Rekstrargrundvöllur Íslands

Hvernig í ósköpunum gat það gerst að þessi kona gat orðið ráðherra? Það örlar ekki fyrir einföldustu skynsemi hjá henni.

Þegar eitt af stærstu fyrirtækjum landsins gefur það út að grundvöllur þess sé fallinn og eina sem gæti komið í veg fyrir lokun þess sé upptaka á raforkusamningi, segir ráðherra að ekki sé tímabært að skoða hvaða  áhrif það hefur fyrir þjóðfélagið að af þeirri lokun verði! Og þegar forsvarsmenn leita ásjár hjá ráðherra, vegna þvermóðsku forstjóra Landsvirkjunar, vísar hún þeim á dyr og segir að þarna sé um samning milli tveggja fyrirtækja að ræða. Vísar þeim í fang þess er setti snöruna um háls þeirra! Hvers vegna heldur ráðherra að leitað hafi verið til hennar? Áttar hún sig ekki á þeirri einföldu staðreynd að búið er að reyna að ná sambandi við þann sem heldur um hinn enda snörunnar?

Forsætisráðherra komst þó örlítið betur frá málinu, talaði um að skoða þyrfti samkeppnisgrundvöll stórfyrirtækja á landinu. Væntanlega á hún þar við að með því að setja málið í nefnd muni það lagast.

Það er ekki stór mál að skoða samkeppnisgrundvöll fyrirtækja, meðan tekjur eru lægri en gjöld er grundvöllurinn ekki til staðar. Svo hefur verið hjá Ísal frá því að nýr orkusamningur tók gildi við það fyrirtæki landsmanna sem selur því orkuna. Því er ljóst að grundvöllurinn er brostinn, verði ekki að gert hið bráðasta.

Frekar ætti að skoða hver rekstrargrundvöllur Íslands er, falli stóriðjan. Fyrsta fyrirtækið í fallinu verður Ísal, Elkem er skammt á hælum þess og Norðurál mun fylgja í kjölfarið. Bara við það eitt að missa Ísal mun skerða rekstrargrundvöll Íslands niður fyrir það level er afætur þjóðarinnar í 101 þola. Að ekki sé nú talað um rekstur grunnþjónustunnar. Enn verra verður ástandið þegar fleiri falla. Það er nefnilega enginn annar kaupandi af orkunni, svo einfalt sem það er!

Þá má ekki gleyma þeim sem beinlínis lifa á þessum fyrirtækjum, starfsmenn þeirra og minni fyrirtæki sem þjóna stóriðjunni. Þarna er verið að tala um fleiri þúsund manns sem munu missa sitt lífsviðurværi.

Landsvirkjun er í eigu landsmanna, Alþingi ber ábyrgð á fyrirtækinu og skipar stjórn. Stjórn þess ræður síðan forstjóra. Framkoma og framferði forstjórans ber þó ekki merki þess að um fyrirtæki landsmanna sé að ræða, hann hagar þvert á vilja eigenda, en sjálfsagt vel studdur stjórn Landsvirkjunar. Enda ekki ónýtt að hafa þar næst sér lögfræðinginn "góða" sem stjórnaði kjararáði. Þegar síðan forstjórinn og stjórnarformaðurinn verða búnir að rústa þessu gullepli landsmanna, setja það á hausinn vegna þvermóðsku við stærstu orkukaupendurna, munu þeir sjálfsagt fá væna starfslokasamninga!

Stjórnvöld verða að vakna, þau verða að grípa inní áður en lengra er haldið. Taka völdin af stjórn Landsvirkjunar og forstjóra þess. Ef lagabreytingu þarf til verksins á einfaldlega að breyta þeim lögum strax!

Við erum þegar komin með annan fótinn fram yfir bjargbrúnina. Þökk sé misvitrum forstjóra Landsvirkjunar og kjark- og getulausum ráðherrum ríkisstjórnarinnar!!


mbl.is „Hættum nú að tala þetta niður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarkleysi stjórnvalda

Það er ljóst að stjórnvöld eru að glata landinu í eymd, vegna aumingjaskapar, kjarkleysis og þægð við esb!

Vegna samninga um byggingu orkufreks iðnaðar á landinu, um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar, hófst stórsókn í orkuframleiðslu á Íslandi og upphafið að dreifikerfi um allt land hófst. Þetta var einungis hægt vegna samninga um byggingu álvers á landinu, fé fékkst ekki til framkvæmda að öðrum kosti. Því má með sanni segja að álverið í Straumsvík hafi lagt grunn að því þjóðfélagi sem nú þrífst hér á landi, rafmagn á hverju heimili og öll sú velsæld sem því fylgir.

Samhliða þessu var Landsvirkjun stofnuð og um hana sett eigendastefna. Í henni var skýrt tekið fram að verð orkunnar til einstaklinga ætti að endurspegla rekstur fyrirtækisins, með öðrum orðum að eftir því sem skuldir lækkuðu ætti að gefast möguleiki á að lækka verð orkunnar. Allt frá upphafi hefur stóriðjan fengið orkuna á lægra verði en einstaklingar, sem er auðvitað eðlilegt. Stór orkukaupandi, jöfn notkun yfir 24/7/365  og dreifing orkunnar einföld. Þetta er öllum ljóst sem vilja skilja. Þrátt fyrir það er það fyrst og fremst sala á orku til stóriðjunnar sem hefur greitt niður lán vegna bygginga orkuvera, enda stóriðjan langstærsti orkukaupandinn. Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að af stóriðjunni hefur fjöldi fólks sitt lífsviðurværi, allt frá verkafólki upp í mikið menntað fólk. Einhver þúsund einstaklinga vinna beint innan þessara fyrirtækja, mun stærri hópur hefur tekjur óbeint af þeim.

Blikur birtust á himni í upphafi þessarar aldar, þegar misvitrir og kjarklausir stjórnmálamenn létu véla sig til samþykkis þess að orka yrði skilgreind sem vara og því hluti EES samningsins. Þegar orkupakkar eitt og tvö voru samþykktir var gullfyrirtækið okkar landsmanna, Landsvirkjun, skipt upp í einingar, orkuvinnslu og dreifingu. Eigendastefna fyrirtækisins féll úr gildi og ekki var hugsað til þess að endurnýja hana. Nú er engin eigendastefna um Landsvirkjun lengur og stjórn fyrirtækisins ásamt misvitrum forstjóra, haga sér eins og þeim sýnist og hugsa hvorki um þjóð né þjóðarhag. Horfa vonaraugum yfir hafið og bíða. Þau fyrirtæki sem lögðu grunnin að Landsvirkjun og hafa skapað vöxt þess, eru ofsótt af forstjóranum, sem ekki virðist skilja verkefni sitt.

Það er þó ekki við stjórn eða forstjóra fyrirtækisins að sakast, heldur liggur sökin alfarið hjá stjórnvöldum. Þau eiga að sjá til þess að til sé eigendastefna yfir fyrirtækið og að henni sé hlýtt. Stjórnvöld og Alþingi skipa stjórn þess og stjórnin ræður forstjórann. Þegar þetta fólk sýnir slíkan vanþroska í samskiptum við þá aðila sem halda í þeim lífi, sem forstjórinn undir handleiðslu stjórnar LV hefur sýnt, ber stjórnvöldum tafarlaust að grípa inní. Þetta átti að vera búið að gera fyrir löngu síðan.

Verði ekkert að gert hið bráðasta, mun hér leggjast eymd yfir landið. Stóriðjan leggst af, þúsundir fólks missir sitt lífsviðurværi, gjaldeyristekjur munu skerðast langt niður fyrir það sem gerlegt er og Landsvirkjun missir um 80% af sölu raforku, sem sennilega mun setja það fyrirtæki á hausinn!

Í framhaldinu munu þeir feysknu innviðir landsins sem enn standa, endanlega bresta. Landið verður óbyggilegt!

Forstjóri Landsvirkjunar hefur farið mikinn í fjölmiðlum að undanförnu og haldið því fram að verð á orku til stóriðju sé sambærilegt hér á landi og í Evrópu. Fyrir það fyrsta fer hann þar með rangt mál, orkan hér er dýrari og sýnt hefur verið fram á það. Í öðru lagi er staðsetning okkar lands með þeim hætti að jafnvel þó orkuverð hér væri sambærilegt við Evrópu þá dugir það ekki til. Það hefur alla tíð verið vitað að hér þarf það að vera ívið lægra vegna legu landsins.

Menn geta haft mismunandi skoðun á stóriðjunni en það breytir ekki þeirri staðreynd að hún er ein af grunnstoðum okkar þjóðfélags. Skapar hér mikla vinnu, bæði beint og óbeint, skapar hér gjaldeyri sem okkur er nauðsynlegur og er undirstaða þess að hér var hægt að byggja upp og reka orkukerfi öllum landsmönnum til hagsbóta. Þessum staðreyndum verður ekki breytt, hvað svo sem menn segja. Ekki er hægt að sækja meira í sjávarútveginn, hann er fullnýttur og ferðaþjónustan er fallvölt og viðkvæm. Gætum allt eins verið að sjá þar tímabundið hrun á þessu ári, vegna mannskæðrar veiru frá Kína.

Stjórnvöld verða því að grípa inní strax. Kjarkleysið sem einkennt hefur stjórnmálamenn er ekki lengur í boði!!


mbl.is Rio Tinto meinar undirskrift nýs kjarasamnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt hlutabréf

Ríkisútvarpið ohf. er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins. Einungis eitt hlutabréf er til og að ég best veit er það í höndum menntamálaráðherra.

Nú vilja formenn allra ríkisstjórnarflokkanna selja eigur ríkisins og hafa þeir allir talað fyrir því opinberlega. Væri þá ekki ráð að selja þetta hlutafélag, sem það á en fær engu ráðið um hvernig er stjórnað? Ætti ekki að vera flókin aðferð, einungis um eitt hlutabréf að ræða og því val á kaupanda einfalt.

 


mbl.is Lilja hefði viljað gagnsæi í ráðningarferli RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upphafið að endalokum ESB?

Sumir halda því fram að úrsögn Breta úr Evrópusambandinu sé upphaf að endalokum þess. Þetta er alrangt. Upphaf endaloka ESB hófst mun fyrr, þó vissulega BREXIT sé stórt skref í þeirri vegferð.

Segja má að upphaf endaloka ESB hafi hafist strax við stofnun þess, þegar eðli þess samnings var breitt verulega með Maastrickt samningnum, seinnihluta árs 1993. Þá breyttist samstarf nokkurra ríkja Evrópu úr því að vera Efnahagsbandalag yfir í að vera Evrópusamband, breyttist úr því að vera viðskipta og vinasamband nokkurra þjóða yfir í yfirþjóðlega valdastofnun sem bindur þær þjóðir á klafa.

Næsta skref var tekið með myntbandalaginu og upptöku evrunnar. Gjaldmiðill er mælitæki hverrar þjóðar á hvernig efnahag þeirra er stjórnað og hvernig honum farnast. Með sameiginlegri mynt nokkurra þjóða er þetta mælitæki afnumið. Afleiðingin er skýr, þær þjóðir sem vel standa farnast betur og öfugt. Meðaltalsgengi getur ekki unnið á annan veg og þetta raungerðist vel þegar harðna fór á dalnum í fjármálaheiminum. Meðan Þýskaland blómstrar eru aðrar þjóðir mis illa settar, sumar svo illa að jaðrar við að ekki sé hægt að tala þar um sjálfstæði lengur. Enda er það svo að þegar ekki er lengur hægt að láta gengi gjaldmiðilsins stjórnast eftir hagkerfinu er einungis eitt afl eftir til þeirra stjórnunar, atvinna. Í á annan áratug hefur atvinnuleysi meðal þeirra yngri verið um og yfir 50% í sumum ríkjum ESB! Þetta er mun hærra hlutfall en nokkurn tímann náðist í kreppunni miklu, á fjórða áratug síðustu aldar. Bretar höfðu þó vit á að taka ekki þátt í upptöku evrunnar og var það þeim til happs.

Önnur stór eðlisbreyting á þessu samstarfi varð undir lok árs 2009, þegar Lissabonsáttmálinn tók gildi. Þá var vald ESB aukið verulega og í raun má segja að hugmyndir manna um stofnun ríkis hafi hafist þar. ESB náði þar valdi yfir utanríkismálum aðildarþjóðanna og hæst ber nú stofnun hers.

Auk þeirra þriggja skrefa í átt að endalokum ESB, er hér á undan eru talin, hafa mörg minni verið stigin. Þau skref hafa þó ekki verið stigin með breytingum á samkomulögum ESB ríkja, heldur gegnum alskyns tilskipanir, lög og reglugerðir. Spægipylsuaðferðin hefur verið virkjuð að fullu.

BREXIT mun sannarlega teljast til stærri skrefa í endalokum ESB, en er fráleitt einhver vendipunktur. Afleiðingar útgöngu Breta mun fyrst og fremst snúast um að fleiri ríki hugsi sér til hreyfings, sjá að það er mögulegt að yfirgefa þessa forneskju sem ESB er orðin. Þó mun erfiðara fyrir flest önnur ríki að fara í þann björgunarleiðangur, þar sem ekkert ríki fær lengur aðgang að sambandinu nema að samþykkja myntbandalagið. Því er líklegt að þau 27 ríki sem eftir eru í ESB muni sökkva með því í hyldýpið, sem óhjákvæmilegt er að ESB mun falla í.

 

Ég óska Bretum innilega til hamingju með þennan merka áfanga.


mbl.is Brexit: Hvað er breytt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband