illilega. Þó umhverfisráðuneyti sé komið undan ægivaldi VG, virðist hafa verið þannig gengið frá hlutum að hálendisþjóðgarður er enn á borðinu, bara farnar aðrar leiðir en áður var ætlað. Reyndar vandséð hver aukin landvernd liggur í því að færa land úr verndun yfir í þjóðgarð, sem ekki hefur lýðræðislega kosna stjórn.
Þá er í þessum sáttmála tiltekið að sett verði sérstök lög sem hafa það markmið að einfalda uppbyggingu vindorkuvera! Þar hvarf öll umhverfisverndin í einni setningu!
Verst, fyrir almennt launafólk að minnsta kosti, er að sjá kaflann um vinnumarkaðsmál. Þar er ljóst að skerða á rétt launþega nokkuð hressilega. Salekdraugurinn er þar uppvakinn. Þetta er stórmál og mun sjálfsagt hafa meiri afleiðingar en nokkuð annað í komandi kjarasamningum. Verkfallsrétturinn er eina vopn launþega og virkjast einungis þegar samningar eru lausir. Ef ætlunin er að skerða þann rétt, er ljóst að langvarandi vinnudeilur munu herja á landið. Það er það síðasta sem við þurfum.
Þá er nýtt í þessum stjórnarsáttmála, a.m.k. mynnist ég ekki eftir að hafa séð slíkt ákvæði fyrr í slíkum sáttmála, heill kafli um aukna tekjuöflun ríkissjóðs. Aukin tekjuöflun ríkissjóðs er annað orðalag yfir aukna skatta. Nokkuð merkilegt af ríkisstjórn sem hefur Sjálfstæðisflokk innandyra. Hins vegar er ekki orð að finna um skattalækkanir eða hagræðingu í ríkisrekstri.
Sem aðrir kaflar í þessum sáttmála er kaflinn um byggðamál vel og fallega orðaður. Talað um að styðja byggðaþróun, nýsköpun, að gera Akureyri að varahöfuðborg og auðvitað að halda áfram að byggja upp háhraðanetrið. Það er kannski ekki vanþörf á vara höfuðborg, enda rekstur þeirrar gömlu ekki beysinn. Og þar sem Míla er flutt til Frakklands, þarf auðvitað aukið fjármagn til að klára uppbyggingu háhraðatengingu um allt land. Það sem hins vegar er nokkuð spaugilegt er svokallaður stuðningur við byggðaþróun í landinu. Þetta má skilja á tvo vegu, að styðja þróun til eflingar byggðar eða styðja þróun til flutninga á mölina. Í öllu falli voru verk fyrrverandi sveitastjórnarráðherra, núverandi innviðaráðherra, með þeim hætti að engu líkar væri en að hann styddi þá byggðaþróun að landsbyggðin flyttist bara á SV hornið.
Læt þetta duga í bili af þessum einstaklega fátæklega en langa stjórnarsáttmála.
![]() |
Nýtt ríkisráð fundar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fyrri talning, síðari talning eða uppkosning
21.11.2021 | 16:30
Það er aumt að hóta Alþingi, jafnvel þó menn lendi undir í kosningum. Reyndar má leiða líkum að því að sama hvernig Alþingi afgreiðir þetta mál, þá muni einhver fara með það fyrir MDE. En það er samt alveg óþarfi að vera með hótanir.
Skoðum þetta aðeins. Fallisti Viðreisnar í NV kjördæmi vill að fyrri talning verði látin gilda. Eru það réttar luktir málsins? Nei, alls ekki og ástæðan er einföld. Eftir að kjörnefnd NV kjördæmis skilaði af sér kom í ljós misræmi milli talinna atkvæða og fjölda kjörseðla. Því var ekki annað í myndinni en að telja aftur. Síðari talningin hlýtur því að gilda, annað væri í meira lagi undarlegt.
Um framkvæmd talningarinnar, gæslu á gögnum og endurtalninguna má síðan deila. Þar var margt sem ekki telst í lagi. Það breytir þó ekki því hvor talningin skuli gilda, einungis því hvort kjósa skuli aftur. Þá komum við að kosningalögunum. Þar eru skilyrði fyrir uppkosningu þau að galli á kosningu þurfi að hafa veruleg áhrif á úrslit kosninganna. Nú er það svo að endurtalningin hafði vissulega veruleg áhrif á einstaka frambjóðendur, en engin áhrif á fjölda þingmanna hvers framboðs. Því telst varla að um veruleg áhrif á úrslit kosninganna hafi átt sér stað.
Um framkvæmdina má vissulega deila, en vart verður deilt um það að síðari talningin hlýtur að gilda, svo fremi að ekki verði uppkosning. Sem eins og áður segir er vart skilyrði fyrir.
Nöldrarinn er kjósandi í NV kjördæmi.
![]() |
Vísa verði niðurstöðum kosninga til MDE |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það er ljótt að ljúga
18.11.2021 | 23:38
Þegar op3 var samþykktur á Alþingi var því haldið fram að orkusala um sæstreng til meginlandsins væri ekki í myndinni. Ýmsir drógu þetta í efa, en ráðherrar, sérstaklega ráðherra orkumála, fyllyrtu að engar slíkar áætlanir væru á teikniborðinu. Á þeim tíma voru erlendir vindbarónar farnir að láta til sín taka hér á landi og töldu margir það skýrt merki um hvað koma skildi.
Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum var þetta mál lítið sem ekkert rætt fyrir síðustu kosningar. Vindbarónarnir héldu sig til hlés og fáir virtust muna tvö ár aftur í tímann. Þar sem stjórnmálamönnum tókst að halda þessu máli frá umræðunni, fyrir síðustu kosningar, má segja að kjósendur hafi ekki fengið að kjósa um málið.
Strax eftir kosningar vöknuðu síðan vindbarónarnir og koma nú í hópum í fjölmiðla til að útlista ágæti þess að leggja hellst allt landið undir vindmillur og að auki hafið umhverfis Ísland. Ýmis rök hafa þessir menn fært fram, eins og framleiðslu á eldsneyti og fleira. Nú er opinberað að sæstrengur sé málið, reyndar legið fyrir frá upphafi. Ef ráðherra orkumála þykist vera að heyra þetta fyrst núna, er hún verri en ég hélt. Þetta vissi hún þegar hún laug að þjóðinni!
Stjórnmálamenn eiga að vita að orðum fylgir ábyrgð og að lygar duga skammt. Sannleikurinn kemur alltaf upp á yfirborðið, sama hversu reynt er að halda honum niðri. Þá eiga stjórnmálamenn að vita að þeirra vinna á að snúast um að verja hag landsmanna og þá um leið landsins. Þeim er ekki heimilt að ganga erinda erlendra peningamanna, sama hvað í boði er. Þegar slíkt er gert og það skaðar hag landsmanna, kallast það landráð, eitthvað skelfilegasta brot sem nokkur stjórnmálamaður getur framið.
Fyrir landráð á að dæma fólk!
![]() |
Metnaðarfullar hugmyndir um vindorkugarð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Landsvirkjun, fyrirtæki okkar landsmanna
8.11.2021 | 07:46
Landsvirkjun, fyrirtæki okkar landsmanna, tilkynnir um hækkun á raforkuverði. Rökin eru framboð og eftirspurn, án frekari skýringa. Einnig kemur fram í fréttinni að lægra sé í lónum fyrirtækisins en gott þykir. Rúsínan í pylsuendanum er svo að þessi hækkun sé óveruleg, nánast engin. Hvers vegna var þá verið að hækka gjaldskrána?
Það er ljóst að verðbólga í landinu er á fleygiferð uppávið, ekki vegna aukinnar framleiðni, heldur utanaðkomandi hækkana, sem stjórnvöld hér geta lítið um breytt. Stjórnvöld hafa hins vegar yfir ýmsum fyrirtækjum að ráða, m.a. Landsvirkjun. Því eiga stjórnvöld að sjá til þess að þau fyrirtækli sem þau hafa ítök í hækki ekki sínar gjaldskrár, frekar að þau lækki þær. Þannig má vega upp á móti verðbólgunni og þannig eru stjórnvöld í sterkari stöðu til að mælast til að önnur fyrirtæki haldi sínum hækkunum í skefjum. Þó verðhækkun Landsvirkjunar sé sögð "óveruleg" er það hækkun engu að síður og gefur fordæmi.
En aftur að rökum Landsvirkjunar. Framboð og eftirspurn er frekar erfitt að skilja, enda minnsti hluti raforkuframleiðslunnar sem fer á opin markað. Stórnotendur eru með fasta samninga, þannig að þessi hækkun kemur ekki á þá. Hins vegar malar Landsvirkjun gull af þeim samningum nú, þar sem þeir samningar hafa tengingar í suma af þeim þáttum erlendis, sem valda aukinni verðbólgu hér á landi. Hrávöruverð og orkuverð erlendis.
Framboð getur auðvitað verið breytilegt í framleiðslu fyrirtækisins en eftirspurnin er hins vegar nokkuð stöðug - uppávið. Ef eitthvað ójafnvægi hefur myndast milli framboðs og eftirspurnar hjá Landsvirkjun, stafar það af því einu að forsvarsmenn fyrirtækisins hafa verið sofandi á verðinum. Þeir eiga að sjá til þess að ætíð sé næg orka til fyrir landsmenn og ef ástæða þessa ójafnvægis er lág staða í lónum fyrirtækisins, er ljóst að eitthvað er að í rekstri fyrirtækisins. Það er ekki hægt að skella þeirri sök á veðurfarið og enn síður eiga eigendur Landsvirkjunar - notendur orkunnar, að taka á sig vangetur stjórnenda fyrirtækisins!
![]() |
Verð hjá Landsvirkjun hækkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
" Er ekki bara best að selja þetta"
30.10.2021 | 00:36
Það hefur ótrúlega lítil umræða átt sér stað um nýjustu vendingar Íslandspósts. Einhvern veginn eins og enginn þori.
Íslandspóstur hefur gefið út nýja verðskrá, þar sem hækkanir eru allt að 102% fyrir veitta þjónustu. Meðaltalshækkun eitthvað minni. Þegar þessi verðskrá var tilkynnt var því haldið fram að fyrirtækinu væri skylt að láta verðskrá sína endurspegla kostnað við þjónustuna. Þetta er svo sem gott og gilt, en aðferðafræðin sem notuð var er hins vegar galin.
Það liggur auðvitað fyrir að ódýrast er að bera út póst næst flokkunarstöð Íslandspóst, enda fer allur póstur þar í gegn, hvaðan sem er á landinu. Bréf sem sent er milli húsa á Ísafirði þarf að eiga viðkomu í þessari flokkunarstöð fyrirtækisins í Reykjavík. Það er væntanlega af því að þessi flokkunarstöð var dýr í uppsetningu, er reyndar nokkuð fullkomin og getur sinnt margfalt stærri markaði en til er hér á landi, en dýr framkvæmd. Því var sú regla sett hjá póstinum að öll flokkun á pósti skuli fara fram í Reykjavík. Það þarf jú að nýta fjárfestinguna, sem stór spurning er hvort var nauðsynleg.
Í nýju verðskránni er landinu skipt upp í fjögur svæði, hvert með sinni verðskrá. Höfuðborgarsvæðið, í þrengsta skilningi þess orðs, er á svæði eitt. Svæði tvö tekur yfir flesta stærri kaupstaði á landinu, svæði þrjú yfir minni kaupstaði og einstaka þorp. Svæði fjögur nær síðan yfir allt annað, þ.e. sveitir landsins og sum minni þorp. Ekki verður séð hvaða skilgreiningu pósturinn notast við þegar þorp eru valin, hvort þau falli undir svæði þrjú eða fjögur, einna hellst að sjá að þar ráði hendingin ein.
Þessi skilgreining getur ekki og mun ekki geta endurspeglað kostnað við póstburðinn. Það er t.d. vandséð að hægt sé að rökstyðja það að ódýrara sé að senda pakka frá Reykjavík til Ísafjarðar eða Egilstað, en að senda sama pakka á sveitabæ á Kjalarnesi. Að kostnaðarmunur þar á milli sé nærri 65%, Kjalarnesinu í óhag. Þannig mætti lengi bera saman ruglið í þessari verðskrá Íslandspósts, en megin málið er að fjarri er að hægt sé að halda því fram að hún endurspegli á einhvern hátt kostnað við þjónustuna. Þarna fer fyrirtækið af stað með dulbúna ástæðu til að stór hækka þjónustu sína, auk þess sem dregið er úr henni. Til dæmis ekki lengur bornir út pakkar á það svæði sem skilgreint er sem svæði fjögur, fólk verður að sækja þá á næstu póststöð. Þetta hvoru tveggja bitnar mest á landsbyggðinni, eins og svo gjarnan.
Hafi Alþingi sett lög um að gjaldskrá póstsins skuli taka mið af kostnaði við póstburð, átti einfaldlega að reikna landið sem eina heild og leggja flata hækkun á allt landið. Alþingi og fulltrúar okkar þar, hafa verið gjarnir á að tala um að bæta þurfi aðstöðumun landsbyggðarinnar. Því getur vart verið að sett hafi verið lög um að auka misréttið á þessu sviði.
Annað mál, sem reyndar var heldur meira rætt í fjölmiðlum, var salan á Mílu úr landi. Kaupandinn, franskur fjárfestingasjóður, hefur sagt að ekki sé ætlunin að hlera búnað Mílu, að ekki muni koma til verðhækkana á þjónustu fyrirtækisins og jafnvel að innspýting verði í þjónustu þess. Ja, mikið andskoti er Míla öflugt fyrirtæki, ég segi ekki annað. Ef hægt er að leggja fram yfir 70 þúsund milljónir til kaupa á því, halda gjaldskránni niðri og auka þjónustuna, hlýtur þetta fyrirtæki að vera hrein gullkú. Þegar fjárfestingasjóður, sem að eðli sínu er stofnaður til þess eins að ávaxta fé sitt og ekkert annað, getur lofað slíku, er ljóst að stór mistök voru að selja fyrirtækið.
Sá ráðherra sem með þessa málaflokka fer, póstburð og fjarskipti, er formaður Framsóknarflokks, að hans sögn eina "samvinnuflokks" landsins. Það er nokkuð langt frá því að samvinnuhugsjónin ráði þarna gerðum, hvort heldur er gjaldskrá Íslandspósts eða salan á Mílu. Þó leggur þessi ráðherra blessun sína yfir þessar gerðir og brosir bara!
Það er spurning hvort slagorð Framsóknar fyrir síðustu kosningar, "Er ekki bara best að kjósa Framsókn" hefði ekki átt að vera "Er ekki bara best að selja þetta".
Fyrir ekki margt löngu voru bæði póstsamgöngur og fjarskipti talin til grunnþjónustu landsins og þannig er það víðast um heim. Einungis ESB hefur skilgreint þetta sem vöru og vara skal vera sett á markað. Gegnum EES samninginn erum við föst í vef ESB og ráðum lítt hvernig hlutir hér á landi eru skilgreindir. Ef ESB segir að eitthvað sé vara, þá verður Alþingi okkar að breyta lögum til samræmis við það. Það styttist í að menntamál og heilbrigðismál og reyndar allt sem nöfn ná yfir, verður skilgreint sem vara innan ESB. Að eini málaflokkurinn sem teljist til grunnþjónustu verði hinn nýi Evrópuher.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síminn ekki hleraður
23.10.2021 | 13:13
Sameiginlegir sjóðir landsmanna er notaðir til að byggja upp innviðakerfi landsmanna. Síðan eru ýmsir hlutar þess selt sérvöldum aðilum, án þess að eitthvað samhengi sé milli þess verðs sem þeir greiða fyrir þá og þess kostnaðar er landsmenn lögðu til þeirrar uppbyggingar. Þér sérvöldu hafa síðan á sínu valdi þessa innviði og geta gert það sem þeim sýnist við þá, án allrar ábyrgðar. Til dæmis selt þá úr landi ef þeir sjá af því góðan hagnað.
Uppbygging ljósleiðarakerfisins um allt land var þarft verkefni, fjármagnað af ríkinu. Til þeirrar fjármögnunar var málaflokkurinn settur undir þann lið á fjárlögum er fer með samgöngur, að mestu fjármagnaður af vegafé. Því er ljóst að þessi þarfa uppbygging svelti á meðan viðhald vegakerfisins. Nú nýtur franskur fjárfestingasjóður, voru eitt sinn kallaðir hrægammasjóðir, góðs af lélegu vegakerfi á landsbyggðinni. Landsmenn sitja eftir með sárt enni, meðan Síminn telur sína milljarða.
Innviðir þjóða eru ekki oft settir á markað braskara. Þegar slíkt gerist upphefst alltaf heljarinnar brask með þá, þar sem hluturinn gengur kaupum og sölum uns blaðran springur. Eðli málsins samkvæmt eru innviðir þjóða yfirleitt engum verðmæti nema viðkomandi þjóð. Fyrir aðra eru slík verðmæti einungis froða, til þess eins að græða á meðan einhver lætur blekkjast.
Hvernig á því stóð að Síminn eignaðist Mílu veit ég ekki. Síminn var seldur á sínum tíma vegna krafna ees samningsins um aðskilnað sölu og dreifinu símakerfisins. Að Síminn, sölukerfið, skuli komist yfir Mílu, dreifikerfið, hlýtur því að vera brot á ees samningnum.
Hvað um það, nauðsynlegir innviðir sem byggðir eru upp af sameiginlegum sjóðum landsmanna, eiga að vera í þeirra eigu. Annað verður ekki við unað.
Forsvarsmenn Símans telja sig hafa fengið loforð þessa erlenda fjárfestis um að þeir muni ekki hlera strengina. Það er minnsti vandinn, enda Ísland smátt á alþjóðavettvangi og lítil verðmæti í því sem við segjum. Þá er ljóst að slík loforð frá fjárfestingasjóð eru haldlítil, auk þess sem litlar líkur eru á að þessi sjóður verði lengi eigandi að Mílu. Þessi kaup sjóðsins eru á nákvæmlega sama grunni og öll kaup fjárfestingasjóða, til þess eins að græða á þeim. Um það snýst verkefni fjárfestingasjóða, að ávaxta sitt fé. Þeirra verkefni er ekki að standa vörð samfélagsins, allra síst í öðrum löndum.
![]() |
Hefur áhyggjur af innviðum Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Gömul tækni og ný
20.10.2021 | 04:03
Það voru mikil mistök af stjórnvöldum að afhenda Reykjavíkurborg Keldnaland. Ríkið átti að halda þessu landi, til uppbyggingar á nýju sjúkrahúsi fyrir landsmenn. Það er þegar ljóst að svokallaður nýr landspítali mun ekki geta sinnt því sem honum er ætlað. En "shit happens" og úr því sem komið er þýðir víst lítið að gráta Björn bónda.
Skortur á húsnæði í Reykjavík er eitthvað sem virðist vera að nálgast náttúrulögmál. Og enn virðist fjúka í skjólin þar á bæ, þar sem borgarstjóri virðist ætla að nýta þennan skort til að flýta fyrir borgarlínu, einhverju fyrirbæri sem fáir vita hvað er, kostar meira en nokkurn grunar og færir samgöngukerfi borgarinnar aftur á miðja síðustu öld, á kostnað allra landsmanna. Gamaldags og úrelt fyrrbæri, á tímum tækniframfara í framleiðslu rafbíla af öllum stærðum.
Röksemd borgarstjóra er þó frekar bágborin, kannski hægt að segja barnaleg. Hann heldur því fram að ekki sé hægt að auka íbúðamagn í efribyggðum borgarinnar, þar sem umferðaræðar anni ekki þeirri umferð! Fáist ekki byggingalóðir í efri byggðum innan borgarmarkanna mun fólk einfaldlega leita út fyrir borgarmörkin. Borgarlína mun þar engu breyta og götur borgarinnar munu eftir sem áður stíflast. Fólk þarf jú þak yfir höfuðið og að komast á milli staða, hvað sem borgarstjóri segir.
Það er löngu ljóst að gatnakerfi Reykjavíkur sinnir ekki þeirri umferð sem því ber. Borgarlína mun, samkvæmt björtustu spám, fjölga fólki sem ferðast með almenningssamgöngum úr um 4% í um 10%. Það er langt frá því að duga fyrir þeirri fjölgun sem ætluð er að muni ferðast um borgina í nánustu framtíð. Fjöldinn munu áfram ferðast á einkabílnum. Reyndar eru líkur á að færslan frá almenningssamgöngu til einkabílsins muni verða mikil á næstu árum, jafnvel svo að lítil sem engin þörf verður á rekstri stórra strætisvagna á götum borgarinnar, hvað þá einhverri borgarlínu.
Ástæða þessarar fullyrðingar minnar er einföld. Tækni í framleiðslu rafbíla af öllum stærðum er mikil og á eftir að aukast. Samhliða því fer framleiðslukostnaður við þessa bíla lækkandi. Nú þegar eru komnir á markað litlir ódýrir rafbílar á ótrúlega lágu verði. Þessir bílar eru að ná vinsældum sem borgarbílar erlendis. Eftir örfá ár, löngu áður en svokölluð borgarlína verður að veruleika, mun fólk telja jafn nauðsynlegt að eiga rafbíl, af þeirri stærð sem hverjum hentar, eins og að eiga snjallsíma eða fartölvu. Jafnvel að fartölvunni verði skipt út fyrir lítinn rafbíl, séu fjárráðin af skornum skammti.
Borgarstjórn Reykjavíkur undir stjórn Dags er hins vegar föst í fortíðinni. Þar er horft til úreltrar tækni, þegar sú nýja er ekki við þröskuldinn heldur komin innfyrir hann!!
Smá sýnishorn af framtíðinni:
![]() |
Uppbygging í Keldum ávísun á stóra stopp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Æran og orkan
18.10.2021 | 08:11
Nú held ég að sá gamli sé búinn að tapa glórunni. Sæstrengur er það síðasta sem við Íslendingar þurfum.
Aðstaða Grænlands og Íslands ansi misjöfn þegar að orkumálum kemur. Fyrir það fyrsta er Grænland utan EES og ESB, meðan við Íslendingar erum bundnir ESB gegnum EES. Þar sem ESB hefur skilgreint orku sem vöru og Alþingi okkar samþykkt þá skilgreiningu, eru orkumál okkar að stórum hluta komin undir þá deild innan ESB er kallast ACER, deild sem sér um að stýra orkumálum ESB ríkja. Meðan við erum ótengd rafkerfi ESB getum við haft einhverja stjórn sjálf á okkar málum, s.s. verði orkunnar, hvar og hversu mikið skuli virkja og þar fram eftir götum. Ef við tengjumst þessu raforkukerfi ESB með sæstreng missum við endanlega alla stjórn á þessu. Þá er ljóst að orkuverð hér á landi mun verða á sama grunni og innan þessa kerfis og sveiflast í takt við það. Þetta mun leiða til margföldunar orkuverðs hér á landi, um það þarf ekki að deila. Hins vegar geta menn deilt um hversu margföld sú hækkun verður. Fyrst finna landsmenn þetta á pyngju sinni og fljótlega einnig á atvinnuöryggi sínu.
Í öðru lagi er ljóst að rafstrengur í sjó er mun erfiðari og dýrari framkvæmd en slíkir strengir á landi, jafnvel þó þeir séu grafnir í jörðu. Þá er munur á viðhaldi þeirra geigvænlegur, eftir því hvort þeir eru djúpt í úthafinu eða uppi á þurru landi. Það þarf ekki einu sinni að líta á landakort til að átta sig á hvert hugur Grænlendinga mun liggja, þegar að slíkum útflutningi kemur. Þeir munu auðvitað velja þá leið sem styðst er yfir haf, þannig að strengurinn verði sem mest á þurru landi. Ísland er í órafjarlægð frá þeirri leið.
Blessunarlega eigum við mikla orku hér á Íslandi og jafnvel þó við séum að stórum hluta búin að hafa orkuskipti varðandi heimilin og jafnvel þó okkur takist að skipta um orku á öllum okkar fartækjum, á láði, legi og í lofti, munum við sjálfsagt verða aflögufær um einhverja orku til hjálpar öðrum þjóðum.
Þá hjálp gætum við lagt til með því að taka að okkur orkusækin fyrirtæki hér á landi og sparað þannig þeim þjóðum sem illa eru sett varðandi orkuöflun. Þannig getum við lagt okkar að mörkum til að afnema einhver kolaorkuver meginlandsins. Þessi fyrirtæki munu þá framleiða sína vöru með sannarlega hreinni orku, á lágu verði. Atvinnuöryggi landsmanna mun þá tryggt og væntanlega mun verð á raforku til neytenda haldast á viðráðanlegu verði áfram.
Að selja orkuna úr landi gegnum sæstreng, sér í lagi undir stjórn erlendra hagsmunaaðila, mun gera Ísland að þriðjaheims ríki innan fárra ára. Æra þeirra sem fyrir slíku standa mun verða lítt metin.
![]() |
Sæstrengur góð leið til að nýta hreina orku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Minningin sem hvarf
12.10.2021 | 16:44
Drottningarviðtal ruv var við Birgi Þórarinsson, þennan morguninn. Skemmst er frá að segja að eftir þetta viðtal sat maður hljóður, vissi í raun ekki hvað maður átti að halda. Því hlustaði ég aftur á þetta viðtal, til að fullvissa mig um að ég hafi heyrt rétt. Það breytti engu, enn var ég agndofa.
Birgir lýsir þarna mjög illri vist innan Miðflokksins, síðustu rúm þrjú ár. Þá telur hann vistina hafa versnað til muna eftir síðustu áramót. Hann getur þó ekki bent á neitt sérstakt atvik máli sínu til stuðnings, einungis eigin tilfinningar. Reyndar sumt af því sem hann heldur fram í viðtalinu í andstöðu við ummæli fjölda annarra. Virðist taka hverjum hlut á versta veg, sem árásir á sig sjálfan, jafnvel þó alls ekki sé verið að ræða hans verk eða ábyrgð.
Aðspurður um hvers vegna hann hafi þá ekki sagt sig úr flokknum fyrr, svaraði hann að það hefði verið ábyrgðarhlutur, svo skömmu fyrir kosningar (hann hafði jú þrjú ár til þess). Telur hann meiri ábyrgð felast í að bjóða sig fram á fölskum forsendum og blekkja kjósendur?
Vel mátti skilja á máli Birgis að hatur hans til sumra flokksfélaga er djúpt. Jafnvel svo djúpt að hann telur sig ekki geta unnið með þeim. Er hugsanlegt að svo djúpt hafi þetta hatur rist, að hann hafi gert sér það að leik að bjóða sig fram fyrir Miðflokkinn, í þeim eina tilgangi að geta skaðað hann eftir kosningar?
Það er erfitt að trúa slíku en stundum er sannleikurinn lyginni líkari.
Í það minnsta er ljóst að Birgir mun ekki geta látið jafn mikið til sín taka á Alþingi eftir þessi vistaskipti. Þegar svo hentar, mun hann geltur til jafns við aðra þingmenn Sjálfstæðisflokks, þegar á þarf að halda. Slík gelding stundaði flokkurinn á síðasta kjörtímabili, m.a. í orkupakkamálinu sem og í umræðum um koma þriðjungi landsins undan lýðræðislegri stjórn, í hendur embættismanna. Orkupakkamálinu er ekki lokið, fjórði pakkinn liggur á borðinu og fari sem sýnist, mun hálendið enn vera í hættu. Hvernig ætlar Birgir að komast hjá geldingu Sjálfstæðisflokks í þessum málum?
Í síðasta bloggi mínu ræddi ég sama mál og nú. Kallaði þá grein "Minning um mann". Enda mun minning þessa næstum fyrrum stjórnmálamanns verða lítil.
Kannski er rétt að kalla þessa grein "Minningin sem hvarf". Eftir viðtal hans á ruv í morgun er ekki lengur neins að minnast!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)