Færsluflokkur: Bloggar

Dagur með buxurnar á hælunum

Þegar stjórnmálamenn taka fram frasa máli sínu til framgangs, eru þeir rökstola. Hvað kemur fótbolti erlendis skipulagi heilla íbúðahverfa hér á landi við? Hver eru tengslin?

Annars verður að segjast að það má kalla stór undarlegt að þessi vinningstillaga um uppbyggingu Keldnalands, skuli hafa fengið hljómgrunn. Þarna ægir saman öllu því versta úr byggingalist, en umfram allt er svo þjappað að byggðinni að vart mun sjást til sólar á þeim litlu blettum sem ætlaðir eru til útivistar. 

Borgarstjóri væri maður af meiru ef hann girti upp um sig brækurnar og svaraði gagnrýni með rökum.


mbl.is Þýðir lítið að leggja til að Liverpool hafi unnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er betra að sólin sýni sig

Borgarfulltrúi heldur því fram að Norðmenn geti framleitt allt að 3,3 Terawöttum rafmagns með sólarorku, einungis með því að setja slíkar sellur á þök sín. Ef við gefum okkur að þetta sé rétt, þá ættum við landsmenn að geta framleitt tæplega kvart terawatt á okkar þökum. Norðmenn eru jú nærri 5,5 milljónir talsins, meðan við Íslendingar teljum tæp 400 þúsund hræður.

Líklegra er þó að borgarfulltrúinn hafi eitthvað ruglast á tölum eða táknum. Sólarselluframleiðendur gefa flestir upp framleiðslugetu á hvern fermeter sólarsellu, um 300 Wött. Sumir halda því fram að þetta muni aukast í framtíðinni, að ný og betri tækni sé handan við hornið! Þessar tölur miðast við lönd þar sem sól skín skærar en hér á Íslandi. Fara þarf nokkuð norður fyrir Þrándheim til að komast á sömu breiddargráðu og Reykjavík er á.

Ok., gefum okkur nú að Norðmenn geti framleitt 3,3 TW af rafmagni með sólarsellum á húsum sínum. Það segir að hver einstaklingur í Noregi hefur yfir höfði sér um 2000 fermetra af þaki, fjögurra manna fjölskylda um 8000 fermetra. En það segir þó ekki alla söguna. Ef gott ris er á þakinu, sem svo gjarnan er á norskum húsum, nýtist ekki nema helmingur þess til orkuöflunar. Þá þarf fjögurra manna fjölskyldan að hafa um 16000 fermetra yfir höfði sér!

Ekki veit ég hvort reiknað hafi verið hver meðal fjöldi fermetra af þaki tilheyri hverri persónu eða fjölskyldu hér á landi. Það er ekki mikið og fer lækkandi vegna þéttingarstefnu Reykjavíkurborgar, þar sem hús eru nú byggð upp í loftið, hvert ofaní öðru, til að fá sem flestar íbúðir á hvern fermeter lands. Kannski má ætla að í Reykjavík sé þetta kannski að meðaltali 50 fermetrar á hverja fjögurra manna fjölskyldu, sennilega nokkuð vel áætlað. Það segir að hægt væri að framleiða með þessum hætti 0,0000105 TW, þegar sólin skín. Kannski eitthvað meira en meiri líkur á að það yrði minna.

Varla mun það breyta miklu, hvort heldur er til orkuskiptanna eða í vasa húseigenda. Auðvitað munu þeir sem svo vel búa að eiga stór einbýlishús geta framleitt mest, meðan leigutakar í austantjaldsbyggingum sem nú eru byggðar eru af miklum móð, njóta einskis.

Ég verð að segja að ég tel þá ríku alveg geta greitt sjálfir fyrir að elta sólina, ríki eða borg þarf ekkert að styrkja þá.

Þegar eitthvað hljómar of ótrúlegt til að geta verið satt, er það yfirleitt ekki satt.


mbl.is Gæti annað allri orkuþörf heimila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlalæsi, hatursorðræða og popúlismi

Enn er áréttað innan veggja ruv að frétt sé frétt en ekki skoðun. Ekki er víst vanþörf á.

Fjölmiðlalæsi, hatursorðræða og popúlismi eru orð dagsins. Umræðan snýst um hvernig hægt sá að koma höndum og böndum á þessi hugtök. En hvað er þar um að ræða?

Fjölmiðlalæsi er notað æ oftar og þar gjarnan átt við að fólk eigi ekki lengur að treysta á sig sjálft til að greina á milli þess sem er rétt og rangt. Það á að treysta á að fjölmiðlar segi satt og rétt frá. Og ef svo óheppilega vill til að fjölmiðill hafi farið með rangt mál á hann einungis að endursegja fréttina, hellst án þess að fram komi að um leiðréttingu sé að ræða. Því miður er engum fjölmiðli á Íslandi treystandi á þessu sviði. Þar er sorglegust framganga fréttastofu ruv, sem lætur pólitík ráða fréttaflutningi, segir frá skoðunum en ekki fréttum.

Hatursorðræða er aftur annað mikið notað orð. Allt hatur og sér í lagi líkamsmeiðingar eru með öllu óréttlætanleg. Skiptir þar einu hver verður fyrir slíkri meðferð. Hér á landi er það þó svo að þetta orð er einkum notað þegar ákveðnir hópar verða fyrir óréttlæti, en þykir ekki henta er aðrir hópar verða fyrir samskonar árásum. Erlendis er þetta svolítið annað. Þar er orðið hatursorðræða meira notað þegar fólk er ekki sammála ráðandi öflum. Kemur í sjálfu sér ekki hatri við, heldur  pólitískum skoðunum.

Orðið popúlismi eða lýðhyggja heyrist ekki mikið hér á landi. En skilgreining þess orðs er "einföld og óraunhæf lausn á flóknu máli". Hellst að þeir sem stunda popúlisma sem mest noti þetta á skoðanafjendur sína. Þar er gjarnan gengið í sömu hjólför og víða erlendis, þar sem allir stjórnmálaflokkar er ekki fylgja meginstraumnum fá á sig þetta orð. Skiptir þá engu þó viðkomandi stjórnmálaflokkar hafi nokkuð fylgi að baki sér, einungis að þeir eru með aðrar hugmyndir en ráðandi öfl.

Hér bar nokkuð á notkun þessa orðs í icesave málinu, þar sem þeir sem börðust þar fyrir þjóðina fengu þetta viðurnefni, auðvitað frá þeim er vildi þóknast erlendu ofurvaldi. Þjóðin stóð hins vegar með þem er börðust lífróðri landsins og seinna skáru dómstólar úr um að þar hafði ekki neinn popúlismi verið til staðar.

Hægt er hins vegar að nota þetta orð yfir þá sem segja krónuna ónýta og reyna að telja þjóðinni trú um að upptaka á erlendum gjaldeyri muni laga hér allt. Boða einfalda lausn á flóknu vandamáli. Þar eru evru sinnar hvað harðastir, ljúga því vísvitandi að þjóðinni að hægt sé að taka upp evru án inngöngu í esb, þó Lissabonsáttmálinn taki eindregið fyrir þann möguleika.

Forsætisráðherra hefur áhyggjur af hatursorðræðu og jafnvel einnig lélegu fjölmiðlalæsi þjóðarinnar. Hún hefur svo sem ekki mikið talað um popúlisma, en sjálfsagt truflar hann einnig hug hennar. Í þessu skyni hefur hún boðað frumvarp til að taka á þessum málum. Sjálfsagt vill hún vel og víst að í hennar huga er hatursorðræða einfalt hugtak. En hún ætti að átta sig á því að hún verður ekki forsætisráðherra til eilífðarnóns. Það koma aðrir á eftir henni. Það er ekki víst að þeirra hugur til þessara hugtaka sé eins einfaldur og hennar, sé meira í ætt við hvernig erlendar stórþjóðir og þjóðasambönd skilgreina þessi orð. Að í stað varnar þeirra sem minna mega sín, verði þessi löggjöf nýtt í pólitískum tilgangi. Að þeir sem ekki vilji þóknast ráðandi öflum verði dæmdir samkvæmt henni.

Til að setja löggjöf um eitthvað verður skilgreiningin um efnið að vera á kristaltæru. Skilgreiningin á hatursorðræðu er langt frá því að vera tær. Eins og hún er notuð hér á landi í dag á hún við hatur gegn ákveðnum hópum en ekki hatri gegn öðrum. Erlendis er skilgreiningin pólitísk. Meðan skilgreiningin er ekki á hreinu, er ekki hægt að setja löggjöf um hana. Ekki frekar en að ekki er hægt að setja löggjöf um fjölmiðlalæsi eða popúlisma.


mbl.is Eldra fólk viðkvæmara fyrir röngum upplýsingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúboðar sannleikans

"Að vera eða að vera ekki". Þessi orð lagði Shakespere í munn Hamlets. Eins má segja hvað er rétt og hvað rangt.  Oftast er það þó svo að þegar tveir deila telja báðir sig hafa rétt fyrir sér. Þetta kemur sjaldnast að sök í daglega lífinu, jafnvel ekki heldur þegar fólk setur fram sínar hugsanir, hvort heldur er í tali eða riti.

Þetta er hins vegar nokkuð annað þegar að fjölmiðlun kemur. Einkareknir fjölmiðlar geta, innan ákveðinna marka, leift sér að skreyta sannleikann. Annað má gildir um ríkisrekinn fjölmiðil. Þar á ávallt að gæta fyllsta réttlætis. Starfsfólk slíks fjölmiðils hefur ekki heimild til að mynda sér opinbera skoðun um menn og málefni, verður ávallt að gæta þess að sem flestar skoðanir fái að heyrast. Hlustandinn getur ekki myndað sér skoðun á málum nema því aðeins að heyra allar skoðanir á hverju máli. Ekki bara þá sem fréttamenn vilja að fólk heyri.

Meðan stjórnmálaflokkar héldu úti fjölmiðlarekstri fór enginn í grafgötur um að fréttaflutningur var oftar en ekki mjög litaður af pólitík. Nú er enginn stjórnmálaflokkur lengur í fjölmiðlun, ekki nema í gegnum heimasíður á netmiðlum. Hins vegar eru sumir fjölmiðlar í eigu fólks sem tengist flokkum. Þar má enn sjá eima af þessum gömlu flokksblöðum. En svo höfum við ruv, "útvarp allra landsmanna". Stofnun sem haldin er uppi með nefskatti á alla landsmenn, hvort sem þeir nýta sér þjónustuna eða ekki.

Sennilega er enginn fjölmiðill eins hápólitískur og einmitt sú stofnun. Slær jafnvel gamla Þjóðviljann út, málgagn kommúnista og að ekki sé talað um stolt bænda, gamla Tímann.

Ekki einungis að ruv sé hápólitískt, heldur er þar farið frjálslega með staðreyndir. Vinsælast er þó meðal starfsmanna á þeim bænum er þó þöggun. Þöggun yfir því sem kemur starfsfólki, persónulega eða sem heild, illa. Jafnvel þó staðreyndir liggi á borðum. Þöggun um málefni sem þetta sama fólk telur sig meiga beita nánast hvaða vopnum sem er, "til að upplýsa sannleikann", þegar þau snúa að öðrum. Engin íslensk fréttastofa og sennilega erfitt að finna erlendar, hefur til starfa hjá sér fólk sem annað hvort er á sakamannabekk og bíður dómsmála eða hefur orðið upplýst af skattaundanskotum. Og þó er forstöðumaður stofnunarinnar fyrrverandi yfirmaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lögfræðingur að mennt.

Þegar kemur að pólitískri umræðu, þar sem enginn sannleikur finnst heldur einungis froðusnakk pólitíkusa sem vilja ganga í augu fólks, hallar svo á störf ruv að manni flökrar stundum. Þetta er augljósast í undanfar kosninga. Ekki einungis að sumir flokkar eigi betra aðgengi að ruv, heldur einnig hitt, hvernig fas og aðferðafræði stofnunin mismunar fólki með og hreinir þöggunartilburðir gagnvart sumum flokkum. Það mun sjálfsagt flestir eftir því "óhappi" er gleymdist að slökkva á hljóðnemum starfsmann, er verið var að raða í sæti fyrir kosningakappræðu. "Hvar á sá feiti að sitja" sagði þá einn starfsmaðurinn og átti þá við formann eins að stjórnmálaflokkanna. Þá þætti mér gaman að sjá einn fyrrverandi fréttamann, núverandi þingmann, taka á því að verða beittur sömu brögðum og hann viðhafði í stjórnmálaþætti, gegn öðrum formanni stjórnmálaflokks. Sá formaður stóð þá árás af sér, ekki víst að nýþingmaðurinn væri jafn hress með slíka meðferð í beinni útsendingu.

Það má lengi tala um ruv, en læt hér staðar numið á þeim vettvangi. Það er kannski táknrænt að íslenskur fjölmiðlamaður, sem starfar í stjórnum stærstu erlendra fjölmiðlanna, skuli árétta innan veggja ruv, mikilvægi þess að vanda skuli til frétta, að frétt sé frétt en ekki skoðun og að allir eigi að njóta réttmælis. Það er ekki vanþörf á í þeirri stofnun. En hugarfari verður ekki breytt. Mannaskipti verða að fara fram.

En aftur að upphafi pistilsins. Hvað er rétt og hvað er rangt. Það er ekkert endanlega rétt eða rangt. Hinn eini sannleikur er ekki til og verður aldrei til. Það sem eitt sinn þótti sannleikur þykir fyrra í dag. Staðreyndir eru einungis það sem við vitum í dag. Kannski vitum við eitthvað betur á morgun. Sá sem telur sig finna hinn eina rétta sannleik er kominn á annað stig, hefur öðlast trú. Trúi og sannleikur er sitt hvað og á sjaldnast saman.

Vísindi byggja fyrst og fremst á forvitni, að vilja vita meira en áður. Mannkynssagan er full af dæmum þess að slík forvitni hafi breytt almennri trú á sannleikann, en einnig full af dæmum þess hversu erfitt getur verið að breyta slíkri trú. Erfitt getur verið að koma fram með nýjan sannleik. Þeir vísindamenn sem segja að eitthvað sé endanlegur sannleikur eru ekki vísindamenn. Þeir hafa glatað forvitninni. Þeir eru trúboðar.


mbl.is Eru fjölmiðlar að fjalla um það sem skiptir máli?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnubreyting?

Eru stjórnvöld að taka nýja stefnu í loftlagsmálum? Umhverfisráðherra kynnti fyrir stuttu nýja skýrslu, "Loftlagsþolið Ísland", þar sem virðist sem stefnan sé tekin á að aðlagast loftlagsbreytingum í stað þess að reyna að berjast gegn þeim. Eða er ráðherra kannski bara farinn að undirbúa sig fyrir næstu kosningar?

Reyndar er þessi skýrsla skrifuð eftir vinnu 300 einstaklinga í 13 "vinnustofum", svona eitthvað sovéskt fyrirbrigði, þannig að sennilega er hvorki hugur né hönd ráðherrans nærri þeim markmiðum sem þarna voru kynnt. Þá verður að segjast eins og er að hugmyndir skrifstofustjóra Veðurstofunnar, um endurreikning og aðlögun upplýsinga eitthvað sem erfitt er að átta sig á, að þar sé verið að spila hættuspil.

Ráðherra er hins vegar ekki í neinum efa um að þjóðaröryggi landsins sé undir í þessum málaflokk. Þó sé enn nægur tími til stefnu, ekki nein krísa. Að verkefnið sé einungis sem löng brekka sem komast þurfi upp.

Í annarri örlítið nýrri frétt er ráðherrann hins vegar kominn í gamla farið aftur, farinn að tala um baráttu gegn veðurbreytingum, í stað þess að ræða aðlögun að þeim. Þar kynnir hann eflingu loftlagsráðs.

Það væri gott ef ráðherrann gæti ákveðið sig. Það skiptir jú verulegu máli hvort við ætlum að reyna að breyta veðrinu eða aðlaga okkur að því. Litlar líkur eru á að fyrri kosturinn sé geranlegur en þann síðari er augljóslega framkvæmanlegur, hvort heldur er til þess að veður hlýni eða kólni. Báðir þessir möguleikar munu kosta landsmenn aukin fjárútlát, aukna skatta. Kosturinn við þann síðari er þó að þeir aurar munu kannski nýtast meira hér innanlands, meðan fyrri kosturinn mun koma andlitslausum erlendum aðilum best, mun flytja fé í miklu mæli úr landi.

Vonandi er þetta hringl ráðherrans ekki bara kosningabaul. Vonandi er hann farinn að átta sig á að við breytum ekki veðrinu, þó vissulega við getum aðlagað okkur að breyttum veðuraðstæðum.


Draugar fortíðar, Glámur og esb.

Enn hefur draugur esb aðildar verið vakinn upp. Það sem mest kemur þar á óvart er hver stendur að þeirri uppvakningu. Ekki þeir hefðbundnu talsmenn þess að við "deilum" sjálfstæði þjóðarinnar, nei, þar að verki er einn öflugast starfsmaður verkalýðshreyfingarinnar, Vilhjálmur Birgisson formaður SGS og Veralýðsfélags Akraness. Þó segist Villi vera á móti aðild að esb.

Þennan draug vakti Villi upp með samráði við atvinnurekendur, að eigin sögn, um að fá "óháða" erlenda aðila til gera úttekt á upptöku annars gjaldmiðils og ástæðan er léleg hagstjórn hér innanlands. Hann svarar allri gagnrýni að þetta eigi að vera óháð athugun sem mun leiða "sannleikann" í ljós. 

Fyrir það fyrst er nokkuð undarlegt að Villi skuli hafa farið með þetta viðkvæma, pólitíska stórmál fyrst til atvinnurekenda, áður en það var rætt og afgreitt á vettvangi launafólks. 

Hvað varðar "óháða aðila" ætti Villi að vita best að þeir finnast hvergi í veröldinni, Enda gefur hann lítið fyrir nokkur hundruð blaðsíðna úttekt um þetta málefni. Ástæðan er að Seðlabankinn stóð að þeirri skýrslugerð. Að henni kom fjöldi álitsgjafa, bæði innlendra og erlendra,  en það dugir Villa ekki. Það væri hægt að fá hóp hagfræðinga til að gefa út í löngu máli að jólasveinninn væri til, bara ef einhver er tilbúinn að borga.

Varðandi hagstjórnina þá breytist hún ekkert við upptöku á erlendum gjaldeyri, Auðvitað kostar það okkur að halda eigin gjaldeyri, en sá kostnaður er smámynt í heildarsamhenginu. Jafnvel ekki þó við gengjum í esb mun það engu breyta í hagstjórninni hér. Það sannað Hrunið okkur. Jafnvel þó við afsöluðum algjörlega sjálfstæði okkar til erlends ríkis og legðum niður Alþingi, mun hagsæld okkar áfram miðast að þeirri staðreynd að við erum fámennt samfélag í stóru landi á eyju langt frá umheiminum. Hitt er ljóst að ef við ekki ráðum eigin gjaldmiðli og stjórn hans tekur mið af allt öðru hagkerfi en hér er, mun veða erfiðara að stýra hagkerfinu og því líklegt að vextir hækki enn frekar og það sem kannski verst er fyrir launafólk, atvinnuleysi eykst. Sjálfur vil ég frekar halda vinnu, jafnvel þó hagurinn skerðist tímabundið vegna misvitrar stjórnunar landsins.

Þetta vanhugsaða brölt Villa er óskiljanlegt. Ber því við að fleiri og fleiri hagfræðingar telji krónuna ónýta. Inn á þetta er ég búinn að koma.

Hins vegar hefur þetta brölt hans vakið upp draug esb aðildar. Fjölmiðlar farnir að vitna í hagfræðinga um ágæti evru, sennileg sömu hagfræðinga og tókst að dáleiða Villa. Enginn ræðir norska krónu, Kanadadollar eða usadollar. Og auðvitað ræðir enginn dönsku krónuna, enda sá gjaldmiðill fasttengdur evru. Það væri því óþarfa millistig með tilheyrandi flækjum að taka upp þann gjaldeyri.

Villi ætti að lesa Grettissögu og baráttu Grettis við drauginn Glám. Þann draug þorði enginn að eiga við, flestir forðuðust hann, þeim fjáðu tókst að semja við óværuna. Það þurfti heljarmenni sem búið var að gera útlægann úr samfélaginu, til að berjast við drauginn og að lokum fella hann. Gretti bauðst að gera samning við Glám, en valdi frekar að útrýma honum. Barátta Grettis við Glám er að öllu leyti dæmisaga, þar sem útlægt heljarmenni tekur sér stöðu gegn vá almennings, það var enginn efi í huga Grettis, enda engir hagfræðingar til að hvísla í eyru hans.

Þeir sem hafa lesið pistla mína vita að ég hef verið ötull varðmaður fyrir Villa, á þessum vettvangi hér. Mér er ómögulegt að verja hann í þessari nýju vegferð sem hann hefur haldið í. Þetta hef ég tilkynnt honum en vona innilega að hann sjái að sér.

Þeir sem fara að leita hins eina sanna sannleiks hafa tekið að sér óendanlegt verkefni. Hann mun hvergi finnast.

 


Samgöngusáttmálinn er löngu fallin úr gildi

Alþingi samþykkti svokallaðan samgöngusáttmála árið 2019 og fékk þar heimild til að stofna opinbert hlutafélag um starfsemina. Ári síðar er Betri samgöngur ohf sett á laggirnar, um þetta verkefni. Eignarhluti ríkisins er 99.9933% en hin 0,0067% skiptast á milli fimm sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar sáttmálinn var samþykktur af Alþingi var gert ráð fyrir að kostnaður við verkefnið yrði 120 milljarðar króna. Það er sú upphæð sem Alþingi heimilaði til verksins. Nýjustu áætlanir hljóða nú upp á 300 milljarða króna og verkefnið enn að mestu bara í hugum manna, varla komið á teikniborðið, hvað þá meira. Ljóst er að þessi upphæð á eftir að margfaldast. Samningurinn er því kolfallinn. Gera þarf nýjan samning sem Alþingi samþykkir.

Hækkun á rúmum þrem árum úr 120 milljörðum upp í 300 milljarða er ekki neitt smá. Ágætis verðbólga á þeim bænum! Fyrir 180 milljarða má gera ýmislegt, s.s. hlúa að öldruðum og jafnvel þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Jafnvel lækka vexti.

Það sem mér er með öllu óskiljanlegt er hins vegar sú staðreynd að stjórnarflokkarnir hafi látið blekkja sig svo hressilega. Borgarlína var eitt aðal kosningaloforð Samfylkingar, Þetta kosningaloforð er síðan greitt að 99.9933% af ríkinu! Það er vart hægt að ætla að menn hafi verið með öllum mjalla þegar þessi ákvörðun var tekin.

Auðvitað snýr samgöngusáttmálinn að fleiru en gamaldags borgarlínu, þó kostnaður við hana sé kannski sá þáttur sem er dýrastur og mesta óvissa ríkir um. Innan hans er einnig ákvæði um að borgin ætli að vera svo væn að heimila ríkinu að viðhalda og bæta sitt vegakerfi innan borgarinnar. Því viðhaldi og þeim endurbótum hefur verið haldið í gíslingu borgarinnar í áratug, eða svo. Samgönguráðherra taldi svo nauðsynlegt að ríkið fengi að viðhalda sínum eigum innan borgarmarkanna, að greiðsla fyrir kosningaloforð Samfylkingar væri réttlætanlegt. Það væri betra ef ráðherra samgöngumála væri svo eftirgefanlegur gagnvart öðrum íbúum þessa lands, þar sem á stundum er vaðið yfir einkalönd eins og ekkert sé sjálfsagðara. Og eftir að vegur hefur verið lagður eignar ríkið sér helgunarland langt útfyrir vegamörk án þess að landeigandi geti hreyft legg eða lið. Þar er ekki verið að tala mikið við landeigendur og alls ekki verið að greiða þeim fyrir einhver rán dýr gæluverkefni sem þeim eru huglæg.

Samgöngusáttmálinn var samþykktur af Alþingi undir lok ársins 2019 og hljóðaði upp á 120 milljarða króna á verðlagi þess árs. Af þeirri upphæð áttu 199,99 milljarðar að falla á ríkið. Það er sú upphæð sem Alþingi hefur samþykkt. Það er sú upphæð sem Betri samgöngur ohf hafa úr að spila, auðvitað með uppfærðum verðbólguhækkunum. Allar breytingar frá því kalla á upptöku samningsins fyrir Alþingi. Það eitt hefur fjárveitingarvald. Engum ráðherra né neinum öðrum er heimild fjárúthlutun úr ríkissjóð umfram það sem Alþingi samþykkir!!

Örlítið hefur borið á því að menn velti fyrir sér rekstrarkostnaði borgarlínunnar, hver hann verði og hver muni sjá um þá fjármögnun. Samkvæmt eignaskiptum opinbera hlutafélagsins sem um verkefnið var stofnað, er ljóst að sveitarfélögin ætla sér lítinn hlut í þeim kostnaði, ætla ríkinu að sjá um hann. Enn hafa þó ekki heyrst neinar tölur um þennan þátt en ljóst að miðað við hámarks nýtingu þessa forna ferðamáta, þarf að bæta verulega við. Ef fargjöld eiga að greiða reksturinn mun enginn ferðast með þessum vögnum, nema kannski ríkasta fólk landsins.


mbl.is Telur nálgun Bjarna skynsamlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óheiðarleiki forstjórans

Samkeppnisstofnun á að sjá til þess að samkeppni sé virk, þar sem það á við. Þess vegna á stofnunin að vera algerlega óháð afskiptum utanaðkomandi afla, hvort heldur þar er um að ræða stjórnvöld eða fjársterkir aðilar á markaði. Það er grafalvarlegt, nánast fáheyrt, að forstjóri samkeppnisstofnunar skuli ekki átta sig á þessu einfalda hlutverki sínu. Honum er ekki sætt lengur.

Vissulega má leiða rökum að því að stofnunin þurfi aukið fé til umráða. Það fé sækir forstjóri stofnunarinnar ekki til ráðherra né annarra, með verktakasamningi. Það fé verður forstjórinn að sækja til Alþingis. Það eitt hefur fjárveitingarvald. Þegar samkeppnisstofnun gerir verktakasamning við einn aðila er búið að opna þá leið að hver sem er geti gert samning við hana og fengið þær skýrslur og álit sem þykir henta. Einungis peningar munu þá ráða för.

Samkvæmt úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála var það þó ekki forstjórinn sem leitaði eftir þessum verktakasamningi, heldur ráðherra. Forstjórinn samþykkti hins vegar að ganga að samningnum. Varðandi ráðherrann er þetta mál einungis enn eitt málið í sorgarferð hennar og löngu ljóst að hún veldur ekki sínu starfi. Það er hins vegar forstjórinn sem á að standa vörð um hlutleysi þeirrar stofnunar sem honum er treyst fyrir. Því trausti brást hann og hefur með því skaðað samkeppnisstofnun.

Ekki ætla ég að taka afstöðu til þess málefnis er ráðherra óskaði eftir að samkeppnisstofnum skoðaði og skilaði til sín skýrslu. Það má vel vera að rannsaka þurfi þann málaflokk. En er það samkeppnisstofnunar að gera það? Eða var stofnunin fengin til verksins til að fá aukið vægi fyrir ráðherrann?

Auðvitað er ráðherrann löngu búinn að fyrirgera rétti sínum til setu í æðstu stjórn landsins. Frá henni kemur hvert hneykslismálið af öðru og nú bætist enn í þann sarp er dómstólar eða eftirlitsstofnanir hafa sett enni stólinn fyrir dyrnar. Og í deiglunni enn fleiri mál sem hún mun þurfa að standa frammi fyrir dómstólum. Alveg hreint með ólíkindum að formaður VG skuli enn verja hana og halda henni í embætti.

Um forstjóra samkeppnisstofnunar er hins vegar það að segja að honum hefur tekist að rýra svo traust stofnunarinnar að einungis eitt er í stöðunni fyrir hann. Að segja starfi sínu lausu. Honum var treyst fyrir stofnun sem á að sjá til þess að heiðarleiki ráði för. Með samningi við aðila utan stofnunarinnar sýndi hann að heiðarleiki er ekki hafður í hávegum innan hennar.

Hann brást þjóðinni og á að segja sig frá starfi. Að öðrum kosti á Alþingi að setja hann af.


mbl.is „Þessi úrskurður kom okkur á óvart“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Popúlismi í hæstu hæðum

Það vantar ekki popúlistan í Ólaf Steph., ekki frekar en fyrri daginn.

Hann segir það merki um að þjóðin vilji ekki lengur aðstoða vini okkar í Úkraínu í þeim hörmungum sem að þeim stafar. Ástæðuna finnur hann í því að stjórnvöld framlengdu ekki viðskiptafrelsi með nokkra kjúklinga frá hernaðarsvæðinu til Íslands. Ekki fæ ég séð hvað sá innflutningur hafði að segja í þeim hörmungum sem yfir Úkraínu gengur. Kannski einhver hafi haft vinnu í nokkra klukkutíma vegna þeirra viðskipta, en önnur áhrif engin. Ólafur ætti kannski að skoða eignartengsl stóru kjúklingabúanna þar ytra og þá kannski í leiðinni hversu stór, eða réttara sagt lítill, hluti framleiðslunnar var fluttur hingað til lands. Sá peningur sem ríkissjóður varð af við þessa niðurfellingu skatta hefði mátt nota til annarra og betri þarfa, í hjálp okkar við þessa stríðsþjáðu þjóð.

Svo er það hin hlið málsins, hverjir raunverulega það voru sem þurftu að taka á sig þessa "aðstoð". Ekki stórkaupmenn, svo mikið er víst. Kostnaðurinn lenti allur á bændum landsins. Það voru þeir sem þurftu að blæða, meðan stórkaupmennirnir sáu sér þarna leik á borði til að græða enn meira. Í það minnsta gátum við neytendur ekki fundið þessa ódýru kjúklinga í kjötborðinu. Þar var ekki neina kjúklinga að finna sem voru merktir Úkraínu. Hvert fór þá arðurinn af viðskiptunum?!

Ákall Úkraínu um sölu á matvælum til Evrópu kom vegna þess að lokast hafði á sölu á korni frá landinu, en korn er jú aðal landbúnaður landsins. Ríki Evrópu tóku vel í þessa viðleitni en þó með þeim skilyrðum að ekki mætti skerða landbúnað innan esb. Því varð lítið úr kaupunum. Hins vegar hefðum við hæglega getað verslað korn frá Úkraínu, án þess að skaða landbúnað hér. Ekki veit ég til þess neinn íslenskur stórkaupmaður hafi sýnt viðleitni til slíkra viðskipta.

Hitt er svo aftur sérstakt athugunarefni, hvernig formaður félags atvinnurekenda hér á landi getur leift sér að halda stöðugum árásum á eina atvinnustétt í landinu. Bændur eru jú atvinnurekendur og fyrirtækin sem vinna afurðir þeirra einnig. Sennilega greiða þó fáir bændur félagsgjöld til félags atvinnurekenda, enda fátt annað fyrir þá þar að sækja en skít og skömm. Hugsanlega gæti þetta félag þó eflst nokkuð ef stefna formanns og stjórnar breyttist gagnvart bændum og yrði þeirri starfstétt sanngjarnari. Þó bændastéttin hafi rýrnað nokkuð undanfarna áratugi má ætla að þangað mætti sækja eitthvað í kringum sex þúsund atkvæði.

Megin málið er þó það að þessi svokallaða hjálp til Úkraínu skilaði litlu sem engu. Þessi hjálp byggði alfarið á því að ein stétt í landinu stæði undir henni meðan önnur stétt sá sér leik á borði og greip til sín hagnaðinn. Eftir stóðu bændur, bæði íslenskir sem og úkraínskir, með sárt enni. Veski íslenskra stórkaupmanna bólgnaði hins vegar.

Það væri heiðarlega ef formaðir félags atvinnurekenda hefði sagt. Við erum sárir yfir því að stjórnvöld vilji ekki leyfa okkur að flytja inn ódýrt kjöt, sem við svo seljum á sama verði og íslenskt gæðakjöt.


mbl.is Enginn áhugi á Alþingi að styðja við Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkur esb og siðferði þjóðarinnar

Þingmálaskrá ráðherranna okkar er nokkuð sérstök. Þar kennir ýmissa grasa. Fjármálaráðherra eykur skattaálögur, barnamálaráðherra vill setja lög um skák og svo mætti lengi telja. Og auðvitað heldur utanríkisráðherra sig við sama heygarðshornið og vill gera lög frá esb æðri okkar lögum og þar með störf Alþingis nánast óþörf, í það minnsta lítill hagur fyrir kjósendur að mæta á kjörstað.

Þessi listi ráðherranna er nokkuð langur, þó eru sumir duglegri en aðrir. Það sem þó kannski stingur í augu er að nærri 30% þingmála ráðherranna eru vegna afskipta erlendra stofnana. Þar fer mest fyrir innleiðingum á lögum esb í íslenskan rétt. Merkilegt nokk, þá eru ráðherrar Sjálfstæðisflokks mun duglegri við þá iðju en ráðherrar hinna flokkanna, eru tryggastir við esb. Þar fer auðvitað utanríkisráðherra og varaformaður flokksins, fremstur í stafni!

Það eru undarlegir tímar sem við lifum. Sá stjórnmálaflokkur sem harðast hefur boðað skattalækkanir, er með formann sem er búinn að slá út alla aðra fyrrum fjármálaráðherra í skattahækkunum. Og sá stjórnmálaflokkur sem mest hefur talað fyrir sjálfstæði landsins er með varaformann, sem að því er verk hennar segja okkur, gengur harðast í því að efla völd esb hér á landi. Ekki langt í að við þurfum ekki einu sinni að sækja um aðild, verðum bara sjálfkrafa aðildarland að sambandinu.

Sjálfstæðisflokkurinn ber sannarlega ekki lengur nafn með rentu og ótrúlegt að nokkur vilji setja nafn sitt við þennan svikaflokk. Það er stundum sagt að Framsókn sé opið í báða enda, Sjálfstæðisflokkur er opinn í alla enda, fylgir þeim sem þykkast eiga veskið! Ber enga virðingu fyrir fylgjendum sínum!

 

Ekki ætlaði ég að skrifa neitt um mál málanna, kynfræðslu 7 til 10 ára barna. Við lestur nýútgefins kennsluefnis þar um, fór þó svo að þriggja barna faðir sem á orðið 11 barnabörn og kominn leiðinlega nærri starfslokum, blygðaðist sín yfir þeim lestri. Efnið var grófara en hægt var að sætta sig við. Getur virkilega verið að þeir sem verja þetta kennsluefni hafi ekki lesið þennan bækling, eða er siðferði þjóðarinnar virkilega komið niður á svona lágt plan?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband